Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þrumugóður fundur sjálfstæðismanna gegn Acer-orkumálapakka ESB

Um 90-100 manns munu hafa sótt fundinn í Valhöll kl.17.30 til um kl. 20 í kvöld. Tillaga til fundar­álykt­un­ar var sam­þykkt sam­hljóða, mót­atkvæða­laust. Miklar umræður voru eftir erindi framsögu­manna, sem voru Styrmir Gunn­arsson, fyrrv. ritstjóri, dr. Stefán Már Stef­áns­son, prófessor í Evrópu­rétti við HÍ, Bjarni Jónsson rafmagns­verk­fræð­ingur og Elías B. Elíasson verkfræðingur, sem starfað hefur áratugum saman hjá Landsvirkjun. Fundarstjóri var Jón Magnússon hrl., fyrrv. varaþingmaður, og fór það vel úr hendi.

Vafi hafði leikið á afstöðu forystu Sjálfstæðis­flokksins til ACER-málsins, en einungis einn ráðherra hans, varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfa­dóttir iðnaðar- og ferða­mála­ráðherra, mun hafa sótt fundinn, auk a.m.k. eins þingmanns, Birgis Ármanns­sonar. Hvorugt þeirra tók til máls á fundinum. Meðal annarra fundarmanna, sem sátu allan fundinn, var Davíð Oddsson, fyrrv. forsætisráðherra, nú ritstjóri Morgunblaðsins.

Þetta er fundar­ályktun þessa sögulega fundar í Valhöll:

Fund­ur­inn skor­ar ein­dregið á for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins að hafna þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins á þeim grunni að hann stang­ast á við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar, opn­ar Evr­ópu­sam­band­inu leið til yf­ir­ráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækk­ar verð á raf­orku og af­leiðing­ar til langs tíma eru óviss­ar.

Allur fundurinn var tekinn upp á mynd­band og verður væntan­lega aðgengi­legur hvað úr hverju.

Jón Valur Jensson.


Svo bregðast krosstré sem önnur tré

Raunalegt er að sjá Björn Bjarnason ljá stefnunni á Acer-orku­mála­pakk­ann, með fram­sali ríkis­valds héðan, stuðning sinn í grein í gær. Væri honum sæmst að kafa djúpt og af allri sinni skarp­skyggni í greina­skrif Bjarna Jóns­sonar raf­magns­verk­fræðings í málið og losa sig við sínar blekk­ingar­hugmyndir, enda þekkir Bjarni allan þennan málaflokk eins og handar­bakið á sér, verkfræði­lærður í Noregi, hefur fylgzt með allri EES-umræðunni þar og hefur langtíma reynslu sem rafmagns­verkfræð­ingur að störfum í okkar eigin virkjana- og raforkudreifingar-geira.

Nafn Rögnu Árnaóttur, fyrrv. utanþings­ráðherra, sem Björn Bjarnason treystir á, er engin trygging fyrir því, að hún sé hér góður vegvísir, eða eru þeir margir sem trúa leiðsögn hennar og Dags B. Eggerts­sonar um Hvassahrauns­flugvöll sem lausn á okkar flug­samgöngum?!

Undirritaður (upptekinn mjög í dag) frétti af þessari grein Björns á snjáldur­skinnu sinni (facebók) eftir miðnættið, þar sem flugmaðurinn eldklári Þorkell Ásgeir Jóhannsson lagði inn þessa athugasemd: 

Björn Bjarnason rekur nú mikinn áróður með 3. orkupakkanum með vísan í greinargerð Rögnu Árnadóttur um efnið. En greinin sú afhjúpar eitt lykil­atriði málsins í kafla 4.4, neðst í fyrstu mgr, þar sem segir að ESA muni taka þátt í starfi ACER án atkvæðisréttar! Aðkoma ESA sem eftirlits­aðila (sem átti að róa EES-ríkin gagnvart valdaafsalinu til ACER) er því einungis til málamynda. (Feitletr. JVJ)

Vonandi er ekki að bresta flótti í þinglið Sjálfstæðisflokksins um málið, þ.e.a.s. frá einarðri varðstöðu um fullveldið, en landsfundur hefur þegar tekið afstöðu GEGN þessu yfirvofandi þingmáli ESB-vinanna.

Falli Sjálfstæðisflokkurinn (e.t.v. undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og leiðsögn Björns Bjarnasonar) fyrir fagurgala ESB-manna um málið, þá er hann að fella gildan part af full­veld­is­réttindum okkar og verð­skuldar ekkert minna en sitt eigið gengisfall í augum eigin óbreyttra flokksmanna.

Jón Valur Jensson.


ESB-trúboð Fréttablaðsins

Fréttablaðið birtir í dag 2 grein­ar í þágu Evr­ópu­sam­bands­ins, leið­ar­ann og pist­il Þor­steins Víg­lunds­son­ar í "Við­reisn".

Dæmi­gerð­ur er leið­ari evró­krat­ans Kol­brún­ar Berg­þórs­dótt­ur -- fjallar ger­sam­lega ein­hliða um Brexit-málið. Hún sér ENGIN rök sem Brexit-menn hafi haft fyrir sínum mál­flutningi (og þar skrökvar hún í leiðinni) og velur svo að tala ein­ungis þá fáu Brexit-mál­svara, sem misst hafa stjórn á sér í bræði í and­stöð­unni við ESB, sem nánast einu skýru dæmin um Brexit-afstöðuna! Uppteiknar sem sé fuglahræðu til að auðvelda sér leikinn!

Svona eiga menn ekki að skrifa leiðara. Í blaði, sem varpað er fyrir hvers manns dyr, á að vera hægt að ætlast til þess, að fjallað sé í leiðurum af sanngirni og hlutlægni um mikilvæg mál, án þess að draga bara hlut annars aðilans í deilu­mál­um, ef hinn á sér sín rök líka, já, án þessarar bullandi ESB-aðdáunar sem Kolbrún sýnir hér í dag.
 
Þessi ævi­sögu­ritari Jón Baldvins Hanni­bals­sonar, K.B., virðist ekki hafa komizt yfir hrifningu sína af þeim stjórn­mála­manni, og þegar margt á þessu ári sýnir okkur, að allt of langt var gengið með hættulegum EES-samningnum, sem Brussel-valda­klíkan notar til að herja enn meira á okkar stjórnsýslu (einkum sveitar­félaga) með persónu­verndar­lögunum, sem við þurfum ekkert á að halda, og þegar ACER-orku­skipulags­málið vofir yfir okkur í haust (sjá einkum greinar þessa frábæra verkfræðings: https://bjarnijonsson.blog.is), auk annarra kostnað­ar­mikilla EES-mála, þá ætti Kolbrún nú að hafa sett sig inn í þau mál og leggja réttlætinu lið sitt, ef eitthvert gagn er þá að því, í stað þess að skrifa leiðara til þókknunar Evrópu­sambandinu. Reyndar eru Jón Ásgeir Jóhannesson og Ólöf Skaftadóttir, sem hafa sín miklu áhrif á stefnu og skrif Frétta­blaðsins, bæði eindregnir ESB-innlimunarsinnar!
 
Þorsteinn Víglundsson er einn ESB-postulanna í "Viðreisn". Setning hans í Frétta­blaðsgrein í dag: "Mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu eru um 80 þúsund krónum hærri til matarkaupa hér en á hinum Norðurlöndunum," er sennilega rakin skreytni, enda vegur mánaðarlega matarkarfan ekki nema um 14% af útgjöldum meðal­fjölskyld­unnar. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bænda­samtaka Íslans og fyrrverandi formaður Heimssýnar, hefur sýnt fram á rangan samanburð verðlags hér við verðlag í Skandinavíu.
 
En Þorsteinn vill hugsa í peningum og mata ofan í okkur falstúlkun sína á vaxta- og verðlagsmálum og virðist ganga út frá því sem gefnu, að almenningur vilji selja frá sér fullveldið í löggjafar-, framkvæmda- og dómsmálum fyrir aurana sem hann þykist sjá eftir vegna sjálfstæðrar stöðu Íslands.
 
Það er hneisu- og sorgar-efni að menn skuli geta skrifað þannig á aldar­afmæli þess fullveldis Íslands, sem er grunnur þess og alger forsenda, að við ráðum okkar eigin fiskimiðum sjálf og þurftum ekki að lúta valdboði Evrópu­sambandins um að borga Bretum og Hollendingum falskröfu þeirra vegna Icesave-reikninga prívat­banka og að beygja okkur fyrir þeim vilja Brussel-manna, að hlutur okkar í makríl­veiðum í NA-Atlants­hafi yrði aðeins um tvö til þrjú prósent í stað þeirra ca. 16% sem við tókum í okkar hlut (mest fyrir einurð Jóns Bjarnasonar ráðherra, sem síðar varð formaður Heimssýnar).

 

Skammsýni virðist að fækka um 100 þúsund fjár, eins og nú stefnir í. Hér þarf að fara fram duglegt markaðsátak til að auglýsa nýjar framleiðslueiningar af lamba­kjöti handa erlendum ferðamönnum. Það er ekki landinu til ábata, að sveitir fari í eyði.

 
Jón Valur Jensson.

mbl.is Fækka þarf um rúmlega 100 þúsund fjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð minnir á gildi þess að vera utan Evrópu­sambandsins

 

Ísland hefði orðið gjaldþrota ef það hefði verið aðili að ESB þegar banka­hrunið varð árið 2008. Þetta var með­al þess sem fram kom í máli Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­sonar formanns Mið­flokks­ins og fyrrv. forsætisráðherra í síðdegis­útvarpi Útvarps Sögu í gær, en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar. Sigmundur bendir á að með verkfærum fullveldisins hafi verið komið veg fyrir að illa færi hér á landi, þjóðin hafi fengið eitthvað um málin að segja. Hann segir að ekki þurfi annað en að horfa til Grikklands til að sjá hvernig hefði getað farið fyrir Íslandi hefði það verið hluti af ESB. Hlusta má á þáttinn í spilaranum fyrir neðan fréttina á vef Útvarps Sögu.

(Frétt þessi er endurbirt hér af vef ÚS, http://utvarpsaga.is/island-hefdi-ordid-gjaldthrota-hefdi-thad-hefdi-verid-i-esb-thegar-hrunid-vard/)


Íhlutun ESB í innanríkismál Póllands sýnir í hnotskurn valdhrokann í Brussel

Evrópusambandið sýnir nú hug sinn í verki gagn­vart sjálf­stæð­um ákvörð­un­um að­ild­ar­ríkja í lög­gjaf­ar­málum: breytt­um starf­stíma hæsta­réttar­dóm­ara í Pól­landi hafnar ESB og fer í mál við Pólverja fremur en að láta þá um sína eigin stjórn á málum! Að baki býr svo sú hótun að svipta Pólland atkvæðisrétti sínum í Evrópu­sambandinu, verði ekki látið undan forræðishyggjunni þar!

Þetta sýnir ESB-ríkjum sem öðrum, að jafnvel svo stórt land sem Pólland getur ekki talið sér óhætt að gera ráð fyrir að halda fullveldi sínu þar að meira eða minna leyti óskertu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB höfðar mál gegn Póllandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfróður maður með vaktina á aukinni hneigð Brusselmanna til óeðlilegra valdheimilda gagnvart EES-ríkjum

Hikstalaust má hvetja full­veldis­sinna til að lesa nýti­leg­ar snilld­ar­grein­ar Bjarna Jóns­son­ar raf­magns­verkfr. í Mbl. og á blogg­síðu hans, m.a. um persónu­vernd­ar­lög­gjöf, ACER-mál­ið, EES og stjórn­ar­skrána, of veikt við­nám Norð­manna, offlæði laga- og reglu­gerða frá ESB o.fl. Sjá m.a. þessar nýleg­ustu greinar Bjarna:

Persónuvernd með fullveldisframsali

Hagsmunir Íslands og Noregs gagnvart Orkusambandi ESB

Stjórnarskráin og EES. Einnig (11. maí) EES og þjóðarhagur, þar sem hann tekur m.a. á beinið afar hæpna frásögn Þorsteins Víglundssonar, fyrrv. ráðherra, í Mbl.grein af málum í Noregi, þ.e. um viðhorf almennings þar og stjórn­mála­flokkanna, m.m.

Einnig þetta um ACER-málið:

Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis

og (15. maí): 

Enginn ávinningur af aðild að Orku­sambandinu

Og þetta er afar upplýsandi um viðhorf Íslendinga, þótt fáir hafi tekið til máls um hið stórvarasama ACER-mál:

Skýr vísbending um þjóðarvilja

sem fjallar um niðurstöður úr skoðanakönnun Maskínu 27/4-7/5 þar sem spurt var

"Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því, að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana ?"

og andvígir reyndust 80,4% (þar af mjög andvígir 57,4%), en fylgjandi aðeins 8,3%! En þeim mun fremur þarf almenningur að vera á varðbergi gegn því, að andstæð sjónarmið og ákvarðanir verði ofan á meðal alþingismanna!

Ennfremur þessari nýlegri greinar: 

Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel

Fyrirvarar Stórþingsins verða varla uppfylltir

Það verður enginn illa svikinn af að fræðast af skrifum Bjarna Jónssonar, fyrr og nú. Ritháttur hans er með afbrigðum skýr, oft reyndar í allöngu máli, en jafnan launar það sig að renna yfir vel rökstuddar greinar hans og oft að tileinka sér efni ýmissa þeirra til hlítar.

Jón Valur Jensson.


Ný ríkisstjórn Ítalíu tekst á við Evrópusambandið strax frá fyrsta degi

Margir hafa undrazt hvernig ESB-stór­veld­ið neyddi í raun meiri­hluta­flokka Ítal­íu til að falla frá skipan Paolos Sa­vona sem fjár­mála­ráðherra (forsetinn Mattar­ella hafn­aði honum, í þægð við Evrópu­sam­bandið). En það er verð­ugur mót­leikur þegar nýr forsætis­ráðherra landsins, Giuseppe Conte, skipar nú hinn sama Savona sem ráðherra Evr­ópu­mála, "en hann er harður efa­semda­maður um Evr­ópu­sam­starfið" (mbl.is)! Hér er fullt tilefni til að vitna í styttri leiðara Morgun­blaðsins þennan föstudag:

"Breytt í þágu Brussel

Þriðja stærsta hagkerfi evrusvæðisins gæti þrátt fyrir allt fengið að mynda ríkisstjórn sem hefur efasemdir um evruna. Forseti Ítalíu hafði, eftir mikla andstöðu í Brussel og Berlín, hafnað fjármála­ráðherraefni flokkanna sem sigruðu í ítölsku þingkosningunum og mynda meirihluta á þingi. Fjármálaráðherraefnið þótti of gagnrýnið á evruna til að hægt væri að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang.

Í gærkvöld var greint frá því að meirihlutaflokkarnir hefðu ákveðið að gefa eftir og velja nýtt fjármálaráðherraefni. Þetta var gert undir hótunum um utanþingsstjórn þóknan­lega ESB og nýjar kosningar til að lagfæra þær sem elítan í ESB taldi hafa gefið ranga niðurstöðu.

Þegar þetta er skrifað er búist við að ný stjórn á Ítalíu taki við í dag, föstudag. Sú stjórn verður ekki eins og meiri­hlutinn á ítalska þinginu vildi helst hafa hana, en hún gæti engu að síður ruggað báti Evrópu­sambandsins og evrunnar verulega. Fróðlegt verður að sjá hver næstu viðbrögð elítunnar í Brussel og áhangenda hennar verða ef ríkis­stjórnin fylgir þeim málum eftir sem ítalskir kjósendur ætlast til." (Tilvitnun lýkur.)

Ekki hafa þessir atburðir aukið traust manna á lýðræðisást Brusselmanna og leiðtoga Evrópusambandsins, svo sem hinna valdamestu, Frakklandsforseta og Þýzkalandskanzlara. Greinilega vilja þau, eins og í tilfelli Grikklands, Ungverjalands og Póllands áður, takmarka frelsi þjóða og þjóðþinga til að ráða málum sínum sjálf.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Conte nýr forsætisráðherra Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lætur Sjálfstæðisflokkurinn ESB svínbeygja Alþingi til að samþykkja stórlega íþyngjandi persónuverndarlög?

Hneisa er það fyrir Alþingi og Ís­lendinga að hlusta á dóms­mála­ráð­herra tala um það á þingi í dag, að ekki sé ann­að hægt en að af­greiða lög um per­sónu­vernd í skyndi, þeim verði hvort sem er ekki breytt þar, Evr­ópu­sam­band­ið ætlist til að þau verði með­tekin sem slík!

Þetta eru ekki hennar beinu orð, en hlusta mátti á þetta á vef Alþingis nú eftir hádegið og í 4-fréttum Rúv.

PS: HÉR er þetta, 4. fréttin í fréttatíma kl.16 í dag (þegar 3 mín eru liðnar af upptökunni á Rúv-vefnum). Þar töluðu nokkrir þingmenn, vinnubrögðin voru harðlega gagnrýnd, m.a. kvað Þorsteinn Sæmundsson (Miðflokki) þetta ríkisstjórninni til vansa og annar, að hér væri verið að sýna þinginu fádæma-vanvirðingu, en Sigríður (ráðherrann) svaraði m.a.: "Og að lokum vil ég nefna það, að menn tala hér um að hér sé verið að leggja fram skjal til stimplunar fyrir ríkisstjórnina, þá vil ég ég vil bara benda á það, að þetta mál er hreinræktað mál frá Evr­ópu­sam­band­inu og verður litlu breytt hér í þingsal, verður litlu breytt hér í þingsal, vegna reglna sem Evr­ópu­sam­band­ið setur Íslandi."  

Ýmsir aðilar hafa nú þegar bent á, hve ill­framkvæm­an­leg þessi nýja 147 blaðsíðna ESB-löggjöf er í okkar litla samfélagi og hve íþyngjandi hún myndi verða þeim sjálfum, fyrir utan að hér verður um millj­arða-kostnað að ræða, sennilega einkum fyrir sveitar­félögin í landinu.

Þannig segir líka Þor­steinn Júlí­us Árna­son, héraðsdóms­lögmaður hjá PACTA lög­mönn­um, í Skin­faxa, tíma­riti UMFÍ (skv. frásögn Mbl.is)

að þessi nýja reglu­gerð sé það um­fangs­mik­il að það hef­ur tekið fyr­ir­tæki og stofn­an­ir lang­an tíma að und­ir­búa sig og að erfitt gæti verið fyr­ir íþrótta­fé­lög að fylgja ákvæðum reglu­gerðar­inn­ar.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Þor­steinn að þetta gæti einnig átt við fé­laga­sam­tök al­mennt, þó svo að ein­hverj­ar und­anþágur kunna að vera varðandi viss­ar teg­und­ir sam­taka. Nær reglu­gerðin til allra per­sónu­grein­an­legra upp­lýs­inga og meðferðar þeirra.

Hér er þetta Evrópusamband enn með sínar krumlur í okkar innanlandsmálum og hefur sjálft ekki af miklu að státa í sambandi við endurskoðun eigin reikninga, sem ekki hefur legið fyrir í meira en einn og hálfan áratug!

Svo erum við með jafnvel ráðherra flokks, sem kennir sig við sjálfstæði, sem á Alþingi ögrar þingmönnum með því að vilja keyra þetta mál í gegn á lokadögum þingsins, þegar enginn tími er að vinna málið að þing­legum hætti, eins og venja hefur verið eða á að vera til. Nokkrir þingmenn mótmæltu í dag þessum aðferðum ráðherra að bera þetta mál svo seint fram, og samtök hafa þar að auki bent á hve fráleit þessi laga­setning yrði, sbr. vefgrein sam­takanna Frjálst land: Ísland fær línuna, grein sem hefst þannig:

Evrópusambandið heimtar að persónuverndarlög ESB verði sett í lög hér án tafar "... called for its swift incorporation into the EEA-agreement ".

Eitthvert blað var með grein um þetta alvarlega mál...

Það er alveg ljóst, að jafnvel eitt sér er þetta mál af þeirri stærðargráðu, að það svo lítur út sem það mæli sterklega með því, að Íslendingar segi upp EES-samningnum, vilji þeir viðhalda fullveldi síns löggjafarvalds, eins og full ástæða virðist einnig til vegna fleiri þátta í þeirri EES-lagavinnu sem hefur á síðustu misserum verið að færast í enn meira óviðunandi horf en áður hefur sézt eða verið dæmi um, og er hrapallegast þar á blaði ACER-málið, sem færir sig inn á nýtt svið, orkumálin, sem áður voru utan EES-löggjafar, mál sem geta orðið þjóðinni afar dýr­keypt og illbæt­anleg, jafnvel þótt reynt yrði að snúa til baka. 

Því kalla æ fleiri nú eftir uppsögn EES-samningsins. Það er leitt að sjá ráðherra Sjálfstæðis­flokksins loka okkur hér af, þar sem þessi möguleiki er fyrir fram útilokaður, en boðið upp á áfram­haldandi inngrip stórveldisins og eftirlits­aðila þess inn í málefni sveitar­félaga, fyrirtækja og félagasamtaka!

Sízt eru þeir þingmenn hrósverðir sem ætla að samþykkja víðtækt valda­framsal lansins til býrókrata í Brussel og ofurselja æðsta dómsvald um þessi mál til ESB-dómstólsins í Lúxemborg!

Er ekki að því komið, að sjálf­stæðis­baráttan verði að virkjast hér af fullum krafti, eins og hún gerði áður fyrr í landhelgis­málinu, þegar Bretar, Belgjar og Þjóðverjar vildu ekki virða íslenzka lögsögu eftir útfærsluna í 12 mílur árið 1958, og þegar Evrópu­sambandið reyndi að þvinga Ísland til uppgjafar í Icesave-málinu, jafnvel með sínum falska gerðardómi haustið 2008? Er ekki full ástæða til að menn taki nú höndum saman um vörn íslenzkra landsréttinda?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Persónuverndarlög erfið félagssamtökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsýnt að við verðum að hætta í EES

"EES-samstarfið hefur nú breytzt í ofbeldissamband, þar sem Fram­kvæmda­stjórn ESB virðir forsendur EES-samn­ings­ins að vettugi.  EFTA-ríkjum, sem ekki kæra sig um að verða fylki í Sambands­ríki Evrópu eftir BREXIT, er ekki lengur vært í EES.  Það er útilokað fyrir EFTA-ríkin að breyta EES-samn­inginum.  Þá er eina lausnin að segja upp EES-samninginum og gera fríverzl­unarsamninga. Þjóðin er algerlega andvíg því að flytja stjórn hvers mála­flokksins á fætur öðrum undir stofnanir ESB.  Dæmi um það mun koma í ljós á næstunni, þegar skoðanakönnun Heimssýnar um orkumálin verður birt.  Vantar okkur stjórnvöld með bein í nefinu?"

Þannig ritar hinn bráðglöggi Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur í athugasemd á Moggabloggi sínu í gær. Verður ekki annað séð en að taka beri undir hans sjónarmið.

JVJ


Ágangur Evrópusambandsins hefur ekki minnkað, heldur eykst einmitt nú; viðspyrna nauðsynleg (aukin grein)

Það eru margar góðar áherzlur í máli Bjarna Benediktssonar í við­tali hans við Daily Telegraph um EES- og ESB-mál, hann bend­ir á ergelsi Brussel­manna yfir sjálf­stæði okkar og óviðun­andi þrýsting þeirra á okkur að láta undan um full­veldis­mál okkar í ýmsu. Um leið má og finna veikar hliðar á málflutningi Bjarna.

Hinn auk­ni þrýst­ing­ur af hálfu stórveldis­ins í garð Íslands snýst nú að undanförnu einna helzt um að taka upp frek­ari regl­ur ESB á sviði orku­mála og mat­væla, og ástandinu er lýst sem svo, að það sé fari að "skapa erg­elsi", eins og fram kom í viðtalinu í Tel­egraph við þennan fjár­mála- og efnahagsráðherra Íslands.

Hann sagði einnig að Evr­ópu­sam­bandið liti á sjálf­stæði Íslend­inga sem "vesen". (mbl.is)

Ekki er gott í efni, að svo voldugt ríkjasamband fari að umgangast viðskipta- og samningsland sitt með slíku ólundargeði. Og lausn málsins er ekki að bukta sig og beygja fyrir duttlungum embættismanna þess.

Það ber að meta hreinskilni Bjarna um málið, tjáða (svo að eftir verður tekið) í hálfgerðu hliðarríki Evrópusambandsins, Bretlandi, sem stefnir á útleið þaðan, á sitt Brexit.

Og þetta hjá Bjarna er að halda vel á spöðunum:

"Eitt til­tölu­lega nýtt dæmi er hrátt kjöt og frjálst flæði varn­ings. Lína Evr­ópu­sam­bands­ins er einn fyr­ir alla, all­ir fyr­ir einn, eng­ar sér­tæk­ar regl­ur fyr­ir neinn. En við erum sér­stakt dæmi, til að mynda er ekki sal­mónella á Íslandi, það er ekki hægt að tala um það sem vanda­mál eins og gert er í aðild­ar­ríkj­um [Evr­ópu­sam­bands­ins]" sagði Bjarni. "Ef þú bæt­ir við þetta sýkla­lyfj­um, ég meina: þau eru næst­um ekki notuð á Íslandi borið sam­an við ali­fuglaiðnaðinn á Spáni"“ bætti hann við. (mbl.is)

Og þessu hér á eftir ber hann einnig vitni; ekki á hverjum degi sem ráðamenn hér leyfa okkur að skyggnast inn í, hvað þeir eru að skrafa sín á milli um raunverulegt ástand:

Sam­kvæmt Bjarna eru vax­andi áhyggj­ur á Íslandi vegna þess að Evr­ópu­sam­bandið virðist ekki geta sýnt af­stöðu Íslands skiln­ing og seg­ir jafn­framt að Evr­ópu­sam­bandið sé að grafa und­an tveggja stoða kerfi EES-samn­ings­ins.

Og aftur beinir hann sjónum að undarlega breyttu viðhorfi í ESB:

Fjár­málaráðherra seg­ist þó skilja, út frá póli­tísku sjón­ar­miði, af­stöðu sem fyr­ir­finnst í Evr­ópu sem varp­ar fram spurn­ing­un­um „hvenær ætla þeir að losa sig við þetta? Af hverju geta ekki all­ir bara orðið aðild­ar­ríki [Evr­ópu­sam­bands­ins]?“ Hann seg­ir Íslandi „nán­ast sýnd van­v­irðing, þetta er eins og vesen í þeirra aug­um.“

Eins gott að við vitum þetta, en bregðumst rétt við! En það er ekki hvað sízt eftirfarandi ummæli hans, sem afhjúpa hvað skýrast ástandið:

Að sögn Bjarna er þessi aukni þrýst­ing­ur frá Evr­ópu­sam­band­inu að valda erfiðleik­um í að viðhalda sjálfs­ákvörðun­ar­rétti.

Það er nefnilega það! Ráðherrar Íslands standa höllum fæti gagnvart ágengu stórveldi með hálfan milljarð íbúa á bak við sig. Þá skiptir þeim mun meira máli, að við veitum þessum ráðherrum okkar skýran stuðning í því máli og þeim sem heild verðugt aðhald, sem endurspeglar og sýnir í verki umhyggju landsmanna fyrir sjálfstæði okkar og fullveldisrétti.

Lokasetning mbl.is-fréttarinnar er svo kapítuli út af fyrir sig:

Hann [BB] staðhæf­ir að á sama tíma hef­ur EES-aðild Íslands skapað "gíf­ur­lega vel­sæld" þar sem Ísland hef­ur haldið rétt­in­um til þess að gera eig­in fríversl­un­ar­samn­inga með því að vera utan Evr­ópu­sam­bands­ins.

Ekki gaf EES-samningurinn okkur réttinn til að gera eigin fríverzl­un­ar­samn­inga, þótt hitt sé rétt, að innan Evrópusambandsins hefðum við ekki lengur haft þann rétt.

Um hvaða "gíf­ur­legu vel­sæld" Bjarni telur sig vera að tala, verður hann sjálfur að útskýra, en nú eru einmitt uppi raddir um það víða, að meta þurfi árangurinn eða afleiðingarnar af EES-samningnum, hvort hann hafi reynzt okkur hagstæður þrátt fyrir allt býrókratíið, sem af honum hefur leitt, eða heft í raun frelsi atvinnuvega okkar og skilað bæði takmörkuðum hagnaði, en um leið valdið okkur skaða, eins og hann gerði m.a. með þeim áhrifum á bóluárunum að leyfa bönkunum að belgja sig út erlendis með skelfilegum afleiðingum.

Það er of snemmt fyrir fjármálaráðherrann að gefa sér, að niðurstaða rannsóknar á áhrifum EES-samningsins, sem nú er kallað eftir á Alþingi, verði sú, að hann hafi skapað "gíf­ur­lega vel­sæld". Sumum hefur hann hjálpað, s.s. útrásarvíkingum til ævintýramennsku og stúdentum í framhaldsskólanámi (bæði erlendum hér og íslenzkum erlendis), en um annað hefur samningurinn verið til byrði, kostar gríðarmikið pappírsstarf í fjöldaþýðingum heils hers þýðenda og þrengir umfram allt að okkar sjálfsákvörðunarrétti, í raun að fullveldi okkar, og lausnin er ekki að gefast upp, heldur að krefjast þess, að staðið sé við upphafleg fyrirheit um tveggja stoða kerfi EES-samn­ings­ins (sem felur í sér meira samráð við Ísland um nýjar lagagerðir, ólíkt því sem sjá hefur mátt á síðustu árum) og fulla virðingu samingsaðila gagnvart okkur.

En bezta lausnin kann einmitt að reynast að segja upp EES-samningnum. Þegar hann er farinn að skila okkur lakari fisksölukjörum en Kanada nýtur með sér-viðskiptasamningi við ESB, án þess að það land þurfi að leggjast undir lagaverk Brusselmanna,* þá blasir við, að þessi samningur skilar okkur ekki því, sem honum var ætlað.

* Sbr. https://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/2214455/ (undir kaflaheitunum: Óþol ESB og Valkostur við EES) og hér (12. febr. sl.): Gæði EES-samningsins harla lítil í reynd.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Álíta sjálfstæðið vera vesen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband