Árni Páll Árnason minnir óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt!

Látum storminn í vatnsglasi stjórnarandstöðu með kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslu eftir hennar höfði líða hjá. En foringi Samfylkingarinnar bauð upp á augljósa gagnrýni á eigin verk þegar hann gaf í skyn lögmæti ESB-umsóknar flokks hans og framferðis fv. utanríkisráðherra í því máli, en þetta gerði Árni Páll í dag í Fréttablaðinu, í einni spurningu sinni til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, þessari:

Telur utanríkisráðherra ekki að aðildarviðræður við Evrópusambandið séu mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. greinar stjórnarskrár?

En 16.-19. gr. stjórnarskrárinnar hljóða þannig: 

  •  16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
  •  Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
  •  17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
  •  18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
  •  19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

Af þessu og eðli alls ESB-málsins (þ.e. umsókn hluta alþingismanna 2009 um upptöku landsins í ríkjabandalag, stórveldi sem gerir m.a. kröfu til æðstu og ráðandi löggjafarréttinda) er augljóst, að þingsályktunartillöguna um ESB-umsóknina átti skv. 16., 17. og 19. gr. stjórnarskrár lýðveldisins að bera undir forseta Íslands og leita undirskriftar hans undir það skjal

Það var ekki gert. Hvers vegna var það ekki, gert, Árni Páll Árnason, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson? Var ákveðið að fara fram hjá lögformlegum ákvæðum sjálfrar stjórnarskrárinnar þar um?

Greinlega áttar Árni Páll sig á því, að "aðildarviðræður (sic) við Evrópusambandið" eru "mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. greinar stjórnarskrár". Nú þarf hann að gera þjóðinni grein fyrir því, af hverju ekki var farið að ákvæðum 16., 17. og 19. gr. stjórnarskrárinnar um að bera þetta mál undir forseta Íslands.

Gerir formaður Samfylkingarinnar sér ekki grein fyrir því, að málið allt var þaðan í frá ein lögleysa? Og þarf ekki að gera Brusselmönnum grein fyrir því, að þetta var svo sannarlega "bjölluat" einbert og ekkert að marka þessa umsókn, sem aldrei naut hvort eð var stuðnings þjóðarinnar?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði sjálfstæð ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband