Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Fer forsætisráðherra Íslands með ósannindi um stöðu ESB-mála?

Því er blákalt haldið fram í leiðara Mbl. Fari blaðið rétt með, er það vitaskuld alvarlegt mál. Á Alþingi sagði Jóhanna

  • kannanir hafa "sveiflast mjög frá því að lögð var inn aðildarumsókn" og að fylgið sé "nokkuð lítið núna". Hún sagði að skýringarnar "liggi nokkuð ljósar fyrir" og nefndi makríldeilu og meðalgöngu ESB vegna Icesave-málsins í því sambandi. Þar að auki hafi staðan í Evrópu "á umliðnum vikum og mánuðum" haft áhrif en það sé vonandi tímabundið. "Ég hygg því að bakslagið sé tímabundið að því er varðar þessa skoðanakönnun," sagði Jóhanna. (Tilvitnun hér úr leiðara Morgunblaðsins í dag: Ósannindi um stuðning.) 

Er þetta rétt hjá henni? Er hér um stutt eða tímabundið "bakslag" að ræða frá "fylgi" við ESB-umsókn flokks hennar og Vinstri grænna? Fjarri fer því. ALDREI hefur verið meirihlutastuðningur við "aðild" náð meirihlutafylgi í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem þó hefur barizt fyrir þessu máli nánast frá fyrstu tíð og nýtur til þess stuðnings voldugra fjölmiðla (rétt eins og í sínu Icesave-máli) og nú síðast beinnar áróðursfjárveitingar frá Evrópusambandinu, sem veitr heilum 230 milljónum til "kynningarstarfs" í gegnum Athygli hf. og tvær svokallaðar "Evrópustofur", í Reykjavík og á Akureyri.*

Upplýsingar, sem staðfesta MEIRIHLUTASANDSTÖÐU við "aðild" allt frá upphafi umsóknarinnar verða birtar hér sundurliðaðar á þessu vefsetri í annarri grein innan tíðar.

Ofangreind ummæli lét Jóhanna Sigurðardóttir falla í liðinni viku í svari við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, en hann hafði spurt hana þar um afstöðuna til aðildarumsóknar "í ljósi vilja þjóðarinnar,"og vísaði hann til nýlegrar, vandaðrar skoðanakönnunar, þar sem fram kom, að meirihluti var á móti aðild, en einungis 27,5% fylgjandi henni."

Hvetja ber alla til að lesa þennan leiðara Morgunblaðsins í dag, Ósannindi um stuðning, bls. 20. Þótt ekki sé hann langur, fær svar Jóhönnu þar eins afgerandi röklega hrakningu eins og verða má. Svar hennar er í raun "fjarstæða" (orð leiðarahöfundar, studd gildum rökum), og hún "hlýtur að vita betur" í raun og veru. Engar umtalsverðar sveiflur hafa verið á andstöðu þjóðarinnar við inngöngu í Evrópusambandið, og þar þurfti hvorki makrílmál né aðild ESB að lögsókn á hendur okkur fyrir EFTA-dómstólnum til, og það væri réttast að Jóhanna viðurkenndi með "ísköldu mati" í stað þess að fara með ósannindi, eins og hún gerði á sjálfu Alþingi í svari sínu. Eða er málinu kannski þannig farið, eins og segir í lok leiðarans: "Er staða umsóknarinnar svo veik að hún þoli ekki að sannleikurinn komi fram?"?

* Síðarnefnda "Evrópustofan" var opnuð nú í kringum 1. maí, á sama tíma og ESB hleypti hér af stokkunum vikulöngum hátíðahöldum á s.k. þjóðhátíðardegi Evrópusambandsins. Í sjálfum ESB-löndunum tíðkast aðeins að halda upp á þetta einn dag á ári. Greinilega þykir Brusselmönnum ekki af því veita að herða sig hér, með mikinn meirihluta þjóðarinnar á móti aðild Íslands að þessari stórveldisviðleitni, en aðeins 27,5% með!

Jón Valur Jensson.


ESB með lagabrot gegn Íslandi - segir hver?!

Munar Evrópusambandið ekkert um að brjóta alþjóðalög, þ. á m. EES-samninginn? En fullyrðir það einhver? Jú, nú síðast sjálft utanríkisráðuneyti Íslands! (sjá fréttartengil).

  • Evrópuþingið hefur verið með til umfjöllunar tillögu framkvæmdastjórnarinnar um reglugerð sem heimili ESB að beita viðskiptaaðgerðum gegn ríkjum sem stundi ósjálfbærar fiskveiðar að þess mati. [Svo!]
  • "Í meðförum þingsins hefur ákvæðum tillögunnar verið breytt þannig að þau ganga í berhögg við EES-samninginn. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna þessara breytingatillagna og komið á framfæri mótmælum bæði munnlega og skriflega við sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins, framkvæmdastjórn ESB og við aðildarríki þess," segir m.a. í yfirlýsingu ráðuneytisins. (Mbl.is var með fréttina.)

Verður óhamingju Evrópusambandsins á Íslandi allt að vopni? Jafnvel tryggasti vinur þess, utanríkisráðherrann úr Samfylkingunni, sér sig tilneyddan til að snupra eina aðalstofnun Evrópusambandsins, þá sem næst kemst því að vera lýðræðislega valin.

Í yfirlýsingunni, sem er á ensku,* beinir ráðuneytið því til Evrópusambandsins "að það virði í hvívetna alþjóðlegar skuldbindingar sínar við ákvarðanir og beitingu viðskiptaaðgerða af þessu tagi. Sérstaklega er vísað til ákvæða bókunar 9 í EES samningnum sem banna allar viðskiptaaðgerðir sem ganga lengra en löndunarbann á fiski úr sameiginlegum stofnum em deilur standa um ..." (Mbl.is).

Evrópusambandið hefur löngum horft í gegnum fingur sér við lagabrot stóru ríkjanna innan þess, t.d. vegna fjárlagahalla hjá Frökkum og Þjóðverjum, en beitir svo þeim reglum hart gegn smærri ríkjunum. Öllu verra er hitt, að sambandið fremji lögbrot gegn smáþjóðum. Það væri þá reyndar ekki í fyrsta sinn gagnvart Íslandi.

  1. Í Icesave-málinu virðist ESB ekki geta virt eigin tilskipun 94/19/EC og hefur því farið í mál við Ísland fyrir EFTA-dómstólnum!
  2. Með starfsemi "Evrópustofu" og 230 milljóna fjáraustri hingað í s.k. kynningarstarfsemi er Evrópusambandið að brjóta Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða og ríkja, eins og Tómas Ingi Olrich hefur upplýst í merkri grein sinni nýlega.

Vekja ber athygli á mjög góðri grein, nýbirtri hér, eftir Gústaf Skúlason, varaformann Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland: Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?

* Statement by Iceland at the EEA Joint Committee 30 April 2012.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Reglugerð brýtur gegn alþjóðalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?

 

Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?  Gústaf Skúlason ritar:

Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði á 72 % og útrýmingarhættu 20 % fiskistofna í vötnum ESB. Á 14 ára tímabili hefur afli ESB minnkað um 30 % og dugir einungis fyrir helming fiskneyslu íbúanna. ESB verður sífellt háðara fisk annarra og innflutningi sjávarafurða. Fiskveiðistefna ESB hefur eyðilagt sjávarútveg í mörgum löndum og kostar skattgreiðendur milljarða evra árlega. T.d. er sjávarútvegur Bretlands ekki svipur hjá sjón með fækkun starfa um 70 - 80 %. Í sumum tilvikum er fimm sinnum magni þess afla kastað, sem komið er með að landi, sem vakið hefur gífurlega reiði almennings (sbr. fishfight.net). Á Norðursjó er helmingi aflans um einni milljón tonna af príma þorsk og ýsu fleygt dauðum í hafið vegna stefnu ESB. Áframhaldandi gegndarlaus ofveiði og útrýming á fiskistofnum heims mun að mati ýmissa vísindamanna leiða til hruns arðbærra fiskveiða fyrir árið 2048.

Ef ESB tæki upp fiskveiðistefnu Íslendinga og stundaði ábyrgar fiskveiðar í stað 72 % ofveiði og útrýmingar fiskistofna, myndi það skapa yfir 100 þúsund ný störf og aukatekjur, sem væru fimm sinnum hærri en núverandi fiskveiðistyrkir ESB. Ekkert bendir þó til þess, að ESB muni fylgja fordæmi Íslendinga í náinni framtíð. Íslenska ríkisstjórnin hefur nú kastað þeirri sprengju á best rekna sjávarútveg í heimi, að greinin aðlagi sig að fordæmalaust illa rekinni og ríkisstyrktri fiskveiðistefnu ESB. Gangi það eftir mun starfsmaður í íslenskum sjávarútvegi ekki lengur skapa tífaldar gjaldeyristekjur miðað við starfsmann annarra greina né sjávarútvegur um helming allra gjaldeyristekna þjóðarinnar.

En ríkisstjórnin heldur áfram að draga þjóðina á asnaeyrum með því að aðlaga Ísland að ESB á meðan þjóðinni er sagt að bíða og sjá, hvað kemur úr pakkanum. Með því að taka stóran hluta kvótans eignaupptöku og færa í hendur stjórnmálamanna til að koma á ”réttlátari” skiptingu gróðans, er ríkisstjórnin að hrifsa til sín farsæla stjórn greinarinnar frá útvegs- og sjómönnum. 70% skattur á hagnað útgerðarinnar kippir endanlega rekstrargrundvelli undan íslenskum sjávarútvegi og þá fær ríkisstjórnin vilja sínum framgengt að aðlaga atvinnugreinina að stjórnar- og styrkjakerfi ESB. Þar með gerir ríkisstjórnin ESB-heimavinnuna sína áður en kaflinn um sjávarútveginn verður opnaður og grundvöllurinn lagður að yfirtöku ESB á aðalauðlind Íslands fiskmiðunum. Innleiðing evrunnar mundi síðan útrýma því, sem eftir væri af sveigjanleika og samkeppnishæfni greinarinnar og dauðadómur yfir fjöreggi þjóðarinnar endanlega staðfestur.

Ég hef áður í greinum í MBL (Ásælni ESB í fisk annarra landa 1. sept. 2010 og Hver gefur ESB undanþágu frá ofveiði og útrýmingu fiskistofna 23. ágúst. 2011) gert grein fyrir rannsóknum og niðurstöðum NEF (New Economic Foundation, neweconomics.org), sem gefið hefur út skýrslur um ofveiðar ESB. Með því að reikna út ofveiðar í heiminum og bera saman við aflaverðmæti í ESB hefur NEF komist að þeirri niðurstöðu, að ESB gæti aukið afla sinn um 3,53 milljónir tonna árlega með því að hætta ofveiðum og taka upp ábyrgar fiskveiðar. Mundi aflinn þá duga fyrir ársþörf íbúanna og ESB verða sjálfu sér nógt í stað þess að verða sífellt háðara öðrum. Með því að rækta upp sjálfbæra fiskstofna með ábyrgum veiðum eins og gert er á Íslandi, gæti viðbótaraflinn aukið fiskveiðitekjur ESB mótsvarandi 3,19 milljörðum evra. Það er fimm sinnum hærri upphæð en árlegir styrkir ESB til greinarinnar. Færi ESB að ráðum íslenskra útvegsmanna gæti ESB því skapað yfir 32 þús. ný störf við veiðarnar og að auki 69 þús. störf við fiskvinnslustöðvar eða samtals yfir 100 þús. ný störf. Mundi ekki veita af því hjá ríkjasambandi með íbúafjölda mótsvarandi 75 Íslöndum opinberlega á atvinnuleysisskrá.

En þannig hugsa ekki óábyrgir stjórnmálamenn, sem ríghalda í stórveldadraum og misheppnaðan gjaldmiðil og láta sig raunveruleikann engu skipta. Þjóðin hefur áður leiðbeint ráðvilltum stjórnmálamönnum en nú þarf annað að koma til, því ríkisstjórnin er hreint ekkert ráðvillt í því markmiði sínu að eyðileggja lýðveldið Ísland og leggja fjöregg þjóðarinnar í líkkistuna í Brussel. Þar sem spádómurinn um Kúbu norðursins vill ekki rætast reynir íslenska ríkisstjórnin allt til að koma þjóðinni á þann stað. Vandamálið er hins vegar, að ástandið í mörgum evruríkjum er orðið það slæmt, að Kúba raunveruleikans verður að gósenlandi í samanburði. Núna þarf þjóðin að snúa bökum saman með þeim þingmönnum, sem sýnt hafa, að þeir standi við gefið drengskaparheit að fylgja stjórnarskránni en krefjast reikningsskila við hina. Þingmenn meirihlutans, sem í tvígang hafa fengið vottorð Hæstaréttar um stjórnarskrárbrot, eru búnir að fyrirgera rétti sínum til þingsetu með broti á þingskapareið sínum. 

ESB þarf á gjöfulum fiskimiðum Íslendinga að halda til að mæta sífellt minni fiskveiðum á eigin miðum. Fiskveiðistefna ESB leiðir að mati ýmissa haffræðinga til hruns arðbærra fiskveiða eftir u.þ.b. 30-40 ár. Hvaða þingmenn á Alþingi vilja leiða þetta brjálæðisskipbrot yfir þjóðina í nafni ESB draumsins? 

Gústaf Skúlason                                                                                                                
Greinin birtist í Morgunblaðinu í apríl

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband