Færsluflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur

ESB vanvirðir rétt Færeyinga rétt eins og Íslendinga

Evrópusambandinu nægir ekki að sýna eyðþjóðum í N-Atlantshafi yfirgang í makrílveiðimálum, heldur gildir það sama gagnvart Færeyingum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ólögmætt virðist framferði Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, og hefur mótmælabréf þess efnis verið sent til hennar.

  • "Fram kemur á vefsíðu [sjávarútvegs]ráðuneytisins [færeyska] að Damanaki hafi haldið því fram að Færeyingar hafi yfirgefið samningafund þar sem til stóð að semja um veiðarnar „eða yfirgefið samningaborðið“ eins og hún hafi orðað það. Ráðuneytið segir að fulltrúar Færeyinga hafi alls ekki yfirgefið samningaborðið heldur hafi fulltrúar Evrópusambandsins og annarra aðila viðræðnanna í raun útilokað Færeyinga frá þeim með því að yfirgefa fundinn og halda viðræðunum áfram annars staðar án þeirra.
  • Fram kemur á vefsíðunni að slíkt framferði gangi gegn alþjóðalögum og er Evrópusambandið að lokum hvatt til þess að viðurkenna mikilvægi sanngjarnrar stýringar á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum." (Mbl.is.)

Íslendingar ættu að veita sérhverju slíku hrokatilfelli Brusselbossa sérstaka athygli og láta sér að kenningu verða. Stórveldin í Evrópu hafa sjaldan eða aldrei sett hagsmuni smáþjóða þar ofar sínum eigin. Svo mun ekki verða, ef ein slík bætist þar við og fær 0,06% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði í Brussel, sem fer m.a. með æðsta löggjafarvald í sjávarútvegsmálum. Smáþjóðin, sem hér um ræðir, er raunar ekki Færeyingar, heldur Íslendingar!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Voru útilokaðir frá frekari viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarstæða að við fengjum að halda íslenskri stjórn á okkar miðum eftir inngöngu í ESB

Jón Kristjánsson fiskifræðingur ritar:

Fullyrðingar ESB-sinna um að við höldum yfirráðarétti okkar yfir fiskimiðunum með því að semja sérstaklega við ESB eru orðnar afskaplega þreytandi. Þær eru rangar, menn þurfa ekki annað en að lesa sáttmála sambandsins til að komast að því að þar gildir reglan um "equal access" [jafnan aðgang] fyrir allar þjóðir sambandsins.

Við Magnús Þór Hafsteinsson, ásamt Friðþjófi Helgasyni myndatökumanni, vorum í Peterhead í Skotlandi 2003 og Magnús tók þá viðtal við Tomas Hay, formann skosku sjómannasamtakanna FAL, en hann hætti nýlega aldurs vegna og er nú heiðursformaður samtakanna.

Tom Hay segir þar allt sem segja þarf um yfirráða þjóða í ESB yfir eigin fiskimiðum.

Þetta er mjög sterkt viðtal og ætti að vera skyldulesning öllum, sem um sjávarútvegsmál fjalla.

Aðalástæðan fyrir minnkun breska fiskveiðiflotans er stöðugur niðurskurður aflaheimilda, sem ESB ákveður í takt við ráðleggingar ICES. Það þýðir lítið fyrir þá að mótmæla niðurskurði, það er Brussel sem ákveður kvótana. Þar er nú við stjórn grísk frú, sem hefur lítið vit á fiskveiðum og er haldin græningjahugsjónum.

Gleymum ekki heldur að Samherji komst yfir allan úthafsveiðikvóta Breta með því að kaupa útgerðir, sem voru í kröggum.

Það er fjarstæða að halda því fram að við getum fengið að halda íslenskri stjórn á okkar miðum eftir inngöngu í ESB. Bretar, já einmitt Bretar, hafa sagt að þeir myndu aldrei samþykkja að Íslendingar fengju varanlegar undanþágur frá CFP [Sameiginlegu fiskveiðistefnunni hjá ESB], en allar þjóðir verða að veita samþykki sitt við slíku ef svo ólíklega vildi til að þetta kæmi til athugunar.

Jón Kristjánsson.


Sjómenn og aðrir áhugamenn um útgerð og fiskveiðar ÍSLENDINGA á Íslandsmiðum!

Ykkur er hér með bent á þessa efnismöppu (færsluflokk) á Fullveldisvaktinni: Fiskveiðar, sjávarútvegur - alls 10 + 10 plús 10 + 8 greinar eða pistlar um þessi málefni, sem svo miklu varða þessa þjóð í bráð og í lengd, en sumir virðast staurblindir á. 

Útbreiðum þekkinguna, hún mun jarða ESB-áhuga sumra í landinu. -- JVJ.


Aðeins þriðjungur félagsmanna í SI vill aðild að Evrópusambandinu

Þetta sýnir þeirra eigin skoðanakönnun (Samtaka iðnaðarins), sem Capacent Gallup var að birta. Meirihlutinn er á móti "aðild".

Samt hafa ýmsir leiðtogar þessara samtaka verið að agitera fyrir innlimun landsins í stórveldið. Ætti að láta slíka ganga í gegnum yfirheyrslupróf um það, hvað þeir í alvöru kunna í fræðunum um fullveldisframsal. Halda þeir t.d., að Íslendingar hefðu nokkurn tímann getað fengið sína eigin 200 mílna fiskveiðilögsögu í krafti æðsta löggjafarvalds í höndum gömlu stórveldanna í Evrópu? Samanlagt verða FJÖGUR stærstu ríkin (af 27), Þýzkaland, Frakkland, Bretland og Ítalía, með 53,64% atkvæðavægis í ráðherraráðinu (æðsta lagasetningarvalds Esb-ríkja í sjávarútvegsmálum) frá 1. nóv. 2014. Sex þau stærstu (að viðbættri Ítalíu og Póllandi) verða með 70,4% atkvæðamagns, en öll hin 21 verða samanlagt með 29,6%!

Voldug öfl innan ýmissa þessara áhrifamestu ríkja hafa með sínum hætti tjáð þær beinhörðu vonir sínar að komast í fiskimið okkar Íslendinga. Það á einkum við um Breta og Spánverja, en jafnvel við strendur Svíþjóðar eru Ítalir nú þegar að veiðum. Við Bretland hafa Spánverjar náð til sín gríðarmiklum veiðum, og í skozkum og enskum sjávarútvegi hafa nú þegar glatazt 100.000 störf í beinu framhaldi.

Það, sem hinni stóru þjóð Breta tókst ekki – að verjast forræði ESB á fiskimiðum sínum né að vinna sitt mál gegn Spánverjum í ESB-dómstólnum í Lúxemburg – það mun Íslendingum ekki heldur takast.

JVJ. 


mbl.is Meirihlutinn andvígur aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr sameiginlegu áliti Katrínar Jakobsdóttur, Ragnars Arnalds, Björns Bjarnasonar og Einars K. Guðfinnssonar

"Engar líkur eru á að samist geti um milli Íslands og ESB, að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland verði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi undir stjórn Íslendinga enda samrýmist það ekki sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og á sér engin fordæmi nema hvað varðaði afmörkuð fiskverndarhólf. Veiðiheimildir kynnu að mestu að falla í hlut Íslendinga með hliðsjón af reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem byggist á sögulegri veiðireynslu. Sú regla á hins vegar eingöngu stoð í samþykktum ráðherraráðs ESB hverju sinni og ekkert er því til fyrirstöðu að henni verði breytt ef samstaða tekst um það." –– Og það hefur jafnvel verið rætt í fullri alvöru í Brussel að afnema hana! (innskot JVJ).

Og áfram þar segja þau:

"Íslenska efnahagslögsagan er 758.000 ferkílómetrar að stærð eða ríflega sjö sinnum stærri en landið sjálft. Íslendingar geta ekki framselt yfirráðin yfir þeim miklu auðæfum sem þar er að finna til Evrópusambandsins, án þess að hafa nokkra vissu fyrir hvaða reglum verði fylgt í sjávarútvegsmálum á komandi áratugum. Engin trygging er fyrir því, að Íslendingar geti varið hagsmuni sína í þessu efni til frambúðar sem aðilar að Evrópusambandinu, þar sem ráðherraráðið tekur úrslitaákvarðanir um hámarksafla og hvaða tegundir er leyfilegt að veiða svo og um veiðiaðferðir og veiðarfæri. Í ráðherraráðinu myndu Íslendingar aðeins ráða yfir 3 atkvæðum af 348 miðað við núverandi stærð ESB." (Úr skýrslu Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem gefin var út undir titlinum Tengsl Íslands og Evrópusambandsins (http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/SkyrslaEvropunefndar-.pdf), Rvík 2007, bls.123-4.


Sannfæring sem kann að vita á illt

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra á útleið, hefur lengi talið "óhjákvæmilegt að ganga í ESB." Á grunni þeirrar sannfæringar tók hann þátt í ófyrirleitnu áhlaupi á íslenzka þjóðarhagsmuni í Icesave-málinu. Ekki nýtur hann þess í kosningum í vor! Stjórnmálamenn, sem láta hagsmuni og þrýsting erlendra stórvelda ganga fyrir tillitssemi gagnvart eigin landsmönnum og þjóðarréttindum í bráð og í lengd, hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá öllum þorra Íslendinga.

En andstætt þeim, sem blaðra án ábyrgðar um, að aldrei verði nein hætta á því, að Ísland hverfi inn í Evrópusambandið (dæmi: Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu*), segir þessi heitttrúaði Brusselvinur, Össur, á fréttavef Bloomberg í dag: "Ég er sannfærður um að við munum á endanum ljúka viðræðunum og að samþykkt verði í þjóðaratkvæði að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu." Þegar fylgið við þá stefnu er vel innan við 30% í öllum nýjustu skoðanakönnunum, má spyrja, hvaðan í ósköpunum ráðherrann hafi fengið þessa undarlegu flugu í höfuðið.

Allir vita, að Norðmenn eru ein alríkasta þjóð í Evrópu og staða ríkissjóðs þar sennilega betri en nokkurs ríkis á byggðu bóli. Þeir höfðu því eftir litlu að slægjast í Evrópusambandinu, sem hét þeim í aðildarviðræðum að fá ENGIN sérréttindi til fiskveiða í norskri lögsögu -- og hvorki einkarétt yfir stjórn á fiskveiðum norðan 62. breiddargráðu (nema um fjögurra ára skeið, 1994-30.6. 1998**) né að fá "regluna um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hvers ESB-sjávarútvegsríkis innmúraða sem trausta og varanlega inn í aðildarsáttmálann. NEI-hreyfingin og norsk sjávarútvegssamtök áttuðu sig á því, hvílíkur risavaxinn réttindamissir yrði í þessu fólginn, og hófu gagnsókn í málinu gegn þáverandi ríkisstjórn, 1994.

Þegar ástand og forsendur mála voru svona afgerandi í Noregi -- landið í engri þörf til að beygja sig undir yfirvald Evrópusambandsins -- mátti þá ekki gera ráð fyrir yfirgnæfandi andstöðu við inntöku landsins í ESB -- eitthvað svipað og 70% andstaðan hér á Íslandi?

Nei, því var ekki að heilsa. Einungis 52,2% sögðu NEI við aðildarsáttmálanum, jafnvel færri en í fyrra skiptið, 1973, þegar 53,5% sögðu sitt stolta NEI.

Hvað olli því, að svo naumt var á mununum milli ESB-innlimunarmanna og norskra fullveldissinna? Jú, ríkisstjórnin sjálf og fjölmiðlar og helztu samtök í verkalýðshreyfingu og meðal atvinnurekenda, að sjávarútvegi undanskildum, tóku afstöðu með Evrópusambandinu. Þar við bættist svo massífur áróður hins síðastnefnda. Þó munu yfirburðir ESB í auglýsingamennskunni í Noregi 1993-4 hafa verið langtum minni en horfur eru eða voru á hér á landi, þar sem stjórnvöld hafa í hneykslanlegri auðmýkt leyft Evrópusambandinu að leggja 230 milljónir króna í yfirvofandi áróðursherferð fyrir innlimun Íslands í stórveldið.

Hættuna, sem yfir okkur vofir, skyldu menn því ekki vanmeta. Það er lítið mál að hella áróðri yfir Íslendinga, og því ber ríkisstjórn og Alþingi að koma í veg fyrir slíkt og getur þar stutt sig við Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða, en einnig haft hliðsjón af eigin löggjöf sem meinar stórfyrirtækjum -- að gefnu tilefni -- að dæla milljónastyrkjum í stjórnmálamenn og -flokka.

Því ber þess vegna að fagna, að tveir stærstu stjórnmálaflokkar á Íslandi (miðað við nýjustu skoðanakannanir) vilja láta loka hinni rangnefndu "Evrópustofu". Andmæli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur gegn slíkri lokun eru ekkert minna en sorglegt dæmi um tilefnislausa óhlýðni við lýðræðislega samþykkt hennar eigin landsfundar.

* Pétur er einn helzti talsmaður nýs flokks, Lýðræðisvaktarinnar, heldur ítrekað uppi kosningaáróðri fyrir þann flokk, og vegna þeirrar fráleitu stefnu hans að vilja halda áfram aðildarviðræðunum -- rétt eins og Samfylking, "Björt framtíð" og Vinstri grænir -- hefur Pétur komizt í vörn gagnvart mörgum hlustendum sínum, sem vilja ekkert með Evrópusambandið hafa að gera. Úrræði hans hefur einkum verið að láta sem ESB-málið sé alls ekki meðal helztu alvöru-deilumála fyrir komandi kosningar og þar að auki muni þjóðin "aldrei" samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga inn í Evrópusambandið. En það er EKKI þess vegna, sem hið sama ESB eyðir tugum milljóna, hundruðum milljóna og þúsundum milljóna í það að koma Íslandi inn í Evrópusambandið -- þeir í Brussel hafa langa reynslu af því, að tekizt hafi að snúa afstöðu almennings í umsóknarríkjum (m.a. Svíþjóð og Tékklandi) nánast á síðustu stundu til fylgis við stórveldið. Og okkar vanhæfi utanríkisráðherra veit sennilega lengra sínu nefi um áform Brussel-herranna í þessu efni og hefur því sína sannfæringu sem gengur þvert gegn yfirlýstu áliti Péturs Gunnlaugssonar, sem svo gjarnan vill sem minnst úr ábyrgð sinni gera á samstöðunni með hinum harða ESB-sinna Þorvaldi Gylfasyni.

** Sjá Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", Rv. 2007, bls. 104.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Óhjákvæmilegt að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Haukur Jóhannesson agiterar fyrir gæðum "samningaviðræðnanna" og "ferlisins" og lokar augum fyrir blýþungum ástæðum andstöðu Íslendinga við ESB-innlimun

Um hvað þykist þessi Stefán Haukur Jóhannesson, "aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum um inngöngu Íslands í ESB", vera að "semja"? ESB hefur gert það kýrskýrt að rangt er að tala um "að semja" í aðildarviðræðum, sjá þess eigin yfirlýsingu um það hér.*

Stefán Haukur talar líkindalega við litháískan fréttavef um það að um mitt næsta kjörtímabil, vorið 2015, verði Ísland komið vel á veg í þeim efnum "að ganga í sambandið og hafa þannig bæði lokið viðræðunum og haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um málið," en ekkert umboð hefur hann til "bjartsýnna" yfirlýsinga af þessu tagi, og ekki er hann hlutlaus í málinu, nota bene, enda ekki líklegt af manni sem núverandi Icesave- og ESB-hundtrygg stjórnvöld hafa valið til starfa; hér er einnig tekið mið af andanum í útvarpsviðtölum sem heyrzt hafa við Stefán Hauk. Vel má vera, að hann eigi ágætan fyrri feril, en hér er hann í þjónustu stjórnvalda, ráðherra og þingmeirihlutans sem hangir raunar nú á horriminni, enda njóta stjórnarflokkarnir aðeins 24,8% fylgis meðal þjóðarinnar skv. síðustu skoðanakönnun! Það væru því öfugmæli eða í bezta falli skrýtla að segja þau hafa aktúelt umboð frá þjóðinni til þessara hluta, því að alla tíð frá umsókn Össurar & Co. 2009 hafa allar skoðanakannanir sýnt skýra meirihlutaandstöðu við að Ísland fari inn í Evrópusambandið.

  • "Stefán Haukur segist alltaf hafa viljað tala varlega í þessum efnum og ekki viljað gefa neinar dagsetningar hvenær umsóknarferlinu kynni að ljúka" en "vonist þó til þess að á síðari helmingi þessa árs, þegar Litháen fari með forsætið innan Evrópusambandsins, verði hægt að loka sem flestum af þeim viðræðuköflum sem hafi verið opnaðir en af 35 viðræðuköflum hefur 11 verið lokað og 16 aðrir opnaðir." (Mbl.is.) 

Menn  hafa haft á orði, að við eigum eftir að "gá í pakkann", en ef þetta væri raunverulegur samningapakki, þ.e. "kaflar" hans og það frágengnir, af hverju eru þeir ekki birtir? Staðeyndin er sú, að kaflavinnan öll snýst um að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu og tryggja, að við inntöku landsins í þetta stórveldabandalag verði ekkert að vanbúnaði að innlimunin gangi hratt fyrir sig.

Þegar Stefán er spurður "um afstöðu almennings á Íslandi til inngöngu í Evrópusambandið, segir hann meirihluta þjóðarinnar vera á móti inngöngu eins og sakir standi." (Mbl.is-fréttin).

Eins og sakir standi? Nei, ALLTAF. Maðurinn á að segja satt. Er hann ekki á launum hjá íslenzkum skattgreiðendum?

  • Þá segist hann aðspurður telja að það sem valdið hafi andstöðu á Íslandi við inngöngu í sambandið hafi annars vegar verið Icesave-deilan og hins vegar efnahagsástandið á evrusvæðinu.

Hér skrökvar hann með þögninni rétt eins og staðhæfingum sínum. Efnahagskreppan á evrusvæðinu var ekki slík ástæða árið 2009, þegar verst horfði hér, enda þá ekki komin í algleyming. Þjösnagangur ESB í sambandi við Icesave-málið, sem hefur uppgötvazt bæði seint og snemma, hefur vissulega verið ástæða bæði tortryggni og andstöðu við ESB-"aðild" (eins og það er kallað svo léttúðugu nafni; innlimun væri réttara orð). En a.m.k. þrennt annað kemur hér líka til sem sterkar ástæður andstöðunnar við Evrópusambandið á Íslandi:

  1. Sú staðreynd, að fullveldið yrði tekið af þjóðinni í hennar mestu málum, um jafnvel æðsta og ráðandi löggjafarvald, framkvæmdavald, t.d. í fskveiðistjórnun, og dómsvald.
  2. Vitundin um það skriffinnskubákn og þá miklu forræðishyggju sem fylgt hefur þessu bákni.
  3. Makríldeilan, þar sem ESB hefur tekið afar harða afstöðu gegn rétti Íslendinga til sinnar eigin landhelgi og gegn þjóðarhagsmunum.

Hér blasir svo við disinformantzia Stefáns Hauks:

  • Stefán er einnig spurður út í sjávarútvegsmálin í tengslum við viðræðurnar við Evrópusambandið og segist hann telja að hægt verði að ná fram sérlausn vegna fiskveiða við Ísland sem rúmist innan sameiginlegrar fiskveiðistefnu sambandsins og án þess að gengið sé gegn grundvallarreglum þess. Hann segist telja sameiginlegu stefnuna nógu sveigjanlega til þess að hægt verði að koma til móts við hagsmuni Íslands. 

Þetta er allsendis fráleit yfirlýsing, og hvernig ætti hann að geta miðlað einhverjum slíkum upplýsingum (raunar um það, sem hann "telur"), þegar hann hefur haft nóg að gera allan tímann við að fást við alla hina "kaflana" og ekki snert við þessum um sjávarútvegsmálin?!

Sameiginlega stefnan í ESB felur í sér jafnan aðgang allra ESB-borgara að fiskimiðunum,** og það er ekki hægt að samrýma það með neinu móti varanlegum yfirráðum og einka-nytjarétti hinna einstöku þjóða að eigin miðum. "Reglan" um "hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða" hvers ESB-ríkis er einungis tímabundið fyrirkomulag, breytilegt og afleggjanlegt í sjálfu sér, og ráðherraráð ESB hefur allt vald í þeim löggjafarefnum; þar hefðum við 0,06% atkvæðavægi við slíka ákvörðun!

Neðanmálsgreinar:

* Kjarninn í þeirri samantekt er hér: Upplýsingarnar frá framkvæmdastjórn ESB:

  • Inntökuviðræður (e. Accession negotiations [oftast kallaðar hér aðildarviðræður])
  • Inntökuviðræður varða hæfni umsækjandans [umsóknarríkisins] til að taka á sig skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur [í Evrópusambandinu]. Hugtakið "viðræður" getur verið misvísandi. Inntökuviðræður beinast sérstaklega að (focus on) skilyrðum og tímasetningu á því, að umsóknarríkið taki upp, innfæri og taki í notkun reglur Evrópusambandsins, um 100.000 blaðsíður af þeim. Og þessar reglur (sem einnig eru þekktar sem acquis, franska orðið um "það sem samþykkt hefur verið") eru ekki umsemjanlegar (not negotiable). Fyrir umsóknarríkið er þetta í kjarna sínum mál sem snýst um að samþykkja hvernig og hvenær ESB-reglur og ferli verði tekin upp og innfærð. Fyrir ESB er [hér] mikilvægt að fá tryggingar fyrir dagsetningu og virkni hvers umsóknarríkis í því að innfæra reglurnar.
Þetta er úr plagginu Understanding Enlargement – The European Union’s enlargement policy , útgefnu af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 27.7. 2011.

** Dæmi úr textanum sem finna má gegnum tengilinn (miklu meira þar):

  • "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt.
  • "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð."
  • "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja."

Jón Valur Jensson. 

 


mbl.is Komin langt á veg vorið 2015?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín Júlíusdóttir talar af sér um ESB í Wall Street Journal; kitlar hláturvöðva; fær hvassa gagnrýni

Þurfti Katrín Júlíusdóttir að gera sig að augljósum skotspæni lesenda stórblaðsins WSJ með því að fara þar með einfaldanir og bjartsýnisblaður?

  • "We need to be a member," Katrin Juliusdottir said in a cafe located in the island nation's capital city late Friday. "We would be a sovereign nation working with other sovereign nations on our future, working together to raise the standard of living." 

Lawrence Beck er ekkert að skafa utan af því:

  • Ms. Juliusdottir is either stupid or dreadfully ignorant. She should go today to Greece, Italy, Spain, Portugal or Ireland to learn what can happen to a country when it gives up control of its currency.

Einhver sem virðist sjaldan sammála Mr. Beck, William Ledsham, kemst ekki hjá því að skrifa: "For once Mr. Beck, we are agreed."

Bill Wilson á þessa stingandi athugasemd: "The Icelandic politicians want to sell out the country for their personal gain."

Scott Davenport ritaði þetta: "Joing the EU viewed as improving their lot in life? Incredible. Better we send them a bunch of artificial sunlight."  (!!)

Tom Fisher segir: Iceland would be better off becoming State #51 . . . . [í Bandaríkjunum auðvitað, á hann við.] 

Dennis Mabrey skrifar:

Ennfremur ritar hann:

  • Quoting inflation rates for 2008 are terrible. Try looking at where they are at now (4.2%). 
  • And ask yourselves that all important question "After the Icesave and banking failure where would Iceland be now had they no control over their currency?"

Og þetta:

  • It is ludicrous to think they would have ANY say over EU policies if they were 'sitting at the table'. The EU is run by Germany while France is doing its best to keep what power it has left. How much influence do the Dutch now have or even Austria? They have some... but only if they concur with Germany. [Mjög athyglisverð ábending; aths. JVJ.]
  • And YES... joining the EU is giving up a ton of sovereignty. [Feitletrun JVJ.] Why does anyone think UKIP is doing so well? [Brezki sjálfstæðisflokkurinn er nú með 15-16% í skoðanakönnunum og dregur mikið fylgi frá Íhaldsflokknum.] It is bad enough when the elected officials don't do what the people want... joining the EU you end up with a level of UNELECTED officials above them who are not accountable to anyone.
  • Strange days indeed....most peculiar mama...

Og Hugo Cunningham ritar, vitnandi fyrst í þessa setningu: "joining the EU would mean giving up too much control over important domestic matters such as the fishing industry, which accounts for 40% of the country's exports," [end of quote] og segir sjálfur:

Indeed.

Do EU proponents expect a special deal that would allow Iceland to keep control of its fisheries, unlike any other EU member? EU fisheries management is among the worst in the developed world, pouring ever more subsidies into already heavily overbuilt national fishing fleets. 

Joshua Van Buskirk skrifar:

  • The EU will continue to have serious economic problems until both monetary and fiscal policies are joined together. Even so, there's no guarantee the EU will survive. That said.... whether Iceland gives the EU control of printing their currency, or the eventual control of both printing and spending said currency, it's difficult to argue Iceland will maintain their sovereign rights regarding such issues. 

Ætli Katrín og félagar skilji þetta, eða þurfa þau enn frekari hneisu við erlendis?

Ken Peffers er með ábendingu, sem fær góðar undirtektir: "Should we not invite Iceland to join Nafta? We can always use more fish." (Leturbr. JVJ; og "við" þarna = Bandaríkjamenn.)

Jeffrey Solomon gerir þessa hvössu athugasemd: "On the bright side, at least the U.S. doesn't have a monopoly on idiocy in government."

H. Edwin Hall bendir á, að ***Most Icelanders Want to Drop EU Membership Bid, Poll Shows*** og vísar í Businessweek 12. nóvember 2012: http://www.businessweek.com/news/2012-11-12/most-icelanders-want-to-drop-eu-membership-bid-poll-shows

James Johnson er í svartsýnna lagi: "Because the people don't want it that's why they'll get it." -- Hann á kannski auðveldara en ýmsir fáráðarnir hér á Íslandi með að átta sig á því, að 1580 sinnum fólksfleira veldi en Lýðveldið Ísland geti kannski átt í fullu tré við okkur, ef það fær frjálsar hendur til mútugjafa og áróðurs hér. Og það er einmitt það sem hefur gerzt, í boði okkar ábyrgðarlausu stjórnvalda sem haga sér þar eins og leppar Brusselvaldsins.

Juan Carlos de Cardenas á þarna mjög athyglisvert innlegg:

  • Stockholm syndrome? After all what Iceland suffered at the hands of a few EU members which wanted his tiny population to assume the private debt of banks, even to the point of being branded "terrorist" why would you want to join?
  • By the way, Iceland could adopt the Euro, the US Dollar or any other fiat currency or a bunch of them without having to join the EU, others have done it.
  • Arguably Iceland is much better now because it took the sovereign decision not to assume private bank debt. It could not have done the same had it been an EU member and wanted to remain so. Ask Ireland.

Og Karl Noell er í fyndnara lagi, en full alvara þó í orðum hans:

  • "A seat at the table" sounds like an invitation to a sheep by a pack of wolves. Quick, Let's vote on what's for dinner."

Ekki einn einasti hefur enn tekið undir með Katrínu! Sautján eru innleggin þó! 

Minnumst þess nú, að hér á landi kvarta innlimunarsinnar sífelldlega yfir meintri hörku í gagnrýni fullveldissinna. Skyldu þeir frekar kjósa, að á þeim verði tekið með þeim áberandi sterka hætti sem þarna má sjá í innleggjum lesenda Wall Street Journal?

Staðeyndin er sú, að ESB-sinnarnir hafa það sem eina starfsaðferð sína hér að gera lítið úr öllum vörnum fullveldissinna fyrir Ísland og láta sem gagnrýni á ásigkomulag og hátterni Evrópusambandsins sé einhvers konar villt öfgatal þjóðernisofstækismanna. En hvað eru slík viðbrögð þessara ESB-sinna annað en öfgatal? 

Og hér fengu þeir laglega fyrir ferðina, í verðskulduðum viðtökum vel upplýstra skríbenta á kommentarakerfi Wall Street Journal.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Kosið um ESB 2014 eða 2015?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar athyglisverður, ýtarlegur þáttur um Ísland og sjálfstæðishugsun okkar, í þýzku sjónvarpi

Þetta (6,35 mín. afar áhugaverðan Íslandsþátt)  horfði ég á í þýska sjónvarpinu í gær.

http://www.zdf.de/ZDFmediathek/beitrag/video/1816630/aussendienst-Fischer-in-Island#/beitrag/video/1816630/aussendienst-Fischer-in-Island

Þarna talar þulurinn um 200 mílurnar og hvernig innganga í ESB væri óhagstæð fyrir okkur!
Síðasta setningin er góð. Þar segir hann að þjóðin berjist með öllu valdi gegn inngöngu í ESB :D

Meira af þessu!
Anna Kvaran.

Er fréttaritari Ríkisútvarpsins í Lundúnum ESB-málsvari?

Svo hefur undirritaðan grunað sterklega. Í kvöld blasir annaðhvort við megn vanþekking Sigrúnar Davíðsdóttur á málefnum Möltu (sem hún kaus þó að ræða og það sem e.k. hliðstæðu Íslands) ellegar gróf málsvörn hennar fyrir Evrópusambandið. Ber henni þó að fjalla um málefni af hlutlægni og sízt að stefna hagsmunum Lýðveldisins Íslands í tvísýnu, þ.m.t. með villandi áhrifum á hlustendur útvarpsins.

Sigrún talaði í Spegils-þætti Rúv. í kvöld m.a. um erfiðar viðræður um sjávarútvegsmál við Evrópusambandið, þótt síðar verði, en sagði Möltubúa og ESB hafa náð niðurstöðu um þau mál þannig, að báðir aðilar hefðu getað verið ánægðir. Hitt sleppti hún að nefna, að Möltubúar hafa mjög takmarkaðan einkaaðgang að landhelgi sinni, sem og að heildarafli þeirra sjálfra er ekkert til að tala um, eitthvað um 1800 tonn á ári (hálfur ársafli sumra togara við Ísland), þannig að þetta er ekki neins konar hliðstæða við Ísland og fordæmið heldur ekkert fagnaðarefni fyrir neinn, jafnvel ekki bullandi ruglaða ESB-taglhnýtinga á Íslandi.

Jón Valur Jensson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband