Fjarlægjumst ESB frekar eins og Bretar heldur en hitt

Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráðherra gefur lítið fyrir, að inn­an ESB sé "skjól og stöðug­leiki", og segir réttilega enga þörf fyrir Ísland að ganga í þetta ríkjasamband.

  • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.  Bjarni sagðist ekki vita hvort sá stöðug­leiki sem væri til staðar inn­an sam­bands­ins væri endi­lega það sem Íslend­ing­ar sækt­ust eft­ir. Ekki væri eft­ir­sókn­ar­vert að búa við stöðnun. (Mbl.is)

Þetta kom fram í viðtali ráðherrans við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC í morgun. Þarna vísar ráðherrann til þess, að mikil stöðnun ríkir nú í efnahagslífi stórs hluta Evrópusambandsins.

Hvað varðar það, hvort kostir byðust innan þessa Evrópusambands, sagði Bjarni, að "Íslend­ing­ar nytu þegar helztu kosta þess að vera í ESB með aðild Íslands að innri markaði sam­bands­ins í gegn­um samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES). Hins veg­ar stæði þjóðin fyr­ir utan aðra hluti ESB sem hentuðu hags­mun­um henn­ar ekki líkt og sam­eig­in­lega sjáv­ar­út­vegs­stefnu sam­bands­ins."

Svo mætti reyndar fara í ýtarlega rannsókn á því, hvort Íslendingar hafi í raun nokkuð grætt á því að vera á Evrópska efnahagssvæðinu. Fortakslaust jákvætt svar við því blasir hreint ekki við. Hvor með sínum hætti gerðu dr. Hannes Jónsson sendiherra og Ragnar Arnalds, fv. fjármálaráðherra, athugun á þeim málum í bókum sínum undir lok 10. áratugar 20. aldar og fengu þar ekki út neinn heildar-ágóða Íslands af EES-samningnum (þótt vitaskuld hafi sumir grætt á honum, en þá á eftir að draga frá margvíslegan kostnað landsins). Síðan fengum við bankakreppuna undir lok næsta áratugar, og mikið af skaða okkar þá kom einmitt til af "fjórfrelsinu" á EES-svæðinu sem útrásarvíkingar hagnýttu sér til mikils tjóns fyrir land og lýð. En allt þetta lét Bjarni ógert að minnast á í sjónvarpsviðtalinu.

  • Bjarni var enn­frem­ur spurður að því hvort hann teldi að ef Bret­um stæði til boða sama staða og Íslend­ing­ar hefðu gagn­vart ESB, hvort þeir myndu vilja hana. Hann svaraði því til að hon­um virt­ist þeir vera meira eða minna að óska eft­ir því sama. Vísaði hann þar til þess að bresk stjórn­völd hafa viljað end­ur­heimta vald yfir ýms­um mál­um frá sam­band­inu. (Mbl.is)

Athyglisvert! Þarna er stefna stórs hluta stjórnmálastéttar og meirihluta þjóðar í næsta stóra ríki í landsuðri frá Íslandi að hverfa frá samrunaþróuninni í hinu nýja Brussel-stórveldi og vill helzt endurheimta tapað vald sitt. Ætti sú afstaða, byggð á reynslu, ekki að segja Íslendingum sitthvað?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Bjarni: Þurfum ekki aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þótt fyrr hefði verið!

Fagna ber því sem fram kemur í mála­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir kom­andi þingvet­ur, að lögð verður fram þált. um að draga til baka Össurarumsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.

Umsóknin sjálf árið 2009 var hreint stjórnarskrárbrot (m.a. á 16.-19. gr. hennar) eins og ítrekað hefur verið gerð grein fyrir á þessu vefsetri Fullveldisvaktarinnar.

Þar fyrir utan var þá verið að þvinga samstarfsflokk í ríkisstjórn til að greiða atkvæði þvert gegn sannfæringu þingmanna (eins og kom fram þegar nokkrir þeirra gerðu grein fyrir atkvæði sínu, þar á meðal Svandís Svavarsdóttir), og einnig það er stjórnarskrárbrot.

Ríkisstjórninni er ekki stætt á öðru en að draga þá umsókn formlega til baka. Ítök vesallar stjórnarandstöðunnar í vinstri sinnuðum fjölmiðlungum, m.a. vinnusvikara á Rúv, mun gagnslaus reynast henni, þegar tekið verður fast og hratt á málinu. Þá verður það undurskjótt og farsællega úr sögunni, rétt eins og taglhnýtingsstefna kommúnista við Sovétríkin koðnaði niður og varð að einberu hneyksli úr fortíðinni.

Jón Valur Jensson. 

 


mbl.is Stefnt að afturköllun umsóknarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrátt fyrir barlóm og ósjálfstæði vinstri flokka er tryggur meirihluti gegn "ESB-aðild"

Aðildin sú er í raun hægfara innlimun í stórveldi (þ.m.t. sem herveldi). Merkilegt að vinstri menn séu hlynntir slíku, en það sýnir ný Capacent-könnun og hitt þó umfram allt, að meirihluti þjóðarinnar hafnar Evrópusambands-"aðild", þ.e. 54,7%, en 45,3% að þeir myndu styðja hana. 

  • Greint var frá niður­stöðum skoðana­könn­un­ar­inn­ar á aðal­fundi Já Ísland sem fram fór í dag. Sam­kvæmt henni er meiri­hluti kjós­enda Fram­sókn­ar­flokks­ins (92%) og Sjálf­stæðis­flokks­ins (83%) and­víg­ur aðild að ESB en meiri­hluti kjós­enda Sam­fylk­ing­ar­inn­ar (89%), Bjartr­ar framtíðar (81%), Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs (55%) og Pírata (55%) hlynnt­ir henni. (Mbl.is)

Þetta eru merkilega skýrar línur milli mið- og hægri flokka annars vegar og vinstri flokka hins vegar. Þó eru greinilegar vomur á VG-fólki og Pírötum, því að enn eru þar ýmsir sem óttast erlenda auðhringa. Hitt hefur samt fylgt vinstri flokkum lengi að (1) hafa aðhyllzt útópíur, og það á við um ýmsa gamla VG-harðjaxla, sem trúðu í lengstu lög á sovézka "óskalandið", "verkalýðsríkið" sem reyndist spillt og grimmt niður í rót og í flestum sínum útöngum, auk þess að stunda blóðuga útþenslustefnu, oft undir fölsku yfirvarpi stuðnings við þjóðfrelsishreyfingar (!), og (2) að hafa fælzt allt, sem amerískt er, á svo afgerandi hátt, að "Evrópa" (með sín gömlu og grimmu nýlenduveldi!) fór að líta út eins og himnasending í stjörfum augum þeirra í staðinn.

Forsjárhyggjan, sem löngum tröllríður vinstri flokkum, sbr. skatta- og eyðslustefnu þeirra, bætir hér ekki úr skák, og fylgir þessu pólitíska liði einnig hvað varðar umhugsun þeirra um stöðu Íslands meðal annarra landa, því að Samfylkingarmenn sérstaklega virðast hafa tröllatrú á því, að forsjá Evrópusambandsins með okkar efnahag og löggjöf, dóms- og framkvæmdavaldi sé önnur og betri "lausn" en sú leið sem Jón Sigurðsson og aðrir baráttumenn fyrir sjálfstæði Íslands mörkuðu á 19. og 20. öld. Engu virðist það skipta þessa draumhuga Samfylkingar og "Bjartrar framtíðar", að spilling hefur grafið svo um sig í þessu óska-stórveldi þeirra, sjálfri Stóru-Mömmu á meginlandinu, að ekki þolir lengur dagsins ljós, og endurskoðendur hafa því ekki treyst sér til að votta endurskoðun reikninga þessa Brussel-bandalags í 14 ár samfleytt.

Svo tala menn um að "ganga í" þetta valdfreka bákn, af því að HÉR ríki spilling! - og það jafnvel haft á orði um dómstóla okkar, eins og ýmsir barlóms- og niðrunarpennar eru sérstaklega farnir að tíðka upp á síðkastið. En hver var það annar en sjálfur ESB-dómstóllinn sem tók þátt í því, með sínum fulltrúa í ómarktækum "gerðardómi" um Icesave-málið haustið 2008, að dæma ríkissjóð Íslands greiðsluskyldan að fullu um allar Icesave-kröfur Bretlands og Hollands?! Og hverjar stofnanir ESB tóku einnig þátt í þessu dóms(m)orði gerðardómsins aðrar en sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e.k. yfirríkisstjórn þess) og Seðlabanki Evrópu?!

Og þessum stofnunum, eins og öðrum í Evrópusambandinu, eiga menn nú að treysta! 

Þetta síðastnefnda hefur lengi verið leynd og ljós stefna Fréttablaðsins, en þakkarvert, að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur kallað eftir því, að það blað gefi út skýra yfirlýsingu um að það sé með inngöngu í Evrópusambandið sem grundvallarstefnu sína, með öðrum orðum að það sé ESB-málgagn. En brestur ekki útgefendur blaðsins þor til að játa það fullum fetum, að það vill inntöku landsins í stórveldi og þar með beita sér gegn vilja meirihluta þjóðariunnar og svíkja Lýðveldið Ísland?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Meirihluti andvígur aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórfalt fleiri Norðmenn andvígir ESB-inngöngu en þeir sem sækjast eftir henni

Miðað við þá, sem afstöðu tóku í nýrr­i skoðana­könn­un Sentios fyrir dag­blöðin Nati­on­en og Klassekam­pen, eru NEI-sinnar 79,8% Norðmanna, en já-sinnar aðeins 20,2%, og eru NEI-sinnar þannig 3,96 sinnum fleiri en jásinnar.

  • Sam­kvæmt skoðana­könn­un­inni eru 70,5% Norðmanna and­víg aðild að ESB en 17,8% henni hlynnt. Meiri­hluti kjós­enda allra stjórn­mála­flokka í Nor­egi er á móti aðild, þar með taldir kjós­end­ur Hægri­flokks­ins sem er hlynnt­ast­ur inn­göngu í sam­bandið. 29,9% kjós­enda flokks­ins styðja aðild að ESB en 60% eru hins veg­ar á móti henni. 
  • Mest andstaða er á meðal kjós­enda norska Miðflokks­ins en ein­ung­is 4,1% þeirra styður aðild að ESB. Mest­ur stuðning­ur er hins veg­ar á meðal kjós­enda Ven­stre en fjór­ir af hverj­um tíu kjós­end­um hans styðja aðild. (Mbl.is)

Ánægjuleg tíðindi af staðfestu norsku þjóðarinnar, ekki satt? Og sannarlega var gaman að heyra í hinum söngelska sjálfstæðissinna í Vestur-Íslendinga-þættinum í Sjónvarpinu í kvöld. Hann komst vandræðalaust í gegnum Öxar við ána – nokkuð sem ýmsir ungir menn á Reykjavíkurmalbikinu eiga orðið erfitt með fyrir sakir alls þess sem truflar athyglina og sýndarmennskunnar á mammonsvegum sem blekkir marga.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meirihluti áfram gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugsnúinn áróður Fréttablaðsins

Reynið ekki, Fréttablaðs- og ESB-menn, að láta sem þið viljið efla fullveldisréttindi Íslands. Grein Jónu Sólveigar Elínardóttur í Frbl. í dag er dæmigerð um rangtúlkun þeirra. Hvergi er þar vikið að þeim áhrifum sem íslenzk yfirvöld geta haft á gerð EES-reglna, t.d. fengið vökulögum bílstjóra breytt eftir á, og fyrir fram er einnig hægt að hafa áhrif á gerð þeirra, bæði í ráðuneytunum, í nefnd Íslendinga, Norðmanna og Liechtensteina og í Alþingi. Allt um það líta margir á EES-samninginn sem þungan bagga á okkur, og hvar er sönnunin, töluleg, fyrir gagnsemi hans?

En Fréttablaðsmenn stefna markvisst að innlimun Íslands í ESB, það sama á við um þennan nýja skriffinn blaðsins, eins og sést á ráðleggingunum í grein hennar þar í dag. Þar hefðum við svo 0,06% áhrif í ráðherraráðinu til ákvarðana um ráðandi löggjöf, sem rutt getur hvaða íslenzkum lagaákvæðum sem er úr vegi, ef þau rekast á einhver atriði í lagaverki Evrópusambandsins!

Jón Valur Jensson. 


Til hamingju með 17. júní, íslenzka þjóð ... en

... ótrúlega frakkur er Fréttablaðsleiðarinn á 70 ára afmæli lýðveldisins. Þar gildir sú "sjálfsblekking neikvæðninnar" sem forseti Íslands talar um í dag í frábæru viðtali við sagnfræðing í Mbl.* En allt er gert til að draga úr ágæti og frábærri frammistöðu og framþróun lýðveldisins í þessum leiðara hjá Óla Kristjáni Ármannssyni, helzt undir yfirskini þess, að honum mislíki EES-samningurinn, sem er einmitt eitt helzta uppáhald ESB-innlimunarsinna (þrátt fyrir að hann hafi leitt til "útrásarinnar" stórhættulegu) og óspart notaður sem "rök" fyrir því að "fara alla leið inn", enda "vanti svo lítið upp á", eins og þeir ljúga endalaust að almenningi í þessu Fréttablaði og víðar.

Það eiga innlimunarsinnar sammerkt, að þeir geta ómögulega fengið það af sér að vera sammála Jóni forseta Sigurðssyni, að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið," eins og hann ritaði um í Nýjum félagsritum, XVIII. árgangi (1858), s. 109.

ESB-innlimunarsinnar vilja láta flytja ekki aðeins æðsta, heldur og RÁÐANDI löggjafarvald yfir landinu út til Brussel og Strassborgar. Öll lög, sem þaðan kæmu, yrðu samstundis að lögum hér og yrðu aldrei lögð fyrir Alþingi, forsetann né þjóðina. ÞETTA vilja þeir og skammast sín ekki einu sinni á sjálfum afmælisdegi Jóns Sigurðssonar og 70 ára afmæli lýðveldisins Íslands!

* Urðum að treysta á okkur sjálf – trúa á eigin málstað, nefnist viðtalsgrein Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings við herra Ólaf Ragnar Grímsson. Þrjár blaðsíður eru helgaðar þessu efni í Morgunblaðinu í dag. Á meðan halda Fréttablaðsþjónar ESB-sinnans Jóns Ásgeirs Jóhannessonar áfram að þjóna stórveldinu á meginlandinu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Lýðveldið var ekki sjálfgefið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson, þú verður ekki látinn í friði, fyrr en þú gerir skyldu þína!

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ennþá (15 mánuðum eftir heitstrengingu landsfundar 2013) búinn að loka "Evrópustofu". Hvað veldur þínu seinlæti, Bjarni Benediktsson? Hefurðu bitið það í þig að óvirða vilja flokksmanna þinna? Skipta Samfylkingaratkvæðin meira máli? Dettur þér í alvöru í hug, að þau falli þér og þínum í skaut? Hve langt ætlarðu að ganga í meðvirkninni? Eða ertu að vinna fyrir einhverja allt aðra hagsmuni en þinna landsmanna og flokksmanna?

Hér skal vísað á fyrri, rökstudda grein um þetta grundvallarmál: 

Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að efna sitt kosningaloforð að loka "Evrópustofu"?

Jón Valur Jensson.


Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að efna sitt kosningaloforð að loka "Evrópustofu"?

Stendur kannski til að leyfa henni fyrst að eyða 433 milljónum í sinn áróður?!!!*

Takið eftir, að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, var hvergi með nein sviksamleg ummæli fyrir eða eftir kosningarnar 2013 um að EKKI ætti að loka "Evrópustofu".

Þetta er stefna flokksins, samþykkt á landsfundi 21.-24. febr. 2013 (leturbr. hér):

  • Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.
  • Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Landsfundurinn mótmælir íhlutun sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar og telur óhæfu að stækkunardeild ESB haldi úti starfsemi hér þar sem lagst er á sveif með einu stjórnmálaafli gegn öðrum.  Evrópusambandinu verði gert að loka kynningarskrifstofu þess hér. 

Síðan eru liðnir nær 15 mánuðir. Hvað líður efndunum? 

Loks skal minnt á þetta, sem birtist hér í grein fyrir tæpum 13 mánuðum: 

  • Að lokum skulum við minnast þess, að stuðningur stjórnarsinna við 230 milljóna áróðursapparatið Evrópu[sambands]stofu virðist skýrt brot á 88. gr. landráðalaganna.
  • Athafnasemi Evrópusambandsins í áróðursmálum á trúlega eftir að stóraukast : mest orkan sett í lokabaráttuna, þegar dregið gæti að hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. En jafnvel þegar á liðnu ári voru réttarbrot ESB-manna í þessu efni orðin svo augljós og ófyrirleitin, að íslenzkur fyrrverandi sendiherra, Tómas Ingi Olrich, sá sig knúinn til þess að rita um það blaðagreinar til að afhjúpa, hvernig bæði "Evrópustofa" og framferði ESB-sendiherrans Timos Summa braut í bága við alþjóðlegar skyldur sendiráða samkvæmt bæði íslenzkum lögum og Vínarsáttmálanum. Sjá hér greinar hans: Summa diplómatískra lasta (eitilsnjöll grein í Mbl. 2. apr. 2012), sbr. pistil á þessu vefsetri: Lögleysu-athæfi sendiherra. 

* Sjá frétt hér: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1503834/ – þar segir m.a.: "Evrópusambandið hefur styrkt Evrópustofu um 2,1 milljón evra, sem svarar 325 milljónum króna á núverandi gengi, á tímabilinu 2011 til 2014. Til skoðunar er að framlengja samninginn til 2015 og gæti viðbótarfjárhæð vegna þess numið um 108 milljónum." – Samtals yrðu þetta 433 milljónir árin 2011–2015 !!! Það eru einungis hnjáliðaveiku flokkarnir, sem þora ekki að stöðva þessa ósvinnu –– flokkar sem eiga enga virðingu skilda fyrir hugleysi sitt. En sjálfstæðismenn hafa enn tíma til að ÞRÝSTA Á sína forystusveit að bregðast ekki flokksmönnum einu sinni enn með svikum við ofangreinda landsfundarsamþykkt.

Jón Valur Jensson. 


Rekið af ykkur slyðruorðið, stjórnarþingmenn!

Gunnar Bragi Sveinsson hljómar eins og hann sé ekki nógu sterkur á svellinu í ESB-málinu, þrátt fyrir á köflum augljósan vilja hans til að fá þingsályktunartillögu sína samþykkta um að draga Össurarumsóknina til baka. 

Við eigum öll, fullveldis- og sjálfstæðissinnar, og einkum þeir, sem eru í samstarfsflokki Gunnars Braga, Sjálfstæðisflokknum, að styðja við bakið á sérhverri viðleitni til að efnd verði kosningaloforð stjórnarflokkanna um "að aðildarviðæðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu," svo að vitnað sé til ályktunar landsfundar Sjálfstæðisflokks 24. febrúar 2013.

Gunnar Bragi á ekki að þurfa að upplifa sig sem einangraðan í þessu máli. Þetta er vilji stjórnarflokkanna beggja, og enn er meirihluti þjóðarinnar andvígur því að fara inn í Evrópusambandið þrátt fyrir sleitulausan og þjóðar-sundrandi áróður ESB-aflanna og það á sama tíma og æ meira hefur komið í ljós um viðamikla ágalla á stefnu og verkum þess stórveldabandalags.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Ný ESB-tillaga kemur til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-Guðmundi Steingrímssyni verður ekki að ósk sinni

Guðmundur Steingrímsson er glaðhlakkalegur yfir því, að Samfylkingu, 365 fjölmiðlum, ESB-hlynntu peningavaldi, hræsnandi VG-mönnum og vinnusvikurum á RÚV tókst að teppa tillögu utanríkisráðherrans, og sýnir þar sitt ESB-andlit.

"Þá eru viðræðurn­ar ekki eyðilagðar og þá er sá ávinn­ing­ur sem hef­ur hlot­ist af viðræðunum og allt þetta starf sem hef­ur farið fram í viðræðunum, ekki unnið fyr­ir gýg. Það er mjög mik­il­vægt. Þá er þess­um dyr­um haldið opn­um og það held ég að sé eitt­hvað sem menn geta þá sætt sig við, á meðan póli­tíska lands­lagið er svona, að það er rík­is­stjórn í land­inu sem vill ekki fara í viðræður við ESB,“ seg­ir Guðmund­ur.

En þetta er ekki spurning um það, hvort dyr geti verið opnar eftir mörg ár, því að vitaskuld geta Samfylkingarmenn og ESB-fylkingin öll reynt að opna þær dyr á ný og ganga inn í viðlíka viðræðugrunn, eða eru þeir kannski að lýsa yfir vangetu sinni til þess fyrir fram?!

En að Silfurskeiðar-Guðmundur þessi, sem stakk af frá stefnu föður síns eftir kynnin af ennþá flottara lífi í Brussel, skuli í alvöru hafa trú á því, að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi eftir að gera ESB-áhangendum það til geðs að halda lífi í Össurar-umsókninni (sem jafnvel fól í sér stjórnarskrárbrot), það má virðast lygilegt, því að áframhaldandi seta Bjarna á formannsstóli er undir því komin, að hann verði hættur að vinna á móti vilja og stefnu landsfundar í ESB-málum, næst þegar sú æðsta valdasamkunda flokksins kemur saman, og ekki er ESB-andstaðan linari í Framsóknarflokknum.

Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær þingflokkar þessara flokka nota valdið, sem þeim hefur verið falið, til að þurrka þetta óhreinindamál af höndum sínum, mál sem þeir tóku engan þátt í að búa til og hafa enga lyst á að flekka hendur sínar á.

Já, nú er að fylgja eftir sannfæringu sinni, Bjarni og Sigmundur!

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB-dyrunum haldið opnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband