Ýmsir þingmenn VG að reyna að bjarga eigin skinni með nýtilkomnum bollaleggingum um að draga til baka ESB-umsóknina?

Það er í sjálfu sér ánægjuefni, að "mjög aukinn stuðningur" sé nú "innan þingflokks VG við að endurmeta aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Forsendur þykja hafa breyst og vilji er fyrir því að taka málið upp á Alþingi á ný," segir um málið á vefnum Rúv.is.

Þar segir, að "Fréttastofa [Rúv hafi] í dag [laugardag] rætt við marga þingmenn vinstri grænna sem hingað til hafa verið fylgjandi aðildarviðræðunum. Samhljómur er hjá þeim nú um að endurmeta þurfi stöðuna vegna þess hvernig forsendur hafi breyst." Þó eru ekki tifærð nema viðtöl við tvo nafngreinda þingmenn í fréttinni: varaformanninn Katrínu Jakobsdóttur, sem á ekki einu sinni víst að halda mikið lengur ráðherraembættinu, og Svandísi Svavarsdóttur Gestssonar.

  • Katrín Jakobsdóttir varaformaður vinstri grænna segir eina forsendu VG í málinu hafa verið að þjóðin hefði aðkomu að málinu.
  • „Það er líka ljóst að forsendur í Evrópu hafa breyst, efnahagslegar og pólitískar líka. Það er mikil óvissa hvert Evrópusambandið stefnir. Það er ljóst að þessi óvissa þar hefur talsverð áhrif á þetta ferli hér á landi,“ segir Katrín. Hún segir málið hafa verið rætt í VG en fyrst og fremst sé þetta mál sem stjórnarflokkarnir þurfi að ræða sín á milli og fara yfir heildstætt.
  • Katrín segir að það sé ekki sérstakt kappsmál Vinstri grænna að Ísland fari inn í ESB. „Það hafa verið hugmyndir uppi um það hjá ýmsum að setja málið á ís, þjóðin fái aðkomu að því hvort halda eigi áfram með málið, eða hvort draga eigi umsóknina til baka og hætta við málið. Eða jafnvel halda málinu áfram óbreyttu og ljúka því með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að það eru auðvitað margar leiðir sem hægt er að fara og það eru ýmsar skoðanir á því,“ segir Katrín. Umræðan sé ekki komin á það stig að hægt sé að lýsa einhverri sérstakri leið og líka fari betur á því að ræða þetta við samstarfsflokkinn beint en í fjölmiðlum. (Ruv.is.)

Ekki er þetta síðastnefnda til að gefa miklar vonir: "lausnin" gæti orðið sú, að ofan á verði ógagnsætt baktjaldamakk stjórnarflokkanna, sem um langtíma skeið hafa notið einungis þriðjungsfylgis kjósenda.

Það virðist ennfremur undarleg "understatement" hjá Katrínu að "að það sé ekki sérstakt kappsmál Vinstri grænna að Ísland fari inn í ESB." Grasrótin hefði viljað orða þetta með allt öðrum og hressilegri hætti: að það sé einmitt mikil andstaða við það meðal óbreyttra flokksmanna þar að taka það í mál að landið verði sjanghajað inn í Evrópusambands-ferlíkið. Þessu voru þeir á móti, þegar þeir greiddu flokknum atkvæði sitt 2009, og sífelld vandræði þar ytra hafa ekki aukið spenning Íslendinga - né vinstri grænna sérstaklega - fyrir þessari afleitu, en alvarlegu stórveldistilraun.

En nú er það að gerast, að utanríkismálanefnd Alþingis er kölluð til fundar á mánudaginn "með samninganefnd Íslands gagnvart ESB þar sem farið verður yfir stöðu aðildarviðræðanna. Enn er kaflinn um sjávarútvegsmál óræddur og óljóst hvenær hann verður opnaður. Heimildir fréttastofu herma að í þingflokki vinstri grænna þyki mönnum óþægilegt að hefja kosningaveturinn með málið í þeim farvegi sem það er nú." (Ruv.is.)

  • Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra er ein þeirra sem telur að endurskoða þurfi ákvörðun um aðildarumsóknina. Einboðið sé að endurmeta þurfi stöðuna í aðdraganda kosninganna, vegna tímaássins (sic) og stöðu mála í Evrópu meðal annars.
  • „Þannig að Vinstri hreyfinging grænt framboð hlýtur sem flokkur að þurfa að ræða það innan sinna raða hvaða nálgun er best í slíkri endurskoðun og það er rakið að gera það á flokksráðsfundinum nú í lok mánaðarins. Og í framhaldinu tel ég rétt að fara ýtarlega yfir málið í samstarfsflokknum í ljósi þessara breyttu forsendna frá árinu 2009,“ segir Svandís.
  • Svandís vill ekki segja til um hvort hún styðji tillögu um hvort aðildarviðræðum verði frestað eða þeim hætt.
  • „En ég árétta það að VG verður að fara yfir þessi mál innan sinna raða og þar eru allir möguleikar uppi á borðinu. Í framhaldinu tel ég rétt að við förum yfir málið með samstarfsflokknum.“

Vera má, að VG ætli að koma sér úr klípu gagnvart eigin grasrót, sem frá upphafi hefur verið afar uppsigað við tvöfeldni og hrein svik forystunnar í þessum Evrópusambands-efnum. Traustið á flokknum og formanninum hefur alltjent ekki aukizt á þessu kjörtímabili, sbr. bæði þetta mál, Icesave-málið og makrílmálið, sem mörgum þykir háskalegt að hafa í höndum Steingríms. Einnig blasir nú síðast við undirgefni hins nýja efnahagsráðherra (fyrrum fjármálaráðherra!) við Evrópusambandið í tengslum við EFTA-dómstólsmálið varðandi Icesave, og er það greinarefni annars staðar.

Ljóst er, að þingflokkur VG þyrfti mikið að laga til að endurheimta tiltrúnað kjósenda sinna, þar duga engar smáskammtalækningar né andlitslyfting úr þessu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja endurskoða ESB-umsóknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Þetta segir stuðningmönnum VG kannski hversu langt forysta flokksins eru komin frá kjósendum sínum, annars held ég að það verði alveg sama hvað VG mun boða fyrir næstu kosningar þeim verður ekki trúað vegna fyrri framkomu sinnar...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 12.8.2012 kl. 07:57

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hvað kemur okkur það við hvað VG ætlar að gera?

Hefur okkur komið það eitthvað við, hvers vegna þau sviku stærsta kosningaloforðið?

Þau hafa setið umboðslaus á alþingi í rúm þrjú ár, og halda ótrauð áfram að ljúga!

Er þetta fólkið sem ætlaði að skapa traust á "nýja" Íslandi? Án trausts og heiðarleika, er ekkert nýtt í íslenskri spillingarpólitík. Svona leikrit hjá VG og fleirum, tilheyra gömlu spilltu vinnubrögðunum.

VG á ekkert eftir nema skömmina til að skreyta sig með.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.8.2012 kl. 08:21

3 Smámynd: Sandy

Vel að orði komist Anna Sigríður.

Sandy, 12.8.2012 kl. 08:48

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Steingrímur J. allsherjarráðherra og flokksforingi á með klókindum sínum eina ferðina enn eftir að svæfa þetta mál svefninum langa.

Hann mun láta skipa sérstaka nefnd "sem fari heildstætt yfir málið" eins og það verður kallað. Formaður nefndarinnar verður sjálfssagt einn helsti (S)vikapilltur Steingríms, nefnilega Árni Þór Sigurðsson.

Hann á svo eftir að sjá til þess að nefndarfundir verði fáir og allt starf nendarinnar verði í pukri og felum. Einnig á hann eftir að beita fyrir sig ýmsum klækjum og tæknilegum brögðum sem hann er þekktur fyrir sem formaður utanríkismálanefndar, s.s. að fundarboð berist ekki sumum fyrr en of seint og svo verður allskonar púðurkellingum varpað fram til þess að drepa málinu á dreif og slá ryki í augu fólks. Niðurstaða nefndarinnar mun því ekki koma fyrir kosningar. Það þýðir að tilganginum er náð og niðurstöður nefdarinnar endanlega svæfðar.

Sjáiði bara til, þessum undanbrögðum mun SJS og hanns innsta valdaklíka nú beita eins og þeir hafa gert ótal sinnum áður í eigin flokki.

Gunnlaugur I., 12.8.2012 kl. 09:27

5 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Gunnlaugur hann Steingrímur getur svo sem reynt allt sem hann getur en staðreyndin er sú að það eru að koma kosningar og Þjóðin mun kjósa og segja hug sinn til ESB í þeirri kosningu...

Það væri betra fyrir alla að Þjóðin fengi að segja vilja sinn um þetta mikla mál ESB fyrir kosningar vegna þess að ef það verður ofan á Sjálfstæð og Fullvalda viljum við vera fyrir utan ESB þá verður þessari umsókn kastað út á hafsauga svo kannski væri betra að hafa skynsemina með í ráðum og fá vilja meirihluta Þjóðarinnar fyrir næstu kosningar, en svona skýtur fólk sjálft sig í fótinn með því að haga sér óskynsamlega...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 12.8.2012 kl. 10:38

6 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

ef það verður ofan á að Sjálfstæð og Fullvalda viljum við vera, á að standa sorry...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 12.8.2012 kl. 10:39

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir, innleggjendur allir, fyrir ykkar framlag.

Jón Valur Jensson, 12.8.2012 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband