6.1.2016 | 05:14
Fimm fyrrv. ráðherrar hafa verið nefndir í tengslum við forsetaframboð, en enginn þeirra boðið sig fram
Guðni Ágústsson er einn þessara manna, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, er önnur, en hinir Davíð Oddsson, Jón Bjarnason og Ragnar Arnalds.
Í ljósi þess, að dýrmætast er að fá fullveldissinna á forsetastól, verður að segjast eins og er, að úr þessum hópi koma fjórir hikstalaust til greina, þ.e. allir utan Katrín, sem tók þátt í ESB-umsókn Össurar og Steingíms J., þvert gegn ótvíræðu kosningaloforði þess formanns Vinstri grænna á þeim tíma. Sá dýrkeypti verknaður Steingríms er þó engin ástæða til að útiloka fyrir fram alla vinstri menn sem óalandi og óferjandi í fullveldismálum, og þess vegna er þeim mun ánægjulegra að geta nefnt hér tvo öfluga fullveldissinna af vinstra kanti stjórnmála, Ragnar Arnalds og Jón Bjarnason. Eru báðir afar vel máli farnir og hvorugur þeirra mjög langt til vinstri.
Af hægri síðu hefur Davíð Oddsson trúlega mesta reynslu sem stjórnmálamaður, þ.e. sem borgarstjóri og sem forsætisráðherra lengst allra Íslendinga. Mjög eindregin, margítrekuð afstaða með fullveldisréttindum landsins í leiðurum Morgunblaðsins, þar sem Davíð er aðalritstjóri, tekur af öll tvímæli um afstöðu hans gegn inntöku lands og þjóðar og fiskimiða landsins í Evrópusambandið. Jafnvel í nýafstaðinni netkönnun Útvarps Sögu, sem á sér marga vinstri sinnaða hlustendur og þar sem agiterað hafði verið fyrir einum slíkum sérstaklega, sem jafnframt býður sig fram, fær Davíð þó næstflest atkvæði (og án framboðs!).
Hér til mætti einnig nefna fleiri fyrrverandi ráðamenn, s.s. tvo fyrrv. menntamálaráðherra, Ingvar Gíslason og Björn Bjarnason, en sá síðarnefndi varð síðar dóms- og kirkjumálaráðherra, og það var einnig Sólveig Pétursdóttir, sem helzt kvenna kemur hér til greina úr þessum hópi.
Vitaskuld koma margir aðrir en ráðherrar til greina í embættið á Bessastöðum, og ekki hefur verið skortur á tilnefningum slíkra og tilkynningum um framboð, en hitt er rangt, sem sumir telja, að bakgrunnur frambjóðenda megi ekki vera pólitískur. Góð dæmi sanna annað: Sveinn Björnsson, fyrsti forsetinn (1944-1952), hafði ungur verið þingmaður Reykjavíkur, og bæði Ásgeir Ásgeirsson (forseti 1952-1968) og Ólafur Ragnar Grímsson (1996-2016) höfðu starfað, hvor um sig, í tveimur stjórnmálaflokkum og gegnt þar leiðandi stöðum. Njóta þeir allir, auk Kristjáns Eldjárns (1968-1980) og Vigdísar Finnbogadóttur (1980-1996), virðingar vegna starfa sinna sem þjóðhöfðingjar landsins.
Meginmál er aftur á móti hitt, að hér verði ekki samþykkt stjórnarskrárbreyting sem geri framsal ríkisvalds til Evrópusambandsins auðvelt, á sama tíma og þar sé tekið fyrir, að þjóðin geti krafizt þjóðaratkvæðis um að ganga úr því evrópska stórveldi. Það slys má ekki verða á næsta kjörtímabili forseta Íslands, að ráðamenn landsins geti með neinum hætti fyrirgert fullveldisréttindum þess í hendur erlends stórveldis. Þá hefðu þeir þar með gengið þvert gegn baráttu Jóns Sigurðssonar fyrir landsréttindum okkar.
Ekki þarf heldur að efast um, að þorri þjóðarinnar vill viðhalda lýðveldi okkar óskertu. Réttindi þess, m.a. þjóðréttarlega séð, hafa líka verið grunnurinn að útfærslu fiskveiðilögsögunnar hér úr þremur í 200 mílur á aðeins 23 árum! (1952-1975). Eins og Ragnar Arnalds hefur mælt svo réttilega, þá sannaði það, að "sjálfstæðið er sístæð auðlind." Og þetta hefur enn sannazt í makrílmálinu.
En við höfum nú þegar reynslu af því, að ráðamenn á Alþingi hafa gengið þvert gegn eindregnum þjóðarvilja og þjóðarhag: það gerðu 3/4 þeirra, þegar kosið var um síðasta Icesave-frumvarpið. Þess vegna mega menn ekki taka öryggi landsins og sjálfstæði sem gefið, þegar þeir ganga til kosninga um nýjan þjóðhöfðingja á þessu ári. Það ber að halda þessari baráttu uppi á tveimur vígstöðvum: með því að ganga tryggilega eftir því, hver afstaða frambjóðenda er til fullveldisréttinda landsins, og með því að sporna gegn varhugaverðum breytingum á stjórnarskránni í því efni.
INNSKOT: Í þessu birtist einnig þjóðarvilji:
Sú var allan tímann afstaða herra Ólaf Ragnars forseta, að þjóðinni er bezt borgið utan við Evrópusambandið. Megi sú heilbrigða afstaða einnig fylgja næsta eftirmanni hans á Bessastöðum.
Og þetta eru dæmi um hina heilbrigðu þjóðarafstöðu (sbr. einnig hér!):
Þarna eru 7% nokkuð andvíg + 67% mjög andvíg inngöngu Íslands í ESB, en 8% nokkuð hlynnt + 15% mjög hlynnt inngöngu landsins í ESB. 74% standa þannig með fullum landsréttindum okkar, en aðeins 23% með alvarlegri skerðingu þeirra. Takið líka eftir hinum ólíku hlutföllum hinna mjög ákveðnu í báðum hópunum; einnig það sýnir staðfestu þjóðarinnar (mjög hlynntir inngöngu í ESB eru þannig 4,5 sinnum færri en þeir, sem eru mjög andvígir henni).
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Löggæsla, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Facebook
Athugasemdir
Þú veist að þessar kannanir eru 4 ára gamlar er það ekki?
Jón Bjarni, 7.1.2016 kl. 17:01
Þriggja og hálfs árs.
Jón Valur Jensson, 7.1.2016 kl. 17:46
Væri ekki skynsamlegra að nýtast við nýrri kannanir?
Jón Bjarni, 7.1.2016 kl. 18:49
Þetta sýndi nú afstöðuna að fenginni rúmlega þriggja ára reynslu af gjörðum og stefnu Jóhönnustjórnar. En það er vissulega hægt að birta hér niðurstöður nýrri kannana. -JVJ.
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 7.1.2016 kl. 19:30
Afhverju gerir þú það þá ekki Jón?
Þessi 67% eru t.d. komin niður undir 50% síðan þá.. Eða skiptir það ekki máli?
http://kjarninn.is/frettir/taepur-helmingur-landsmanna-a-moti-inngongu-i-evropusambandid/
Jón Bjarni, 8.1.2016 kl. 02:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.