14.5.2014 | 00:49
Eitthvað fyrir ráðvillta að læra af
Norðmenn hafa tvívegis "kíkt í pakkann" með mikilli fyrirhöfn, þekkja hann betur en við, en 70% þeirra vilja ekki í ESB, aðeins 20% vilja inn! Og aðeins 32% íbúa ríkja Evrópusambandsins bera traust til sambandsins skv. nýrri skoðanakönnun sem gerð var á vegum þess sjálfs, en 59% treysta Evrópusambandinu ekki. Glæsilegt, ekki satt? Þetta er þó fólkið sem hefur beina reynslu af þessu stórveldabákni.
- Mest vantraust er í garð Evrópusambandsins á Kýpur (74%), í Portúgal (70%), á Ítalíu (69%) á Spáni (67%) og í Bretlandi (66%). Mest traust á sambandinu er í Eistlandi og Rúmeníu (58%), Finnlandi (50%) og Belgíu og Möltu (49%).
- Þegar hins vegar spurt var um afstöðu fólks til Evrópusambandsins sagðist rúmur þriðjungur, eða 34%, hafa annaðhvort mjög eða frekar jákvæða afstöðu til Evrópusambandsins. Þar af 4% mjög jákvæða. (Mbl.is)
Allmargir (þó ekki eins margir, þ.e. 26%) hafa frekar eða mjög neikvæða afstöðu til sambandsins. Þar af 6% mjög neikvæða, en 38% sögðust hins hvorki hafa jákvæða né neikvæða afstöðu til þess. (Mbl.is.)
Væri nú ekki ráð fyrir ráðvillta hér á landi að læra eitthvað af þessu?
Jón Valur Jensson.
![]() |
Meirihlutinn ber ekki traust til ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skoðanakannanir | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um sama leyti og 70% Norðmanna eru andvíg inngöngu landsins í Evrópusambandið og aðeins 20% fylgjandi, segjast 49,5 aðspurðra hér í MMR-könnun andvíg ESB-inngöngu, en 37,3% hlynnt henni. Hvað veldur? Fáfræði manna hér? Stöðugur ESB-áróður í ríkisfjölmiðlum árum saman? Landsölustefnan á fullu í 365 fjölmiðlum og DV? Hundruð milljóna króna sem ESB hefur fyrir ótrúlega meðvirkni og aumingjaskap ráðamanna hér komizt upp með að ausa í Evrópustofu? IPA-styrkirnir? Mútukenndu boðsferðirnar til Brussel eða allt þetta í senn?
Það er furðulegt, að ráðamenn uni því hér árum saman, hvernig misskipt er aðstöðu manna og samtaka til áhrifa með því að skrúfa fyrir fé til sumra, en opna allt upp á gátt til annarra! Evrópustofa mun eyða yfir hálfum milljarði í sinn áróður, verði hún ekki stöðvuð.
Þetta minnir á Icesave-málið: Ófyrirleitnu lygasamtökin Áfram Ísland! voru fjármögnuð af Samtökum fjármálafyrirtækja, SA, SI og öðrum til viðleitni sinnar að fá Icesave-svikasamningana samþykkta ...
- Sem start-gjald veittu þessi samtök Áfram-hópnum milljón krónur, hvert fyrir sig. Alls munu styrkir sem Áfram-hópurinn þáði hjá fyrirtækjum og almanna-samtökum hafa numið 20 milljónum króna. Til samanburðar fekk Samstaða þjóðar gegn Icesave um 20 þúsund krónur frá fyrirtækjum og almanna-samtökum.*
Hér er athyglisvert að sjá þróun ESB-skoðanakannana MMR á myndrænan hátt
* Sjá hér: samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1286301/ (endilega smellið á tengilinn og skoðið hvaða fólk þetta var m.a. úr "Bjartri framtíð"!).Jón Valur Jensson.
![]() |
37,3% vilja ganga í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2014 | 18:28
Svikaferli
Svikasátt er það við þá, sem enn reyna að fremja valdarán á Íslandi, að ríkisstjórnin hugsi sér að heykjast á því að hætta formlega við Össurarumsóknina um inntöku landsins í stórveldi. Ekkert mál er stærra né meira aðkallandi en að losa þjóðina undan þessu sundrungarvaldandi máli, sem keyrt var í gegn með stórfelldum kosningasvikum og stjórnarskrárbroti árið 2009.
Vitað er, að Samfylkingin þvingaði Vinstri græn til að fylgja sér í AGS-, Icesave- og ESB-málunum við stjórnarmyndun 2009, þvert gegn stefnu VG! Vinstri grænum hafði jafnvel stóraukizt fylgi í kosningunum 2009 út á það að formaðurinn uppteiknaði flokkinn sem skeleggastan allra flokka GEGN Evópusambandsumsókn. Svo var jafnvel það fylgi notað gegnum umboðs-svíkjandi kjörna þingmenn VG til að sækja um inntöku Íslands í stórveldið!
Samfylkingarforingjarnir láta sem sjálfstæðis- og framsóknarmenn hafi verið að svíkja kosningaloforð sín frá í vor (þótt landsfundur og flokksþing flokkanna hafi skýlaust viljað viðræðuslit og enga ESB-aðild), en þessir bleiku blekkjendur voru samt sjálfir meðvirkir í því (Árni Páll og Katrín Júl. sem ráðherraefni Samfylkingar 2009) að þvinga Steingrím og VG-þingflokkinn til að svíkja sín kosningaloforð með því að taka þátt í ólögmætu atferli kratanna í ESB- og Icesave-málunum.
Framið var stjórnarskrárbrot með afgreiðslu ESB-málsins 2009 og margföld brot gegn rétti Íslands og þjóðarhagsmunum í Icesave-málinu, til þókknunar ESB, sem sjálft reyndi blákalt að kúga okkur í því máli, þvert gegn eigin tilskipun frá 1994!
En nú má ætla, að hugdeigir menn í Sjálfstæðisflokki hafi hugsað sér að gefast upp fyrir þessu hræsnisfulla liði og aðdáendum Evrópusambandsins! Til hvers er þá slíkur flokkur, ef leiðtogar hans SVÍKJA LANDSFUND ÍTREKAÐ? Hvenær kemur að því, að landsfundur neyðist til að víkja slíkum leiðtogum frá að fullreyndu?
Jón Valur Jensson.
![]() |
Samkomulag um þinglok |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 11.5.2014 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2014 | 14:34
Hálfnað er verk þá hafið er
Þar sem það er á hreinu, að "þessi ríkisstjórn er ekki að fara í viðræður við Evrópusambandið, eins og Bjarni Benediktsson sagði í morgun, enda búið að segja upp 70 starfsmönnum við þessa vitleysu í utanríkisráðuneytinu og báðir ráðandi stjórnmálaflokkar alfarið andvígir því að landið fari inn í Evrópusambandið, þá er augljóst mál, að þingmeirihlutinn hefur til þess fulla heimild að fylgja eftir flokkssamþykktum sínum í þessu efni.
Hálfnað er verk þá hafið er. Verkefnið er að slíta viðræðunum formlega og endanlega. Hugdeig er ríkisstjórnin, ef hún lætur smáfund á Austurvelli hræða sig frá þessu þarfasta máli þjóðarinnar, því sem getur loksins gefið mönnum nokkurn frið frá því að slást endalaust við það stórveldi sem vill komast yfir okkar 855.000 ferkílómetra í NV-Atlantshafi.
Þótt menn geti velt því fyrir sér eftir á, hvort það hefði ekki verið betur ráðið að bíða með tillögu utanríkisráðherrans í viku tíu daga, þá er alveg ljóst, að þingið hefur nú haft meira en nógan tíma til að afgreiða það mikilvægasta mál vorþingsins. Einurð í málinu á aðeins til lengdar að efla traust á þeim, sem að því standa.
Vilji Samfylkingin og einhverjir með henni fitja upp á vitleysunni á ný, yrðu þeir að gera það upp á eigin spýtur, ekki með óbeinni hjálp núverandi stjórnarflokka, heldur með því að sækja um á ný.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Evrópumálið of fyrirferðarmikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í Vinnunni, blaði ASÍ í dag, er hann með áróður fyrir ESB, sami refurinn og tók þátt í áróðri gegn okkur í Icesave-málinu!*
Verkalýðshreyfingin tók afgerandi þátt í stuðningi við útfærslu landhelginnar í 12, 50 og 200 mílur, skipulagði fjölmennar mótmælaaðgerðir í miðbænum og við brezka sendiráðið, en Gylfi leggst á sveif með því stórveldi sem myndi svipta okkur einkarétti til veiða nema innan við 12 mílur!
Mótmæli verða gegn ESB-stefnunni í göngunni frá Hlemmi kl. 13.30 niður á Ingólfstorg. Þeir, sem vilja fá mótmælaspjöld, létt og góð í hendi, með afgerandi boðskap, geta fengið þau hjá Heimssýnarfólki á Hlemmi og e.t.v., ef eitthvað verður eftir, á leið niður Laugaveginn. Bezt er að mæta upp úr kl. 13 eða 13.15 til að finna sína samherja og kynnast öðrum á þessum degi íslenzks verkalýðs.
Hörmulegt er, þegar verkalýðsleiðtogar misnota aðstöðu sína, eins og uppvíst er um formann Bandalags háskólamanna, sem í nafni 10.000 félagsmanna, en án umboðs þeirra eða samráðs, sendi inn umsögn til Alþingis þar sem formaðurinn mælti gegn hinni þörfu tillögu utanríkisráðherrans um viðræðusit við ESB.
Um þetta mál hefur Jón Bjarnason fjallað á Moggabloggi sínu nýlega. En Gylfi Arnbjörns hefur líka ljótan feril í slíkum málum, og er mál að linni! En seint verða evrókratar eins og hann fengnir ofan af því að sleikja sig upp við stórveldið, jafnvel þótt það stórveldi hafi nú þegar gert allt þetta gegn okkar þjóðarhagsmunum:
- Beitt okkur (sem Efnahagsbandalag Evrópu) löndunarbanni vegna útfærslu landhelginnar í 50 mílur 1972.
- Dæmt okkur sekt og greiðsluskyld í Icesave-málinu! -- í gerðardómi síðla hausts 2008, þ.e.a.s. með meirihlutaatvæðum fulltrúa Evrópska seðlabankans (ESB-stofnunar sem Gylfi í auglýstri evru-ásókn sinni í Vinnunni í dag vill setja yfir okkur!), fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fulltrúa ESB-dómstólsins í Lúxemborg -- sem Gylfi & Co. vilja setja setja sem æðsta dómstól yfir Íslandi!).
- Beitt sér harkalega gegn okkur með uppspuna og áróðri og hótunum um löndunarbann vegna réttmætra makrílveiða okkar.
Það eru undirgefnir menn, en alls ekki fulltrúar skeleggra, íslenzkra launamanna í þessum málum, sem leggjast flatir fyrir stórveldinu og beita sér gegn þjóðarhagsmunum. Fari íslenzkur sjávarútvegur undir stjórn ESB og löggjöf stórveldisins --- eins og vitað er fyrir víst og staðfest af öllum æðstu mönnum þar, þ.e.a.s. ef Ísland yrði meðlimaríki í stórveldinu (með 0,06% atkvæðavægi í lagasetningu um sjávarútveg og fiskveiðar í hinu volduga ráðherraráði í Brussel) --- þá yrðu sjávarbyggðirnar að sjá eftir skipum sínum og heilu útgerðunum í hendurnar á spænskum, brezkum, frönskum og þýzkum stórútgerðum. Engin laun fengju starfssviptir íslenzkir sjómenn þar, myndu engu skila í sveitarsjóði í útsvari og engu til ríkisins í tekjuskatt af sínum sjómannstekjum, fyrirtækin myndu engu skila í sköttum, engum veiðigjöldum né tekjuskatti, og þjóðin færi á mis við allar gjaldeyristekjurnar, sem glatast myndu við þetta.
En þessi raunsæja mynd stöðvar ekki Gylfa Arnbjörnsson og hans samherja. Slíkum mönnum þarf að koma frá völdum og það sem fyrst, áður en þeir halda áfram sínum skemmdarverkum eins og þeim sem þeir stóðu fyrir í Icesave-málinu, þeim til ævarandi skammar.*
Sjá einnig þetta:
Lækjartorg 5 (2. hæð)
* Sjá hér: Sbr. einnig: ESB vann beinlínis gegn íslenzkri þjóð frá upphafi til enda í Icesave-atganginum - viðurkennt af áhrifamönnum hér!; Áfram-hópurinn hélt uppi rándýrri áróðursherferð gegn ótvíræðum rétti Íslands í Icesave-málinu ; .... Nánar verður fjallað um þetta og hlut Gylfa í Icesave-málinu síðar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Hátíðarhöld í 31 sveitarfélagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 2.5.2014 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ljóst er að með óbilgjarnri sókn tveggja vinstri flokka með 20% fylgi, en með ótrúverðuga fjölmiðla með sér hafa þeir sett Sjálfstæðisflokk í varnarstöðu í málinu. Nú er komin frétt um að formaður utanríkismálanefndar, Birgir Ármannsson alþm., telji " ólíklegt á þessari stundu að þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að afturkalla umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði afgreidd á þessu þingi." (Mbl.is.)
Utanríkismálanefnd var að koma saman eftir páskafrí og við erum að funda um önnur mál eins og stendur en þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er næst á dagskrá," segir hann, en bætir þó við:
- "Eins og staðan er í dag tel ég ólíklegt að málið klárist fyrir þinglok 16. maí, segir Birgir en segir það þó enn óljóst hvort þingið muni funda strax eftir sveitarstjórnarkosningar. (Mbl.is.)
Ekki lítur þetta vel út fyrir tillögu utanríkisráðherrans, sem hefur þó notið stuðnings ríkisstjórnarflokkanna (að tveimur þingmönnum undanskildum, en jafnmargir úr stjórnarandsöðu eru þó líklegir til að styðja hana, a.m.k. Ögmundur Jónasson).
Þeim mun verr lítur þetta út sem forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, "segir engin áform vera um sumarþing enn sem komið er. Ég hef skipulagt allt starf í samræmi við að þingið ljúki störfum 16. maí, segir Einar," og er fjallað nánar um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ætlar ríkisstjórnin að heykjast á afturköllun ESB-umsóknar vegna flokkshagsmuna? Er það veik staða Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, sem veldur því, að flokkurinn þorir ekki að afgreiða málið af snerpu í þinginu af ótta við áróðursstarfsemi Fréttastofu Rúv og 365 fjölmiðla og tilkallaðra álitsgjafa, stjórnarandstöðu og fárra, en óbilgjarnra aðila í Sjálfstæðiflokki eins og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur? (Vert er að benda þeim, sem hlustað hafa á árásir hennar í sunnudagsþætti Gísla Marteins, á að lesa seinni leiðara Moggans í dag. Þar er hún spurð ágengrar spurningar, sem mundi, ef svarað yrði, leiða í ljós allan hennar ótrúverðugleik í því máli.)
Eins og Hjörtur J. Guðmundsson blm. og Bergþór Ólason fjármálastjóri hafa bent á i nýlegum greinum í Morgunblaðinu, er hið eðlilegasta mál, sem liggur beint við, að afgreidd sé þessi tillaga utanríkisráðherrans á sitjandi þingi. Grein Hjartar, sem tengist umræðu um gjaldeyrismálin og EES, birtist sl. föstudag, 25. apríl, og verður væntanlega rædd hér síðar, en snilldargrein Bergþórs, Öllu snúið á hvolf, birtist í sama blaði sl. laugardag (og var að verðleikum rædd í forystugrein blaðsins í gær). Og hrein snilld er hún út í gegn og vert endurtekningar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Óljóst hvort ESB-tillaga klárast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2014 | 14:31
ESB hefur allt vald yfir "reglunni um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hvers ESB-lands
* Sjá þessa grein: Íslendingar gætu þurft að greiða skaðabætur vegna þorskastríðanna, sem byggir á frétt í Ríkisútvarpinu 9. febrúar 2007. Fréttin er öll afar athyglisverð og langt frá því að vera úrelt, heldur kannski einmitt tímabærari lesning nú en nokkru sinni fyrr. Menn lesi hana alla, sér til upplýsingar (raunar er hún stutt), en ég tek hér upp lokaorð hennar:
- "Reglan um hlutfallslegan stöðugleika fjallar um fiskveiðiréttindi miðað við veiðireynslu þjóða en einnig um skaðabætur vegna tapaðra veiða. Stefán segir hugsanlegt að gangi Íslendingar í Evrópusambandið krefjist aðrar fiskveiðiþjóðir skaðabóta vegna tapaðra veiða þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína."
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Þegar hvorki ríkisstjórn né meirihluti Alþingis vill ganga í Evrópusambandið kemur ekki til greina að Ísland sé áfram umsóknarríki. Þess vegna verður að afturkalla inngöngubeiðnina í Evrópusambandið með algerlega ótvíræðum hætti. Þangað til það er gert, er Ísland umsóknarríki í Evrópusambandið og lýsir því þannig yfir á hverjum degi á alþjóðavettvangi að það stefni í Evrópusambandið. Þess vegna kemur ekkert annað til greina en skilyrðislaus afturköllun inngöngubeiðninnar, og um það þarf enga nefndarfundi, umsagnir eða keyptar skýrslur"
Svo segir í nýlegum pistli á vef Andríkis.
19.4.2014 | 12:10
Sigurður Oddsson verkfræðingur afhjúpar staðreyndir
Stjórnarskráin var það góð að ekki var hægt að framselja vald til ESB án þess að breyta henni. Eftir miklar æfingar gafst almenningi kostur að svara nokkrum spurningum um stjórnarskrá. Valdar voru spurningar, sem flestir gátu svarað játandi. Ekki var spurt um fullveldið. Samfylkingin kallaði svo skoðanakönnunina kosningu, sem hefði samþykkt breytta stjórnarskrá.
Allt kjörtímabilið fékk ESB forgang. Björgun heimila sat á hakanum.
Sigurður Oddsson
Þetta er úr sláandi góðri grein, Örlagavaldurinn ESB, eftir Sigurð Oddsson verkfræðing í Mbl. 16. apríl. Hann segir þar ennfremur:
Í kosningunum 2009 voru tveir sigurvegarar. Össur lofaði fyrir kosningar að koma þjóðinni í skjól ESB og Steingrímur að halda þjóðinni utan ESB. Steingrímur sveik strax loforðið og myndaði með Samfylkingunni stjórn sem hafði það að markmiði að ganga í ESB. Sveik allt fyrir ráðherrastól. Þau svik verða seint toppuð. Össur beitti öllum brögðum til að standa við sitt. Laug að þjóðin ætti von á pakka frá Brussel, sem borgaði sig að kíkja í. Það gekk þar til Jón og Gunna föttuðu, að ESB myndi ekki aðlaga regluverkið að hagsmunum Íslands. Þá sagði Össur að Ísland þyrfti engar undanþágur.
Jóhanna sást varla í stjórnarsamstarfinu. Steingrímur vann myrkranna á milli að eigin sögn jós út skattpeningum til að rétta af þjóðarskútuna. Össur tók við þar sem Halldór hætti og var mest í ESB sendiferðum. Icesave og stjórnarskráin stóðu í vegi fyrir ESB inngöngu. Í þrígang samdi Steingrímur um Icesave við þá, sem skipuðu okkur á bekk hryðjuverkamanna. Fyrsti samningurinn var svo góður, að hann krafðist þess að þingmenn samþykktu hann óséðan. Jóhanna birtist og tuktaði til þingmenn, sem hún kallaði villiketti. Ef þau frömdu ekki landráð þá veit ég ekki hvað landráð eru.
Margt fleira er í grein Sigurðar, t.d. um óhagræðið af af ýmsu sem komið hefur hingað með ESB-löggjöf (leturbr. hér):
"Í Brussel voru kaflar opnaðir hraðar eftir því sem á leið kjörtímabilið. Mér skilst, að það að opna kafla sé að samþykkja og undirgangast lög og reglugerðir ESB. Oft mörg hundruð eða þúsundir blaðsíðna í einu. Ýmislegt höfum við fengið, sem bendir til að kaflarnir séu ekki vel lesnir. Pósturinn bað mig t.d. að hækka bréfalúgu á útidyrahurð. Hún var of lágt skv. ESB reglugerð. Gefinn var frestur, að öðrum kosti yrði hætt að bera póst til mín. Ég hefi ekki heyrt frá póstinum eftir að ég lét álit mitt í ljós í Morgunblaðspistli. Við höfum líka samþykkt að nota dýrari mengandi Euro-perur. Ný byggingasamþykkt eykur byggingakostnað um 10-15%."
PS: Mjög athyglisverð grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í dag (hann er lesendum hér að góðu kunnur): Páskaegg aðildarsinna: Völd til ESB ekki afturkræf. Jafnvel Bretlandi er sagt að sætta sig við það!
Evrópumál | Breytt 21.4.2014 kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2014 | 21:46
Umsögn Samtaka um rannsóknir á ESB um hina margumræddu þingsályktunartillögu utanríkisráðherrans (send Alþingi)
Umsögn
Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland (kt. 520811-1090)
um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, herra Gunnars Braga Sveinssonar, um að hætta beri aðildarumsókn Íslands að ESB
I: Löggjafarvaldið skal vera í okkar höndum
Það var grundvallaratriði í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld að leitazt var við að fá fullt löggjafarvald aftur inn í landið.
Jón Sigurðsson komst svo að orði í grein í Nýjum félagsritum 1858 (s. 209), að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið". En stuðningsmenn umsóknar hins nauma meirihluta Alþingis 2009 vilja inntöku Íslands í stórveldabandalag sem strax í aðildarsáttmála krefst æðstu og ráðandi löggjafarréttinda yfir landinu!
Þetta síðastnefnda er fullkomlega ljóst af þeim aðildarsáttmálum, sem norska ríkisstjórnin, sú sænska, hin finnska og hin austurríka undirrituðu árið 1994 (en norska þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu). Þar segir strax, rétt við upphaf textans:
"Community law [lög Sambandsins, þ.e. ESB] takes precedence over any national provisions which might conflict with it." Þetta felur í sér, að Evrópusambandslög geta í reynd ógilt alla andstæða lagasetningu aðildarlandanna. Nánar tiltekið segir þarna í aðildarsáttmálanum:
- "... in joining the European Union, the applicant States accept, without reserve, the Treaty on European Union and all its objectives, all decisions taken since the entry into force of the Treaties establishing the European Communities and the Treaty on European Union and the options taken in respect of the development and strengthening of those Communities and of the Union;"
- "... it is an essential feature of the legal order introduced by the Treaties establishing the European Communities that certain of their provisions and certain acts adopted by the institutions are directly applicable, that Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it, and that procedures exist for ensuring the uniform interpretation of Community law; whereas accession to the European Union implies recognition of the binding nature of these rules, observance of which is indispensable to guarantee the effectiveness and unity of Community law."
Þetta allt og fjöldamargt annað um aðildarsamninga Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis (1994) mátti a.m.k. til skamms tíma lesa á þessari vefslóð: http://eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0001010001 (án efa eru skjöl aðildarsáttmálanna til í vörzlu Alþingis).
Af þessu er ljóst, að ESB-lög eru forgangslög á öllu ESB-svæðinu (takes precedence over any national provisions which might conflict with it), en hvað gerist í tilfellum ágreinings um, hvort árekstur sé milli ESB-löggjafar og aðildarríkisins? Jú, þá er túlkunarvaldið Evrópusambandsins, ekki neins gerðardóms milli aðildarríkisins og ESB. Það er nefnilega engum þátttökuríkjum í sjálfsvald sett, hvernig þau túlki lög Evrópubandalagsins, heldur eru þegar til staðar e.k. afgreiðsluleiðir eða vinnuferli ("procedures") sem tryggja [Evrópusambandinu] það, að lög þess haldi fullri virkni sinni og að þau haldist ein og óskipt, þ.e.a.s. að ekki myndist frjálsar og mismunandi túlkunarleiðir, sem einstök ríki geti valið sér að geðþótta, af því að þau henti eiginhagsmunum þeirra.
Inngöngusáttmálinn tryggir því fyrir fram, að túlkun bandalagsins sjálfs fái að ráða, rétt eins og hitt grundvallaratriðið, að lög þess fá ævinlega forgang og ráða úrslitum alls staðar þar sem þau rekast á löggjöf landanna sjálfra í bandalaginu ("Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it").
Það verður ekki haldið og sleppt: þ.e. verið með æðsta löggjafarvald hér, eins og kveðið er á um í 2. gr. stjórnarskrár okkar og allnokkrum greinum þar í viðbót, og verið svo meðlimaríki í stórveldi, sem áskilur sjálfu sér ekki okkur æðsta löggjafarvald. Grundvallarviðmið Jóns Sigurðssonar forseta: að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið", væri þá ekki lengur virt hér í stjórnsýslu okkar og af Alþingi sjálfu. Og þessi fullkomnu löggjafarréttindi okkar, sem okkur tókst að afla okkur í sjálfstæðisbaráttunni og notuðum m.a. með svo farsælum árangri í fjórum útfærslum fiskveiðilögsögu okkar frá 1952 til 1975, úr 3 í 200 mílur, þessi fullkomnu löggjafarréttindi vilja nú ýmsir alþingismenn feig!
Jafnvel þótt framsal stjórnvalds og dómsvalds til Evrópusambandsins í málfnum sjávarútvegs og landbúnaðar væri gríðarlegt afsal sjálfræðis okkar og jafnvel einokunar-nýtingarréttar okkar og framtíðar-eignarhalds á fiskveiðiréttindum hér, þá er hið almenna afsal æðstu löggjafarréttinda Íslands, sem fólgið væri í undirritun aðildarsáttmála með ofangreindu innihaldi, ennþá alvarlegra mál, eins og augljóst á að vera orðið af framangreindu. Sá, sem ræður lögum þjóðar, ræður og með næsta auðveldum hætti framtíð hennar.
Því ber að afturkalla þessa umsókn Össurar Skarphéðinssonar og félaga hans, enda er þjóðin í engri slíkri neyð í því verkefni sínu og hlutskipti að vera sjálfstæð, sem líkja megi við neyð Nýfundnalendinga, þegar þeir um 1950 samþykktu að land þeirra yrði hluti af Kanada.
II: Alvarleg lagabrot, jafnvel gegn sjálfri stjórnarskránni, áttu sér stað með umsókninni um aðild að ESB árið 2009
Ekki dregur það úr nauðsyn afturköllunar umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið, að hún mun ekki hafa átt sér stað án alvarlegra stjórnlagabrota og brota á alvarlegasta kafla almennra hegningarlaga, landráðalaga-bálkinum.
16.-19. gr. stjórnarskrárinnar hljóða þannig (leturbr. hér):
- 16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
- 17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
- 18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
- 19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
Af þessu og eðli alls ESB-málsins (þ.e. umsókn hluta alþingismanna 2009 um upptöku landsins í ríkjabandalag, stórveldi sem gerir m.a. kröfu til æðstu og ráðandi löggjafarréttinda) er augljóst, að þingsályktunartillöguna um ESB-umsóknina átti skv. 16., 17. og 19. gr. stjórnarskrár lýðveldisins að bera undir forseta Íslands og leita undirskriftar hans undir það skjal.
Það var ekki gert, heldur var ákveðið að fara fram hjá lögformlegum ákvæðum sjálfrar stjórnarskrárinnar þar um og síðan hlaupið til útlanda með umsóknina og hún lögð fram hjá ESB-fulltrúum og það tvisvar, en án samþykkis forseta lýðveldisins. Fyrir þessu framferði var helzti gerandinn, þáv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, ekki einn ábyrgur, heldur öll ríkisstjórn (ráðuneyti) Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þá verður að benda á, að sjálfur form. stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Árni Páll Árnason, hefur viðurkennt vissa hluti í þessu sambandi sem eru sjálfum honum og Samfylkingu dómsáfellir, þ.e.a.s.: hann viðurkenndi sjálfur, að aðildarviðræður við Evrópusambandið voru mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. greinar stjórnarskrárinnar. Ergo bar honum að mótmæla því, að þetta mikilvæga stjórnarmálefni var EKKI borið undir forseta Íslands í ríkisráðinu.
Sjá nánar hér: Árni Páll Árnason minnir óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt! = http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1309618/
Hér var einnig vikið að landráðalögunum, og skal þar minnt sérstaklega á þessa vefslóð um þau mál: http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/590474/
Ennfremur virðist sem 48. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin í júlí 2009, þegar nokkrir þingmenn VG voru, að því er virðist, neyddir til að greiða atkvæði á móti sannfæringu snni, eins og frásagnir eru til af og vottað nánast af þeim sjálfum, sumum hverjum, þegar þeir gerðu grein fyrir atkvæði sínu að vísu ekki grátandi eins og Árni Oddsson lögmaður 1662, en tveir þingmenn eru þó sagðir hafa fellt tár út við vegg í þessum hremmingum.
Þessi hugsun um ólögmæti umsóknarinnar frá 2009 hefur einnig verið sett fram með öðrum hætti af félagsskapnum Samstaða þjóðar, í kærubréfum til ríkissaksóknara 23. janúar og 8. febrúar 2014, sbr. grein eftir Loft Altice Þorsteinsson verkfræðing í Morgunblaðinu 6. marz 2014 og hér á netinu: http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1361765/ , þar sem segir m.a.:
"Brot á stjórnarskrá þjóðarinnar leiðir til ákæru fyrir Landsdómi.
Með tilraunum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að innlima Ísland í Evrópusambandið, var ekki bara rofinn trúnaður við almenning heldur var framkvæmd umsóknarinnar brot á stjórnarskrá þjóðarinnar. Umsóknin sem undirrituð var af Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur var stjórnarerindi af hæstu gráðu og samkvæmt 19. grein Stjórnarskrárinnar skal forseti landsins undirrita öll stjórnarerindi. Forsetanum var haldið frá að gegna stjórnarskrár-bundnum skyldum og meinað að undirrita umsóknina. Þetta stjórnarskrárbrot kærði »Samstaða þjóðar« til Ríkissaksóknara með bréfum 23. janúar 2014 og 8. febrúar 2014, sjá hér: (http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1349610/)."
III: Þingmeirihlutinn hefur valdið til afturköllunar ESB-inntökuumsóknarinnar
Þetta vald fekk stjórnarmeirihlutinn og þeir aðrir þingmenn, sem kynnu að greiða þált. núv. utanríkisráðhr. atkvæði sitt í innan við ársgömlum kosningum. Upphlaup Samfylkingaraflanna með smölun á mótmælafundi, ásamt afar viðamikilli auglýsingaherferð, m.a. á netinu og ljósvakamiðlum og heilsíðuauglýsingum dagblaða auglýsingaherferð sem ekki er upplýst, hvaða aðilar borgi á sízt alls að hrekja þingmeirihlutann frá því að greiða um þessa þált. atkvæði skv. sannfæringu sinni, eins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 og flokksþing Framsóknarflokksins lýstu einnig yfir sem stefnu sinni, þ.e. að afturkalla bæri umsóknina frá 2009.
IV: Sjálfhætt er umsókninni vegna sjávarútvegsmála okkar
Smánarlegt er að verða vitni að því, að í skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ um þessi mál skuli byggt á sögusögnum ónafngreindra embættismanna í Brussel, jafnvel um fullyrðingar um rétt okkar Íslendinga til fiskveiðilögsögunnar hér, fullyrðingar sem ganga í berhögg við sjálfan Rómarsáttmálann og einnig ummæli ýmissa æðstu ráðamanna Evrópusambandsins, sbr. þetta:
Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB, sagði Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel þegar spurt var út í sjávarútvegsstefnu sambandsins, og Össur Skarphéðinsson gerði sig að aðhlátursefni með því að svara efnislega, að það væri ekkert mál að semja um varanlegar undanþágur.
Eftir að Össur hafði svarað spurningunni bætti Füle við: Að í sambandi við þessi mál yrði að hafa í huga að ESB veitti ekki varanlegar undanþágur frá lögum sambandsins.
Þetta er í fullu samræmi við orð dr. Stefáns Más Stefánssonar prófessors í Evrópurétti við lagadeild HÍ, sem ritar t.d. í bók sinni Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins (2011), s. 66:
"Um varanlegar undaþágur frá reglum ESB. Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undaþágur að ræða, hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála." (Nánar þar.)
Helztu forsvarsmenn ESB hafa alla tíð verið ærlegir gagnvart Íslendingum um það að Ísland yrði með inngöngu í ESB að beygja sig undir sameiginlegar samþykktir ESB. Í Fréttablaðinu 8. nóvember 2009 sagði Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, að það væru: Engin fordæmi fyrir varanlegri undanþágu.
Emma Bonino, framkvæmdarstjóri sjávarútvegsmála ESB, var í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni, heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrir alla.
Umsókninni er því sjálfhætt af þessum ástæðum, enda væri framhald aðildarviðræðnanna komið í beina mótsögn við skilmála utanríkismálanefndar fyrir umsókninni 2009, þ.e. að við héldum okkar yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni.
Niðurstaðan er augljós: Afturkalla ber hina vansæmandi umsókn um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Að nú sé að myndast grátkór nokkurra þingmanna, þ.m.t. formanns Vinstri grænna (!), yfir því, að sé umsóknin dregin til baka, sé ekki hægt að byrja slíkt á ný án þess að sækja aftur um með meiri fyrirhöfn, þar sem slík umsókn þurfi á ný að fara fyrir stjórnvöld allra ESB-ríkjanna er engin ástæða til að hika við þetta mál, heldur þvert á móti gefst þar tækifæri einmitt vegna ákvæðis í þingsályktunartill. núv. utanríkisráðherra til að gera það, sem trassað var viljandi árið 2009, þ.e. að bera umsóknina sjálfa undir þjóðaratkvæði hér. Að vinstri flokkarnir óttist það, á ekki að vera nein ástæða til að hrekjast frá þeirri grundvallarhugsun. Raunar ætti að krefjast aukins meirihluta til slíkra mála, sem stefna í fullveldisframsal, og t.d. eru Norðmenn með ákvæði um aukinn meirihluta í Stórþinginu til slíkra mála (2/3 atkvæða eða 3/4, eftir alvöru þeirra).
Virðingarfyllst, 8. apríl 2014,
stjórn Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland,
Jón Valur Jensson, formaður, Guðmundur Jónas Kristjánsson, gjaldkeri, Halldór Björgvin Jóhannsson, meðstjórnandi.
Formaður undirritar með bleki umsögnina f.h. stjórnarmanna,
Rvík, 8. apríl 2014,
(sign.)
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)