Viðsnúningur Bjarna Benediktssonar í EES- og stjórnarskrármáli er fagnaðarefni

"Stórkostlegt valdaframsal til ESB" er fyrirsögn á forsíðu Fréttabl. í dag. Þar segir Bjarni sameiginlegt fjármálaeftirlit á EES-svæðinu krefjast þessa, verði kerfið innleitt í EES-samninginn, og að menn verði að gera sér grein fyrir að risahagsmunir séu þar undir. Bjarni virðist hafna því, að hið nýja kerfi megi að óbreyttu innleiða hér, og tekur sérstaklega fram, að hann er því algerlega mótfallinn að fara þá leið, sem Össur Skarphéðinsson hafði lagt til, því að BB segir orðrétt:

  • "Ég tel fráleitt að við myndum hrökkva til og breyta stjórnarskránni út af þessari gerð ESB, það finnst mér alls ekki koma til greina."

Hefðu þessar reglur verið í gildi 2008, þá hefði Alþingi ekki getað sett neyðarlögin. 

  • "Ef þessar gerðir sem ESB er að fara fram á að verði innleiddar í EES-samninginn hefðu verið í gildi þegar bankakrísan skall á 2008, þá hefðum við að mestu tekið við fyrirskipunum frá Brussel," segir Bjarni.

Og takið eftir þessum lokaorðum í hinni ágætu forsíðufrétt:

  • Með breytingunum er í fyrsta sinn farið fram hjá tveggja stoða kerfi sem byggt hefur verið inn í EES-svæðið. "Það eitt og sér er stórmál," [sagði Bjarni]. (Sbr. nánar HÉR.)

Af stöðu mála ætti að vera ljóst, að mikið er nú komið undir því, að stjórnmálamenn í Noregi og á Íslandi taki einhuga afstöðu, þvert á allar flokkalínur, gegn þeirri óbilgjörnu stefnu Evrópusambandsins nú um stundir að vilja engar málamiðlanir um eðli hugsanlegra breytinga á þessum málum í EES-löndum utan ESB, en þannig eru Brusselherrarnir að óvirða tveggja stoða kerfið með því að ákveða sjálfir allt einhliða í málinu.

Þessi ánægjulegi viðsnúningur Bjarna í málinu er gott skref í þá réttu átt að mynda þá norrænu samvinnu um staðfestu gegn einhliða boðvaldi ESB, sem hér var rætt um. Hann er einnig með orðum sínum að draga nokkuð úr líkunum á því, að Össur geti neytt hér færis til að láta umbreyta stjórnarskránni til þess í raun að búa þar til fráleita heimild til að ofurselja Evrópusambandinu æðstu fullveldisréttindi þessa lands.

Jón Valur Jensson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott og vel Jón Valur, en væri ekki skynsamlegra fyrir Bjarna að hafa þor til að taka einarða afstöðu í svona málum í upphafi vega, en ekki vera að leiðrétta sig þegar honum er orðið ljóst að hans afstaða fellur í grýttan jarðveg. Pólítíkusar sem aka seglum eftir vindi eru ekkert annað en sölumenn, alvöru stjórnmálamenn hafa fastmótaðara skoðanir á hlutunum og eru tilbúnir að standa eða fallla með þeim.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 11.5.2012 kl. 10:55

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er langur vegur frá því að ég treysti Bjarna Benediktssyni þótt hann láti eitthvað svona frá sér fara. Hann er kafbátur og ESB sinni inn við beinið. Hann er ekki traustsins verður eins og sagan hefur margsýnt, svo ég geld varhug við að menn fagni orðum hans óséð.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.5.2012 kl. 14:34

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með Jóni Steinari.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.5.2012 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband