Færsluflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur
19.9.2012 | 21:57
"Íslendingar verða að samþykkja og virða löggjöf Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum" - ekki boðið upp á annað í ESB!
Merkileg frétt barst landsmönnum í kvöld:
1) Íslendingar VERÐA að samþykkja og virða löggjöf ESB í sjávarútvegsmálum, segir form. sjávarútvegsnefndar Evrópusambandsþingsins, Gabriel Mato.
2) Óviss er hann um að við séum reiðubúnir að gera það "enn sem komið er", og þarna er átt við, að í s.k. sjávarútvegskafla verði Ísland að meðtaka alla löggjöf ESB í þeim málaflokki, en meðal þeirra grundvallarreglna, sem þar gilda, er jafn aðgangur ESB-þjóða fiskimiðum ESB-ríkja.* Óvissa Matos um afstöðu okkar "enn sem komið er" kann annaðhvort að benda til, að hann telji tímann vinna með Evrópusambandinu með áróðurs-fjáraustri sínum, bellibrögðum og e.t.v. þeim hótunum, sem hann sjálfur aðhyllist, til að narra íslenzku þjóðina í Evrópustórveldið, ellegar að hann geri sér grein fyrir, að meðal þjóðar okkar sé svo útbreidd andstaða gegn því, sem "býðst" hjá þessu stórveldi, að vonlaust sé fyrir þá Brusselmenn að gera sér nokkrar vonir um innlimun okkar, og þá kann að vera, að hann sé að leita að auðveldu færi til að slíta "viðræðunum" með því að ögra okkur sem mest og hóta, sbr. framhaldið hér:
3) Hann viðhefur afar ljót orð um Íslendinga vegna makrílmálsins, talar um "ósanngjarna og gerræðislega framkomu" af hálfu Íslendinga og Færeyinga með því að "halda áfram að krefjast meiri aflaheimilda en sem nemur sögulegum veiðum þeirra og þvert á vísindalega ráðgjöf," sem hann ætti þó að vita, að er lítils virði og hefur verið skákað með betri upplýsingum en þeir höfðu þarna úti í Brussel. Þar að auki er fánýtt og fráleitt fyrir hann að tala þarna um "sögulegar veiðar", jafn-vitlaust eins og ef Íslendingar um 1980 hefðu ætlazt til þess af síldinni að hún gæfi sig jafn-ríkulega og hún gerði á árunum 1940-1960, til dæmis. Maðurinn er eitthvað í meira lagi ruglaður, ef hann heldur að hann geti stungið upp í okkur dúsu með orðum um "sögulegar veiðar" á makríl, sem nánast engar hafi verið, til að sætta okkur við, að þessi ránfisktegund fái að vaða hér um alla firði og flóa í okkar eigin fiskveiðilögsögu án þess að gefa okkur bæði veiðivon og fullan veiðirétt, eins og sjálfstæðum mönnum sæmir í fullvalda ríki. En hann er víst vanur ýmsum kerfislausnunum, þessi Mato, og talar til okkar í þeim dúr - umgengst okkur sem alger peð, sem eigi bara að lúta forræði Evrópusambandsins! Telji hann makrílinn ofveiddan, blasir raunar við, að ESB-ríkin sem sjálf sem þurfa að draga úr sókn sinni, ekki við því að við veiðum miklu minna en það, sem makríllinn innbyrðir hér við land af æti, og hann er í lögsögu okkar hlutfallslega mun lengra tímaskeið af líftíma sínum heldur en það hlutfall (16-17%) sem við veiðum úr NA-Atlantshafsstofninum.
Væri nú ekki ráð fyrir hann að byrja á réttum enda með því að leitast við að draga úr hrikalegri rányrkju Evrópusambandsins sjálfs á sínum fiskimiðum?
4) Ljótum orðum sínum um"framkomu" Íslendinga og Færeyinga fylgir Mato eftir með því að segjast "ánægður með að Evrópuþingið skuli hafa samþykkt 12. september síðastliðinn lagasetningu" um refsiaðgerðir gagnvart okkur, segir beinlínis "fullkomlega sammála írska Evrópuþingmanninum Pat Gallagher í skýrslu hans um málið," en Gallagher þessi var einn helzti haukurinn í málinu á þessu Endemis-Evrópusambandsþingi, sem samþykkti nær samhljóða að hvetja til þessara hótunaraðgerða og viðskiptabanns hins ofríkisfulla stórveldabandalags. Með þessu, segir Mato, "hafi Evrópusambandið viðeigandi tæki í höndunum til þess að taka á málum eins og makríldeilunni" -- þ.e.a.s. "viðeigandi" ofríkis-, kúgunar- og valdbeitingartæki (heyrast nokkur húrrahróp?).
Svo erum við með fólk hér við stjórnvölinn á Íslandi, sem ætlast til þess, að þjóðin gangi inn í þetta bákn, þar sem hagsmunir mörghundruð sinnum fjölmennari ríkja myndu bitna beint og viðstöðulaust á arfgengum rétti okkar til fiskimiðanna!
Össur og Jóhanna þurfa ekki að segja okkur, hverjir vinir þeirra eru, við vitum það nú þegar, og það eru ekki vinir íslenzku þjóðarinnar, heldur óvinir, því að ef þetta er þeirra réttlæti, hvernig er þá þeirra ranglæti? Þarf að fara langt í sögunni til að rifja það upp?
* Sjá hér: Evrópusambandið tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Verða að samþykkja löggjöf ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.9.2012 | 20:53
Eina trygging eldri þorska er sjávarlögsaga Íslendinga
Væri ekki kjörið að finna sí svona 100 þorska á miðjum aldri og eldri og senda til Maríu Damanaki sjávarútvegsráðherra ESB?
Hún gæti þá velt því fyrir sér, hvort hún teldi þorskana vera til marks um ránveiðar Íslendinga, þótt í eigin sjávarlögsögu væri (eftirlifandi eldri þorskar ESB í Norðursjó gætu ef til vill hafa tekið upp á því að bregða sér í ellilífeyrisferðalag til lögsöguparadísar Íslendinga).
María Damanaki gæti líka talið þetta til marks um ófullkomnar fiskimælingar sérfræðinga sambandsins í York, að fleiri þorskar yfir fermingu hafi fundist á lífi en þessir hundrað, sem prófessor Callum Roberts fann í Norðursjó.
Síðast kæmi henni sjálfsagt til hugar, að sjávarlögsaga Íslands eru haldbær fiskimið, sem Íslendingar nytja í sátt og samlyndi við samfélag þorska, bæði yngri þorska sem og þroskaða þorska og þá sér í lagi þá, sem komnir eru af léttasta skeiði.
Morgunblaðið hefur góð sambönd í þorskaheimum og sat falleg fyrirsæta fyrir á myndinni, sem birtist með fréttinni. Ekki var getið um aldurinn en tekið fram, að fyrirsætan var ekki úr Norðursjó.
Þorskafyrirsæturnar okkar eru fallegar enda ættaðar frá gómsætum Íslandsmiðum, þar sem mikið er af unglegum þorskum þrátt fyrir aldur.
Fullveldi.blog.is biður rannsóknarstofuna í York, sem fann þessa síðustu 100 eftirlifandi eldri þorska í Norðursjó, að skila góðum kveðjum til þeirra og færa þeim eintak af 600 síðna skýrslu Seðlabanka Íslands svo þeir geti kynnt sér kosti evrunnar sem gjaldmiðil á þurru Norðursjávarlandi, áður en togarar ESB fiska þá upp og henda dauðum aftur í hafið.
![]() |
Færri en 100 eldri þorskar í Norðursjó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2012 | 03:40
Sannleikann segja Nigel Farage og félagar um fráleitt ofríki Evrópusambandsins gagnvart Íslandi
Þingmenn Brezka sjálfstæðisflokksins harma tilraunir Evrópusambandsins til að tryggja sér ítök á Íslandi í gegnum samblöndu af fjármunum, diplómatísku ráðabruggi og blygðunarlausum hótunum, að sögn hins einarða Nigels Farage, leiðtoga flokksins. Flokkurinn (UK Independence Party) "hafnar lögmæti valds Evrópusambandsins til þess að setja hvers kyns lagasetningu og þar af leiðandi greiðum við atkvæði gegn öllum tillögum framkvæmdastjórnar sambandsins að lagasetningu," segir hinn sami Nigel Farage í samtali við blaðamann Mbl.is.
Sl. miðvikudag voru greidd atkvæði um refsiaðgerðir ESB gegn ríkjum sem sambandið telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar. 659 greiddu atkvæði með þessari árás á íslenzkt fullveldi í eigin efnahagslögsögu, 8 sátu hjá, og aðeins 11 greiddu atkvæði gegn þessu. Af þeim ellefu voru níu þingmenn Brezka sjálfstæðisflokksins. Við eigum því hauk í horni í Nigel Farage og félögum hans í þeim flokki. Svo sannarlega er kominn tími fyrir Íslendinga að ljá eyra hinum bráðsnjöllu, leifturhvössu og unaðslega áheyrilegu ræðum þessa merkilega manns á Evrópusambandsþinginu. Hann telur ekki eftir sér að segja æðstu ráðamönnum þar til syndanna fyrir þeirra margvíslegustu óknytti og yfirgang.
Sjáið hér sannleikann sagðan hreinan og tæran í orðum vinar okkar, Nigels:
- Í þessu tilviki var ennfremur ánægjulegt fyrir okkur að lýsa yfir stuðningi okkar við Íslendinga sem sjálfstæða og fullvalda þjóð og við sjálfsagðan og óafsalanlegan rétt íslensku þjóðarinnar til þess að stunda fiskveiðar í eigin efnahagslögsögu."
Óafsalanlegur er sá réttur, eins og hann segir, en svikarar okkar á meðal vilja afsala honum til stórveldis.
Við svikurum er oft hægt að sjá, en það fer í verra, þegar skilningslausir eða óupplýstir sakleysingar gerast nytsamir málstað svikara, jafnvel sumir hverjir þvert gegn eigin vilja. Eru það mikil og þung örlög þjóða, ef og þegar atkvæði eða atfylgi slíkra ríður baggamun til að hnekkja réttarstöðu þeirra eigin landa.
Evrópusambandsinnlimunarsinnar í s.k. stjórnlagaráði, sem störfuðu þar í umboði 30 lögbrota-þingmanna, voru nægilega öflugir til að koma þar í gegn fisléttu, áróðurshljómandi ákvæði um fullveldisframsal til Evrópusambandsins (það er það eina, sem þeir meina með 111. grein sinni), ákvæði sem fer fram hjá flóknum, margvíslegum fyrirstöðum núverandi stjórnarskrár gegn fullveldisframsali. Tókst þeim að narra þar með sér alla aðra í "ráðinu"! Er það makalaus vísbending um vanhæfi þessa illa undirbúna hóps til stjórnarskrárgerðar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Ánægjulegt að styðja Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2012 | 18:43
ESB í stríð við Ísland og Færeyjar
Með 659 já atkvæðum gegn einungis 11 nei samþykkti Evrópuþingið næstum einhliða að fara í refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum, sem ESB ásakar fyrir ofveiðar á makríl. Það er fullur þungi í ESB batteríinu að hlaða áróðursbyssurnar og skjóta þeim lygum um allar jarðir, að Íslendingar og Færeyingar séu ránfiskarar og umhverfishryðjuverkamenn, sem í engu skeyta um sjálfbærar, ábyrgar fiskveiðar né lífríki sjávar.
Í þessum áróðri verður þess ekki getið að ESB ofveiðir sjálft að eigin sögn yfir 80% af fiskistofnum í sjávarvötnum ESB með yfir 30% fiskistofna í beinni útrýmingarhættu. Enginn veit heldur fyrir víst enn þá, hvort breyttar göngur makrílsins til norðurs séu hreinlega vegna fæðuskorts í suðri en margir telja fyrir víst að breyting á hitastigi sjávar hafi áhrif á hegðun fisksins.
ESB hefur vöðva til að valda Íslendingum og Færeyingum þungum búsifjum, svo full ástæða er að taka mark á hótununum. Hins vegar eiga Íslendingar ekki að sitja við borðið með þeim, sem veifa vopnum til að komast að "samkomulagi." Það rétta er því í þessarri stöðu að skilja stólinn eftir auðan á næsta fundi í London í október. En það skiptir litlu máli, því eyra Damanaki heyrir bara orð þeirra, sem hæst hrópa í Brussel.
Þrátt fyrir gríðarlegan vöðvamun hafa bæði Íslendingar og Færeyingar málstaðinn sínum megin. Þökk sé Hafrannsóknarstofnuninni hefur betri mynd af hegðun makrílsins fengist en menn vissu áður um. Kemur þá í ljós að hinar miklu "ofveiðar" eru töluvert innan við ramma sjálfbærra fiskiveiða og þess vegna óhætt að hækka kvóta Íslendinga þó nokkuð án þess að valda neinum usla. Tíminn mun vinna með málstað okkar í þeim málum.
En þessar staðreyndir henta ekki útgerðarmönnum ESB landanna, sem stöðugt þurfa að ásælast lengra og dýpra til að geta fengið bröndu sjálfir vegna þess að fiskurinn er uppveiddur í eigin lögsögum. Eða eins og einn sagði, þegar bent var á, að ESB hefði engan rétt til ránveiða í lögsögu Vestur-Sahara: "Heldur þú virkilega að við getum sleppt því núna? Þá yrðu yfir 100 Spánartogarar að koma aftur inn á fiskimiðin okkar þar, sem engan fisk er lengur að fá."
Þegar fram í sækir mun það verða þrautin þyngri fyrir ESB að útskýra fyrir umheiminum, hvers vegna fjórfrelsi EES-samningsins, þ.e.a.s. frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns eigi ekki við um EES-aðilann Ísland. Hvers vegna ekki er hægt að treysta Hafrannsóknarstofu einnar bestu fiskveiðiþjóðar heims. Þá mun sannleikurinn síast fram um að ESB er að krefjast tolla af öðrum vegna eigin ofveiði í heiminum.
Íslendingar þurfa að fara að leita að nánari samstarfi við lönd utan ESB í öðrum heimsálfum. Við þurfum ekki að láta neina búrókrata í Brussel segja okkur fyrir verkum á sviði sjávarútvegsmála. Þar yrði það beinn ávinningur fyrir ESB að taka upp sjávarútvegsstefnu Íslendinga í staðinn. En þannig virka ekki málin hjá nýja stórríkinu, sem verður að verða eitt ríki, þótt Baróssóstjóranum vefjist tunga um tönn og afneiti súper til að reyna að vera eins og alþýðlegur fasisti, sem telur fólki trú um, að lífið sé eingöngu þess virði að lifa, að hægt sé að standa og sitja eins og stóra hendin veifar.
Því miður vinnur íslenska ríkisstjórnin að því að leggjast undir Brusselstígvélið enda er áráttan að fá að vera með í fína klúbbi svartsígvélanna æðri öllu öðru. Landsmenn þurfa að undirbúa sig undir nýja "Icesave" samningalotu, því búast má við, að Steingrímur og jafnvel Össur komi með "samning aldarinnar" frá ráðamönnum ESB.
Gústaf Adolf Skúlason
![]() |
Samþykkja beitingu refsiaðgerða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt 13.9.2012 kl. 06:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2012 | 19:01
Brusselvaldið leggur fram frumvarp um refsiaðgerðir gegn Íslendingum eftir 10 daga!
Þetta er í fullum gangi í Evrópusambandinu, og viðræðuslit í Lundúnum í dag munu sízt draga úr árásargirni ESB og þeirra ríkja þar sem reyna að halda í ósanngjarnan hlut sinn úr makrílveiðum. Þetta fólk tekur ekkert mark á niðurstöðum nýjustu rannsókna á ástandi makrílstofnsins, og sjávarútvegsefnd Evrópusambandsþingsins keyrir á málið undir forsæti brezks manns, það er sú nefnd, sem undirbúið hefur sóknina gegn okkur með tillögum til frumvarps, sem framkvæmdastjórnin mun leggja fram 13. þ.m., að vísu ekki föstudaginn þrettánda, en í ógæfuplaggi samt!
Fróðlega er fjallað um þessar fyrirhuguðu refsiaðgerðir í Mbl.is-frétt Hjartar J. Guðmundssonar í dag. Þar kemur fram, að þótt að vísu sé tekið fram í frumvarpinu (sem Mbl. hefur undir höndum), að ekki megi beita þessum aðgerðum "handahófskennt eða með óréttmætri mismunun á milli ríkja þar sem sambærilegar aðstæður séu fyrir hendi" og að "óheimilt [sé] að beita þeim í þeim tilgangi að hindra alþjóðleg viðskipti," þá eru þetta samt áberandi víðtækar refsiaðgerða-heimildir:
- Meðal þeirra refsiaðgerða sem Evrópusambandinu verður heimilt að grípa til samkvæmt frumvarpinu eru að setja hömlur á landanir á afla í höfnum sambandsins úr þeim fiskistofnum sem talið er að viðkomandi ríki stundi ósjálfbærar veiðar á. Einnig er heimilt að grípa til slíkra takmarkana á löndun afla úr öllum fiskistofnum sem deila sama vistkerfi og fiskistofninn sem deilt er um sem og afurðum sem unnar eru úr fiski úr þeim stofni sem deilur standa um.
- Þá er kveðið á um ýmsar hömlur sem grípa megi til varðandi þjónustu fiskiskipa frá viðkomandi ríki sem stunda veiðar úr þeim fiskistofni eða -stofnum sem deilt er um og einnig varðandi viðskipti á milli aðila frá ríkinu annars vegar og Evrópusambandinu hins vegar með fiskiskip. Einnig með búnað tengdan sjávarútvegi sem nota á við veiðar úr viðkomandi fiskistofni sem deilt er um.
- Ennfremur segir í frumvarpinu að hægt sé að beita umræddum refsiaðgerðum gegn ríki utan Evrópusambandsins jafnvel þó veiðar úr fiskistofninum sem deilt er um séu ekki lengur ósjálfbærar að áliti sambandsins ef ástæða þess er sú að önnur ríki hafi dregið úr sínum veiðum.
Og hér er enn eitt ánægjuefnið með Evrópusambandið eða hitt þó heldur:
- Gert er ráð fyrir að frumvarpið, sem mbl.is hefur undir höndum, verði lagt fyrir Evrópuþingið 13. september næstkomandi og er búist við að hægt verði að beita þeim heimildum sem kveðið er á um í því fljótlega eftir það.
Makalaus er yfirgangur þessa Evrópusambands, sem Össur og Jóhanna þrá hvað ákafast að fá að innlima landið í, með öllum hinum u.þ.b. 319.998 Íslendingunum.
Steingrímur hefur lokið sínum viðræðum og hefur ekki verið illa svikinn af sínum ráðuneytisstjóra, Sigurgeiri Þorgeirssyni, sem talaði mjög skelegglega um þetta mál í viðtali við Morgunblaðið, sjá þar 31. ágúst, bls. 4: 'Ráðherrar ræða makríl', en þar segir hann m.a. um lygaáburð sjávarútvegsfyrirtækja í ESB og Noregi:
- Það er ... hreint með ólíkindum að útgerðarmenn annars staðar skuli halda því fram að minna hafi verið af makríl í íslenskri lögsögu í sumar heldur en síðustu ár. Þetta gera þeir þvert ofan í skýrslu sem er sameiginleg niðurstaða vísindamanna frá Noregi, Færeyjum og Íslandi og þeir vita mæta vel um. Að dreifa hinu gagnstæða er ekkert annað en ósvífni, segir Sigurgeir.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Refsiaðgerðirnar virði alþjóðalög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2012 | 18:55
4, 12, 50 og 200 mílna fiskveiðilögsaga: áfangasigrar í krafti fullveldis íslenzka ríkisins
Hálf öld er liðin frá útfærslu landhelginnar í 50 mílur. Þá stækkaði hún um nær 220%, var þá orðin tvöföld stærð landsins, en með 200 mílna lögsögunni 1975 varð hún 7½-föld stærð landsins. Þetta gaf FULLVELDIÐ okkur.
Vopnum beittum við til að tryggja okkur þennan gríðarmikilvæga ávinning hins sjálfstæða ríkis, togvíraklippunum, sem halaklipptu brezka landhelgisbrjóta 82 sinnum með stórskaða fyrir þá.
Ekki er að spyrja að því, að stæðum við nú í sömu sporum og þá, með 12 mílna fiskveiðilögsögu, eins og við höfðum 1958-1972, og værum í núverandi Evrópusambandi, þá ættum við ekkert forræði þessara mála -- það væri allt í Brussel, samkvæmt hinum rómaða Lissabon-sáttmála !
Ömurlegt er hlutskipti þeirra manna sem mæla með framsali fullveldis okkar til evrópsks stórveldis. Á þjóðveldisöld hefði ugglaust mörgum þótt við hæfi að dæma baráttumenn fyrir slíku í eina hörðustu refsinguna: skóggang, þ.e. ævilanga útlegð, eða að öðrum kosti fjörbaugsgarð, þriggja ára útlegð.
Þarf að fara að endurskoða hegningarlögin?
Jón Valur Jensson.
![]() |
40 ár frá stækkun fiskveiðilögsögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2012 | 06:21
ESB notar Marókkó til að ræna sjávarauðlind Vestur-Sahara
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2012 | 23:17
Herför Evrópusambandsins á norðurslóðir : Ekki er hún betri músin sem læðist en hin sem stökkur
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt 30.8.2012 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2012 | 15:15
Eigi skal launa slæma framkomu
Það verður fróðlegt, að sjá heimkomu fjöldamálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar eftir fundinn með sjávarútvegsráðherra/kommissjóner Maria Damanaki í London 3. sept. n.k. Honum verður gert ljóst, að ESB ræður för og hann sendur til baka með samning að skapi ESB. Annars!
Það virðist enginn hörgull á hótunum hjá ESB og þeim, sem eru uppfóstraðir í menningu Evrópusambandsins. Þar þýðir "samstarf" að ganga að kröfum framkvæmdastjórnarinnar. Þess vegna verður áhugavert að sjá, hvað mikið af ellefu kröfum útgerðarfyrirtækja í ESB og Noregi, sem Maria Damanaki lætur fylgja með sem ESB-kröfur í "samninga"viðræðunum við íslenska fjöldamálaráðherrann.
Ísland fékk ekki að vera með við "samninga"borðið hér áður fyrr. Það þótti ekki taka því að vera bjóða svona smáþjóð við borð hinna stóru og þurfti landið að beita olnbogunum til að fá að komast að. Enda er ein af kröfum dagsins að útiloka Grænlendinga frá borðinu með því að neita að viðurkenna landið sem strandríki. Samt er Grænland strandríki, hvað svo sem vitringar ESB segja. En ekki hentar ESB eða Norðmönnum núna frekar en fyrri daginn, að viðurkenna landfræðilegar staðreyndir, þegar "semja" þarf um skiptingu makrílkvótans, því sérhver fiskur til Grænlands verður einn mínus til hinna.
Kröfurnar gagnvart Íslandi eru í grænlenska veru:
Byrja upp á nýtt, draga fyrri "tilboð" til baka. Ásaka Ísland og Færeyjar fyrir yfirgengilegar kröfur og alls ekki launa slæma framkoma. Banna veiðar Íslands í norskri eða ESB lögsögu og beita öðrum bönnum og kvöðum eftir "þörfum". Stöðva aðildarferli Íslands að ESB, endurskoða kolmunnasamninga, svo hægt sé að skerða hlutdeild Íslands og þar fram eftir götunum.
Ef marka væri eitt milligram af orðum klofintunguráðherrans, sem heldur því fram, að Ísland sé ekki í aðlögunarferli, þá er fyrirséð að hann snýr heim án samnings. Eins og andstæðingar Íslands segja: Enginn samningur er betri en slæmur.
En við er að búast, að fjöldamálaráðherrann komi heim, þrátt fyrir vísindalegar rannsóknir Íslendinga upp á margfalt meiri haldbæran afla, með samning upp á 3,1 % kvóta skv. hlutfallslegum stöðugleika. Skiptir þá eigin ráðherrastóll og stöðuleiki ríkisstjórnarinnar öllu máli.
Spurningin verður þá, hvort ráðaherrastóllinn velti, vegna óstöðuleikahlutfalls og Valts Gengis Vinstri Grænna. /gs
![]() |
Vilja hlé á ESB-viðræðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2012 | 19:20
Danskir ráðamenn "styðja" ekki ESB-umsókn Jóhönnustjórnar nema í síngjörnum tilgangi
Í 18- og 18.30-fréttum Rúv og Stöðvar 2 er tíundað, að Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, hafi lýst yfir stuðningi við Evrópusambands-umsókn "Íslands" (eitt er víst, að þetta er ekki umsókn þjóðarinnar!).
Rangt er að útleggja þetta sem stuðning við Íslendinga. Það hefur komið fram hjá öðrum norrænum pólitíkusum, að þeir sjá "aðild" Íslands sem tækifæri fyrir þá sjálfa til að fá örlítið meira atkvæðavægi sem hópur á löggjafar- og ákvörðunar-samkundum Evrópusambandsins, en jafnvel hin "stóra" Svíþjóð er farin að óttast áhrifaleysi sitt í þessu stórveldi, með 2,9% atkvæðavægi nú, en verður ekki nema 1,85% frá 1. nóv. 2014 og fer jafnvel minnkandi.
Þá er þess að geta, að Danir eru mikil fiskveiðiþjóð og myndu vitaskuld nýta sér hinn jafna aðgang sem ESB-þjóðir hafa að fiskimiðum annarra ESB-þjóða.
Skálaræður segja oft í skásta falli fegraða hlið sannleikans.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Situr veislu með Jóhönnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)