Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Jón Baldvin Hannibalsson: stefna Evrópu­sambandsins "allsherjar-disaster"

"Evrópusambandið ætlaði að sameina þjóðir, en hefur algerlega sundrað þjóðum!" Spyrill: "Þannig að JBH er á móti inngöngu Íslands í ESB?" - JBH: "Ég efa að nokkur vilji það nú, það er fjarstæðukennt."

Þetta kom fram í viðtali Hauks Haukssonar, fréttamanns í Moskvu, við Jón Baldvin í þætti í Útvarpi Sögu í dag (endurtekið seint í kvöld, á FM 99,4). Hann fjallaði um þetta á mörgum orðum, endilega hlustið á þáttinn.

HH: "Evrópusambandið í dag?" -- JBH: "Það er í algerri klessu. Eftir fjármála­kreppuna 2008 hefur það aldrei náð sér sá strik. Tæknilega virkar það ekki - er ekki nothæft." Og hann skýrir þetta með hagfræðilegum atriðum og rökum: ríki þurfi að geta stýrt vaxtastigi og ráðið gengis­ákvörðun og haft sín ríkisframlög. Evrópusambandið hafi þetta ekki. Seðlabanki Evrópu (ESB) sé "ekki einu sinni almennilegur seðlabanki". Þetta hafi þau áhrif innan ESB, að það sé Þýzkaland sem ráði, "og það þýðir að öll hin löndin eru í spennitreyju."

"60 milljónir starfa eru horfnar!" (í Evrópusambandinu). Vá, þvílíkt!

Sannarlega fróðlegt og kannski einna helzt fyrir Benedikt Jóhann­esson og félaga hans í tímaskekkju­flokknum "Viðreisn"! Og þeir fengu nú aldeilis yfirhaln­inguna, sennilega hjá fyrrverandi seðlabankastjóra, í þessum tilvitnuðu skrifum í gær!

Jón Valur Jensson.


Frakklandsforseti vill jafna flótta­manna­búðirnar í Calais við jörðu!

Sósíalistinn François Hollande er eins og fleiri leið­togar í Evrópu­sam­band­inu að gefast upp á lin­kind­inni í mál­efn­um hælis­leit­enda. Ekki vill hann tapa at­kvæð­um til Sarkozys og Marine Le Pen í forseta­kosningum á næsta ári, en þau svífa hátt í skoð­ana­könn­unum vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum.

Margir álíta Frakkland nú þegar ofsetið af múslimum, með 5-6 milljónir þeirra; þessi sterka blanda geri ofbeldissinnuðum öfgamönnum og meðlimum hryðjuverkasamtaka leikinn auðveldari, eins og sýndi sig í hryðjuverkunum miklu við Stade de France og í Nice. Eftirlitskerfi lögreglu og leyniþjónustu brast, enda verkefnin afar víðtæk víða um land og einkum í Suður-Frakklandi og höfuðborginni.

Leiðtogar Evrópusambandsins höfðu stór uppi orð um göfuga frammistöðu fyrir flóttamenn frá stríðs- og átakasvæðum eins og Sýrlandi og Líbýu, en nú hefur sljákkað í þeim vegna heimatilbúinna vandamála sem mörg ríkjanna eiga erfitt með að ráða fram úr.

Örlög Angelu Merkel eru enn óráðin og flokkur hennar á niðurleið, jafnvel í heimakjördæmi hennar Mecklenburg-Vorpommern, gagnvart hinum unga, þjóðernissinnaða flokki Alternative für Deutschland. Forsetakosningarnar í Frakklandi geta ennfremur orðið vendipunktur í þessum málum öllum.

Hver verða þá viðbrögð íslenzkra ESB-innlimunarsinna sem hingað til hafa fylgt línunni frá Brussel, Berlín og París?

Brexit has fuelled a rise in eurosceptism

"Evróskepticisminn" fær sína tjáningu í þessari nýju gerð af Brusselfánanum!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Flóttamannabúðir verði jafnaðar við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingismenn kunna ekki að fara rétta leið til að virða landsréttindi okkar og eigin stjórnarskrá!

Komnar eru þær lyktir í hið mjög svo skað­væn­lega mál um vald­fram­sal til fjár­mála­eftirlits ESB, að þings­álykt­un­ar­til­laga ríkis­stjórn­ar­innar þar um var sam­þykkt með 31 at­kvæði gegn 18.

Við eigum að segja upp EES-samn­ingn­um, það sýnir mál­ið allt í raun, því að áfram mun verða gengið á okkar eigin réttindi með þessu móti, og hér var anað út í þá ófæru að heimila erlendu valdi að stöðva jafnvel eða banna tíma­bundið rekstur fyrirtækja og beita þau sektum, án þess að íslenzkir dómstólar hafi neitt um það að segja, jafnvel ekki Hæstiréttur, heldur skuli Evrópu­sambands-dómstóllinn settur þar yfir þau málefni!

Að því er undirrituðum heyrðist, hrökk enginn stjórnarþingmaður (jafnvel ekki Vigdís) úr skaftinu hjá leiðtogum þeirra flokka, jafn-háalvarlegt og yfirmáta vafasamt og málið er og var réttilega gagnrýnt af þremur prófess­orum sem sérfróðir eru í stjórnskipunar- og/eða ESB-rétti: Björgu Thorarensen, Skúla Magnússyni og Stefáni Má Stefánssyni.

Málið allt er hneisa fyrir Alþingi og Sexflokkinn allan, sem þar heldur áfram að fremja hin alvarlegustu þingglöp.

En "veika hliðin" á stjórnar­andstöðunni í þessu máli, öllu heldur hennar óforsvaranlega stefna í málinu, var sú, að breyta ætti stjórnar­skránni til að gefa eftir þetta fullveldis­framsal. Það hefur alla tíð frá 2009 verið markmið landsölumanna eins og Össurar Skarphéðinssonar, Árna Páls, Katrínar Júlíus­dóttur, Helga Hjörvar, Steingríms J., Katrínar Jakobsdóttur og Oddnýjar G. Harðar­dóttur, og flestallir stjórnar­andstæðingar, sem ræddu málið í ræðustól þingsins nú í hádeginu eða gerðu grein fyrir atkvæðum sínum, reyndust vera fylgjandi þeirri "nýju stjórnarskrá" sem ólöglegt "stjórnlagaráð" skilaði af sér 2011 og 2012, með mörgum tugum ágalla sem heill her lögfræðinga og annarra sérfróða þurfti síðan að reyna að lappa upp á.

Sjálf þjóðaratkvæða­greiðslan um málið 20. okt. 2012 var sömuleiðis ólögmæt, ekki aðeins vegna grundvallar-ólög­mætis "ráðsins", sem skipað hafði verið af 30 þing­mönnum 24.3. 2011 með lagabroti gegn þágildandi lögum nr.90/2010 um stjórnlagaþing og kosninga­löggjöf landsins, sem og gegn úrskurði Hæsta­réttar, því að til viðbótar kom hitt, að í því langa og flókna, tvídálka, 47 blað­síðna plaggi, sem lands­mönnum var sent með fremur stuttum fyrirvara fyrir þjóðar­atkvæðagreiðsluna, vantaði nokkrar setningar í 15. tillögu­grein­ina, þannig að þjóðin var ekki full­upplýst um, hvað verið var að kjósa um! Og þetta var aðeins ein margra missmíða á öllu þessu illa til stofnaða smíðaverki, sem hlutdrægur hagsmunaaðili, Illugi Jökulsson, hafði hvatt til að anað yrði út í þvert gegn úrskurði Hæstaréttar og þágildandi lögum. Og vegna allra þessara augljósu, marg-gagnrýndu missmíða, sem og vegna ólögmætrar stofnunar "stjórnlagaráðs" og ósæmandi aðferðar, sem beitt var þá að auki, sóttu aðeins 49,8% þjóðarinnar þessa yfirlýst merkilegu þjóðaratkvæðagreiðslu!

Þar að auki hefur þjóðin aldrei kosið þessar tillögur "ráðsins", sem aðeins hafði umboð hinna 30 þingmanna -- aldrei kosið þetta 114-115 greina vandræðaplagg sem slíkt sem nýja stjórnarskrá landsins, enda er í 1. lagi engin heimild til slíks skv. ákvæðum 79. greinar núgildandi stjórnarskrár, og í 2. lagi var þjóðin ekki að kjósa um þetta plagg sem beina tillögu um stjórnarskrá, heldur hvort hún vildi, að tillögur stjórnlagaráðs yrðu "lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá". Og þetta er EKKI að kjósa nýja stjórnarskrá, eins og þjóðin gerði 1944.

Lýðveldisstjórnarskráin, með nokkrum breytingum sem gerðar voru á henni á 20. öld, er því enn í fullu gildi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Umdeilt mál samþykkt á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hart tekizt á um fullveldi landsins í eigin málum á Alþingi

Jafnvel Össur Skarphéðinsson segir að í umdeildri þings­álykt­unartillögu* felist meira fullveldisframsal en dæmi séu um. Hans "lausn" er hins vegar ekki skömminni skárri en hans alræmda ESB-auðsveipni fram til þessa: hann vill að við gerum þetta valdaframsal bara auðvelt með því að heimila það með stjórnarskrárbreytingu!!

Allmikið var fjallað um þetta málefni í hádegisfréttum Rúv í dag, enda mikið deilt um það á þingfundi í morgun.

Merkilegt þótti mér hve linur og slappur hinn annars ágæti Birgir Ármannsson reyndist í málinu. Jafnvel Katrín Jakobsdóttir, form. VG, var mun skörulegri í orðum sínum um að það sé mjög alvarlegt mál, ef hér verði gengið hart að fullveldisréttindum landsins.

"Svo bregðast krosstré sem önnur tré" (og á ég þó ekki við krosstré Krists í þessu sambandi, enda er Birgir ekkert af því taginu!).

* Þarna var gefinn tengill beint inn á þingskjal Alþingis með þessari alvarlegu tillögu til þingsályktunar, þ.e. um að Ísland gang­ist und­ir yfirþjóðlegt fjár­mála­eft­ir­lit ESB, en umfjöllun um málið má finna í þessum vefgreinum:

Styrmir Gunnarsson í fyrradag: Athyglisverð niðurstaða hjá Össuri - en skrýtin ályktun

og í gær: Það getur ekki verið að samstaða sé um aukið framsal fullveldis hjá VG (sjá neðar**)

og þessi pistill undirritaðs hér í gær: Fljóta þingmenn sofandi að feigðarósi gagnvart EES-máli sem stefnir í fullveldis­framsals­brot gagnvart stjórnarskrá?

** Vera má, að með grein sinni í gær hafi Styrmi tekizt að ýta með þeim hætti við formanni Vinstri grænna, að hvatt hafi hana til þeirra óvenju-skörulegu orða í dag, sem vísað var til hér ofar.
En NEI, þetta var borin von um Katrínu, eins og ljóst er af orðum Styrmis:

... Hitt kemur meira á óvart, sem fram kemur í fréttum mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins, að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG vill líka breyta stjórnarskránni í þessa veru.

Samkvæmt þeirri frétt hefur Katrín sagt á Alþingi að það sé "löngu tímabært að setja ákvæði í stjórnarskrána um heimild til framsals á ríkisvaldi að því gefnu að framsalið njóti stuðnings aukins meirihluta þingmanna".

Uppgjafarstefnan í algleymingi hér! En það er eðlilegt, að Styrmir REYNI, það gerði hann hér (í gær):

  • Getur verið að samstaða sé um þessa afstöðu meðal Vinstri grænna?
  • Það er einfaldlega óhugsandi.
  • Nú skiptir máli að þeir meðlimir Vinstri grænna, sem eru annarrar skoðunar, láti til sín heyra.
  • Þeir geta með engu móti tekið þátt í þessum leik.

Og e.t.v. hafði þetta stundaráhrif á Katrínu í þinginu í morgun, nema orð hennar séu bara til að sýnast svo stuttu fyrir kosningar.

En umfram allt höldum þessu máli vakandi með þrýstingi á Alþingi, m.a. með innleggjum á þessa vefsíðu, sem sést víða, og með netpósti til alþingismanna (hér komast menn í netfangaskrá þeirra og símanúmer!). 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meira framsal en nokkur dæmi eru um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljóta þingmenn sofandi að feigðarósi gagnvart EES-máli sem stefnir í fullveldis­framsals­brot gagnvart stjórnarskrá?

Menn ættu að lesa stór­alvar­lega frétt um þings­álykt­un­ar­til­lögu á Alþingi um að Ísland gang­ist und­ir yfirþjóðlegt fjár­mála­eft­ir­lit ESB gegn­um Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA). Þetta fæli í sér framsal á fram­kvæmd­ar­valdi og dómsvaldi að ein­hverju leyti, segir Björg Thorarensen, og "íþyngj­andi ákv­arðanir ... gagn­vart lögaðilum og ein­stak­ling­um hér á landi, sem tekn­ar yrðu af sér­hæfðum eft­ir­lits­stofn­un­um ESB á fjár­mála­markaði."

Framsal sam­kvæmt EES-samn­ingn­um hafi upp­haf­lega einkum snú­ist um eitt svið, þ.e. sekta­vald á sviði sam­keppn­is­mála, en síðan hafi fleiri og óskyld svið bæst við (Mbl.is),

og hér er það enn að gerast -- skref í þá átt í þessari óafgreiddu, stórhættu­legu þings­álykt­unartillögu, en þingmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis virðast fljóta þar sofandi að feigðarósi.

Upphaflegur flutnings­maður þings­ályktunar­tillögunnar var Gunnar Bragi Sveinsson, þáv. utanríkisráðherra!

Grein Hjartar J. Guðmundssonar um málið á Mbl.is er afar skýr og öflug að efni til og rekur vel öll helztu málsatriði, og þar er viðtal hans við Björgu Thor­aren­sen, laga­prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðing í stjórn­skip­unarrétti, þunga­miðjan, og rennur fullveldis­sinnum nánast kalt vatn milli skinns og hör­unds að lesa það sem fram kemur í máli hennar. Og HÉR er sú afar fróðlega grein og ekkert of löng fyrir neinn að lesa.

Hér er hins vegar eldri frétt um málið: Stenst ekki stjórn­ar­skrána.

Hér er trúlega eitt þeirra tímavillumála, þar sem alþingismenn fylgjast ekki með þróun mála og láta kerfiskarla í Brussel komast upp með að tala sig til að draga okkur enn meira undir sitt áhrifasvið til að fjötra okkur í sína valdrænandi skriffinnsku. Þegar sjálfur Þorbjörn Þórðarson, vel hæfur, upplýstur viðskipta­blaðamaður Fréttablaðsins og Stöðvar 2, er farinn að skrifa tvívegis nýlega leiðara í Fréttablaðið, þar sem hann varar við tvíbentum ávinningi og jafnvel skaðsamlegum áhrifum EES-samningsins, þá ættu alþingismenn að taka við sér og einsetja sér að flana ekki að neinu í þessu alvörumáli sem hér var um rætt.

Umfram allt má ekki afgreiða þetta mál í bráðræði á lokadögum þessa þings, heldur leggjast aftur vel yfir allt málið og leita umsagna um þings­ályktunar­tillöguna hjá færum stofnunum, samtökum og einstaklingum utan þings, en fram kemur á þessari vefsíðu Alþingis, að einungis var send umsagnarbeiðni um málið til EINS aðila! ("Allar umsagnabeiðnir (1).")

Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð Alþingis í stórmáli!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Verður ekki lengra komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Viðreisn" vill taka þátt í að manna eða kosta ESB-her (fylgir í pakkanum með innlimun í ESB ásamt öðru ókræsilegu)

Í Brexit-vandræðum vilja Bruss­el-ráðamenn þétta raðirnar, styrkja völd ESB og m.a. koma á fót ESB-her (en vilja ekki að Frakk­ar sjái einir um það).

Hér er ný skoðana­könnun um afstöðu Ís­lend­inga til þessa fram­tíðar"kosts":

SKOЭANA­KÖNNUN á vef Útvarps Sögu 15. til 16. sept. 2016:

Eiga Íslendingar að taka þátt í hernaðarsamstafi Evrópusambandsins?

  •  Nei: 90,63%
  •  Já: 7,07%
  •  Hlutlaus: 2,29%.
Ekki margir fylgjandi hér þessu framtíðarmáli "Viðreisnar"! Augljóst er, að ESB-her yrði rekinn og mannaður af öllum meðlimaríkjunum. Ef við Íslendingar færum þarna inn, að hvöt gamalla Icesave-berserkja eins og Benedikts Jóhannessonar Zoëga, þá er viðbúið, að Ísland yrði að bjóða fram nýliða í þann her, hvort sem um beina herskyldu yrði að ræða eður ei. En ef hér yrði þvertekið fyrir það af stjórnvöldum að manna þann her með Íslendingum, þá yrði að sjálfsögðu ætlazt til þess, að við yrðum að borga þeim mun meira framlag til að standa undir kostnaði við þann her.
 
Svo er ekki einu sinni víst, að íslenzk stjórnvöld í ESB-meðlimaríki gætu neitað þeim Íslendingum, sem hefðu áhuga á svona hernaðar-ævintýramennsku, um að munztra sig í ESB-herinn -- þeir yrðu úrskurðaðir jafnréttháir til að afla sér slíkrar vinnu eins og borgarar í öðrum ESB-ríkjum -- já úrskurðaðir það í sérstakri ákvörðun ESB-dómstólsins í Lúxemborg, sem eins og allir eiga að vita yrði æðsti dómstóll Íslands, ef Viðreisnar- og öðrum landsölumönnum hér á landi tækist að koma okkur undir ok Evrópusambandsins.
 
En tökum svo líka eftir þessu:
  • "Viðreisn" vill afnema hér hvalveiðar og selveiði fyrir fullt og allt, einnig hákarlaveiði, til að þókknast Evrópusambandinu. 
  • "Viðreisn" vill kippa stoðunum undan íslenzkri landbúnaðarframleiðslu með því að leyfa hér innflutning á kjöti frá ESB-löndum, þar sem notuð eru 60 sinnum meiri sýklalyf í hráefnið en hér (Spánn) eða 40 sinnum meiri (Þýzkaland).
  • "Viðreisn" vill gefa evrópskum auðhringum skotleyfi á íslenzkar útgerðir og opna hér fiskimiðin fyrir jafnri aðstöðu ESB-útgerða.*
Og þá er alveg ógetið um stærsta málið: að lög Evrópusambandsins yrðu öll að lögum hér, og þar sem þau rækjust á íslenzk lög, myndu lög ESB ráða úrslitum. Kæmu upp vafaatriði þar um, yrði valdið í höndum ESB-dómstólsins ú Lúxemborg að úrskurða um það "rétta"!
 
Upp á slíkar trakteringar bjóða bæði "Viðreisn" og Samfylkingin íslenzkri þjóð í aðdraganda komandi þingkosninga!
 
* Sbr. m.a.: 

Og síðast, en ekki sízt: Haraldur HanssonÍsland svipt sjálfsforræði.

Jón Valur Jensson.

mbl.is Segir ESB í erfiðri stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmælamaðurinn / mærir liðsmenn sína. / Fús vill "Áfram"-faðirinn / fullveldinu týna.

Icesave-greiðslusinninn eindregni Bene­dikt Jó­hann­es­son í "Við­reisn" er afar ánægður með tvo aflóga ráðherra, Þor­stein Páls­son og Þor­gerði Katrínu, sem var mjög frjáls­lynd gagnvart óheyri­legu kúlu­láni manns síns, "þannig ég get ekki annað en verið mjög glaður yfir því,“ seg­ir hann um þá ákvörðun þeirra að ganga til liðs við Viðreisn. Þorsteinn er alræmdur ESB-maður og skánar ekki.

Bene­dikt á eftir að gera þjóðinni grein fyrir því, hvaðan hann hefði tekið þá ca. 70 milljarða króna, sem Buchheit-samningurinn (sem hann barðist fyrir eins og ljón) væri búinn að kosta ríkissjóð í einbera vexti (óendurkræfa og greiðslu­skylda í pundum og evrum samkvæmt þeim svika­samningi). Hefði hann t.d. skorið meira niður í heilbrigðis­kerfinu til að láta enda sína ná þarna saman, ef hann hefði setið í fjármálaráðuneytinu, eða látið öryrkja og aldraða blæða?

Benedikt og félagar í öfugmælaklúbbnum "Áfram" voru afar seigir að ná sér í 20 milljóna króna áróðursfé til að kosta m.a. sína landsfrægu hákarls­auglýs­ingu sem átti að kenna Íslendingum þá skynsemi og ráðdeild að gjöra svo vel að borga Icesave-kröfur Gordons Brown og Downings, þvert gegn lagalegum rétti þjóðarinnar. Meðal styrktaraðila í Icesave-vinafélaginu "Áfram" voru Sam­tök fjármála­fyrirtækja (SFF), Samtök atvinnu­lífsins (SA) og Samtök iðnað­ar­ins (SI). "Sem start-gjald veittu þessi samtök Áfram-hópnum milljón krónur, hvert fyrir sig. Alls munu styrkir sem Áfram-hópurinn þáði hjá fyrirtækjum og almanna-samtökum hafa numið 20 milljónum króna. Til samanburðar fekk Samstaða þjóðar gegn Icesave um 20 þúsund krónur frá fyrirtækjum og almanna-samtökum." (Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur ritaði.)

Nú þarf Benedikt að upplýsa, hvaðan "Viðreisn" fær allt sitt áróðursfé til að vinna að innlimun Íslands í Evrópusambandið (þetta sem Jón Baldvin Hanni­bals­son líkir, vegna ástands þess, við brennandi hús, sem enginn vilji fara inn í). Fá "Viðreisnarmenn" enn sína milljóna­styrki frá SA og SI? (nota bene kemur Þorsteinn Víglundsson beint af þeim slóðum). Eða er verið að misnota lífeyr­is­sjóðina til slíks? Eða ná þræðirnir kannski alla leið til Brussel? En þaðan berst hingað ærið mútu- og styrkjafé nú þegar og skiptir milljörðum. Eitt er víst, að leigan á Hörpu og veitingarnar þar á opnum kynningarfundi hafa kostað sitt, og svo er haldið uppi viðamikilli flokksskrifstofu og áróðursstarfi.

Benedikt er reyndar sérfræðingur í rekstri öfugmælafélaga, hann er einn af stofn­endum og stjórnar­mönnum öfug­mæla­selskaparins "Já Ísland!" sem er samansafn meira en 4.500 forstokkaðra ESB-áhangenda!

„Í einni setn­ingu er okk­ar meg­in­stefna sú að við vilj­um leyfa fólki að ráða sér sjálft en ekki vera að hugsa fyr­ir það eins og gömlu flokk­arn­ir hafa verið að gera,“ segir Benedikt, en var hann ekki einmitt, í bandalagi við svikula fjölmiðla og álitsgjafa, að reyna að segja þjóðinni hvað hún ætti að gera í Icesave-málinu?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Getur ekki annað en verið glaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband