Færsluflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur
25.8.2012 | 17:17
Ríkisstjórnin er hluti af makrílvandanum - ekki lausninni
Með heimtufrekju ætlar ESB að þvinga Íslendinga að ganga einhliða að ósanngjörnum kröfum sínum og beitir makríldeilunni til að stöðva aðlögunarferli Íslendinga. Í raun hegðar ESB sér eins og að Ísland sé þegar orðið meðlimur, því ESB eitt hefur alræðisvald til ákvarðana um sjávarmál innan sambandsins.
Þessi hegðun ESB er gerð í fullri meðvitund og samþykki ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það bendir til þess, að þegar sé búið að gera bráðabirgðasamkomulag um eftirgjöf Íslands á bak við tjöldin. Ríkisstjórnin mun þá að mestu eða öllu leyti samþykkja kvóta"úthlutun" ESB í stað þess að fylgja Hafró eða íslenskum vísindamönnum. Ný skýrsla sýnir, að yfir 5 miljónir tonna af makríl eru í Norðaustur-Atlantshafi á hafsvæði Færeyja, Íslands og Noregs, þar af um 1,5 miljónir tonna innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ábyrgar veiðar Íslendinga eru innan við 10 % af því magni og eins og komið hefur fram hjá talsmönnum sjávarútvegs er líklegt, að Íslendingar hafi verið helst til of varkárir í mati sínu.
Þann 3. sept. fer Steingrímur J. Sigfússon fjöldaráðherra á fund Maríu Damanaki, sjávarútvegsráðherra ESB í London. Búast má við nýju samningaútspili í Icesave-stíl: Í stað peninga krefst ESB makríls af Íslandi og Steingrímur getur komið með "samning aldarinnar" til baka, þar sem gefið verður eftir af kröfu ESB eða komið með "lausn", þar sem ESB er tryggt lagalegt forræði til að taka yfirráðin í sjávarútvegsmálum Íslendinga. Utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson hefur nefnt, að ESB geti keypt skuldabréf af Íslandi til að fá burtu "snjóhengju" þeirra, sem fastir eru með íslenskar krónur í landinu. Má jafnvel búast við einhverjum loðnum skilaboðum í þá veru, sem gæti verið hið "stórkostlega" gylliboð, sem koma á úr eilífðarpakkanum. Annars verður mjög fróðlegt að fylgjast með, hvaða bellibrögð þessi hjú koma með eftir 3. sept. nk.
Orsök makríldeilunnar er röng og stórskaðleg sjávarútvegsstefna ESB, sem er að eyðileggja lífríki sjávar með ofveiðum á 80% fiskistofna og útrýmingu 30% þeirra. Það eru öfugmæli aldarinnar að halda því fram, að ESB vinni í þágu verndunar á makrílstofninum. ESB hikar ekki við að fara í makrílstríð við smáríkin Ísland og Færeyjar til að banna þeim að stunda löglegar makrílveiðar í eigin sjávarlögsögu. Slík krafa jafnast á við stríðsyfirlýsingu á fullvalda ríki. ESB hótar löndunar- og hafnbanni á íslensk og færeysk skip og afnámi viðskiptafrelsis frá ESB til sjávarútvegs Íslands og Færeyja. Má búast við áróðri um "fiskiræningja" og "umhverfishryðjuverkamenn" Íslands og Færeyja til að réttlæta makrílstríð ESB.
Í stað þess að standa á rétti sjálfbærrar fiskveiðistefnu Íslendinga lúffar ríkisstjórnin vegna veruleikafirrts draums um pláss í hásæti við hlið búrókrata í Brussel. Hvorki krata í Samfylkingunni né Vinstri græn skiptir máli, þótt fullveldi íslenska lýðveldisins verði framselt til ESB. Annar fóturinn stappar og segir: Bíðið og sjáið hvað kemur úr pakkanum og hinn fóturinn stappar og segir: Göngum með í ESB vegna samstarfs vinstri manna á Íslandi. Þannig eru báðir flokkarnir sammála um afhendingu sjávarauðlinda Íslands til ESB fyrir eigin embættisstóla. Það er ógæfa Íslendinga að hafa svona fullveldissvikara í embættum íslenska ríkisins, sem meðvitað beita ríkisvaldinu til að bola burtu allri gagnrýnni hugsun varðandi ESB. Það sýndi sig skýrt, þegar Jón Björnsson ráðherra var rekinn og samningamaður í makrílnefnd líka, sem varði hagsmuni Íslendinga í samræðum við ESB.
Besta skref þjóðarinnar í átt að lausn makríldeilunnar er því að byrja á því að losa sig við þessa svikulu og fjandsamlegu ríkisstjórn, sem nú situr. Þá fyrst verður hægt að vinna í friði að málefnum landsmanna og standa á grundvelli aldagamallar hefðar smáþjóðar, sem lifað hefur á auðlind hafsins í sjálfbæru samspili við náttúruöflin. /gs
![]() |
Þrír kaflar stranda á makrílnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2012 | 20:49
Engar undanþágur frá reglum ESB í myndinni, a.m.k. engar varanlegar
- Það er að koma í ljós eins og reyndar flestir vissu að við erum ekkert að semja heldur að samþykkja allt sem Evrópusambandið krefst af okkur, segir Jón Bjarnason, þingmaður VG og fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, en hann segir það ekki í myndinni að Íslandi fái sérstakar undanþágur frá almennum reglum ESB. Þetta hefur Evrópusambandið alltaf sagt og var skýr stefna frá sambandinu í þeim viðræðum sem ég átti við fulltrúa sambandsins sem ráðherra. Allar undaþágur sem menn eru að tala um hafa fyrst og fremst verið tímabundnar og minniháttar. Það er hin almenna regla og ESB hefur ekki vikið frá henni. Viðræðurnar snúast um það hverju Ísland þarf að breyta til að verða meðlimir, segir Jón. Að auki bendir Jón á að viðræður Íslands við ESB séu í raun og veru viðræður við 27 ríki ESB. Fáist einhver minniháttar undanþága er hún háð samþykki allra 27 ríkjanna. Þess vegna vildi ég hafa skilyrta umsókn frá upphafi en svör ESB voru skýr um það. Ísland er að sækja um aðild að ESB, ekki ESB um aðild að Íslandi, segir Jón.
Þetta var skýr og tímabær áminning frá Jóni Bjarnasyni í stuttu viðtali hans við Sunnudagsmoggann í dag: Óraunhæft að tala um varanlegar undanþágur frá reglum ESB.
Einna háskalegast yrði þetta sjávarútvegs- og auðlinda-hagsmunum okkar Íslendinga.
JVJ.
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2012 | 19:04
74,8% Norðmanna segja NEI við "aðild" Noregs að Evrópusambandinu
Glæsileg er afstaða Norðmanna til Evrópusambandsins, 3/4 á móti "inngöngu" í það og aðeins 17,2% fylgjandi, rétt rúmlega 6. hver maður! Norðmenn vita sem er, að það er eftir engu að slægjast í ESB.
Norðmenn ráku sig á vegg í samningum 1993-4 við Evrópusambandið, gátu ekki fengið norðurhluta landhelgi sinnar undanskilinn frá hinum jafna aðgangi ESB-borgara til fiskimiðanna og heldur ekki fengið "regluna" um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða múraða inn í aðildarsamning sinn -- af því að Brussel-valdið vill geta breytt þeirri "reglu" ("princípi") á róttækan hátt, þegar ráðandi þjóðaleiðtogum þar sýnist (og það getur einmitt ráðherraráðið, þar sem við fengjum í mesta lagi 0,06% atkvæðavægi). Eins gæti það gerzt, um leið og okkur yrði hrint inn í ískalda sturtu veruleikans, að "reglunni" þeirri arna yrði hreinlega skolað út með baðvatninu.
Fullveldið er flestum öðrum jarðargæðum dýrmætara og var okkar helzta hjálp til framfara og auðlegðar, í krafti þess veittist okkur fjögurra, 12, 50 og 200 mílna landhelgi. Þetta ætti hvert skólabarn að vita, jafnvel allir "Evrópu-fræðingarnir" vestur á Melum, uppi undir Öskjuhlíð og í Bifröst í Borgarfirði.
JVJ.
![]() |
75% Norðmanna vilja ekki í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Steingrímur J. Sigfússon hefur ekkert þjóðarumboð til að semja við Evrópusambandið um makrílkvóta, hvorki 7, 10 né 15%.
Við höfum veitt úr honum um 16% af þeim kvóta, sem Alþjóða-hafrannsóknaráðið hefur lagt til, en það er í raun of lítið miðað við 1) dvalartíma hans hér við land (um 40% líftíma hans), 2) gríðarlegt magn átu sem hann innbyrðir hér við land, um fimmfalda eiginþyngd hans, og þetta tekur fæðu frá öðrum fiski hér.
Í þriðja lagi er ætlun ESB-þjóðanna um eigin veiðar í stórfelldu ósamræmi við það, hvar makríllinn heldur sig og í raun margföld rányrkja, ef eitthvað er "sjórán" á þessari fisktegund, enda ætla þær sér áfram að veiða margfaldlega á við okkur!
En í 4. lagi er svo ráðgjöf Alþjóða-hafrannsóknaráðsins byggð á sandi fremur en vísindum, gersamlega ótækum rannsóknaraðferðum, eins og vel kemur fram í afar skýrum skrifum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings um þau mál, hér 6. þ.m. á Moggabloggi: Ekki semja um makrílinn!
Það er því ankannalegt í hæsta máta að lesa þessar fréttir frá Evrópusambandinu:
Evrópusambandið hefur í hyggju að bjóða Íslendingum 10% af ráðlögðum makrílkvóta í Norðaustur-Atlantshafi og Færeyingum sama hlutfall samkvæmt því sem fram kemur á írsku fréttasíðunni Donegal Democrats í dag.
Þar segir ennfremur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sjái fram á að geta stöðvað stjórnlausa rányrkju Íslendinga og Færeyinga á makrílstofninum með slíku tilboði og að um sé að ræða ásættanlega lendingu til þess að binda endi á makríldeiluna.
"Ásættanleg lending" -- þannig talar þetta kerfisfólk, ásamt óverjanlegum upphrópunum sínum, í stað þess að virða efnahagslögsögu hvers ríkis. Hún yrði að sjálfsögðu ekki virt hér, ef við færum inn í þetta Evrópusamband, þar er gefinn jafn aðgangur allra ESB-þjóða að fiskimiðunum. En jafnvel án "inngöngu" í þetta stórveldabandalag ætlast það til þess að fá að vaða hér yfir okkur á skítugum skónum með þrýstingi á þá ráðamenn hér, sem reyndust, þrátt fyrir það sem mönnum sýndist, ekki hafa bein í nefinu til að standa gegn yfirgangi þjóða úr þessari sömu átt.
Það er dæmigert, að bæði Belgar og Hollendingar taka undir hortugheit og frekju Skota, Íra og Breta á móti okkur á sínum ESB-vettvangi, en Danir og Svíar hafa hins vegar óskað eftir "málamiðlun".
Það er í 1. lagi spurning, hvort Íslandsmið og ástand annarra fiskistofna þyldi slíka málamiðlun -- réttast væri líklega að auka veiðarnar hér langt upp fyrir 20% heildarveiði makrílsins á NA-Atlantshafi. En í 2. lagi á það ekki að vera hlutverk annarra Norðurlandaþjóða að vera með íhlutun í okkar innanríkismál og stuðla að þvingun gagnvart okkar eigin efnahagslögsögu, um leið og með því væri verið að svipta okkur útflutningstekjum svo næmi mörgum tugum milljarða króna á t.d. einu kjörtímabili.
Steingrímur J., sem er að renna út skeið síns kjörtíma, hefur ekkert umboð þjóðarinnar til að gera hrossakaup við Evrópusambandið með lúpulegum svip. Sitthvað bendir jafnvel til, að hann ætli sér að eiga það spil í bakhendinni fyrir næstu kosningar að hafa loksins reynzt standa gegn offorsi stórveldisins í þessu máli. Þó er eins víst og að sólin kemur upp í fyrramálið, að fólk er hætt að treysta honum fyrir áframhaldi makrílveiða okkar, sbr. að fyrir örfáum dögum kom í ljós í könnun Útvarps Sögu, að innan við 20. hver maður treystir honum til samninga við ESB um þetta mál (Algert vantraust á Steingrími J. Sigfússyni til að semja við ESB um makrílkvóta).
Slíkir samningar eru hvort eð er óþarfir, meðan valdamenn Evrópusambandsins halda sig uppi í skýjunum og tala af hroka og yfirlæti niður til Íslendinga og Færeyinga.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Verða Íslendingum boðin 10%? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2012 | 16:38
Deila að rísa vegna fiskimiða og auðlinda á hafsbotni - Við megum ekki sofna á verðinum!
Landhelgi, fiskveiðilögsaga og efnahagslögsaga (EEZ) eru fyrirbæri sem skipta gríðarmiklu máli. Japanir leitast nú við að kaupa Senkaku-eyjar í A-Kínahafi af einkaeigendum, en landið átti tilkall til þeirra áður.
- Gjöful fiskimið eru umhverfis eyjarnar og talið er að þar kunni að vera jarðefni sem hægt sé að nýta. Japanskir fiskimenn bjuggu á eyjunum fyrir seinni heimstyrjöldina. (Mbl.is.)
Gegn þessari viðleitni Japana bregðast nú Kínverjar harkalega. Vera má, að deilur, sem Kínverjar eiga í við Filippseyinga o.fl. vegna eyja í Suður-Kínahafi, sem og þessi deila geti leitt til vígvæðingar á þeim svæðum.
Ríkjum verður sífellt dýrmætara að halda fast í eignarrétt sinn á fiskimiðum og landgrunni og til hafsbotnsins og þess sem undir honum er, innan 200 mílna efnahagslögsögu. Þessu sækjast m.a. stórveldi eftir, og það sama á við hér við land. (Víðfeðm lögsaga okkar sést á þessari mynd (með grein hér), sem sýnir þriggja, fjögurra, 12, 50 og 200 mílna fiskveiðilögsöguna.)
Það fór illa, að Vestfirðingurinn frækni, sem hugðist nema land á Jan Mayen, fórst í ofviðri, áður en lagt skyldi upp í þá landvinningaferð. Hefði ferðin tekizt og búseta festst í sessi, ásamt nýtingu sjávargæða, og tilkalli lýst til Jan Mayen, eins og Norðmenn gerðu síðar, þá ættum við þar gríðarlega efnahagslögsögu til viðbótar við okkar u.þ.b. 750.000 ferkílómetra hafsvæði kringum landið.
Eftir efnahagslögsögu okkar sækist Evrópusambandið og ríki innan þess, þ.e. réttinum til nýtingar fiskistofna og jafnframt réttinum, sem sambandið hyggst taka sér í stjórn orkuauðlindamála. Nú þegar eru mjög víðtækar, en klóklega orðaðar valdheimildir einmitt í þá átt í Lissabon-sáttmálanum.
Undir Lissabon-sáttmálann yrðum við fortakslaust að segjast, ef við "gengjum í" Evrópusambandið, rétt eins og við yrðum þá að lúta lagasetningar- og stefnumótunarvaldi þess á sviði sjávarútvegs og m.a. þeirri meginreglu þar, að öll aðildarríki ESB hafi ótvíræðan rétt til jafns aðgangs fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna (sjá nánar hér: Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!)
Ísland er og verður standandi dæmi um land, sem vegna þjóðarhagsmuna má aldrei og alls ekki "ganga í" Evrópusambandið. Við hefðum þar sáralítið að vinna, en nánast öllu að tapa og áhrifamáttur okkar svo til enginn.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Japan áforma að kaupa eyjar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2012 | 20:42
Enga samninga um makrílinn við villugjarnt og ofstopafullt ESB
Pistill Jóns Kristjánssonar fiskifræðings - hér á Moggabloggi: Ekki semja um makrílinn! - er stórmerkur og sýnir okkur enn - nú með rökum fiskifræðinnar - að fráleitt er að stjórnvöld hér láti Evrópusambandið kúga sig til samninga um makrílveiðar. Jón segir að stofnmæling á makríl sé "tóm vitleysa" og ráðgjöfin hjá Alþjóða-hafrannsóknaráðinu (ICES) í samræmi við það.
Grein Jóns er ótrúlega spennandi lestur, og bezt er að menn lesi hana sjálfa, en auk fyrri raka okkar í málinu er nú alveg ljóst af máli hans, að stjórnvöldum hér ber nánast bein skylda til að slíta viðræðum við Evrópusambandið í þessu máli. Þá geta Brusselmenn setzt niður, gripið um höfuðið og reynt að hugsa málið upp á nýtt og nú út frá staðreyndum um það, hvar makríllinn heldur sig og leitar að fæðu, sem honum er ekki boðið upp á í lögsögðu ESB-ríkja.
JVJ.
![]() |
Ekki semja um makrílinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2012 | 21:43
ESB-ríkin eru forstokkuð í friðunarstefnu sinni
Hnúfubaka, sem eru EKKI í útrýmingarhættu*, vilja Evrópusambandsríki banna með öllu að veiða við Grænland! Danmörk, ein ESB-ríkja, stóð með grænlenzkum frumbyggjum, sem vildu veiða 10 dýr!
- Alþjóðahvalveiðiráðið hafnaði í dag tillögu um að heimila Grænlendingum að veiða 10 hnúfubaka árlega á grundvelli frumbyggjaveiða. Evrópusambandsríkin lögðust gegn tillögunni.Danmörk óskaði eftir því að hvalveiðiráðið heimilaði Grænlendingum að veiða hvali á grundvelli frumbyggjaveiða. Öll Evrópusambandsríkin utan Danmörku lögðust gegn tillögunni. Talsmaður ESB segir að reynt hafi verið að ná samkomulagi um takmarkaðar veiðar. Eftir að sú tilraun mistókst og ákveðið var að bera tillöguna undir ráðið hefðu ESB-ríkin ákveðið að greiða atkvæði gegn tillögunni. (Mbl.is.)
Þetta minnir á harkalega framgöngu Evrópusammbandsins í makrílmálinu. Ætla menn í alvöru að fá þessu stórveldi í hendur úrskurðarvald yfir hvalveiðum, selveiðum, hákarlaveiðum og fiskveiðum við Ísland -- og refaveiðum uppi á landi?!
Hnúfubakar eru ekki í útrýmingarhættu við Ísland.
* Jón Már Halldórsson líffræðingur svaraði m.a. þannig á Vísindavefnum (HÉR) spurningunni: "Eru hnúfubakar í hættu við Ísland?":
- "Talning [á hnúfubökum við Ísland] var fyrst framkvæmd [af Hafrannsóknastofnun] árið 1987 og þá reyndust vera um tvö þúsund hnúfubakar (Megaptera novaeangliae) á talningarsvæðinu. Árin 1995 og 2001 var fjöldinn um fjórtán þúsund einstaklingar. Að mati líffræðinga hefur árleg fjölgun hnúfubaka á tímabilinu frá 1986 til 2001 verið um 11,4% sem telst vera allnokkur fjölgun miðað við að hér er um stórt spendýr að ræða.
- Hnúfubakur hefur verið friðaður síðan 1985. Nú telst stofninn alls ekki vera í útrýmingarhættu heldur gæti þolað sjálfbærar veiðar að mati Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun."
Ætla menn að fara eftir vísindunum eða einfaldlega eigin fordómum? ESB hefur gefið sitt svar! Og svar þess er knúið fram með valdi.
Jón Valur Jensson.
![]() |
ESB hafnar hvalveiðum Grænlendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjávarútvegsstjóri (ráðherraígildi) Evrópusambandsins, Damanaki, virðist skrökva hér nánast í beinni útsendingu, með grófum áróðursklækjum gagnvart Íslendingum.
Hún tengir ESB-viðræðuferlið við makrílmálið, og er svo að sjá sem hún þykist þekkja sína íslenzku sérlegu ESB-vini (Samfylkinguna og viðhengi hennar) nægilega vel til að reiða megi sig á það, að þeir láti undan þrýstingnum og gefi eftir af rétti okkar til makrílveiða í okkar eigin efnahagslögsögu, þar sem öll rök ættu þvert á móti að gefa okkur meira en tvöföldun veiðanna, ekki fjórfalt til fimmfalt minni en við höfum stundað!
Hún lætur þó sem hér sé ekki um neinar hótanir að ræða til að þvinga okkur til uppgjafar í makrílmálinu, því að hún sé svo bjartsýn á, að samningum um málið verði lokið í september. Þegar á hana er svo gengið með bjartsýnina, kemur í ljós, að hún er einungis "slightly optimistic" í raun! Það merkir: svolítið bjartsýn, ekki bjartsýn í alvöru.
Hún segir "skiptar skoðanir um það í ráðherraráðinu, hvort hefja eigi viðræður við Íslendinga um sjávarútvegsmál í tengslum við aðildarumsókn". Þótt þetta hljómi vel í eyrum þeirra, sem vilja ekkert með þessa umsókn hafa, heldur eigi að senda hana án tafar í ruslafötuna, þá verður að hafa hér hugfast, að þessi orð hennar virka sem þumalskrúfa á þá í ríkisstjórninni og Alþingi sem vilja óðir og uppvægir láta innlima lýðveldið Ísland í stórríki, þar sem æðstu völd, þ.m.t. allt æðsta löggjafarvald, yrði í höndum annarra en okkar sjálfra. Það á LÍKA við um sjávarútvegsmálin, enda kemur það alveg skýrt fram hjá Damanaki, að við yrðum þar að lúta forræði Evrópusambandsin, sbr. t.d. hér: "Ráðherraráðið [ekki Ísland, aths. jvj.] ákveður hvenær [sjávaruútvegs]kaflinn verður opnaður, segir Damanaki. Það muni horfa til þess hvort Ísland fer að reglum sambandsins." (Heimild frá í gær).
Damanaki vílar ekki fyrir sér að reyna að komast upp með að skrökva því að okkur, að "Evrópusambandið hafi teygt sig langt" (svo!!). Þessu heldur hún fram hér í annarri Rúv-frétt, en þetta er firra, því að "tilboð", sem hækkað er úr nánast engu (3% veiði fyrir okkur af heildarveiði makríls í NA-Atlantshafi) og um jafnvel 60%, er ekki orðið nema 4,8%! Á sama tíma er 40% af líftíma makrílsins HÉR við Ísland þar sem hann fitar sig á átu í íslenzkri efnahagslögsögu, svo að nemur á 2. milljón tonna af fæðu ofan í hann!
Það er illt í efni, ef Össur Skarphéðinsson er orðinn aðalsamningamaður okkar í stað Tómasar H. Heiðar, sérfræðings í hafréttarmálum, sem ráðherrann vék úr nefndinni. Tómas fekk þá ordru, að hann ætti að "ná samningum", en gerði það ekki, þ.e. sýndi ekki þá hlýðni að semja með þeirri dýrkeyptu málamiðlunar-eftirgjöf, sem Brusselvaldið ætlaðist til, og þá náðust engir samningar. Tómas þekkir rétt okkar inn og út, en Össur ætlast til annars af sínum mönnum, að því er séð verður. Lakari leik í þessu tafli gat hann ekki leikið en þann að fjarlægja Tómas, okkar öflugasta mann, úr samninganefndinni, en án efa hugnast þetta Brusselvaldinu, þ.m.t. frú Damanaki, ekki síður vel en brottvikning Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórninni.
Hér er fréttin í 10-fréttum Sjónvarpsins þetta þriðjudagskvöld í heild:
- Ingólfur Bjarni Sigfússon: Sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins segir að skiptar skoðanir séu um það í ráðherraráðinu hvort hefja eigi viðræður við Íslendinga um sjávarútvegsmál í tengslum við aðildarumsókn. Íslendingar verði að ganga til samninga um makrílveiðar og megi ekki ákveða einhliða, hve mikið þeir veiða. Evrópusambandið undirbýr löggjöf um refsiaðgerðir gagnvart ríkjum sem gera slíkt.
- Fréttakona: Can you like assess [meta] how likely it is that Iceland will be sanctioned [beitt refsiaðgerðum]?
- Damanaki: Zero procent. I think that we are going to reach an agreement. This is my assessment.
- Fréttakona: So, how optimistic are you that there will be an agreement about the mackerell?
- Damanaki: Well, I can say that the challenge is there. September is very near, it's after two months. So we have to work hard. I am slightly optimistic, this is what I have to do always; I'm slight(ly) optimistic, because this helps everybody to focus on the target.
Hér er hnefinn í raun enn á lofti: þessir samningar VERÐI að nást og það með málamiðlun (= verulegri eftirgjöf) af ÍSLANDS hálfu*, ella geti Össurarflokkurinn ekki treyst á að komast inn í Evrópusambandið.
Í þessu málflutnings-hlutverki Damanaki er vitaskuld beitt blekkingum, því að ávinningurinn Ísland er Evrópusambandinu margfalt meira virði en allar samanlagðar makrílveiðar í NA-Atlantshafi út næstu aldir. Hér er á hinn bóginn verið að þókknast þrýstihópum í ESB, heilu ríkjunum eins og Stóra-Bretlandi, Írlandi og Frakklandi; framkvæmdastjórn ESB ætlar ekki að láta þau ríki hafa neitt á sig að klaga, að ekki hafi allt verið reynt til að þrýsta Íslendingum til uppgjafar fyrir frekjulegum kröfum þeirra til mestalls makrílsins.
Um leið og við þessu yrði brugðizt af fullri sannfæringu, einurð og ákveðni um að hér komi engin slík sviksamleg "málamiðlun" til greina, þá mun án efa koma í ljós, að Evrópusambandið er ekki síður pappírstígrisdýr til nokkurra stórræða hér heldur en Bretar til þess verkefnis að sigrast á okkur með herflota sínum í þorskastríðunum, gegn íslenzkum víraklippum! En það, sem við höfðum þá með okkur líka, var ekki aðeins réttlætið eins og nú, heldur EINURÐ ÞJÓÐARINNAR og SAMSTAÐA, sem náði líka til stjórnmálastéttarinnar.
Nú má enginn brestur verða á slíkri samstöðu, og verða allir góðir menn að gera stjórnmálamönnunum það ljóst, að undanhald og uppgjöf þjóðarhagsmuna kemur hér ekki til greina.
* "Við höfum gert mikið, segir Damanaki. Við höfum boðið Íslendingum 60% meira af makrílkvótanum en við gerðum fyrir þremur árum. Svo mér finnst að íslenska ríkisstjórnin þurfi að koma til móts við okkur, því um það snúast viðræður, að ná málamiðlun. Hún náist ekki ef aðeins annar aðilinn gefur eftir." (Úr Rúv-fréttinni frá hádegi í gær.) Þau hafa sem sé hækkað sig upp í um 4,8% vildartilboð (!!!), og nú sé það ÍSLANDS að koma til móts við gráðugu ríkin í ESB!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Einar: Bein tengsl makríldeilunnar og ESB-umsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 03:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2012 | 20:29
Össur Skarphéðinsson fer út fyrir öll mörk umboðs síns og valds í velþókknunarviðleitni í Brussel
Skyldi hinn umboðslausi Össur hafa borið "samningsmarkmið okkar" í sjávarútvegsmálum undir viðkomandi ráðherra, Steingrím? Nú flaggar Össur því að vera tilbúinn með samningsmarkmið, sem þó fara leynt, og segist reiðubúinn "að hefja viðræðurnar, takast á við vandamálin og þannig munum við ná samkomulagi sem Ísland mun fara eftir." (Sic, sjá fréttartengil Mbl.is neðar; leturbr. hér.)
Hefur Össur Skarphéðinsson eitthvað yfir því að segja, hvort Ísland eða íslenzka þjóðin muni "fara eftir" samkomulagi hans sjálfs við Evrópusambandið?! Er maðurinn kominn í algleymi á staðreyndir vegna eigin sjálfsálits?
- Haft er eftir Össuri að hann telji að hægt verði að ná samkomulagi um sjávarútveginn í viðræðunum vegna góðs skilnings Evrópusambandsins á hagsmunum Íslendinga. (Mbl.is.)
Er þetta það, sem við höfum upplifað í samningaviðræðum við Evrópusambandið um makrílveiðar? Fjarri fer því. ESB hefur sýnt dæmafáa ófyrirleitni með kröfum sínum um, að við söxum makrílveiðar okkar niður í 3-4% af heildarveiði hans í NA-Atlantshafi, þó að makríllinn haldi sig hér 40% líftíma síns og éti hátt á aðra milljón tonna af átu í fiskveiðilögsögu Íslands.
Ekki nægir ESB þetta eitt, heldur hefur helzti málsvari þess á Íslandi, téður Össur Skarphéðinsson, úthýst helzta og bezta samningamanni landsins í hafréttarmálum, Tómasi H. Heiðar, úr samninganefnd Íslands í makrílviðræðunum! Hann fekk því svipaða útreið eins og sá eini ráðherra, sem hefur staðið sig við réttarstöðu Íslands gagnvart aðlögunarkröfum Evrópusambandsins, Jón Bjarnason, fyrrv. sjávarútvegsráðherra.
Blekkingarmeistarar eins og Össur verða ekki endalaust verðlaunaðir með umburðarlyndi almennings, hversu "jákvæðar" myndir sem þeir láta taka af sér með pótintátum erlendra stórvelda.
Sumir hafa heyrzt eða sézt halda því fram, að ólíku sé að jafna, samningsaðstöðu Íslands í makrílmálunum utan ESB og svo hins vegar eftir inngöngu í það -- sem sé: að innan Evrópusambandsins myndi hlutur okkar stórbatna. En þetta er rakalaus bjartsýnishyggja með öllu. Brussel er yfirfull af þrýstihópum ESB-ríkjanna, og eins og Skotar, Bretar og Írar hafa þrýst á um makrílveiðihagsmuni sína hingað til, þá myndu þeir halda því áfram, þótt Ísland færi inn í Evrópusambandið. Þar væri málið líka alfarið á valdsviði Brussel-manna, að engu leyti á okkar valdsviði lengur, ekki fremur en aðrir s.k. deilistofnar.
Við eigum að læra af reynslunni og átta okkur á því, að stórveldinu er það einfaldlega um megn að láta hlut sinn fyrir örríki og standa gegn voldugum þrýstihópum voldugra ríkja innan þess sjálfs. Í stað þess að gera okkur gyllivonir um, að allt gangi betur, þegar búið verði að handsala allt vald í þessum málum til Brussel-valdsins, þá ætti framferði ESB hingað til í makrílmálinu þvert á móti að koma okkur í skilning um, að þar er strax verið að sýna okkur, hvar valdið liggur: ekkert jafnræði milli stórveldis og örríkis.
Það helzta, auk hafréttarreglna Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum okkur hér til varnar í fiskveiðimálum, er nákvæmlega það sem stendur hér efst á síðunni: Fullveldi fullveldisréttur okkar á öllum sviðum ríkisvalds: löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds. Í krafti þess fullveldisréttar færðum við landhelgina út úr þremur í fjórar mílur, úr fjórum í tólf, úr 12 í 50 og loks í 200 mílur. Án sjálfstæðis okkar og fullveldis hefði verið tómt má að tala um að einu sinni reyna þetta.
"Evrópusambandið hefur alltaf lagt áherslu á að finna sérhannaðar lausnir fyrir hagsmuni umsóknarríkja án þess að troða á þeim meginreglum sem skipta þau ríki máli. Ég á von á frjóum lausnum," sagði Össur í fréttinni. Hann á þó að vita, að margar þúsundir brezkra og skozkra sjómanna misstu vinnu sína vegna Evrópusambands-úrskurðar um rétt Spánverja til veiða í Norðursjó.
- "Við erum ólík Noregi sem hefur tvisvar sagt nei við Evrópusambandið," sagði Össur ennfremur.
Jæja, að hvaða leyti erum við ólíkir samkvæmt ráðherranum? Ætlum við að falla frá þeirri kröfu, sem norsk stjórnvöld lögðu þó fram, að s.k. "regla um hlutfallslegan stöðugleika" yrði tekin inn í aðildasamning þeirra sem ævarandi og bindandi? Þá kröfu neitaði Evrópusambandið með öllu að taka til greina. Jafnvel þótt regluna þá mætti toga og teygja, m.a. með lengingu "veiðireynslu"-viðmiðs, þá
Orð Össurar gefa ekki frekar en fyrri daginn vonir um, að honum sé treystandi til að gæta hagsmuna Íslands. Hann ætti í reynd ekkert forræði að hafa yfir þessum málum, enda gersamlega umboðslaus, hvað þjóðarviljann snertir, og FELLDI það sjálfur með flokkssystkinum sínum, að þjóðin fengi (eins og hún vildi) að kjósa um umsókn hans um Evrópusambands-inngöngu, sbr. einnig þennan nýbirta pistil hér: Athyglisverðar skoðanakannanir á Vísi.is og Bylgjunni (Reykjavík síðdegis).
Jón Valur Jensson.
![]() |
Samningsmarkmiðin tilbúin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2012 | 08:00
Hagsmunir Bretlands og Íslands - ólíku saman að jafna
Það gefur að skilja að það eru hagsmunir Bretlands að vera í hinu nýja stórveldi Evrópusambandinu. Ásamt öðrum fyrrverandi nýlenduveldum þar hefur Bretland komið því svo fyrir með Lissabon-sáttmálanum, að atkvæðavægi þess í ráðherraráðinu volduga og leiðtogaráðinu eykst um 46,6% hinn 1. nóv. 2014, þ.e. úr núverandi 8,41% í 12,33%. Þannig myndu Bretar ráða þar áttunda hverju atkvæði, áður en byrjað væri að telja samherja þess í atkvæðagreiðslum. Til samanburðar fengi litla Ísland 0,06% atkvæðavægi í þessum tveimur ráðum (205 sinnum minna en Bretar!).
Jafnvel þótt Bretar hafi liðið fyrir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, þá ætla þeir að bæta sér það upp ... á Íslandsmiðum. Hér fengju þeir jafnan aðgang að fiskveiðilögsögunni milli 12 og 200 mílna, rétt eins og Spánverjar.
Samfylkingarkonan Ingibjörg Sólrún komst strax á snoðir um þessi áform Bretanna síðla hausts 2008, eins og fram kom þá í Fréttablaðinu.
Þá ætla Bretar sér ennfremur að ná hér í raforku með sæstreng; eru strax farnir að undirbúa það, með komu ráðherra hingað, og fengu leiðitama 3ja mánaða ráðfrúna Oddnýju G. Harðardóttur til að undirrita viljayfirlýsingu þess efnis (hvað, fyrir næstu 1-5 ríkisstjórnir hér??! JÁ!!!).
Ef við létum fallerast fyrir ESB, myndi staða okkar í orkusölumálum stórversna, því að í Lissabon-sáttmálanum eru mjög hentugar valdheimildir fyrir ESB og Bretana til að ná hér fullum tökum á olíauðlindum og raforkudreifingu -- ekki með "þjóðnýtingu" þess arna til Brussel, heldur með skorðum við sölu til annarra en ESB-landa, með verðstýringu, ágengni-stýringu í auðlindirnar o.fl.
Þá er þess enn ógetið, að raforkusala Íslands sem hugsanlegs ESB-lands til Bretlands myndi koma niður á almennum neytendum hér, því að ólögmætt yrði að láta þá njóta fríðinda í formi lægra verðs en til Bretanna, það teldist brjóta í bága við jafnræðisreglur Evrópusambandsins. Afleiðingin yrði stórhækkað raforkuverð til heimilanna og a.m.k. allra annarra fyrirtækja en þeirra, sem beinlínis hafa innsiglaða samninga til langs tíma.
Þótt brezkur almenningur sé afar fráhverfur Evrópusambandinu -- aðeins fjórði hver Breti styður áframhaldandi veru í ESB - aðeins 8% vilja evru í stað punds! -- þá eru brezk stjórnvöld á öðru máli og sjá vitaskuld sóknarfæri fyrir sig að komast auðveldlega í að gramsa í okkar auðlindum. Þá yrði tvöfalds ósigurs þeirra hefnt: gagnvart Íslendingum í þorskastríðunum og gagnvart Spánverjum vegna sjávarútvegsstefnu ESB og dómsniðurstöðu ESB-dómstólsins.
Bretar eiga stórveldishagsmuni undir því að vera í Evrópusambandinu; Íslendingar, sem eru meira en 200 sinnum færri, eiga þar nánast öllu að tapa og nánast ekkert að vinna, enda ekki með vægi til að verja sig á vettvangi gömlu tíu nýlenduveldanna, sem frá 1.11. 2014 munu ráða um 73,34% atkvæðavægi í ráðherraráði og leiðtogaráði Evrópusambandsins.
Fagnaðarlæti sumra Esb-sinna yfir því, að tiltekin hugveita hafi sagt hagsmunum Breta betur borgið innan en utan ESB, eru því gersamlega misráðin, ef þeir ímynda sér, að þetta getið orðið okkur til fyrirmyndar um nokkurn skapaðan hlut!
Jón Valur Jensson.
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)