Hvar stendur frambjóðandi í 1. sæti D-lista í NV-kjördæmi gagnvart Evrópusambandinu?

Teitur Björn Einarsson. Teitur Björn Einarsson, að­stoð­ar­maður Bjarna Ben. og sonur hins virta og vinsæla Ein­ars Odds Kristjáns­sonar, gefur kost á sér í efsta sætið í kjör­dæmi föð­ur síns heit­ins. En hvar stendur hann í málum?

Teitur var 1. varaformaður SUS þegar hann ritaði grein með formanni SUS, Þórlindi Kjartanssyni, í Morgun­blaðið 18. desember 2008. Hún er hér, opin öllum til lestrar: Auðlindir, fullveldi og ESB.

Í greininni segja þeir unga sjálfstæðis­menn hafa verið "sammála landsfundum flokksins á síðustu árum og ályktað að aðild að Evrópu­sambandinu sé ekki í samræmi við hagsmuni Íslendinga," en þrátt fyrir það hafi þeir "viljað knýja á um breytingar í gjaldmiðla­málum. Við viljum að sóst verði eftir því að semja um tengingu við evru, eða annar gjaldmiðill tekinn upp einhliða eða í samstarfi við aðra," segja þeir.

Þeir tala bæði almennt um "kosti og galla" Evrópu­sambands­aðildar, en hugsun þeirra er einna skýrust í þessum málsgreinum (og hér feitletrar undirritaður mikilvægar staðreyndir):

"Það þarf einnig að ræða um mögulega framtíðarþróun Evrópu­sambandsins því þótt framtíðin sé óráðin og óviss geta stjórnmálamenn ekki skorast undan því að leggja dómgreind sína á hvernig hún verði. Evrópusam­band­ið er langt frá því að vera fullskapað í sinni endanlegu mynd. Það tekur stöðugum breytingum. Í því ljósi er þörf á opinskárri og heiðarlegri umræðu um þá þróun sem á sér stað í þá átt að sambandið taki á sig stöðugt sterkari mynd sambandsríkis.

Það þarf jafnframt að komast upp úr þeim hjólförum umræðunnar að aðildarumsókn að Evrópusambandinu sé einhvers konar töfralausn á skammtímavandamálum – klassísk íslensk redding. Svo er vitaskuld ekki. Aðild að Evrópu­sambandinu er heldur enginn björgunar­hringur sem við getum gripið í núna þegar siglingin er erfið, en hent frá okkur þegar betur viðrar. Þvert á móti væri um nánast óafturkræft skref að ræða ef af yrði. Það ber því að hafna allir skammsýni og óskhyggju varðandi hvað kunni að felast í aðild að Evrópusambandinu."

Í kaflanum Fullveldi þjóðarinnar áttu þeir svo mjög góðan sprett í þessum upphafs-málslið (aftur er feitletrað það, sem Fullveldisvaktin kann að meta):

"Við aðild að Evrópusambandinu þyrfti Ísland að undirgangast það skilyrði að lög Evrópusambandsins yrðu rétthærri en öll önnur lög á Íslandi. Jafnvel ákvæði stjórnarskrár þyrftu að víkja fyrir lögum Evrópu­sambandsins ef þannig bæri undir. Um þetta atriði er ekki deilt og á þessu yrðu engar undanþágur. Slíkt afsal á völdum þings og þjóðar er nokkuð sem ákaflega erfitt er að kyngja þótt reyndin sé sú að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þarf Ísland hvort sem er að taka upp stóran hluta Evrópulöggjafar inn í sín eigin lög. Stóri munurinn er hins vegar sá að Ísland hefur undirgengist að taka eingöngu upp í landsrétt reglur Evrópusambandsins á þeim sviðum sem heyra undir samninginn, það er á sviðum sem snerta hinn sameiginlega markað. Það er því ljóst að aðild að Evrópusambandinu fæli í sér mjög verulegt afsal fullveldis og sérstaklega ef litið er til þeirrar þróunar að stöðugt er verið að setja fleiri málaflokka undir Evrópusambandið. Í núverandi kerfi er Ísland ekki skuldbundið til þess að fylgja með í þeirri þróun. Spurningin um aðild að Evrópu­sam­bandinu tekur því ekki aðeins til hvernig Evrópusambandið er byggt upp í dag heldur hvers konar sambandsríki Evrópusambandið verður eftir nokkur ár eða áratugi."

Þrátt fyrir þetta er ýmislegt í framhaldinu þess eðlis í greininni, að höfundar fara aftur að slá úr og í og eru jafnvel ekki með það 100% á hreinu, að sjávarútvegsmálin mæli einna sterkast gegn "aðild", segja að vísu: "Ísland er eina landið þar sem sjávarútvegur er slík undirstaða og eðlilegt er að við óttumst að sú staðreynd muni mæta takmörkuðum skilningi þegar fram líða stundir," þ.e.a.s. í Evrópusambandinu, ef landið gengi í það.

Þeir spá þar ennfremur í "endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB," sem standi yfir, og bæta við: "Áhugavert verður að sjá niðurstöðu þeirrar vinnu, en vísbendingar hafa verið uppi um að þar kunni að miða í skynsamlegri átt. Vera má að íslenskur sjávarútvegur geti jafnvel staðið frammi fyrir auknum tækifærum við aðild að Evrópusambandinu."

Þetta er afar óraunsætt og þvert gegn öllu sem skynsamlegast verður talið og byggt á staðreyndum. Tvímenningarnir reynast þannig vera farnir að spá verulega í Evrópusambandið í stað þess að standa traustan vörð um fullveldið. Og á þá lund eru sjálf lokaorð þeirra í greininni:

"Ef Ísland sækir um aðild að Evrópusambandinu ætti í raun aðeins tvennt að koma til greina hvað varðar sjávarútveginn. Annaðhvort varanleg undanþága frá núverandi kerfi eða Evrópusambandið hanni nýtt og skynsamlegra kerfi sem Íslendingar geti fellt sig við."

Þetta eru fánýtar bollaleggingar og taka ekkert mið af því, hve hörð stefna ESB er í þessum málum, né af hinu, að með æðsta lagavald í höndum getur sam­bandið alltaf breytt málum eftir á. Þessi linkind tvímenninganna er ekki í stíl bjargvættarins réttnefnda, Einars Odds, sem starfaði fyrir vinnandi stéttir landsins og ekki sízt sjómenn og sjávarútveginn.

En sé leitað yngri heimilda um afstöðu Teits til Evrópusambandsins, má vitna til þess, að Vilborg G. Hansen hafði haustið 2012 skoðanakönnun meðal fram­bjóð­enda í prófkjöri Sjálfstæðis­flokksins, könnun sem Sigurður Sigurð­arson birti niðurstöðurnar úr HÉR, og þar kom í ljós, að Teitur Björn var einn þeirra 14, sem voru "á móti aðild að Evrópusambandinu og áframhaldandi viðræðum," en 5 aðrir frambjóðendur vildu ýmist "halda áfram viðræðum eða fresta þeim."

Í öðrum málum mun Teitur Björn vera heldur til vinstri í Sjálfstæðisflokknum, hann og hans fólk studdi til dæmis Guðna Th. Jóhannesson í forseta­kosn­ingunum, gegn fyrrverandi formanni flokksins, Davíð Oddssyni. Ennfremur studdi sama fjölskylda mótframboð Samfylkingarkonunnar Þóru Arnórsdóttur árið 2012 gegn fullveldis­sinnanum Ólafi Ragnari Grímssyni. (En hver fjár­magn­aði kostnaðar­sama kosninga­baráttu Þóru, hefur það verið upplýst?)

Þá mun Teitur vera eindreginn fylgjandi fjölmenningar­hyggjunnar, m.a. byggingar mosku í Sogamýri, á gömlu landi Viðeyjaklausturs. Mágur hans, Illugi Gunnarsson ráðherra, bætti um betur með því að styðja líka aðra mosku, þá "íslenzku" í Feneyjum, og veita til hennar tugum milljóna króna, enda þurftu fátækir á Íslandi ekki á þeim peningum að halda, sízt öryrkjar og eftirlaunamenn!

Próf­kjör Sjálfstæðisflokksins fer fram í Norðvesturkjör­dæm­i 3. sept­em­ber.

PS. Grein þessi er þáttur í því að fylgjast með afstöðu frambjóðenda fyrir komandi kosningar í Evrópusambandsmálum og umfram allt í fullveldismálum, eins og áður hefur verið gert fyrir forsetakosningar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Teitur Björn gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband