Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Enginn meiri frestur til Grikklands. Fá lán til grískra og írskra smáfyrirtækja.

Michael Fuchs formaður þingflokks Kristilega demókrataflokks Angelu Merkels sagði í viðtali við BBC, að Grikklandi verði ekki gefinn frekari frestur til aðlögunar að kröfum þríeykisins: AGS, ESB og SE: "Við höfum þegar veitt miklu meiri frest en gert var ráð fyrir í upphafi." Fuchs gaf í skyn, að "allir séu nú undirbúnir" fyrir að Grikkland yfirgefu evrusvæðið. Hann bætti því við, að kanslari Þýzkalands Angela Merkel væri sammála þessu.

Irish Time skrifar um það í vikunni, að grískir bankar séu verstir innan evrusvæðisins að lána út fé til smáfyrirtækja. Þétt á eftir koma írskir bankar samkvæmt nýrri skýrslu Seðlabanka Írlands, sem bankasamtök á Írlandi hafa mótmælt. Írsk smáfyrirtæki eiga helmingi oftar á hættu að fá neitun láns en gengur innan evrusvæðisins (sjá frétt hér fyrir neðan). Eitt af hverjum fjórum fyrirtækjum er neitað um lán á Írlandi í samburði við eitt af 28 í Þýzkalandi. Útlán dragast saman jafnt og þétt í takt með að evrukreppan dýpkar./gs


mbl.is Grikkir vilja meira „andrými“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlimun á sér stað og fullveldi glatast með ýmsu móti

Endurbirt Mbl.grein frá 25. maí 2009:

Eftir Jón Val Jensson: "Því verður ekki á móti mælt, að Evrópubandalagið (EB) vill innbyrða Ísland."
HITLER innlimaði Súdetahéruð Tékkóslóvakíu „friðsamlega“ 1938 eftir svik Breta og Frakka í München, lagði svo undir sig Slóvakíu með yfirgangi, síðan afganginn af Tékkóslóvakíu. Hann innlimaði Austurríki með hervaldi, nánast án þess að hleypt væri af byssu, 1938, síðan fleiri lönd með miklum hervirkjum. Stalín innlimaði Eystrasaltsríkin þrjú með hervaldi og stór landsvæði önnur í lok stríðsins (472.000 ferkílómetra, fyrir utan leppríkin sjö), en eftirmenn hans lögðu undir sig Afganistan 1979-80 og hluta Georgíu árið 2007.
 

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson hyggur beitingu hervalds einu leiðina til að innlima lönd (Mbl.grein 11. maí 2009). En Norðmenn innlimuðu bæði Svalbarða og Jan Mayen í konungsríkið, átakalaust. Löngu fyrr gerði Hákon gamli Ísland að skattlandi sínu án herútboðs. Kanada innlimaði hið sjálfstæða Nýfundnaland hálf-tilneytt, að tillögu Breta, árið 1949 án beitingar hervalds, en rökin þau, að landið væri komið á hausinn. Ríki geta líka látið innlimast í stærri yfirríki, sbr. sögu Bandaríkjanna, en þar héldu þó hin einstöku ríki sínum lögum og löggjafarþingum.

Því verður ekki á móti mælt, að Evrópubandalagið (EB) vill innbyrða Ísland. Ég er ekki að tala um þjóðirnar í EB, enda fá þær ekki að ráða þessu; það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla um það í Frakklandi, hvort Ísland verði EB-ríki. En í Brussel er vélað um málin, og ítrekað hafa komið vitnisburðir þaðan úr innsta hring framkvæmdastjórnarinnar um að bandalagið vonast eftir, að Ísland verði eitt EB-ríkjanna, m.a. vegna norðurhjarasvæðanna, eins og ljóst er af tali Joes Borg, Grahams Avery o.fl. EB-útsendara sem samherjar þessa liðs innan Rúv og Fréttablaðsins hafa beygt sig og bugtað fyrir á síðustu dögum.

Raunar segir Olli Rehn, stækkunarstjórinn í hópi kommissaranna 27, að EB sé náttúrlegur eða eðlilegur staður Íslands: „Islands natürlicher Platz ist in der EU,“ og væri það af vinstrimönnum tekið sem frekleg íhlutun í íslenzk innanríkismál, ef komið hefði frá ráðherra í ríkisstjórn Bandaríkjanna, en Jóhanna þegir, Steingrímur J. snýr sér út í horn og snýtir sér, og utanríkisráðherrann sýnir lítilþægð sína með gleiðu brosi.

Sumir vilja tala um „aðild að EB“ fremur en innlimun. En Ísland á aðild að ýmsum alþjóðastofnunum, án þess að þær vilji reisa hér fána sinn yfir okkur, eins og EB-fáninn er reistur á öllum fánadögum yfir sendiráðum Breta, Frakka, Finna o.s.frv. hér í Reykjavík. EB er nefnilega yfir þjóðunum, ekki undir þeim. EB krefst æðsta löggjafarvalds yfir þjóðunum (og er veitt það), fram yfir hvaða lög og hvaða ráðstafanir sem þjóðirnar í bandalaginu kunna að hafa gert og samrýmast ekki EB-lögum og reglum, eins og ótvírætt er tekið fram í inngöngusáttmálum (accession treaties) allra nýrra þátttökuríkja („the applicant States accept, without reserve, the Treaty on European Union and all its objectives, all decisions taken since the entry into force of the Treaties“ o.s.frv. og: „Community law [lög bandalagsins] takes precedence over any national provisions which might conflict with it, [...] accession to the European Union implies recognition of the binding nature of these rules“). Skilur stjórnmálafræðingurinn Gunnar Hólmsteinn Ársælsson ekki merkingu þeirra orða?

Höfundur er guðfræðingur. 


Engar undanþágur frá reglum ESB í myndinni, a.m.k. engar varanlegar

  • „Það er að koma í ljós eins og reyndar flestir vissu að við erum ekkert að semja heldur að samþykkja allt sem Evrópusambandið krefst af okkur,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG og fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, en hann segir það ekki í myndinni að Íslandi fái sérstakar undanþágur frá almennum reglum ESB. „Þetta hefur Evrópusambandið alltaf sagt og var skýr stefna frá sambandinu í þeim viðræðum sem ég átti við fulltrúa sambandsins sem ráðherra. Allar undaþágur sem menn eru að tala um hafa fyrst og fremst verið tímabundnar og minniháttar. Það er hin almenna regla og ESB hefur ekki vikið frá henni.“ Viðræðurnar snúast um það hverju Ísland þarf að breyta til að verða meðlimir, segir Jón. Að auki bendir Jón á að viðræður Íslands við ESB séu í raun og veru viðræður við 27 ríki ESB. „Fáist einhver minniháttar undanþága er hún háð samþykki allra 27 ríkjanna. Þess vegna vildi ég hafa skilyrta umsókn frá upphafi en svör ESB voru skýr um það. Ísland er að sækja um aðild að ESB, ekki ESB um aðild að Íslandi,“ segir Jón.

Þetta var skýr og tímabær áminning frá Jóni Bjarnasyni í stuttu viðtali hans við Sunnudagsmoggann í dag: Óraunhæft að tala um varanlegar undanþágur frá reglum ESB.

Einna háskalegast yrði þetta sjávarútvegs- og auðlinda-hagsmunum okkar Íslendinga.

JVJ. 


Utanríkisráðherra Finna: Búið ykkur undir það að evrusvæðið liðist í sundur!

Utanríkisráðherra Finnlands, Erkki Tuomioja, talar nú fullum fetum um "að Finnar verði að vera því viðbúnir að evran líði undir lok sem gjaldmiðill" og að "allir leiðtogar ríkja Evrópusambandsins þyrftu að búa sig undir það að evrusvæðið liðaðist í sundur," en s.k. ráðherra ESB í Finnlandi "segir aftur á móti að það standi ekki til." (Mbl.is segir frá).

Alexander Stubb, ráðherra ESB, bregzt þannig við viðtali við utanríkisráðherrann í Daily Telegraph að segja, að orð hans "endurspegl[i] ekki afstöðu finnsku ríkisstjórnarinnar. „Finnland stendur 100% á bak við evruna,“ segir hann í samtali við danska dagblaðið Politiken.

Þarna er því hvor höndin upp á móti annarri innan finnsku ríkisstjórnarinnar. Tuomioja utanríkisráðherra segir að vísu, að "færi svo að evran yrði aflögð, þá þyrfti það ekki að hafa neikvæð áhrif á ESB. „Það gæti þvert á móti styrkt ESB,“ segir hann" (Mbl.is). En þá á hann sennilega við öðruvísi Evrópusamband en það valdþjöppunarsamband, sem ýmsir kommissararnir í framkvæmdastjórn hafa mælt eindregið með, auk valdhafa stærstu ríkjanna. Með þeirri valdþjöppun yrði gengið enn lengra í verki í fullveldisframsali en þegar hefur verið gert. Bretar, Finnar o.fl., hafa hins vegar viljað aðskilja sig frá þeim aukna samruna og valdsviptingu frá einstökum ríkjum í þágu miðstýrðs Evrópusambands.

Evrópusambandið er á krossgötum og veit varla sitt rjúkandi ráð. En valdsöfnunarmenn halda áfram að höggva í það litla lýðræðisumboð sem þar er enn að finna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Finnar ósammála um evrusvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG í Reykjavík: ESB stóð vörð um hagsmuni stórbanka og fjármagnseigenda - velti öllum kreppubyrðum á almenning

  • "Nú þegar reynsla er komin á svokallaðar björgunaraðgerðir ESB í Grikklandi, og öðrum aðildarríkjum sambandsins sem glíma við afleiðingar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu, er ljóst að sambandið er ekki það skjól fyrir smáþjóðir  sem margir sáu fyrir sér veturinn 2008-2009. Evrópusambandið hefur fyrst og fremst staðið vörð um hagsmuni stórbanka og fjármagnseigenda og velt öllum byrðum kreppunnar yfir á almenning,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Vinstri grænna í Reykjavík í gærkvöldi.
  • Stjórnin fagnar þeirri umræðu sem nú á sér stað um aðildarumsókn Íslands að ESB og telur eðlilegt að jafn veigamikið mál, sem innganga ESB er, sé rætt á öllum stigum málsins. „Þegar aðstæður og forsendur breytast er slík umræða enn mikilvægari. Í því ljósi þykir stjórn VGR það óeðlileg kreddufesta að neita að ræða af alvöru afstöðu til aðildarumsóknar að ESB í ljósi breyttra aðstæðna.“

Þetta síðastnefnda, um kreddufestuna, beinist að Jóhönnu Sigurðardóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Árna Páli Árnasyni o.fl. Samfylkingarmönnum, sem þverskallazt hafa við að viðurkenna staðreyndir, bæði um Evrópusambandið sjálft og vandræðaástandið þar, sem og um einbeitta andstöðu íslenzku þjóðarinnar gegn innlimun í það ríkjasamband, sem sækir nú enn meira í það en áður að verða miðstýrt sambandsríki.

  • "Stjórn VGR er ekki ein um að telja að ekki sé bitið úr nálinni með framtíð Evrópusambandsins og á því bágt með að skilja hvers vegna samstarfsflokkur VG í ríkisstjórn þverskallast við að taka upp brýna umræðu um endurmat á fyrri stefnu, þegar öll rök og heilbrigð skynsemi mæla með því.“

Loksins, allt frá 2009, fóru flokksstofnanir þar að tala af viti um málið.

JVJ.


mbl.is Segja Samfylkingu þverskallast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúv: Blikur á lofti innan ESB (tími til kominn að viðurkenna það! en skoðið hér horfurnar!)

  • "Undanfarin misseri hafa leiðtogar Sambandsins sjálfir sagt nauðsynlegt að auka samvinnu í efnahagsmálum. Það þýðir í raun aukið yfirþjóðlegt vald, í raun evrópskan fjármálaráðherra í Brüssel. Sambandið tæki á sig mynd sambandsríkis í stað ríkjasambands.
  • Aukin samvinna kynnt fyrir áramót
  • Olli Rehn, efnahagsmálastjóri sambandsins, hefur undanfarna daga veitt viðtöl um allan heim til að lýsa þessari framtíðarsýn. Fyrir áramót verði kynnt hvernig samvinnan verði aukin. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sagðist í síðustu viku hafa af því miklar áhyggjur að Bretland gengi úr sambandinu yrði þessi leið fyrir valinu, þar sem almenningur myndi hafna henni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hætt er við að almenningur ætti víðar í erfiðleikum með að sætta sig við þessa lausn. Það er því ljóst að breytingar blasa við, en hverjar þær verða er erfiðara að segja til um. Enginn veit hvernig Evrópusambandið lítur út að ári." (Ruv.is og Sjónvarpsfréttir kl. 19 í kvöld, nánar hér: Blikur á lofti innan ESB; feitletrun með rauðu er mín, jvj.)

Fráleitt teljum við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu (ESB) og tengslum þess við Ísland að leyfa inntöku íslenzka ríkisins í Evrópusambandið. Enn fráleitara er það augljóslega í flestra augum, þegar sambandið er á breytingaskeiði og virðist beinlínis stefnt í það af kommissörum sínum (eins og Rehn og Füle, auk Barrosos og Rompuys) að stórauka miðstýringu og yfirþjóðlegt vald ESB. Þeim mun meira yrði fullveldisframsalið, og síðan er alltaf hægt að halda áfram lengra, m.a. með því að nýta víðtækar valdheimildir Lissabon-sáttmálans til að ráðskast með orkuauðlindir meðlimaríkjanna.

Jón Valur Jensson. 


Nú hriktir í VG og stjórnarmeirihluti um ESB-umsókn fallinn. ÞÖGGUN ríkir hjá ritstjórn Fréttablaðsins!

Þessa menn er verið að setja í einangrun í VG: Steingrím J., Árna Þór, Björn Val og Þráin. Gegn þeim fjórum eru hinir átta þingmenn flokksins sem vilja endurskoða í grunninn ESB-umsóknina eða kasta henni fyrir róða. Allar þingkonur flokksins eru komnar í andófssveitina: Álfheiður Ingadóttir, Þuríður Backman, Lilja Rafney og Guðfríður Lilja, auk Katrínar og Svandísar, sem komust í fyrirsagnir á sannleiksleitandi fréttastofum um helgina.

Þetta eru mikil tíðindi, og um þessi mál skrifaði undirritaður rétt í þessu í ýtarlegri grein, sem hér skal vísað til: "Endurskoðunarstefnan" gagnvart Esb-umsókn styrktist mjög um helgina. Sannleiksfælið Esb-Fréttablaðið virðist ekki hafa frétt af því! -- Þetta síðastnefnda kemur til af ALGERRI ÞÖGGUN Fréttablaðsins í dag um þetta mál.

Vonandi verður þetta til þess, að við losnum við ESB-innlimunarumsóknar-óværuna af íslenzkum þjóðarlíkama og það sem allra fyrst.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meirihluti snýst gegn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hlutskipti ESB-Íra og Ekki-ESB-Íslendinga!

Evrópusambandið þvingaði írska ríkið til að taka á sig fjárskuldbindingar írsku bankanna. Við neituðum hins vegar að láta íslenzka ríkið taka ábyrgð á 6 til 7 þúsund milljarða kr. skuldabyrði bankanna, en ef við hefðum verið í Evrópusambandinu, hefðum við ekkert val átt um að neita því. "Í dag erum við í miklu, miklu betri stöðu en Írar, þeir eru með 3-4 sinnum meira atvinnuleysi en við," sagði Ragnar Arnalds, fyrrv. alþm. og ráðherra, í viðtali í góðum Fullveldisþætti á Útvarpi Sögu í liðinni viku (þætti sem var endurtekinn nú síðdegis).

Ýmsir þingmenn VG að reyna að bjarga eigin skinni með nýtilkomnum bollaleggingum um að draga til baka ESB-umsóknina?

Það er í sjálfu sér ánægjuefni, að "mjög aukinn stuðningur" sé nú "innan þingflokks VG við að endurmeta aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Forsendur þykja hafa breyst og vilji er fyrir því að taka málið upp á Alþingi á ný," segir um málið á vefnum Rúv.is.

Þar segir, að "Fréttastofa [Rúv hafi] í dag [laugardag] rætt við marga þingmenn vinstri grænna sem hingað til hafa verið fylgjandi aðildarviðræðunum. Samhljómur er hjá þeim nú um að endurmeta þurfi stöðuna vegna þess hvernig forsendur hafi breyst." Þó eru ekki tifærð nema viðtöl við tvo nafngreinda þingmenn í fréttinni: varaformanninn Katrínu Jakobsdóttur, sem á ekki einu sinni víst að halda mikið lengur ráðherraembættinu, og Svandísi Svavarsdóttur Gestssonar.

  • Katrín Jakobsdóttir varaformaður vinstri grænna segir eina forsendu VG í málinu hafa verið að þjóðin hefði aðkomu að málinu.
  • „Það er líka ljóst að forsendur í Evrópu hafa breyst, efnahagslegar og pólitískar líka. Það er mikil óvissa hvert Evrópusambandið stefnir. Það er ljóst að þessi óvissa þar hefur talsverð áhrif á þetta ferli hér á landi,“ segir Katrín. Hún segir málið hafa verið rætt í VG en fyrst og fremst sé þetta mál sem stjórnarflokkarnir þurfi að ræða sín á milli og fara yfir heildstætt.
  • Katrín segir að það sé ekki sérstakt kappsmál Vinstri grænna að Ísland fari inn í ESB. „Það hafa verið hugmyndir uppi um það hjá ýmsum að setja málið á ís, þjóðin fái aðkomu að því hvort halda eigi áfram með málið, eða hvort draga eigi umsóknina til baka og hætta við málið. Eða jafnvel halda málinu áfram óbreyttu og ljúka því með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að það eru auðvitað margar leiðir sem hægt er að fara og það eru ýmsar skoðanir á því,“ segir Katrín. Umræðan sé ekki komin á það stig að hægt sé að lýsa einhverri sérstakri leið og líka fari betur á því að ræða þetta við samstarfsflokkinn beint en í fjölmiðlum. (Ruv.is.)

Ekki er þetta síðastnefnda til að gefa miklar vonir: "lausnin" gæti orðið sú, að ofan á verði ógagnsætt baktjaldamakk stjórnarflokkanna, sem um langtíma skeið hafa notið einungis þriðjungsfylgis kjósenda.

Það virðist ennfremur undarleg "understatement" hjá Katrínu að "að það sé ekki sérstakt kappsmál Vinstri grænna að Ísland fari inn í ESB." Grasrótin hefði viljað orða þetta með allt öðrum og hressilegri hætti: að það sé einmitt mikil andstaða við það meðal óbreyttra flokksmanna þar að taka það í mál að landið verði sjanghajað inn í Evrópusambands-ferlíkið. Þessu voru þeir á móti, þegar þeir greiddu flokknum atkvæði sitt 2009, og sífelld vandræði þar ytra hafa ekki aukið spenning Íslendinga - né vinstri grænna sérstaklega - fyrir þessari afleitu, en alvarlegu stórveldistilraun.

En nú er það að gerast, að utanríkismálanefnd Alþingis er kölluð til fundar á mánudaginn "með samninganefnd Íslands gagnvart ESB þar sem farið verður yfir stöðu aðildarviðræðanna. Enn er kaflinn um sjávarútvegsmál óræddur og óljóst hvenær hann verður opnaður. Heimildir fréttastofu herma að í þingflokki vinstri grænna þyki mönnum óþægilegt að hefja kosningaveturinn með málið í þeim farvegi sem það er nú." (Ruv.is.)

  • Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra er ein þeirra sem telur að endurskoða þurfi ákvörðun um aðildarumsóknina. Einboðið sé að endurmeta þurfi stöðuna í aðdraganda kosninganna, vegna tímaássins (sic) og stöðu mála í Evrópu meðal annars.
  • „Þannig að Vinstri hreyfinging grænt framboð hlýtur sem flokkur að þurfa að ræða það innan sinna raða hvaða nálgun er best í slíkri endurskoðun og það er rakið að gera það á flokksráðsfundinum nú í lok mánaðarins. Og í framhaldinu tel ég rétt að fara ýtarlega yfir málið í samstarfsflokknum í ljósi þessara breyttu forsendna frá árinu 2009,“ segir Svandís.
  • Svandís vill ekki segja til um hvort hún styðji tillögu um hvort aðildarviðræðum verði frestað eða þeim hætt.
  • „En ég árétta það að VG verður að fara yfir þessi mál innan sinna raða og þar eru allir möguleikar uppi á borðinu. Í framhaldinu tel ég rétt að við förum yfir málið með samstarfsflokknum.“

Vera má, að VG ætli að koma sér úr klípu gagnvart eigin grasrót, sem frá upphafi hefur verið afar uppsigað við tvöfeldni og hrein svik forystunnar í þessum Evrópusambands-efnum. Traustið á flokknum og formanninum hefur alltjent ekki aukizt á þessu kjörtímabili, sbr. bæði þetta mál, Icesave-málið og makrílmálið, sem mörgum þykir háskalegt að hafa í höndum Steingríms. Einnig blasir nú síðast við undirgefni hins nýja efnahagsráðherra (fyrrum fjármálaráðherra!) við Evrópusambandið í tengslum við EFTA-dómstólsmálið varðandi Icesave, og er það greinarefni annars staðar.

Ljóst er, að þingflokkur VG þyrfti mikið að laga til að endurheimta tiltrúnað kjósenda sinna, þar duga engar smáskammtalækningar né andlitslyfting úr þessu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja endurskoða ESB-umsóknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfelld fjármálaspilling nærist innan ESB

Útreikningar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um gjöld Íslendinga til Evrópusambandsins, ef Ísland væri meðlimur þess, sýna skýrt, hverjar skuldbindingar ríkisins væru eða sem mótsvarar 1,5 miljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu vegna neyðarsjóðs ESB. Ofaná þessar skuldbindingar þyrfti ríkið að greiða um 11 miljarði árlega í meðlimagjöld til klúbbsins.

Þessar tölur eru varfærnislega reiknaðar en sýna ótvírætt, hvaða raunveruleiki bíður efnahagslega laskaðri þjóð eftir umbyltuna í bankakerfinu 2008, ef eina mál Samfylkingarinnar nær fram að ganga. Spurningin, sem Íslendingar sem og aðrar þjóðir með eða í námunda við ESB spyrja, er hvað fæst fyrir peningana?

ESB krefst sífellt hærri framlaga til að þenja út það bákn, sem rekið hefur verið án samþykktra efnahagsreikninga af endurskoðendum til fjölda ára. Fjármálaspillingin ríður ekki við einteymi varðandi þá hringrás peningaflæðis frá aðildarríkjum inn í hítina og síðan tilbaka í óteljandi ESB verkefni, þar sem svæðasjóðirnir eru fyrirferðamiklir. Oftar en ekki er svindlurum hlíft í nafni samstöðu búrókrata og fá jafnvel stöðuhækkun eins og dæmin með Olaf - innri fjármálarannsóknardeild ESB sýna. Eitt frægt dæmi er um embættismann í Svíþjóð, sem falsaði pappíra til að geta dregið fé til sín t.d. með því að þykjast borga bílstjóranum sínum fyrir hundapössun, sem náttúrulega átti sér aldrei stað. Bílstjórinn var rekinn en embættismaðurinn gerður að framkvæmdastjóra Olafs. Dæmið um framkvæmdastjórnina, sem sagði öll af sér vegna rannsóknar á meintum tengslum eins embættismanns við byggingarfyrirtækið, sem fékk vinnuna að endurbyggja hús framkvæmdarstjórnarinnar í Brussel, er annað þekkt dæmi. 

En þetta er einungis toppurinn á ísbjarginu, sem í glyttir í myrkri þeirrar fjármálaspillingar, sem þrífst. Fyrir fáeinum dögum neyddist Annie Lööf, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, að reka yfirmann Tillväxtverkets (opinbert fyrirtæki undir stjórn viðskiptaráðuneytisins, sem fer með svæðisjóðaúthlutanir ESB í Svíþjóð). Starfsmenn fyrirtækisins héldu veislur, fóru í kostaðar utanlandsferðir og allt í nafni nauðsynlegs ráðstefnuhalds. Þetta mál er mjög í fókus í Svíþjóð þessa dagana. Svíþjóð er einn af beinu meðlagsgreiðendum með ESB og borgar að meðaltali um 25 - 30 miljarða SEK árlega í hítina og um helmingurinn af þessum skattapeningum Svía kemur síðan til baka sem "styrkir" frá ESB í ýmis verkefni í Svíþjóð. Þannig hefur Svíþjóð styrkt sambandið um ca 150 miljarði óafturkræfra SEK á tíu árum og því miður er staðan þannig, að ástandið hjá ESB virðist stöðugt fara versnandi við hverja skattakrónuna, sem Svíar gefa burt. Mörgum hefur því snúist hugur í Svíþjóð og ríkisstjórn Friðrik Reinfelds farin að gera meiri kröfur um nýtingu peninga og að fé verði ekki lengur sent hugsunarlaust í nafni "friðar og samstöðu".

Hægt væri að skrifa kílómetra langa greinar um sukkið og svínaríið í sjóðaspillingu ESB og úthlutanir fjármuna í furðulegustu verkefni eins og t.d. kannabisræktun í Svíþjóð og fleiri löndum ásamt bændastyrkjum til óðalseigenda án búskapar. Þegar athugasemdir voru gerðar við þessi atriði brást ESB einfaldlega við á þann hátt að birting nafna þeirra, sem úthlutanir fengu, voru bannaðar á heimasíðum landbúnaðarráðuneyta, sem var þó krafan áður. Alþekkt er einnig með "styrki" til "framfaraverkefna" hjá smáfyrirtækjum, að sérfræðilegir ESB ráðgjafar taka meira en helming styrksins til sín og stundum allan fyrir að aðstoða smáfyrirtækin að fylla út í umsóknareyðublöðin. Þannig hefur kerfið alið af sér heila hjörð af afætum, sem lifa fínu lífi á því að deila út skattapeningum aðildarríkja í formi "styrkja" frá ESB til óteljandi "verkefna". Það hefur líka sýnt sig, eftir því sem búrókratar og her afæta halda fleiri fundi, hvort sem um "neyðarfundi" eða ráðstefnuhöld er að ræða, þá stækkar vandinn jafnt og þétt. 

ESB er að þessu leyti hluti vandans en ekki lausnarinnar.

Gott mál að þingmenn taki upp þessa hluti, sem skipta máli fyrir peningabuddu landsmanna. Fleiri alþingismenn mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.

Gústaf Adolf Skúlason 


mbl.is 360 þúsund á mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband