Færsluflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur

Sjávarútvegur er 100% á valdi ESB

Hressilega er tekið á boðskap dansks sendimanns um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í Staksteinum Morgunblaðsins (sjá einnig afar upplýsandi fréttarfrásögn, viðtengda hér neðar):

Vegna þess hvernig áróðurinn hefur verið hér á landi kemur sennilega ýmsum á óvart hvernig Ole Poulsen, fyrrverandi sviðsstjóri sjávarútvegsmála í danska stjórnarráðinu, talaði á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Að vísu þurfti ekki að koma neinum á óvart að hann hljómaði sem talsmaður Evrópusambandsins og stefnu þess í sjávarútvegsmálum, en annað mál er hvernig hann útskýrði stefnuna.

Ole Poulsen dró enga dul á það hver réði ferðinni í sjávarútvegsmálum innan ESB: „Það er ljóst að sjávarútvegur er 100% á valdsviði Evrópusambandsins,“ sagði hann, en ekki á valdi einstakra ríkja.

Og hann benti á, þegar hann var spurður að því hvort Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, að það yrði „yfirþjóðleg lagasetning innan Evrópusambandsins, það er ljóst“. Sem sagt engin varanleg undanþága.

Hann var einnig spurður út í regluna um hlutfallslegan stöðugleika, sem oft hefur verið sögð til marks um að Íslendingar hefðu ekkert að óttast með aðild, og staðfesti að hægt væri að breyta henni með auknum meirihluta innan ESB.

Augljóst var af orðum danska sérfræðingsins að ríki innan ESB ráða engu um sjávarútveg sinn nema ef ESB leyfir og að slíkt leyfi getur alltaf verið tekið til baka. Hvers vegna geta íslenskir ESB-sinnar ekki viðurkennt svona staðreyndir? 

Það væri betur, að ýmsir, sem setið hafa á Alþingi síðustu ár, væru jafn-skýrir í kollinum og ritstjórarnir uppi í Hádegismóum. Pistillinn birtist sl. laugardag.

JVJ.


mbl.is Valdið hjá Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir harkalegar aðgerðir ESB gegn okkur í Icesave-málinu þurfum við sízt á fleiri hótunum að halda. Um 17. júní-ræðu forsætisráðherra

Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í 17. júní-ræðu sinni í morgun.

Við mættum aldrei missa þá sannfæringu að trúa því að Ísland ætti að vera sjálfstætt land, sagði hann.

Hann gekk nokkuð til móts við ESB-sinnana með þeim orðum, að við þyrftum einnig að virða afstöðu þeirra, sem velta því fyrir sér, hvort aðild að Evrópusambandinu myndi styrkja stöðu Íslands (hvað er svona virðingarvert við þá röngu afstöðu? – annað má segja um samvizkufrelsi manna til að leita sannleikans, hver með sínum ófullkomna hætti), en hann bætti því við, að við gætum verið sammála um að nú þyrfti sambandið að sanna sig gagnvart Íslandi, og það eru orð að sönnu, því að svo hrapallega hefur þetta stórveldabandalag gamalla nýlenduvelda brugðizt okkur Íslendingum, eins og svo skýrt kom fram í ræðu Sigmundar:

„ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.“

Þar, eftir upprifjun Icesave-málsins, var hann að vísa til makrílmálsins, en eins og kunnugt er, hefur Evrópusambandið endurnýjað hótanir sínar í okkar garð og þolir ekki að Íslendingar veiði 16% af aflanum í NA-Atlantshafi, þótt sjálft ætli það sér og Norðmönnum margfalt meira!

Hann sagði að í ljósi umræðunnar um áhrif aðildar Íslands að ESB hlytu Íslendingar að líta til þess hvort Evrópusambandið myndi sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar í eigin lögsögu. „Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu,“ sagði Sigmundur Davíð réttilega. Það er gott að hafa þennan einarða hug lykilmanns til varnar þjóðarhagsmunum á næstu mánuðum.

  • Eðlilegt að forseti Íslands tjái sig um fullveldið
  • Sigmundur Davíð vitnaði til ræðu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, við setningu þingsins fyrr í þessum mánuði, þar sem hann ræddi stöðu Íslands gegn Evrópusambandinu.
  • „Það hefðu líklega fáir trúað því árið 1944 – eða 1994, að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt.“ (Mbl.is.)

„Íslendingar ... hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í ICESAVE-deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.“

  • Í ræðu sinni kom Sigmund Davíð inná aðgerðir fyrir íslensk heimili. Hann sagði að við myndum ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og við værum minnt á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins. (Mbl.is.)

Í meginatriðum er þessi ræða forsætisráðherra verðug upprifjun á nauðsyn þjóðar til að ráða sér sjálf og hafa "full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum," eins og hann sjálfur kvað að orði.

Menn taka almennt vel og jafnvel fagnandi þessari hátíðarræðu ráðherrans.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópusambandið þarf að sanna sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Lidington, brezkur Evrópumálaráðherra, að heimsækja rétt land?

Hvers vegna allar þessar heimsóknir ESB-ráðamanna hingað? Hver bauð hingað brezka Evrópumálaráðherranum, fyrri eða núverandi ríkisstjórn? Er hann að reyna að hafa hér áhrif til ESB-inntöku Íslands í þágu Bretlands og ESB? Hvert er erindi hans við ný stjórnvöld á Íslandi, sem segja ESB-málið í "hléi" (í stað þess að vera ærleg við landsfundi flokka sinna og kjósendur og afturkalla Össurarumsóknina)? Er hann að reyna að snúa þeim Bjarna og Sigmundi?

Svo mun hann flytja hér erindi um Bretland og Evrópusambandið. (Það er undarlegt, að í frétt Mbl.is stendur: "... og halda erindi á fundi í Háskóla Íslands um Bretland, Ísland og Evrópusambandið að því er segir á heimasíðu breska sendiráðsins," en þegar sú heimasíða er skoðuð, stendur þar: "Minister for Europe, David Lidington MP, will be speaking at a symposium at the University of Iceland at midday on 20 June. The theme will be “The UK and Europe - our road ahead”". -- Þar er sem sagt ekkert minnzt á, að Ísland verði partur af því þema eða efni fyrirlestrarins. Hvort er nú rétt?! Brezka heimasíðan hlýtur sjálf að fara með rétt mál, eða var þemanu kannski breytt þar af einhverjum ástæðum?)

Bretar hefðu gríðarlegan hag að því að ná Íslandi inn í ESB-veldið. Það á fyrst og fremst við um fiskveiðiréttindin sem þeir fengju hér, en einnig um áhrif þeirra á orkumál hér í gegnum ESB-stofnanir (ærnar heimildir eru nú þegar í Lissabon-sáttmálanum til afgerandi áhrifa á orkumál ríkjanna, afhendingu orku og jafnrétti í verðlagsmálum, og það yrði Íslendingum þungur kross í raforkumálum; svo bætast olíumálin við!).

Í utanríkisráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar, í Lundúnaferð hennar, voru brezk stjórnvöld þegar farin að leita hér hófanna í fiskveiðimálum og vilja örugglega ekki verða eftirbátar Spánverja í þeim efnum á Íslandsmiðum og í íslenzkum höfnum. 

Hvað á öll þessi gestakoma að fyrirstilla, ef ekki að reyna að hafa hér áhrif á ráða- og áhrifamenn? Hver ráðherrann á fætur öðrum, utanríkis- og Evrópumála, allt upp í forseta (Finnlands), mætir hér til að skrafa bak við tjöldin við ráðamenn, og svo fá þeir jafnan að reyna að hafa sín áhrif líka gagnvart almenningi með því að koma fram í fjölmiðlum, gjarnan í drottningarviðtölum hjá hinum ESB-áhugasama Silfur-Agli.

"Aðildarferlið" á að vera yfirstaðið, búið, punktur og basta! Því var í upphafi komið á með bolabrögðum gegn þjóðarvilja og þess gætt að bera ekki hina naumlega samþykktu þingsályktunartillögu fyrir tæpum fjórum árum undir þjóðina. Jafnframt var sú gróflega framknúna samþykkt Alþingis ólögmæt til úrvinnslu, af því að hún var ekki afgreidd með þeim hætti, sem 16.-19. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um. Undirskrift forsetans vantaði! Samt rauk þáv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, tvívegis með hana út í lönd til að tvístarta sinni umsókn til ESB!

Núverandi stjórnvöld verða ekki fullsæmd af því, ef þau ætla að halda þessu áfram gangandi.

Eða hvað eru þau farin að gera í stöðvun á starfi "samninga"-nefndanna? Hafa Þorsteinn Pálsson og félagar fengið sín uppsagnarbréf? Eiga þeir að verða áfram á launum og nú fyrir alls ekkert? Getur ríkisstjórnin tekið ákvörðun, eða er það henni um megn? Ef þetta síðarnefnda á hér við, hver er þá skýringin?

Og hvernig stendur á því, að "Evrópustofu" er áfram leyft að halda hér uppi sinni áróðursstarfsemi? Nú hefur hún auglýst fund um Evrópusambandið og sjávarútvegsmálin í Vestmannaeyjum! "Stofan" sú arna virðist telja áfram nauðsyn að nota af sinni 230 milljóna Brussel-fjárveitingu til að liðka fyrir ESB hér á landi, eins og áfram sé grænt ljós á ESB-umsókn og innlimun.

Og hvers vegna er Evrópusambandsstofunum báðum ekki lokað, Bjarni og Sigmundur?

Sjá einnig þessa nýju grein: Blaðurfundur í Brussel - tækifæri til hreinskilni látið ónotað.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Evrópuráðherra Breta til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótahopp - arðurinn úr landi

Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu yrðum við að laga lög okkar og reglur að lögum sambandsins, ekki öfugt. Þetta hafa Bretar t.d. fengið að reyna í baráttu sinni við svokallað kvótahopp, en það er eitt þeirra vandamála sem glímt er við innan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Með kvótahoppi nýta útgerðir glufur í reglum til að skrá skip sín í öðrum löndum sambandsins en eigin heimalandi til þess að komast yfir aflaheimildir annars aðildarríkis.

Hér er verið að birta þriðja og síðasta skammtinn úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald af textanum hér ofar:

Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda verði eftir í íslensku samfélagi. Til að verja þá samfélagslegu hagsmuni eru lög sem heimila ekki að erlendir aðilar eignast meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu héldu þessi lagaákvæði ekki. Þar með væri engin trygging fyrir því að arður af sjávarútvegi héldist í íslensku efnahagskerfi.

Neikvæður greiðslujöfnuður við ESB

Beinn fjárhagslegur ávinningur Íslands af aðild að Evrópusambandinu yrði enginn. Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007 myndu beinar greiðslur Íslands til ESB umfram tekjur nema 2,5 - 5 milljörðum króna. Aðildarríki ESB hafa að jafnaði greitt 1,07% af vergum þjóðartekjum árlega til sambandsins. Að hámarki getur þetta hlutfall orðið 1,24%. Sé horft til ársins 2005 hefði Ísland greitt 10,5 milljarða króna til sambandsins.

Tollasamningar féllu úr gildi

LÍÚ aðhyllist viðskiptafrelsi og leggur áherslu á nauðsyn góðra samskipta við ríki Evrópusambandsins jafnt sem önnur, nú sem fyrr. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi féllu niður núgildandi tollar á útfluttar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB en samtímis féllu úr gildi allir tvíhliða tollasamningar Íslands við ríki utan sambandsins.

Hér lýkur þessu LÍÚ-plaggi, fyrsti skammurinn var birtur HÉR og sá annar hér: Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP.


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með þetta á hreinu - eða hvað?!

Allgóð tíðindi berast nú frá nýjum ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. Hann segir, að lykillinn að því að sækja um í Evrópusambandinu sé þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Íslendingar vilji það, en "persónulega sé ég ekki á næstu árum að ástand í Evrópu og heiminum verði með þeim hætti að íslensk þjóð muni óska eftir inngöngu í Evrópusambandið," segir hann í Bændablaðinu (Segir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald ESB-viðræðna ekki á dagskrá að óbreyttu, bls. 28-29; blaðið fæst ókeypis víða, m.a. í Nóatúnsverzlunum og á sundstöðum).

"Það er mat begggja stjórnarflokka og meirihluta landsmanna að okkar hag sé betur borgið utan sambandsins. Ef það breytist þá er það okkar stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til," segir hann. Hins vegar bendir hann þarna á það, hvaða leið Malta annars vegar og Sviss hins vegar hafi farið í þessum efnum, og verður það atriði gert hér að umræðuefni síðar.

  • Spurður hvort hann sé með þessu að segja að eins og staðan sé í dag miðað við skoðanakannanir og úrslit þingkosninganna sé mjög ólíklegt að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin á kjörtímabilinu svarar Sigurður: „Eins og ég segi þarf eitthvað stórkostlegt að gerast í heiminum til þess að íslenska þjóðin vilji sækja um aðild, já.“ (Mbl.is, Bbl.)

Laukrétt hjá ráðherranum, og fyrst og fremst ber stjórnarflokkunum að efna kosningafyrirheit landsfunda sinna nú á þessu ári, þar sem báðir hétu því að vinna að því, að hætt yrði við Össurarumsóknina.

Varðstaða eða fullveldisstaða mun vera boðuð fyrir utan Alþingi í dag við þingsetningu, sem hefst eftir guðsþjónustu (13.30) í Dómkirkjunni. Þingmenn ganga þangað kl. 13.25 og úr kirkju til þings kannski innan við hálftíma seinna. Varðstaðan, með ESB-andstöðuspjöldum uppi við, snýst um að minna stjórnarflokkana á loforð sín og á andstöðu 70% þjóðarinnar við það að fara inn í Evrópusambandið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP

  • "Ein grunnreglanna í sjávarútvegsstefnu ESB er reglan um hinn svokallaða hlutfallslega stöðugleika. Til hennar hefur mjög oft verið vísað af þeim sem telja Íslandi betur borgið í Evrópusambandinu en utan þess. Þessi mikilvæga regla felur í sér að tekið er tillit til veiðireynslu einstakra landa úr einstökum stofnum á ákveðnum miðum."

Hér er verið að birta 2. af þremur skömmtum úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald:

Engin trygging fyrir hendi

Engin tygging er hins vegar fyrir því að reglan um hlutfallslegan stöðugleika, fremur en aðrar reglur, standi óbreytt. Þar nægir að vísa til vinnuskjals framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í september 2008 um endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Þar er sérstaklega vikið að reglunni um hlutfallslegan stöðugleika og að hana þurfi að endurskoða eins og aðra þætti stefnunnar. Norðmenn freistuðu þess að fá tryggingu fyrir því í aðildarsamningi 1994 að reglunni yrði ekki breytt, en fengu ekki. Af þessu má ráða að varhugavert er að treysta því að þessi lykilregla haldist óbreytt.

Engar varanlegar undanþágur

Engar varanlegar undanþágur eru veittar frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, aðeins tímabundnar undanþágur og aðlögunartími. Þar er skemmst að minnast aftur reynslu Norðmanna frá árinu 1994. Þeir fengu þriggja ára undanþágu fyrir veiðar norðan 62. breiddargráðu og eins árs undanþágu fyrir veiðar sunnan hennar. Norðmenn fengu einvörðungu tímabundna undanþágu frá brottkasti á afla sem beinlínis er kveðið á um í hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.

Óraunhæfur samanburður við Möltu

Þeir sem telja Íslandi betur borgið innan Evrópusambandsins og benda á fordæmi samnings Möltu við ESB um sjávarútvegsmál því til stuðnings, draga fram óraunhæfan samanburð. Heildarafli Möltu árið 2006 var um 0,1% af heildarafla íslenskra skipa sama ár eða 1348 tonn á móti 1,34 milljónum tonna. Það frávik sem Malta fékk byggist á verndarsjónarmiðum en felur á engan hátt í sér undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Fiskveiðar pólitískt bitbein innan ESB

Fiskveiðar innan Evrópusambandsins hafa verið pólitískt bitbein í áratugi. Byggðasjónarmið og félagsleg sjónarmið ráða þar miklu. Íslenskur sjávarútvegur hefur hins vegar að leiðarljósi skynsamlega nýtingu auðlinda, sjálfbærni og  arðsemi veiðanna. Það er vegna þess að Íslendingar hafa ekki tiltæka aðra tekjustofna til þess að styrkja íslenskan sjávarútveg eins og Evrópusambandið hefur gagnvart eigin sjávarútvegi.

Hægvirk ákvarðanataka

Öll ákvarðanataka er varðar fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins er hægvirk. Ísland hefði lítil áhrif á ákvarðanir sem og þróun fiskveiðistjórnunar og veiðiréttar. Það er ráðherraráð Evrópusambandsins sem samkvæmt Rómarsamningnum fer með lagasetningarvaldið hvað sjávarútveg sambandsins varðar og þar dugir aukinn meirihluti til ákvarðanatöku. Aukinn meirihluti vísar til 73,9% atkvæða innan ráðherraráðsins, eða 255 atkvæða af 345.

Gríðarlegir styrkir til sjávarútvegs

Sjávarútvegur innan Evrópusambandsins er rekinn með öðrum formerkjum en þekkist hér á landi. Atvinnugreinin sem heild er óarðbær og nýtur gríðarlegra styrkja. Í júlí 2008 var tilkynnt að styrkir ESB til sjávarútvegs næstu þrjú ár næmu 340 milljörðum króna (2 milljörðum evra). Íslenskur sjávarútvegur er arðbær atvinnugrein, án ríkisstyrkja þar sem menn standa ábyrgir gerða sinna.

Brottkast uppálagt af ESB 

Sjómönnum innan Evrópusambandsins er beinlínis uppálagt að stunda brottkast. Reglurnar banna að fiski sem ekki er kvóti fyrir sé landað. Það sama gildir um fisk sem ekki uppfyllir kröfur um lágmarksstærð. Talið er að Skotar einir henda árlega fiski að verðmæti sjö milljarða króna (40 millj. punda). Hér á landi er brottkast bannað með lögum.

Þessu síðastnefnda atriði hafa ESB-menn nú séð ástæðu til að breyta. Þriðji og loka-skammturinn af þessari áhugaverðu yfirlýsingu LÍÚ birtist hér bráðlega. Fyrsti skammurinn var birtur HÉR.


Afstaða LÍÚ til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar (CFP)

Afsal forræðis til Evrópusambandsins

Landssamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, hefur mótað afstöðu sína til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú afstaða byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum að Íslendingar fari með forræði yfir fiskimiðunum, hafi samningsforræði við skiptingu veiðiréttar úr deilistofnum og tali eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana. Með aðild að ESB yrði lagasetningarvaldið varanlega framselt frá Alþingi til ráðherraráðs Evrópusambandsins. Forræði og fyrirsvar í málefnum sjávarútvegs flyttist til framkvæmdastjórnar ESB Brussel. Værum við aðilar að Evrópusambandinu hefðum við óverulegt atkvæðavægi í ráðherraráðinu.

Þetta er úr nokkurra ára greinargerð LÍÚ, sem er þó nánast að öllu leyti í jafngóðu gildi þá sem nú. Hér er framhaldið:

Mikilvægi veiða úr deilistofnum

Með aðild myndi Ísland ennfremur afsala sér valdi til samninga um stjórn fiskveiða úr deilistofnum. Þessir stofnar, loðna, kolmunni, karfi, grálúða, norsk-íslensk síld, makríll o.fl. tegundir, eru okkur afar mikilvægir. Um 30% tekna af íslenskum sjávarafurðum er vegna veiða úr deilistofnum sem nú eru nýttir.

Evrópusambandið ætlaði okkur engar veiðiheimildir í kolmunna. Hlutdeild okkar í þeim stofni er 16%. Væri Ísland aðildarríki ESB hefðu íslenskir sjómenn orðið að henda yfir 100 þúsund tonnum af makríl sem veiddist á árinu 2008.

Ábyrgð hvíli hjá þeim er nýta auðlindina

Útvegsmenn fylgja þeirri grundvallarafstöðu að ábyrgð á stjórnun fiskveiða og ákvarðanataka við verndun vistkerfa hafsins og nýtingu lifandi auðlinda eigi að hvíla í höndum þeirra ríkja sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanirnar varða með beinum hætti.

Forræðishyggja sjávarútvegsstefnu ESB

Með aðild að Evrópusambandinu myndi Ísland verða að gangast undir hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu þess, Common Fisheries Policy. Mikil forræðishyggja einkennir þessa stefnu, þar sem ábyrgð og stjórnun  á fiskveiðum er tekin frá einstökum ríkjum,  sem eiga mestra hagsmuna að gæta og flutt til stjórnkerfisins í Brussel, þ.e. beint undir stjórn bandalagsins sjálfs.

Skelfilegur árangur af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB

Forræðishyggja hefur leitt til þess að stjórn fiskveiða í aðildarlöndum  ESB er meira og minna í molum. Þrátt fyrir margar tilraunir hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki tekist að snúa þessari alvarlegu stöðu við. Árangurinn af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni er skelfilegur; viðstöðulaus ofveiði, allt of stór floti og óhagkvæmur rekstur, auk gríðarlega umfangsmikils og kostnaðarsams styrkjakerfis til þess að viðhalda starfsemi í greininni.

Sameiginlega sjávarútvegsstefnan hefur margoft verið harkalega gagnrýnd, jafnt á vettvangi innan sambandsins sem utan þess. Eftirlit með framkvæmd hennar er í höndum aðildarríkja. Viðurkennt er að eftirlitið er veikburða, brot á reglum eru mjög tíð og viðurlög væg. Lítill hvati er til þess að fara að lögum. Rúmlega 10.300 fiskveiðibrot voru skráð innan ESB árið 2006. Um áratuga skeið hefur ítrekað komið fram á vettvangi ESB að nauðsynlegt sé að endurskoða fiskveiðistefnuna í heild sinni.

Meira verður birt af þessari greinargerð LÍÚ í annarri færslu.


Fiskiskip ESB-ríkja fá jafnan rétt til veiða í landhelgi hvers ESB-ríkis og heimamenn

  • ... Og ekki batnaði staða þeirra [brezkra trillukarla og bátasjómanna] árið 1973 þegar Bretland gekk í Efnahagsbandalag Evrópu og varð að fallast á sameiginlega sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Hún hafði í för með sér -- eftir stuttan aðlögunartíma -- að fiskiskip allra bandalagsríkja fengu jafnan rétt til veiða í breskri landhelgi og heimamenn.

Guðni Th. Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú, Rv. 2006 (Hafréttarstofnun Íslands), bls. 109.

Merkilegt hvernig sumir berja höfði við stein og neita að trúa þessu. Þetta er þó viðurkennt af þessum ágæta fræðimanni, og allt er þetta í raun fyrir fram ákveðið í löggjöf Evrópusambandsins (beinum arftaka og framhaldi Efnahagsbandalags Evrópu), sbr. hér um jafnan aðgang að fiskimiðunum.

JVJ. 


Það eru engar líkur á því, að vit sé í að semja við ESB um makrílveiðar næstu árin

Steingrímur J. Sigfússon er kominn í samningabuxurnar um makrílmálið, hvetur Evrópusambandið til samninga um málið, bendir því að vísu á ákveðnar grunnstaðreyndir, sem Brusselmenn loka augum fyrir, enda þrýst á þá af Skotum og Írum, og þá er nú málefnaleikinn fokinn út í veður og vind í þessari næstmestu þrýstihópaborg veraldar; það verður ofan á, sem hæst er hrópað af þeim, sem stærstan hafa túlann og hreykja sér hæst. 

Steingrímur bendir á, að ESB ætli Íslendingum Færeyingum og Rússum að veiða svo lítið sem 10% af áætluðum veiðum, þótt hann dvelji hér 30% af líftíma sínum. Og vitaskuld étur hann upp gríðarlegt magn af átu, og það kemur niður á öðrum nytjategunum hér, jafnvel blessaðri hrefnunni í Faxaflóa.

Þvílíkur hefur hrokinn verið í Brussel í þessum málum, að ekkert hefur tekizt að semja um við þetta stórveldabandalag árum saman í makríldeilunni. 

Við eigum sjálf okkar 200 mílna fiskveiðilögsögu og ætlum ekki að afsala okkur einni einustu fermílu af rétti okkar, hvað þá mörgum tugum þúsunda tonna af fiski -- ekki einu einasta tonni sem við eigum tilkall til -- með einhverjum hrossakaupasamningi með blessun Steingríms J. Sigfússonar. Eða er útgangandi allsherjarráðherrann kannski með jókerinn í bakhendinni -- sjálfan Svavar Gestsson, sem frambærilegan "aðalsamningamann" Íslands?

Sporin hræða, og kominn er tími til fyrir Steingrím að slaka á klónni. Hans hvatningar er ekki þörf hér, okkur nægir andi þorskastríðanna, þegar við stóðum saman öflug og einörð og lutum ekki í gras fyrir mesta heimsveldinu og vígdrekum þess. Ætlast Steingrímur til, að við hræðumst hótanir þessa hlálega þrýstipúða, pappírstígrisdýrsins í Brussel? 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Hvetur ESB til samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjórn ESB kastar grímunni með beinum hótunum við smæstu eyþjóð N-Atlantshafs

Þar kom að því að voldug framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti að leggja til refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna síldveiðiáætlunar þeirra. Með hótunum um valdbeitingu sýnir stórveldi smáríki krepptan hnefann, og það hlakkar í áhrifamönnum þar, að þessi aðgerð verði til þess að hræða bæði Færeyinga og Íslendinga til uppgjafar í makríldeilunni, en ef ekki, þá skuli viðskiptabanni skellt á þessar þjóðir vegna makrílveiða þeirra í sinni eigin fiskveiðilögsögu!

  • ... Haft er eftir Ian Gatt, framkvæmdastóra Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væri fyrsta skrefið í þá átt að refsa Færeyingum vegna síldveiða þeirra. Hins vegar ættu þær refsiaðgerðir einnig að ná til makríls enda væru tegundirnar tvær gjarnan veiddar samhliða.
  • Líkt og Lochhead [sjávarútvegsráðherra Skotlands] lýsti Gatt vonbrigðum sínum með að enginn frekari árangur hefði orðið í því að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna makrílveiða þeirra. „Í tilfelli Íslands hvetjum við framkvæmdastjórnina til þess að óska eftir tafarlausum fundi með nýrri ríkisstjórn Íslands og reyna að koma viðræðuferlinu aftur af stað,“ sagði hann. Tækist það hins vegar ekki yrði að grípa til refsiaðgerða án tafar enda hefðu allar aðrar leiðir verið reyndar án árangurs. ... [Mbl.is, mun meira þar, sjá tengil neðar!]

Nú ríður á, að næsta ríkisstjórn okkar hafi bein í nefinu og láti ekki kúga sig til eins eða neins. Slíkt yrði seint eða aldrei fyrirgefið.

250084_10152309591040260_1300656966_n_2

Sjá einnig nýlega grein hér: ESB vanvirðir rétt Færeyinga rétt eins og Íslendinga. Þar á Tryggvi Helgason, flugmaður á Akureyri, gott innlegg, minnir á þakkarskuld okkar Íslendinga við Færeyinga og brýnir okkur til samstöðu með þessari góðu frændþjóð sem lifir ekki síður en við af gjöfum hafsins. Látum þá ekki standa uppi stuðningslausa, og nýtum viðskiptasambönd okkar til að rjúfa ofstopafullt viðskiptabann Evrópusambandsins, um leið og þess fer að gæta.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is ESB hyggst refsa Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband