Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ég skammast mín fyrir að ég kaus evruna

“ESB-búrókratarnir vissu mætavel að evran mundi lenda í krísu en reiknað var með að allir myndu festast og kreppan við það breytast í lyftistöng sem gæti þvingað fram stofnun Bandaríkja Evrópu þrátt fyrir andstöðu fólksins,” skrifar Lars Bern, meðlimur í Konunglegu Verkfræðivísindaakademíunni um áramótin á vefsíðu Newsmill.se

 

 

Þeir eru margir Svíarnir sem algjörlega hefur snúist hugur eftir að raunverulegur tilgangur evrunnar og evrukrísunnar hefur afhjúpast og allar þær þjáningar sem einkum íbúar Suður-Evrópu þurfa að þola, vegna tilraunarinnar um Súperríki Evrópu.

 

Í dag eru næstum því 86% Svía andvígir því að taka upp evru. Einungis 11,4% vilja taka upp evru skv. skoðanakönnun SKOP um áramótin meðal 1000 Svía (sjá línurit).

 

 

afstadasvia 

 

“Við Evrópubúar höfum lengi dáðst að og öfundað framgang og styrkleika Bandaríkjamanna. Sú tilfinning hefur örugglega verið mikilvæg ástæða fyrir vexti Evrópusambandsins. Fyrir yfirstétt stjórnmálanna í Evrópu hefur markmiðið allan tímann verið að mynda Bandaríki Evrópu. Í ákafanum hefur manni yfirsést, hversu gjörólíkar forsendurnar hafa verið”, skrifar Lars.

 

“Líti menn á ríki Evrópu og beri saman við USA ættu allir að skilja, að verkefnið, sem við reyndum að fá í gang hérna megin, hafði miklu verri möguleika á að heppnast. Sjálfur hef ég lengi tilheyrt þeim, sem fönguðu drauminn á gagnrýnislausan hátt. Í öllum kosningum hef ég kosið það sem var jákvætt fyrir sænskan aðgang og sambandshugmyndina. Ég kaus meira að segja evruna, sem ég sé eftir í dag og skammast mín fyrir. Ég hefði mátt vita betur.

 

Núna skil ég, að draumurinn er hægt en örugglega að breytast í martröð. Við höfum skapað búrókratiskan risa á leirfótum, sem lifir sínu eigin lífi án nokkurrar lýðræðislegrar stjórnunar.”

 

“Það sem auðkennir stóran búrókratisma er stöðug ásækni þeirra eftir meiri viðurkenningu til að auka vald sitt. Fyrir ESB-búrókratanna hefur þetta þýtt, að þeir hafa leitað eftir ógn, sem hægt væri að nota til réttlæta meiri yfirbyggingu. Í byrjun, á meðan ESB var fríverslunarsamband, þá voru viðskiptamálin aðalatriðið.  En með aukinni valdagræðgi hefur verið ruðst inn á önnur svið eins og öryggismál, umhverfismál og innflytjendapólitík.”

 

Lengra í greininni skrifar Lars Bern:

 

“Hvernig gat fallegi draumurinn um sameinaða Evrópu mistekist svona herfilega? Það finnast sjálfsagt margar hlutaskýringar en ég held, að manneskjulegur veikleiki skipti hér miklu máli. Allt sjónarspilið með stórfundi ESB, ráðherraráðinu og hinu táknræna þingi hefur orðið að leikstofu yfirstéttar stjórnmálamanna í Evrópu. Það hefur í hæsta máta verið hvetjandi fyrir ráðherra okkar að geta farið til Bryssel og snætt kvöldverð með þekktum þjóðarleiðtogum og komast með á myndir í heimspressuna eða að minnsta kosti í sjónvarp í Evrópu. Þetta hefur verið mun skemmtilegra heldur en að puða á þinginu heimavið eða í fundarherbergjum sveitafélaganna.”

 

“Fyrir ESB-búrókratana var upptaka evrunnar að sjálfsögðu mikilvægt skref í að malbika völdin og þjappa þeim enn meira saman í Bryssel. Það hafði engin áhrif, að margir hagfræðingar vöruðu við því að taka upp einn og sama gjaldmiðilinn hjá öllum þessum ólíku löndum. Persónur í leiðandi stöðum vissu mætavel, að það yrði kreppa á leiðinni, en þá var gengið út frá því, að allir myndu festast og kreppan við það breytast í lyftistöng, sem gæti þvingað fram stofnun Bandaríkja Evrópu, þrátt fyrir andstöðu fólksins. Það er síðasti kaflinn í þessu ferli, sem við erum vitni að í dag.

 

Núna, þegar allt lítur út fyrir að ganga á verri veg, fáum við að heyra frá þessum stjórnmálamönnum, sem hafa málað sig út í ESB-hornið, að ESB sé upprunalega friðarverkefni. Með því að búa til sambandið sé hægt að forðast illdeilur í framtíðinni. Það er smámunasamt að komast að því, að staðan sem þeir hafa nú komið okkur í með óheyrilegum lýðræðisskorti og þýsk/frönskum einræðistilskipunum leiðir líklega til þess ástands, sem fullyrt er að ESB eigi að koma í veg fyrir. Mótsetningarnar aukast milli fólksins í Evrópu.

 

Ef stjórnmálamenn Evrópu gætu haft hemil á sér væri það skynsamlegasta, sem þeir gætu gert, að skrúfa sundur risann í Bryssel og hverfa aftur til þess, sem hefur verið jákvætt í ESB-verkefninu. Látum fríverslunarbandalag duga og sameiginlegan markað fyrir vörur og þjónustu, það sem fólkið vill hafa ... Látum fólkið í Evrópu fá að lifa í sjálfstæðum frjálsum ríkjum sínum og þróa sérstakar menningararfleifðir sínar í Evrópu, þar sem öllum blómunum verður leyft að vaxa.”

 

Ég hef engu við þessi orð Lars Berns að bæta. Spurningin er, hvort þróunin hafi ekki þegar gengið svo langt, að ekki verði aftur snúið og friðarverkefnið breytist í andstöðu sína.

 

Stokkhólmi 15. maí 2012,

Gústaf Adolf Skúlason.

Greinarhöf. er fyrrv. ritari evrópskra samtaka smáfyrirtækjaeigenda,

hefur birt fjölmargar blaðagreinar um efnahags-, sjávarútvegs- og stjórnmál

og er varaform. Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland.


mbl.is Tóku út 700 milljónir evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðsnúningur Bjarna Benediktssonar í EES- og stjórnarskrármáli er fagnaðarefni

"Stórkostlegt valdaframsal til ESB" er fyrirsögn á forsíðu Fréttabl. í dag. Þar segir Bjarni sameiginlegt fjármálaeftirlit á EES-svæðinu krefjast þessa, verði kerfið innleitt í EES-samninginn, og að menn verði að gera sér grein fyrir að risahagsmunir séu þar undir. Bjarni virðist hafna því, að hið nýja kerfi megi að óbreyttu innleiða hér, og tekur sérstaklega fram, að hann er því algerlega mótfallinn að fara þá leið, sem Össur Skarphéðinsson hafði lagt til, því að BB segir orðrétt:

  • "Ég tel fráleitt að við myndum hrökkva til og breyta stjórnarskránni út af þessari gerð ESB, það finnst mér alls ekki koma til greina."

Hefðu þessar reglur verið í gildi 2008, þá hefði Alþingi ekki getað sett neyðarlögin. 

  • "Ef þessar gerðir sem ESB er að fara fram á að verði innleiddar í EES-samninginn hefðu verið í gildi þegar bankakrísan skall á 2008, þá hefðum við að mestu tekið við fyrirskipunum frá Brussel," segir Bjarni.

Og takið eftir þessum lokaorðum í hinni ágætu forsíðufrétt:

  • Með breytingunum er í fyrsta sinn farið fram hjá tveggja stoða kerfi sem byggt hefur verið inn í EES-svæðið. "Það eitt og sér er stórmál," [sagði Bjarni]. (Sbr. nánar HÉR.)

Af stöðu mála ætti að vera ljóst, að mikið er nú komið undir því, að stjórnmálamenn í Noregi og á Íslandi taki einhuga afstöðu, þvert á allar flokkalínur, gegn þeirri óbilgjörnu stefnu Evrópusambandsins nú um stundir að vilja engar málamiðlanir um eðli hugsanlegra breytinga á þessum málum í EES-löndum utan ESB, en þannig eru Brusselherrarnir að óvirða tveggja stoða kerfið með því að ákveða sjálfir allt einhliða í málinu.

Þessi ánægjulegi viðsnúningur Bjarna í málinu er gott skref í þá réttu átt að mynda þá norrænu samvinnu um staðfestu gegn einhliða boðvaldi ESB, sem hér var rætt um. Hann er einnig með orðum sínum að draga nokkuð úr líkunum á því, að Össur geti neytt hér færis til að láta umbreyta stjórnarskránni til þess í raun að búa þar til fráleita heimild til að ofurselja Evrópusambandinu æðstu fullveldisréttindi þessa lands.

Jón Valur Jensson. 


Ísafold með yfirlýsingu gegn áróðursherferð ESB

Sannarlega er það rétt hjá unga fólkinu í Ísafold að gagnrýna áróðursbrellur Evrópusambandsins hér á landi. Þarf ekki að víkja burt þessum Timo Summa sendiherra, sem brýtur hér lög? Burt skal ESB með sínar 230 milljónir til að blekkja íslenzkan almenning, eins og við höfum ekki þurft að búa við ærinn "Evrópuhraðlestar"-áróður hingað til og um langt árabil !

Brynja Halldórsdóttir, talskona Ísafold.

Brynja Halldórsdóttir og félagar hennar í Ísafold hafa nú tekið á þessu hneykslismáli. Þeim "þykir skjóta skökku við að Evrópustofa sé með virkum hætti að hafa áhrif á umræðuna á Íslandi." (Mbl.is.) Hér er yfirlýsing Ísafoldar:

  • "Margra daga opin hátíðarhöld í tilefni Evrópudagsins svokallaða sem Evrópustofa stendur fyrir gefa upp ýkta glansmynd af aðlögunarferlinu og Evrópusambandinu sem slíku. Þessi hátíðarhöld sem fjármögnuð eru af ESB eru til þess fallin að draga úr þeirri neikvæðu ímynd sem Íslendingar réttilega hafa vegna framgöngu ESB og aðildarríkja þess. 
  • Á sama tíma og blásið er til hátíðar er Evrópusambandið í málaferlum við Íslendinga fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave kröfu Breta og Hollendinga. Þá eru ekki öll kurl komin til grafar í deilunni um makrílinn vegna samþykktar sjávarútvegsnefndar ESB–þingsins frá 24. apríl sl. að tillögu Framkvæmdarstjórnarinnar um reglur til þess að refsa ríkjum utan sambandsins sem að mati þess stunda ósjálfbærar fiskveiðar. 
  • Verði Evrópustofa áfram starfrækt hér á landi á meðan aðlögunarferlið er í gangi, er það von Ísafoldar að þeir sem að stofnuninni standa sjái sóma sinn í því að vera eingöngu til staðar innan veggja skrifstofunnar. Þá getur hver sá er vill, aflað sér "hlutlægra" upplýsinga um ESB frá Evrópusambandinu sjálfu án þess að Evrópustofa, með sendiherra ESB sér við hlið, blandi sér markvisst í íslensk innanríkismál og skekki lýðræðislega umræðu Íslendinga." 

mbl.is Gagnrýna Evrópuviku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gísli Holgersson ritar: ESB-feigðin

mynd 2012/05/09/GGLP1U8F.jpg  "Er það ekki móðgun við Íslendinga að ESB moki yfir landið mútufé í hundruðum milljóna sem fara í botnlausa vasa utanríkisþjónustunnar?"

Grein Gísla í Mbl. í dag, ESB-feigðin, er mjög athyglisverð.

  • "Óróleiki Vestur-Evrópu
  • Enn leiða Samfylkingin og VG ESB-„feigðina“ yfir landið. Innan ESB eru rúmlega 500 milljónir íbúa sem eru úrvinda af skrifræði og reglufargani. Atvinnuleysi er sumstaðar fimmfalt meira en á Íslandi. Þarna tifar óróleiki Vestur-Evrópu. Samfélagsmál, evruvandi og atvinnumál eru áhyggjuefni á heimsvísu. Keppumst ekki um að gera Ísland að fjölþjóðasamfélagi, til þess erum við alltof fámenn. Fylgjast Íslendingar ekki með erlendum fréttastöðvum?
  • Ætla Íslendingar að gefa rétt sinn um 200 mílna landhelgi til ESB og leita leyfa um hvaða fisk má draga úr sjó hér uppi í landsteinum? Á Brussel að svara fyrir olíulindir okkar á Drekasvæðinu? Á Brussel að svara fyrirspurnum um Norður-Íshafssiglingar? Vilja Íslendingar greiða ESB-skrifræðinu 15-20 miljarða á ári fyrir „vistina“? Þetta gjald fer hækkandi, ekki lækkandi."

Þannig ritar Gísli, sem er kaupmaður að starfi. Hann varð vel við ósk um að fá að vitna hér í grein hans alla. Hún endar þannig:

  • "Flýjum stórveldið og ESB-vistina
  • Sjá Íslendingar ekki vandræðagang samfylkingarmanna og VG með landsstjórn og stjórn utanríkismála? Milljörðum hefur verið eytt frá þjóðinni vegna mannaskipta meðal alþingismanna og ráðherra í ríkisstjórn. Hvað hefur umsókn stjórnarliðsins að ESB-vandamálum kostað íslenska þjóð? Er það ekki móðgun við Íslendinga að ESB moki yfir landið mútufé í hundruðum milljóna sem fara til auglýsingastofa, Evrópuspjallara og í botnlausa vasa utanríkisþjónustunnar? Óskum ekki eftir aðild "stórvelda" og nærveru ESB-landa. Kjósum tafarlaust á móti þessari meðferð á landinu okkar."

 


"Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum"

Ragnhildur Kolka

Ragnhildur Kolka skrifar í dag í Mbl.: "Það sem hér er stefnt að er nokkurs konar Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum. Án aðstoðar ESB hefði Grikkjum ekki tekist að koma sér í þessa holu sem þeir nú eru í. Ódýr lán flæddu inn í landið frá ESB-ríkjunum með sérsniðnum vöxtum þýska hagkerfisins. Til að viðhalda innstreyminu var bókhaldið barið til hlýðni og endalaus Vaðlaheiðargöng fengu forgang utan fjárhagsáætlana."

Tilefni skrifa hennar var fréttin á Stöð 2 um möguleika kræklingabænda til að afla sér lífsviðurværis, sem "vakti ekki beinlínis með manni vonir um að hér færi að birta til í atvinnumálum," eins og hún ritar þar. -- Grein hennar nefnist ... þar sem lífsþrekið er barið niður og er viðbragð við kyndugu máli, þar sem kræklingabóndi varð fyrir ótrúlegri meðferð býrókratískrar stofnunar, sem sektaði hann jafnvel fyrir að "fyrir að móttaka bréf [frá stofnuninni] sem aldrei átti að senda".

Hún horfir þar upp á þægðarfulla viðleitni ríkisstjórnarinnar til að framfylgja ESB-stefnu í stjórnkerfinu. "Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður seint vænd um að rýra hlut stofnananna sem bólgnað hafa úr öllu hófi, enda hlýðin tilskipununum að ofan," segir hún. Öðru máli gegni um ýmsar aðrar stofnanir hér, eins og hún ritar: 

  • Tiltekt og aðhald nær helst til stofnana sem almenningur stólar á þegar á bjátar, s.s. heilbrigðisþjónustu og löggæslu, sem enn eru aflögufærar að mati ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir tuga prósenta niðurskurð. Þar má skera inn að beini og beri einhver skaða af má úrvinda starfsfólk taka skellinn.
  • Í millitíðinni heldur stjórnin ótrauð áfram að sinna velferð stofnana sinna og starfsmanna þeirra. Og allt er það gert í nafni endurskipulags og sparnaðar. 

Og takið eftir þessu (leturbr. hér):

  • Breytingarnar á stjórnarráðinu sem nú eru til umræðu eru einmitt ein slík sparnaðaraðgerð. Þar er rösklega tekið til hendi og ráðuneytum sem við upphaf stjórnartíðar Jóhönnu voru 12 skal nú fækkað í 8. Og nú skyldi maður spyrja: er það ekki hið besta mál? Jú, vissulega, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi að um leið og nýju nafnplöturnar fara í slátt mun fjölföldunarvélin spýta út röð af nýjum ráðherrum. Tilkoma yfir- og undir- og undirundir-ráðherra munu kalla á sæg nýrra blýantsnagara svo friðþægja megi kröfum ESB um "enn öflugri" eftirlitsstofnanir. Ekki dugar að láta kræklingabændur eina lúta eftirliti. Nú þarf að sauma kerfið að kartöflubændum, berjabláum fjörulöllum og öllum þeim sem enn eru svo einfaldir að halda að auðlindir á eigin landi lúti einkaeignarrétti. Slík lausung skal ekki liðin.
  • Það sem hér er stefnt að er nokkurs konar Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum.

Menn þurfa að fletta í blaðinu til að lesa lengra, mjög áhugaverðar upplýsingar þar um Grikklandsmálin (Mbl. í dag, bls. 23, eða HÉR).

Ragnhildur Kolka lífeindafræðingur er félagsmaður í Heimssýn og í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland og veitti góðfúslega leyfi til að vitna hér í grein sína.


mbl.is Ragnhildur Kolka: Stofnanavæðing stjórnarinnar er helstefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Már Stefánsson prófessor telur endurnýjaða áherzlu á "tveggjastoðakerfið" vera úrlausnarleið í stað hinna tveggja úrslitakosta Össurar

  • "Stefán bendir á að þegar samið hafi verið um EES-samninginn á sínum tíma hafi EFTA-ríkin lagt mikla áherslu á að um tveggja stoða kerfi yrði að ræða og að þau yrðu ekki undir lögsögu Evrópudómstólsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sett. Fyrir vikið hafi EFTA-dómstólnum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið komið á fót til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem gerðust aðilar að honum; Íslandi, Noregi og Liechtenstein."

Þannig segir Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður frá viðtali við próf. Stefán Má, sem er okkar færasti sérfræðingur í ESB- og EES-löggjafar og dómsmálum.

Ef hér yrði farin leið Össurar og Samfylkingarinnar, væri ótvírætt verið að framselja hluta ríkisvalds okkar til Evrópusambandsins, setja okkur undir "valdsvið nýrra eftirlitsstofnana þess með fjármálamörkuðum ... Ákvörðunum þessara stofnana yrði hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins og eftir atvikum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins" (skv. sama fréttaviðtali á Mbl.is), en hér kemur þetta babb í bátinn:

  • "Það gengur hins vegar gegn stjórnarskránni og yrði að breyta henni til þess að slíkt væri mögulegt eins og fram kemur í áliti sem Stefán vann fyrir ríkisstjórnina ásamt Björgu Thorarensen lagaprófessor."

Össur og ESB-sinnarnir sjá sér nú færi á því að draga Ísland enn lengra undir áhrifavald evrópska ríkjabandalagsins og undir miðstýringarafl þess, jafnvel þótt ekki væri komið svo langt að setja sjávarútvegsmál o.fl. málaflokka undir það vald, eins og gerast myndi með beinni inntöku Íslands í Evrópusambandið. Þennan tvíþætta ávinning sjá þessir ESB-meðvirku menn ugglaust í því:

  1. Að þeir geti haldið áfram að fullyrða, að stökkið yfir í sjálft ESB sé alltaf að verða minna og minna ... og svo lítið, að litlu máli skipti! (Það yrði þó í reynd risastökk og fæli í sér gagngera eðlisbreytingu á stjórnskipan okkar, með óbætanlegum skaða fyrir sjálfræði lýðveldisins.)
  2. Að þetta yrði látið gerast með upptöku ákvæðis í stjórnarskrá, að heimilt sé að framselja vald "til alþjóðlegra stofnana", en einmitt það ákvæði (sem þarna væri ætlað að hleypa í gegn valdsframsali vegna fjármálastofnana) yrði síðan notað til að reyna að fá því framgengt, að allsherjarvald okkar stjórnskipunar yrði sett undir Evrópusambandið, eins og gerast myndi með formlegum ákvæðum aðildarsamnings, þar sem ævinlega stendur skýrum stöfum, að nýja aðildarríkið taki sjálfkrafa við öllum sáttmálum, lögum og reglugerðum Evrópusambandsins, strax frá þeirri stundu, og allri framtíðarlöggjöf þaðan líka -- og að rekist þau ákvæði á við landslög, skuli lög ESB ráða -- og að ESB hafi stofnanir sem sjái um að úrskurða um vafa- eða deilumál um inntak laganna, sem sagt væri að rækjust á (þannig að jafnvel þau ágreiningsmál kæmu aldrei til kasta Hæstaréttar Íslands). -- Össurarliðið hyggst reyna að renna þessu í gegn, rétt eins og nýrri innistæðitilskipun ESB, sem gera mundi okkur að leiksoppi sambandsins við næstu bankakreppu, enda væru þær innistæður þá tryggðar beinlínis af ríkinu og með fimmfalt hærra tryggingarhámarki en því, sem tryggt var hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta á tíma Icesave-málsins.

Um þessi mál verður mikið fjallað á næstunni, nema menn kjósi værðina áfram.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fæli í sér eðlisbreytingu á samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

22,6% fólks undir 25 ára aldri á evrusvæðinu er atvinnulaust

Alls eru 25 milljónir manna án atvinnu í Evrópusambandinu. Hér er ekki verið að ljúga upp á ESB, enda er þetta samhljóða fyrirsögn í sjálfu Fréttablaðinu í gær (bls. 10). Þar af eru rúmar 17 milljónir á hinu rómaða evrusvæði (í marz á þessu ári, frá þeim tíma eru nýjustu tölur). Atvinnuleysið var 10,2% í marzmánuði, en 9,4% einu ári áður. Gæfulegt eða hitt þó heldur! -JVJ.

PS. 9/5: Hér á landi var 9,3% atvinnuleysi í febr. og marz 2010, 8,6% í febr. 2011 og 7,3% í febr. 2012.


Austurrískur lögfræðingur: Framkvæmdastjórn ESB myndi líklega ÓGILDA tvíhliða viðskiptasamninga Íslands við lönd utan ESB

Þetta kom fram í erindi hans, Niklas Maydell, á opnum fundi Lagastofnunar Háskóla Íslands á fimmtudag. Fréttablaðið sagði frá (sjá hér).

  • Maydell benti á að með gildistöku Lissabon-sáttmálans 2009 hefði vald yfir gerð tvíhliða viðskiptasamninga færst frá aðildarríkjunum til leiðtogaráðs ESB. Íslensk stjórnvöld gætu því eftir inngöngu ekki gert slíka samninga við önnur ríki nema í gegnum ESB ...
  • Þar sem Ísland hefði ... ekki verið í ESB fyrir gildistöku Lissabon-sáttmálans væri líklegt að framkvæmdastjórn ESB myndi ógilda viðskiptasamninga Íslands eftir aðild nema samið yrði um annað í aðildarviðræðunum.

Það er eins gott að menn hafi þetta á hreinu.  --JVJ.


Þetta er stóra málið: við viljum ekki fullveldisframsal til Evrópusambandsins

Gríðarlegt vald yrði falið "sameiginlegu fjármálaeftirliti ESB hér á landi" (m.a. að banna Kaupþing og lífeyrissjóðina!) ef ný reglugerð ESB kæmust hér á gegnum EES-leiðina, en er ÓLÖGLEGT skv. stjórnarskránni. Hún heimilar EKKI slíkt framsal valds til stofnana á vegum Evrópusambandsins.

Frétt um þetta mál í Sjónvarpinu á fimmtudagskvöldi vakti suma, ekki alla, upp af dvalanum. Þetta mál í hugum ESB-hneigðra knýr á um þá breytingu á stjórnarskrá Íslands, sem þá virðist dreyma um: að leyfa slíkt framsal fullveldis okkar -- og yrði það þó bara partur af því fullveldisframsali, sem gerast myndi með raunverulegri "aðild" að Evrópusambandinu : þar væri verið að framselja til ríkjasambandsins öllu æðsta löggjafarvalds-fullveldi, sem og fullveldisrétti okkar yfir fiskimiðum okkar, a.m.k. utan 12 mílna, yfir efnahagslögsögunni raunar og æðsta stjórnvaldi yfir öllum sjávarútvegsmálum, allt frá hvölum niður í möskvastærð neta og nýtingu átunnar hér við land, ljósátu og minnstu seiða.

Við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland erum andvíg afsali æðsta löggjafarvalds í hendur annarra ríkja eða ríkjasambanda. Það merkir þá jafnframt, að við tökum afstöðu gegn því að breyta stjórnarskránni í þágu fullveldisafsals í annarra hendur en þeirra sem byggja þetta land.

Hér er, ef að er gáð, bezta þekkingin á því sem okkur kemur vel og hentar lífsháttum okkar, hvort sem um fiskveiðar, stýringu veiða úr öðrum villtum stofnum eða um aðra hluti er að ræða sem varða sjálfa stjórn okkar á landinu. Orð, sem Jón Sigurðsson lét falla í þessa átt, eiga eins vel við nú og þá.

En aftur að fréttinni. Nú hefur utanríkisráðuneytið fengið það staðfest eftir grandgæfilega skoðun tveggja lagaprófessora, Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen, að ef þessar reglur í nýju ESB-reglugerðinni yrðu innleiddar hér á landi óbreyttar, "yrði gengið lengra í framsali framkvæmdavalds og dómsvalds en talið er að heimilt sé samkvæmt stjórnarskránni."

Samkvæmt þessu er bannað að innfæra þessar reglur hér. En Evrópusambandið hefur ekki þegið einhverjar framboðnar málamiðlunartillögur á vegum íslenzkra og norskra stjórnvalda, heldur ætlast til þess að Íslendingar og Norðmenn lögtaki þetta eins og ekkert sé!

Það sama gæti átt við um nýja innistæðutilskipun ESB, sem myndi nær fimmfalda tryggingu innistæðna (hækka trygginguna úr 20.887 evrum upp í 100.000, stytta ennfremur útgreiðslutíma tryggingarinnar og leggja hana beinlínis á herðar ríkisins í hverju tilviki!).

Það er því eðlilega komið að krossgötum hér. Utanríkisráðherrann benti á það í frétt Sjónvarpsins, að hér væri tvennt til: annaðhvort að breyta stjórnarskránni til að leyfa fullveldisframsal eða að færa okkur úr úr EES-samningskerfinu. Margt bendir til, að einnig Norðmenn verði brátt að íhuga seinni kostinn. Ýmsir óttast hann þó, þ.e. uppsögn EES-samningsins, en gleyma því þá gjarnan, að í gildi er tolla- og fríverzlunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins.

Þetta er málefni, sem full nauðsyn er nú að ræða í framhaldinu. Vonandi hafa alvarlega þenkjandi menn bara haft gott af því að fá þessa viðvörun: að hætta steðjar nú að varnarákvæðum stjórnarskrárinnar, þeim sem sett voru í þágu fullveldis okkar. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Reglugerðin ósamrýmanleg stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?

 

Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?  Gústaf Skúlason ritar:

Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði á 72 % og útrýmingarhættu 20 % fiskistofna í vötnum ESB. Á 14 ára tímabili hefur afli ESB minnkað um 30 % og dugir einungis fyrir helming fiskneyslu íbúanna. ESB verður sífellt háðara fisk annarra og innflutningi sjávarafurða. Fiskveiðistefna ESB hefur eyðilagt sjávarútveg í mörgum löndum og kostar skattgreiðendur milljarða evra árlega. T.d. er sjávarútvegur Bretlands ekki svipur hjá sjón með fækkun starfa um 70 - 80 %. Í sumum tilvikum er fimm sinnum magni þess afla kastað, sem komið er með að landi, sem vakið hefur gífurlega reiði almennings (sbr. fishfight.net). Á Norðursjó er helmingi aflans um einni milljón tonna af príma þorsk og ýsu fleygt dauðum í hafið vegna stefnu ESB. Áframhaldandi gegndarlaus ofveiði og útrýming á fiskistofnum heims mun að mati ýmissa vísindamanna leiða til hruns arðbærra fiskveiða fyrir árið 2048.

Ef ESB tæki upp fiskveiðistefnu Íslendinga og stundaði ábyrgar fiskveiðar í stað 72 % ofveiði og útrýmingar fiskistofna, myndi það skapa yfir 100 þúsund ný störf og aukatekjur, sem væru fimm sinnum hærri en núverandi fiskveiðistyrkir ESB. Ekkert bendir þó til þess, að ESB muni fylgja fordæmi Íslendinga í náinni framtíð. Íslenska ríkisstjórnin hefur nú kastað þeirri sprengju á best rekna sjávarútveg í heimi, að greinin aðlagi sig að fordæmalaust illa rekinni og ríkisstyrktri fiskveiðistefnu ESB. Gangi það eftir mun starfsmaður í íslenskum sjávarútvegi ekki lengur skapa tífaldar gjaldeyristekjur miðað við starfsmann annarra greina né sjávarútvegur um helming allra gjaldeyristekna þjóðarinnar.

En ríkisstjórnin heldur áfram að draga þjóðina á asnaeyrum með því að aðlaga Ísland að ESB á meðan þjóðinni er sagt að bíða og sjá, hvað kemur úr pakkanum. Með því að taka stóran hluta kvótans eignaupptöku og færa í hendur stjórnmálamanna til að koma á ”réttlátari” skiptingu gróðans, er ríkisstjórnin að hrifsa til sín farsæla stjórn greinarinnar frá útvegs- og sjómönnum. 70% skattur á hagnað útgerðarinnar kippir endanlega rekstrargrundvelli undan íslenskum sjávarútvegi og þá fær ríkisstjórnin vilja sínum framgengt að aðlaga atvinnugreinina að stjórnar- og styrkjakerfi ESB. Þar með gerir ríkisstjórnin ESB-heimavinnuna sína áður en kaflinn um sjávarútveginn verður opnaður og grundvöllurinn lagður að yfirtöku ESB á aðalauðlind Íslands fiskmiðunum. Innleiðing evrunnar mundi síðan útrýma því, sem eftir væri af sveigjanleika og samkeppnishæfni greinarinnar og dauðadómur yfir fjöreggi þjóðarinnar endanlega staðfestur.

Ég hef áður í greinum í MBL (Ásælni ESB í fisk annarra landa 1. sept. 2010 og Hver gefur ESB undanþágu frá ofveiði og útrýmingu fiskistofna 23. ágúst. 2011) gert grein fyrir rannsóknum og niðurstöðum NEF (New Economic Foundation, neweconomics.org), sem gefið hefur út skýrslur um ofveiðar ESB. Með því að reikna út ofveiðar í heiminum og bera saman við aflaverðmæti í ESB hefur NEF komist að þeirri niðurstöðu, að ESB gæti aukið afla sinn um 3,53 milljónir tonna árlega með því að hætta ofveiðum og taka upp ábyrgar fiskveiðar. Mundi aflinn þá duga fyrir ársþörf íbúanna og ESB verða sjálfu sér nógt í stað þess að verða sífellt háðara öðrum. Með því að rækta upp sjálfbæra fiskstofna með ábyrgum veiðum eins og gert er á Íslandi, gæti viðbótaraflinn aukið fiskveiðitekjur ESB mótsvarandi 3,19 milljörðum evra. Það er fimm sinnum hærri upphæð en árlegir styrkir ESB til greinarinnar. Færi ESB að ráðum íslenskra útvegsmanna gæti ESB því skapað yfir 32 þús. ný störf við veiðarnar og að auki 69 þús. störf við fiskvinnslustöðvar eða samtals yfir 100 þús. ný störf. Mundi ekki veita af því hjá ríkjasambandi með íbúafjölda mótsvarandi 75 Íslöndum opinberlega á atvinnuleysisskrá.

En þannig hugsa ekki óábyrgir stjórnmálamenn, sem ríghalda í stórveldadraum og misheppnaðan gjaldmiðil og láta sig raunveruleikann engu skipta. Þjóðin hefur áður leiðbeint ráðvilltum stjórnmálamönnum en nú þarf annað að koma til, því ríkisstjórnin er hreint ekkert ráðvillt í því markmiði sínu að eyðileggja lýðveldið Ísland og leggja fjöregg þjóðarinnar í líkkistuna í Brussel. Þar sem spádómurinn um Kúbu norðursins vill ekki rætast reynir íslenska ríkisstjórnin allt til að koma þjóðinni á þann stað. Vandamálið er hins vegar, að ástandið í mörgum evruríkjum er orðið það slæmt, að Kúba raunveruleikans verður að gósenlandi í samanburði. Núna þarf þjóðin að snúa bökum saman með þeim þingmönnum, sem sýnt hafa, að þeir standi við gefið drengskaparheit að fylgja stjórnarskránni en krefjast reikningsskila við hina. Þingmenn meirihlutans, sem í tvígang hafa fengið vottorð Hæstaréttar um stjórnarskrárbrot, eru búnir að fyrirgera rétti sínum til þingsetu með broti á þingskapareið sínum. 

ESB þarf á gjöfulum fiskimiðum Íslendinga að halda til að mæta sífellt minni fiskveiðum á eigin miðum. Fiskveiðistefna ESB leiðir að mati ýmissa haffræðinga til hruns arðbærra fiskveiða eftir u.þ.b. 30-40 ár. Hvaða þingmenn á Alþingi vilja leiða þetta brjálæðisskipbrot yfir þjóðina í nafni ESB draumsins? 

Gústaf Skúlason                                                                                                                
Greinin birtist í Morgunblaðinu í apríl

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband