Innlimun á sér stað og fullveldi glatast með ýmsu móti

Endurbirt Mbl.grein frá 25. maí 2009:

Eftir Jón Val Jensson: "Því verður ekki á móti mælt, að Evrópubandalagið (EB) vill innbyrða Ísland."
HITLER innlimaði Súdetahéruð Tékkóslóvakíu „friðsamlega“ 1938 eftir svik Breta og Frakka í München, lagði svo undir sig Slóvakíu með yfirgangi, síðan afganginn af Tékkóslóvakíu. Hann innlimaði Austurríki með hervaldi, nánast án þess að hleypt væri af byssu, 1938, síðan fleiri lönd með miklum hervirkjum. Stalín innlimaði Eystrasaltsríkin þrjú með hervaldi og stór landsvæði önnur í lok stríðsins (472.000 ferkílómetra, fyrir utan leppríkin sjö), en eftirmenn hans lögðu undir sig Afganistan 1979-80 og hluta Georgíu árið 2007.
 

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson hyggur beitingu hervalds einu leiðina til að innlima lönd (Mbl.grein 11. maí 2009). En Norðmenn innlimuðu bæði Svalbarða og Jan Mayen í konungsríkið, átakalaust. Löngu fyrr gerði Hákon gamli Ísland að skattlandi sínu án herútboðs. Kanada innlimaði hið sjálfstæða Nýfundnaland hálf-tilneytt, að tillögu Breta, árið 1949 án beitingar hervalds, en rökin þau, að landið væri komið á hausinn. Ríki geta líka látið innlimast í stærri yfirríki, sbr. sögu Bandaríkjanna, en þar héldu þó hin einstöku ríki sínum lögum og löggjafarþingum.

Því verður ekki á móti mælt, að Evrópubandalagið (EB) vill innbyrða Ísland. Ég er ekki að tala um þjóðirnar í EB, enda fá þær ekki að ráða þessu; það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla um það í Frakklandi, hvort Ísland verði EB-ríki. En í Brussel er vélað um málin, og ítrekað hafa komið vitnisburðir þaðan úr innsta hring framkvæmdastjórnarinnar um að bandalagið vonast eftir, að Ísland verði eitt EB-ríkjanna, m.a. vegna norðurhjarasvæðanna, eins og ljóst er af tali Joes Borg, Grahams Avery o.fl. EB-útsendara sem samherjar þessa liðs innan Rúv og Fréttablaðsins hafa beygt sig og bugtað fyrir á síðustu dögum.

Raunar segir Olli Rehn, stækkunarstjórinn í hópi kommissaranna 27, að EB sé náttúrlegur eða eðlilegur staður Íslands: „Islands natürlicher Platz ist in der EU,“ og væri það af vinstrimönnum tekið sem frekleg íhlutun í íslenzk innanríkismál, ef komið hefði frá ráðherra í ríkisstjórn Bandaríkjanna, en Jóhanna þegir, Steingrímur J. snýr sér út í horn og snýtir sér, og utanríkisráðherrann sýnir lítilþægð sína með gleiðu brosi.

Sumir vilja tala um „aðild að EB“ fremur en innlimun. En Ísland á aðild að ýmsum alþjóðastofnunum, án þess að þær vilji reisa hér fána sinn yfir okkur, eins og EB-fáninn er reistur á öllum fánadögum yfir sendiráðum Breta, Frakka, Finna o.s.frv. hér í Reykjavík. EB er nefnilega yfir þjóðunum, ekki undir þeim. EB krefst æðsta löggjafarvalds yfir þjóðunum (og er veitt það), fram yfir hvaða lög og hvaða ráðstafanir sem þjóðirnar í bandalaginu kunna að hafa gert og samrýmast ekki EB-lögum og reglum, eins og ótvírætt er tekið fram í inngöngusáttmálum (accession treaties) allra nýrra þátttökuríkja („the applicant States accept, without reserve, the Treaty on European Union and all its objectives, all decisions taken since the entry into force of the Treaties“ o.s.frv. og: „Community law [lög bandalagsins] takes precedence over any national provisions which might conflict with it, [...] accession to the European Union implies recognition of the binding nature of these rules“). Skilur stjórnmálafræðingurinn Gunnar Hólmsteinn Ársælsson ekki merkingu þeirra orða?

Höfundur er guðfræðingur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband