Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera

Í upplýsandi grein  á Mbl.is í gær* kveður Már Wolfgang Mixa niður klisjutal á borð við að upptaka evru myndi galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.

"Gaman væri ef lífið væri svo einfalt," segir hann. "Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir."

  • "Samfylkingin fjallaði ... nánast ekkert um fjármál [í kosningabaráttunni]. Það var eiginlega aðeins eitt atriði; upptaka evru.
  • Þrátt fyrir að almenningur virtist hafa takmarkaðan áhuga á Evrópumálin í aðdraganda kosninga ákvað Samfylkingin að spila enn einu sinni evrutrompinu um að upptaka hennar myndi leiða til lægri fjármagnskostnaðar. Í (hræðilegri) auglýsingaherferð var meðal annars vitnað í að íslensk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar en evrópsk fjölskylda borgar sitt aðeins einu sinni. Ekki kom fram í auglýsingarherferðinni hvort verið væri að miða við raunvirði eða nafnvirði né hvort miðað væri við sambærileg lán hvað meðallengd varðar. Skilaboðin eru hins vegar augljós: Upptaka evru myndar einhverja galdralausn við að lækka fjármagnskostnað." (Framhaldið svo eins og hér ofar sést, en greinin er mun lengri.)
Hér afhjúpast billegar aðferðir Samfylkingar til að reyna að stöðva fylgishrun sitt. Lyginni um, að "íslenzk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar, en evrópsk (sic) aðeins einu sinni," var haldið að kjósendum hér, m.a. af svo ábúðarmiklum manni sem Magnúsi Orra Schram þingflokksformanni, sem mælir sýknt og heilagt með Evrópusambandinu, en ekki dugðu honum þessi ósannindi til að halda þingsæti sínu. Hann ætti í komandi fríi að hressa við hagfræðiþekkingu sína og sér í lagi reikningskunnáttuna.

 

* Hér er greinin opin öllum að lesa: Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka. Á þessum tengli er hins vegar hægt að hlusta á Má ræða þessi mál á Mbl Sjónvarpi.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Signt og heilagt" á það væntanlega að vera...

Jón Steinar Ragnarsson, 3.5.2013 kl. 21:17

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér nafni, en sýknt og heilagt átti þetta að vera hjá mér, ég tók ekki eftir, að n-ið vantaði. Og þannig er ég vanur þessu málblómi, kannast ekki við "signt og heilagt".

Jón Valur Jensson, 4.5.2013 kl. 01:32

3 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Fyrir einhver tæknimistök hefur greinin birzt aftur og þá án Mbl.is-tengilsins, en pistillinn sjálfur í lengri mynd. HÉR er fyrri birtingin, og þar undir er fréttartengillinn.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 4.5.2013 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband