Beethoven samdi ekki Óðinn til gleðinnar fyrir nýtt stórveldi, ESB

  Eins og fyrri daginn hremma ýmsir algeng tákn og jafnvel listaverk sjálfum sér til hagsbóta eða dýrðar. Það á við um s.k. "þjóðsöng Evrópusambandsins". Beethoven getur farið að snúa sér við í gröfinni, þegar vitnast í æ meiri mæli, hvernig þetta fyrrum einbera tolla- og fríverzlunarbandalag breytist í æ valdfrekara og herskárra stórvelda-valdaapparat sem tekur vitaskuld ekki tillit til allra hinna smáu, hvort sem þeir heita Grikkir, Íslendingar eða Færeyingar.

Af öllum Evrópuþjóðum hefðu þessar tvær síðastnefndu mestu að tapa að gefa upp æðsta fullveldi í sínum löggjafar- og framkvæmdavaldsmálum til þessa bandalags sem eðlilegt er að kenna við gömlu nýlenduveldin í álfunni, enda munu þau hafa þar um 73% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði ("ráðinu") og leiðtogaráði Evrópusambandsins frá 1. nóv. 2014, en hin 17 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar um 27% atkvæðavægi! -- og þá dugar hvorki Grikkjum né Króötum að kalla "Elsku mamma!" til Brussel. 

Í Króatíu tókst Evrópusambandinu með massífri áróðursstarfsemi sinni að auka fylgi sitt um 6 til 11% af heildaratkvæðum fram að þjóðaratkvæðagreiðslu á liðnu ári, en áður hafði fylgi þess verið um 55-60% í skoðanakönnunum (66,27% í þjóðaratkvæðinu). Hefðu mótaðilarnir hins vegar haft sambærilega yfirburði í áróðursfé, hefðu úrslitin trúlega orðið mjög jöfn í þjóðaratkvæðinu og jafnvel á hinn veginn, þrátt fyrir að stjórnmálastéttin stæði nánast öll með stórveldinu. Eins og fyrri daginn er þeirri stétt iðulega illa treystandi, eins og við Íslendingar þekkjum engu síður en aðrar þjóðir eftir margföld svik leiðtoga okkar. 

Á hitt skal líka minnt, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einokunar-réttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef menn létu hér narrast yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB -- Olli Rehn, Emma Bonino, Stefan Füle, Damanaki, Barroso -- hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.

 

  Þegar Beethoven, sem ungur hreifst af Napóleon sem 1. konsúl og samdi til hans um 1804-1805 þriðju symfóníu sína, Eroica (Hetjuhljómkviðuna), áttaði sig stuttu síðar á stórveldisdraumum Korsíkumannsins, þá reiddist hann svo, að hann reif tileinkunnina til Napóleons framan af handriti verksins. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Króatía gengin í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Austmann,félagasamtök

Það ber einnig hafa í huga, að Króatar hafa ekki mjög langa sögu af að vera sjálfstætt lýðræðisríki líkt og löndin í Norðvestur-Evrópu. Í raun kom raunverulegt lýðræði ekki til sögunnar fyrr en 1995, þótt ríkið hafi verið sjálfstætt off and on síðan á 7. öld. Þess vegna er þráin um að standa á eigin fótum og vera sjálfstæðir í raun ekki eins sterk og þráin um að vera hluti af stærra ríki, þótt þjóðernistilfinningin sé vissulega sterk. Svo kemur í ljós hvort Króötum þyki betra að vera undir járnhæl Merkels heldur en undir járnhæl Titos.

Það ber líka að líta til þess, að Króatía hefur dágóðar tekjur af ferðamönnum og næstum allir ferðamenn frá útlöndum eru frá ESB-ríkjum. Þess vegna álít ég að Króötum finnist þeir eiga samleið. Hins vegar er hætt við að þeir muni fara sömu leið og Grikkland, ef þeir taka upp evruna. Þeir geta þó forðast þau örlög með því að fara pólsku leiðina. 

Austmann,félagasamtök, 1.7.2013 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband