Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

9% Svía vilja evru!

Ef við tökum mark á frændþjóðum með reynslu af Evrópusambandinu, ættu viðhorf Svía sízt að freista okkar til að stefna hér að upptöku evru. Einungis 9% Svía vilja taka upp evruna. Ekki hafa Danir heldur gert það, og eru sumar þjóðir jafnvel farnar að tala um að hverfa af evrusvæðinu, eftir að annmarkar þessa gjaldmiðils fóru að koma æ skýrar fram, eftir að hann komst yfir fermingaraldur.

Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritar:

  • Evran eyðileggur samstöðuna í Evrópusambandinu þar sem hún gerir kröfur um að öll efnahagskerfin 17 sem nota gjaldmiðilinn taki upp þýska fjármálastjórn. Og það einfaldlega gerist ekki.
  • Eina leiðin til að bjarga evru er að smíða utan um hana Stór-Evrópu þar sem sameiginlegt ríkisvald þvingar þjóðfélög undir sameiginlega efnahagsstefnu.

Þetta telur Páll ekki munu gerast, og óneitanlega geta viðhorf Svía bent til þess, að hann hafi rétt fyrir sér, en einungis 11% Svía vilja, að Evrópusambandið verði að einu sambandsríki, skv. þeirri sömu skoðanakönnun, sem hér sagði frá og unnin var í tengslum við rannsókn prófessors í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla og birt í sænska ríkisútvarpinu Sveriges Radio (sjá tengil hér neðar).

En okkur ber einnig að minnast hins, að harla litlu ráða Svíar í Evrópusambandinu, hafa t.d. 10 atkvæði nú af 345 í ráðherraráðinu í Brussel skv. Nice-samningnum, þ.e. 2,9%, en missa um 36% af atkvæðavægi sínu við gildistöku Lissabon-sáttmálans í þessu efni hinn 1. nóvember 2014 og verða þá með einungis 1,85% atkvæðavægi.

Vilji ráðamanna í Brussel, París og Bonn er alveg ljós: meiri samlögun og stefna á sambandsríki, enda var sú jafnvel stefna ESB-þingsins strax fyrir aldamótin. Joschka Fischer, fyrrv. utanríkisráðherra Þýzkalands, tjáir vel þennan vilja ESB-ráðamanna í grein, sem birtist eftir hann í Mbl. í dag, þar sem hann segir m.a.:

  • "Það hefur lengi verið ljóst hvað þarf að gera. Verðmiðinn á því að myntbandalagið komist af, og þar með Evrópuverkefnið, er nánara samstarf: bankabandalag, fjármálabandalag og stjórnmálalegt bandalag. Þeir, sem eru þessu mótfallnir vegna þess að þeir óttast sameiginlega ábyrgð, tilfærslu fjármuna frá ríkum til fátækra og að missa fullveldið, munu þurfa að sætta sig við endurkomu þjóðríkisins í Evrópu ..." o.s.frv. 

Íslendingum er það hins vegar fullljóst, að þeir vilja halda sínu þjóðríki. Að munztra okkur á björgunarskip evrunnar gæti hins vegar orðið okkur skeinuhætt. Tilraunin er í reynd líkleg til að mistakast, enda gæti evran sjálf staðið stórveldisdraumum ráðamanna ESB* fyrir þrifum, og því fáum við líka þessi viðbrögð frá Þýzkalandi (með orðum Páls Vilhjálmssonar):

Fjármálaráðherra Þýskalands, þegar evran varð að mynt Evrópusambandsins, Oskar Lafontaine, afneitar afkvæminu og vill gjaldmiðilinn feigan áður en sambandið splundrast. 

* Sbr. stórveldisyfirlýsingar tveggja forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors (1985-1995) og Barrosos (2004-2013-).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is 9% Svía vilja taka upp evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn S. Stefánsson: Næst förum við öðru vísi að

Jóhannes Snorrason (1917-2006), yfirflugstjóri, beitti sér mjög gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sem tekist var á um fyrir einum tveimur áratugum. Ég kynntist honum í þeirri baráttu. Hann sagði mér þá, af hverju hann væri knúinn í baráttunni. Það var þannig, að hann lærði að fljúga í Kanada í stríðinu, og fyrst eftir stríð flaug hann milli Kanada og Evrópu. Eitt sinn varð hann í vélinni áheyrandi að tali þýskra farþega, Þeir hafa væntanlega ekki gert ráð fyrir, að flugmaður á kanadískri vél skildi þýsku, eins og Jóhannes gerði eftir menntaskólanám á Akureyri. Þeir þóttust eiga dálítið undir sér, heyrðist honum. Stríðslokin voru rædd, og þeir sögðu: Næst förum við öðru vísi að. Jóhannes kvaðst líta á myndun Evrópska efnahagssvæðisins í þessu ljósi -- með því sæktu þjóðverjar fram -- og orð þeirra sóttu á hann.

Í vetur hitti ég í fyrsta sinn eftir tuttugu ár son Jóhannesar, Snorra bónda á Augastöðum í Hálsasveit og refaskyttu. Það var í Snorrastofu (Sturlusonar) í Reykholti. Hann flutti þar erindi um refinn. Á eftir ræddi ég við Snorra um sögu Jóhannesar af samtali þýsku farþeganna og hvers vegna hann hafði hana ekki með um árið í skrifum sínum. Mér hafði dottið í hug, að sem flugmaður hafi hann almennt verið bundinn trúnaði um það, sem hann yrði vitni að í starfi, þótt hann segði mér þetta að vísu. Snorri taldi, að trúnaðinum hlyti nú að vera aflétt.

Í Morgunblaðinu 11. f.m. er grein eftir Atla Harðarson, sem lýsir því, hvernig nú er farið að því að taka Ísland. Það var öðru vísi farið að fyrir stríð, þegar þjóðverjar voru hér undir ýmsu yfirskini. Síðar mátti átta sig betur á því. Grein Atla heitir Hvernig er hægt að komast í Evrópusambandið þótt flestir vilji vera fyrir utan það?

Morgunblaðinu, 1. maí 2013; endurbirt hér með leyfi höfundar, sem er dr. scient.


Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera

Í upplýsandi grein  á Mbl.is í gær* kveður Már Wolfgang Mixa niður klisjutal á borð við að upptaka evru myndi galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.

"Gaman væri ef lífið væri svo einfalt," segir hann. "Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir."

  • "Samfylkingin fjallaði ... nánast ekkert um fjármál [í kosningabaráttunni]. Það var eiginlega aðeins eitt atriði; upptaka evru.
  • Þrátt fyrir að almenningur virtist hafa takmarkaðan áhuga á Evrópumálin í aðdraganda kosninga ákvað Samfylkingin að spila enn einu sinni evrutrompinu um að upptaka hennar myndi leiða til lægri fjármagnskostnaðar. Í (hræðilegri) auglýsingaherferð var meðal annars vitnað í að íslensk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar en evrópsk fjölskylda borgar sitt aðeins einu sinni. Ekki kom fram í auglýsingarherferðinni hvort verið væri að miða við raunvirði eða nafnvirði né hvort miðað væri við sambærileg lán hvað meðallengd varðar. Skilaboðin eru hins vegar augljós: Upptaka evru myndar einhverja galdralausn við að lækka fjármagnskostnað." (Framhaldið svo eins og hér ofar sést, en greinin er mun lengri.)
Hér afhjúpast billegar aðferðir Samfylkingar til að reyna að stöðva fylgishrun sitt. Lyginni um, að "íslenzk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar, en evrópsk (sic) aðeins einu sinni," var haldið að kjósendum hér, m.a. af svo ábúðarmiklum manni sem Magnúsi Orra Schram þingflokksformanni, sem mælir sýknt og heilagt með Evrópusambandinu, en ekki dugðu honum þessi ósannindi til að halda þingsæti sínu. Hann ætti í komandi fríi að hressa við hagfræðiþekkingu sína og sér í lagi reikningskunnáttuna.

 

* Hér er greinin opin öllum að lesa: Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka. Á þessum tengli er hins vegar hægt að hlusta á Má ræða þessi mál á Mbl Sjónvarpi.

Jón Valur Jensson.


Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera

Í upplýsandi grein Mbl.is í gær* kveður Már Wolfgang Mixa niður klisjutal á borð við að upptaka evru myndi galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.

"Gaman væri ef lífið væri svo einfalt," segir hann. "Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir."

* Hér er greinin opin öllum að lesa: Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka. Á tenglinum hér fyrir neðan er hins vegar hægt að hlusta á Má ræða þessi mál á Mbl Sjónvarpi.


mbl.is Óvönduð útlán í íslensku bankakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott mótmæli Heimssýnar

Glæsilega heppnaðist mótmæla-átak Heimssýnar-fólks í dag, 1. maí, með þátttöku í göngu niður Laugaveg og útifundi á Ingólfstorgi. Hátt í 60 manns báru mótmælaspjöld og stóra borða, og margir aðrir fylgdu með, samherjar í baráttunni gegn inntöku Íslands í Evrópusambandið.

Á spjöldin var m.a. ritað: NEI við ESB og ESB – NEI TAKK, og meðal þeirra, sem báru borðana, voru þrír fyrrverandi þingmenn, Jón Bjarnason, Atli Gíslason og Bjarni Harðarson.

Samtökin Heimssýn stóðu fyrir fullveldisgöngu gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu í dag, 1. maí. Yfir eitthundrað manns tóku þátt. <em>Heimssýn</em>

Það var gleðilegt að taka þátt í þessu, og margir eldri samherja sá maður á svæðinu (á myndinni má m.a. kenna Guðna Karl Harðarson, sem sat með undirrituðum í stjórn Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, Kristínu Snæfells Arnljótsdóttur og Árna Thoroddsen). Áhrifamenn í Heimssýn voru þarna vitaskuld, Gunnlaugur Snær Ólafsson, Halldóra Hjaltadóttir, Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi, Ásgeir Geirsson úr Reykholti, formaður Ísafoldar, o.fl. Skoðið fleiri myndir, sem fylgja frétt Mbl.is (tengill neðar), einnig á Facebókarsíðu Nei við ESB.

En það var líka frábært að kynnast nýju baráttufólki á svæðinu og efla samstöðuna bæði á vettvangi og yfir góðum kaffisopa eftir á í rúmgóðri skrifstofu Heimssýnar að Hafnarstræti 18.

Meira af svo góðu, Heimssýnarfólk og fullveldissinnar allir! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Mótmæltu hugsanlegri ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metatvinnuleysi á Spáni og Frakklandi: hátt í 10 milljónir!

Á 2. og 4. stærstu hagkerfum evrusvæðisins, Frakklandi og Spáni, fjölgar stöðugt atvinnulausum.

Rúv-frétt í gær: Atvinnuleysi á Spáni meira en 27%. Þar segir m.a.: "Á síðasta ársfjórðungi í fyrra var atvinnuleysið 26,2%. Atvinnulausum fjölgaði um tæplega 240 þúsund milli ársfjórðunga [fleiri en allir starfandi menn á Íslandi] og eru nú 6,2 milljónir án vinnu á Spáni." [Leturbr. og innsk. jvj.]

Á Mbl.is er nánari frétt af þessu,* þar sem m.a. segir: "Atvinnuleysi hefur ekki verið meira á Spáni síðan árið 1976, ári eftir dauða einræðisherrans Franciscos Franco." 

  • Sífellt fleiri eru án atvinnu í Frakklandi og í mars bættust 36.900 manns við atvinnuleysisskrána. Það eru því rúmlega 3,2 milljónir manna í atvinnuleit í landinu nú um stundir (Mbl.is.), það mesta frá 1997. 

Sem sé: Hátt á 10. milljón manna án atvinnu í þessum tveimur löndum! Ekki er þetta björgulegt, eða hvernig eiga stór ESB-ríki eins og Frakkland að bjarga þeim veikari eins og Kýpur, Grikklandi, Portúgal og Írlandi, ef sífellt hallast meira á verri hliðina hjá þeim sjálfum?

Samt er "evruland" óskaland og útópía Samfylkingar og "Bjartrar framtíðar"!  

* Metatvinnuleysi á Spáni

Jón Valur Jensson.


mbl.is 3,2 milljónir Frakka í atvinnuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking: flokkurinn sem má blygðast sín gagnvart fullveldissinnuðum Íslendingum

Sá Össur Skarphéðinsson, sem með gróflegum hætti tók fundarstjórn yfir drjúgan tíma í Sjónvarpi í fyrrakvöld, greip fram í og hélt svo uppi ítrekuðum spurningum í ræðutíma annarra, fyrir utan ýmis billeg eigin rök, reynir nú að spana Samfylkingarmenn upp í að skrökva því að þjóðinni, að vinstri stjórnin hafi "unnið afrek"!

Ekki bað hann flokksmenn sína, þrátt fyrir fríverzlunarsamnng við Kína, að fyrirgefa sér frumhlaup Samfylkingar-þingmanna með ólögmætri ESB-inntökuumsókn og þvingun Vinstri grænna undir það jarðarmen, sem síðan hefur kostað okkur á annan milljarð í ríkisútgjöldum.

Nei, áfram skal haldið, og með hjálp "hagstæðra" "fréttamanna" á bæði Ríkisstjórnarútvarpi og 365-fjölmiðlum er reynt að standa áfram gegn þeim 70% þjóðarvilja: að fara EKKI inn í ESB, með því að halda því sífellt fram, að við getum ekkert vitað um "endanlegan samning", fyrr en hann hafi allur verið skrifaður, og þess vegna þurfi að "halda samningaviðræðum áfram"! Þessu trúa mjög margir þeirra, sem vilja í könnunum halda þessu ferli áfram.

Því er svo haldið fram, að við "fáum pakkann" eftir 1-2 ár -- eitt ár segja þeir, sem ljúga hér blákalt, gegn mati aðalmannsins Stefáns Hauks Jóhannessonar, sem bendir á, að þetta taki tvö ár, enda er aðeins 11 af 33 eða 35 "köflum" lokið á þremur árum. Á þá að ljúka 22 (þar á meðal þeim erfiðustu) á einu ári?!! Gleymið því, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir! -- nær væri að tala um þrjú ár!

Svo verður ekki um neinn "samning" að ræða. Lagaverk Evrópusambandsins er "non-negotiable" með þess eigin orðum! Fyrirbærið heitir ekki "samningur" á erlendum málum, heldur accession treaty (inntökusáttmáli), sem er sami accession treaty eins og hjá öðrum nýjum ESB-ríkjum (enda gjarnan gerður við nokkur þeirra í einu, sbr. HÉR : ríki sem við öll þekkjum!), með örfáaum undantekningaratriðum fyrir hvert ríki og þá að meirihluta til tímabundnum.

Hvað eru t.d. komin mörg raunveruleg samningsatriði út úr þessum 11 loknu köflum? Er það ekki einhver sægur af íslenzkum hagsmunamálum, sem náð hefur þar í gegn? Nei, því er ekki að heilsa, heldur einungis fjögur atriði skv. Stefáni Hauki Jóhannessyni! Flest eru þau alger smáatriði í íslenzku þjóðlífi og þjóðarbúskap, eins og : að við höldum hér fyrirkomulagi okkar á áfengis- og tóbakssölu, sem og, að EF við förum út í að selja rafmagn til meginlandsins með sækapli, þá megum við sækja um styrk til þess! Já, upp á náð og miskunn Evrópusambandsins! Og þriðja: að Ísland fái að hafa sína sérútfærslu á reglum um frjálsa för vinnuafls. Einungis fjórða atriðið virðist þungvægt: að Ísland sé og verði herlaust land. En sá texti er reyndar teygjanlegur, og í svörum Stefáns um þessi fjögur atriði liggur almennt ekki fyrir, hvort þau verði varanleg eða tímabundin. (Flestar undanþágur Möltu, sem varð meðlimaríki ESB 1.5. 2004, eru t.d. nú þegar útrunnar.)

Af hverju tók Össur ekki þennan "poka" með atriðunum fjórum með sér til að "opna" hann á Samfylkingarfundinum? Af hverju auglýsti hann ekki þennan "glæsilega árangur" og þessi "afrek" í þættinum í Sjónvarpi í fyrrakvöld, til að sýna, að hans menn, ESB-predikarinn Þorstein Pálsson & Co., lögðu ótrúlega mikið á sig til að fá ómetanlega hluti í aðra hönd fyrir okkur Íslendinga gegn því lítilræði að lofa upptöku 100.000 blaðsíðna af lögum og reglugerðum Evrópusambandsins ... og að halda síðan áfram að taka við ÖLLUM lögum og tilskipunum þaðan til eilífðarnóns! ... og að lofa því, að þau lög skuli hafa allan forgang fram yfir íslenzk lög, ef þau rekast hver á annars horn!

Samfylkingin hefur trúlega brotið stjórnarskrána ítrekað í þessu ESB-"ferli" sínu, eins og leidd hafa verið rök að hér á vefsetrinu. Slíkt á ekki að afsaka né að klappa yfir það á fundum Samfylkingar og í meðferð hlutdrægra fjölmiðlamanna, heldur er þetta trúlega Landsdómsverkefni og það án tafar.

PS. Og vegna orðalags ráðherrans -- sem er að missa umboð sitt þrátt fyrir stjórnunartakta sína, sem nefndir voru hér fyrst í greininni -- já, vegna orðalags hans* í neðangreindri frétt alveg undir lokin, þá má spyrja hér að lokum: hve margir eru "fleiri en færri", Össur Skarphéðinsson? En slík grautarhugsun á kannski ágætlega við í höfði þessara ringluðu, úrræðalitlu evrókrata.

* "Ef það tekst þá munu fleiri en færri vakna steinhissa morguninn eftir kosninganóttina." 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Bognar stundum en brestur aldrei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemst þá evran aldrei til fullorðinsára?

„Ég held að evran eigi sér takmarkaðar lífslíkur," segir dr. Kai Konrad, formaður ráðgjafarnefndar í þýzka fjármálaráðuneytinu! Hann telur að vísu Evrópusambandið mikilvægt, en ekki evruna.

Hvað segir nú Árni Páll Árnason, erfingi evru-maníu Samfylkingarinnar, við þessum fréttum? Gerir hann sér kannski ferð til Berlínar til að leiðrétta meintan misskilnings þessa sérfræóða manns?

En um þetta má fræðast nánar gegnum tengil hér neðar.

JVJ.


mbl.is Telur lífslíkur evrunnar takmarkaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonlaus hópur siðferðislegrar uppgjafar í "Evrópustofu"-máli í kosningaumræðu

Á sama tíma og 52,2% manna eru á móti inngöngu í Evrópusambandið og aðeins 27,6% fylgjandi henni, skv. skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ,* stendur "tilvonandi ný stjórnmálastétt" í langri röð í Sjónvarpi (öll nema tveir) til að lýsa því yfir, að þau vilji EKKI loka 230 milljóna áróðursapparati "Evrópustofu"!!! En þvílík er reyndar "upplýsingin" í starfsemi þeirrar stofu, að henni er ekki einu sinni gefið eðlilegt nafn: Evrópusambandsstofa.

Svik stjórnmálastéttar við þjóðina hafa átt sér stað áður, bæði hér á landi – í Icesave-málinu (m.a. fyrir tilstuðlan Bjarna Benediktssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur) – og í Noregi og víðar.

Í Noregi lagðist mestöll stjórnmálastéttin af öllu afli á ESB-árarnar 1993–4, ásamt atvinnurekendum, fjölmiðlum og verkalýðsforystunni. Grasrótarhreyfingar börðust gegn þessu, og þrátt fyrir ofurflæði ESB-áróðurs, sem fjármagnaður var frá Brussel, tókst með naumindum að afstýra því, að þjóðaratkvæðagreiðslan um inntöku landsins í ESB færi á versta veg. Þar var svo mjótt á mununum, að einungis 52,2% sögðu NEI við því að landið "gengi í" Evrópusambandið, en 47,8% sögðu "já". Svona litlu munaði, að landið glataði fullu forræði sínu.

Nú andar norska þjóðin léttar, að ekkert varð af "inngöngunni" – að Noregur stendur sterkur og frjáls, laus undan yfirráðum ESB-risaveldanna í fiskveiðimálum landsins. Og fullvíst má telja, að ef Noregur væri þarna "inni", myndi Evrópusambandið þar að auki með tímanum fara að beita sínum valdheimildum** til að stýra olíunýtingunni þar, rétt eins og að koma á "jöfnum aðgangi" að fiskveiðiauðlindinni.

Þvílíkt siðferðisástand á þessum frambjóðendum að hafa ekki bein í nefi til að segja hreint og klárt JÁ við lokun "Evrópustofu". Einungis Bjarni Harðarson í Regnboganum hafði það hugrekki til að bera. Jafnvel þótt Frosta Sigurjónssyni mæltist um margt afar vel um það mál í þættinum, þá sprakk hann á limminu undir lokin – í "einhverju lengsta svari við já/nei-spurningu" gat ekki fengið af sér að segja JÁ, heldur endaði á því að stynja upp: "Ég held að það þurfi að skoða"!!!

Bjarni hafði þarna hina þjóðhollustu afstöðu og hefði þó getað nýtt ræðutíma sinn um ESB-mál betur framan af; það hefði verið betra fyrir málstaðinn, því að þegar Bjarna tekst vel upp, er hann frábær ræðumaður og virðist fara létt með að standast samanburð við snilld Demosþenesar hins málhalta. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir lét sig hins vegar ekki muna um það að ganga þarna í fótspor Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og VERJA framhald á áróðursstarfsemi "Evrópustofu" þvert gegn eindregnum vilja yfirgnæfandi meirihluta landsfundar sjálfstæðismanna!! Þetta eru SVIK ráðamanna flokksins við vilja grasrótarinnar og vald landsfundar, sem á að vera það æðsta í málefnum flokksins – hliðstæð svik og hið "ískalda mat" Bjarna Ben. í Icesave-málinu, sem losað hefur um flokkshollustu svo margra.

Þetta er sorglegt ástand á íslenzkri pólitík og "tilvonandi" stjórnmálastéttar, ef þetta á að verða andinn á nýju Alþingi! Sem betur fer er þarna meðfram um pólitískt illa áttað 101-lið úr smáflokkum að ræða, fólk eins og fulltrúa Pírata, sem treysta þó á stuðning anarkista og sósíalista sem andvígir eru auðhringum í ESB ekkert síður en í Bandaríkjunum (og samt talar Smári McCarthy eins og heilaþveginn ESB-sendill), "Lýðræðisvaktarinnar", Dögunar og jafnvel Flokks heimilanna.

Tókuð þið eftir því, í þessum umræðuþætti frambjóðenda um utanríkismál í Sjónvarpi í kvöld, hve viss í sinni sök Össur var, að Ísland myndi ganga í Evrópusambandið?! Hann vissi sem var, að þetta stórveldi og yfirstétt þess mun láta kné fylgja kviði, m.a. með gegndarlausum áróðri hér eins og í öðrum "umsóknarlöndum", við að framfylgja eindreginni stefnu sinni og ósk valdfrekustu landanna þar*** að innlima þetta land okkar og miðin. En látum þessum manni ekki verða að ósk sinni – og hleypum honum aldrei í Brussel-elliheimilið, sem Bjarni Harðarson talaði um, í okkar boði!

Að lokum skulum við minnast þess, að stuðningur stjórnarsinna við 230 milljóna áróðursapparatið Evrópu[sambands]stofu virðist skýrt brot á 88. gr. landráðalaganna.

Athafnasemi Evrópusambandsins í áróðursmálum á trúlega eftir að stóraukast : mest orkan sett í lokabaráttuna, þegar dregið gæti að hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. En jafnvel þegar á liðnu ári voru réttarbrot ESB-manna í þessu efni orðin svo augljós og ófyrirleitin, að íslenzkur fyrrverandi sendiherra, Tómas Ingi Olrich, sá sig knúinn til þess að rita um það blaðagreinar til að afhjúpa, hvernig bæði "Evrópustofa" og framferði ESB-sendiherrans Timos Summa braut í bága við alþjóðlegar skyldur sendiráða samkvæmt bæði íslenzkum lögum og Vínarsáttmálanum. Sjá hér greinar hans: Summa diplómatískra lasta (eitilsnjöll grein í Mbl. 2. apr. 2012), sbr. pistil á þessu vefsetri: Lögleysu-athæfi sendiherra.

* Þetta er nýbirt könnun. Af þeim, sem afstöðu tóku, eru þannig 65,4% andvíg inngöngu í Evrópusambandið, en 34,6% hlynnt henni.

** Í orkumálabálki Lissabon-sáttmálans.

*** Sbr. að þýzkir ráðamenn, franskir, spænskir og brezkir hafa lýst yfir eindregnum ásetningi um að fá Ísland inn, talað um strategískan ávinning af því og lýst ágirnd sinni í fiskiauðlindir hér.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meirihluti á móti inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarstæða að við fengjum að halda íslenskri stjórn á okkar miðum eftir inngöngu í ESB

Jón Kristjánsson fiskifræðingur ritar:

Fullyrðingar ESB-sinna um að við höldum yfirráðarétti okkar yfir fiskimiðunum með því að semja sérstaklega við ESB eru orðnar afskaplega þreytandi. Þær eru rangar, menn þurfa ekki annað en að lesa sáttmála sambandsins til að komast að því að þar gildir reglan um "equal access" [jafnan aðgang] fyrir allar þjóðir sambandsins.

Við Magnús Þór Hafsteinsson, ásamt Friðþjófi Helgasyni myndatökumanni, vorum í Peterhead í Skotlandi 2003 og Magnús tók þá viðtal við Tomas Hay, formann skosku sjómannasamtakanna FAL, en hann hætti nýlega aldurs vegna og er nú heiðursformaður samtakanna.

Tom Hay segir þar allt sem segja þarf um yfirráða þjóða í ESB yfir eigin fiskimiðum.

Þetta er mjög sterkt viðtal og ætti að vera skyldulesning öllum, sem um sjávarútvegsmál fjalla.

Aðalástæðan fyrir minnkun breska fiskveiðiflotans er stöðugur niðurskurður aflaheimilda, sem ESB ákveður í takt við ráðleggingar ICES. Það þýðir lítið fyrir þá að mótmæla niðurskurði, það er Brussel sem ákveður kvótana. Þar er nú við stjórn grísk frú, sem hefur lítið vit á fiskveiðum og er haldin græningjahugsjónum.

Gleymum ekki heldur að Samherji komst yfir allan úthafsveiðikvóta Breta með því að kaupa útgerðir, sem voru í kröggum.

Það er fjarstæða að halda því fram að við getum fengið að halda íslenskri stjórn á okkar miðum eftir inngöngu í ESB. Bretar, já einmitt Bretar, hafa sagt að þeir myndu aldrei samþykkja að Íslendingar fengju varanlegar undanþágur frá CFP [Sameiginlegu fiskveiðistefnunni hjá ESB], en allar þjóðir verða að veita samþykki sitt við slíku ef svo ólíklega vildi til að þetta kæmi til athugunar.

Jón Kristjánsson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband