Fiskiskip ESB-ríkja fá jafnan rétt til veiða í landhelgi hvers ESB-ríkis og heimamenn

  • ... Og ekki batnaði staða þeirra [brezkra trillukarla og bátasjómanna] árið 1973 þegar Bretland gekk í Efnahagsbandalag Evrópu og varð að fallast á sameiginlega sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Hún hafði í för með sér -- eftir stuttan aðlögunartíma -- að fiskiskip allra bandalagsríkja fengu jafnan rétt til veiða í breskri landhelgi og heimamenn.

Guðni Th. Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú, Rv. 2006 (Hafréttarstofnun Íslands), bls. 109.

Merkilegt hvernig sumir berja höfði við stein og neita að trúa þessu. Þetta er þó viðurkennt af þessum ágæta fræðimanni, og allt er þetta í raun fyrir fram ákveðið í löggjöf Evrópusambandsins (beinum arftaka og framhaldi Efnahagsbandalags Evrópu), sbr. hér um jafnan aðgang að fiskimiðunum.

JVJ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hér verð ég að bæta við, til að þetta innslag verði alveg hárrétt, að skip ALLRA ESB ríkja hafa FULLA heimild til að veiða í lögsögu annarra ESB ríkja AР12 SJÓMÍLUM...

Jóhann Elíasson, 27.5.2013 kl. 20:30

2 Smámynd: Óskar

ææ hverjir eru að berja hausnum í alla steina sem fyrirfinnast á svæðinu? Kunnið þið ekki að lesa eða munið þið ekki fyrir horn? Hefðarétturin ræður í 1000þúsundasta skipti og það er engin hefð fyrir því að á miðunum hér við land veiði aðrir en Íslendingar. Svo mundi þjóðin að sjalfsögðu aldrei semja um neitt annað. En endilega haldið þessu jarmi áfram, verst að einhverjar auðtrúa sálir trúa þessari þvælu í ykkur torfkofasinnum.

Óskar, 28.5.2013 kl. 11:04

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er nú ekki eins og þetta atriði hafi ekki verið útskýrt nokkrum sinnum fyrir andsinnuðum.

Það merkilega er og það athyglisverða - að rök og skynsemi skipta hina andsinnuðu engu máli.

Sú staðreynd, málefnaleysið og áróðursofsi andsinna - hann er mjög merkilegt fyrirbrigði.

Merkilegur - en jafnframt óhugnalegur. Vegna þess að við vitum alveg dæmin úr sögunni hvað ofstækisáróður og heimska getur haft alvarlegar afleiðingar. Sagan geymir mörg dæmi um slíkt.

Þessvegna er auðvitað umhugsunarvert að forsætiráðherra framsjallafólks ætlar að berja eina skoðun og einn vilja inní alla þjóðina og hefur það að stefnu. Þetta er mjög umhugsunarvert.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.5.2013 kl. 12:12

4 Smámynd: Daníel Sigurðsson

.....".....engin hefð fyrir því að á miðunum hér við land veiði aðrir en Íslendingar. Svo mundi þjóðin að sjalfsögðu aldrei semja um neitt annað", segir Óskar hér að framan. Þetta er auðvitað ekkert annað en barnaleg bjartsýni enda ekki hægt að semja um neinar undanþágur nema í besta falli til mjög skamms tíma. Halda menn virkilega að stórþjóð eins og Englendingar hefðu þá ekki samið á sínum tíma ef það hefði verið yfir höfuð mögulegt. "Hefðarétturinn" dugði þeim skammt. Eftir margra ára umsóknarferli hefur heldur ekki verið samið um eitt né neitt á milli Íslands og ESB enda um aðlögunarferli að ræða en ekki samningaferli, eins og allir mættu vita nú nema þeir sem berja ítrekað höfðinu við steininn.

Þessir pistlar hér að ofan eftir þá kumpána Óskar og Bjarka eru þessu marki brenndir og það er allt að því átakanlegt að lesa sérstaklega þann síðari sem er algerlega gjörsneiddur málefnalegu inntaki. Kunnugleg brígslirði um heimsku frá þessum bloggara verður auðvitað að vísa beint til föðurhúsanna. Hvernig væri að þið kumpánar færuð að kíkja aðeins út úr ykkar torfkofuglugga. Þið sáuð aldrei til sólar í Icesave-málinu. Hvað skyldi það vera sem alltaf virðist birgja ykkur sýn í öllum málum sem þið tjáið ykkur um á þessum vettvangi? Hvernig væri að þið reynduð að draga gluggatjöldin aðeins til hliðar mæst þegar þið tjáið ykkur um hið þólitíska landslag.

Daníel Sigurðsson, 28.5.2013 kl. 15:38

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hér er enn einu sinni verið að bera á borð þá mýtu að við inngöngu í ESB muni aðrar ESB þjóðir fá að veiða úr okkar fiskistofnum. Hér er ekkert annað á ferðinni en blekkingar til að fá fólk til að taka afstöðu gegn ESB og áframhaldandi samningaviðræðum á fölskum forsendum.

Þó vissulega sé landhelgi ESB ríkja opin fyrir aðrar þjóðir þá er ESB samt sem áður með kvótakerfi. Það fær því engin að veiða neitt úr neinni landheldi innan ESB nema hafa kvóta í þeim fiskistofnum sem þar er að finna.

Þá kemur til reglan um hlutfallslegan stöðugleika sem alveg er ljóst að engin áhugi er á innan ESB að breyta. Hann tryggir það að við fáum allan kvótan úr okkar fiskistofnum og við ráðum alfarið hverjir fá að veiða úr þeim kvóta. Við þurfum því ekki að hleypa neinum útgerðum frá öðrum ríkjum í okkar fiskistofna frekar en við viljum.

Enda er það svo að engin ESB þjóð hefur nokkurn tíman þurft að láta neitt af sínum fiskistofnum af hendi til annars ESB ríkis. Það er enda ekkert sem skyldar það til þess né hefur nokkurn tíman verið þannig.

Hvað varðar flökkustofna þá hafa allir okkar samningar hingað til varðandi slíka stofna sem við eigum með öðrum þjóðum að verið með þeim hætti að þjóðirnar skipta kvótanum úr þeim stofnum á milli sín en fá síðan allar heimild til að sækja sinn hluta hans í landhelgi allra ríkjanna sem eru aðilar að samkomulaginu. Þannig virkar þetta til dæmis með norsk íslenska síldarstofnin og fleir tegundir.

Eini stofnin sem við eigum sameiginlega með ESB ríkjum er makríllin og þegar samningar hafa náðst um hann þá verður sá samningur væntanlega þannig að útgerðir frá aðildarríkjum samningins geta sótt sinn kvóta í landhelgi þeirra allra. Hagkvæmni veiðanna verður einfaldlega meiri þannig fyrir öll ríkin. Því munu útgerðir frá ESB ríkjumn fá heimild til að veiða úr sínum makrílkvóta hér við land og íslensk útgerðarfyrirtæki að veiða úr sínum kvóta í þeirra landhelgi alveg óháð því hvort við verðum aðilar að ESB eða ekki.

En lykilatriðið er það að ESB aðild mun ekki leiða til þess að neinar ESB þjóðir fái heimild til að veiða úr okkar fiskistofnum. Það þarf engar breytingar eða undanþágur frá ESB reglum til þess. Þær eru einfaldlega þannig núna að hver þjóð á sínar fiskveiðiauðlindir og ræður nýtingu þeirra og fátt bendir til annars en þær verði þannig í fratíðinni.

Sigurður M Grétarsson, 28.5.2013 kl. 23:39

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hérna kemur smá fróðleikur fyrir INNLIMUNARSINNANA Óskar og Ómar Bjarka:

ÖLL ríki innan ESB hafa FULL yfirráð yfir Öllum auðlindum sínum AÐ 12 SJÓMÍLUM ALLT SEM ER UTAN 12 SJÓMÍLNA ER SAMEIGINLEGT ÖLLUM RÍKJUM INNAN SAMBANDSINS , Þetta segir í Rómarsáttmálanum, sem er stofnskrá ESB  og hingað til hefur hann verið ófrávíkjanlegur og það er EKKERT sem bendir til breytinga þar á.  Í Skotlandi og Írlandi er mikil óánægja með þetta ákvæði og "samningamenn" landanna virtust ekki gera sér grein fyrir þessu fyrr en búið var að ganga frá INNLIMUNINNIInnan raða ESB hefur ALDREI verið veitt VARANLEG UNDANÞÁGA frá þessu ákvæði og hvað fær menn til  að halda að eitthvað annað verði upp á teningnum hvað varðar Ísland?????????

Jóhann Elíasson, 28.5.2013 kl. 23:41

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þið eigið bágt, ESB-drengir, að mínu mati hinir svæsnustu trúmenn í hópi þeirra, fyrir utan Steina Briem og Jón Frímann Jónsson. Já, Daníel, hér er ekki við mikla rökhyggjumenn að deila, heldur ofsatrúarmenn á málstað stórveldisins, ekki satt?

Sigurður M.G. á t.d. að vita það vel, að það ER áhugi innan Evrópusambandsins á því að AFNEMA "regluna" um hlutfallslegan stöðugleika (þ.e. í fiskveiðum eða fiskveiðihutdeild hvers ESB-ríkis). Um það var einmitt fjallað í grænbókinni árið 2009 sem kom úr ranni Evrópusambandsins, og hvort sem hugmynd um afnám reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika verði hrundið í framkvæmd á næstu árum eður ei (vissulega er þeim möguleika ekki mikið flaggað á meðan Ísland er í 'umsóknarferli'!), þá opinbera þessar hugmyndir samt þá staðreynd, að reglan er EKKERT TIL AÐ TREYSTA Á -- það er ekkert sem getur komið í veg fyrir, að henni verði fleygt út í hafsauga, ef ESB og valdakjarni þess kýs það, og þeim mun auðveldara mun ESB eiga með þetta sem hagstæð breyting verður á atkvæðavægi fyrir stórþjóðirnar þar 1. nóv. 2014, þegar hlutur sex þeirra stærstu fer úr 49,3% í 70,4%!, en hlutur Íslands yrði 0,06%! (sjá HÉR!).

Þess vegna er fráleitt fyrir okkur Íslendinga að taka mark á því, þegar ógagnrýnir ESB-taghnýtingar reyna að "fullvissa" okkur um, að þessari "reglu um hlutfallslegan stöðugleika" megi treysta! Þeir kjósa í reynd óvissuna um sjálfa lífshagsmuni okkar, vilja skófla út tryggingum stjórnarskrárinnar fyrir því, að við höfum löggjafarvaldið í okkar höndum og ráðum yfir fiskveiðilögsögu okkar, í fánýtu oftrausti þeirra á forgengilega "reglu" þessa Evrópusambands, sem við gætum aldrei ráðið við!

Það er fráleitt að neita því, að ríkjahópur eða sambandsríki, sem hefur innan borðs gamalt heimsveldi, sem barðist svo harkalega gegn einkarétti okkar á fiskimiðunum innan 50 og 200 mílna, að það sendi hingað vígdreka sína (m.a. tóku 22 brezkar freigátur þátt í síðasta þorskastríðinu 1975-1976, og að minnsta kosti 54 árekstrar áttu sér þá stað við varðskipin okkar), það er fráleitt að neita því, að sá ríkjahópur muni slá hendinni á móti því að ná yfirráðum yfir fiskveiðum, sem yrðu ekki fjarri því að verða 25% aukning á öllum fiskveiðum Evrópusambandsins!

Svo er ekki aðeins reglan um hlutfallslegan stöðugleika fallvölt og forgengileg, heldur er sjálf reglan um veiðireynslu í tiltekinn árafjölda líka fallvölt og breytanleg; hún er ekki bundin inn í fastskorðaða stofnsáttmála Evrópusambandsins, heldur breytanlegt reglugerðarákvæði. Henni verður einfaldlega breytt, þegar það hentar ... og hverjum? Jú, þeim valdamestu í valdablokkinni.

En þar fyrir utan nær það skammt að ræða fiskveiðistefnu Evrópusambandsins án þess að nefna kvótaskipti (á milli meðlimaríkja ESB) og kvótahopp (fölsun heimilisfangs útgerðarfélaga), þar sem hægt er að fara framhjá "reglunni" fyrrnefndu (þeirri forgengilegu, sem SMG leggur þó nánast höfuð sitt að veði í ofurtrú á). En kvótahoppið hefur verið staðfest með dómi ESB-dómstólsins í Lúxemborg um veiðar í lögsögu Breta Norðursjó, dómi sem féll Bretlandi í óhag, en Spáni í hag. Það sama mundi gerast hér, ef Ísland færi inn í þetta ríkjasamband, og þá væri það allt eins Bretland eins og Spánn sem knúð gæti fram endurtekningu þess ESB-dómstóls-úrskurðar, Íslandi í óhag, en þeim í hag.

Jón Valur Jensson, 29.5.2013 kl. 01:06

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og ef Stóra-Bretland varð að lúta CFP, sameigilegu fiskveiðistefnunni Evrópusambandsins, hvers vegna myndi það ekki eiga líka við um Ísland, ef ráðamenn hér drægju landið inn í þetta stórveldi?!

Jón Valur Jensson, 29.5.2013 kl. 20:57

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jóhann Elíasson. Þessi svokallaði "fróðleikur" hjá þér er svo mikil dómsdagsþvæla að það hálfa væri nóg og sýnir að þú hefur ekki hundsvit á ESB. Staðreyndin er sú að allar auðlindir ESB ríkja eru þeirra einkaeign. ÞAÐ ERU ENGAR AUÐLIDNIR SAMEIGINLEGAR. Ekki ein einasta. Brtetar eiga sína olíu þó olíulyndirnar séu langt tuan 12 mílna.

Þarna ert þú að rugla saman aðgangi að lögsögu og veiðirétti eða kvóta. Staðan er sú að flestir fiskistofnar ESB ríkjar eru innan fleiri en einnar lögsögu. Þær eiga því sameiginlegan veiðirétt úr þeim stofnum sem þær hafa skipt sína á milli með kvóta fyrir hvert ríki. Sameiginlega fiskveiðistefna ESB gengur út á það að útgerðir sem eiga kvóta í ákveðnum fiskistofni eru ekki háðar því að veiða sinn kvóta innan lögsögu síns ríkis. Það er gagnkvæmur réttur þeirra til að ná í hann innan lögsögu hinna ríkjanna en aðeins í því magni sem kvóti þeirra segir til um.

Þar sem ekkert ESB ríki er með nýlega veiðireynslu úr okkar fiskistofnum þá mun engin útgerð frá öðru ESB ríki fá kvóta úr okkar fiskistofnum og þar með mun engin þeirra fá heimild til að veiða úr þeim. Engin okkar staðbundnu stofna heldur til í lögsögu ESB ríkja þannig að það er engin sameiginlegur staðbundin stofn sem útgerðir frá öðrum ESB ríkjum munu hafa heimildir til að veiða úr.

Hvað flökkustofna varðar þá er makríllinn eini flökkustofnin sem við nýtum sem heldur sig líka í lögsögu einhvers ESB ríkis. Það er því eini fiskostofnin sem ESB ríki munu fá heimild til að veiða úr innan okkar lögsögu og við í þeirra lögsögu. Það að hafa kvóta í makríl gefur þeim útgerðum sem hafa kvóta í honum engan rétt á að veiða aðrar tegundir í okkar lögsögu.

Fullyrðingin um að við þurfum að láta okkar fiskistofna að hendi að einhverju leyti við inngöngu í ESB er því ekkert annað en innistæðulaus hræðsluráróður ætlaður til að blekkja fólk til að vera andsnúið ESB aðild út frá forsendum sem ekki standast.

Sigurður M Grétarsson, 29.5.2013 kl. 22:38

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón Valur. Það er rangt hjá þér að það sé áhugi innan ESB að afnema regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Það voru uppi hugmyndir um það og sú tillaga fór sína leið innan ESB en þegar á hólmin var komið voru það aðeins 3 af 27 þjóðum ESB sem studdu þá hugmynd. Ástæðan er sú að allar stóru fiskveiðiþjóðir ESB eru hræddar um að missa hlut úr sínum fiskveiðiauðlindum ef eitthvað verður hvokað frá reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Það er því búið að taka þá hugmynd út af borðinu og nánast engar líkur á að hún fari aftur upp á borðið hvað þá að hún verði samþykkt.

Hvað kvótahopp varðar þá komust var þetta vandamál á tímabili i Bretlandi aðallega vegna þess að þeir sjálfir nýttu sér ekki þær heimildir sem þeir höfðu til að koma í veg fyrir það. Það var á valdatíma Tatcher stjórnarinnar sem samkvæmt hugmyndafræði frjálshyggjunnar vildi setja sem minnstar skroður við atvinnustarsemi. Þegar aðrir valdhafar tóku við sem höfðu aðrar hugmyndir um þetta settu þeir reglur sem eins og þú bendir á ESB dómstóllinn dæmdi ólöglegar. Í framhaldi af því voru settar reglur í samstarfi Breta og framkvæmdaráðs ESB sem standast ESB reglur og tekur á þessu vandamáli. Þær reglur ná þó ekki til fortíðarinnar. Kvótahoppið er því ekki stórt vandamál hjá Bretum í dag.

Aðrar ESB þjóðir fóru aðrar leiðir og kvótahopp hefur ekki verið vandmal hjá þeim. Þetta vandamál var því einskorðað við Bretland vegna þeirra eigin aðferða við úthlutun veiðiheimilda. Til dæmis hafa Danir, stærsta fiskveiðiþjóð ESB í tonnum talið, ekki fengið einn einasta spænskan togara í sína lögsögu þau 40 ár sem þeir hafa verið í ESB. Reyndar hefur danskur sjávarútvegur vaxið eftir að þeir gengu í ESB þvert á dómsdagsspár ESB andstæðinga þar í landi.

Þú talar um hvað okkur bjóðist í þessum samanborið við Breta. Því er til að svara að slíkt hefur aldrei farið eftir stærð þjóða hjá ESB. Það er alveg jafn mikið tillit tekið til hagsmuna lítilla þjóða innan ESB eins og stærri þjóðanna. Það sem ræður vilja ESB til að hliðra til í ákveðnum málaflokkum gagnvart tilteknum ESB ríkjum hefur alltaf ráðist af mikivægi þess málaflokks hjá viðkomandi ríki. ESB hefur ALDREI samþykkt neinar reglur sem ganga gegn grunvallarhagsmunum einstakra aðildarrríkja. Í því efni hefur stærð ríkjanna aldrei ráðið úrslitum.

En auðvita er aldrei hægt að útiloka að eitthvað breytist innan ESB í framtíðinni hversu ólíklegt sem það er. En ef svo ólíklega færi að fiskiauðkindum okkar væri ógnað vegna aðildar okkar að ESB þá er alltaf opin leið fyrir okkur að ganga aftur úr ESB. ESB er nefnilega hvorki ríki eða stórveldi heldur samstarfsvettvangur 27 og eftir 1. júlí 28 sjálftæðra og fullvalda lýðræðisríkja Evrópu. Í Lissabon sáttmálanum er tryggður réttur ríkja til einhliða úrsagnar úr ESB. En jafnvel þó svo væri ekki þá er ekkert sem getur stoppað ríki í því að ganga úr ESB vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þvert gegn bullinu í sumum ESB andstæðingum þá halda ríki sjálfstæði sínu og fullveldi þó þau gangi í ESB og geta því yfirgefið þann samstarfsvettvang ef þeim sýnist svo.

Sigurður M Grétarsson, 29.5.2013 kl. 22:56

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tekurðu eftir því, Sigurður M.G., að þú ert ekki að vitna í nein lög ESB í þessu efni?! Og þegar þú svarar mér, þá býrðu þér til gervirök til að slást við. Var ég eitthvað að tala um eignarrétt í þessu sambandi? Nei, heldur veiðiheimildir.

Þar að auki svararðu hvorki því, sem fram er komið, að almenna reglan í ESB er (með orðum kannski samherja þíns í stjórnmálum) Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings), "að fiskiskip allra bandalagsríkja fengu jafnan rétt til veiða í [...] landhelgi [hvers ESB-ríkis, innsk. jvj] og heimamenn," og þar er ekkert áskilið, að þau þurfi að hafa veiðireynslu til þess, né að sú fiskveiðilögsaga þurfi að liggja upp að einhverri annarri.

Þetta er hin sáttmálabundna meginregla og hefur nánast stjórnarskrárgildi umfram reglugerðina einberu og breytanlegu (eða burtkastanlegu) um hlutfallslegan stöðugleika miðað við veiðireynslu.

Drögum allt ofangreint saman í nokkur meginatriði:

1. Grunnreglan er ljós: jafn aðgangur að fiskimiðunum (lestu!)

2. "Reglan" um hlutfallslegan stöðugleika er forgengileg og ekkert til að reiða sig á. Til marks um það máttu hafa, að þegar Norðmenn voru í umsóknarferli, vildu þeir fá einmitt þessa reglu múraða og naglfesta inn í sinn "aðildarsamning", eins og sumir kalla það (accession treaty, inntökusáttmála), EN FENGU EKKI, hvernig sem þeir báðu. Brusselmenn VILJA EKKI gera "regluna" eilífa. Að ganga í ESB með þetta hangandi yfir, að Brusselvaldið breyti eða fleygi "reglunni" í ráðherraráðinu (þar sem samanlagðir allir aðrir en við hefðu 99,94% atkvæðavægi, þar af sex stærstu ríkin 70,4%!), það er nánast verra en rússnesk rúlletta.

3. Þá getur Evrópusambandið leikandi breytt veiðireynslu-viðmiðinu upp í miklu lengri tíma en talað var um við Norðmenn. Mismunandi árafjölda-viðmið er þar líka eftir fisktegundum og auðvelt að hringla með þetta, jafnvel svo langt, að að því gæti rekið, að Bretar o.fl. gætu farið í skaðabótamál við okkur vegna þorskastríðanna, eins og dr. Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti, hefur bent á.

4. Svo eru það þessi atriði um kvótaskipti og kvótahopp, sem hjálpa til að komast auðveldlega framhjá reglugerðinni þeirri arna, meðan hún gildir ennþá, og engu af þessu svarar þú, heldur þylur hér mál þitt eins og utanbókalestur upp úr gallaðri kennslubók.

Það atvinnufrelsi, sem Evrópusambandið byggir á, myndi opna Ísland fyrir uppkaupum á útgerðum og fiskvinnsluhúsum. Þetta kjósa aðeins menn eins og þú. Það er eins og það vanti í slíka nokkrar blaðsíður eða hinn minnsta snefil af þjóðrækni.

Jón Valur Jensson, 29.5.2013 kl. 23:14

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sigurður M. Grétarsson gæti líka sparað sér auka-heilabrot með því að lesa þessa grein eftir fiskifræðinginn þaullærða og margreynda Jón Kristjánsson (grein sem birtist hér):

Jón Kristjánsson fiskifræðingur ritar:

Fullyrðingar ESB-sinna um að við höldum yfirráðarétti okkar yfir fiskimiðunum með því að semja sérstaklega við ESB eru orðnar afskaplega þreytandi. Þær eru rangar, menn þurfa ekki annað en að lesa sáttmála sambandsins til að komast að því að þar gildir reglan um "equal access" [jafnan aðgang] fyrir allar þjóðir sambandsins.

Við Magnús Þór Hafsteinsson, ásamt Friðþjófi Helgasyni myndatökumanni, vorum í Peterhead í Skotlandi 2003 og Magnús tók þá viðtal við Tomas Hay, formann skosku sjómannasamtakanna FAL, en hann hætti nýlega aldurs vegna og er nú heiðursformaður samtakanna.

Tom Hay segir þar allt sem segja þarf um yfirráða þjóða í ESB yfir eigin fiskimiðum.

Þetta er mjög sterkt viðtal og ætti að vera skyldulesning öllum, sem um sjávarútvegsmál fjalla.

Aðalástæðan fyrir minnkun breska fiskveiðiflotans er stöðugur niðurskurður aflaheimilda, sem ESB ákveður í takt við ráðleggingar ICES. Það þýðir lítið fyrir þá að mótmæla niðurskurði, það er Brussel sem ákveður kvótana. Þar er nú við stjórn grísk frú, sem hefur lítið vit á fiskveiðum og er haldin græningjahugsjónum.

Gleymum ekki heldur að Samherji komst yfir allan úthafsveiðikvóta Breta með því að kaupa útgerðir, sem voru í kröggum.

Það er fjarstæða að halda því fram að við getum fengið að halda íslenskri stjórn á okkar miðum eftir inngöngu í ESB. Bretar, já einmitt Bretar, hafa sagt að þeir myndu aldrei samþykkja að Íslendingar fengju varanlegar undanþágur frá CFP [Sameiginlegu fiskveiðistefnunni hjá ESB], en allar þjóðir verða að veita samþykki sitt við slíku ef svo ólíklega vildi til að þetta kæmi til athugunar.

Jón Kristjánsson.

Jón Valur Jensson, 29.5.2013 kl. 23:30

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo mætti SMG og fleiri með honum líta aðeins til þessa:

Þjóðir Evrópusambandsins eru farnar að læra af reynslunni:

Íbúar ESB-landa treysta ekki ESB!

26. apríl 2013

Í Rúv-frétt sumardaginn fyrsta: Íbúar ESB-landa treysta ekki sambandinu, segir svo:

“Traust almennings á ESB í sex stærstu aðildarríkjum þess hefursnarminnkað undanfarin fimm ár.
Þetta kom fram í könnun sem gerð var í nóvember í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Ítalíu, Spáni og Póllandi sem Lundúnablaðið Guardian greinir frá. Í fimm af löndunun sex vantreystir meirihlutinn sambandinu. Mest er vantraustið á Spáni, þar vantreysta 72% sambandinu, en 23% gerðu það í sams konar könnun fyrir fimm árum. Í Bretlandi vantreysta 69% sambandinu, en 49% gerðu það fyrir fimm árum. Í Þýsklandi fór vantraustið úr 36% í 59% á fimm árum. Í Frakklandi úr 41% í 56%, á Ítalíu úr 28% í 53% og í Póllandi úr 18% í 47%. Ríflega tveir af hverjum þremur íbúum ESB-landa búa í löndunum sex.” (Tilvitnun í Rúv lýkur. Auðkennt hér, JVJ.)

Hermt er, að langmesta traust sem fyrirfinnst í allri Evrópu (og þótt víðar væri leitað) á fyrrnefdnu Evrópusambandi eigi sér tilvist í nokkrum skrifstofum utanríkisráðuneytis Íslands við Rauðarárstíg, þ.e.a.s. eigi sér enn tilvist þar næstu tvo dagana eða svo, en síðan ekki söguna meir. 

Jón Valur Jensson, 30.5.2013 kl. 00:24

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta var pistill sem ég birti á Vísisbloggi 26. fyrra mánaðar.

Jón Valur Jensson, 30.5.2013 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband