Færsluflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur
27.8.2019 | 11:57
Við eigum að nýta okkur sem bezt frábæra samninga EFTA-ríkjanna við önnur lönd, í stað þess að einblína á tregt og staðnað Evrópusamband
Nú hafa náðst einstakir fríverzlunarsamningar EFTA-ríkjanna við s.k. Mercosur-ríki í S-Ameríku: Argentínu, Brasilíu, Úrúgúay og Paragúay. Þetta skapar ómetanleg viðskiptatækifæri fyrir sjávarútveg okkar og fleiri atvinnuvegi.
Fríverslunarsamningur við aðildarríki Mercosur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2019 | 18:08
Formaður Samfylkingar er reiðubúinn að gefa ESB megnið af landhelginni og allt okkar æðsta löggjafarvald
Í viðtali og pistli boðar hann sína ESB-trú, en felur ofangreindar staðreyndir, gyllir samt orkupakkann og evruna* og "samvinnuna" sem felst í að vera fylgitungl Brussel-valdsins, þar sem við fengjum 0,06% áhrifavald í ESB-þinginu, en um 0,07% eftir útgöngu Breta -- sem hann minnist ekki á, því að sízt má nefna snöru í hengds manns húsi! -- vitaskuld kom Brexit ekki til af neinni almennri ánægju Breta með tilskipana- og reglugerðabákn valdfrekra ESB-ráðamanna og embættismannahers í Brussel.
Og þrátt fyrir augljósa viðleitni Loga til ofurjákvæðni, þegar hann lítur til Evrópu, þá gleymir hann að nefna þá gleðifregn að utan, að nú mun Stóra-Bretland endurheimta sín fiskimið að fullu!
Fiskiskip frá Evrópusambandsríkjum (Spáni, Portúgal, Frakklandi, Belgíu, Þýzkalandi, Danmörku, Eystrasaltsríkjum, jafnvel Ítalíu) fengju hins vegar að hefja veiðar allt upp að 12 mílna landhelgi okkar, en í samræmi við reglur hér um svæðalokanir, möskvastærð og veiðikvóta (þeir myndu rjúka upp í verði, en verða ESB-útgerðum aðgengilegir, m.a. gegnum uppkaup útgerða). Æðsta ákvörðunarvald um nefndar reglur (jafnvel allt niður í möskvastærð) flyttist hins vegar frá íslenzkum stjórnvöldum til ESB-stjórnvalda.
Menn verða að átta sig á því, að sameiginlega sjávarútvegsstefnan í ESB felur í sér jafnan aðgang allra ESB-borgara að fiskimiðunum.** Það er ekki hægt að samrýma það með neinu móti varanlegum yfirráðum og einka-nytjarétti hinna einstöku þjóða að eigin fiskimiðum. Verjendur Evrópusambandsins hafa hins vegar vísað til "reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða" hvers ESB-ríkis, byggðan á fiskisóknar- og aflareynslu. En "reglan" sú er einungis tímabundið fyrirkomulag, breytilegt og afleggjanlegt í sjálfu sér, og ráðherraráð ESB hefur allt vald í þeim löggjafarefnum; við hefðum 0,07% atkvæðavægi við slíka ákvörðun!
Er það eðlilegt að formaður íslenzks stjórnmálaflokks gerist undirlægja erlends valds og boði sem sitt fagnaðarerindi innlimun okkar í valdfrekt stórveldi sem er á leiðinni með að koma sér upp stórum her? Er ímynduð hagnaðarvon honum meira virði en sjálfstæði Íslands?
* Um trú Loga á "aðgang að öflugri og stöðugri mynt" í formi evrunnar segir í Staksteinum Mbl. í dag:
"Ef til dæmis Grikkir læsu þetta teldu þeir vitaskuld að þarna færi formaðurinn með gamanmál. Svo er ekki. Logi trúir þessu."
Logi ímyndar sér, að upptaka evrunnar feli sjálfkrafa í sér lægstu vexti og afnám verðtryggingar. Svo er ekki, eins og sýnt hefur verið fram á. Vandkvæðin við að vera með gjaldmiðil sem hentar ekki sveiflukenndum þjóðartekjum sleppir hann alveg að nefna.
** Dæmi úr upplýsingatexta sem finna má gegnum þennan tengil (miklu meira þar):
- "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt."
- "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð."
- "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja."
Jón Valur Jensson.
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2018 | 09:53
Sigmundur Davíð minnir á gildi þess að vera utan Evrópusambandsins
Ísland hefði orðið gjaldþrota ef það hefði verið aðili að ESB þegar bankahrunið varð árið 2008. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og fyrrv. forsætisráðherra í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu í gær, en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar. Sigmundur bendir á að með verkfærum fullveldisins hafi verið komið veg fyrir að illa færi hér á landi, þjóðin hafi fengið eitthvað um málin að segja. Hann segir að ekki þurfi annað en að horfa til Grikklands til að sjá hvernig hefði getað farið fyrir Íslandi hefði það verið hluti af ESB. Hlusta má á þáttinn í spilaranum fyrir neðan fréttina á vef Útvarps Sögu.
(Frétt þessi er endurbirt hér af vef ÚS, http://utvarpsaga.is/island-hefdi-ordid-gjaldthrota-hefdi-thad-hefdi-verid-i-esb-thegar-hrunid-vard/)
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2017 | 13:25
Eftirminnileg orð leiðtoga Grænlendinga
Jonathan Motzfeldt, leiðtogi grænlenzku landstjórnarinnar, sagði þetta um möguleikann á því, að Grænland færi aftur í ESB: "Haldið þið að ég ætli að fara að láta eitthvert ítalskt möppudýr segja mér til um það, hvort ég megi fara út á minni trillu að veiða þorsk í soðið?!"
Það er ágætt að minna á þetta nú, þegar ritstjóri Fréttablaðsins gleymir í leiðara sínum í dag, að Grænland gekk úr Evrópusambandinu eins fljótt og mögulegt var eftir að þjóðin fekk ráðin yfir eigin málum í hendur. "Margt er óljóst," skrifar ritstjóri Fréttablaðsins um Brexit-málið og útgöngu Breta, "enda hefur engin þjóð gengið úr Evrópusambandinu áður." En þetta er rangt. Grænlendingar gengu úr Evrópubandalaginu 1985, en höfðu farið inn í það nauðugir 1973, sem hluti af danska ríkinu ...
"þrátt fyrir að um 70% þjóðarinnar greiddu atkvæði gegn því. Grænlendingar sóttu fast að fá forsjá eigin mála. Þeir fengu heimastjórn 1979 og þá var jafnframt hafin formleg grasrótarbarátta fyrir því að segja Grænland úr Efnahagsbandalaginu. Eftir að góður meirihluti Grænlendinga hafði samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 1982 að segja sig úr Efnahagsbandalaginu, hófust samningar um úrsögn sem lauk 1985 með formlegri útgöngu Grænlendinga.
Grænlendingar urðu þó að láta Efnahagsbandalaginu eftir tiltekin réttindi svo sem til veiða í grænlensku lögsögunni og ýmsar aðrar skuldbindingar sem sambandsríkin gáfu ekki eftir ..."
-- Jón Bjarnason, fv. sjávarútvegsráðherra (http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1366342/)
Á breytilegu korti hér geta menn séð útþenslu/minnkun ESB á árunum 1957 til 2013: http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1359071/
Þar sést Grænland koma inn 1973 og hverfa út af kortinu 1986. Og innan fárra missera dettur Stóra-Bretland út!
Hér er svo góð mynd af Jonathan Motzfeldt með sinni íslenzku konu, Kristjönu Guðrúnu Guðmundsdóttur:
Mynd: Morten Juhl
Jón Valur Jensson.
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt 19.2.2017 kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kröfur ESB til Breta vegna Brexit sanna hve varasamt er að gefa þessu stórveldi nokkuð eftir af fullveldi. ÖLL veiðiréttindi, sem Bretar urðu nauðugir* jafnt sem viljugir** að gefa ESB-ríkjum, vill ESB halda í þrátt fyrir Brexit!
Þetta er ljóst af minnisblaði frá ESB-þinginu sem lekið var til fjölmiðla.
Vonir breskra sjómanna um að Bretland gæti endurheimt fiskimiðin í kringum landið í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu gætu orðið að engu í kjölfarið. (Mbl.is)
En þetta hafði einmitt verið eitt af því, sem mælti með úrsögn: að þá myndu brezkir sjómenn endurheimta miðin að fullu til sín, í stað þess að deila þeim með Spánverjum, Hollendingum o.fl. þjóðum.
Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Guardian en minnisblaðið, sem blaðið hefur undir höndum, inniheldur uppkast að sjö ákvæðum sem þingmenn á Evrópuþinginu vilja að verði í fyrirhuguðum samningi á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu landsins. Stefnt er að því að viðræður um útgönguna hefjist síðar á þessu ári.
Fram kemur í minnisblaðinu ekki verði um að ræða aukningu í hlutdeild Bretlands í aflaheimildum í sameiginlegum fiskistofnum (núverandi skipting aflaheimilda verði óbreytt í lögsögu Evrópusambandsins og Bretlands). Ennfremur að með tilliti til skuldbindinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar veiðar sé erfitt að sjá nokkurn annan valkost en áframhaldandi notkun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. (Mbl.is)
Þetta eru stóralvarlegar fréttir fyrir brezkan sjávarútveg, ef Brusselmönnum tekst að þjösnast á Bretum í þessu efni. En hvaða trompspili getur Evrópusambandið spilað út í því reiptogi? Jú, samkvæmt minnisblaðinu vill sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins að aðgangur Bretlands að innri markaði sambandsins verði háður því skilyrði að Bretar "haldi áfram í heiðri réttindi og skyldur samkvæmt sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni"!
Þarna stendur sem sé til að nota aðgang að innri markaðnum sem þumalskrúfu á Breta að gefa áfram eftir fiskveiðiréttindi sem ESB-ríki höfðu fengið í brezkri fiskveiðilögsögu vegna ESB-aðildar Breta! Nú vill Evrópusambandið í ágirnd sinni múra það inn sem óbreytanlegt, en kannski meðfram til að fæla önnur meðlimaríki frá því að endurtaka Brexit-leikinn. Frexit yrði, fá Frakkar hér með að vita, þeim ekki að kostnaðarlausu né til að endurheimta frelsi sitt að fullu.
Svo eru sumir hér á Íslandi sem ímynda sér, að veiðiréttur hér við land sé eða öllu heldur yrði ekki mikils virði fyrir Evrópusambandsríki! Samt er árlegur afli hér við land margfaldur á við það sem veiðist í brezkri lögsögu! Og vitnisburður spænskra ráðherra*** var t.d. órækt vitni um það, hversu mikill ávinning Spánverjar sáu í Össurar-umsókninni 2009 fyrir sinn eigin sjávarútveg.
Breskir sjómenn hafa lengi verið gagnrýnir á sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. (Mbl.is) Ekki er við það komandi hjá sjávarútvegsnefnd ESB-þingsins að þessir brezku sjómenn hafi sitt fram; aðgangur að innri markaði sambandsins á áfram að vera háður þessu skilyrði: að Bretar beygi sig fyrir sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, en ekki aðeins það, heldur þetta að auki:
Sjávarútvegsnefndin vill ennfremur að fiskiskip frá ríkjum Evrópusambandsins geti áfram siglt undir breskum fána, en greint hefur verið frá því að hollenska útgerðarfélagið Cornelis Vrolijk veiði 23% aflaheimilda í enskri lögsögu að því er segir í fréttinni. Ennfremur að fiskiskip frá Evrópusambandinu verði að njóta sömu réttinda í Bretlandi og bresk fiskiskip. Ekki verði heimilt að setja skilyrði sem gætu hindrað starfsemi þeirra innan Bretlands. (Sama frétt, leturbr. JVJ.)
Og það er hnykkt á öllu þessu í minnisblaði ESB-þingnefndarinnar, þ.e.
að framtíðartengsl Bretlands og Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála verði að skoða í samhengi við vilja Breta til þess að halda nánum tengslum við samstarfsríki innan sambandsins og innri markað þess. Sérhver samningur sem tryggir aðgang Bretlands að innri markaði Evrópusambandsins verður að tryggja aðgang að fiskimiðum Bretlands fyrir fiskiskip sambandsins. (Mbl.is)
Og nú geta ESB-innlimunarsinnarnir barið sér á brjóst í hugmóði yfir því, hvílíkt sé sjálfstraust og stærilæti Brusselmanna gagnvart gamla brezka ljóninu, sem þeir vilja gjarnan að lyppist niður í búri sínu og hími þar áfram undirgefið við svipuhöggin frá Brussel og Strassborg. En brezkir sjómenn eiga örugglega eftir að láta í sér heyra vegna þessa yfirgangs.
Jón Valur Jensson.
ESB vill veiða áfram við Bretland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt 16.2.2017 kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.11.2016 | 12:37
Er Íslendingum að koma enn meira í koll að taka þátt í Rússabanni ESB?
- Rússar viðurkenna ekki stofnmat NA-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, en það lagði til að engar karfaveiðar yrðu stundaðar næstu tvö ár.
- Á nýafstöðnum ársfundi ráðsins í Lundúnum var felld tillaga Íslands um að veiðar yrðu stöðvaðar; karfi hefur verið ofveiddur um árabil og tveir stofnar hans eru taldir í útrýmingarhættu. Rússar hafa sett sér einhliða kvóta, Evrópusambandið og Danmörk fyrir hönd Færeyja og Grænlands hafa ekki sætt sig við að Rússar sætu einir að veiðunum og hafa viljað takmarka þær. (RÚV.is)
Það mýkir ekki hug Rússa gagnvart Íslandi, að stjórnvöld hér hafa tekið fullan þátt í fráleitum og vonlausum viðskiptatakmörkunum Evrópusambandsins gagnvart þessu mikla viðskiptalandi okkar fram á síðustu ár.
- Á fundinum var samþykkt tillaga um 7.500 tonna heildarveiði. Þegar hún leggst við 25 þúsund einhliða kvóta Rússa gæti heildarveiðin orðið um 30 þúsund tonn. Á vef atvinnuvegaráðuneytisins segir að niðurstaðan sé Íslendingum mikil vonbrigði (Rúv)
Hvenær ætla stjórnvöld að sansast í þessu máli og hætta að refsa útgerðar- og sjómönnum fyrir það sem þeir bera enga ábyrgð á? Gríðarlegt tap hefur þegar orðið af sölubanninu á Rússland, einkum vegna makríls. Sá stinni og góði fiskur á annað skilið en að lenda í gúanói skammsýnna, ESB-þjónandi íslenzkra ráðherra. Áhrifin á karfaveiðarnar eru svo annað kjaftshögg á íslenzkan sjávarútveg.
Jón Valur Jensson.
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2016 | 16:51
Fréttamenn ættu að krefja Smára McCarthy um svör
Smári McCarthy, sem kosinn hefur verið þingmaður Pírata þrátt fyrir fádæma-klaufaleg ummæli, upplýsti í útvarpsþætti um daginn, að Evrópusambandið vilji leggja mikið á sig til að fá Ísland inn. "Hvaðan hann hefur það, veit ég ekki," sagði Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu um þetta í síðdegisþætti í dag, þar sem Vigdís Hauksdóttir er gestur þáttarins.
Sjálfur sagðist Smári McCarthy vera fylgjandi inngöngu Íslands í ESB. En hann virðist í einhverju sérstöku sambandi við Brusselmenn, og ættu fréttamenn að ganga á hann og krefja hann um svör við því, hvaða ESB-menn hafi upplýst hann um þennan mikla áhuga Evrópusambandsins á Íslandi.
Vitaskuld er áhugi stórveldisins á Íslandi engin ný frétt, en það hafa ýmsir þrætt fyrir hann og látið jafnvel sem stórveldið myndi ekkert hagnast á því að ná Íslandi inn! Samt eru ekki aðeins lífskjör betri hér en meðaltalið í ESB, hagvöxtur meiri, atvinnuleysið mun minna o.s.frv., heldur eru auðlindir okkar mikils virði, bæði á og undir jörðu og fiskimið okkar þau auðugustu í Evrópu um aldir, eins og mikil fiskisókn Breta, Frakka, Þjóðverja, Belgja o.fl. þjóða til Íslands bar vitni um og ítrekuð herskipavernd brezka flotans með fiskveiðum þeirra hér í þorskastríðunum.
Margir Íslendingar eru andvígir her í landi, en eftir gríðarlega mikilvægri hernaðaraðstöðu landsins slægjast Þjóðverjar í gegnum ESB, sbr. þessa frétt: Island will der EU beitreten! Auch ein strategisches Interesse, sem undirritaður sagði frá á Vísisbloggi sínu, meðan það var og hét, og verður sú grein endurbirt hér sem fyrst (því að þrátt fyrir að 365 miðlar hafi fyrirvaralaust lagt niður gervallt Vísisblogg þúsunda manna og allar umræður þar til margra ára, þá var undirritaður svo forsjáll að taka afrit af sínum pistlum þar).
Við fengjum, vel að merkja, ekki að ráða því, hvort landið yrði notað til heræfinga og herstöðva (bæði flughers og flota), ef ESB-innlimunarsinnuðum flokkum tækist að afsala landi og þjóð fullveldisrétti og sjálfstæði í hendur yfirdrottnaranna í Brussel. Nánar um þetta í nefndri grein.
Sbr. einnig eftirfarandi grein á Moggabloggi undirritaðs 22. apríl 2010: Þýzka þingið samþykkti í dag EU/ESB-umsókn Össurar og Jóhönnu! -- einnig í öðrum pistli 23. apríl 2010: Þýzka sambandsþingið samþykkti inngönguviðræður Íslendinga (Össurar umfram allt!!!) við Evrópubandalagið (EU).
Jón Valur Jensson.
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt 7.11.2016 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2016 | 14:43
"Viðreisn" vill taka þátt í að manna eða kosta ESB-her (fylgir í pakkanum með innlimun í ESB ásamt öðru ókræsilegu)
Í Brexit-vandræðum vilja Brussel-ráðamenn þétta raðirnar, styrkja völd ESB og m.a. koma á fót ESB-her (en vilja ekki að Frakkar sjái einir um það).
Hér er ný skoðanakönnun um afstöðu Íslendinga til þessa framtíðar"kosts":
Segir ESB í erfiðri stöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.7.2016 | 13:32
Hvar stendur frambjóðandi í 1. sæti D-lista í NV-kjördæmi gagnvart Evrópusambandinu?
Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður Bjarna Ben. og sonur hins virta og vinsæla Einars Odds Kristjánssonar, gefur kost á sér í efsta sætið í kjördæmi föður síns heitins. En hvar stendur hann í málum?
Teitur var 1. varaformaður SUS þegar hann ritaði grein með formanni SUS, Þórlindi Kjartanssyni, í Morgunblaðið 18. desember 2008. Hún er hér, opin öllum til lestrar: Auðlindir, fullveldi og ESB.
Í greininni segja þeir unga sjálfstæðismenn hafa verið "sammála landsfundum flokksins á síðustu árum og ályktað að aðild að Evrópusambandinu sé ekki í samræmi við hagsmuni Íslendinga," en þrátt fyrir það hafi þeir "viljað knýja á um breytingar í gjaldmiðlamálum. Við viljum að sóst verði eftir því að semja um tengingu við evru, eða annar gjaldmiðill tekinn upp einhliða eða í samstarfi við aðra," segja þeir.
Þeir tala bæði almennt um "kosti og galla" Evrópusambandsaðildar, en hugsun þeirra er einna skýrust í þessum málsgreinum (og hér feitletrar undirritaður mikilvægar staðreyndir):
"Það þarf einnig að ræða um mögulega framtíðarþróun Evrópusambandsins því þótt framtíðin sé óráðin og óviss geta stjórnmálamenn ekki skorast undan því að leggja dómgreind sína á hvernig hún verði. Evrópusambandið er langt frá því að vera fullskapað í sinni endanlegu mynd. Það tekur stöðugum breytingum. Í því ljósi er þörf á opinskárri og heiðarlegri umræðu um þá þróun sem á sér stað í þá átt að sambandið taki á sig stöðugt sterkari mynd sambandsríkis.
Það þarf jafnframt að komast upp úr þeim hjólförum umræðunnar að aðildarumsókn að Evrópusambandinu sé einhvers konar töfralausn á skammtímavandamálum klassísk íslensk redding. Svo er vitaskuld ekki. Aðild að Evrópusambandinu er heldur enginn björgunarhringur sem við getum gripið í núna þegar siglingin er erfið, en hent frá okkur þegar betur viðrar. Þvert á móti væri um nánast óafturkræft skref að ræða ef af yrði. Það ber því að hafna allir skammsýni og óskhyggju varðandi hvað kunni að felast í aðild að Evrópusambandinu."
Í kaflanum Fullveldi þjóðarinnar áttu þeir svo mjög góðan sprett í þessum upphafs-málslið (aftur er feitletrað það, sem Fullveldisvaktin kann að meta):
"Við aðild að Evrópusambandinu þyrfti Ísland að undirgangast það skilyrði að lög Evrópusambandsins yrðu rétthærri en öll önnur lög á Íslandi. Jafnvel ákvæði stjórnarskrár þyrftu að víkja fyrir lögum Evrópusambandsins ef þannig bæri undir. Um þetta atriði er ekki deilt og á þessu yrðu engar undanþágur. Slíkt afsal á völdum þings og þjóðar er nokkuð sem ákaflega erfitt er að kyngja þótt reyndin sé sú að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þarf Ísland hvort sem er að taka upp stóran hluta Evrópulöggjafar inn í sín eigin lög. Stóri munurinn er hins vegar sá að Ísland hefur undirgengist að taka eingöngu upp í landsrétt reglur Evrópusambandsins á þeim sviðum sem heyra undir samninginn, það er á sviðum sem snerta hinn sameiginlega markað. Það er því ljóst að aðild að Evrópusambandinu fæli í sér mjög verulegt afsal fullveldis og sérstaklega ef litið er til þeirrar þróunar að stöðugt er verið að setja fleiri málaflokka undir Evrópusambandið. Í núverandi kerfi er Ísland ekki skuldbundið til þess að fylgja með í þeirri þróun. Spurningin um aðild að Evrópusambandinu tekur því ekki aðeins til hvernig Evrópusambandið er byggt upp í dag heldur hvers konar sambandsríki Evrópusambandið verður eftir nokkur ár eða áratugi."
Þrátt fyrir þetta er ýmislegt í framhaldinu þess eðlis í greininni, að höfundar fara aftur að slá úr og í og eru jafnvel ekki með það 100% á hreinu, að sjávarútvegsmálin mæli einna sterkast gegn "aðild", segja að vísu: "Ísland er eina landið þar sem sjávarútvegur er slík undirstaða og eðlilegt er að við óttumst að sú staðreynd muni mæta takmörkuðum skilningi þegar fram líða stundir," þ.e.a.s. í Evrópusambandinu, ef landið gengi í það.
Þeir spá þar ennfremur í "endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB," sem standi yfir, og bæta við: "Áhugavert verður að sjá niðurstöðu þeirrar vinnu, en vísbendingar hafa verið uppi um að þar kunni að miða í skynsamlegri átt. Vera má að íslenskur sjávarútvegur geti jafnvel staðið frammi fyrir auknum tækifærum við aðild að Evrópusambandinu."
Þetta er afar óraunsætt og þvert gegn öllu sem skynsamlegast verður talið og byggt á staðreyndum. Tvímenningarnir reynast þannig vera farnir að spá verulega í Evrópusambandið í stað þess að standa traustan vörð um fullveldið. Og á þá lund eru sjálf lokaorð þeirra í greininni:
"Ef Ísland sækir um aðild að Evrópusambandinu ætti í raun aðeins tvennt að koma til greina hvað varðar sjávarútveginn. Annaðhvort varanleg undanþága frá núverandi kerfi eða Evrópusambandið hanni nýtt og skynsamlegra kerfi sem Íslendingar geti fellt sig við."
Þetta eru fánýtar bollaleggingar og taka ekkert mið af því, hve hörð stefna ESB er í þessum málum, né af hinu, að með æðsta lagavald í höndum getur sambandið alltaf breytt málum eftir á. Þessi linkind tvímenninganna er ekki í stíl bjargvættarins réttnefnda, Einars Odds, sem starfaði fyrir vinnandi stéttir landsins og ekki sízt sjómenn og sjávarútveginn.
En sé leitað yngri heimilda um afstöðu Teits til Evrópusambandsins, má vitna til þess, að Vilborg G. Hansen hafði haustið 2012 skoðanakönnun meðal frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, könnun sem Sigurður Sigurðarson birti niðurstöðurnar úr HÉR, og þar kom í ljós, að Teitur Björn var einn þeirra 14, sem voru "á móti aðild að Evrópusambandinu og áframhaldandi viðræðum," en 5 aðrir frambjóðendur vildu ýmist "halda áfram viðræðum eða fresta þeim."
Í öðrum málum mun Teitur Björn vera heldur til vinstri í Sjálfstæðisflokknum, hann og hans fólk studdi til dæmis Guðna Th. Jóhannesson í forsetakosningunum, gegn fyrrverandi formanni flokksins, Davíð Oddssyni. Ennfremur studdi sama fjölskylda mótframboð Samfylkingarkonunnar Þóru Arnórsdóttur árið 2012 gegn fullveldissinnanum Ólafi Ragnari Grímssyni. (En hver fjármagnaði kostnaðarsama kosningabaráttu Þóru, hefur það verið upplýst?)
Þá mun Teitur vera eindreginn fylgjandi fjölmenningarhyggjunnar, m.a. byggingar mosku í Sogamýri, á gömlu landi Viðeyjaklausturs. Mágur hans, Illugi Gunnarsson ráðherra, bætti um betur með því að styðja líka aðra mosku, þá "íslenzku" í Feneyjum, og veita til hennar tugum milljóna króna, enda þurftu fátækir á Íslandi ekki á þeim peningum að halda, sízt öryrkjar og eftirlaunamenn!
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram í Norðvesturkjördæmi 3. september.
PS. Grein þessi er þáttur í því að fylgjast með afstöðu frambjóðenda fyrir komandi kosningar í Evrópusambandsmálum og umfram allt í fullveldismálum, eins og áður hefur verið gert fyrir forsetakosningar.
Jón Valur Jensson.
Teitur Björn gefur kost á sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2016 | 12:37
Evrópusambandið tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!
Auðskilin er viðvarandi andstaða þjóðarinnar gegn inntöku í evrópskt stórveldi.
"Lagasetningarvald á sviði sjávarútvegs er fyrst og fremst hjá stofnunum ESB og aðildarríkin hafa framselt vald til stefnumótunar á sviði sjávarútvegs til sambandsins.[nmgr.244] Afleidd löggjöf á þessu sviði þarf aukinn meirihluta atkvæða í ráðherraráðinu til að hljóta samþykki, en Evrópuþingið hefur eingöngu ráðgefandi hlutverk á þessu sviði.[nmgr.245]"
Hér er engin miskunn hjá Magnúsi, en vitnað var með þessu í opinberan texta: Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96 (allar feitletranir mínar, JVJ). Og áfram segir í textanum (og TAKIÐ VEL EFTIR FYRSTU SETNINGUNNI):
- "Samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna.246
- Sá aðgangur er þó ekki ótakmarkaður því reglur sambandsins um ákvörðun hámarksafla og úthlutun aflaheimilda til aðildarríkjanna fela í sér veigamikla takmörkun á meginreglunni um jafnan aðgang þar sem fiskiskipum er einungis heimilt að veiða á þeim svæðum og úr þeim stofnum sem aflaheimildirnar eru bundnar við.[247]
- [Bls. 97:]
- Aðildarríkjunum er einnig heimilt að takmarka veiðar á svæðinu út að 12 mílum við eigin skip,[248] auk þess sem veiðar á nokkrum öðrum svæðum eru takmarkaðar vegna verndarsjónarmiða.[249] Þá er aðildarríkjum heimilt að grípa til neyðarráðstafana og setja reglur til verndar fiskistofnunum þegar ákveðnir fiskistofnar eða fiskimið eru í verulegri hættu og talið er að tafir myndu leiða til tjóns.[250] Loks ber að nefna að aðildarríkjum er heimilt að grípa til ráðstafana sem miða að verndun og stjórnun fiskistofna þegar um er að ræða fiskistofna sem eru staðbundnir og varða eingöngu skip frá viðkomandi aðildarríki. Þessar ráðstafanir verða þó að vera í samræmi við markmið sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og mega ekki ganga lengra en löggjöf ESB segir til um."[251]
NEÐANMÁLSGREINAR við tilvitnaða textann hér fyrir ofan, í sama riti:
244 Sbr. m.a. 5. gr., 6. gr. og 7. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
245 Sbr. 2. mgr. 37. gr. Rómarsáttmálans. Hingað til hafa eingöngu verið settar reglugerðir á sviði sjávarútvegs, en ekki tilskipanir. Það er meginregla að stofnanir ESB hafa valdheimildir til að setja reglur á sviði sjávarútvegs. Í dómi gegn Bretlandi nr. 804/79 kom fram að þótt ráðið hefði ekki sett reglur á því sviði sem valdframsal aðildarríkjanna tekur til hefðu aðildarríkin ekki heimild til að setja reglur á viðkomandi sviði. Því var einnig slegið föstu að vald til þess að setja reglur um verndarráðstafanir á hafinu féllu að öllu leyti undir valdsvið stofnana ESB en ekki undir valdsvið aðildarríkjanna.
246 Sbr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
247 Óttar Pálsson og Stefán Már Stefánsson (2003), bls. 53-54.
248 Sbr. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
249 Sérstakar reglur gilda t.d. í kringum Hjaltlandseyjar og Orkneyjar og um veiðar í Miðjarðarhafi og Eystrasalti.
250 Sbr. 8. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002. Þessar ráðstafanir mega ekki vara lengur en 3 mánuði og þarf aðildarríki m.a. að tilkynna þær til framkvæmdastjórnarinnar, sem þarf að samþykkja verndaraðgerðirnar, breyta þeim eða hafna innan 15 vinnudaga frá tilkynningu.
251 Sbr. 10. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002." (Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96-97, allar feitletranir mínar, JVJ.)
Og hér er margt fyrir Esb-sinnana að læra og tileinka sér!
Svo mæta hér Esb-erindrekar frá Möltu sem reyna að "heilaþvo" fullveldis-sinnaðan alþingismann, Vigdísi Hauksdóttur, með þeim orðum, að "Íslendingar þyrftu ekki að óttast neitt; lausn myndi finnast á sjávarútvegsmálum"!!!
En það er í 1. lagi ljóst, að "samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna," í 2. lagi, að sú hugmynd sumra, að fiskveiðilögsaga, sem snerti ekki lögsögu annarra Esb-ríkja, sé alveg sér á báti og falli ekki undir þessa meginreglu, er einfaldlega villuhugmynd, sem hvergi sér stað í lögum Esb., og í 3. lagi, að Malta fræðir okkur ekkert um að óhætt sé að sogast inn í Evrópusambandið.
VIÐAUKI
Í þessu mikilvæga plaggi: FISKVEIÐISTEFNA ESB OG KVÓTAHOPP (utanríkisráðuneytið, ágúst 2008), kom m.a. þetta fram (auðk. hér, jvj):
- "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt, [Nmgr.1: Reglugerð 2141/70 um sameiginlega stefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins, 5. gr.] en hún kemur nú fram í 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002. [Nmgr.2: 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002 segir: Fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum á öllum hafsvæðum sambandsins öðrum en þeim sem vísað er til í 2. mgr. (sérregla sem gildir innan 12 sjómílna lögsögu aðildarríkjanna) að virtum þeim reglum sem settar eru samkvæmt 2. kafla (hér er vísað til hvers konar verndarráðstafana).] Eftir 1983 hefur meginreglan um jafnan aðgang sætt verulegum takmörkunum en það ár var heildarstefna í sjávarútvegsmálum lögfest með þremur reglugerðum ..." [Bls. 2, nánar þar, en þessar reglugerðir myndu ekki veita okkur neinn einkarétt hér, þær horfa aðeins til stofnverndunar og fiskveiðitakmarkana Esb. (innsk. JVJ)]
- "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð." (Bls. 9.)
- Með brezkri löggjöf árið 1983 var í varnarskyni fyrir sjómenn þar kveðið á um, að a.m.k. 75% hverrar fiskiskips-áhafnar "skyldi vera búsett í Bretlandi. Á þetta reyndi í Agegate-málinu," og var farið með það í Evrópudómstólinn, sem taldi "að með þessu væri brotið gegn ESB-rétti því þetta færi gegn tilgangi og markmiðum landskvótakerfisins." (Bls.5.)
- "Evrópudómstóllinn úrskurðaði í s.k. Factortame-máli að umrædd skilyrði bresku laganna [annarra brezkra laga, innsk. jvj] um búsetu eða ríkisfang væru andstæð lögum Evrópusambandsins, einkum 43. gr. Rs. (áður 52. gr.)[Rs. = Rómarsáttmálinn] um rétt þegns og fyrirtækja til að stofna og starfrækja sjálfstæðan atvinnurekstur í öðru aðildarríki og einnig 294. gr. Rs. (áður 221. gr.) sem varðar jafnan rétt til fjárfestinga í félögum. Dómstóllinn tók jafnframt fram að heimilt væri að setja reglur um fiskiskip sem gerð eru út frá aðildarríkjunum, en óheimilt væri að tengja þær á einhvern hátt lögheimili eða þjóðerni eigenda útgerðar." (Bls. 6.)
- "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja." (Bls. 7.)
Um allt þetta má lesa mun nákvæmar og í fleiri atriðum í nefndri samantekt, sem er nú ekki nema tæplega 8 bls. texti + efnisyfirlit + heimildaskrá. Ég tel þó ekki nógu varlega ályktað þar sums staðar um áhættuna af því að Ísland láti sogast í Evrópusambandið.
Jón Valur Jensson.
Áður birt á Moggabloggi höfundar 13. marz 2012, en er í jafngóðu gildi og þá.
Varðandi könnun MMR (sjá fréttartengil á Mbl.is hér neðar) má geta þess, að MJÖG hlynntir "aðild" að Evrópusambandinu eru nú í maí 2016 einungis 9,5% landsmanna skv. þeirri skoðanakönnun, en MJÖG andvígir eru 31,7%, meira en þrefalt fleiri. Þess vegna er þeim mun furðulegra að forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson ljái máls á því að Ísland verði partur af þessu stórveldi og nefni ranglega sem "kost", að þá getum við losnað við krónuna!* (Sjá hér: Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda.)
* Margir segjast hafa það á móti krónunni, að henni fylgi háir vextir, en það er ekkert lögmál, að svo hljóti að vera, heldur er bankastjórn Seðlabankans (og þar með ríkisstjórn og Alþingi) ábyrg fyrir okurvaxtastefnunni, sbr. einnig upplýsingar frá Má Wolfgang Mixa í þessari samantekt: Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. -JVJ.
Rúmur helmingur á móti inngöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)