Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.7.2013 | 23:29
Króatar fá ENGAR undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB sem gefur Ítölum o.fl. afnot af króatískri landhelgi upp að 12 mílum!
Það SAMA mun gerast hér, ef kvislingar okkar fá að ráða ferðinni ...
- Það fóru alls engar samningaviðræður fram, við náðum engum árangri í ferlinu. Við komumst aðeins að raun um að það var ekkert í boði annað en að samþykkja það sem boðið var upp á. Þetta er haft eftir króatíska sjómanninum Danilo Latin í frétt Reuters en fjölskylda hans hefur haft viðurværi sitt af sjósókn í fjóra ættliði. Króatía gekk formlega í Evrópusambandið á miðnætti í gær í kjölfar viðræðna við sambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu. (Mbl.is.)
Hér er ekki um lítið hagsmunamál að ræða fyrir hina 4,4 milljóna þjóð Króatíu. Þótt henni hafi boðizt tímabundin aðlögun í smávægilegum atriðum, fær hún enga undanþágu til frambúðar frá ESB-reglunni um sameiginlegan aðgang að fiskimiðunum og fullan rétt borgara í hvaða ESB-ríki sem er til að kaupa sig inn í fiskveiðileyfi, jafnvel innan 12 mílnanna! Sjá um það meðfylgjandi frétt (tengill hér neðar).
- Fram kemur í fréttinni að flestir þarlendir sjómenn, sem séu um 3.700, óttist að inngangan kunni að hafa í för með sér endalok króatísks sjávarútvegar en í viðræðunum við Evrópusambandið var samið um nokkrar tímabundnar aðlaganir að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, meðal annars varðandi notkun veiðarfæra og fiskveiðar til eigin neyslu. Ég er hræddur um að margt eigi eftir að koma okkur óþægilega á óvart, segir Latin ennfremur og vísar þar meðal annars til aukinna takmarkana á sjósókn, minni niðurgreiðslna og kröfu um breytt veiðarfæri sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað.
- Hafa áhyggjur af ásókn ítalskra sjómanna
- Fram kemur í fréttinni að flestir aðrir sjómenn í strandhéröðum Króatíu deili áhyggjum Latins. Þeir telji að króatísk stjórnvöld sem sömdu um inngöngu landsins í Evrópusambandið hafi ekkert gert til þess að standa vörð um hagsmuni þeirra. Þar segir ennfremur að inngangan muni hafa í för mér sér að fiskiskip frá öðrum ríkjum sambandsins muni fá aðgang að efnahagslögsögu Króatíu. Mestar áhyggjur heimamanna í þeim efnum snúa að ítalska fiskiskipaflotanum. (Mbl.is.)
- Haft er eftir Miro Kucic, aðstoðarlandbúnaðarráðherra Króatíu, að margfalt meiri fisk sé að finna í Króatíumegin í Adríahafinu en Ítalíumegin. Hagsmunir Ítala af því að komast í króatísk fiskimið væru því miklir og því mikilvægt að vinna að því með ítölskum stjórnvöldum að vernda fiskistofnana á svæðinu. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að 12 mílna landhelgi Króatíu sé eingöngu fyrir króatíska sjómenn.
Í 2. lagi: Þessi einkaafnot Króata að 12 mílunum (einungis!) eru ekki einu sinni trygg! sjá neðar!
Í 3. lagi: Ekki aðeins Ítalir, heldur hvaða ESB-þjóð sem er getur nú gengið að króatísku fiskveiðilögsögunni utan 12 mílna. Þar koma Frakkar og Spánverjar helzt til greina, með tugþúsundir atvinnulausra sjómanna og vannýtt fiskiskip. Spánverjum er ekkert að vanbúnaði að sækja innst í Adríahafið, þeir eru við austurströnd Norður-Ameríku, Grænland, Senegal í A-fríku og suður með allri vesturströnd Afríku með sinn mikla flota stórvirkra verksmiðjutogara.
- En Latin segir að engin trygging sé fyrir því að Króatar sitji einir að 12 mílunum. Ítalskar útgerðir þurfi einungis að semja við króatískan sjómann sem sé reiðubúinn að selja veiðileyfi sitt og hætta sjálfur starfsemi og stofna síðan eigið fyrirtæki í Króatíu. (Mbl.is, áfram byggt á Reuters-fréttinni; leturbr. hér.)
Svo spá þessir vonsviknu menn í, að inn komnir í Evrópusambandið geti þeir reynt að hefja baráttu fyrir hagsmuni króatískra sjómanna á vettvangi þess, "í ljósi sérstakra aðstæðna í Adríahafi"! Og jafnvel þótt það ólíklega gerðist, að smáríkinu tækist að fá samþykkt frávik frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB (CFP), þá "kunni það að vera of seint" skaðinn hafi þá þegar átt sér stað.
En Króatar eru líka raunsærri um sumt en ýmsir ESB-bjartsýnisglóparnir hér á landi:
- Það var ekki hægt að ætlast til þess að Evrópusambandið samþykkti okkar lög í viðræðunum, segir Kucic.
Hin afleita reynsla af ESB-inntöku Slóveníu fyrir sjávarútveg þar
Slóvenía liggur milli Ítalíu og Króatíu. Á Istria-skaga sem skiptist milli þessara þriggja landa, var sjávarútvegur ábatasamur fyrir einum áratug, en hefur hnignað "vegna verri stöðu fiskistofna og aukinnar skriffinnsku" (Mbl.is.)- Hliðstæða sögu segir slóvenski sjómaðurinn Loredano Pugliese sem gerir út frá hafnarborginni Izola. Hann segir að staða sjávarútvegsmála í Slóveníu hafi sífellt orðið verri undanfarin ár en landið gekk í Evrópusambandið árið 2004. Þegar hafi orðið mikill samdráttur í greininni. Izola hafi áður verið þungamiðjan í slóvenskum sjávarútvegi en 30 fiskiskip séu nú gerð út frá borginni samanborið við 400 fyrir áratug. Pugliese segir fiskveiðistjórnun sambandsins einkum bera ábyrgð á þessari þróun. Ef fer sem horfir segir hann enga sjómenn verða eftir á svæðinu og hann óttist að það sama verði raunin í Króatíu. (Mbl.is.)
Vilja nú ekki ESB-sinnarnir fagna þessum gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í krafti hinnar hjálpræðislegu ESB-"aðildar" Slóveníu og óska Króötum annarrar eins blessunar?!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Króatískir sjómenn óttast framtíðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.7.2013 kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.6.2013 | 23:42
Beethoven samdi ekki Óðinn til gleðinnar fyrir nýtt stórveldi, ESB
Eins og fyrri daginn hremma ýmsir algeng tákn og jafnvel listaverk sjálfum sér til hagsbóta eða dýrðar. Það á við um s.k. "þjóðsöng Evrópusambandsins". Beethoven getur farið að snúa sér við í gröfinni, þegar vitnast í æ meiri mæli, hvernig þetta fyrrum einbera tolla- og fríverzlunarbandalag breytist í æ valdfrekara og herskárra stórvelda-valdaapparat sem tekur vitaskuld ekki tillit til allra hinna smáu, hvort sem þeir heita Grikkir, Íslendingar eða Færeyingar.
Af öllum Evrópuþjóðum hefðu þessar tvær síðastnefndu mestu að tapa að gefa upp æðsta fullveldi í sínum löggjafar- og framkvæmdavaldsmálum til þessa bandalags sem eðlilegt er að kenna við gömlu nýlenduveldin í álfunni, enda munu þau hafa þar um 73% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði ("ráðinu") og leiðtogaráði Evrópusambandsins frá 1. nóv. 2014, en hin 17 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar um 27% atkvæðavægi! -- og þá dugar hvorki Grikkjum né Króötum að kalla "Elsku mamma!" til Brussel.
Í Króatíu tókst Evrópusambandinu með massífri áróðursstarfsemi sinni að auka fylgi sitt um 6 til 11% af heildaratkvæðum fram að þjóðaratkvæðagreiðslu á liðnu ári, en áður hafði fylgi þess verið um 55-60% í skoðanakönnunum (66,27% í þjóðaratkvæðinu). Hefðu mótaðilarnir hins vegar haft sambærilega yfirburði í áróðursfé, hefðu úrslitin trúlega orðið mjög jöfn í þjóðaratkvæðinu og jafnvel á hinn veginn, þrátt fyrir að stjórnmálastéttin stæði nánast öll með stórveldinu. Eins og fyrri daginn er þeirri stétt iðulega illa treystandi, eins og við Íslendingar þekkjum engu síður en aðrar þjóðir eftir margföld svik leiðtoga okkar.
Á hitt skal líka minnt, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einokunar-réttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef menn létu hér narrast yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB -- Olli Rehn, Emma Bonino, Stefan Füle, Damanaki, Barroso -- hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.
Þegar Beethoven, sem ungur hreifst af Napóleon sem 1. konsúl og samdi til hans um 1804-1805 þriðju symfóníu sína, Eroica (Hetjuhljómkviðuna), áttaði sig stuttu síðar á stórveldisdraumum Korsíkumannsins, þá reiddist hann svo, að hann reif tileinkunnina til Napóleons framan af handriti verksins.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Króatía gengin í Evrópusambandið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.7.2013 kl. 02:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2013 | 21:58
Hættið annaðhvort að brosa eða yggla ykkur, ESB-menn!
Uppgerðarjákvæðnin í sendimönnum ESB hingað er engu lík nema öðru eins smjaðri af hálfu pólitískra frambjóðenda fyrir kosningar. Kurteisishjalið er grynnra en harðvítug andstaða þeirra við okkur og Færeyinga vegna fiskveiða í okkar eigin efnahagslögsögu, og þjóðinni má ekki líða úr minni liðveizla Evrópusambandsins við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga í ófyrirleitinni, ólögvarinni og ólögmætri aðför þeirra að okkur í Icesave-málinu.
Og svo eru okkur sagðar fagnaðarsögur af Króötum af því tilefni, að land þeirra verður nú hið 28. í ESB, en hinu sleppt að nefna, að þjóðin er ekki einhuga um áhugann á að renna inn í Evrópusambandið. 66,27% greiddu atkvæði með því í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2012, en 33,13% greiddu atkvæði á móti. Þetta var niðurstaðan eftir mikinn kosningaáróður, en frá maí 2011 höfðu skoðanakannanir sýnt 55 til 63% stuðning við "inngöngu í ESB". Þarna hefur miklu ráðið um endanlega útkomu, að bæði stjórnarflokkarnir króatísku og stjórnarandstaðan voru fylgjandi Evrópusambandsinntöku landsins, og fjárráðin voru þeim megin.
"Þetta er subbulegt!" sagði þjóðhollur maður í símtali til undirritaðs, þegar hann sagði frá því, að nú boði Evrópustofa hátíðarhöld í Iðnó vegna inntöku Króatíu. Allt er nú notað til að auglýsa þetta gráðuga stórveldisbandalag gömlu nýlenduveldanna í Evrópu. "Nú held ég að það ætti að fara að skora á ríkisstjórnina að loka Evrópustofu," sagði sami maður, enda er þetta allt liður í áróðri með ESB-inntöku Íslands. Þeir einir fagna með 230 milljóna króna "Evrópustofu" sem vilja fullveldi Íslands feigt. Gegn þeim þarf baráttan að harðna og sízt að linast. Það er ekkert gagn að ESB-andstæðum atkvæðum fullveldissinna, sem greiddu götu núverandi stjórnarflokka til valdastólanna, ef þeir sömu flokkar hyggjast hafa þetta kvartmilljarðs áróðursapparat í gangi hér áfram.
En Íslendingar skulu einnig minnast þess, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einkaréttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef gengið yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Undirbúa hátíð vegna inngöngu í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.6.2013 kl. 02:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2013 | 23:30
Vilja Danir Ísland í Evrópusambandið?
Frú Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, talar ekki fyrir munn danskra þegna, þegar hún segir "það alltaf [hafa] verið ósk Danmerkur að Ísland gangi í ESB," en þau orð lét hún falla eftir fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra okkar, í dag. Málið hefur aldrei verið borið undir dönsku þjóðina.
Sigmundur kvaðst sjálfur "ánægður með heimsóknina. Við ræddum Evrópusambandið og stöðu Íslands þar, sagði hann. Þau ræddu meðal annars aukna áherslu á norðurslóðamál, norræna samvinnu og vest-norrænt samstarf." (Mbl.is / Ritzau.)
Mörg innfjálg orð eru látin falla á fundum þjóðaleiðtoga. Hér ber að greina hismið frá kjarnanum. Ríkisapparatið er ekki þjóðin. Kjörnir pólitíkusar eru ekki þjóðin. Þjóðin ein er þjóðin.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Danir vilja Ísland í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.6.2013 | 23:21
Evrópusambandið vill fá að vita hvað gera beri við sína Íslandsviðræðustarfsmenn; óhreinskiptni ríkisstjórnarinnar
Aðferð ríkisstjórnarinnar gengur ekki -- að lognmollast til að "setja aðildarviðræður í hlé" -- og hugnast hvorki kjósendum ríkisstjórnarflokkanna né andstæðingum. Engin svör berast, hvort Þorsteini Pálssyni verði sagt upp störfum og öllu "samninga"-nefndarliðinu með honum eða hvort haldið verður áfram að ausa peningum í þá.
En Evrópusambandið vill fá að vita, hvað það sjálft á að gera við sína eigin starfsmenn, sem stóðu í þessu -- hvort þá megi nota til annarra verkefna eða hvort ríkisstjórn Íslands ætli að ljúka þessu "hléi" sínu, eins og hléum lýkur yfirleitt.
Snýst málið um hugleysi ríkisstjórnarflokkanna, eða toga einhverjir þar í spotta, t.d. síngjarnir sveitarstjórnarmenn sem vilja áframhald IPA-styrkjanna?
Við viljum heiðarlegan ENDI á þessar innlimunarviðræður!
Jón Valur Jensson.
![]() |
ESB telur sig þurfa frekari skýringar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2013 | 11:30
Sjávarútvegur er 100% á valdi ESB
Hressilega er tekið á boðskap dansks sendimanns um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í Staksteinum Morgunblaðsins (sjá einnig afar upplýsandi fréttarfrásögn, viðtengda hér neðar):
Vegna þess hvernig áróðurinn hefur verið hér á landi kemur sennilega ýmsum á óvart hvernig Ole Poulsen, fyrrverandi sviðsstjóri sjávarútvegsmála í danska stjórnarráðinu, talaði á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ.Að vísu þurfti ekki að koma neinum á óvart að hann hljómaði sem talsmaður Evrópusambandsins og stefnu þess í sjávarútvegsmálum, en annað mál er hvernig hann útskýrði stefnuna.
Ole Poulsen dró enga dul á það hver réði ferðinni í sjávarútvegsmálum innan ESB: Það er ljóst að sjávarútvegur er 100% á valdsviði Evrópusambandsins, sagði hann, en ekki á valdi einstakra ríkja.
Og hann benti á, þegar hann var spurður að því hvort Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, að það yrði yfirþjóðleg lagasetning innan Evrópusambandsins, það er ljóst. Sem sagt engin varanleg undanþága.
Hann var einnig spurður út í regluna um hlutfallslegan stöðugleika, sem oft hefur verið sögð til marks um að Íslendingar hefðu ekkert að óttast með aðild, og staðfesti að hægt væri að breyta henni með auknum meirihluta innan ESB.
Augljóst var af orðum danska sérfræðingsins að ríki innan ESB ráða engu um sjávarútveg sinn nema ef ESB leyfir og að slíkt leyfi getur alltaf verið tekið til baka. Hvers vegna geta íslenskir ESB-sinnar ekki viðurkennt svona staðreyndir?
Það væri betur, að ýmsir, sem setið hafa á Alþingi síðustu ár, væru jafn-skýrir í kollinum og ritstjórarnir uppi í Hádegismóum. Pistillinn birtist sl. laugardag.
JVJ.
![]() |
Valdið hjá Evrópusambandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2013 | 13:23
Eftir harkalegar aðgerðir ESB gegn okkur í Icesave-málinu þurfum við sízt á fleiri hótunum að halda. Um 17. júní-ræðu forsætisráðherra
Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í 17. júní-ræðu sinni í morgun.
Við mættum aldrei missa þá sannfæringu að trúa því að Ísland ætti að vera sjálfstætt land, sagði hann.
Hann gekk nokkuð til móts við ESB-sinnana með þeim orðum, að við þyrftum einnig að virða afstöðu þeirra, sem velta því fyrir sér, hvort aðild að Evrópusambandinu myndi styrkja stöðu Íslands (hvað er svona virðingarvert við þá röngu afstöðu? annað má segja um samvizkufrelsi manna til að leita sannleikans, hver með sínum ófullkomna hætti), en hann bætti því við, að við gætum verið sammála um að nú þyrfti sambandið að sanna sig gagnvart Íslandi, og það eru orð að sönnu, því að svo hrapallega hefur þetta stórveldabandalag gamalla nýlenduvelda brugðizt okkur Íslendingum, eins og svo skýrt kom fram í ræðu Sigmundar:
ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.
Þar, eftir upprifjun Icesave-málsins, var hann að vísa til makrílmálsins, en eins og kunnugt er, hefur Evrópusambandið endurnýjað hótanir sínar í okkar garð og þolir ekki að Íslendingar veiði 16% af aflanum í NA-Atlantshafi, þótt sjálft ætli það sér og Norðmönnum margfalt meira!
Hann sagði að í ljósi umræðunnar um áhrif aðildar Íslands að ESB hlytu Íslendingar að líta til þess hvort Evrópusambandið myndi sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar í eigin lögsögu. Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu, sagði Sigmundur Davíð réttilega. Það er gott að hafa þennan einarða hug lykilmanns til varnar þjóðarhagsmunum á næstu mánuðum.
- Eðlilegt að forseti Íslands tjái sig um fullveldið
- Sigmundur Davíð vitnaði til ræðu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, við setningu þingsins fyrr í þessum mánuði, þar sem hann ræddi stöðu Íslands gegn Evrópusambandinu.
- Það hefðu líklega fáir trúað því árið 1944 eða 1994, að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt. (Mbl.is.)
Íslendingar ... hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í ICESAVE-deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.
- Í ræðu sinni kom Sigmund Davíð inná aðgerðir fyrir íslensk heimili. Hann sagði að við myndum ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og við værum minnt á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins. (Mbl.is.)
Í meginatriðum er þessi ræða forsætisráðherra verðug upprifjun á nauðsyn þjóðar til að ráða sér sjálf og hafa "full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum," eins og hann sjálfur kvað að orði.
Menn taka almennt vel og jafnvel fagnandi þessari hátíðarræðu ráðherrans.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Evrópusambandið þarf að sanna sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2013 | 12:35
Afar ólík hlutföll áhuga og áhugaleysis
Samkvæmt könnun Vísis.is, Bylgjunnar og Stöðvar 2 sem gerð var sumarið 2012 var "áhuginn" meinti á ESB þvílíkur, að á móti hverjum einum, sem var mjög áhugasamur um að Ísland gangi í ESB voru nálega fjórir og hálfur mjög andvígir því. Einungis 18% aðspurðra höfðu veika afstöðu í málinu, þ.e. voru annaðhvort nokkuð hlynnt, nokkuð andvíg eða hlutlaus. Yfirgnæfandi meirihluti hafði sterka skoðun á málinu, þar af voru 67% landsmanna mjög andvíg inngöngu Íslands í ESB, en einungis 15% mjög hlynnt. Einungis 3% voru hlutlaus, 8% voru nokkuð hlynnt" og 7% nokkuð andvíg" (heimild).
Þarna voru sem sagt 74% andvíg því, að Ísland gangi í Evrópusambandið, en 22% hlynnt því, en greinilega gerólík samsetning þessara tveggja hópa, því að innan þess síðarnefnda er mikli áhuginn á "jáinu" nær tvöfalt minni en linari áhuginn, þveröfugt við samsetningu hins hópsins, þar sem mikli áhuginn á NEIINU var í margföldum meirihluta!
Það eru slíkar skoðanakannanir, sem einnig verður að athuga vel, þegar menn vilja ráða í styrk andstöðunnar í þssu máli. Greinilega slær hjarta íslenzku þjóðarinnar með fullveldi lands síns.
En nú um stundir, skv. nýjustu skoðanakönnun, eru 70% almennings andvíg því, að Lýðveldið Ísland verði partur af Evrópusambandinu. Er þá til of mikils ætlazt af núverandi stjórnvöldum, sem fengu umboð til að staðfesta einmitt þá afstöðu, að þau geri það í verki, fremur en að halda enn við lýði hinni alræmdu Össurarumsókn, sem átti sér ekki einu sinni stoð í stjórnarskrá?
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2013 | 00:43
Er Lidington, brezkur Evrópumálaráðherra, að heimsækja rétt land?
Hvers vegna allar þessar heimsóknir ESB-ráðamanna hingað? Hver bauð hingað brezka Evrópumálaráðherranum, fyrri eða núverandi ríkisstjórn? Er hann að reyna að hafa hér áhrif til ESB-inntöku Íslands í þágu Bretlands og ESB? Hvert er erindi hans við ný stjórnvöld á Íslandi, sem segja ESB-málið í "hléi" (í stað þess að vera ærleg við landsfundi flokka sinna og kjósendur og afturkalla Össurarumsóknina)? Er hann að reyna að snúa þeim Bjarna og Sigmundi?
Svo mun hann flytja hér erindi um Bretland og Evrópusambandið. (Það er undarlegt, að í frétt Mbl.is stendur: "... og halda erindi á fundi í Háskóla Íslands um Bretland, Ísland og Evrópusambandið að því er segir á heimasíðu breska sendiráðsins," en þegar sú heimasíða er skoðuð, stendur þar: "Minister for Europe, David Lidington MP, will be speaking at a symposium at the University of Iceland at midday on 20 June. The theme will be The UK and Europe - our road ahead". -- Þar er sem sagt ekkert minnzt á, að Ísland verði partur af því þema eða efni fyrirlestrarins. Hvort er nú rétt?! Brezka heimasíðan hlýtur sjálf að fara með rétt mál, eða var þemanu kannski breytt þar af einhverjum ástæðum?)
Bretar hefðu gríðarlegan hag að því að ná Íslandi inn í ESB-veldið. Það á fyrst og fremst við um fiskveiðiréttindin sem þeir fengju hér, en einnig um áhrif þeirra á orkumál hér í gegnum ESB-stofnanir (ærnar heimildir eru nú þegar í Lissabon-sáttmálanum til afgerandi áhrifa á orkumál ríkjanna, afhendingu orku og jafnrétti í verðlagsmálum, og það yrði Íslendingum þungur kross í raforkumálum; svo bætast olíumálin við!).
Í utanríkisráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar, í Lundúnaferð hennar, voru brezk stjórnvöld þegar farin að leita hér hófanna í fiskveiðimálum og vilja örugglega ekki verða eftirbátar Spánverja í þeim efnum á Íslandsmiðum og í íslenzkum höfnum.
Hvað á öll þessi gestakoma að fyrirstilla, ef ekki að reyna að hafa hér áhrif á ráða- og áhrifamenn? Hver ráðherrann á fætur öðrum, utanríkis- og Evrópumála, allt upp í forseta (Finnlands), mætir hér til að skrafa bak við tjöldin við ráðamenn, og svo fá þeir jafnan að reyna að hafa sín áhrif líka gagnvart almenningi með því að koma fram í fjölmiðlum, gjarnan í drottningarviðtölum hjá hinum ESB-áhugasama Silfur-Agli.
"Aðildarferlið" á að vera yfirstaðið, búið, punktur og basta! Því var í upphafi komið á með bolabrögðum gegn þjóðarvilja og þess gætt að bera ekki hina naumlega samþykktu þingsályktunartillögu fyrir tæpum fjórum árum undir þjóðina. Jafnframt var sú gróflega framknúna samþykkt Alþingis ólögmæt til úrvinnslu, af því að hún var ekki afgreidd með þeim hætti, sem 16.-19. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um. Undirskrift forsetans vantaði! Samt rauk þáv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, tvívegis með hana út í lönd til að tvístarta sinni umsókn til ESB!
Núverandi stjórnvöld verða ekki fullsæmd af því, ef þau ætla að halda þessu áfram gangandi.
Eða hvað eru þau farin að gera í stöðvun á starfi "samninga"-nefndanna? Hafa Þorsteinn Pálsson og félagar fengið sín uppsagnarbréf? Eiga þeir að verða áfram á launum og nú fyrir alls ekkert? Getur ríkisstjórnin tekið ákvörðun, eða er það henni um megn? Ef þetta síðarnefnda á hér við, hver er þá skýringin?
Og hvernig stendur á því, að "Evrópustofu" er áfram leyft að halda hér uppi sinni áróðursstarfsemi? Nú hefur hún auglýst fund um Evrópusambandið og sjávarútvegsmálin í Vestmannaeyjum! "Stofan" sú arna virðist telja áfram nauðsyn að nota af sinni 230 milljóna Brussel-fjárveitingu til að liðka fyrir ESB hér á landi, eins og áfram sé grænt ljós á ESB-umsókn og innlimun.
Og hvers vegna er Evrópusambandsstofunum báðum ekki lokað, Bjarni og Sigmundur?
Sjá einnig þessa nýju grein: Blaðurfundur í Brussel - tækifæri til hreinskilni látið ónotað.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Evrópuráðherra Breta til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2013 | 17:41
Kvótahopp - arðurinn úr landi
Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu yrðum við að laga lög okkar og reglur að lögum sambandsins, ekki öfugt. Þetta hafa Bretar t.d. fengið að reyna í baráttu sinni við svokallað kvótahopp, en það er eitt þeirra vandamála sem glímt er við innan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Með kvótahoppi nýta útgerðir glufur í reglum til að skrá skip sín í öðrum löndum sambandsins en eigin heimalandi til þess að komast yfir aflaheimildir annars aðildarríkis.
Hér er verið að birta þriðja og síðasta skammtinn úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald af textanum hér ofar:
Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda verði eftir í íslensku samfélagi. Til að verja þá samfélagslegu hagsmuni eru lög sem heimila ekki að erlendir aðilar eignast meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu héldu þessi lagaákvæði ekki. Þar með væri engin trygging fyrir því að arður af sjávarútvegi héldist í íslensku efnahagskerfi.
Neikvæður greiðslujöfnuður við ESB
Beinn fjárhagslegur ávinningur Íslands af aðild að Evrópusambandinu yrði enginn. Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007 myndu beinar greiðslur Íslands til ESB umfram tekjur nema 2,5 - 5 milljörðum króna. Aðildarríki ESB hafa að jafnaði greitt 1,07% af vergum þjóðartekjum árlega til sambandsins. Að hámarki getur þetta hlutfall orðið 1,24%. Sé horft til ársins 2005 hefði Ísland greitt 10,5 milljarða króna til sambandsins.
Tollasamningar féllu úr gildi
LÍÚ aðhyllist viðskiptafrelsi og leggur áherslu á nauðsyn góðra samskipta við ríki Evrópusambandsins jafnt sem önnur, nú sem fyrr. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi féllu niður núgildandi tollar á útfluttar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB en samtímis féllu úr gildi allir tvíhliða tollasamningar Íslands við ríki utan sambandsins.
Hér lýkur þessu LÍÚ-plaggi, fyrsti skammurinn var birtur HÉR og sá annar hér: Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)