Færsluflokkur: Evrópumál

Evran er ávísun á stríð

Grikkland er að niðurlotum komið. Ríkið á ekki fyrir útborgun launa eða lífeyris næsta mánuð. Hlutverk stjórnmálamanna í Grikklandi hefur vegna ESB-aðildar og evru verið breytt í hlutverk betlara í skúmaskoti evrusvæðisins. Sama gildir reyndar um flesta stjórnmálamenn ESB. Eigin ríkisstjórn er heimastjórn ESB og vald þjóðþinga í fríu falli. Framkvæmdastjórnin er að gera aðildarríki ESB algjörlega háð sér um leyfa- og peningaúthlutun. Eins og miðstjórn Kommúnistaflokks Sovétríkjanna á valdatíma kommúnismans.

Það kemur að því, að fólk segir hingað og ekki lengra. Hversu miklar fórnir amenningur þarf að færa til að vinda ofan af tilrauninni með Bandaríki Evrópu og evruna er undir valdamönnum ESB og fjármagnseigendum komið. Hingað til hefur engin miskun verið sýnd.

20121004_161219.jpgAftenposten í Noregi birti í gær sína skoðun á ástandinu:

SPÁNN: Búið er að setja hengilása á ruslagáma með matarafgöngum eftir að fátækir leituðu að mat í ruslinu. Bankana vantar 500 miljarða norskra króna til að rétta af rotin húsnæðislán. Hækkun virðisaukaskatts boðaður ásamt 12 % niðurskurði í velferð þegnanna. Stórar mótmælagöngur hafa lamað fleiri borgir. Landið íhugar alvarlega að biðja um neyðarlán frá ESB.

STÓRABRETLAND: Aukinn niðurskurður boðaður. 70 þúsund færri kennarar, 10 þúsund færri lögreglumenn, 30 þúsund færri hermenn. Minnka á gjöldin tilsvarandi 140 miljörðum norskra króna.

ÍTALÍA: Á Sikiley eru látnir ekki grafnir. Heilu héruðin eru á leiðinni í gjaldþrot. Ítalía er með ríkisskuld ca 16 þús miljarði norskra króna. Eða: 1.958 triljónir evra. Um 180 miljarða norskra króna niðurskurður í fjármálum margra ítalskra rannsóknarstofnana boðaður. M.a. lækkar fjármagn um 20% til Large Hadron Collider í Cern í Sviss. Virðisaukaskattur hækkar.

GRIKKLAND: Umfangsmikill niðurskurður, þjóðfélagslegur óróleiki og neyð, stóraukin útbreiðsla fátæktar. Ríkiskassinn að tæmast og yfirvöld geta ekki borgað laun, því ESB hefur enn ekki gefið grænt á næstu útborgun 240 miljarða evra. Forsætisráðherrann Antonis Samaras vill skera niður 11,5 miljarði evra aukalega. Um 90 miljarði norskra króna.

NOREGUR: Noregur er öðruvísilandið. Land sem er með 3730 miljarða norskra króna á bankabókinni eða um 3,7 sinnum árleg fjárlög norska ríkisins. Atvinnuleysið minnkar og er núna aðeins um 2,4%. Í stað niðurskurðar er rætt um nýjar miljarðafjárfestingar t.d. í fleiri barnaheimilum. /gs.


mbl.is Grikkir komnir að þolmörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er ESB-friðurinn núna? Varaforseti Evrópuþingsins vill senda herlögreglu til Katalóníu

Vidal-QuadrasEinn af varaforsetum Evrópuþingsins, Katalóníumaðurinn Alejo Vidal er flokksbróðir forsætisráðherra Spánar Mariano Rajoy í flokknum Partido Popular. Í viðtali við Lavanguardia sagði hann,

 "að segja þyrfti hlutina beint út. Ákvörðunin um þjóðaratkvæði er ólögleg. Hluti ríkisstjórnar Spánar, þingið í Katalóníu, hefur tekið ákvörðun, sem gengur gegn kerfinu.

Áður en ríkisstjórnin dregur málið fyrir dómsstól, þarf hún að hafa samband við forseta Katalóníu Artur Mas og upplýsa hann um, að 'Það sem þú hefur gert er ólöglegt.' Leiðréttu það eða við munum grípa inn í málin. Ef Mas neitar að verða við þeirri ósk mun Spánska þingið greiða um það atkvæði, að Katalónska þingið verði leyst upp og stjórn Katalóníu send heim. Í stað hennar mun sendinefnd frá ríkisstjórn Spánar taka yfir völdin í Katalóníu.

Herlögregla Spánar mun taka yfir hlutverki Mossos d'Esquadra (svæðislögreglunarinnar). Þannig verður það. Ef alþýðan fer út á göturnar, þá verður það þannig. En hún getur bara mótmælt í mánuð. Kröfugöngur metta ekki hungur fólksins. Ef íbúar Katalóníu halda við uppreisnarhug sinn, þá verður ríkisstjórnin að grípa inn í málin á uppreisnarsvæðinu."

Í morgun reyndu fulltrúar Partido Popular að draga úr orðum varaforseta Evrópuþingsins og sögðu hann tala á eigin vegum en ekki flokksins. Alicia Sánchez-Camacho leiðtogi Partido Popular í Katalóníu sagði, að ekkert væri að marka varaforseta Evrópuþingsins, þar sem hann gegndi engri "hárri stöðu" innan flokksins.

Slíkt viðhorf endurspeglar, hversu mikilvægt margir þjóðlegir stjórnmálamenn telja Evrópuþingið vera.

 


mbl.is Brutust inn í ráðuneyti í Aþenu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend blöð taka eftir því íslenzka andófi sem hið ESB-dygga Fréttablað þegir um!

Evrópusambandið ætlast til þess að styrkþegar sínir og "samstarfsaðilar" eins og háskólar auglýsi ESB með því að flagga ESB-fánanum ekki síður en þjóðfánanum. En bændur á Suðurlandi sýna sinn hug og sinn dug með skiltum sínum: ESB - Nei takk, og þessu taka erlendir blaðamenn eftir, þótt Fréttablaðið og Fréttatíminn "láti sér fátt um finnast" og feli einfaldlega þessa staðreynd.

Eftirfarandi er mjög athyglisvert í frétt Mbl.is um þetta mál:

  • Þá segir í umfjölluninni að íslenskir embættismenn hafi varað Steingerði [Hreinsdóttur, umsjónarmanni verkefnisins Katla Jarðvangur í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli 2010] við því að það kunni ekki að verða vinsælt á meðal íbúa svæðisins að setja upp skilti með fána Evrópusambandsins en venjulega gerir sambandið þá kröfu að verkefni sem fjármögnuð eru af því séu merkt fánanum. Haft er eftir Steingerði að embættismennirnir hafi sagt að Evrópusambandið vildi að auglýst væri að sambandið hefði veitt fjármagni til verkefnisins en að það skildi að það gæti verið viðkvæmt í augum bænda.

ESB-tröllið neyðist sem sé til að halda sig á mottunni til að styggja ekki landann enn frekar og gerir því ekki sömu kröfur þarna eins og t.d. í Bretlandi þar sem hinn hvimleiði fáni þessa gamla nýlenduvelda-bandalags fær að þjóna auglýsinga- og montáráttu pótintátanna í Brussel, jafnvel á fornfrægum menntasetrum eins og Oxford, Cambridge og St Andrews, sem hvert um sig er meira en 50 sinnum eldra en evran, og vafalítið munu þessar stofnanir lifa evru-tilraunina um margar aldir.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Varað við óvinsældum ESB-fánans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

67% Þjóðverja treysta ekki Seðlabanka Evrópu - 84% Katalóníubúa vilja kosningar um aðskilnað við Spán

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun þýzka Institut fur Demoskopie kemur í ljós, að 67% Þjóðverja bera ekki traust til Seðlabanka Evrópu. Einungis 18% segjast treysta bankanum. Fyrir tveimur árum sögðu 31% Þjóðverja, að þeir treystu bankanum. Þessar upplýsingar koma fram í Handelsblatt.

Skoðanakannanir i Katalóníu sem birtar eru í El País sýna að 43% íbúanna vilja sjálfstæði frá Spáni á meðan 41% eru á móti. Samkvæmt annarri skoðanakönnun í La Vanguardia vilja 84% íbúa Katalóníu þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað við Spán. 


Fredrik Reinfeldt velur íslensku leiðina: engar greiðslur frá sænskum skattgreiðendum til ósjálfbjarga evrubanka

Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra Svíþjóðar var í boði Francois Hollande forseta Frakklands í opinberri heimsókn í Frakklandi mánudaginn 1. október.

Í ræðu Frakklandsforseta, Francois Hollande, kom fram, að Svíþjóð er fyrirmynd annarra ríkja Evrópusambandsins í baráttunni við kreppuna, vegna aukinna atvinnuskapandi fjárfestinga í samgöngumálum m.a. á vegum og járnbrautarleiðum. 

Nýlega lagði ríkisstjórn Fredrik Reinfeldts fram fjárlög, þar sem gert er ráð fyrir að auka hæfni fyrirtækja til að mæta harðnandi samkeppni vegna kreppunnar með því að lækka skatta fyrirtækja úr 26,3 % niður í 22 %. Samtímis eru vinnuskapandi fjárfestingar stórauknar sér í lagi fyrir atvinnulaus ungmenni.

Ríkisstjórn Fredriks Reinfeldts hefur lækkað ríkisskuld Svíþjóðar frá ca 80% af þjóðarframleiðslu árið 1995 niður í ca. 40% árið 2011. Samtímis þessu hafa launþegar landsins fengið miklar kjarabætur með lækkun launaskatta mótsvarandi skattfrjálsum þrettánda mánuðinum ofan á umsamin laun í fimm áföngum á jafn mörgum árum.

Það er alfarið rangt hjá talsmönnum íslensku ríkisstjórnarinnar, einkum Samfylkingarmönnum, sem halda því fram að ekkert land innan ESB geri öðru vísi en að hækka skatta og skera niður þjónustu eins og ríkisstjórn Íslands hefur gert og áætlar að gera.

Frakklandsforseti Francois Hollande hrósaði Svíþjóð mjög í ræðu sinni en vegna andstöðu Svíþjóðar við myndun bankabandalags og greiðslum úr ríkissjóði til styrktar ósjálfbjarga bönkum á evrusvæðinu, vonaðist Hollande engu að síður, "að Svíþjóð myndi breyta afstöðu sinni og taka þátt björgunaraðgerðum ESB."

Fredrik Reinfeldt sagði í viðtali við sænska sjónvarpið að kvöldi mánudags 1. október, að "Svíþjóð muni ekki nota fé skattreiðenda til að borga ósjálfbjarga bönkum á evrusvæðinu." Hann sagði einnig,  "að Svíþjóð væri ekki hlynnt myndun bankabandalags." /gs


Evran er risasvindl og Þjóðverjar einráðir, segir Berlusconi

Á bókakynningu fimmtudaginn 27. september í Róm sagði Berlusconi í ræðu, að evran væri risasvindl og það yrði enginn "harmleikur" að Þjóðverjar, sem hefðu enga samstöðu sýnt í kreppunni heldur vildu ráða ferðinni alfarið sjálfir, yfirgefi evruna.

Berlusconi gagnrýndi björgunarsjóð evrusvæðisins og taldi hann einungis skapa neikvæðan samdrátt og frekari skuldir. "Til þess að fá hjálp þarf að samþykkja niðurskurð, sem kemur efnahagnum í hrun og í samdráttarskrúfu."

Berlusconi er 75 ára og það er óljóst, hvort hann býður sig aftur fram á næsta ári. Hann neyddist til að víkja úr embætti forsætisráðherra Ítala í nóvember ár 2011, þegar teknókratinn Marío Monti tók við stjórn landsins skipaður af framkvæmdastjórn ESB í Brussel.


Lágt er lagst að stela heiðri af verkum Sjálfstæðisflokksins

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fer mikinn og slær sér á brjóstið og segir um Jóhönnu Sigurðardóttur:

"Ég held að hennar verði fyrst og fremst minnst fyrir það að hún var forsætisráðherra ríkisstjórnar sem leiddi Ísland út úr kreppunni.“

Íslenska ríkið er í dag meðal skuldsettustu ríkja í Evrópu með yfir 100% af þjóðarframleiðslu í skuldir. Þegar ríkisstjórnin tók við voru skuldir ríkissjóðs næstum engar. Færri hafa atvinnu á lægri launum með hærri skatta núna en þegar "norræna velferðarstjórnin" tók við.

Það efnahagslega kraftaverk á Íslandi, sem utanríkisráðherran segir að sé á vörum sérhvers utanríkisráðherra, sem hann hittir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York lýgur Össur Skarphéðinsson að sé verk Jóhönnu Sigurðardóttur:

"Þá geta þeir aldrei frá henni tekið að það var undir hennar forystu sem Ísland náði sér á strik. Það er hennar stóra afrek.“ 

Íslendingar vita, að neyðarlög ríkisstjórnar Geirs Haarde, þar sem stefnu Davíðs Oddssonar að "borga ekki skuldir óreiðumanna" var fylgt, björguðu Íslandi frá gjaldþroti.

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson reyndu hins vegar allt hvað þau gátu til að gera þjóðina gjaldþrota með Icesave. Núna gera þau allt til að gera þjóðina gjaldþrota með afhendingu auðlinda landsins til Brussel. 

Lygar á borð við þær, sem Össur lætur út úr sér, þar sem hann eignar Jóhönnu Sigurðardóttur heiðurinn af verkum Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde eru þekktar í vörumerkjaheiminum. Þú afritar merki þeirra, sem náð hafa lengst og lýgur því að óvitandi fólki, að það sé þitt merki. Slíkt athæfi er saknæmt að lögum.

Ekki hafa íslenskir jafnaðarmenn mikið til málanna að leggja fyrst þeir þurfa að leggjast svo lágt að tileinka sér verk andstæðinga sinna. /gs


mbl.is Vangaveltur ósmekklegar á þessari stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingar LÍÚ þarf að gera aðgengilegar á ensku til dreifingar erlendis

Góð grein með áliti framkvæmdastjóra LÍÚ, Friðriks J. Arngrímssonar. Það er náttúrulega alveg forkastanleg hegðun ráðamanna ESB að hlýða hvorki á niðurstöður Hafrannsóknarstofunnar né sameignlegs leiðangurs og mælinga Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna. Hér eru fremstu fiskveiðiþjóðir í heiminum að mæla fiskstofn á eigin miðum, með eigin mælitækjum á sama hátt og gert er með aðra fiskistofna. Niðurstöður vísindamanna okkar eru nákvæmar og leiðbeinandi.

Hvers vegna viðurkennir ESB ekki þessar niðurstöður? Hvers vegna viðurkennir ekki ESB vísindaaðferðir Hafró við mælingu stofna?

Í staðinn hlustar María Damanaki sjávarútvegsráðherra ESB á útgerðarmenn í Skotlandi, Írlandi og Bretlandi.

Friðrik J. Arngrímsson segir: "Við vitum, að í Skotlandi, á Írlandi og jafnvel Noregi voru aflaupplýsingar gróflega falsaðar, sem hefur skekkt mat vísindamanna á stofnstærð makrílsins."

Þetta er mjög alvarlegt mál, sem villir um raunverulega stærð stofnsins og torveldar Íslandi að fá upp augu ráðamanna ESB. Einngi bendir Friðrik á, að ESB hafi ekki viljað taka þátt í sameiginlegum rannsóknarleiðöngrum Íslands, Færeyja og Noregs. Það sýnir áhuga og viljaleysi ráðamanna ESB til að leysa vandann.

"Ég vek líka athygli á því, að það tók yfir 10 ár að fá Evrópusambandið og Noreg til að viðurkenna strandríkisrétt Íslands. Það gerðist ekki fyrr en árið 2010 og þá höfðum við tvö ár í röð veitt meira en 100 þús. tonn af makríl í íslensku fiskveiðilögsögunni."

Nálgun ESB að málinu sýnir, að fyrir ESB vakir hvorki samvinna né fara eftir staðreyndum. Trúlega hefur aðildarumsókn Íslands að ESB opnað leiðina að viðurkenningu Íslands sem strandríkis. En þá einungis fyrir ESB til að nota stöðuna og þvinga Ísland til eftirgjafar á grundvelli krafna ESB um eigin makrílveiðar. 

Allt þetta mál er hvimleitt, mest fyrir ESB, sem tekur áhættuna á að brjóta bæði hafréttarsáttmála og úthafsveiðisamning Sameinuðu Þjóðanna ásamt EES-samningnum um frjálst flæði varnings, þjónustu, peninga og fólks. Einnig er um brot á alþjóðlegum viðskiptasamningum World Trade Organisation að ræða.

En ESB varðar það engu. Þeir reiða sig á Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún á að koma með lausnina.

Og sjáum til. Það verður ekki einn mánuður þar til Íslendingum verður gert gylliboð, sem þeir eiga að gleypa á meðan fiskveiðilögsagan og allt líf í henni verður afhent ESB skv. skilmálum aðlögunar. /gs 


mbl.is Stærð makrílstofnsins verður að endurmeta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsaðgerð ESB í leit að eigin fiski

ESB er inni í mjög slæmum vítahring: Ofveiðir yfir 80% af fiskistofnum í eigin lögsögu með yfir 30% fiskistofna í útrýmingarhættu. Sameinuðu Þjóðirnar ásaka ESB fyrir að virða ekki löglegan rétt íbúa Vestur-Sahara til fiskveiða í eigin lögsögu. Í staðinn greiðir ESB ríkisstjórn Marókkó veiðigjald fyrir að fá að veiða í lögsögu, sem Marókkó ræður engu um. 

Það þrengist því í sífellu að sjávariðnaði ESB með auknu atvinnuleysi, minni eigin afla, gífurlegu brottkasti fisks og niðurgreiðslum af almannafé svo skiptir hundruðum miljóna evra. Sjómenn Írlands, Skota, Bretlands m.fl. geta ekki samið beint sjálfir heldur verða þeir að fara með betlistaf til Brussel og biðja um áheyrn. Þetta fyrirkomulag er hluti vandans, sem á að velta yfir á Íslendinga og Færeyinga með löndunar- og hafnbanni íslenskra skipa í höfnum ESB. Síðan á að svelta íslenskan sjávarútveg með banni á fríu flæði vara og þjónustu frá ríkjum ESB til sjávarútvegs á Íslandi og í Færeyjum. Svo mikið er nú að marka fjórfrelsið, sem EES-samningurinn á að tryggja Íslendingum.

ESB er með stríðsaðgerðum sínum að knýja Íslendinga að sýna spilin í aðlögunarferlinu. "Þið hafið sótt um aðild að sambandinu, núna verðið þið að fara eftir leikreglum sambandsins." Það er verkefni ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að leysa málið fyrir ESB. Hún er búin að bola öllum gagnrýnisröddum út úr samskiptunum. Eftir er "Já ráðherra" liðið, sem vinnur að markmiði ESB að taka yfir íslenska sjávarútveginn. Og þar er eftir miklu að slæjast fyrir Evrópusambandið með allan togaraflotann, sem bíður eftir að fá eitthvað að gera.

Núverandi staða Íslands verður skrifuð á reikning ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem vinnur baki brotnu að nýrri "lausn". Í spilunum er, að Seðlabanki Evrópu kaupi "gjaldeyrishengjuna" líkt og verið er að gera með löndin í suðri. Það þýðir að komandi kynslóðir Íslendingar verða hnepptar í skuldaþrældóm. Gamalkunnum Icesave rýtingi endanlega stungið í bak landsmanna. Í staðinn fær ESB sjávarlögsögu Íslendinga. 

Eins og að koma til útgerðarmannsins og segja: Ég "losa" þig við skuldirnar en fæ togarann í staðinn. 

Íslendingar þurfa að fara að leita sér að nýjum mörkuðum, viðskiptafélögum og bandamönnum. Því fyrr því betra. Að sjálfsögðu á að senda sendiboða (ekki ráðherra) á næsta "samningafund" með yfirlýsingu frá íslensku ríkisstjórninni um, að þjóðin láti ekki bjóða sér svona framkomu. Því miður eru líkurnar á því að það muni gerast jafn miklar og að meðalhiti janúarmánaðar fari upp fyrir 16 gráður á Celsíus./gs 


mbl.is Refsiaðgerðir náist ekki samkomulag í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland þarfnast Frosta Sigurjónssonar á Alþingi

Núna er skýringin komin á kjördæmishrókleik Framsóknarflokksins með flutning formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í annað kjördæmi.

Frosti Sigurjónsson er mættur til leiks. 

Það er fagnaðarefni að menn eins og Frosti Sigurjónsson gefa kost á sér í stjórnmálin og Framsóknarflokknum er töluverður fengur af góðum dreng sem Frosta.

Frosti Sigurjónsson er kunnur landsmönnum eftir vasklega framgöngu í baráttu þjóðarinnar fyrir hagsmunum sínum meðal annars í Icesave. Að undanförnu hefur Frosti Sigurjónsson verið ötull talsmaður betra peningakerfis á Íslandi og mun þeirri hreyfingu vera mikill fengur af Frosta á þing, þar sem þar fer maður, sem kann peningamálin og fjármálakerfið. 

Ég óska Framsóknarflokknum innilega til hamingju með þennan liðsstyrk og þér Frosti óska ég alls góðs gengis á komandi Alþingi. 

Gústaf Adolf Skúlason 


mbl.is Frosti vill leiða Framsókn í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband