Færsluflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands
2.6.2016 | 11:59
Endurspeglar ný könnun yfirburði fullveldissinna?
Útvarp Saga er með nýja aðferð skoðanakannana, sem á að koma betur í veg fyrir ítrekuð innlegg sama manns/sömu fjölskyldu. Þar var að birtast niðurstaða sem gefur Davíð Oddssyni mikla yfirburði yfir Guðna Jóhannesson.
Reyndar var einkum leitað eftir afstöðu þátttakenda til þessara tveggja manna, þótt einnig væri hægt að velja þriðja valkostinn. Spurt var (1.-2. júní): Hvern ætlar þú að kjósa sem forseta Íslands? Gátu menn þá valið:
- Davíð Oddsson.
- Guðna Jóhannesson.
- Einhvern annan.
Niðurstaðan varð, að Davíð fekk 53,9% atkvæða, Guðni Th. 22,6%, og litlu færri fekk "einhver annar" valkostur: 22,3%.
Þetta er ekki í samræmi við ýmsar kannanir Gallup, MMR, Fréttablaðsins og Félagsvísindastofnunar HÍ, en raunar er vitað, að Davíð hefur verið í uppsveiflu, nær 1% á dag að meðaltali, en Guðni á niðurleið. En á vef Útvarps Sögu er þetta þó önnur könnunin sem sýnir yfirburði Davíðs. Fór sú fyrri fram 27.-30. maí, og þar voru allir frambjóðendurnir níu nafngreindir, en Davíð náði þar 39%, Sturla Jónsson 30,1%, Guðni 21,1%, Halla 3,7% og Andri Snær 3,2%. (Sjá nánar hér: Fyrsta skoðanakönnun sem sýnir DAVÍÐ ODDSSON efstan í forsetakjöri.) Þetta segir ekkert til um afstöðu þjóðarinnar, miklu fremur ákveðins hlustendahóps, þar sem menn taka sjálfir ákvörðun um þátttöku í skoðanakönnun, en á Útvarpi Sögu hefur Sturla þessi vörubílstjóri fengið margra ára góða kynningu vegna framlags hans til ýmissar umræðu.
En yfirburðir Davíðs í nýrri könnuninni er allnokkuð í þá átt að vera í samræmi við könnun MMR vorið 2015 þar sem spurt var hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Niðurstaðan var sú, að einungis 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, sjá nánar hér: Nær fimm sinnum fleiri andvígir framsali hluta íslenzks ríkisvalds en hlynntir!
Þá er þess að geta, að MJÖG hlynntir "aðild" að Evrópusambandinu eru bara 9,5% landsmanna skv. nýlegri könnun MMR birtri fyrir miðjan maí, en MJÖG andvígir eru 31,7%, meira en þrefalt fleiri. Þess vegna er þeim mun furðulegra að Guðni Th. Jóhannesson ljái máls á því að Ísland verði partur af þessu stórveldi og nefni ranglega sem "kost", að þá getum við losnað við krónuna! Sjá hér: Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda.
Jón Valur Jensson.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2016 | 00:03
Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda
Það er ekkert hald í Guðna. Hann er ljúfmenni, en var kjarklaus í Icesave-málinu. Í stað skýrrar höfnunar ljær hann svo máls á því, að Ísland geti gengið í ESB og að því geti fylgt "kostir".
Hann talar um að hann sé ekki [principielt] á móti því að sækja um að Ísland fari inn í Evrópusambandið, ef allar kröfur okkar verði uppfylltar, en þær gætu nú verið harla vægar af hálfu Samfylkingar-stýrðrar ríkisstjórnar!
Í viðtali einn innhringjandann á Útvarpi Sögu síðdegis á mánudag nefndi Guðni það sem einn "kost" við að fara inn í ESB, að við fengjum eitthvað annað en óstyrka krónu með háum vöxtum; en með þessu afhjúpaði hann í senn vanþekkingu sína (því að vel er hægt að setja lög um hámarksvexti hér án þess að fara inn í ESB*) og birti veikleika sinn fyrir Evrópusambandinu og að hann kippi sér ekkert upp við, að löggjöf þess yrði á öllum sviðum æðri okkar löggjöf, en okkar eigin lög yrðu víkjandi í hverju einasta tilfelli þar sem íslenzk og ESB-lög rækju hornin hvor í önnur.
Í viðtali Guðna við undirritaðan í sama þætti kom fram, að hann greiddi atkvæði með Buchheit-samningnum um Icesave, samningi sem væri nú búinn að kosta þjóðina 80 milljarða króna útgjöld í vexti, en í erlendum gjaldeyri, auk þess að koma í veg fyrir EFTA-sýknudóminn!
Þetta var ekki bara spurning um atkvæði þessara 40% sem létu blekkjast af áróðri til að trúa að við hefðum ekki réttinn og gætum ekki unnið málið fyrir EFTA-dómstólnum, heldur gerðust þeir þar með þátttakendur í atlögu Breta og Hollendinga og þýja þeirra að ríkissjóði Íslands og orðstír þjóðarinnar.
Guðni kaus að að ganga ekki gegn straumi þeirra aðila sem voru hér olnbogafrekastir í málinu. En það gerði hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson af alkunnri snilld og karlmennsku. Og það gerði reyndar Davíð Oddsson líka með glöggum leiðaraskrifum í Morgunblaðið og það jafnvel þótt mestallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi greitt atkvæði með Buchheit-lögunum.
Forseti Íslands bjargaði málinu með grasrótinni og atfylgi þeirra 60% kjósenda, sem sýndu meira hugrekki og sjálfstæðishug en Guðni Th. Jóhannesson.
En umfram allt: Maðurinn er veikur fyrir Evrópusambandinu. Það er alger frágangssök fyrir forsetaframbjóðanda. Engin inngönguríki í ESB komast hjá því að framselja þangað æðsta og ráðandi löggjafarvald. Þeir menn eiga virkilega bágt sem skilja þetta ekki og hrikalegar afleiðingar slíks.
Það var þó síður en svo slæmt að fá þetta á hreint frá þessum frambjóðanda - þvert á móti nauðsynlegt að sjá, að við getum ekki kosið slíkan mann, því að forseta kjósum við fyrir hag og heill þjóðar okkar, ekki til að þókknast viðkomandi, þótt vel gefinn sé, eða til þess einfaldlega að svara brosi með brosi aulans.
* Sbr. ennfremur Má Wolfgang Mixa sem bendir á, að gæði lánveitinga á Íslandi hafa verið slök og að því hafi "stöðugt [þurft] að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina." Nánar hér í grein: Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera, sem byggist á upplýsingum frá Má Wolfgang Mixa.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Guðni Th. með afgerandi forystu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt 13.5.2016 kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.5.2016 | 16:23
ESB-málpípur á Íslandi eru málpípur fortíðar, ekki farsællar framtíðar. En tekst BREXIT þrátt fyrir óhemju-áróður?
Aumt á Halla Tómasdóttir frambjóðandi að vita ekki af því, að Evrópusambandið heyrir til með fortíð gamalla, íhlutunarsamra stórvelda, ekki framtíð sjálfstæðra, vaxandi smáþjóða.
Það verður gaman að sjá svipinn á þessu ESB-liði, ef BREXIT tekst þrátt fyrir óheyrilegt áróðursfé sem Evrópusambandið eys í já-baráttu sína og Camerons í Bretlandi: 25 milljörðum evra, þ.e.a.s. um 3.500 milljörðum íslenzkra króna eða um 54.000 krónum íslenzkum á hvern íbúa Bretlands!
Ef naumt verður á mununum í atkvæðagreiðslunni, blasir við, að svo tröllaukinn áróður getur einmitt gert útslagið -- jafnvel hjá stórþjóð eins og Bretum!
Hvað verður þá um smærri þjóðir? -- Jú, það er þegar vitað, að Evrópusambandinu tókst einmitt slík áróðurs-atrenna að bæði Svíum og Tékkum, með naumum úrslitum, sem Svíar t.d. sáu fljótt eftir, en í sömu tilraun í Noregi rétt slapp sú þjóð við að láta innlimast.
Enn frekar þurfa Íslendingar að verða sér meðvitaðir um, að það gengur ekki, að við teflum fullveldinu í tvísýnu með því að láta bara nauman meirihluta ráða úrslitum, ef kosið yrði um inntöku Íslands í Evrópusambandið. Jafnvel til breytinga á Sambandslögunum þurfti 75% greiddra atkvæða. Að breyta frá sjálfstæðu, fullvalda lýðveldi til fullveldisskerts, lítt sjálfstæðs lands í meginmálum og opins fyrir erlendum útgerðum og fiskveiðum ESB-manna upp að 12 mílum a.m.k., það er engin smá-breyting, heldur risavaxin rétt eins og Gamli sáttmáli, þótt með öðrum hætti sé.
En einhver að minnsta kosti EIN stjórnarskrárbreyting þarf að verða hér á landi, þá er hún sú, að gerð verði lágmakskrafa um að 4/5 eða 3/4 atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að gera landið part af stórveldinu á meginlandinu.
Reyndar ætti hreinlega að banna slíka innlimun, enda eigum við ekki ein þetta land, heldur framtíðar-afkomendur okkar líka. Látum það ekki fara til spillis og verða verstöð erlendra fjármálafursta! Og höfnum TISA-samningnum, sem gerður er einmitt slíkum alþjóðlegum fjármálaöflum í hag!
PS. Annar pistill undirritaðs: Halla Tómasdóttir Icesave- og ESB-kona!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Val á milli fortíðar og framtíðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2016 | 05:35
Schengen ógnar öryggi okkar
- Evrópska lögreglan Europol tel[ur] að allt að 5 þúsund vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, sem þjálfaðir hafa verið í Írak og Sýrlandi, séu þegar í ríkjum Evrópusambandsins, reiðubúnir að fremja hryðjuverk.
- Sir Richard Dearlove, fyrrverandi yfirmaður brezku leyniþjónustunnar MI6, sem sagði í síðasta mánuði að Bretland yrði öruggara utan Evrópusambandsins.
- Fyrrverandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, Michael Hayden, tók undir með Dearlove skömmu síðar og sagði Evrópusambandið meðal annars gera ríkjum sambandsins erfiðara fyrir að tryggja öryggi sitt.
Þetta kemur fram í afar góðri grein í Mbl. í fyrradag, Öryggi Íslands ógnað, eftir Hjört J. Guðmundsson sagnfræðing. Menn ættu að veita fulla eftirtekt hans glöggu orðum um okkar eigin stöðu í þessu "samstarfi", hvernig við vorum narraðir inn í það á fölskum forsendum, sem tíminn og þróunin hefur sýnt, að standist ekki. Hann segir orðrétt:
Við Íslendingar gerðumst á sínum tíma illu heilli aðilar að Schengen-svæðinu sem fyrrverandi forstjóri Interpol segir bjóða hryðjuverkamenn velkomna enda þúsundir þeirra þegar innan svæðisins að sögn Europol. Forsenda aðildar okkar var að öryggið á svonefndum ytri landamærum svæðisins yrði tryggt. Það hefur í reynd aldrei verið raunin og alveg sérstaklega ekki síðustu misserin. Forsendubresturinn er því alger. Við hefðum aldrei átt að gerast aðilar að Schengen-svæðinu en það er ekki of seint að leiðrétta þau mistök.
Eins og Jón Sigurðsson á sínum tíma* þurfum við að grundvalla stefnu okkar og viðleitni til framfara á sem fyllstri þekkingu ytri aðstæðna okkar, sögu landsins í bráð og lengd og ekki sízt á lagaramma þeim sem lýðveldinu er sniðinn. (Í VINNSLU.)
* Það er bæði ánægjulestur og upplýsandi að sjá vel rökstutt mat nútímafræðimanns, dr. Guðrúnar Nordal, á hinum öfluga og farsæla viðbúnaði Jóns Sigurðssonar strax upp úr tvítugu, meðan hann var í Laugarnesi ritari Steingríms biskups, og allar götur síðan. Þetta má lesa í mjög ljósri ritgerð hennar, "Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur." Um viðbúnað Jóns Sigurðssonar, í tveggja alda minningarverkinu Jón Sigurðsson. Hugsjónir og stefnumál (Rvík, Hið ísl. bókmenntafélag 2011, bls. 71 o.áfr.). Ólíkt ýmsum, sem með 20. aldar áherzlum á aðra hluti fóru að leyfa sér að tala niður meinta persónudýrkun Jóns og ævisagna-áherzluna í sagnaritun um 19. alda sögu okkar ("Kristjánssona-sagnfræðin" var þetta gjarnan kallað) og ekki sízt með því að þykjast geta talað með takmarkaðri virðingu um hið mikla ævisöguverk dr. Páls Eggerts Ólasonar: Jón Sigurðsson, I-V, Rvík: Hið ísl. þjóðvinafélag 1929-1933, þá sjáum við bæði endurnýjaða og djarfa nálgun Guðrúnar á málið í þessari ritgerð hennar. Hún kallar dr. Pál að sönnu "hinn ástríðufulla ævisagaritara Jóns", en segir líka: "Verk hans um Jón Sigurðsson er geysilega merkilegt og auðvitað snortið þeirri miklu aðdáun sem höfundur hefur á söguefni sínu. Fyrsta bindið af fimm kallast einfaldlga Viðbúnaður. Páll lýsir því vel hvernig Jón hervæddist í fræðastarfi sínu rétt eins og hermaður býr sig fyrir orustu. Sverð Jóns og skjöldur voru vinnusemi og lestur handrita. Páll Eggert, skrásetjari handrita Landsbókasafns, skildi mjög vel fræðastörf Jóns og var því mjög vel til þess fallinn að skilja hvað í þeim fólst. En í hverju fólst viðbúnaður hans?" (Sama rit, bls. 73-74.) -- Og hér læt ég lesandanum eftir að leita um samhengi alls þessa og um spennandi framhaldið í hina mjög svo gagnlegu ritgerð dr. Guðrúnar, en bókin fæst hjá því rótgróna útgáfufélagi sem Jón Sigurðsson vann á ævi sinni ómetanleg störf fyrir,** en það er Hið íslenska bókmenntafélag. -- En meðal þeirra, sem í Evrópusambands-móði hafa leyft sér að tala niður nálgun dr. Páls Eggerts á sjálfstæðisbaráttu Jóns og samherja hans á 19. öld, eru þeir sem reyna hvað þeir geta til að "relatívisera" hugtakið fullveldi og gera í raun lítið úr fyllsta tilgangi þessarar baráttu. Það er gott að sjá, að sá prófessor í sagnfræði, sem manna helzt hefur talað í þessa átt, er ekki meðal hinna tíu höfunda áðurnefnds aldaminningarrits.
** Sjá einkum ritgerð dr. Björns Magnússonar Olsen, Jón Sigurðsson og Bókmenntafélagið, í nefndu minningarriti (2011), bls. 183-208.
Jón Valur Jensson.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2016 | 12:04
Afleitt val á utanríkisráðherra
Lilja Alfreðsdóttir, sem þingflokkur Framsóknar vill að tillögu Sigmundar Davíðs gera að utanríkisráðherra, er fyrrv. forystukona í Evrópusamtökunum (ESB-samtökum) að sögn Össurar Skarphéðinssonar! Þetta kórónar klúður Framsóknar í málefnum Evrópusambandsins, eftir að Gunnar Bragi hafði brugðizt þeirri skyldu sinni að framfylgja samþykktri stefnu flokksþings Framsóknarflokksins 2013. Hann reyndi að bera fram þingsályktunartillögu um, að Össurarumsóknin (sem var ólögmæt) yrði dregin til baka, en gafst upp fyrir þrýstingi ESB-sinna vinstri flokkanna og hlutdrægra Rúv-fréttamanna, Fréttablaðsins, Stöðvar 2, Bylgjunnar o.s.frv., og það endaði á því, eftir margra vikna þóf, að nefbeinslaus ráðherrann dró sína eigin tillögu til baka!
Evrópusinnum bætist liðsauki eru orðin sem Össur hefur að fyrirsögn í Facebókar-færslu sinni seint í gærkvöldi (skv. Mbl.is, tengill hér neðar). Hann ritaði, kjamsandi á fréttinni:
"Það er söguleg kaldhæðni að síðasta verk Sigmundar Davíðs áður en örlögin feykja honum úr stóli forsætisráðherra skuli vera tillaga um að fyrrverandi forystukona í Evrópusamtökunum verði ráðherra fyrir Framsókn.
Lilja Alfreðsdóttir er mjög öflug kona, og í stöðunni er það að mörgu leyti brilljant leikur að gera hana að ráðherra. Hún er framtíðarefni."
Össur fær ekki leynt ánægju sinni hér með sitt uppáhald! Það hlakkaði í ESB-þjóninum. Svo kom það í ljós í morgun, að af öllum ráðuneytum er þessi ESB-kona sett yfir utanríkisráðuneytið!!!
En ólíkt sigurópi hins óþjóðlega ESB-Össurar, líta aðrir vitaskuld á þetta sem svik af hálfu Sigmundar Davíðs við þá fullveldisstefnu sem Framsóknarflokkurinn gaf sig út fyrir að fylgja.
Það er ekki fagur vitnisburður um staðfestu þingflokksins, að hann skuli hafa samþykkt þessa afleitu tillögu fráfarandi forsætisráðherra (sem enn er og verður formaður flokksins til næsta flokksþings), því að vafalaust hefur mönnum þar verið ljós þessi fortíð og grunnafstaða Lilju Daggar Alfreðsdóttur.
Merkilegt má heita, ef ekki hefur verið heitt í kolunum á þingflokksfundi gærkvöldsins, þótt Sigurður Ingi hafi eftir á talað eins og þar hafi nánast allt farið fram í friði og spekt í fullri eindrægni.
Hefði annaðhvort Ásmundur Einar Daðason (fyrrv. formaður Heimssýnar) eða Vigdís Hauksdóttir orðið fyrir valinu sem utanríkisráðherra, hefðu fullveldissinnar getað tekið það sem órækan vitnisburð flokksins um að hann standi með málstað fullveldis okkar og sjálfstæðis, andstætt útþenslustefnu Evrópusambandsins. Í staðinn fáum við þessi sorglegu tíðindi. Engum flokkanna sex á Alþingi er í raun treystandi fyrir fullveldi landsins!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Lilja verður utanríkisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2016 | 17:06
Össur Skarphéðinsson nuddar sér utan í forsetann, telur sig með tvöfeldni komast á Bessastaði
Það var þá helzt, að Össur yrði "hinn eðlilegi arftaki Ólafs Ragnars Grímssonar"! Uppsleikiháttur Ö.Sk. við forsetann í grein í Fréttabl. í sl. viku olli klígju; hann þóttist jafnvel ánægður með frammistöðu forsetans í Icesave-málinu, og samt var Össur þá sjálfur í fjandaliði forsetans og stóð að þingsamþykkt allra Icesave-frumvarpanna!
Össur gefur þarna skýrt og sorglegt dæmi um tvöfeldni stjórnmálamanns. Ætlum við að kjósa slíkan mann á Bessastaði? jafnvel með þeim orðum, að hann sé verðugur arftaki Ólafs Ragnars Grímssonar?!*
Svo sniðgekk og vanvirti Össur stjórnarskrárbundið vald forsetans í sambandi við þingsályktunartillögur um "mikilvæg stjórnarmálefni" eða "mikilvægar stjórnarráðstafanir" (eins og það heitir í 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar) þetta gerðist einmitt með ólögmætri afgreiðslu ESB-umsóknarinnar, þegar Össur í embætti utanríkisráðherra SNUÐAÐI Ólaf Ragnar um fyrirmæltan rétt hans til að skrifa eða skrifa EKKI upp á þingsályktunartillögu hins veika meirihluta Alþingis sem vildi sækja um inngöngu í stórveldið, sjá nánar hér: http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1309618/
Sá réttur forsetans hefði getað opnað þjóðinni aðkomu að málinu, þvert gegn andstöðu Össurar og Jóhönnustjórnarinnar allrar við tillögur um að leggja það umsóknarmál undir þjóðaratkvæði.
Er Össur þá réttmætur erfingi herra Ólafs Ragnars? Svari því hver fyrir sig!
* Sbr. grein Egils Helgasonar á Eyjunni í liðinni viku (endurbirta í DV): Pólitísk hjaðningavíg í forsetakosningum? en hún endar þannig (og felur í sér alveg rétt mat á Fréttablaðs-skrifum Össurar):
"... Össur er hins vegar mjög altillegur þegar forsetakosningarnar ber á góma og í síðustu viku birti hann grein sem hafði það inntak að hann væri hinn eðlilegi arftaki Ólafs Ragnars Grímssonar."
Jón Valur Jensson.
![]() |
Baráttan um Bessastaði harðnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2016 | 16:13
Sviss verður ekki lengur umsóknarland að Evrópusambandinu
Á sama tíma og aðeins 5% Svisslendinga vilja ganga í ESB, samþykkir þingið þar með 126 atkvæðum gegn 46 þingsályktunartillögu um að umsókn Sviss um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka. Þessi formlega afgreiðsla neðri deildar þingsins er fagnaðarefni og ætti að vera okkur Íslendingum til fyrirmyndar um það, sem gjöra ber, enda er nú líka lag til þess, með gömlu Icesave-flokkana tvo að nálgast það að vera í útrýmingarhættu!
Áður höfðu svissneskir kjósendur hafnað aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992.
Og takið eftir þessu:
Haft er eftir Didier Burkhalter, utanríkisráðherra Sviss, á fréttavef svissnesku sjónvarpsstöðvarinnar SRF, að umsóknin hefði raun þegar glatað gildi sínu og Sviss væri ekki á lista Evrópusambandsins yfir umsóknarríki. Þingsályktunin væri fyrir vikið óþörf. [Svissneski þingmaðurinn Lukas] Reimann [flutningsmaður tillögunnar] segir hins vegar í fréttinni nauðsynlegt að hafa skýrar línur í þessum efnum. Vegna umsóknarinnar hafi Evrópusambandið ekki litið á Sviss sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Á vefsíðu Reimanns segir að umsóknin hafi staðið Sviss fyrir þrifum í samskiptum og samningaviðræðum við sambandið. (Mbl.is)
Þetta var þó ekki endanleg afgreiðsla málsins, því að þingsályktunartillagan fer næst til efri deildar svissneska þingsins, verður tekin fyrir þar í júní.
Þingmaðurinn Reimann var í viðtali við Morgunblaðið vegna málsins og taldi þar
... nær engar líkur á öðru en að tillagan verði samþykkt þar líka. Verði sú raunin fellur í hlut ríkisstjórnar Sviss að framkvæma vilja þingsins og draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið formlega til baka. Fram kemur á vefsíðu Reimanns að samkvæmt skoðanakönnunum vilji aðeins 5% Svisslendinga ganga í sambandið.
Eins og segir á vef Heimssýnar í dag: Það ætti að vera hægðarleikur fyrir íslenska þingið að koma í kjölfarið. Það er ekki nokkur minnsta ástæða til að hafa þetta hvimleiða mál hangandi yfir okkur áratugum saman.
Jón Valur Jensson.
![]() |
ESB-umsókn Sviss verði dregin til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2016 | 16:34
Aðildarumsóknin að ESB og stjórnarskrámálið eru sama málið
Árni Páll Árnason sagði í bréfi sem hann sendi flokksmeðlimum í Samfylkingunni 11. febrúar sl.: Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið. En þarna játar Árni að umsóknarferlið hafi verið ein stór mistök.
Helgi Hjörvar þingflokksformaður, sem fýsir að verða formaður, tekur í svipaðan streng í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í kjölfar þess að hann tilkynnti framboð til formennsku í flokknum; Það dugar ekki að bíða eftir evrunni, heldur þarf Samfylkingin skýra stefnubreytingu. - Sem er í sjálfu sér allt í lagi, en hann heldur áfram: Við eigum að halda aðildarumsókninni að ESB á lofti, en hætta að segja að allt sé ósanngjarnt og verði áfram óhóflega dýrt á meðan við höfum okkar veikburða gjaldmiðil. -Takið eftir, að hann segir að halda eigi aðildarumsókninni á lofti og viðurkennir þar með að hún hafi ekki verið dregin til baka og segir að krónan sé veikburða gjaldmiðill. Og hann sagði ennfremur í yfirlýsingu sinni: Við megum ekki fresta því að breyta kerfinu þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil. Þessar yfirlýsingar Helga gefa okkur nasasjón af því hvernig hann myndi beita sér í Evrópusambands-aðildarmálinu, yrði hann formaður Samfylkingarinnar - væri hann vís til að gera allt til þess að liðka fyrir sem sneggstri innlimun í ESB.
En förum nú aftur í yfirlýsingar Árna Páls þar sem hann talar um flókið baktjaldamakk í tengslum við ESB "aðildarviðræðurnar". Árið 2009 átti að ganga í sambandið að undangengnum breytingum á stjórnarskrá. Leitað var til Feneyjanefndarinnar um álit á því hverju þyrfti helst að breyta og var það álit tilbúið 2010. Til að hægt væri að opna kafla er vörðuðu framsal valds og að gera okkur gjaldgeng til inngöngu þurfti að breyta ákvæðum í stjórnarskrá hvað þetta varðaði. Þá var á endanum skipað stjórnlagaráð sem síðar kom með tillögur að breytingum, sem áttu að vera samkvæmt forskrift Feneyjanefndarinnar. (Það má taka fram að við skipun stjórnlagaráðs var litið framhjá úrskurði hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings). Þessi drög voru send Feneyjanefndinni til yfirferðar og skilaði hún áliti sínu á þeim 2013 sem í stuttu máli sagði drögin ómöguleg þar sem of margir fyrirvarar væru á framsalsákvæðum. Meðan svo var, var ekki hægt að opna kafla er vörðuðu framsalið og því sigldu aðlögunarviðræðurnar í strand. Þetta var aldrei viðurkennt og aðeins rætt um hlé á aðildarviðræðum. Reynt var að telja fólki trú um að aðildarviðræðurnar svonefndu og stjórnarskrármálið væru tvö aðskilin mál sem þau voru að sjálfsögðu ekki. Enn er verið að vinna í stjórnarkrármálinu, því án valdaframsals í stjórnarskrá er ekki hægt að halda "aðlögunarviðræðum" réttu nafni: aðildarferlinu áfram.
Með því að rýna í gegnum þennan vef blekkinga og baktjaldamakks má sjá að ESB-umsóknin og stjórnarskrármálið eru sama málið.
Svonefndar rýniskýrslur voru gerðar af ESB, en mönnum var ekki mikið í mun að þær kæmu fyrir almenningssjónir. Er ástæðan eflaust sú að þar hefði komið fram á hverju steytti, nefnilega framsali valds í stjórnarskrá. Öll gögn um aðildarumsóknina á að vera hægt að finna á vef utanríkisráðuneytisins, framvinduskýrslur, álit stjórnarskrárnefndar og ESB-Feneyjanefndarinnar 2010 og 2013. En þar vantar þó enn rýniskýrslurnar. Þær hefur Össur séð ásamt fleirum, en þær eru of eldfimar til opinberar birtingar því að þær tengja þessi tvö mál saman svo ekki verður um villst.
Stjórnarskrárnefnd heldur áfram undirbúningsvinnu fyrir aðild að ESB án þess að fólk almennt átti sig á því. Ekki tókst að ná fram sáttum um framsalsákvæðin í síðustu atrennu, en það má búast við því að það verði reynt áfram, því það er lykillinn að því að taka upp viðræður við ESB, sem strönduðu einmitt á þessum ákvæðum.
Það er mikil herkænska af Samfylkingunni að slaka á kröfunni um inngöngu í Evrópusambandið þegar vitað er að aðildarferlið er stopp og mun hvergi komast af stað fyrr en búið er að liða sundur stjórnarskrána til að gera okkur hæf til inngöngu og opna á kafla sem varðar framsal. Nú eru þeir komnir með forgangsröðina. Nú mun áherslan lögð á stjórnarskrárbreytingar til að greiða götuna. Ég vil hvetja fólk til þess að vera vel á verði og fylgjast vel með fréttum af stjórnarskráviðræðum. Sjáum hvort framsalsákvæðið komi aftur til umræðu. Skrifum og látum í okkur heyra og mótmælum ef troða á í gegn þessu ákvæði um skilyrðislaust framsal valds í stjórnarskrá lýðveldis okkar.
Steindór Sigursteinsson. Steindór er hér gestapenni samtakanna. Með þakklæti.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.2.2016 | 17:56
Hvað gengur Skúla Magnússyni og Ragnhildi Helgadóttur til að vilja tefla fullveldi okkar í tvísýnu?
Skúli, sem er nú formaður Dómarafélagsins, amast við því, að stjórnarskrárnefndin hafi ekki samþykkt tillögu sem heimili stjórnvöldum að framselja ríkisvald "til alþjóðastofnana í þágu alþjóðasamninga".
"Skúli sagði að það mál kæmi Evrópusambandinu ekkert við og sambærileg ákvæði væri í stjórnarskrám annarra ríkja." (Mbl.is)
Þetta er léleg röksemd, ef menn horfa til þess, að einungis takmarkaður fjöldi smærri, sjálfstæðra þjóðríkja leyfir slíkt fullveldisframsal nema þá að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum eins og stórauknum meirihluta í kosningum um slík mál. Það á t.d. við um Noreg, en hefur ekki verið inni í myndinni í hugum þeirra, sem hér hafa komið nærri þessum málum á seinni árum: hvorki Samfylkingar-þingmanna, sem keyrðu á ESB-umsókn sína af mestu óbilgirni árið 2009 og aldrei kusu annað en að hafa einfaldan meirihluta í þingi og meðal þjóðar sem reglu, né heldur meðal "ráðsmanna" í hinu ólögmæta "stjórnlagaráði", sem vildu leyfa billega kosningu þjóðarinnar (einfalds meirihluta greiddra atkvæða, sem gæti þá verið innan við 40% landsmanna) til að innlimast í stórveldi (111. tillögugrein ráðsins), en vildu um leið (í 67. gr.) meina þjóðinni með öllu að eiga frumkvæði að því að ganga úr því stórveldi eða yfirhöfuð að hafa nokkurt leyfi þá til að fá að greiða um það þjóðaratkvæði!
Skúli segir, að "Ísland eigi í erfiðleikum í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst því sem kennt er við evrópska efnahagssvæðið. Skortur á slíku ákvæði sé annmarki á stjórnskipun landsins." (Mbl.is).
En þetta er fráleit nálgun á þetta mál. Það hefur engin þörf verið á slíku ákvæði, en sannarlega er reynt að þrýsta á þingmenn með það, meðfram á fölskum forsendum ESB-innlimunarsinna, en einnig til að skuldbinda okkur með hættulega ágengri löggjöf, m.a. um innistæðutryggingar (miklu alvarlegri löggjöf en þeirri sem gilti hér á Icesave-tímanum) og um TISA-bankastarfsemina í Austur-Asíu, sem við ættum einfaldlega að hafna.
Það að nefndin komi nú árið 2016 og skili ekki frumvarpi er ekki aðeins vonbrigði heldur til marks um það að nefndinni og stjórnkerfinu hafi mistekist að standa undir þeirri ábyrgð að viðhalda íslenskri stjórnskipun og leysa úr þeim göllum sem á henni eru. Að þessu leyti fær vinna nefndarinnar falleinkunn,
sagði Skúli í viðtali við Mbl.is, en fær sjálfur falleinkunn hjá okkur i Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Íslands vegna andvaraleysis hans og eitraðs peðs sem hann hefur nú fært fram í þessu eilífa þrátefli.
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sagðist einnig sakna ákvæðis um framsal ríkisvalds í tillögum nefndarinnar.
Við deilum ekki þeim söknuði með henni! Stór hluti Íslendinga hefur reyndar engan hugsjónarhita fyrir því að skurkað sé mikið í stjórnarskránni.
Í raun erum við í hættu stödd, ef hér eru ekki styrktar okkar fullveldisvarnir fremur en veiktar, eins og Skúli og Ragnhildur þó vilja í óforsjálni sinni.
Vegna gríðarlegs afls- og aðstöðumunar 330 þúsund íbúa Íslands og 510 milljón manna Evrópusambands, sem þar með er um 1550 sinnum stærra, ættum við Íslendingar að horfa með þeim mun meiri gagnrýni, ef ekki beinlínis þykkju og andstöðu, á hvern þann landa okkar sem getur hugsað sér að leggja því lið, að landið verði innlimað í evrópska stórveldið eða hvaða stórveldi sem er.
Sannarlega eiga slíkir einstaklingar aldrei erindi á forsetastól þessa lýðveldis.
Eitt a.m.k. gerði þó Ragnhildur rétt á þeim fundi sem Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélags Íslands héldu í dag: að leggja áherzlu á, að ekki einungis ætti að vera réttur kjósenda að fá þjóðaratkvæði um lagafrumvörp, heldur einnig um þingsályktunartillögur um mikilvæg málefni.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Falleinkunn stjórnarskrárnefndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2016 | 15:16
Ofmetnaður og vanhæfi?
Sem betur fer þarf ekki að kjósa annan tveggja Evrópusambands-innlimunarsinna til Bessastaða, Þorgerði Katrínu eða stjórnarskrárbrjótinn Össur Skarphéðinsson, sem 19. þ.m. gaf ótvírætt í skyn að hann gengur með forsetann í maganum ("ég yrði ábyggilega alþýðlegur forseti" sagði hann í síðdegisþætti á Útvarpi Sögu! og þetta er maðurinn sem unir sér svo vel innan um háelítuna í Brussel og vill helzt, að æðsta vald yfir okkar löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi komist í hendur Evrópusambandsins!).
Ýmsir betri kostir koma til greina í forsetakjöri, eins og brátt kemur í ljós.
Jón Valur Jensson.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)