Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Við gjöldum fyrir reglugerðarfargan og viðskiptahindranir ESB, m.a. gegn bandarískum barnabílstólum!

Birgir Steingrímsson á þetta glögga innlegg á Eyju-vefsíðu í dag:

ESB leggur á tolla og er með margskonar viðskiptahindranir til að koma í veg fyrir samkeppni frá ríkjum utan sambandsins. Nýjasta dæmið er hvernig komið er í veg fyrir að almenningur á Íslandi geti keypt góða og ódýra barnabílstóla frá USA, en er þvingaður í staðinn til að kaupa barnabílstóla frá Evrópu á uppsprengdu verði. Staðreyndin er sú að lífskjör almennings í Evrópu eru að hrynja vegna reglugerðarfargans og ofurskattlagningar. Gott dæmi um hverskonar áhrif reglugerðarfarganið er að hafa á atvinnustarfsemi á Íslandi er sú staðreynd að einstaklingur hefur beðið eftir leyfi til að hefja kræklingaræktun í 5 ár og ekki enn fengið leyfið! Nýja byggingarreglugerðin er annað dæmi og svo má lengi telja.


Eins og Norðmenn gerðu

Frá Birni S. Stefánssyni

Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson
 

Við ættum að geta gert eins og Norðmenn gerðu, nefnilega að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig má heyra, þegar rætt er um Evrópusambandsmálið. En hvað gerðu Norðmenn?

Norðmenn bjuggu sig undir Efnahagsbandalagsmálið á sjöunda áratug síðustu aldar með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal á valdi. Það var þannig, að framsal á valdi til bandalags ríkja, sem Noregur er aðili að, getur gerst með samþykki þriggja fjórðu þingmanna.

Aðild að Efnahagsbandalaginu var á dagskrá í Noregi fljótlega eftir þessa stjórnarskrárbreytingu. Mið-hægristjórn Bortens vann að henni, en málinu var hleypt upp. Stjórn Verkamannaflokksins, undir forystu Brattelis, hélt málinu áfram. Fyrirsjáanlegur var meirihluti á þingi fyrir aðild, en ekki þrír fjórðu. Samtök fyrir aðild lögðu þá til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var ekki bindandi, því að engin ákvæði voru um slíkt í stjórnarskránni. Ef einhverjir þingmenn, sem voru andvígir aðild, mundu greiða atkvæði með aðild með vísan til þess, að meirihluti þjóðarinnar hefði reynst vera fylgjandi aðild, hefði meirihlutinn á þingi getað farið í þrjá fjórðu. Andstæðingar aðildar lýstu sig samþykka þjóðaratkvæðagreiðslu, og þingið ákvað, að hún skyldi fara fram. Þá varð heiftúðugt stríð meðal landsmanna. Fullur fjandskapur varð gjarna meðal vina og ættingja. Í Verkamannaflokknum var kröftugur minnihluti andvígur aðild. Bratteli lýsti því, að stjórn hans mundi segja af sér, ef þjóðin felldi aðild. Svo fór. Það var 1973, og Bratteli sagði af sér. Aðildarsamningurinn var ekki borinn undir þingið.

Árið eftir heyrði ég Einar Gerhardsen, fyrirrennara Brattelis, á málstofu um þjóðaratkvæðagreiðsluna í stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla lýsa afsagnarhótun Brattelis sem býsnum. Ef enginn hefði komið fram í andstöðu við aðild í flokknum, sagði hann, hefði flokkurinn þurft að búa til slíka andstöðu í honum. 1994 var eins og 1973, að á þingi var meirihluti með aðild. Þjóðaratkvæðagreiðsla (ekki bindandi) fór fram, og aðild var hafnað. Samningur Noregs um aðild var ekki borinn undir þingið.

Síðar hefur það gerst fyrir þingkosningar, að andstæðingar aðildar hafa kannað skipulega meðal frambjóðenda, sem voru líklegir til að ná kjöri og höfðu lýst sig andstæða aðild, hvort þeir ætluðu að standa við það, enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsla færi á annan veg. Þá hafa aðildarsinnar á þingi lagt til að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta úr þremur fjórðu í tvo þriðju, en án árangurs.

BJÖRN S. STEFÁNSSON, dr. scient.

 

Frá Birni S. Stefánssyni.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 14. maí sl. Endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Geta má þess, að dr. Björn er mjög kunnugur málefnum Norðmanna, hefur sínar prófgráður þaðan og starfaði þar um árabil. 


Króatar fá ENGAR undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB sem gefur Ítölum o.fl. afnot af króatískri landhelgi upp að 12 mílum!

Það SAMA mun gerast hér, ef kvislingar okkar fá að ráða ferðinni ...

  • „Það fóru alls engar samningaviðræður fram, við náðum engum árangri í ferlinu. Við komumst aðeins að raun um að það var ekkert í boði annað en að samþykkja það sem boðið var upp á.“ Þetta er haft eftir króatíska sjómanninum Danilo Latin í frétt Reuters en fjölskylda hans hefur haft viðurværi sitt af sjósókn í fjóra ættliði. Króatía gekk formlega í Evrópusambandið á miðnætti í gær í kjölfar viðræðna við sambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu. (Mbl.is.)

Hér er ekki um lítið hagsmunamál að ræða fyrir hina 4,4 milljóna þjóð Króatíu. Þótt henni hafi boðizt tímabundin aðlögun í smávægilegum atriðum, fær hún enga undanþágu til frambúðar frá ESB-reglunni um sameiginlegan aðgang að fiskimiðunum og fullan rétt borgara í hvaða ESB-ríki sem er til að kaupa sig inn í fiskveiðileyfi, jafnvel innan 12 mílnanna! Sjá um það meðfylgjandi frétt (tengill hér neðar).

  • Fram kemur í fréttinni að flestir þarlendir sjómenn, sem séu um 3.700, óttist að inngangan kunni að hafa í för með sér endalok króatísks sjávarútvegar en í viðræðunum við Evrópusambandið var samið um nokkrar tímabundnar aðlaganir að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, meðal annars varðandi notkun veiðarfæra og fiskveiðar til eigin neyslu. „Ég er hræddur um að margt eigi eftir að koma okkur óþægilega á óvart,“ segir Latin ennfremur og vísar þar meðal annars til aukinna takmarkana á sjósókn, minni niðurgreiðslna og kröfu um breytt veiðarfæri sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað.
  • Hafa áhyggjur af ásókn ítalskra sjómanna
  • Fram kemur í fréttinni að flestir aðrir sjómenn í strandhéröðum Króatíu deili áhyggjum Latins. Þeir telji að króatísk stjórnvöld sem sömdu um inngöngu landsins í Evrópusambandið hafi ekkert gert til þess að standa vörð um hagsmuni þeirra. Þar segir ennfremur að inngangan muni hafa í för mér sér að fiskiskip frá öðrum ríkjum sambandsins muni fá aðgang að efnahagslögsögu Króatíu. Mestar áhyggjur heimamanna í þeim efnum snúa að ítalska fiskiskipaflotanum. (Mbl.is.)
Málið stendur raunar verr en þetta. Í 1. lagi (feitletrun jvj):
  • Haft er eftir Miro Kucic, aðstoðarlandbúnaðarráðherra Króatíu, að margfalt meiri fisk sé að finna í Króatíumegin í Adríahafinu en Ítalíumegin. Hagsmunir Ítala af því að komast í króatísk fiskimið væru því miklir og því mikilvægt að vinna að því með ítölskum stjórnvöldum að vernda fiskistofnana á svæðinu. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að 12 mílna landhelgi Króatíu sé eingöngu fyrir króatíska sjómenn.

Í 2. lagi: Þessi einkaafnot Króata að 12 mílunum (einungis!) eru ekki einu sinni trygg! – sjá neðar!

Í 3. lagi: Ekki aðeins Ítalir, heldur hvaða ESB-þjóð sem er getur nú gengið að króatísku fiskveiðilögsögunni utan 12 mílna. Þar koma Frakkar og Spánverjar helzt til greina, með tugþúsundir atvinnulausra sjómanna og vannýtt fiskiskip. Spánverjum er ekkert að vanbúnaði að sækja innst í Adríahafið, þeir eru við austurströnd Norður-Ameríku, Grænland, Senegal í A-fríku og suður með allri vesturströnd Afríku með sinn mikla flota stórvirkra verksmiðjutogara.

  • En Latin segir að engin trygging sé fyrir því að Króatar sitji einir að 12 mílunum. Ítalskar útgerðir þurfi einungis að semja við króatískan sjómann sem sé reiðubúinn að selja veiðileyfi sitt og hætta sjálfur starfsemi og stofna síðan eigið fyrirtæki í Króatíu. (Mbl.is, áfram byggt á Reuters-fréttinni; leturbr. hér.)

Svo spá þessir vonsviknu menn í, að inn komnir í Evrópusambandið geti þeir reynt að hefja baráttu fyrir hagsmuni króatískra sjómanna á vettvangi þess, "í ljósi sérstakra aðstæðna í Adríahafi"! Og jafnvel þótt það ólíklega gerðist, að smáríkinu tækist að fá samþykkt frávik frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB (CFP), þá "kunni það að vera of seint" – skaðinn hafi þá þegar átt sér stað.

En Króatar eru líka raunsærri um sumt en ýmsir ESB-bjartsýnisglóparnir hér á landi:

  • „Það var ekki hægt að ætlast til þess að Evrópusambandið samþykkti okkar lög í viðræðunum,“ segir Kucic. 
Auðvitað ekki – í Evrópusambandinu ríkja nefnilega ESB-lög! Evrópusambandið var ekki að innlimast í Króatíu og lagaverk hennar, heldur öfugt!

 

Hin afleita reynsla af ESB-inntöku Slóveníu fyrir sjávarútveg þar

Slóvenía liggur milli Ítalíu og Króatíu. Á Istria-skaga sem skiptist milli þessara þriggja landa, var sjávarútvegur ábatasamur fyrir einum áratug, en hefur hnignað "vegna verri stöðu fiskistofna og aukinnar skriffinnsku" (Mbl.is.)
  • Hliðstæða sögu segir slóvenski sjómaðurinn Loredano Pugliese sem gerir út frá hafnarborginni Izola. Hann segir að staða sjávarútvegsmála í Slóveníu hafi sífellt orðið verri undanfarin ár en landið gekk í Evrópusambandið árið 2004. Þegar hafi orðið mikill samdráttur í greininni. Izola hafi áður verið þungamiðjan í slóvenskum sjávarútvegi en 30 fiskiskip séu nú gerð út frá borginni samanborið við 400 fyrir áratug. Pugliese segir fiskveiðistjórnun sambandsins einkum bera ábyrgð á þessari þróun. Ef fer sem horfir segir hann enga sjómenn verða eftir á svæðinu og hann óttist að það sama verði raunin í Króatíu. (Mbl.is.) 

Vilja nú ekki ESB-sinnarnir fagna þessum gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í krafti hinnar hjálpræðislegu ESB-"aðildar" Slóveníu og óska Króötum annarrar eins blessunar?!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Króatískir sjómenn óttast framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beethoven samdi ekki Óðinn til gleðinnar fyrir nýtt stórveldi, ESB

  Eins og fyrri daginn hremma ýmsir algeng tákn og jafnvel listaverk sjálfum sér til hagsbóta eða dýrðar. Það á við um s.k. "þjóðsöng Evrópusambandsins". Beethoven getur farið að snúa sér við í gröfinni, þegar vitnast í æ meiri mæli, hvernig þetta fyrrum einbera tolla- og fríverzlunarbandalag breytist í æ valdfrekara og herskárra stórvelda-valdaapparat sem tekur vitaskuld ekki tillit til allra hinna smáu, hvort sem þeir heita Grikkir, Íslendingar eða Færeyingar.

Af öllum Evrópuþjóðum hefðu þessar tvær síðastnefndu mestu að tapa að gefa upp æðsta fullveldi í sínum löggjafar- og framkvæmdavaldsmálum til þessa bandalags sem eðlilegt er að kenna við gömlu nýlenduveldin í álfunni, enda munu þau hafa þar um 73% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði ("ráðinu") og leiðtogaráði Evrópusambandsins frá 1. nóv. 2014, en hin 17 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar um 27% atkvæðavægi! -- og þá dugar hvorki Grikkjum né Króötum að kalla "Elsku mamma!" til Brussel. 

Í Króatíu tókst Evrópusambandinu með massífri áróðursstarfsemi sinni að auka fylgi sitt um 6 til 11% af heildaratkvæðum fram að þjóðaratkvæðagreiðslu á liðnu ári, en áður hafði fylgi þess verið um 55-60% í skoðanakönnunum (66,27% í þjóðaratkvæðinu). Hefðu mótaðilarnir hins vegar haft sambærilega yfirburði í áróðursfé, hefðu úrslitin trúlega orðið mjög jöfn í þjóðaratkvæðinu og jafnvel á hinn veginn, þrátt fyrir að stjórnmálastéttin stæði nánast öll með stórveldinu. Eins og fyrri daginn er þeirri stétt iðulega illa treystandi, eins og við Íslendingar þekkjum engu síður en aðrar þjóðir eftir margföld svik leiðtoga okkar. 

Á hitt skal líka minnt, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einokunar-réttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef menn létu hér narrast yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB -- Olli Rehn, Emma Bonino, Stefan Füle, Damanaki, Barroso -- hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.

 

  Þegar Beethoven, sem ungur hreifst af Napóleon sem 1. konsúl og samdi til hans um 1804-1805 þriðju symfóníu sína, Eroica (Hetjuhljómkviðuna), áttaði sig stuttu síðar á stórveldisdraumum Korsíkumannsins, þá reiddist hann svo, að hann reif tileinkunnina til Napóleons framan af handriti verksins. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Króatía gengin í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja Danir Ísland í Evrópusambandið?

Frú Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, talar ekki fyrir munn danskra þegna, þegar hún segir "það alltaf [hafa] verið ósk Danmerkur að Ísland gangi í ESB," en þau orð lét hún falla eftir fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra okkar, í dag. Málið hefur aldrei verið borið undir dönsku þjóðina.

Sigmundur kvaðst sjálfur "ánægður með heimsóknina. „Við ræddum Evrópusambandið og stöðu Íslands þar,“ sagði hann. Þau ræddu meðal annars aukna áherslu á norðurslóðamál, norræna samvinnu og vest-norrænt samstarf." (Mbl.is / Ritzau.)

Mörg innfjálg orð eru látin falla á fundum þjóðaleiðtoga. Hér ber að greina hismið frá kjarnanum. Ríkisapparatið er ekki þjóðin. Kjörnir pólitíkusar eru ekki þjóðin. Þjóðin ein er þjóðin.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Danir vilja Ísland í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið vill fá að vita hvað gera beri við sína Íslandsviðræðustarfsmenn; óhreinskiptni ríkisstjórnarinnar

Aðferð ríkisstjórnarinnar gengur ekki -- að lognmollast til að "setja aðildarviðræður í hlé" -- og hugnast hvorki kjósendum ríkisstjórnarflokkanna né andstæðingum. Engin svör berast, hvort Þorsteini Pálssyni verði sagt upp störfum og öllu "samninga"-nefndarliðinu með honum eða hvort haldið verður áfram að ausa peningum í þá.

En Evrópusambandið vill fá að vita, hvað það sjálft á að gera við sína eigin starfsmenn, sem stóðu í þessu -- hvort þá megi nota til annarra verkefna eða hvort ríkisstjórn Íslands ætli að ljúka þessu "hléi" sínu, eins og hléum lýkur yfirleitt. 

Snýst málið um hugleysi ríkisstjórnarflokkanna, eða toga einhverjir þar í spotta, t.d. síngjarnir sveitarstjórnarmenn sem vilja áframhald IPA-styrkjanna?

Við viljum heiðarlegan ENDI á þessar innlimunarviðræður! 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is ESB telur sig þurfa frekari skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegur er 100% á valdi ESB

Hressilega er tekið á boðskap dansks sendimanns um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í Staksteinum Morgunblaðsins (sjá einnig afar upplýsandi fréttarfrásögn, viðtengda hér neðar):

Vegna þess hvernig áróðurinn hefur verið hér á landi kemur sennilega ýmsum á óvart hvernig Ole Poulsen, fyrrverandi sviðsstjóri sjávarútvegsmála í danska stjórnarráðinu, talaði á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Að vísu þurfti ekki að koma neinum á óvart að hann hljómaði sem talsmaður Evrópusambandsins og stefnu þess í sjávarútvegsmálum, en annað mál er hvernig hann útskýrði stefnuna.

Ole Poulsen dró enga dul á það hver réði ferðinni í sjávarútvegsmálum innan ESB: „Það er ljóst að sjávarútvegur er 100% á valdsviði Evrópusambandsins,“ sagði hann, en ekki á valdi einstakra ríkja.

Og hann benti á, þegar hann var spurður að því hvort Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, að það yrði „yfirþjóðleg lagasetning innan Evrópusambandsins, það er ljóst“. Sem sagt engin varanleg undanþága.

Hann var einnig spurður út í regluna um hlutfallslegan stöðugleika, sem oft hefur verið sögð til marks um að Íslendingar hefðu ekkert að óttast með aðild, og staðfesti að hægt væri að breyta henni með auknum meirihluta innan ESB.

Augljóst var af orðum danska sérfræðingsins að ríki innan ESB ráða engu um sjávarútveg sinn nema ef ESB leyfir og að slíkt leyfi getur alltaf verið tekið til baka. Hvers vegna geta íslenskir ESB-sinnar ekki viðurkennt svona staðreyndir? 

Það væri betur, að ýmsir, sem setið hafa á Alþingi síðustu ár, væru jafn-skýrir í kollinum og ritstjórarnir uppi í Hádegismóum. Pistillinn birtist sl. laugardag.

JVJ.


mbl.is Valdið hjá Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótahopp - arðurinn úr landi

Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu yrðum við að laga lög okkar og reglur að lögum sambandsins, ekki öfugt. Þetta hafa Bretar t.d. fengið að reyna í baráttu sinni við svokallað kvótahopp, en það er eitt þeirra vandamála sem glímt er við innan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Með kvótahoppi nýta útgerðir glufur í reglum til að skrá skip sín í öðrum löndum sambandsins en eigin heimalandi til þess að komast yfir aflaheimildir annars aðildarríkis.

Hér er verið að birta þriðja og síðasta skammtinn úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald af textanum hér ofar:

Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda verði eftir í íslensku samfélagi. Til að verja þá samfélagslegu hagsmuni eru lög sem heimila ekki að erlendir aðilar eignast meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu héldu þessi lagaákvæði ekki. Þar með væri engin trygging fyrir því að arður af sjávarútvegi héldist í íslensku efnahagskerfi.

Neikvæður greiðslujöfnuður við ESB

Beinn fjárhagslegur ávinningur Íslands af aðild að Evrópusambandinu yrði enginn. Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007 myndu beinar greiðslur Íslands til ESB umfram tekjur nema 2,5 - 5 milljörðum króna. Aðildarríki ESB hafa að jafnaði greitt 1,07% af vergum þjóðartekjum árlega til sambandsins. Að hámarki getur þetta hlutfall orðið 1,24%. Sé horft til ársins 2005 hefði Ísland greitt 10,5 milljarða króna til sambandsins.

Tollasamningar féllu úr gildi

LÍÚ aðhyllist viðskiptafrelsi og leggur áherslu á nauðsyn góðra samskipta við ríki Evrópusambandsins jafnt sem önnur, nú sem fyrr. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi féllu niður núgildandi tollar á útfluttar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB en samtímis féllu úr gildi allir tvíhliða tollasamningar Íslands við ríki utan sambandsins.

Hér lýkur þessu LÍÚ-plaggi, fyrsti skammurinn var birtur HÉR og sá annar hér: Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP.


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með þetta á hreinu - eða hvað?!

Allgóð tíðindi berast nú frá nýjum ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. Hann segir, að lykillinn að því að sækja um í Evrópusambandinu sé þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Íslendingar vilji það, en "persónulega sé ég ekki á næstu árum að ástand í Evrópu og heiminum verði með þeim hætti að íslensk þjóð muni óska eftir inngöngu í Evrópusambandið," segir hann í Bændablaðinu (Segir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald ESB-viðræðna ekki á dagskrá að óbreyttu, bls. 28-29; blaðið fæst ókeypis víða, m.a. í Nóatúnsverzlunum og á sundstöðum).

"Það er mat begggja stjórnarflokka og meirihluta landsmanna að okkar hag sé betur borgið utan sambandsins. Ef það breytist þá er það okkar stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til," segir hann. Hins vegar bendir hann þarna á það, hvaða leið Malta annars vegar og Sviss hins vegar hafi farið í þessum efnum, og verður það atriði gert hér að umræðuefni síðar.

  • Spurður hvort hann sé með þessu að segja að eins og staðan sé í dag miðað við skoðanakannanir og úrslit þingkosninganna sé mjög ólíklegt að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin á kjörtímabilinu svarar Sigurður: „Eins og ég segi þarf eitthvað stórkostlegt að gerast í heiminum til þess að íslenska þjóðin vilji sækja um aðild, já.“ (Mbl.is, Bbl.)

Laukrétt hjá ráðherranum, og fyrst og fremst ber stjórnarflokkunum að efna kosningafyrirheit landsfunda sinna nú á þessu ári, þar sem báðir hétu því að vinna að því, að hætt yrði við Össurarumsóknina.

Varðstaða eða fullveldisstaða mun vera boðuð fyrir utan Alþingi í dag við þingsetningu, sem hefst eftir guðsþjónustu (13.30) í Dómkirkjunni. Þingmenn ganga þangað kl. 13.25 og úr kirkju til þings kannski innan við hálftíma seinna. Varðstaðan, með ESB-andstöðuspjöldum uppi við, snýst um að minna stjórnarflokkana á loforð sín og á andstöðu 70% þjóðarinnar við það að fara inn í Evrópusambandið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að slá hlutum á frest er ekki að hætta við þá!!!

Ljóst er að hafa verður stöðugt aðhald við nýja ríkisstjórn um ESB-ógæfumálið. Réttast væri að mótmæla við þingsetninguna, en flestir þá reyndar í vinnu.

Óvænt fréttaviðtal við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra á Mbl.is 29. maí styður það, að árvekni er þörf, enda hafa leiðtogar framsóknar- og sjálfstæðismanna áður reynzt ótraustir í þessum málum, Gunnar Bragi þó verið með þeim farsælli. Samt er undarlega hluti að finna í þessu viðtali, þar sem þó segir, að hann hafi ákveðið föstudaginn 24. maí, "að ekki yrði lögð meiri vinna innan ráðuneytisins í aðildarumsóknina að Evrópusambandinu fyrr en hann hefði hitt fulltrúa þess í júní næstkomandi."

Spyrja má: Til hvers ætti þá (eftir nefndan fund) að "leggja meiri vinnu í aðildarumsóknina" hans Össurar og þess nauma meirihluta á Alþingi, sem gegn atkvæði Gunnars Braga og gegn vilja þjóðarinnar tók þessa marg-gagnrýndu ákvörðun, sem jafnvel varðaði við landráðabálk almennra hegningarlaga og var andstæður andanum í stjórnarskrá lýðveldisins (t.d. 2. gr., auk þess sem brotið var gegn 16. og 19. grein hennar við framkvæmdina)?

  • „Ég taldi eðlilegt í ljósi þess að ríkisstjórnin ákvað að gera hlé á aðildarviðræðunum að beina því til starfsfólks ráðuneytisins að frekari vinnu við aðildarferlið yrði slegið á frest þar til ég er búinn að fara út og hitta fulltrúa Evrópusambandsins,“ sagði Gunnar Bragi. Hann kvaðst eiga von á að fara til Brussel fljótlega í júnímánuði. (Sama frétt Mbl.is.)

Að slá vinnu við eitthvað á frest þýðir í flestra munni, að þeirri vinnu verði síðar haldið áfram. Er sá vilji þessa ráðherra eða þeirra, sem standa kunna á bak við afstöðu hans í málinu? Er Evrópustórveldis-sinninn Halldór Ásgrímsson, sem mætti á fund framsóknarmanna í Rúgbrauðsgerðinni 21. maí sl., kannski á ný kominn með puttana í pólitíkina hjá þeim? Eða er okkur bara ætlað að treysta þessum flokkum út í loftið? Hefur það gefizt nógu vel hingað til? – Nei, almenningur þarf að halda vöku sinni, rétt eins og grasrótin gerði í Icesave-málinu, þvert gegn stórum hluta stjórnmálastéttarinnar.

Hvernig stendur á því, að fréttamenn ganga ekki harðar að þessum ráðherra og öðrum með spurningar í ætt við það, sem HÉR* og HÉR** voru ítrekaðar og fela meðal annars í sér, hvort ESB-"samninga"nefndamennirnir verði ekki teknir af launalista ríkisins (það er mælikvarði á það, hvort þetta "ferli" verður stöðvað í raun og ekki bara í plati) og hvort Evrópusambands-áróðursstofunum tveimur ("Evrópustofu") verði ekki lokað? Þjóðin á fullan rétt á svörum ráðamanna.

* Knýjandi spurningar vegna "hlés" á aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið

** Er Ísland ennþá "umsóknarríki"? Hvað segja utanríkisráðherra, Sigmundur Davíð og Bjarni?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Hlé á viðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband