Færsluflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands

Stórhættulegri tillögu í stjórnlagaóráði stefnt gegn fullveldi

Endurbirt grein af Vísisbloggi JVJ 18. júní 2011.

Esb. og útsendurum þess hentar það albezt sem stjórnlagaóráðsmenn ástunda nú í “C-nefnd” sinni, annaðhvort í óráði eða af fjandskap gegn fullveldi lands og þjóðar.

Það sést af þessu:

  • Þau vilja setja í stjórnarskrána ákvæði sem opnar á fullveldisframsal HVENÆR SEM ER.
  • Þau vilja sundurskilja þetta frá þeim framgangsmáta sem hefur fylgt stjórnarskránni, að henni verði ekki breytt án þess að þing sé rofið og efnt til nýrra kosninga.
  • Þau vilja einfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um FULLVELDISFRAMSAL!
  • Þau gera enga kröfu um aukinn meirihluta.
  • Þau ganga fram hjá ægivaldi peninga- og áróðursafls 1560 sinnum fjölmennara ríkjasambands sem vill komast yfir okkar 858.000 fkm yfirráðasvæði í N-Atlantshafi.

Eftir slíka stjórnarskrárbreytingu (og kannski þeirri núgildandi allri skóflað út um leið í heild) gætu Esb-innlimunarsinnar kallað fram slíkt fullveldis­framsals-þjóðaratkvæði HVENÆR SEM ER, hvenær sem ÞEIM hentar, hvenær sem BRUSSEL-valdaapparatið telur bezt að láta höggið ríða af gegn sjálfstæði okkar, og ÁHÆTTAN fyrir sitjandi (rauðbleikan eða öðruvísi ruglaðan) þingmeirihluta eða ríkisstjórn væri ENGIN: þau þyrftu ekki að fara frá, þótt tillagan væri jafnvel kolfelld - þau þyrftu enga ábyrgð að taka á því og gætu einmitt þvert á móti setið áfram og lagt fram sömu tillögu undir þjóðaratkvæði hálfu ári eða 2 eða 3 árum seinna eða hvenær sem Esb. telur sig vera búið að spúa hér út nægum áróðri sínum og flækja fleiri í sinn vanþekkingar- og blekkingarvef.

Jafnframt hefði þá sama ólögmæta stjórnlagaóráð búið svo um hnútana – þ.e.a.s. ef Esb.sinnum þar og á Alþingi tekst að narra þessu inn á þjóðina – að viss, lítill hluti kjósenda (alveg eins og hluti Alþingis) gæti hvenær sem er kallað fram slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri þá vitaskuld gert einna helzt þegar Esb.innlimunarsinnar teldu sinn illa málstað á uppleið í skoðanakönnunum.

Þetta hentar einmitt þeim bezt, sem ganga með landráðin í maganum.

ÉG LÝSI ÁBYRGÐ Á HENDUR ÞEIM, sem leika sér þannig vísvitandi eða í óráði að fjöreggi fullveldis okkar!

Jón Valur Jensson.

1373_sSú er aukaástæða endurbirtingar þess­arar vefgreinar, að 365 miðlar Jóns Ásgeirs hafa lagt niður gervallt Vísis­bloggið, þar sem hundruð eða þúsundir Íslendinga höfðu birt hugsanir sínar, greinar, viðbrögð við fréttum, ljóð o.fl., án fyrirvara og án þess að menn væru svo mikið sem spurðir hvort þeim væri sárt um að skrif þeirra hyrfu. Er þetta sennilega grófasta atlagan að höfund­ar­rétti Íslendinga og málfrelsi á síðari tímum. Flestir Vísisbloggarar munu þar hafa glatað því höfundarverki sínu, en undirritaður hafði verið svo forsjáll að taka afrit af sínu, ekki löngu áður en þetta vildi til, þó ekki af umræðum sem fylgdu á eftir greinunum. (Hér fylgir með einkennismynd mín á Vísisblogginu.) Eitthvað a.m.k. af greinum mínum á Vísisbloggi hefur verið og verður endurbirt á vefsíðu minni jvj.blog.is, nú síðast greinin Allt í ökkla eða eyra um stjórnar­skrána hjá Þorvaldi Gylfasyni. --JVJ.


Frábær er grein Styrmis Gunnarssonar í dag

Hann svarar gagnrýni ESB-sinna verðuglega, segir m.a.:

"Grikkir eru ekki lengur sjálfs sín ráðandi. ESB hefur meira að segja skv. "samkomulaginu", sem gert var um helgina, neitunarvald gagnvart lögum sem samþykkt eru á gríska þinginu!

Írar voru ekki sjálfstæð þjóð, þegar þeir voru þvingaðir til að taka ábyrgð á öllum skuldum írskra einkabanka.

Ítalir voru ekki sjálfstæð þjóð, þegar forsætisráðherra Ítalíu var flæmdur frá völdum með skipulegum aðgerðum.

Grikkir voru ekki sjálfstæð þjóð haustið 2011, þegar Papandreou var skipað að falla frá þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hann hafði tilkynnt að fara mundi fram.

Fleiri dæmi má nefna af sama tagi."

Fyrsti hluti þessarar greinar Styrmis, Hvers vegna ekki opin skoðanaskipti sjálfstæðismanna um Ísland og ESB?, tekur á öðrum hlutum, frábærlega vel, en óþarfi að endurtaka þá hér, því að menn geta og þurfa að lesa þetta allt hjá honum sjálfum, þar er sannarlega hægt að hrífast og samsinna rökfestu hans, m.a. um það, sem leiddi hann að þessum lokarökum. Alveg er ljóst, að fullveldi norrænu ESB-landanna þriggja hangir aðeins í lausu lofti, meðan Evrópu­sambandið hefur ekki neytt sinna valdheimilda, eins og það hefur hins vegar nú þegar gert gagnvart Grikklandi, Ítalíu og Írlandi -- og raunar einnig Ungverjalandi, sem Evrópusambandið þvingar til að afnema löggjöf um seðlabankann í Búdapest* og hefur unnið gegn stjórnarskrá Ungverja.

* http://www.spiegel.de/international/europe/unlawful-constitution-eu-takes-legal-action-against-hungary-a-809669.html

Jón Valur Jensson.


Alþingi vanrækir sitt brýnasta mál!

Styrmir Gunnarsson á heiður skilinn fyrir að minna í tveimur nýjustu greinum á nauðsyn þess að jarða Össurarumsóknina formlega og endanlega. Í þeirri fyrri, Ætlar enginn þingmaður að spyrja um afturköllun aðildarumsóknar fyrir þinglok? ritar hann:

"Engin formleg staðfesting liggur fyrir frá Evrópusambandinu um að það líti á bréf utanríkisráðherra frá því í marz sem afturköllun aðildarumsóknar.

Hið eina sem hefur gerzt er að Ísland er ekki lengur skráð sem umsóknarríki á tveimur síðum á heimasíðu ESB. Á annarri þeirra er það hins vegar enn merkt á korti sem umsóknarríki."

Og hann spyr:

Getur verið að enginn þingmaður - ENGINN - úr röðum þingflokka stjórnarflokkanna, sem andvígir eru aðild ætli að standa upp á Alþingi fyrir þinglok og krefjast skýrra svara frá utanríkisráðherra um stöðu málsins?

Í annarri grein í dag, Alþingi: Þegjandi samkomulag um að þegja um aðildarumsóknina að ESB?, ritar hann m a.:

"Það verður fróðlegt og forvitnilegt að fylgjast með því, hvort í gangi er þegjandi samkomulag allra þingflokka um að nefna ekki á nafn fyrir þinglok stöðuaðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Getur verið að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé búinn að gefast upp við að ljúka þessu máli með afgerandi hætti?

Getur verið að allur þingflokkur Framsóknarflokksins sé búinn að gefast upp með sama hætti?"

Og hann bendir á augljósar hætturnar sem í þessu felast:

"Auðvitað blasir við að það hentar hagsmunum Samfylkingar að málið sé í þeirri stöðu, sem það er nú. Það þýðir að komist sá flokkur í ríkisstjórn getur hann hafizt handa þar sem frá var horfið."

Og það er augljóst að meirihluti þingflokks VG er orðinn aðildarsinnaður flokkur."

Og knýjandi er þessi spurning hins reynda stjórnmálaritara:

"Hvað ætli forsætisráðherra segi um málið í stefnuræðu sinni í haust? Verður þá enn þagað?"

Er hugleysið orðið einkenni þessarar ríkisstjórnar og þingmanna hennar? Aðhróp og samfelldan áróður 365 fjölmiðla Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og hlutdrægra starfsmanna á Rúv, auk stjórnarandstæðinga á þingi, hefur þetta stjórnarlið látið stjórna sér með hræðslugæðum, lyppazt niður í ráðleysi, þannig að fullveldissinnar geta, að því er virðist, engum treyst lengur á þingi.

Og hafa stjórnarflokkarnir tveir misst allt samband við grasrót sína? Styrmir ritar (leturbreytingar allar á orðum hans eru hans sjálfs):

"Hver ætli verði niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í haust? Verður því haldið fram í ályktunum þess fundar að aðildar­umsóknin hafi verið dregin til baka með fullnægjandi hætti?!"

En það dugar greinlega ekki. Íslenzkir þjóðarhagsmunir eiga ekki að þurfa að líða fyrir það, að síðar komist í valdastóla menn sem þræti fyrir það, að uppsögn ráðherrans á  ESB-umsókninni hafi verið lögleg, og að þeir finni samstöðu með þeirri afstöðu sinni hjá klækjafullum útþenslusinnum í Brussel, mönnum sem sjálfir, á bak við töldin, kunna að hafa stjórnað þessari áróðursumræðu fjölmiðla JÁJ og samherja hans. 

Af öllum ástæðum er aðgerða þörf án tafar! 

PS. Og enn heldur Styrmir uppi merkinu, meðan stjórnarþingmenn bregðast hver um annan þveran:

Eldhúsdagsumræður: Enginn þingmaður stjórnarflokkanna ræddi aðildarumsóknina

Jón Valur Jensson.


mbl.is Afgreiða á hátt í 70 þingmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómótmælanleg staðreynd

Það er gott, að aðalritstjóri ESB-Fréttablaðsins viðurkenni loksins í leiðara,* að þjóðin vill ekki að lýðveldinu verði mokað inn í evrópskt stórveldi.

Rökin gegn Evrópusambandinu varða fyrst og fremst okkar eigið sjálfstæði og fullveldisréttindi, við hefðum minnst allra þjóða að græða á ESB og mestu allra hlutfallslega að tapa –– og höfum nú þegar þurft að berjast gegn ærnum og ófyrirleitnum bellibrögðum þessa stórveldabandalags gegn okkur í Icesave- og makríl-málunum og jafnvel nú síðast í vetur í kolmunna-málinu (ESB vill skerða hlutdeild okkar úr 17,63% í 4,8% í kolmunnaveiði í N-Atlantshafi á þessu ári : http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1713658/ ).

* Í Frbl. í dag.

Jón Valur Jensson.


Ekkert fullveldisframsal ! Engin snögg og stórtæk umskipti æskileg á stjórnarskrá

Það verður að hafa auga með stjórnvöldum, að þau ani ekki út í ófarsælar stjórnarskrárbreytingar, sem gætu m.a. snúizt um fullveld­is­framsal. Óráðlegt er að gera margar breytingar í einu í stað þess að athyglin fái að beinast óskipt að einu eða fáum málum, sem fólk geti þá kosið um, hvert um sig.

Ef forsætisráðherra hefur "vænt­ing­ar um að þjóðar­at­kvæðagreiðsla um breyt­ing­ar­til­lög­ur þver­póli­tískr­ar stjórn­ar­skrár­nefnd­ar geti farið fram sam­hliða for­seta­kosn­ing­um á næsta ári, eins og Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra hef­ur áður nefnt," þá er augljóst, að vel er hægt að afgreiða slík mál á fjögurra til átta ára fresti, og það liggur ekkert á neinni heildarendurskoðun (hér er undirritaður sammála Sigurði Líndal lagaprófessor).

Hér er einnig ástæða til að vara enn við hugmyndum Bjarna Benediktssonar, sbr. nýlega grein hér: Bjarni Benediktsson mælir með vissu framsali full­veld­is­heimilda!. Þá er ennfremur ljóst, að ráðherrar munu ekki hafa þjóðina með sér í slíku skaðræðisverki, skv. skoðanakönnum MMR í næstliðnum mánuði, þar sem þetta kom í ljós: Nær fimm sinnum fleiri andvígir framsali hluta íslenzks ríkisvalds en hlynntir! 

  • Hvað varðaði spurn­ingu Katrín­ar [Jakobsdóttur] um hvort ástæða væri til að gera tíma­bundið ákvæði um, að þjóðar­at­kvæðagreiðslu þurfi til að samþykkja breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá í stað þess að tvö þing þurfi þess, verði gert var­an­legt, sagði for­sæt­is­ráðherra það ekki sjálf­gefið. Hann gerði hins veg­ar ráð fyr­ir því að nefnd­in skoðaði hvernig staðið sé að stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um til fram­búðar.

Hér má taka undir með fyrra atriðinu hjá forsætisráðherra. Ennfremur ættum við að gera skilyrði um aukinn meirihluta, bæði almennings og Alþingis (eins og Norðmenn gera um Stórþingið), í öllum þeim málum þar sem fullveldisréttindi ríkis og þjóðar yrðu lögð undir.

Menn verða að líta til reynslu annarra smárra þjóða af því, að auðvelt er með massífum fjölmiðlaáróðri fjársterkra aðila að hagga svo til og frá afstöðu þjóðfélagshópa, að úrslitum getur ráðið í þjóðaratkvæði. Hér erum við t.d. með fjölmiðlabatterí 365 fjölmiðla, sem nú þegar hafa verið misnotaðir mark­visst af sínum eigendum til að hafa strangt áhrifavald á skrif fréttamanna þar, og uppsögnum hefur einnig verið beitt. Með Evrópusambands-sinnann Jón Ásgeir Jóhannesson þar í stafni er augljós hættan af þvílíkri risa-fjölmiðlasamsteypu sem sendir t.d. "ókeypis" ESB-sinnað "Fréttablað" sitt á 90.000 heimili daglega.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Kjósi um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland ekki lengur umsóknarríki að ESB, er haft eftir ráðherraráði sambandsins

Frétt barst nú um að Evrópu­sam­bandið hafi tekið Ísland af lista yfir umsóknarríki. Er haft eftir Klem­ens Ólaf­i Þrast­ar­syni, að sú ákvörðun hafi verið samþykkt á vett­vangi ráðherr­aráðs Evr­ópu­sam­bands­ins (en Klemens hinn ungi, fyrrverandi blaðamaður á ESB-Fréttablaðinu, er upp­lýs­inga­full­trúi sendi­nefnd­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi, hefur þá farið svipaða leið og Auðun Arnórsson, sem starfar fyrir sendiráð ESB).

Þetta eru ánægjulegar fréttir, ef treysta má þeim að fullu. Það er mikilvægt, að hér verði engum vélabrögðum verði beitt eins og þeim, að Össurarumsóknin sé með einhverjum hætti ennþá gild og brúkleg fyrir nógu ósvífna aðila síðar meir í stjórnarráði Íslands og höllunum í Brussel.

Við þurfum t.d. að fá að sjá formlega samþykkt ráðherraráðsins fyrir þessu. Fróðlegt væri einnig að sjá, hvernig atkvæði féllu um málið.

Ekki var Klemens Ólafur (sonur Þrastar Ólafssonar hagfræðings, mikils ESB-predikara) mjög áreiðanlegur í umfjöllun um málefni Evrópusambandsins, meðan hann var á ESB-Fréttablaðinu. Kom það fram í því að þegja um mikilvægar staðreyndir, eins og undirritaður upplýsti um í grein 27. júní 2011: Á Fréttablaðið að komast upp með að þegja í þágu ESB um meginstaðreynd um valdaleysi Íslands í ráðherraráðinu?

Nú er bara eftir að losa okkur við "Evrópustofu". Utanríkisráðherra þarf að fylgja því máli eftir af festu. Gleðilegt verður að sjá þau pakka niður og halda úr höfn með allt sitt hafurtask. Var talsvert um það mál fjallað nú í vikunni vegna fyrirspurnar Jóhönnu Maríu Sigmarsdóttur, alþm. og formanns Heimssýnar, til ráðherrans um málið: "Hvenær verður Evrópustofu, sem stækkunardeild ESB rekur hér, formlega lokað og starfsemi hennar lögð niður?" Sbr. einnig hér: Og þótt fyrr hefði verið! - Þar var reyndar talað um, að 400 milljónir króna hafi farið í rekstur "stofunnar", en þær reyndust vera 500 milljónir, þegar betur var að gáð. Og er mál að linni þessari áróðurs- og undirróðursstarfsemi gegn sjálfum tilvistargrunni fullveldis okkar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ísland af lista yfir umsóknarríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær fimm sinnum fleiri andvígir framsali hluta íslenzks ríkisvalds en hlynntir!

Í nýbirtri skoðanakönnun MMR, þar sem spurt var, hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, varð niðurstaðan sú, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. í dag, 22. maí 2015.

Af þessu er fullljóst, að tillaga Bjarna Benediktssonar, sem nýlega mælti með vissu framsali fullveldisheimilda, nýtur engrar almannahylli.

Jón Valur Jensson.


Evrópumálaráðherra Þýzkalands með frekleg afskipti af íslenzkum innanríkismálum

Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands.

Gróf var ræða ráðherrans Michaels Roth í Sjónvarpinu kl. 19.* Greinilega kastaði hann boltanum til stjórnarandstöðunnar hér. En það er ekki hans að segja okkur fyrir verkum um hvort Alþingi eigi að taka afstöðu til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að hætta við Evrópusambands-umsóknina. Hann á hvergi nærri þessu að koma.

Roth: "Við verðum að virða það, að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að halda ekki áfram aðildarviðræðum við ESB [hér var þýðingin í Sjónv. ónákvæm!]. Við hörmum þetta, ég hefði óskað mér, að Ísland gengi í Evrópusambandið, það þjónar sameiginlegum hagsmunum okkar allra [BEINN ÁRÓÐUR! -- innsk. jvj], og það hefði Ísland vel getað gert."

"En er Ísland enn í hópi umsóknarríkja?" spurði fréttamaður. Svar hans:

  • "Það þurfa Íslendingar sjálfir að skera úr um. Við höfum fengið skýr boð frá íslenzku ríkisstjórninni bréfleiðis, en þetta er mál sem Íslendingar þurfa að ræða innanlands. Ísland er lýðræðisríki og þarf að útkljá þetta. Þetta mál þarf líka að ræða í þinginu, [allt sýnir þetta afskiptasemi hans! -- jvj] og ég vil engu við það bæta."

Þá hafði fréttakonan þetta ennfremur eftir ráðherranum, í frásögn hennar:

  • "Michael Roth segir jafnframt að Íslendingar þurfi sjálfir að svara þeirri spurningu, hvort þingið þurfi að samþykkja það að aðildarumsókn sé dregin til baka. Hann segir að aðild Íslands að Evrópusambandinu væri fengur fyrir sambandið, stærð landsins skipti ekki öllu máli. Hann segist viss um, að þegar ESB komist fyrir tímabundna erfiðleika, muni umræðan um aðild vakna á ný hér á landi."

Ráðherrar annarra ríkja eiga ekki að misnota kurteisisheimsóknir hingað til að vera með puttana í innanríkismálum okkar. Slíkt er engin kurteisi, sízt þegar verið er gefa stjórnarandstöðu undir fótinn með að halda áfram að herja á ríkisstjórnina.

* http://ruv.is/sarpurinn/ruv/frettir/20150511 : frá 15:05 mín.; en frá 13.35 mín var umfjöllun þar um flóttamanna-vandamál Evrópusambandsins og nýjar tillögur um inntökukvóta landanna á flóttamönnum, og miðað verður þar við a) þjóðarframleiðslu, b) íbúafjölda, c) atvinnuleysis-hlutfall og d) fjölda flóttamanna sem fyrir eru í landinu; takið eftir, að ef reynt yrði að þvinga þessum flóttamannakvótum upp á Ísland sem EES-og Schengen-ríki, þá myndi íbúafjöldahlutfall (um 1/1580 af fólksfjölda alls EES-svæðisins) ekki eitt sér ráða, öll hin atriðin, a-, c- og d-liðir, myndu hækka fjöldann umtalsvert sem okkur yrði ætlað að taka við sem flóttamönnum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Virða afstöðu stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blekkingin um "samningaviðræður" er lífæð lyganna í Skaftahlíð, herbúðum Samfylkingar og annarra innlimunarsinna

Út í hött er að Samfylking með leiðitömum vinstri flokkum, jafn-illa upplýstum, geti skipað fullveldissinnaðri ríkisstjórn fjáraustur í þjóðaratkvæðagreiðslu um leiðandi falsspurningu um "framhald samningaviðræðna við Evrópu­sam­bandið".

Það var aldrei um neinar eiginlegar samninga-viðræður að ræða. Evrópu­sambandið semur EKKI um sína eigin stofn­sáttmála og sína allsherjar-, 100.000 blaðsíðna lagabálka. Sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók það skýrt fram í yfirlýsingu 27. júlí 2011, að:

  • "Inntökuviðræður [aðildarviðræður] varða hæfni umsækjandans [umsóknarríkisins] til að taka á sig skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur [í Evrópusambandinu]. Hugtakið "viðræður" getur verið misvísandi. Inntökuviðræður beinast sérstaklega að (focus on) skilyrðum og tímasetningu á því, að umsóknarríkið taki upp, innfæri og taki í notkun reglur Evrópusambandsins, um 100.000 blaðsíður af þeim. Og þessar reglur [... acquis ...] eru ekki umsemjanlegar (not negotiable). Fyrir umsóknarríkið er þetta í kjarna sínum mál sem snýst um að samþykkja hvernig og hvenær ESB-reglur og ferli verði tekin upp og innfærð. Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingar fyrir dagsetningu og virkni hvers umsóknarríkis í því að innfæra reglurnar."*

Þá er það margstaðfest af hlutaðeigandi kommissörum í framkvæmdastjórn ESB, að ekki einungis er gildandi löggjöf Evrópusambandsins ekki umsemj­an­leg, heldur er hitt líka á hreinu, að engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB. Ísland yrði með inngöngu í ESB að beygja sig undir sameiginlegar samþykktir ESB. Í Fréttablaðinu 8. nóv. 2010 sagði Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, að það væru: "Engin fordæmi fyrir varanlegri undan­þágu."** Emma Bonino, sjávarútvegsmálastjóri ESB, hafði í viðtali við Morgunblaðið 1995 þá þegar staðfest það sama, hvað fiskveiðimálin snerti, er hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: "Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrr alla. 

Það átti því ekki að koma neinum á óvart, að á blaðamannafundi í Brussel skyldi eftirmaður Rehns sem stækkunarstjóra ESB, Stefan Füle, lýsa yfir: "Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB." Þetta var sami blaðamannafundurinn þar sem Össur Skarphéðinsson opinberaði fáfræði sína eða fífldirfsku með því að svara efnislega, að það væri "ekkert mál að semja um varanlegar undanþágur"! Eftir þau orð Össurar sá Füle sérstaka ástæðu til að ítreka orð sín með því að bæta við þessu: "Að í sambandi við þessi mál yrði að hafa í huga að ESB veitti ekki varanlegar undanþágur frá lögum sambandsins."

Það yrði því aldrei um neina samninga að ræða um að löggjöf ESB skyldi ekki gilda á Íslandi sem ESB-ríki. Fullyrðingar um, að við getum samið okkur fram hjá einhverjum ákvæðum fastra aðildarsáttmála eða frá hinum grundvallandi Lissabon-sáttmála, eru því blekking, en undir þær blekkingar ýtir stanzlaus áróðurinn í 365 fjölmiðlum og jafnvel í margri umfjöllun í Ríkisútvarpinu.

En það er einmitt þessi blekking, sem er lífæð lyganna í höfuðstöðvum 365 fjölmiðla í Skaftahlíð, þar sem ESB-sinninn Jón Ásgeir Jóhannesson situr uppi á efsta lofti í gamla Lídó-húsinu og stjórnar strengjabrúðum sínum í ritstjórn Fréttablaðsins, Samfylkingar-fréttastjóranum á Stöð 2 og Bylgjunni og allt niður í óbreytta blaðamenn, umsjónarmenn "skoðanakannana" og launaða, vikulega skriffinna eins og Guðmund Andra Thorsson, sem síðast í gær var með afvegaleiðandi hætti að halda því að mönnum, að við hefðum um eitthvað að "semja" og: "Það er nefnilega alveg hægt að kíkja í pakkann"! Guðmundur ætti þá að drífa í því strax að kíkja í hann, því að inntökusáttmálar Svía, Finna og annarra, sem og Lissabon-sáttmálinn, samtals um 400 blaðsíður (sem þjóðin í heild myndi aldrei lesa á síðustu metrunum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu!), liggja nú þegar fyrir, honum og öðrum til skoðunar!!

Eitt alvarlegasta málið varðandi þennan ósveigjanleika Evrópusambandsins um löggjöf þess yrði svo það, að "Samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna." Ennfremur: "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiði­stefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávar­útvegs­mál var samþykkt." Og: "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB-borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð." Allt er þetta úr ESB-grunntextum, sjá hér!*** Engin furða, að einn af launuðum þjónum Jóns Ásgeirs á Fréttablaðinu, Ólafur Þ. Stephensen, skyldi, meðan hann var þar ritstjóri, bygðunarlaust rita í leiðara þar 13.7. 2011, að "að sjálfsögðu" væri rétt að fyrirtæki frá "öðrum Evrópu­ríkjum" fái að fjárfesta hér í sjávarútvegi og fái afnot af fiskimiðum okkar!

Guðmundur Gunnarsson, meðlimur samtakanna sem standa að Fullveldis­vaktinni hér á Moggabloggi, ritaði svo á vefsíðu Páls Vilhjálmssonar 31.10. 2010:****

  • "Til öryggis gekk Samfylkingin svo frá hnútunum [þ.e.a.s. í ESB-umsóknar-þingsályktuninni árið 2009] að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem sögð er að eigi að fara fram í lokin, er aðeins ráðgefandi en ekki bindandi. Og hvers vegna skyldi Samfylkingin hafa séð ástæðu til að sá varnagli yrði á...???"

Þarna er Guðmundur að tala um hina þungvægustu þjóðaratkvæðagreiðslu, hina endanlegu, og bendir á, að Samfylkingin og aðrir ESB-taglhnýtingar tryggðu sér það fyrir fram, að sú atkvæðagreiðsla þjóðarinnar yrði EKKI BINDANDI, þannig að ESB-sinnaður meirihluti á þingi, jafnvel naumur, jafnvel með atkvæðum innan við 32 þingmanna, gæti gengið í berhögg við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Já, sá var vilji og ásetningur Samfylkingarinnar 2009, og svo tala þessir þingmenn nú um að þjóðin eigi að fá að ráða! Ekki fengust þeir þó til þess, er ESB-umsóknin var til umræðu, og treystið ekki á það, lesendur góðir, að Samfylkingarþingmenn láti þjóðarvilja ganga fyrir sínum eigin óþreyjufulla innlimunarvilja, ef eða þegar að því kæmi, að atkvæðagreiðsla yrði haldin um það stórmál meðal þjóðarinnar.

* Þetta (m. leturbreytingum undirritaðs) er úr plagginu Understanding Enlargement – The European Union’s enlargement policy, útgefnu af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 27.7. 2011. Sjá einnig hér á íslenzku: "Aðildarviðræður" - straight from the horse's mouth (ESB)

** Nánar hér: http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1297366/ (Margstaðfest staðreynd: Engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB!).

*** Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!

**** http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/1111392/#comments


mbl.is „Herra forseti, ég skil ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár leiðir í ESB-málinu - og fráleitt samráð ríkisstjórnarinnar við stórveldið! (með VIÐAUKA)

Þrjár leiðir Alþingis eru helztar nú til að skýra stöðu þess og landsins í ESB-umsóknarmálinu:

  1. að stjórnarandstaðan lýsi vantrausti á utan­ríkis­ráðherrann vegna bréfs hans til Evrópu­sambandsins; verði slík tillaga samþykkt, yrði ríkisstjórnin að fá sér í 1. lagi nýjan utanríkisráðherra og í 2. lagi að velja aðra leið í málinu til að koma fram vilja sínum; verði hún hins vegar felld, verður það til marks um, að sjálft Alþingi telji gjörð ráðherrans ekki í andstöðu við vilja sinn;
  2. að ríkisstjórnin leggi fram formlega tillögu um, að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu verði afturkölluð og það kunngjört því sambandi og öllum þjóðum;
  3. vilji Samfylkingin og e.t.v. fleiri á Alþingi enn halda þessu umsóknarmáli á loft, þá geta viðkomandi borið fram tilögu þess efnis og sagzt þar um leið líta svo á, að umsóknin, sem samþykkt var naumlega á Alþingi í júlí 2009, sé enn í gildi sem vilji Alþingis. Verði tillagan felld, eins og fullar líkur eru á (og t.d. með tilstyrk Ögmundar Jónassonar), þá er málið endanlega og farsællega úr sögunni. Að þar með séu "aðrar leiðir fyrir okkur lokaðar" í efnahagsmálum en þær að búa bara að sínu áfram, er ekki rétt; Árni Páll Árnason gæti ennþá, á komandi árum, borið fram tillögu um, að Ísland eigi að gerast 51. ríki Bandaríkjanna (það fæli í sér minna fullveldisframsal en að fara inn í ESB) eða að sækja eigi aftur um inngöngu í Evrópusambandið. Að "leið sé lokað" til frambúðar er nefnilega bara áróður ættaður ú Skaftahlíð, þar sem ESB-innlimunarsinninn Jón Ásgeir Jóhannesson stýrir leikbrúðum sinum á 365 fjölmiðlum, m.a. ritstjóra ESB-Fréttablaðsins og fréttastjórn á Stöð 2 og Bylgjunni.

Helzta frétt kvöldsins er ekki það, sem Bjarni Benediktsson benti Katrínu, formanni VG, á í þingræðu sinni, þ.e. að forveri hennar, Steingrímur J., hefði sjálfur áskilið sér rétt til þess slíta viðræðunum við Evr­ópu­sam­bandið hvenær sem væri og bætt því við, að það ætti þingið að gera líka; "þannig hafi þeir sem staðið hefðu að þings­álykt­un­ar­til­lög­unni ekki talið sig sjálfa bundna af henni," sagði Bjarni, en byggir þó þarna á eigin túlkun á því, vegna þess að ljóst er, að lagaflækjufrömuðir vinstri flokkanna geta, jafnvel með tilstyrk hins volduga Evrópusambands, er tímar líða, haldið því fram, að eitt sé að slíta viðræðum um tíma og annað að draga umsókn formlega til baka. Ekki hafa Tyrkir verið í aðildarviðræðum við ESB mörg síðastliðin ár, jafnvel naumast í neinni alvöru á þessari öld, en eru þó samt með umsókn þar skráða.

En við þurfum --- Alþingi þarf --- að taka af öll tvímæli um, að Ísland er ekki í neinni umsóknarstöðu.

Helzta frétt kvöldsins er aftur á móti ræða forsætisráðherrans á þingfundinum í dag, þar sem hann staðfesti í raun þau orð, sem Styrmir Gunnarsson hafði ritað 13. þ.m. og gáfu til kynna, að ríkisstjórnin hefði verið í einhverju samráði um þetta mál við Evrópusambandið á undangengnum dögum eða vikum. Sigmundur Davíð upplýsti einmitt í ræðunni, "að ákvörðun um að senda bréfið til ESB hafi verið tekin í samráði við ESB. ... Það hafi tekist að gera þetta í góðu gagnvart ESB." (Eyjufrétt.)

Þarna var sem sé verið að ráðfæra sig nánast við höfuðandstæðinginn (ESB, sem vill komast yfir Ísland og hefur þó hingað til sýnt okkur fullan fjandskap með dómsmorði sínu í Icesave-málinu og andstöðu við makrílveiðar okkar, sem hafa gefið okkur langt yfir 100 milljarða í gjaldeyristekjur) -- já, ríkisstjórnin dirfðist að leita ráða í Brussel, hvað hún ætti að gera, þegar hún sat uppi í örvæntingu gagnvart umræðu­frekum pappírs­tígrisdýrum Samfylkingar og vinstri flokka allra handa, að ógleymdum launuðum talsmönnum Jóns Ásgeirs og eineltisiðkandi vinnusvikamönnum á Fréttastofu Ríkisútvarpsins! (Þetta síðastnefnda rökstyður undirritaður í annarri grein sinni í dag, HÉR).

VIÐAUKI í hád. 17/3: Rúv-fréttir í hádeginu af fundi utanríkis­mála­nefndar Alþingis bera það ótvírætt með sér, að aðferð stjórnar­flokkanna og ráðherrans í þessu máli er allsendis óviðunandi. Formaður nefndar­innar, Birgir Ármannsson, segir beinlínis, að Ísland hafi "auðvitað stöðu umsóknar­ríkis, þar til" Evrópu­sambandið hafi tekið ákvörðun um annað, þetta sé "þeirra listi". Össur Skarphéðinsson bregzt svo við með því að segja það "mjög jákvætt, að [umsóknin] sé enn í fullu gildi." 

Með þessu er ljóst, að ríkisstjórnin valdi þá leið að fela Evrópu­sambandinu allt vald um túlkun bréfs ráðherrans, og helzti baráttu­jálkur ESB-innlim­unar­stefnunnar, fyrrv. utanríkis­ráðherra Össur (sá sem jafnvel braut stjórnarskrána á "vegferð" sinni til að svíkja landsmenn í málinu), getur ekki leynt ánægju sinni með, að niðurstaðan (hingað til) er vitaskuld honum og Evrópusambandinu í hag.

Hér er þá líka á hreinu, að þegar undirritaður skar sig úr hópi flestra þeirra fullveldissinna, sem tjáð höfðu sig framan af um aðferð ríkisstjórnarinnar í málinu (þ.e. um bréfs-tilkynningu utanríkisráðherra), sennilega úr hópi allra álitsgefandi ESB-inngöngu-andstæðinga fram að því, fyrir utan Styrmi Gunnarsson, þá var það afstaða okkar Styrmis sem var sú rétta, m.ö.o. að leiðin, sem farin var, var röng eða að minnsta kosti allsendis ónóg í sjálfri sér. (Undirritaður er hins vegar ekki hlynntur tillögu Styrmis um að leysa hnútinn með þjóðaratkvæði.)

Það má ekkert orka tvímælis um stefnu landsins í þessu máli. Það kemur ekki til greina, að "kannski" liggi ólögmæta umsóknarplaggið hans Össurar frá 2009 á skrifborðinu hjá Brusselmönnum, sem geti bara beðið endurnýjaðrar óskar einhverrar ríkisstjórnar hér með Samfylkingu innan borðs um að "halda þá bara áfram viðræðunum, þar sem frá var horfið!" Alþingi ber að jarða þessa umsókn um inngöngu í stórveldið og gera það með ótvíræðum hætti, annað kemur ekki til greina og ekki minnsta ástæða til að styðja stjórnarflokkana í þeirri stefnu, sem þverbrýtur gegn þeim vilja landsþinga þeirra, að umsóknin verði formlega dregin til baka ... og það vitaskuld með viðhlítandi hætti, sem komi í veg fyrir enn eina skjóta atrennu ESB-innlimunarsinna að fullveldi landsins.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Töldu tillöguna heldur ekki bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband