Stefán Már Stefánsson prófessor telur endurnýjaða áherzlu á "tveggjastoðakerfið" vera úrlausnarleið í stað hinna tveggja úrslitakosta Össurar

  • "Stefán bendir á að þegar samið hafi verið um EES-samninginn á sínum tíma hafi EFTA-ríkin lagt mikla áherslu á að um tveggja stoða kerfi yrði að ræða og að þau yrðu ekki undir lögsögu Evrópudómstólsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sett. Fyrir vikið hafi EFTA-dómstólnum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið komið á fót til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem gerðust aðilar að honum; Íslandi, Noregi og Liechtenstein."

Þannig segir Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður frá viðtali við próf. Stefán Má, sem er okkar færasti sérfræðingur í ESB- og EES-löggjafar og dómsmálum.

Ef hér yrði farin leið Össurar og Samfylkingarinnar, væri ótvírætt verið að framselja hluta ríkisvalds okkar til Evrópusambandsins, setja okkur undir "valdsvið nýrra eftirlitsstofnana þess með fjármálamörkuðum ... Ákvörðunum þessara stofnana yrði hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins og eftir atvikum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins" (skv. sama fréttaviðtali á Mbl.is), en hér kemur þetta babb í bátinn:

  • "Það gengur hins vegar gegn stjórnarskránni og yrði að breyta henni til þess að slíkt væri mögulegt eins og fram kemur í áliti sem Stefán vann fyrir ríkisstjórnina ásamt Björgu Thorarensen lagaprófessor."

Össur og ESB-sinnarnir sjá sér nú færi á því að draga Ísland enn lengra undir áhrifavald evrópska ríkjabandalagsins og undir miðstýringarafl þess, jafnvel þótt ekki væri komið svo langt að setja sjávarútvegsmál o.fl. málaflokka undir það vald, eins og gerast myndi með beinni inntöku Íslands í Evrópusambandið. Þennan tvíþætta ávinning sjá þessir ESB-meðvirku menn ugglaust í því:

  1. Að þeir geti haldið áfram að fullyrða, að stökkið yfir í sjálft ESB sé alltaf að verða minna og minna ... og svo lítið, að litlu máli skipti! (Það yrði þó í reynd risastökk og fæli í sér gagngera eðlisbreytingu á stjórnskipan okkar, með óbætanlegum skaða fyrir sjálfræði lýðveldisins.)
  2. Að þetta yrði látið gerast með upptöku ákvæðis í stjórnarskrá, að heimilt sé að framselja vald "til alþjóðlegra stofnana", en einmitt það ákvæði (sem þarna væri ætlað að hleypa í gegn valdsframsali vegna fjármálastofnana) yrði síðan notað til að reyna að fá því framgengt, að allsherjarvald okkar stjórnskipunar yrði sett undir Evrópusambandið, eins og gerast myndi með formlegum ákvæðum aðildarsamnings, þar sem ævinlega stendur skýrum stöfum, að nýja aðildarríkið taki sjálfkrafa við öllum sáttmálum, lögum og reglugerðum Evrópusambandsins, strax frá þeirri stundu, og allri framtíðarlöggjöf þaðan líka -- og að rekist þau ákvæði á við landslög, skuli lög ESB ráða -- og að ESB hafi stofnanir sem sjái um að úrskurða um vafa- eða deilumál um inntak laganna, sem sagt væri að rækjust á (þannig að jafnvel þau ágreiningsmál kæmu aldrei til kasta Hæstaréttar Íslands). -- Össurarliðið hyggst reyna að renna þessu í gegn, rétt eins og nýrri innistæðitilskipun ESB, sem gera mundi okkur að leiksoppi sambandsins við næstu bankakreppu, enda væru þær innistæður þá tryggðar beinlínis af ríkinu og með fimmfalt hærra tryggingarhámarki en því, sem tryggt var hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta á tíma Icesave-málsins.

Um þessi mál verður mikið fjallað á næstunni, nema menn kjósi værðina áfram.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fæli í sér eðlisbreytingu á samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband