Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Gísli Holgersson ritar: ESB-feigðin

mynd 2012/05/09/GGLP1U8F.jpg  "Er það ekki móðgun við Íslendinga að ESB moki yfir landið mútufé í hundruðum milljóna sem fara í botnlausa vasa utanríkisþjónustunnar?"

Grein Gísla í Mbl. í dag, ESB-feigðin, er mjög athyglisverð.

  • "Óróleiki Vestur-Evrópu
  • Enn leiða Samfylkingin og VG ESB-„feigðina“ yfir landið. Innan ESB eru rúmlega 500 milljónir íbúa sem eru úrvinda af skrifræði og reglufargani. Atvinnuleysi er sumstaðar fimmfalt meira en á Íslandi. Þarna tifar óróleiki Vestur-Evrópu. Samfélagsmál, evruvandi og atvinnumál eru áhyggjuefni á heimsvísu. Keppumst ekki um að gera Ísland að fjölþjóðasamfélagi, til þess erum við alltof fámenn. Fylgjast Íslendingar ekki með erlendum fréttastöðvum?
  • Ætla Íslendingar að gefa rétt sinn um 200 mílna landhelgi til ESB og leita leyfa um hvaða fisk má draga úr sjó hér uppi í landsteinum? Á Brussel að svara fyrir olíulindir okkar á Drekasvæðinu? Á Brussel að svara fyrirspurnum um Norður-Íshafssiglingar? Vilja Íslendingar greiða ESB-skrifræðinu 15-20 miljarða á ári fyrir „vistina“? Þetta gjald fer hækkandi, ekki lækkandi."

Þannig ritar Gísli, sem er kaupmaður að starfi. Hann varð vel við ósk um að fá að vitna hér í grein hans alla. Hún endar þannig:

  • "Flýjum stórveldið og ESB-vistina
  • Sjá Íslendingar ekki vandræðagang samfylkingarmanna og VG með landsstjórn og stjórn utanríkismála? Milljörðum hefur verið eytt frá þjóðinni vegna mannaskipta meðal alþingismanna og ráðherra í ríkisstjórn. Hvað hefur umsókn stjórnarliðsins að ESB-vandamálum kostað íslenska þjóð? Er það ekki móðgun við Íslendinga að ESB moki yfir landið mútufé í hundruðum milljóna sem fara til auglýsingastofa, Evrópuspjallara og í botnlausa vasa utanríkisþjónustunnar? Óskum ekki eftir aðild "stórvelda" og nærveru ESB-landa. Kjósum tafarlaust á móti þessari meðferð á landinu okkar."

 


"Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum"

Ragnhildur Kolka

Ragnhildur Kolka skrifar í dag í Mbl.: "Það sem hér er stefnt að er nokkurs konar Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum. Án aðstoðar ESB hefði Grikkjum ekki tekist að koma sér í þessa holu sem þeir nú eru í. Ódýr lán flæddu inn í landið frá ESB-ríkjunum með sérsniðnum vöxtum þýska hagkerfisins. Til að viðhalda innstreyminu var bókhaldið barið til hlýðni og endalaus Vaðlaheiðargöng fengu forgang utan fjárhagsáætlana."

Tilefni skrifa hennar var fréttin á Stöð 2 um möguleika kræklingabænda til að afla sér lífsviðurværis, sem "vakti ekki beinlínis með manni vonir um að hér færi að birta til í atvinnumálum," eins og hún ritar þar. -- Grein hennar nefnist ... þar sem lífsþrekið er barið niður og er viðbragð við kyndugu máli, þar sem kræklingabóndi varð fyrir ótrúlegri meðferð býrókratískrar stofnunar, sem sektaði hann jafnvel fyrir að "fyrir að móttaka bréf [frá stofnuninni] sem aldrei átti að senda".

Hún horfir þar upp á þægðarfulla viðleitni ríkisstjórnarinnar til að framfylgja ESB-stefnu í stjórnkerfinu. "Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður seint vænd um að rýra hlut stofnananna sem bólgnað hafa úr öllu hófi, enda hlýðin tilskipununum að ofan," segir hún. Öðru máli gegni um ýmsar aðrar stofnanir hér, eins og hún ritar: 

  • Tiltekt og aðhald nær helst til stofnana sem almenningur stólar á þegar á bjátar, s.s. heilbrigðisþjónustu og löggæslu, sem enn eru aflögufærar að mati ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir tuga prósenta niðurskurð. Þar má skera inn að beini og beri einhver skaða af má úrvinda starfsfólk taka skellinn.
  • Í millitíðinni heldur stjórnin ótrauð áfram að sinna velferð stofnana sinna og starfsmanna þeirra. Og allt er það gert í nafni endurskipulags og sparnaðar. 

Og takið eftir þessu (leturbr. hér):

  • Breytingarnar á stjórnarráðinu sem nú eru til umræðu eru einmitt ein slík sparnaðaraðgerð. Þar er rösklega tekið til hendi og ráðuneytum sem við upphaf stjórnartíðar Jóhönnu voru 12 skal nú fækkað í 8. Og nú skyldi maður spyrja: er það ekki hið besta mál? Jú, vissulega, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi að um leið og nýju nafnplöturnar fara í slátt mun fjölföldunarvélin spýta út röð af nýjum ráðherrum. Tilkoma yfir- og undir- og undirundir-ráðherra munu kalla á sæg nýrra blýantsnagara svo friðþægja megi kröfum ESB um "enn öflugri" eftirlitsstofnanir. Ekki dugar að láta kræklingabændur eina lúta eftirliti. Nú þarf að sauma kerfið að kartöflubændum, berjabláum fjörulöllum og öllum þeim sem enn eru svo einfaldir að halda að auðlindir á eigin landi lúti einkaeignarrétti. Slík lausung skal ekki liðin.
  • Það sem hér er stefnt að er nokkurs konar Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum.

Menn þurfa að fletta í blaðinu til að lesa lengra, mjög áhugaverðar upplýsingar þar um Grikklandsmálin (Mbl. í dag, bls. 23, eða HÉR).

Ragnhildur Kolka lífeindafræðingur er félagsmaður í Heimssýn og í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland og veitti góðfúslega leyfi til að vitna hér í grein sína.


mbl.is Ragnhildur Kolka: Stofnanavæðing stjórnarinnar er helstefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Már Stefánsson prófessor telur endurnýjaða áherzlu á "tveggjastoðakerfið" vera úrlausnarleið í stað hinna tveggja úrslitakosta Össurar

  • "Stefán bendir á að þegar samið hafi verið um EES-samninginn á sínum tíma hafi EFTA-ríkin lagt mikla áherslu á að um tveggja stoða kerfi yrði að ræða og að þau yrðu ekki undir lögsögu Evrópudómstólsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sett. Fyrir vikið hafi EFTA-dómstólnum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið komið á fót til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem gerðust aðilar að honum; Íslandi, Noregi og Liechtenstein."

Þannig segir Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður frá viðtali við próf. Stefán Má, sem er okkar færasti sérfræðingur í ESB- og EES-löggjafar og dómsmálum.

Ef hér yrði farin leið Össurar og Samfylkingarinnar, væri ótvírætt verið að framselja hluta ríkisvalds okkar til Evrópusambandsins, setja okkur undir "valdsvið nýrra eftirlitsstofnana þess með fjármálamörkuðum ... Ákvörðunum þessara stofnana yrði hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins og eftir atvikum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins" (skv. sama fréttaviðtali á Mbl.is), en hér kemur þetta babb í bátinn:

  • "Það gengur hins vegar gegn stjórnarskránni og yrði að breyta henni til þess að slíkt væri mögulegt eins og fram kemur í áliti sem Stefán vann fyrir ríkisstjórnina ásamt Björgu Thorarensen lagaprófessor."

Össur og ESB-sinnarnir sjá sér nú færi á því að draga Ísland enn lengra undir áhrifavald evrópska ríkjabandalagsins og undir miðstýringarafl þess, jafnvel þótt ekki væri komið svo langt að setja sjávarútvegsmál o.fl. málaflokka undir það vald, eins og gerast myndi með beinni inntöku Íslands í Evrópusambandið. Þennan tvíþætta ávinning sjá þessir ESB-meðvirku menn ugglaust í því:

  1. Að þeir geti haldið áfram að fullyrða, að stökkið yfir í sjálft ESB sé alltaf að verða minna og minna ... og svo lítið, að litlu máli skipti! (Það yrði þó í reynd risastökk og fæli í sér gagngera eðlisbreytingu á stjórnskipan okkar, með óbætanlegum skaða fyrir sjálfræði lýðveldisins.)
  2. Að þetta yrði látið gerast með upptöku ákvæðis í stjórnarskrá, að heimilt sé að framselja vald "til alþjóðlegra stofnana", en einmitt það ákvæði (sem þarna væri ætlað að hleypa í gegn valdsframsali vegna fjármálastofnana) yrði síðan notað til að reyna að fá því framgengt, að allsherjarvald okkar stjórnskipunar yrði sett undir Evrópusambandið, eins og gerast myndi með formlegum ákvæðum aðildarsamnings, þar sem ævinlega stendur skýrum stöfum, að nýja aðildarríkið taki sjálfkrafa við öllum sáttmálum, lögum og reglugerðum Evrópusambandsins, strax frá þeirri stundu, og allri framtíðarlöggjöf þaðan líka -- og að rekist þau ákvæði á við landslög, skuli lög ESB ráða -- og að ESB hafi stofnanir sem sjái um að úrskurða um vafa- eða deilumál um inntak laganna, sem sagt væri að rækjust á (þannig að jafnvel þau ágreiningsmál kæmu aldrei til kasta Hæstaréttar Íslands). -- Össurarliðið hyggst reyna að renna þessu í gegn, rétt eins og nýrri innistæðitilskipun ESB, sem gera mundi okkur að leiksoppi sambandsins við næstu bankakreppu, enda væru þær innistæður þá tryggðar beinlínis af ríkinu og með fimmfalt hærra tryggingarhámarki en því, sem tryggt var hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta á tíma Icesave-málsins.

Um þessi mál verður mikið fjallað á næstunni, nema menn kjósi værðina áfram.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fæli í sér eðlisbreytingu á samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögleysu-athæfi sendiherra

Það ætti að banna sendiherra ESB að halda áróðursfundi, þar sem hvort sem er er engu svarað af ágengum fyrirspurnum nema þessu helzt: "Því miður er ekki unnt að svara þessu núna, fundartíminn er ekki nógu langur til þess!"

Það ætti að banna Timo Summa að stunda það að vera farandpredikari fyrir Evrópusambands-stórveldið, sem vill gleypa lýðveldið Ísland og taka hér æðstu völd og setja lög sín sem hin æðstu lög.

Þetta hefur hann þó gert, sbr. hina eitilsnjöllu grein Tómasar Inga Olrich, Summa diplómatískra lasta, í Mbl. 2. apríl sl. Þar segir okkar reyndi, fyrrverandi sendiherra í París meðal annars:

Með framferði sínu kemur sendiherra ESB fram við Íslendinga eins og þjóðin sé ekki sjálfstæð og fullvalda. Hann hefur að engu þær reglur sem ESB hefur undirgengist. Yfirmenn hans í Brussel virðast ekki hafa áhyggjur af því og eru því samábyrgir fyrir lögleysunni.

Tómas Ingi minnir á, að Evrópusambandið hafi "skuldbundið sig til að hlíta reglum Vínarsáttmálans" um diplómatísk tengsl ríkja (1961), þar með talið "að virða þá reglu, sem er að finna í 41. grein Vínarsáttmálans og kveður á um að sendinefndunum ber skylda til að blanda sér ekki í innri málefni þess ríkis, þar sem þær starfa og virða lög og reglur heimlandsins. Þessi regla hvílir þyngst á sendiherranum sjálfum, þar eð ábyrgð hans er mest," segir Tómas Ingi.

En hvernig eru efndirnar? Lesið hér, orð Tómasar Inga:

  • Halda mætti að utanríkisráðherra Íslands væri ókunnugt um þessar reglur. Sendiherra ESB, Timo Summa, fer hér um sveitir, á vegum Evrópustofu, sem hefur það að markmiði samkvæmt yfirlýsingu forstöðumanns stofunnar "að hafa ekki áhrif á umræðuna". Sendiherrann segir á hinn bóginn, að hann ætli að "skapa" umræðuna. Það virðist ekki vefjast fyrir neinum innan Evrópustofu að þessar yfirlýsingar ganga í kross.
  • Sendiherrann sjálfur hagar sér eins og þingmaður í aðdraganda kosninga: hann heimsækir fyrirtæki, ræðir við atvinnurekendur og rekur áróður fyrir ESB ... (Leturbr. hér.)

Grein Tómasar Inga er miklu lengri og afhjúpar ólögmæti aðgerða sendiherrans og ESB. Lesið greinina HÉR.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Borgarafundur með sendiherra ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil aukning á mansali innan ESB!

  • Talið er að það hafi aukist verulega á undanförnum árum. Aðallega er um að ræða mansal á ungum stúlkum og konum sem seldar eru til vændis. 
  • Evópusambandið telur að megnið af þessum stúlkum og konum komi frá löndum innan sambandsins. Áður fyrr var þetta mansal hinsvegar að mestu bundið við fólk sem flutt var inn til Evrópusambandsins frá löndum utan þess. (Visir.is, 7. maí 2012.)

Evrópusambandið er sem sé að verða sjálfbært á þessu vafasama sviði!

En án skops er merkilegt, að sjálft eftirlitssamfélagið mikla, ESB, hefur ekki einu sinni taumhald á þrælahaldi. Mansal er ekkert annað en þrælasala og þrælahald og í þessu tilviki er það með mestu niðurlægingu kvenna, með sálrænum örum ævina á enda.

Ef lausn þessa þrælahalds er ekki á forgangslista, hvað er þá forgangsmál hjá ESB? Af hverju versnar ástandið í stað þess að batna í viðleitninni til að nálgast hina fullkomnu útópíu?

Jón Valur Jensson. 


22,6% fólks undir 25 ára aldri á evrusvæðinu er atvinnulaust

Alls eru 25 milljónir manna án atvinnu í Evrópusambandinu. Hér er ekki verið að ljúga upp á ESB, enda er þetta samhljóða fyrirsögn í sjálfu Fréttablaðinu í gær (bls. 10). Þar af eru rúmar 17 milljónir á hinu rómaða evrusvæði (í marz á þessu ári, frá þeim tíma eru nýjustu tölur). Atvinnuleysið var 10,2% í marzmánuði, en 9,4% einu ári áður. Gæfulegt eða hitt þó heldur! -JVJ.

PS. 9/5: Hér á landi var 9,3% atvinnuleysi í febr. og marz 2010, 8,6% í febr. 2011 og 7,3% í febr. 2012.


Austurrískur lögfræðingur: Framkvæmdastjórn ESB myndi líklega ÓGILDA tvíhliða viðskiptasamninga Íslands við lönd utan ESB

Þetta kom fram í erindi hans, Niklas Maydell, á opnum fundi Lagastofnunar Háskóla Íslands á fimmtudag. Fréttablaðið sagði frá (sjá hér).

  • Maydell benti á að með gildistöku Lissabon-sáttmálans 2009 hefði vald yfir gerð tvíhliða viðskiptasamninga færst frá aðildarríkjunum til leiðtogaráðs ESB. Íslensk stjórnvöld gætu því eftir inngöngu ekki gert slíka samninga við önnur ríki nema í gegnum ESB ...
  • Þar sem Ísland hefði ... ekki verið í ESB fyrir gildistöku Lissabon-sáttmálans væri líklegt að framkvæmdastjórn ESB myndi ógilda viðskiptasamninga Íslands eftir aðild nema samið yrði um annað í aðildarviðræðunum.

Það er eins gott að menn hafi þetta á hreinu.  --JVJ.


Ólögleg Evrópusambandsáróðursstofa opnuð á Akureyri

Þetta gerðist í dag. Undarlegt er, að hún fái inni í Norrænu upplýsinga-skrifstofunni á Akureyri og að formaður Norræna félagsins á Íslandi, stjórnarformaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar, taki þátt í því að klippa á borða í tilefni opnunarinnar, ásamt Timo Summa, þeim sendiherra ESB á Íslandi, sem þegar hefur sætt harðri, réttmætri gagnrýni vegna áróðursferða sinna um Ísland í trássi við alþjóðareglur um skyldur sendiráða.*

Norræna félagið á Íslandi á að vera hlutlaust, ekki hlutdrægt gegn fullveldi okkar. Væri ekki minnt á þetta hér á þessum vef okkar með vefslóðina fullveldi.blog.is, stæði hann illa undir nafni.

  • Í fréttatilkynningu kemur fram að þar muni gestir hafa aðgang að upplýsingaefni, bæði almennu kynningarefni sem og fræðilegum bókakosti um ESB, ásamt því sem fólki stendur til boða að setjast niður við tölvu og sækja sér upplýsingar um ESB og starfsemi þess á vefnum.

Það er enginn vegur fyrir Evrópusambandið að reyna að telja Íslendingum trú um, að hin rangnefnda** "Evrópustofa" hafi það efst á blaði að vera með nauðsynlegar, hlutlægar upplýsingar fyrir almenning um "kosti og galla" Evrópusambandsins. Þar verður það ekki haft áberandi, jafnvel ekki sýnilegt, sem mælir eindregið gegn "Evrópusambandsaðild". Eða hver ímyndar sér, að meðal þess fyrsta, sem menn reki þar augun í, verði þetta:

  1. Ísland verður svipt sjálfsforræði með "aðildinni";
  2. Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna;
  3. Ísland fengi 0,06% atkvæðavægi í leiðtogaráði Evrópusambandsins og í hinu volduga ráðherraráði þess, sem m.a. hefur æðsta löggjafarvald í sjávarútvegsmálum;
  4. Ísland gæti ekki neitað að taka upp nein lög frá ESB, jafnvel ekki þeim, sem væru í mótsögn við stjórnarskrá okkar -- fyrr myndi sjálf stjórnarskráin gefa eftir!
  5. Jafnvel þetta síðastnefnda atriði kemur skýrt fram í þeim ábyggilega "aðildarsamningi" sem þegar liggur fyrir og verður í öllum aðalatriðum fyrirmynd þess, sem gerður verður við hina pólitískt skipuðu "samninganefnd Íslands" í umboði ráðherra. Samt er stöðugt reynt að láta eins og "aðildarsamningurinn" sé einhver óráðin framtíðarsmíð og að menn geti gert sér vonir um eitthvað óvænt og yndislegt!

Og þetta eru bara nokkur meginatriði af mörgum, sem Timo Summa "gleymir" víst að segja frá á ferðum sínum um landið! Þeim mun frekar verður þagað um þetta í "Evrópustofunum" báðum.

Í gangi eru tvær kærur vegna ólöglegrar áróðursstarfsemi Evrópusambandsins á Íslandi. Við munum bráðlega upplýsa um stöðu þeirra mála. 

* Sbr. hér: 

** Ísland, Noregur, Sviss, Georgía, Úkraína, Azerbaídsjan og Rússland eru í Evrópu ekkert síður en Evrópusambandið! Þetta síðastnefnda nær ekki yfir nema 42,5% af Evrópu, 43% þegar Króatía er komin inn!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópustofa opnuð á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refjastjórnmál - og fullveldið sjálft í húfi

Hættuleg stefna stjórnvalda hér, a.m.k. Samfylkingar, um fullveldisframsal í hendurnar á Brusselvaldinu, afhjúpaðist í orðum Össurar Skarphéðinssonar í Fréttablaðinu í dag, og ritstjórinn þar er sama ESB-sinnis. Nú sjá þeir tækifæri til að læða fullveldisframsalsákvæði inn í stjórnarskrána til þess, í orði kveðnu, að liðka fyrir viðtöku EES-reglugerðar á fjármálasviði, en til þess virðist leikurinn gerður að afnema stjórnarskrárvarnir okkar gegn snöggri inntöku (innlimun) í Evrópusambandið.

Um þetta mál var fjallað hér í ýtarlegri grein í nótt: Þetta er stóra málið: við viljum ekki fullveldisframsal til Evrópusambandsins.

Já, nú er reynt að fara þessa leiðina til að mæla með hinum fráleitu fullveldisframsals-ákvæðum í s.k. drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, en það ráð var skipað í óleyfi og þvert gegn bæði almennum kosningalögum, lögum um stjórnlagaþing og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun innti enginn þingmaður - og enginn úr stjórnarandstöðunni! - eftir þessu endemismáli, þ.e. þeirri herskáu stefnu utanríkisráðherrans að vilja afnema fullveldisvarnir stjórnarskrárinnar.

Jón Valur Jensson.


Þetta er stóra málið: við viljum ekki fullveldisframsal til Evrópusambandsins

Gríðarlegt vald yrði falið "sameiginlegu fjármálaeftirliti ESB hér á landi" (m.a. að banna Kaupþing og lífeyrissjóðina!) ef ný reglugerð ESB kæmust hér á gegnum EES-leiðina, en er ÓLÖGLEGT skv. stjórnarskránni. Hún heimilar EKKI slíkt framsal valds til stofnana á vegum Evrópusambandsins.

Frétt um þetta mál í Sjónvarpinu á fimmtudagskvöldi vakti suma, ekki alla, upp af dvalanum. Þetta mál í hugum ESB-hneigðra knýr á um þá breytingu á stjórnarskrá Íslands, sem þá virðist dreyma um: að leyfa slíkt framsal fullveldis okkar -- og yrði það þó bara partur af því fullveldisframsali, sem gerast myndi með raunverulegri "aðild" að Evrópusambandinu : þar væri verið að framselja til ríkjasambandsins öllu æðsta löggjafarvalds-fullveldi, sem og fullveldisrétti okkar yfir fiskimiðum okkar, a.m.k. utan 12 mílna, yfir efnahagslögsögunni raunar og æðsta stjórnvaldi yfir öllum sjávarútvegsmálum, allt frá hvölum niður í möskvastærð neta og nýtingu átunnar hér við land, ljósátu og minnstu seiða.

Við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland erum andvíg afsali æðsta löggjafarvalds í hendur annarra ríkja eða ríkjasambanda. Það merkir þá jafnframt, að við tökum afstöðu gegn því að breyta stjórnarskránni í þágu fullveldisafsals í annarra hendur en þeirra sem byggja þetta land.

Hér er, ef að er gáð, bezta þekkingin á því sem okkur kemur vel og hentar lífsháttum okkar, hvort sem um fiskveiðar, stýringu veiða úr öðrum villtum stofnum eða um aðra hluti er að ræða sem varða sjálfa stjórn okkar á landinu. Orð, sem Jón Sigurðsson lét falla í þessa átt, eiga eins vel við nú og þá.

En aftur að fréttinni. Nú hefur utanríkisráðuneytið fengið það staðfest eftir grandgæfilega skoðun tveggja lagaprófessora, Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen, að ef þessar reglur í nýju ESB-reglugerðinni yrðu innleiddar hér á landi óbreyttar, "yrði gengið lengra í framsali framkvæmdavalds og dómsvalds en talið er að heimilt sé samkvæmt stjórnarskránni."

Samkvæmt þessu er bannað að innfæra þessar reglur hér. En Evrópusambandið hefur ekki þegið einhverjar framboðnar málamiðlunartillögur á vegum íslenzkra og norskra stjórnvalda, heldur ætlast til þess að Íslendingar og Norðmenn lögtaki þetta eins og ekkert sé!

Það sama gæti átt við um nýja innistæðutilskipun ESB, sem myndi nær fimmfalda tryggingu innistæðna (hækka trygginguna úr 20.887 evrum upp í 100.000, stytta ennfremur útgreiðslutíma tryggingarinnar og leggja hana beinlínis á herðar ríkisins í hverju tilviki!).

Það er því eðlilega komið að krossgötum hér. Utanríkisráðherrann benti á það í frétt Sjónvarpsins, að hér væri tvennt til: annaðhvort að breyta stjórnarskránni til að leyfa fullveldisframsal eða að færa okkur úr úr EES-samningskerfinu. Margt bendir til, að einnig Norðmenn verði brátt að íhuga seinni kostinn. Ýmsir óttast hann þó, þ.e. uppsögn EES-samningsins, en gleyma því þá gjarnan, að í gildi er tolla- og fríverzlunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins.

Þetta er málefni, sem full nauðsyn er nú að ræða í framhaldinu. Vonandi hafa alvarlega þenkjandi menn bara haft gott af því að fá þessa viðvörun: að hætta steðjar nú að varnarákvæðum stjórnarskrárinnar, þeim sem sett voru í þágu fullveldis okkar. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Reglugerðin ósamrýmanleg stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband