Færsluflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands
17.2.2016 | 15:04
Stjórnarskrárnefnd má ekki leggja neitt til sem stofnar fullveldi í hættu eða torveldar endurheimt þess
Það, sem mestu skiptir um rétt þjóðarinnar til áhrifa á löggjöf, er ekki sú prósenta (15%) sem stjórnarskrárnefnd var að ráða með sér, heldur 1) að unnt sé að stöðva fullveldisframsal til ESB í krafti naums meirihluta kjósandi þingmanna og 2) að þjóðin geti haft frumkvæði að því að hafna þeim "þjóðréttarsamningi" sem feli í sér slíkt fullveldisframsal.
Lágmarkskrafan um 15% kjósenda (um 40.000 manns), sem þurfi til að unnt verði að vísa samþykktum lögum til þjóðaratkvæðis, er verulega ströng og yrði því trúlega sjaldan (jafnvel aldrei) nýtt, því að þetta verður sennilega haft innan fjögurra vikna ramma, þ.e. að innan þess tíma, frá samþykkt Alþingis á viðkomandi lögum, verði undirskriftalistar að liggja fyrir, og þar verður gerð mun strangari krafa til undirskriftanna heldur en t.d. í áskorendasöfnun Kára Stefánssonar og félaga eða öðrum áþekkum.
Fundað verður á ný í stjórnarskrárnefnd á morgun, og þar er áhyggju-verkurinn: að nefndin kunni að stefna að svipuðum stjórnarskrárbreytingum um framsal fullveldis og s.k. "stjórnlagaráð", sem hér starfaði ólöglega og bar fram tillögu í afar billegu formi um heimild til framsals ríkisvalds, þannig að hvenær sem væri (og þegar það t.d. væri talið ESB hentugast vegna stöðu alþjóðamála sem innlendra) gæti einfaldur meirihluti þingmanna troðið slíku máli í gegn og síðan gert áhlaup á þjóðina í krafti yfirgnæfandi peningaveldis og áróðursyfirburða innlendra sem erlendra hagsmunaaðila til að véla nauman meirihluta þjóðarinnar til að samþykkja þetta, sem 111. tillögugrein "ráðsins" átti að heimila en um leið bundið þannig um hnútana í 67. tillögugreininni, að kjósendur (alveg sama hve margir) gætu aldrei krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um að afturkalla þær þjóðréttarskuldbindingar, sem samþykktar hefðu verið með fyrrnefndum gerningi, þ.e. innlimun í Evrópusambandið!
Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum þessara stjórnarskrárnefndarmanna undir forystu Páls Þórhallssonar, sem og á alþingismönnum, eftir að frumvarp um þessi mál kann að koma fram á yfirstandandi vorþingi. Því er spenna í lofti, hvað kann að koma í ljós að loknum fundi nefndarinnar á morgun. En það er langt í frá sjálfgefið, að flokkar, sem jafnvel kenna sig við sjálfstæði, standi tryggan vörð um þjóðarhagsmuni. Það gerðu flestir þeirra ekki á lokastigum Icesave-málsins, og það var málskotsréttur forsetans, ásamt samstöðu grasrótarhreyfinga og þjóðarviljans, sem bjargaði okkur þá frá óförum og alþjóðahneisu. Þess vegna ætti stjórnarskrárnefnd ekki heldur að taka það í mál, að þessi dýrmæti málskotsréttur verði tekinn af forseta Íslands. Ennfremur er það afleitt, að einfaldur, naumur meirihluti, hvort heldur í Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu, geti haft úrslitaáhrif á sjálfstæði og fullveldi þessa lands.
En við þekkjum ýmsa þá, sem mælt hafa gegn neyðarrétti forsetans, og við skulum ekki ljá máls á því nú, að sömu aðilar laumi nú síðar inn þeirri valdsviptingu þess embættis, enda er hreint engin þörf á henni.
Ennfremur má sérstaklega vara við því, að stjórnarskrárnefndin getur hugsanlega tekið upp enn eina óþurftartillöguna frá "stjórnlagaráði", þ.e.a.s. í 113. greininni, um stjórnarskrárbreytingar, þar sem segir m.a.: "Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið [frumvarp til breytingar á stjórnarskrá] getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður." Þarna er einnig um valdsviptingu að ræða, í þetta sinn aftur og beint frá þjóðinni. Ákvæðin fyrstgreindu úr stjórnarskrártillögum "stjórnlagaráðs" gætu þá t.d. komizt inn nú fyrir vorið, og síðan gæti Alþingi eitt sér breytt þeim ákvæðum í enn meiri ESB-átt, ef þingmönnum svo sýnist. Og minnumst þess hér, að 70% þeirra samþykktu Buchheit-frumvarpið!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Þjóðaratkvæði ef 15% vilja það |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2016 | 20:32
Vanhagar okkur um ESB-umsóknarkonu á Bessastaði? Katrín Jakobsdóttir snuðaði þjóðina og sveik kosningaloforð í ESB-máli
Vilji menn eitilharða fylgiskonu þess að Ísland stefni inn í Evrópusambandið, geta þeir kosið Katrínu. Í einu og öllu þjónaði hún Steingrími J. og Jóhönnu í því máli 2009 þvert gegn auglýstri stefnu eigin flokks, Vinstri grænna, fyrir kosningarnar 2009. Harka hennar í þágu Össurar-umsóknarinnar sést af þessu:
1) Um breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur: að hagsmunir almennings og atvinnulífs yrðu tryggðir í aðildarviðræðum, sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar, og að fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar yrði grundvallarkrafa í viðræðunum, um þetta greiddi Katrín atkvæði þvert á móti.
2) Um breytingartillögu Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um þjóðaratkvæðagreiðslu innan þriggja mánaða um þingsályktunartillöguna greiddi Katrín Jakobsdóttir atkvæði á móti. Hún vildi sem sé ekki leyfa þjóðinni að segja álit sitt á því að hefja þetta umsóknarferli, sem hefur bæði kostað okkur mikið og sett störf Alþingis í uppnám og herkví á stundum og er enn til vandræða og hangir eins og sverð yfir fullveldishagsmunum þjóðarinnar.
3) Um þingsályktunartillöguna sjálfa, um aðildarumsókn að Evrópusambandinu,* greiddi Katrín atkvæði með henni.
Katrín Jakobsdóttir flutti ræðu á fullveldishátíð Heimssýnar í Gerðarsal í Kópavogi 1. desember 2008, að því er virtist til að gefa þar í skyn, að hún væri býsna mikið á línu með þeim samtökum gagnvart ESB og að vert væri fyrir fundarmenn að gefa henni atkvæði í komandi alþingiskosningum. Í ljósi gerða hennar rúmu hálfu ári síðar virðist sem hún hafi þar verið að narra fundarmenn eða slá ryki í augu þeirra um raunverulega stöðu hennar. Hafi hún þá verið á móti ESB-umsókn, er ljóst, að hún sýndi enga sjálfssamkvæmni né trúnað í því máli, þegar á reyndi, þvert á móti gekk hún þveröfuga leið og tók þar ekki einu sinni í mál að bera þessa umsókn undir þjóðina fyrir haustið 2009!
Katrín er því enginn valkostur fyrir fullveldissinna að styðja, ekki frekar en Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum formaður hennar, sem gekk á undan með ljótu fordæmi um að svíkja sín kosningaloforð með greypilegum hætti sumarið 2009.
Það er því öfugsnúið í hæsta máta að ímynda sér, að upplýstir, þjóðhollir Íslendingar, trúir fullveldi landsins, geti fengið það af sér að styðja Katrínu Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands. Við kjósum ekki stjórnmálamenn til mestu ábyrgðarstarfa út á bros þeirra, heldur orð og efndir og tryggð við lýðveldið.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Katrín nýtur mestra vinsælda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt 24.1.2016 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2016 | 05:14
Fimm fyrrv. ráðherrar hafa verið nefndir í tengslum við forsetaframboð, en enginn þeirra boðið sig fram
Meginmál er aftur á móti hitt, að hér verði ekki samþykkt stjórnarskrárbreyting sem geri framsal ríkisvalds til Evrópusambandsins auðvelt, á sama tíma og þar sé tekið fyrir, að þjóðin geti krafizt þjóðaratkvæðis um að ganga úr því evrópska stórveldi. Það slys má ekki verða á næsta kjörtímabili forseta Íslands, að ráðamenn landsins geti með neinum hætti fyrirgert fullveldisréttindum þess í hendur erlends stórveldis. Þá hefðu þeir þar með gengið þvert gegn baráttu Jóns Sigurðssonar fyrir landsréttindum okkar.


Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.1.2016 | 14:50
Brugðumst við forseta Íslands? (Með viðaukum)
Herra Ólafur gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Hann segir umsókn um aðild að ESB og áform um grundvallarbreytingar á fullveldinu "hafa verið lögð til hliðar," en ÓVISSA ríkir einmitt um þessi atriði bæði! Evrópusambandið hefur þverskallazt við að taka mark á bréfi Gunnars Braga utanríkisráðherra um að umsóknin sé dregin til baka, og hefur oft verið verðuglega gert gys að þeirri klaufalegu, illa frágengnu aðgerð ráðherrans, nú síðast í áramótaskaupi í gær.
Viljaleysi eða heigulsskapur stjórnarflokkanna við að standa við sínar stefnuskrár um að segja þessari umsókn formlega upp, sem bezt er gert í Alþingi, eltir enn þessa ríkisstjórn á röndum, og hennar er samábyrgðin á því, að foringjar stjórnarandstöðunnar hafa lýst því yfir, að þeir telji umsóknina enn í gangi og að þeir geti bara haldið áfram með hana, þar sem frá var horfið, ef þeir komist aftur að völdum!
Raunar er það svo við frekari umhugsun þessara mála, að jafnvel virðist sem þetta kunni að hafa verið skipulagt sem leikflétta af ESB-hlynntra ráðherra hálfu: að reyna að kljúfa raðir fullveldissinna, sem sumir a.m.k. myndu falla fyrir leið Gunnars Braga ("bænarskrá" hans, eins og sumir hafa kallað uppsagnarbréfið), enda fór það svo, að sumir ESB-andstæðingar fögnuðu þeirri aðgerð hans sem réttri og fullgildri og að hún losaði okkur við ESB fyrir fullt og allt, en aðrir fullveldissinnar sáu hins vegar í hendi sér, að þetta dugði ekki til og héldu áfram (þ.m.t. á þessum vef) að krefjast þess, að staðið yrði við að láta Alþingi segja upp Össurarumsókninni, sem með refslegum brögðum Össurar og ósvífnum svikum Steingríms J. & Co. var laumað þarna í gegn árið 2009. En málið er sem sé enn í þessum afleita farvegi núverandi utanríkisráðherra eða þeirra, sem véluðu hér um og gætu jafnvel staðið nær Brussel en Stjórnarráðinu.
Svo er ítrekað verið að reyna að skjóta inn í stjórnarskrána ákvæði um heimild til framsals ríkisvalds, en sá er draumur ESB-yfirráða-hlynntra manna eins og Þorvaldar Gylfasonar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, Benedikts Jóhannessonar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Árna Páls Árnasonar, Jóns Gnarr, Þóru Arnórsdóttur og trúlega Steingríms J. Sigfússonar, Svandísar Svavarsdóttur, Katrínar Jakobsdóttur, "Bjartrar framtíðar" og Pírata. Ekkert af þessu fólki er vert þess að treysta fyrir fullveldi Íslands.
Ákvæði um þessa framsals-heimild á fullveldisréttindum er að veltast fyrir starfandi stjórnarskrárnefnd, en ekki náðst full samstaða í nefndinni um fyrirliggjandi tillögur um stjórnarskrárbreytingar, en einmitt í þessu máli er tillagan allt of lík tillögu hins ólögmæta "stjórnlagaráðs" í 111. grein þess, tillögu sem gert hefði ESB-sinnum fært að hefja sókn í málinu, hvenær sem þeir sæju til þess bezt veðurútlit, en jafnframt bundið svo um hnútana (eins og í 67. grein tillagna "stjórnlagaráðs") að þjóðinni yrði meinað að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Evrópusambandinu með jafn-auðveldum og fljótvirkum hætti.
Forsetinn hefði þurft mest á því að halda, að menn styddu hann almennt í því á virkan hátt að bjóða sig aftur fram, meðan þessi mál bæði eru í raun hangandi í lausu lofti.
Það er lítil huggun í því, sem forsetinn orðar svo, að "allir flokkar á Alþingi heita því nú, að aldrei verði aftur lagt í slíka vegferð, nema þjóðin heimili það fyrst í sérstakri atkvæðagreiðslu." Stefnuyfirlýsingar landsfunda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 2013 gengu EKKI út á slíka þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin yrði formlega dregin til baka, heldur út á hitt, að ef síðar meir kæmi upp tillaga um að sækja aftur um, skyldi hún borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en Alþingi afgreiddi hana. En um þetta mál hafa margir, ekki sízt fjömiðlamenn á 365 miðlum og Rúv, reynt að villa um fyrir þjóðinni og herja um leið á þau heilbrigðu öfl í stjórnarflokkunum, sem vildu afgreiða málið sem fyrst á Alþingi eftir kosningarnar 2013.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Býður sig ekki fram til endurkjörs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt 3.1.2016 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2015 | 04:44
Ætlum við að lúta því, eftir 97 ára fullveldi, að ESB taki yfir landamæri Íslands?
Segi Ísland ekki senn upp Schengen-samningnum, sem ráðamenn í ESB kalla eins og svissneskan ost og að hluta í dauðadái, er líklegt að framkvæmdastjórn ESB fái hér fullveldis-skerðandi inngripsvald í landamæragæzlu,*
"telji hún að eitthvert aðildarríkja Schengen-samstarfsins sé ekki að sinna eftirliti á ytri landamærum svæðisins nægjanlega vel. Til þess mun landamæralögreglan ekki þurfa samþykki viðkomandi ríkja og ríkin munu ekki geta komið í veg fyrir það. Ísland er eitt aðildarríkja Schengen-samstarfsins en tillögurnar gera ráð fyrir að lokaorðið í þessum efnum verði hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins,"
segir Hjörtur J. Guðmundsson, sem hefur tvær háskólagráður í Evrópufræðum, í vandaðri grein sinni á Mbl.is í gær.
Þetta hljómar í raun sem ofurróttækar fullyrðingar, en ekkert verður þó um þær efazt, því að m.a. greindu Financial Times og Wall Street Journal frá málinu í fyrradag, og einnig var um það fjallað á fréttavefnum Euobserver.com í gær. Og takið eftir þessu (undirstrikun jvj):
Fram kemur í fréttum blaðanna að ljóst sé að tillögurnar feli í sér verulegt framsal á fullveldi frá Schengen-ríkjunum til Evrópusambandsins. Hugsanlega það mesta innan sambandsins síðan evrunni var komið á laggirnar, segir í Financial Times. Hin nýja landsmæralögregla kæmi í staðinn fyrir landamærastofnun sambandsins, Frontex.
Við ættum ekki annað eftir, þegar styttist í aldarafmæli sjálfstæðs og fullvalda ríkis á þessu landi, en að afsala ákveðnum fullveldisréttindum í hendur erlendu lögreglu- og stjórnvaldi!
Er það þetta, meðal annars, sem stjórnmálamenn okkar, innan og utan ríkisstjórnar, eru að sverma fyrir, þegar þeir eru hvað eftir annað að ámálga það og undirstrika, að breyta þurfi stjórnarskránni, t.d. með því að taka upp heimild til framsals ríkisvalds?!
Við höfum orðið mjög slæma reynslu af því Íslendingar í seinni tíð, að ráðamönnum er ekki treystandi í sumum mestu þjóðarhagsmunamálum. Það átti t.d. bæði við um Icesave-málið, hina ólögmætu ESB-umsókn Össurar, fleiri stjórnarskrárbrot og hugsanlega stærstu banka-, skulda- og gjaldeyrismál eftir hrun ekki síður en fyrir það.
Látum þessa menn vita, að þjóðin þarfnast ekki fullveldisframsals í hendur þessu stórveldabandalagi handan Atlantsála, sem veit varla, í hvorn fótinn það á að stíga í innflytjendamálum, hefur reist sér risavaxna hurðarása um öxl og er komið með eigið regluverk í ónothæft ástand, eins og vitnað var til hér í bak og fyrir.
* Það var sjálfur forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, sem sagði 25. nóv. sl. í ræðu í Evrópuþinginu, að Schengen-svæðið væri að hluta til í dauðadái, skv. fréttinni.
E.t.v. verður aukið við þessa færslu, er líður á daginn, því að mun meira bitastætt er í fréttargreininni sjálfri, m.a. um það tengda áform, að komið verði á fót strandgæzlu Evrópusambandsins sem sjái um landamæragæzlu á hafi úti -- smellið á tengilinn hér fyrir neðan!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Tekur ESB yfir landamæri Íslands? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 05:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2015 | 14:13
Ítrekað bregzt Bjarni Benediktsson þeim sem unna sjálfstæði Íslands
Þetta sannast ljóslega á viðtali Mbl.is við ofjarl hans í ESB-málum, Styrmi Gunnarsson.
Réttilega segir hann tilraun BB til að verja klúður ríkisstjórnarinnar við afturköllun ESB-umsóknar ekki ganga upp. Bjarni segir: Ég lít þannig á að það sé ekki í gildi umsókn Íslands að ESB. En Styrmir svarar réttilega:
- Því miður dugar þessi skoðun Bjarna á því ekki til, að þannig sé litið á málið í Brussel, eins og fyrst var sagt af sendiherra ESB á Íslandi og síðar staðfest af stækkunardeild ESB.
Bjarni segir:
- Ég lýsi yfir furðu á því að það skuli vera einhverjum vafa undirorpið af Evrópusambandsins hálfu, hver staða málsins er. Þeir hafa fengið mjög skýr skilaboð að minnsta kosti frá þeim, sem fer fyrir utanríkisstefnunni, og forsætisráðherra.
Og Styrmir svarar í samræmi við sorglegar staðreyndir málsins:
- Það liggur nú fyrir staðfesting á því að þau skilaboð hafa ekki verið nægilega skýr, hvort sem Bjarna líkar betur eða verr.
Og það sem meira er: Vegna afstöðu Evrópusambandsins, sem er beintengd við afstöðu Samfylkingarinnar og annarra ESB-afla á Íslandi, þá er það borðleggjandi, að þessir aðilar ætla sér ekki að hefja allt umsóknarferlið upp á nýtt, þegar þeir fá aðstöðu til, heldur að láta sem Össurarumsóknin sé enn í fullu gildi, og sú er t.d. afstaða Árna Páls Árnasonar, sbr. bænarbréf hans þess efnis til Brussel, þar sem hann segir bréf utanríkisráðherrans ekkert gildi hafa, ólíkt umsókninni árið 2009.
Á Mbl.is var þetta þarfasta viðtal (tengill neðst) vandaðs blaðamanns, Baldurs Arnarsonar, við þennan fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, annan máttarstólpa Evrópuvaktarinnar (sem nú er reyndar í starfshléi, en þar á vefnum er gríðarmargt gott að finna um ESB-mál, sem og á vefsíðum Styrmis og Björns Bjarnasonar, hins meginhöfundarins á Evrópuvaktinni).
Það eru orð að sönnu, þegar Styrmir ritar í pistli sínum um málið, að það verða ekki margir kjósendur, sem taka mark á svona yfirlýsingum af hálfu núverandi stjórnarflokka.
Makalausast af öllu er, að landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa í haust reynzt auðsveipir formanni sínum, sem svikið hefur þá í þessu máli, rétt eins og hann sveik bæði landsfund sinn og þjóðina í Icesave-málinu. Með þögninni var landsfundur 2015 að auglýsa uppgjöf sína fyrir aðgangsfrekri Samfylkingunni í málinu, og það er engin afsökun Bjarna eða landsfundar eða ríkisstjórnarinnar sjálfrar, að misnotkun fjölmiðla í linnulausum ESB-hollum áróðri skelfdi svo þessa ráðherra, að þeir lyppuðust niður eins og lostnir skjótvirkri eiturör og svikust um sitt ætlunarverk.
Það er merkilegt, að atkvæði sjálfstæðissinna, sem falla á Sjálfstæðisflokk, verða til lítils eða einskis með þessum hætti. Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn sér að axla á ný það verkefni sitt að virða sína eigin grasrót, hinn yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna og kjósenda hans, sem hafnar algerlega inngöngu Íslands í þetta stórveldabandalag?
Jón Valur Jensson.
![]() |
Tilraun Bjarna í ESB-málinu gangi ekki upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2015 | 03:06
Fullveldishátíð
Þennan sjálfstæðisdag þjóðarinnar, 1. desember, verður Heimssýn - hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum - með fullveldishátíð í Hótel Sögu, þ.e. kl. 20 í kvöld.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2015 | 14:26
Í skjóli ofurvalda Evrópusambandsins geta stjórnmálamenn laumað óvinsælum stefnumálum á þjóðir sínar
Evrópusambandið er nógu ólýðræðislegt, löggjafarþing þess (tvö) nógu fjarri athygli almennings til að þar sé hægt að koma í gegn löggjöf, sem er í valdsins þágu, en slyppi ekki í gegnum þjóðþingin! Og eins og allir eiga að vita, er löggjöf frá ráðherraráði ESB og ESB-þinginu í Strassborg og Brussel aldrei borin undir þjóðþingin!
Þetta lýsir ástandinu. Þarna gefst ráðamönnum ESB-landa tækifæri til að fjarstýra þjóðunum truflunarlítið af lýðræðinu, og það er og verður gert í vaxandi mæli, enda eru valdheimildir Brussel-valdsins svo miklar (eins og jafnvel Þorvaldur Gylfason ætti þrátt fyrir stefnu sína að vita), að það er tómt mál að tala um sjálfstæði og fullveldi ESB-þjóða í málum, þar sem Evrópusambandið leiðir sinn vilja í lög.
En þessi nýuppgötvaði vinkill á málið, að nú eru evrópskir pólitíkusar farnir að nýta sér beinlínis framhjáhlaup Evrópusambandsins til að koma óvinsælum stefnumálum sínum í framkvæmd í heimalöndunum, án þess að þingmenn þar heima hafi nokkurn minnsta tillögurétt, hvað þá atkvæðavægi þar um, það er frétt fyrir marga og bætist við margt annað sem mælir gegn þessu valdfreka stórveldabandalagi.
Lesið viðtengda Mbl.is-grein; sbr. vef Heimssýnar: Nota ESB til að sleppa við lýðræðið.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Nota ESB til að sniðganga lýðræðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2015 | 15:09
Eygló Harðardóttir: okkar fullvalda ríki ræður sjálft, á eigin forsendum, hve mörgum flóttamönnum það tekur við
Vitaskuld leyfist Evrópusambandinu ekki að miðstýra því hve mörgum flóttamönnum Ísland tekur við, hvað þá heldur að hóta landinu neinu. Það er einfaldlega princíp fullvalda ríkis að hafna slíkri ágengni.
Nú hefur Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, einmitt tekið á þessu máli með myndarlegum hætti með skeleggum orðum sínum í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Ríkisstjórnin hefði vilja til þess að taka á móti fleiri flóttamönnum en það yrði að vera á forsendum Íslands sem fullvalda ríkis.
Við viljum taka þátt í þessu með nágrannalöndum okkar, Evrópuríkjunum, en hins vegar gerum við það náttúrulega á okkar forsendum. Og það kom til dæmis mjög skýrt fram í máli núna innanríkisráðherra sem sat fund í Brussel með öðrum evrópskum innanríkisráðherrum að við viljum sannarlega gera okkar, en við gerum það sem sagt á okkar forsendum sem fullvalda ríki en ekki vegna þess að Evrópusambandið segir okkur að gera það, sagði Eygló.
Og hér hnykkir hún á þessu:
Spurð hvort ríkisstjórninni hugnaðist ekki sú aðferðafræði, að því væri miðstýrt af Evrópusambandinu hversu mörgum flóttamönnum Ísland tæki við, svaraði Eygló því játandi.
Hún benti jafnframt á frammistöðu landsins hingað til og stefnu ríkisstjórnarinnar (sem á þó eftir að mótast í umfangi aðgerða, enda að mörgu að hyggja):
Ríkisstjórnin hefði fullan hug á því að taka á móti fleiri flóttamönnum og leggja meira af mörkum. Ísland færi ekki varhluta af flóttamannavandanum í Evrópu. Aukinn fjöldi hefði sótt um hæli hér á landi og fleiri umsóknir verið afgreiddar. Tekið hefði verið við tvöfalt fleiri flóttamönnum á fyrstu tveimur árum þessa kjörtímabils en gert var allt síðasta kjörtímabil.
Þetta síðastnefnda er athugunar vert fyrir háværa vinstri flokkana!
En fagna ber staðfestu Eyglóar í fullveldismálum okkar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Hugnast ekki miðstýring frá ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2015 | 16:19
Ánægjufrétt síðustu viku: "Evrópustofu" verður lokað 1. september
Það styttist í lokun hennar: eftir 5 daga! Fréttin kom á vefsíðu áróðursstofunnar; rekstrarsamningur hennar rennur út í lok ágúst. Hún hefur nú spanderað hér hundruðum milljóna frá ársbyrjun 2012 ...
"í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Rekstur hennar hafði áður verið boðinn út og í kjölfarið samið við íslenska almannatengslafyrirtækið Athygli og þýska almannatengslafyrirtækið Media Consulta. Athygli sagði sig frá verkefninu á síðasta ári og var öllum starfsmönnum Evrópustofu sagt upp störfum. Media Consulta hefur síðan eitt séð um reksturinn." (Mbl.is)
Hér skal tekið undir hvatningu um, að birtir verði reikningar um útgjöld þessarar rangnefndu "Evrópustofu" (Evrópusambands-áróðursstofa er hún). Til hverra fóru greiðslur, til hvaða samtaka og einstaklinga og til hvaða áróðursverkefna og auglýsinga? Krafan er eðlileg. Þetta er geipilegt fé í heildina talið:
Samningurinn um rekstur Evrópustofu var til tveggja ára með fjárframlagi upp á allt að 1,4 milljónir evra eða rúmlega 200 milljónir króna. Samkvæmt samningnum var heimilt að framlengja hann um tvö ár til viðbótar. Það er fram á þetta ár. (Mbl.is)
Íslenzk stjórnvöld höfðu lýst þeirri stefnu sinni, að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu, og þótt því hafi verið tekið seinlega og af ólund í Brussel (auk þess sem utanríkisráðherrann hefur ekki beitt sér af styrk í málinu), þá var "tekin ... ákvörðun um það af hálfu Evrópusambandsins að bjóða rekstur Evrópustofu ekki út á nýjan leik" (Mbl.is). Vonandi verða það endalokin á ásælni þessa stórveldabandalags á hendur okkur.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Evrópustofu lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)