Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP

  • "Ein grunnreglanna í sjávarútvegsstefnu ESB er reglan um hinn svokallaða hlutfallslega stöðugleika. Til hennar hefur mjög oft verið vísað af þeim sem telja Íslandi betur borgið í Evrópusambandinu en utan þess. Þessi mikilvæga regla felur í sér að tekið er tillit til veiðireynslu einstakra landa úr einstökum stofnum á ákveðnum miðum."

Hér er verið að birta 2. af þremur skömmtum úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald:

Engin trygging fyrir hendi

Engin tygging er hins vegar fyrir því að reglan um hlutfallslegan stöðugleika, fremur en aðrar reglur, standi óbreytt. Þar nægir að vísa til vinnuskjals framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í september 2008 um endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Þar er sérstaklega vikið að reglunni um hlutfallslegan stöðugleika og að hana þurfi að endurskoða eins og aðra þætti stefnunnar. Norðmenn freistuðu þess að fá tryggingu fyrir því í aðildarsamningi 1994 að reglunni yrði ekki breytt, en fengu ekki. Af þessu má ráða að varhugavert er að treysta því að þessi lykilregla haldist óbreytt.

Engar varanlegar undanþágur

Engar varanlegar undanþágur eru veittar frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, aðeins tímabundnar undanþágur og aðlögunartími. Þar er skemmst að minnast aftur reynslu Norðmanna frá árinu 1994. Þeir fengu þriggja ára undanþágu fyrir veiðar norðan 62. breiddargráðu og eins árs undanþágu fyrir veiðar sunnan hennar. Norðmenn fengu einvörðungu tímabundna undanþágu frá brottkasti á afla sem beinlínis er kveðið á um í hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.

Óraunhæfur samanburður við Möltu

Þeir sem telja Íslandi betur borgið innan Evrópusambandsins og benda á fordæmi samnings Möltu við ESB um sjávarútvegsmál því til stuðnings, draga fram óraunhæfan samanburð. Heildarafli Möltu árið 2006 var um 0,1% af heildarafla íslenskra skipa sama ár eða 1348 tonn á móti 1,34 milljónum tonna. Það frávik sem Malta fékk byggist á verndarsjónarmiðum en felur á engan hátt í sér undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Fiskveiðar pólitískt bitbein innan ESB

Fiskveiðar innan Evrópusambandsins hafa verið pólitískt bitbein í áratugi. Byggðasjónarmið og félagsleg sjónarmið ráða þar miklu. Íslenskur sjávarútvegur hefur hins vegar að leiðarljósi skynsamlega nýtingu auðlinda, sjálfbærni og  arðsemi veiðanna. Það er vegna þess að Íslendingar hafa ekki tiltæka aðra tekjustofna til þess að styrkja íslenskan sjávarútveg eins og Evrópusambandið hefur gagnvart eigin sjávarútvegi.

Hægvirk ákvarðanataka

Öll ákvarðanataka er varðar fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins er hægvirk. Ísland hefði lítil áhrif á ákvarðanir sem og þróun fiskveiðistjórnunar og veiðiréttar. Það er ráðherraráð Evrópusambandsins sem samkvæmt Rómarsamningnum fer með lagasetningarvaldið hvað sjávarútveg sambandsins varðar og þar dugir aukinn meirihluti til ákvarðanatöku. Aukinn meirihluti vísar til 73,9% atkvæða innan ráðherraráðsins, eða 255 atkvæða af 345.

Gríðarlegir styrkir til sjávarútvegs

Sjávarútvegur innan Evrópusambandsins er rekinn með öðrum formerkjum en þekkist hér á landi. Atvinnugreinin sem heild er óarðbær og nýtur gríðarlegra styrkja. Í júlí 2008 var tilkynnt að styrkir ESB til sjávarútvegs næstu þrjú ár næmu 340 milljörðum króna (2 milljörðum evra). Íslenskur sjávarútvegur er arðbær atvinnugrein, án ríkisstyrkja þar sem menn standa ábyrgir gerða sinna.

Brottkast uppálagt af ESB 

Sjómönnum innan Evrópusambandsins er beinlínis uppálagt að stunda brottkast. Reglurnar banna að fiski sem ekki er kvóti fyrir sé landað. Það sama gildir um fisk sem ekki uppfyllir kröfur um lágmarksstærð. Talið er að Skotar einir henda árlega fiski að verðmæti sjö milljarða króna (40 millj. punda). Hér á landi er brottkast bannað með lögum.

Þessu síðastnefnda atriði hafa ESB-menn nú séð ástæðu til að breyta. Þriðji og loka-skammturinn af þessari áhugaverðu yfirlýsingu LÍÚ birtist hér bráðlega. Fyrsti skammurinn var birtur HÉR.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þessi pistill er allur bara eitthver rembingur þar sem Ísland og LÍÚ er allt miklu merkilegra og stórkostulega frábærari en önnur lönd og menn.

Enn ein teskeiðin af þjóðrembingi sem almennir innbyggjarar eru mataðir með. En ekkert kemur útúr þeirri fæðu nema þjóðrembingsprump með tilheyrandi sem vonlegt er.

Niðurstaða: Elítan hagnast - almenningur veiklast og borgar brúsann.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.5.2013 kl. 14:10

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér örlar ekki hjá Ómari á minnstu tilraun til greiningar textans né ti lað rökræða einstök atriði --- hann lætur sér nægja, eins og svo oft áður fyrri daginn, að sletta fram alhæfandi formælingum og þreyttum klisjum, og mætti halda að hann búi við eilífa Austfjarðaþoku.

Öðruvísi mér áður brá á hinum sólríka Seyðisfirði, sællar minningar, en þá var þar enginn holtaþokuvælari nærstaddur.

Jón Valur Jensson, 31.5.2013 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband