27.6.2017 | 22:45
ESB-her verður til - staðreynd! Afleiðingarnar grafalvarlegar
Ekki þarf að efa að ESB-herinn verði til, enda vilji utanríkisráðherra Þýzkalands, þótt krati sé.
Jafnvel rödd Þjóðverja myndi ekki heyrast í alþjóðasamfélaginu ef við værum einir á báti. Þess vegna þurfum við sameiginlega evrópska rödd. Þannig verðum við hluti af alþjóðlega stjórnmálasviðinu. Við kunnum að skipta máli efnahagslega en ekki stjórnmálalega án hennar,"
sagði Sigmar Gabriel, utanríkisráðherrann, í viðtali við Mbl.is í dag.
Við verðum að skipuleggja varnarmálin skref fyrir skref. Við munum ekki koma á evrópskum her á morgun. Það sem er mögulegt að koma á, til skemmri tíma litið, er nánara samstarf á milli evrópskra herja. Það er algerlega nauðsynlegt að samræma hernaðargetuna og herina. Það mun að lokum leiða til evrópsks hers en það er annað eða þriðja skrefið,
sagði ráðherrann orðrétt (leturbr. jvj).
Oft hafa Evrópusambandssinnarnir hér á landi svarið af sér, að til stæði að stofna ESB-her, en þetta er sannarlega inni í framtíðaráætlunum bæði í Berlín og Brussel.
Athyglisverð er viðurkenning hans á dvínandi gengi Evrópuríkjanna:
"... við ættum að einbeita okkur að stóru málunum þar sem einstök ríki geta ekki staðið vörð um hagsmuni íbúa sinna ein á báti. Sem dæmi fjölgar íbúum Asíu, Bandaríkjanna og Afríku á meðan íbúum Evrópu fækkar. Innan 10-20 árum munu börnin okkar og barnabörn einungis hafa rödd á alþjóðavettvangi ef það er sameiginleg evrópsk rödd,
sagði hann. Ekki lýsir þetta mikilli tiltrú á að ríki geti staðið fyrir sínu án þess að vera í bandi með stórveldi ... já, einmitt, stórveldi sem leitt er af endursameinuðu Þýzkalandi. Gamli draumurinn að rætast?!
Og þessu verður meðal annast fylgt eftir með því að efla veldi ESB með öflugum her, miðstýrðum af þeim sem þar ráða! Falleg framtíðarsýn fyrir vinstri sinnuðu friðardúfurnar íslenzku?!
En tækist fullveldisframsalsmönnum að narra Íslendinga til að kjósa yfir sig Evrópusambandið, þarf ekki að spyrja að því, að einnig af okkur yrði ætlazt til framlags til þessa stóra hers, ef ekki í formi hermanna, þá í enn frekara formi álaga með framlögum af fjárlögum okkar, en ef ekki þannig í miklum mæli, þá með því að gera landið sjálft að vettvangi herstöðva og heræfinga ESB-hersins. Og þar hefðum við ekki síðasta orðið, það leiðir af sjálfu sér af almennum inntökuskilmálum nýrra ríkja í þessu stóra ríkjasambandi.
Jón Valur Jensson.
Evrópuherinn kemur að lokum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 28.6.2017 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2017 | 02:07
Raunsætt mat: ESB og evran eru hér ekki á dagskrá!
Jafnvel Benedikt Jóhannesson viðurkennir á Kjarnanum, að það sé "ekki pólitískt gerlegt að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru". Fylgi ESB-flokka er hverfandi; því er þetta raunsætt mat. En hann segir að "alþekkt sé að hann hafi þá skoðun að Íslandi yrði best borgið með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Hinn pólitíski raunveruleiki sé þó sá að það er ekki gerlegt sem stendur."
Eins gott að menn viðurkenni staðreyndir, en svíkist samt ekki aftan að þjóðinni undir lok kjörtímabilsins, ef þessi veika stjórn, sem lafir á einum þingmanni, lifir svo lengi.
Svo lítils trausts nýtur þessi þriggja flokka ríkisstjórnarsamvinna, að lægðin í fylgi er orðin þvílík, að stjórnmálafræði-prófessorinn Ólafur Þ. Harðarson kveður upp úr um, að þess séu engin dæmi um að ríkisstjórn sé komin niður í þriðjungs fylgi eftir hálft ár"!
Í nýjustu skoðanakönnun MMR mælist ríkisstjórnin með 30,3% fylgi. Og þar er fylgið einmitt einna lélegast í ESB-flokkunum Viðreisn með 5,5% og Bjartri framtíð sem á sér naumast bjarta framtíð með sín 2,9%. Samt þykist Óttarr Proppé enn geta talað eins og hann hafi umboð þjóðarinnar, þegar hann þennan nýliðna sunnudag boðar lokun Reykjavíkurflugvallar, þrátt fyrir yfirgnæfandi fylgi bæði þjóðarinnar og höfuðborgarbúa við að flugvöllurinn verði hér til frambúðar. Hve blindir geta menn orðið á valdastóli?
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2017 | 02:09
Gildi fullveldis og sjálfstæðis, fyrir sjálf okkur og aðra. En með inngöngu í ESB myndi lagafargan þaðan u.þ.b. fimmfaldast!
Margir átta sig ekki á gildi fullveldis fyrrr en seint og um síðir. En því áttum við sigra okkar í landhelgismálinu að þakka og einnig í Icesave-málinu. Í krafti þess réttum við Eystrasaltsþjóðunum dýrmæta hjálparhönd.*
Í dag hitti undirritaður einn þýðendanna á ESB-tilskipunum yfir á íslenzku. Þeir eru (í húsi austan við utanríkisráuneytið, við Þverholtið) þrjátíu talsins í fullu starfi og 20-25 að auki. En í stað þess að hafa 50-55 í starfi, meðan við erum að taka við EES-reglugerðum og tilskipunum, þá myndi þurfa að bæta við 200 þýðendum, ef við gengjum í Evrópusambandið, sagði hann. 250 manns bara við að þýða allt þetta texta- og pappírsfargan á íslenzku og gera það að íslenzkum lögum og reglum!
NEI TAKK!
Lengi lifi minning Jóns Sigurðssonar, sem ritaði:
Sumir af vorum helztu mönnum eru líka svo hræddir við sjálfsforræði landsins, að þeir eru eins og skepnan, sem varð hrædd við sína eigin mynd. En nú er það lífsmál fyrir vort land, að það hafi alla stjórnarathöfn sem næsta sér og hagkvæmasta, og þá stjórn, sem getur svo að kalla séð með eigin augum það sem hún á að ráða yfir, en ekki í speigli og ráðgátu, eða með annara augum, í 300 mílna fjarska. Þetta er krafa, sem oss virðist ekki maður geti sleppt, nema með því að óska sér að leggjast í dauðasvefn að nýju ... (Úr ritgerð Jóns, Um stjórnarmál Íslands, Ný félagsrit, XXII, 5, 1862; þarna notar hann orðið míla í merkingunni dönsk míla, 7532 metrar; 300 danskar mílur eru 1.220 sjómílur.)
* Sjá fréttartengil hér fyrir neðan. Ýmsan fróðleik er líka að finna á eftirfarandi vefslóðum undirritaðs:
1) Barátta fyrir endurheimt sjálfstæðis Litháens (16. júní 2013)
2) Til hamingju, Litháar, með ykkar 20 ára endurvakta sjálfstæði en takið ekki þátt í að brjóta niður okkar fullveldi! (28. ágúst 2011)
Jón Valur Jensson.
Litháar segja takk Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 03:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2017 | 02:42
Brexit verður eitt helzta vopn Theresu May á lokametrum baráttunnar vegna þingkosninganna
Mjög dró saman með Íhaldsflokki og Verkamannaflokki í kapphlaupi síðustu daga vegna brezku þingkosninganna, komið niður í 3% mun. En Theresa May byrjar nú nýja baráttu, segir þjóðarhag mikilvægari en sjónvarpskappræður.
Amid fears that negative attacks on Mr Corbyn are starting to backfire, Mrs May will switch to an upbeat message of a "brighter, fairer future for all" out of the EU. She will set out Tory plans to restore control over Britains borders, stop paying "huge sums" to the EU and end the jurisdiction of the European Court of Justice in the UK. (The Times 1. júní, í grein Francis Elliott, stjórnmálaritstjóra blaðsins: Have faith in me: Theresa May fights back with Brexit.)
Forsætisráðherrann þarf nú að verjast ásökunum um ýmist hroka (hubris and arrogance) eða hugleysi (political cowardice) eftir að hún neitaði að taka þátt í sjónvarpskappræðu með leiðtogum hinna flokkanna.
Svar hennar er m.a.: "I have said many times in the past people can have faith in me because I have faith in them."
Fulltrúi May í kappræðunum var frú Amber Rudd innanríkisráðherra, en faðir hennar, 93 ára, lézt um síðustu helgi. Hún svaraði árásum frá öllum hliðum í kappræðunni, sem fram fór í Cambridge-háskóla: "Don´t give up on me ... Theresa May may not be here but I am and I hope to make a good fist [hnefa] of setting out Tory policy," og hún gaf lítið út á "the coalition of chaos" sem þar var mætt til að berjast við hana.
Mrs May had earlier claimed that the Labour leader was more interested in "appearances on the telly" [TV] than preparing for Brexit talks.
Boris Johnson this morning backed Mrs May in her decision not take part. The foreign secretary said her choice was "absolutely validated" because the debate turned into "a great yammering cacophony of voices (æpandi ósamræmi í söng þeirra) . . . most of them left-wing". (Grein Elliotts.)
Boris Johnson, utanríkisráðherrann, kvað upptökusalinn hafa verið fyllri af vinstri mönnum en lengi hefði sézt og varaði eins og Theresa May við þeirri upplausnarstjórn (coalition of chaos) undir leiðsögn Jeremys Corbyn, sem tekið gæti við með hjálp Skozka þjóðarflokksins og Frjálslyndra demókrata, ef Corbyn ætti að takast að mynda nýja ríkisstjórn. Þá fengi Corbyn hr. Tim Farron "gargandi eins og páfagauk á annarri öxlinni og hvern á hinni? Nicolu Sturgeon"! (en þetta eru leiðtogar hinna flokkanna).
Ein rúsína enn (og minnir þetta ekki aðeins á íslenzka RÚVið?):
Amid accusations that the BBC had chosen an audience with a left-wing bias for the debate, George Freeman, a policy chief for Mrs May, said that the group "was about as representative as the shadow cabinet".
En BBC hafnar því. Þó er vitað um langtíma vinstri-halla á þeim fjölmiðli, sem og ESB-vinahalla -- rétt eins og á Rúvinu!
Jón Valur Jensson.
Tapar Theresa May meirihluta sínum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bretland (UK) | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2017 | 05:16
Það er ekkert að marka Benedikt, rammhlutdrægan gegn íslenzku sjálfstæði, leiðitaman ESB og óvin meintra óvina þess
Bandaríkin hafa ekki "sagt pass" við Ísland, þótt Benedikt ESB-málpípa segi svo, grípandi línuna frá Merkel. Uncle Sam var ekki "vondi karlinn", heldur Evrópusambandið: dæmdi okkur til að borga Icesave, vildi ekki unna okkur makrílveiða, reyndist Færeyingum líka afleitlega með viðskiptabanni.
Við getum flest þakkað fyrir að hafa ekki lent inni í Evrópusambandinu, enda værum við þá nú að borga Icesave-reikninga, ættum sáralítinn makríl-veiðirétt, værum með ESB-sjómenn hér í fiskveiðilögsögunni eins og Bretar, hefðum ekki okkar sveigjanlegu krónu, heldur værum í líku fari og Írar sem bölva evrunni og njóta ekki okkar ferðamannasprengju, og þar að auki værum við svo með þessi Brussel-tröll hangandi yfir okkur með ógnanir og hótanir um að við myndum hafa verra af, eins og Bretar, ef við skyldum voga okkur að reyna að verða sjálfstæð þjóð og fullvalda á ný með úrsögn úr Evrópusambandinu!
En Bandaríkin hafa hvorki brugizt okkur né Evrópu. Við fengum vel útilátna Marshall-aðstoð, sem fjármagnaði Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna og tvær Sogsvirkjanir, auk þess sem "kanavinnan" við ýmsar framkvæmdir, aðallega á vellinum, átti um gott árabil drjúgan þátt í að við komumst þá bærilega af. Bandaríkin gáfu okkur sjálfan Keflavíkurflugvöll. Jafnvel löngu seinna borguðu þau lungann af byggingarkostnaði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Til að kóróna viðskiptasögu okkar við Bandaríkin tókst við viðskilnaðinn að véla út úr þeim allar varnarliðseignirnar, fjöldann allan af herstövarhúsum, þjónustuhús og mörg hundruð íbúða, á tombóluverði (og margt af þessu svo fengið billega í hendur einkavinum valdhafa hér).
Aldrei hafa Evrópríkin hjálpað okkur með neinum slíkum hætti, sízt Evrópusambandið, sem hirðir frekar af okkur framlög í þróunarhjálp fyrir slökustu ríkin í austurhluta þess ofurbákns, þótt þau komi okkur ekkert við.
Og það eru Bandaríkin sem hafa staðið, okkur að kostnaðarlausu, undir vörnum Íslands öllum öðrum fremur í meira en sjö áratugi. Varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn er enn í fullu gildi, hve mjög sem Benedikt Jóhannesson reynir að láta sem okkur sé meira traust í Evrópusambandinu!
Þrívegis hafa Bandaríkin bjargað Evrópu frá sjálfri sér:
- í fyrri heimsstyrjöld,
- í síðari heimsstyrjöld
- og í Kalda stríðinu.
Þessu má Benedikt ekki gleyma í ásthrifni sinni af Evrópusambandinu.
Jón Valur Jensson.
Freki karlinn ræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 31.5.2017 kl. 03:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2017 | 18:29
Framfaraflokkurinn í Noregi snýst alfarið gegn inngöngu í ESB
Evrópusambandið hefur fjarlægzt upphaflegt markmið sitt að stuðla að friði, frelsi og samvinnu í Evrópu, en verður sífellt meira skriffinnskubákn, segir í ályktun flokksins. Tillaga utanríkismálanefndar flokksins, að hann leggist formlega gegn inngöngu í Evrópusambandið, var samþykkt. Áður hefur Framfaraflokkurinn haft þá stefnu (líkt og ýmsir tvístígandi flokkar hér á landi), að málið yrði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Frá þessari nýju stefnu, sem samþykkt var á flokksþingi um helgina, segir á fréttavef norska ríkisútvarpsins, NRK.
Fyrir landsfundinn, undanfarna mánuði, höfðu Siv Jensen fjármálaráðherra og aðrir forystumenn flokksins talað á þessum nótum, en vaxandi andstaða hefur verið innan hans við inngöngu í Evrópusambandið, sbr. frétt mbl.is: Í dag myndi ég kjósa nei, og pistil hér: "Ég mundi segja nei!" - Hressandi andblær af ESB-höfnun norska fjármálaráðherrans.
Framfaraflokkurinn myndar núverandi ríkisstjórn Noregs ásamt Hægriflokknum en þingkosningar verða í landinu í haust.
Framfaraflokkurinn vill einnig semja um endurbætur á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Noregur er aðili að ásamt Íslandi, Liechtenstein og öllum ríkjum Evrópusambandsins. Vill flokkurinn að samningurinn verði túlkaður með þrengri hætti til þess að standa betur vörð um fullveldi Noregs og þjóðarhagsmuni. (Mbl.is)
Fagna ber því, að línurnar verða hér skýrari eftir en áður og Noregur enn fjær því en fyrr að geta hugsað sér að ganga inn í Evrópusambandið.
Vegna hliðstæðrar hagsmunastöðu Íslands gagnvart ESB má þetta verða okkur ágæt fyrirmynd.
Jón Valur Jensson.
Hafnar inngöngu í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Macron er ekki 100% öruggur með sigur í frönsku forsetakosningunum. Enn koma upp atvik sem geta breytt vígstöðu þeirra Le Pen. 2/3 fylgismanna Melenchons kjósa hann ekki.* Frekja Macrons í garð Pólverja hjálpar ekki heldur.** Stjórnvizka kemur ekki sízt fram í orðum og yfirlýsingum.
Mörgum er lítt að skapi að láta ESB stýra stórstreymi múslima inn í Evrópu, einkum ef til stendur að gera það varanlegt; tímabundin aðstoð er allt annað mál, bæði hér í álfu og þó enn frekar með hjálparstarfi í heimalöndum múslima, ef mögulegt er, eða í nágrannalöndum stríðssvæðanna, því að þannig fæst margföld nýting fjárframlaga til flóttamannahjálpar miðað við allt þunglamalega batteríið í kringum slíkt hér í Evrópu.
Mjög svo ráðandi áhrif Angelu Merkel, kanzlara Þýzkalands, á meðferð flóttamannamála eru greinilega til óþurftar fyrir Evrópusambandið, eins og ráð hennar hafa gefizt illa í heimalandi hennar, þar sem t.d. tugir þúsunda flóttamanna og hælisleitenda eru "týndir", finnast ekki, á sama tíma og lögreglan fæst við sífellt alvarlegri tilfelli af hryðjuverkaógnunum.
* Melenchon er sósíalisti, og höfðu fylgismenn Macrons reiknað með, að fylgismenn þess fyrrnefnda myndu kjósa Macron, enda væru þeir miklir andstæðingar Le Pen og Þjóðfylkingarinnar. En tveir þriðju af stuðningsmönnum Melenchons ætla nú óvænt annaðhvort að sitja heima eða skila auðu!
** Macron var að gefa út frekjulega framhleypna yfirlýsingu sem beinist gegn sjálfræði og fullveldi einstakra ESB-meðlimaríkja. Þetta hjálpar honum ekki á síðustu 4-5 dögum fyrir kosningarnar. Hann hefur nú 60% fylgi, gegn 40% hjá Marine Le Pen, og hefur ekki efni á að tapa því niður. Hið franska bann við skoðanakönnunum á kjördag og sólarhring fyrir kosningar getur svo aukið á spennuna. Og það er ekki nóg, að menn segist frekar standa með Macron en Le Pen, ef þeir nenna svo ekki að mæta á kjörstað eða skila jafnvel auðu! Tengsl hans við bankana þykja einnig mæla gegn honum, þótt talinn sé hann hafa staðið vel við bakið á Grikkjum í ESB-málum þeirra og ESB-seðlabankans.
Jón Valur Jensson.
Dræm kosningaþátttaka gæti skipt sköpum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jafnvel forsetaframbjóðandinn, gervi-miðjumaðurinn Emmanuel Macron segir í viðtali við BBC að gera þurfi breytingar á Evrópusambandinu, ella standi ESB frammi fyrir Frexit !
Það er ánægjulegt að menn séu einnig á meginlandinu farnir að átta sig á rangri stefnu Evrópusambandsins, á ofurgræðgi þess í valdheimildir sem skerða fullveldi þátttökuríkjanna, og á margs konar afdrifaríkum stjórnunarmistökum þess, fyrir utan allt bruðlið og spillinguna.
Fréttastofa RÚV hefur gert mikið með það, hvað Macron sé mikill ESB-maður, ólíkt frú Le Pen, sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Frakka úr Evrópusambandinu.
En jafnvel þessi mótframbjóðandi hennar, "fyrrverandi" sósíalistinn (og þó Rothschild-banka-vinurinn) monsjör Macron, vill ekki hrinda frá sér þeim kjósendum sem hafa sterkar efasemdir um þetta ofurbandalag hátt í 30 ríkja. Já, hann úttalar sig skýrt:
Ég er Evrópusinni. Ég varði gildi og hugmyndafræði sambandsins ítrekað í kosningabaráttunni vegna þess að ég tel hvort tveggja mikilvægt fyrir íbúa Frakklands og fyrir okkar stað í alþjóðavæðingunni, segir Macron. En á sama tíma verðum við að taka á þessu ástandi. Hlusta á fólkið og þá staðreynd að það er reitt.
Macron segir að það yrðu svik ef hann leyfði Evrópusambandinu að halda áfram á þeirri vegferð sem það væri á. Og ég vil það ekki. Vegna þess að daginn eftir þá verður niðurstaðan Frexit. Eða við fáum Þjóðfylkinguna [flokk Marine Le Pen] aftur, segir hann. (Mbl.is, leturbr. hér.)
Já, Frökkum o.fl. þátttökuþjóðum er alls ekki sama um, hvert Brusselmenn í skrifstofu- og fundahöllum sínum eru að leiða þjóðirnar, með ógætilegri efnahags- og peningamálastjórn, með inngripum í jafnvel stjórnarskrármál ríkjanna, með allt of opinni stefnu gagnvart því að fá milljónir múslima inn í álfuna og með undarlegum samningum við einræðisstjórnina í Tyrklandi sem fær mörghundruð milljarða króna afhentar í mútufé árlega fyrir að vísa ekki flóttamönnum beinustu leið inn í Evrópu.
ESB-gjaldmiðillinn, evran, hefur þegar reynzt þónokkrum þátttökuþjóðanna hinn versti fjárhagsklafi um háls og seint fengin nein lausn á vanda Grikkja, Ítala, Portúgala, Íra o.fl. þjóða.
Og svo kemur í ljós, að þrátt fyrir fagurmæli Lissabon-sáttmálans um rétt þjóðanna til að segja sig úr Evrópusambandinu, þá eru menn í Berlaymont-höllinni og í Berlín og París á fullu við að valda Bretum sem mestum búsifjum vegna ákvörðunar meirihluta þeirra um að segja skilið við sambandið. Þar er m.a. um stórar álögur á þá að ræða, sem ESB-menn vilja leggja á brezka ríkissjóðinn, eina risaálöguna eftir aðra; og svo eru Brussel-menn jafnvel farnir að reyna að kjlúfa brezka ríkjasambandið í herðar niður, nú síðast með því að leggja til, að Norður-Írland verði eftir í ESB eins og írska lýðveldið og í bandi með því! Þetta kemur þó ekki til af ást á írsku þjóðinni, sem mætti gjarnan sameinast, heldur er allt til marks um, að því fer fjarri, að Evrópusambandið sé neitt skárra en önnur stórveldi sem þjösnast áfram í valdstefnu sinni og yfirráðahneigð.
Íslendingar geta svo rétt ímyndað sér, hvernig þeim, um 240 sinnum minni þjóð en Bretar eru, hefði gengið að slíta sig lausa frá Evrópusambandinu, ef Össuri Skarphéðinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvar, Árna Páli & Co., ásamt svikurum í öðrum flokkum, hefði tekizt að troða okkur í það stórveldi, þegar við vorum sem veikust fyrir. Eitt er víst: að þá værum við nú að borga Icesave-reikninga, ættum sáralítinn makrílveiðirétt, værum með ESB-menn hér í fiskveiðilögsögunni, hefðum ekki okkar sveigjanlegu krónu, heldur í líku fari og Írar sem bölva evrunni og njóta ekki okkar ferðamannasprengju, og þar að auki værum við svo með þessi Brusseltröll hangandi yfir okkur með ógnanir og hótanir um að við höfum verra af, ef við vogum okkur að reyna að verða sjálfstæð þjóð og fullvalda á ný!
Til hamingju með sjálfstæðið, Íslendingar. Til hamingju með daginn, 1. maí.
Jón Valur Jensson.
Frexit óumflýjanlegur án breytinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.4.2017 | 10:06
Endapunktur við atlögur Jóhönnustjórnar að stjórnarskránni og fullveldi landsins
Gleðilegt má kalla, að síðasta atlaga Samfylkingar og leiðitamra VG-manna að stjórnarskránni fór út um þúfur. Nú á miðnætti rann út bráðabirgðaheimild sem að vilja þeirra var skeytt við stjórnarskrána um að hægt verði að breyta henni auðveldlega og á afgerandi hátt í krafti einnar snöggrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt átti þetta vitaskuld að þjóna endanlegu markmiði hinna óþjóðlegu afla á Alþingi sem vildu koma Íslandi undir forræði Evrópusambandsins, í krafti hinnar billegu heimildar í 111. grein tillagna hins ólögmæta "stjórnlagaráðs" fyrir inntöku í Evrópusambandið, um leið og svo var um hnútana bundið í 67. grein, að ekki væri unnt að snúa til baka frá þeirri ákvörðun með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þá, sem Bretar fengu heimild til með sínu Brexit.
En Samfylkingin hefur fengið sína refsingu í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta haust, sem þaggaði niður í þessum óþjóðlegu öflum Össurarmanna, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, Helga Seljan og annarra sem vildu þá Babýlonarherleiðingu þjóðarinnar sem til stóð hjá þeim: að koma landinu inn í Evrópusambandið. Og vantrú þeirra á gamla Íslandi er öllum augljós að vera bábilja og hégilja og engan veginn í takt við margreyndar staðreyndir um gildi fullveldis okkar og sjálfstæðs gjaldmiðils!
Jón Valur Jensson.
Ákvæðið um þjóðaratkvæði fallið úr gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2017 | 20:00
Glæsisigur Theresu May mun styrkja Brexit í sessi
Glæsileg voru úrslit atkvæðagreiðslu í brezka þinginu í dag um að boða til þingkosninga 8. júní. Samtals greiddu 522 þingmenn atkvæði með tillögunni, einungis 13 greiddu atkvæði gegn henni!
"Skoðanakannanir benda til þess að Íhaldsflokkur forsætisráðherrans eigi eftir að vinna stórsigur í þingkosningunum og bæta verulega við þig fylgi og þingmönnum," segir í frétt á Mbl.is, og hefði mátt taka mun dýpra í árinni, því að reiknað er með, að Íhaldsflokkurinn fái allt að 200 þingsætum meira en Verkamannaflokkurinn.
"Verkamannaflokkurinn mælist hins vegar með sögulega lítið fylgi en innan hans hafa geisað átök um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem flokksmenn hafa skiptar skoðanir á, sem og á Jeremy Corbyn leiðtoga hans. (Mbl.is)
Þetta er svona "just for the record" á þessari vefsíðu, sem ekki hefur unnizt tími til að sinna nógu vel síðustu vikurnar, en hér skal heitið að gera betur á næstunni.
Vefur Daily Telegraph segir betur frá þessu máli dagsins.
Margir, m.a. hér á landi, hafa gert því skóna, að Bretar fari flatt á Brexit og verði jafnvel gerðir afturreka með það. En þrátt fyrir upphafs-andstöðu sína hefur Theresa May staðið drengilega við þá stefnu sem meirihluti Breta markaði með þjóðaratkvæðagreiðslunni, og nú styrkist öll aðstaða hennar til að koma málinu fram og hafa sterkari samningsaðstöðu gegnvart kerfiskörlum ESB. Að sama skapi veikist málstaður Evrópusambandsins í álfunni allri og framtíð þess fjarri því að vera tryggð.
Og eins og segir í þætti "Stjórnarmannsins" aftan á Markaði Fréttablaðsins í dag, þá "styrktist sterlingspundið verulega í kjölfar tíðindanna" frá í gær, að Theresa May myndi leggja tillögu um þingslit og kosningar fyrir þingið í dag - "og hefur ekki verið sterkara gagnvart evru og bandaríkjadal um nokkurra mánaða skeið."
Og lokaorðin þar: "Það skyldi þó ekki vera, að væntur sigur Íhaldsflokksins yrði til að slá botn í þann óróa sem ríkt hefur allt frá atkvæðagreiðslunni fyrir réttum níu mánuðum?"
JVJ.
Breska þingið samþykkir kosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bretland (UK) | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)