hún sé "sniðin að allt öðrum kring­um­stæðum en hér á landi."
 

Já, takið eftir þessu! Björn hefur umpólazt í mál­inu (nánar á eftir). Af þessu fréttist í gærkvöldi í ræðu Sigmundar Davíðs Gunn­laugs­sonar á Alþingi, þar sem hann vitnaði beint í þessa frétt og í orð Björns Bjarna­sonar, sem kvað þessa orku­tilskipun frá Evrópu­sambandinu (orkupakka 1) alls ekki eiga um íslenzkar kringum­stæður! Lítum nánar á fréttina (sem er öll HÉR). Þar segir (feitletrun hér):

"BJÖRN Bjarnason, alþingismaður og fulltrúi sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, segir að Evrópusam­bands­tilskipun sú, sem frumvarp til nýrra raforkulaga byggist m.a. á, sé sniðin að allt öðrum kringumstæðum en hér á landi. Hann skilji því ekki hvers vegna ekki hafi verið leitað eftir undanþágu fyrir Ísland frá tilskipuninni."

En nú, 2019, er Björn hins vegar í fararbroddi þeirra manna, sem hafna algerlega þeirri tillögu þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins, að leitað verði eftir undanþágu fyrir Ísland frá hinni enn meira íþyngjandi þriðju orkutilskipun!

Björn hefur ástundað það öðrum fremur að halda uppi harðri gagnrýni á Miðflokksmenn fyrir þessa sem og aðrar uppástungur þeirra í þriðja-orkupakka-málinu, en sjálfur reyndi hann að knýja á um það 2002, að við fengjum slíka undanþágu! Hefði verið farið að þeim ráðum Björns þá, hefði t.d. mátt koma í veg fyrir, að Suðurnesjafólk o.fl. þyrftu, í kjölfar innleiðingar 1. pakkans, að borga um 67 til 90% hærra raforku­verð til húsa­hitunar! (Vinstri græn voru líka andvíg þeim pakka 2002, ekki sízt Steingrímur J. Sigfússon!) En vilji "kerfisins" -- ESB-kerfisins -- fekk að ráða, eins og Sigmundur vék að í ræðu sinni á 12. tímanum í gærkvöldi, og fyrsti pakkinn var því innleiddur hér þvert gegn vilja bæði Björns og Steingríms.

Í Mbl.fréttinni frá 24. sept. 2002 segir ennfremur: "Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kveðst einnig vera þeirrar skoðunar að Ísland eigi að sækja um undanþágu frá tilskipuninni."

Í fréttinni er þessi upplýsandi kafli (lbr.jvj):

"Umrætt frumvarp var lagt fram á Alþingi til kynningar sl. vor, en það er einkum komið til vegna tilskipunar ESB um innri markað raforku í ríkjum Evrópu, bæði innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins. Tilskipunin gerir kröfu um jafnrétti til vinnslu og sölu á raforku þannig að lagalegar hindranir standi ekki í vegi fyrir samkeppni. Samkvæmt tilskipuninni átti að vera búið að innleiða hana, hér á landi, 1. júlí sl., en miðað við núverandi útgáfu frumvarpsins, sem leggja á fram á næsta þingi, er gert ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. janúar 2003.

"Ég hef látið í ljós þá skoðun innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hafa verði hagsmuni viðskiptavina fyrirtækisins að leiðarljósi við mat á þessu máli," segir Björn Bjarnason. "Fram hefur komið í stjórninni, að verði frumvarp til nýrra raforkulaga, sem sagt er taka mið af tilskipun Evrópusambandsins (ESB), að lögum, muni raforkuverð hækka. Nú hafa verið flutt tvö frumvörp byggð á þessari tilskipun, en þau eru ekki samhljóða. Þetta segir, að tilskipunin er rúm. Spurning er, hvort allir kostir innan ramma hennar hafi verið kannaðir til hlítar með hliðsjón af hagsmunum íslenskra neytenda."

Þarna leitaðist Björn við að standa með hagsmunum landsins, en nú er um breytt, því að nú vill hann jafnvel láta Evrópusambandið fá næsta frítt spil til að íþyngja okkur með mun ágengari og kröfuharðari orkupakka, sem trúlega verður upphaf meiri háttar einka­væð­ingar­þróunar í orkumálum Íslands.

Enn skal vitnað hér í þessa viðtalsfrétt Morgunblaðsins frá 2002 (milli­fyrirsögnin er blaða­mannsins, en feitletrun undiritaðs):

Megum ekki skjóta okkur í fótinn

Björn Bjarnason segist skilja áhyggjur iðnaðar- og viðskipta­ráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, af því, að ekki skuli staðið við tíma­setningar við að lögfesta tilskipun ESB hér landi. "Hins vegar skil ég ekki, hvers vegna ekki hefur þegar verið leitað eftir undanþágu fyrir Ísland frá þessari tilskipun. Hún er sniðin að allt öðrum aðstæðum en hér á landi. Er ekki skynsamlegra að beita sér fyrir undanþágu en standa í stappi við evrópskar eftirlits­stofnanir vegna tafa við tilskipun, sem ekki hefur tekist að lögfesta vegna mikillar andstöðu á heimavelli?" spyr Björn.

Ekki ber þetta vott um andvaraleysi Björns fyrir 17 árum, heldur ekki auðsveipni við evrópska stórveldið, né hræðslu við að fara fram á undanþágu! --En lesum áfram í fréttinni af orðum Björns 2002:

"Þegar ég hreyfði því í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, að kannað yrði til þrautar, hvort ekki væri unnt að snúa af þeirri braut að setja raforkumál hér inn í þetta stóra evrópska samhengi, var því vel tekið. Veit ég ekki annað en stjórnar­formaður og forstjóri fyrirtækisins séu að vinna í samræmi við þá niðurstöðu stjórnar­innar." Björn segir sjálfsagt að nútíma­væða rekstur íslenskra orkufyrirtækja og endur­skipuleggja raforku­búskapinn með markaðs­sjónarmið að leiðarljósi. "Það verður hins vegar að gerast á innlendum forsendum, ESB-tilskipunin miðast ekki við þær."

Þá er rætt þarna við Árna Steinar Jóhannsson, fulltrúa VG í iðnaðar­nefnd Alþingis, sem segir að staða raforkumála í Evrópu sé allt önnur en hér á landi.

"Við í Vinstri­hreyfingunni - grænu framboði lítum svo á að raforku­kerfið hér á landi eigi að vera á félagslegum grunni," segir hann. "Við lítum á það sem eitt af stoðkerfum lands­ins." Aðspurður kveðst hann þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að leita eftir undanþágu frá umræddri tilskipun ESB. (Lbr.jvj).


Þarna sýndu þeir báðir lofsverða varúð í umfjöllun málsins, Árni Steinar og Björn Bjarnason, og vildu að breytingar á orkumálum okkar skyldu gerast á innlendum forsendum. En mikið hefur ástandinu farið aftur í flokkum þeirra beggja. Jafnvel Vinstri græn taka nú þátt í stór­kapítalískri einkavæð­ingar­stefnu Evrópu­sam­band­sins! Og um linkind meintra sjálfstæðis­manna í orkupakka­málinu 2019 er okkur of vel kunnugt!

Einar Oddur Kristjánsson, sællar minningar, varaformaður fjár­laga­nefndar Alþingis 2002, átti þarna í frétt blaðsins ábend­ingar um að athuga­semdir hafi verið gerðar við frumvarpið, m.a. frá Landsvirkjun og Rafmagns­veitu ríkisins. 

... Einar Oddur leggur því áherslu á að farið verði vel yfir frumvarpið. "Ég er alls ekki að halda því fram að ýmislegt í frumvarpinu horfi ekki til framfara en við þurfum að gaumgæfa það vel svo við séum ekki að skjóta okkur í fótinn."

En það er reyndar það, sem nú virðist aðhafzt í málinu af hálfu stjórnarliða og bandamanna þeirra í Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu, þ.e.a.s. að spila þannig með fjöregg okkar í orkuauðlindum landsins, að mjög er hætt við, að þjóðin öll verði "skotin í fótinn", þegar allur kostnaðurinn er kominn í ljós.

Málþóf hefur oft átt sér stað í þingsögu Alþingis, en sjaldan í svo alvarlegum málum sem þessu um þriðja orkupakkann. Raunar getur forseti Alþingis vel hleypt öðrum þingmálum að, s.s. heilbrigð­is­áætlun næstu tíu ára og útgjalda­áætlun ríkis­stjórn­arinnar, og frestað þessu máli til næsta þingfundar eða síðar; þetta orku­pakkamál getur vel beðið síðustu þingfunda vorþingsins (sem verða ekki fyrr en 3., 5. og 5. júní) eða frestazt til haust­þingsins, því að ekki var það sagt svo merkilegt af hálfu utan­ríkis­ráðherra og stjórnar­liðsins, að nein bráð nauðsyn virðist reka til þess, að það sé afgreitt í flýti.

Fyrirvara-umræðan

"Fyrirvararvið frumvarpið hafa mikið verið ræddir, ekki sízt nú síðustu dagana þegar í ljós hefur komið, að þeir eru fjarri því að vera jafn-skýrir og ótvíræðir og talað var um í framsögu utan­ríkis­ráðherra 8. apríl sl. -- Eitthvað af þeim hefur verið sagt fólgið í greinargerð með þings­ályktunar­tillögunni, annað í munnlegu samkomulagi utanríkis­ráðherrans og orkustjóra ES og enn annað jafnvel í reglugerð, sem enn hefur ekki verið gefin út og enginn hefur séð! Hafa gagnrýnendur, utan þings sem innan, staðhæft, að slíkir fyrirvarar hafi ekkert lögform­legt gildi og muni einfald­lega ekki halda, þegar á reynir, ef ágreiningur rís, t.d. með lögsókn­ar­máli, þar sem ætlazt verði til uppskiptingar orku­fyrirtækja í opin­berri eigu, með tilvísan til vissra ákvæða orku­pakkans, en ESA (Eftirlits­stofnun EFTA) og sjálfur EFTA-réttur­inn yrðu samkvæmt þessum þriðja orkumála­bálki að fara í úrskurðum sínum eftir "drögum" frá ACER-stofn­uninni, þ.e.a.s. að forsendur dóma þar myndu fengnar frá ACER, og jafnvel þegar skorið yrði úr frekari ágreiningi, þá hefði ACER sjálft lokaorðið! Og þetta á jafnvel við um það, sem hingað til hefur verið alfarið íslenzk innanríkismál!

Það er ekki að undra, að þingmenn Miðflokksins hafa því marg­ítrekað hvatt til þess, að færustu lögspekingar okkar verði, áður en lengra er haldið, fengnir til að leggja mat á þá meintu fyrirvara, sem ráðherrann og formaður utanríkismálanefndar hafa haldið fram sem tryggingu fyrir því, að ekki fari hér allt úr böndunum í kjölfar innleiðingar þessa orkumálabálks. Skal hér tekið undir þá áskorun þeirra.

Undirritaður er ekki í Miðflokknum, en vill þakka þingmönnum hans og Flokks fólksins það varnarstarf fyrir íslenzka hagsmuni, sem þau hafa unnið og birzt hefur í ýmsum ræðum þeirra.

Að fresta málinu til haustþingsins gefur einnig færi á því að bíða þá fyrst úrskurðar stjórnlaga­dómstóls Norðmanna 23. sept. nk. um það, hvort þriðji orku­pakkinn brjóti gegn þeirra eigin stjórn­ar­skrá, en mál hafði verið höfðað gegn orkupakka­máli norskra stjórnvalda, og virðist sjálfsagt, að við bíðum úrslita þess, enda var lengi vel ekki á okkar eigin stjórnarflokkum að skilja, að neinn asi væri með þetta mál, og seint kom það til afgreiðslu yfir­stand­andi þings. Umfram allt skiptir hér mestu máli að grand­gæfa málið allt vel, ana ekki að neinu, reyna fremur að ná sameigin­legri lausn á meðalvegi, eins og að vísa málinu í sameigin­legu EFTA-nefndina, á grunni 102. gr. EES-samn­ingsins, og fara þar fram á þá varan­legu og lögform­legu undanþágu (helzt á málinu öllu), sem vel á að vera unnt að afla okkur án þess að móðga nokkurn mann, að slepptum auðkýfingum. Stjórn­völdum hér er ekkert að van­búnaði að fara þessa leið. Þar fyrir utan þjónar þessi orkupakki engum sjáanlega gagnlegum tilgangi fyrir íslenzka hagsmuni.

Jón Valur Jensson.