Brusselvaldið leggur fram frumvarp um refsiaðgerðir gegn Íslendingum eftir 10 daga!

Þetta er í fullum gangi í Evrópusambandinu, og viðræðuslit í Lundúnum í dag munu sízt draga úr árásargirni ESB og þeirra ríkja þar sem reyna að halda í ósanngjarnan hlut sinn úr makrílveiðum. Þetta fólk tekur ekkert mark á niðurstöðum nýjustu rannsókna á ástandi makrílstofnsins, og sjávarútvegsefnd Evrópusambandsþingsins keyrir á málið undir forsæti brezks manns, það er sú nefnd, sem undirbúið hefur sóknina gegn okkur með tillögum til frumvarps, sem framkvæmdastjórnin mun leggja fram 13. þ.m., að vísu ekki föstudaginn þrettánda, en í ógæfuplaggi samt!

Fróðlega er fjallað um þessar fyrirhuguðu refsiaðgerðir í Mbl.is-frétt Hjartar J. Guðmundssonar í dag. Þar kemur fram, að þótt að vísu sé tekið fram í frumvarpinu (sem Mbl. hefur undir höndum), að ekki megi beita þessum aðgerðum "handahófskennt eða með óréttmætri mismunun á milli ríkja þar sem sambærilegar aðstæður séu fyrir hendi" og að "óheimilt [sé] að beita þeim í þeim tilgangi að hindra alþjóðleg viðskipti," þá eru þetta samt áberandi víðtækar refsiaðgerða-heimildir:

  • Meðal þeirra refsiaðgerða sem Evrópusambandinu verður heimilt að grípa til samkvæmt frumvarpinu eru að setja hömlur á landanir á afla í höfnum sambandsins úr þeim fiskistofnum sem talið er að viðkomandi ríki stundi ósjálfbærar veiðar á. Einnig er heimilt að grípa til slíkra takmarkana á löndun afla úr öllum fiskistofnum sem deila sama vistkerfi og fiskistofninn sem deilt er um sem og afurðum sem unnar eru úr fiski úr þeim stofni sem deilur standa um.
  • Þá er kveðið á um ýmsar hömlur sem grípa megi til varðandi þjónustu fiskiskipa frá viðkomandi ríki sem stunda veiðar úr þeim fiskistofni eða -stofnum sem deilt er um og einnig varðandi viðskipti á milli aðila frá ríkinu annars vegar og Evrópusambandinu hins vegar með fiskiskip. Einnig með búnað tengdan sjávarútvegi sem nota á við veiðar úr viðkomandi fiskistofni sem deilt er um.
  • Ennfremur segir í frumvarpinu að hægt sé að beita umræddum refsiaðgerðum gegn ríki utan Evrópusambandsins jafnvel þó veiðar úr fiskistofninum sem deilt er um séu ekki lengur ósjálfbærar að áliti sambandsins ef ástæða þess er sú að önnur ríki hafi dregið úr sínum veiðum. 

Og hér er enn eitt ánægjuefnið með Evrópusambandið eða hitt þó heldur:

  • Gert er ráð fyrir að frumvarpið, sem mbl.is hefur undir höndum, verði lagt fyrir Evrópuþingið 13. september næstkomandi og er búist við að hægt verði að beita þeim heimildum sem kveðið er á um í því fljótlega eftir það.

Makalaus er yfirgangur þessa Evrópusambands, sem Össur og Jóhanna þrá hvað ákafast að fá að innlima landið í, með öllum hinum u.þ.b. 319.998 Íslendingunum.

Steingrímur hefur lokið sínum viðræðum og hefur ekki verið illa svikinn af sínum ráðuneytisstjóra, Sigurgeiri Þorgeirssyni, sem talaði mjög skelegglega um þetta mál í viðtali við Morgunblaðið, sjá þar 31. ágúst, bls. 4: 'Ráðherrar ræða makríl', en þar segir hann m.a. um lygaáburð sjávarútvegsfyrirtækja í ESB og Noregi:

  • „Það er ... hreint með ólíkindum að útgerðarmenn annars staðar skuli halda því fram að minna hafi verið af makríl í íslenskri lögsögu í sumar heldur en síðustu ár. Þetta gera þeir þvert ofan í skýrslu sem er sameiginleg niðurstaða vísindamanna frá Noregi, Færeyjum og Íslandi og þeir vita mæta vel um. Að dreifa hinu gagnstæða er ekkert annað en ósvífni,“ segir Sigurgeir. 
Steingrímur J. Sigfússon hefur hins vegar markað þá kröfugerð, að við Íslendingar fáum 16-17% af makrílveiðum í NA-Atlantshafi. Þetta er allt of væg krafa, það er alveg ljóst eftir rannsóknir Íslendinga og Norðmanna á ástandi makrílstofnsins. Steingrímur setur markið ekki hátt og því augljós spurning, hvort hann ætli út í málamiðlun langt niður fyrir þetta. Það kann að vísu að bjarga honum, að kröfur ESB eru óumsemjanlegar, þ.e. um fáránlega lágt hlutfall veiðikvótans fyrir okkur, líklega 7%, og þverhausast menn í Brusselgarði við síka stífni, sem er út úr öllu korti og einkum öllum veiðikortum veruleikans! 
 
Það er reyndar fráleitt að binda makrílkvóta okkar um alla framtíð, því að makrílgöngur hingað geta enn aukizt verulega, með tilheyrandi álagi á vistkerfið og fáanlega átu í sjónum fyrir aðrar dýrategundir (fiska og fugla). Slíkir samningar nú eru jafn-fráleitir eins og að innlima Ísland í þetta Evrópusamband, en þá kæmust allar ákvarðanir um þennan deilistofn, makrílinn, einhliða í hendur Brusselvaldsins!
   
Vekja má athygli á því, að þrátt fyrir vaxandi makrílgöngur hingað hreyfir Steingrímur sig ekki spönn frá rassi frá þeim veiðikvóta, sem samflokksmaður hans, Jón Bjarnason, hafði ákveðið, meðan hann réð sjávarútvegsráðuneytinu. Er ekki að efa, að Jón hefði sett hér fram hraustlegri kröfur en Steingrímur -- sá sami Steingrímur sem lét víkja Jóni úr ráðherrastóli og ber að auki fulla ábyrgð á því, að Tómasi H. Heiðar var vikið úr íslenzku makríl-samninganefndinni, þar sem hann gegndi formennsku.

Því verður fylgzt náið með sérhverjum athöfnum Steingríms J. í þessu máli. 
   

Jón Valur Jensson.


mbl.is Refsiaðgerðirnar virði alþjóðalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband