Góð samkoma Heimssýnarfólks

Góður var fundurinn í Heimssýn, samtökum sjálfstæðissinna í Evrópumálum, að kveldi 1. desember, og er full ástæða til að hvetja sem flesta til að sækja þær öflugu samkomur. Dr. Atli Harðarson flutti aðalerindi kvöldsins, einnig töluðu Jón Bjarnason og Halldóra Hjaltadóttir, auk þriggja söngsveita sem héldu uppi afar góðri stemmingu sem endaði loks með fjöldasöng. Fríar veitingar voru á staðnum að vanda. Þollý Rósmundsdóttir var fundarstjóri og aðalskipuleggjandi þessarar samkomu sem tókst með þvílíkum ágætum.  ––jvj.


Hylling 1. desember, í ljóði eftir Jón frá Ljárskógum

 

       F U L L V E L D I Ð    T V Í T U G T       Íslenski fáninn

 

      Hann gnæfir úr daganna fábreyttu fylking

      fullur af gleði, bjartur af sól

      1. desember –– fagnaðardagur

      fátækrar þjóðar við norðurpól.

      Í dag er bjart yfir byggðum Íslands.

      Hver barmur svellur af djarfri þrá,

      og vonanna glæstu svanir svífa

      á sólgeislavængjum um loftin blá.

 

      Hann er heiður á svip, þessi hátíðisdagur,

      svo að hugirnir fyllast af sumaryl,

      hann ljómar sem viti í skammdegisskugga,

      hann skín eins og leiftur í vetrarins byl,

      hann er ráðning á fólksins fegursta draumi

      um framtíðargiftu þjóðar og lands,

      hann er langþreyð fullnæging frelsisþránni,

      sem felst í brjósti hvers íslenzks manns.

 

      Í dag er horft yfir sögunnar síður:

      þar sviptast um völdin húm og skin

      og ýmist leikur þar æðandi stórhríð

      eða angandi vorblær um frónskan hlyn.

      Þar skiptast á glaðir og tregandi töfrar

      hins talaða orðs og hins slungna ljóðs

      og þar eru líka letraðir kaflar

      logandi feiknstöfum elds og blóðs.

 

      Þar lítum vér baráttu lítillar þjóðar

      við lífskjör, sem oft voru döpur og ströng

      í styrjöld við eldgos, hafís og hríðar,

      hungur og klæðleysi, nauðir og þröng,

      –– fólk, sem í barnslegri fávizku seldi

      frelsis síns dýrgrip erlendri hönd,

      fólk, sem örmagna í fjötrum stundi,

      en fékk ekki slitið harðstjórans bönd.  

 

      Í dag er hún hyllt, hin frækna fylking,

      svo framgjörn, svo djörf, svo íturglæst,

      sem undir frelsisins merkjum mættist,

      og menningu Íslands lyfti hæst.

      Þessi heiðríki dagur geislandi gleði,

      sem gaf oss hin liðna tíð í arf,

      er helgaður þessum hetjum Íslands

      í hljóðri þökk fyrir unnið starf.

 

      –– –– ––

      Hann gnæfir úr daganna fábreyttu fylking

      fullur af gleði, bjartur af sól

      1. desember –– fagnaðardagur

      fátækrar þjóðar við norðurpól. ––

      –– Þá sameinast reynslunnar alda-arfur

      við æskunnar stoltu fyrirheit

      og kynslóðir mætast í handtaki hlýju

      frá hafi til hafs –– í borg og sveit.

 

 Jón Jónsson frá Ljárskógum var fæddur 28. marz 1914 og lézt aðeins 31 árs að aldri á Vífilsstöðum 7. október 1945. Ljóð þetta er úr bók hans Gamlar syndir og nýjar, Reykjavík: Helgafell, 1947, en fyrri bók hans var Syngið strengir, Rvík 1941. Þjóðkunnur var hann ekki aðeins af ljóðum sínum, heldur og af söng sínum í MA-kvartettinum ástsæla, en stúdent var hann frá Menntaskólanum á Akureyri (1934), var um tíma við nám í guðfræðideild Háskóla Íslands og kennari við gagnfræðaskólann á Ísafirði einn vetur, en varð að lúta í lægra haldi fyrir berklaveikinni. Aldarafmælis hans var minnzt í Búðardal í marz síðastliðnum. –– Kona hans var Jónína Kristín Kristjánsdóttir frá Ísafirði og sonur þeirra Hilmar Bragi meistarakokkur. Þetta ljóð er birt hér með góðfúslegu leyfi hans, og er okkur á Fullveldisvaktinni mikill heiður að því. –JVJ.


Minni hætta á fátækt á Íslandi en í öllum ESB-ríkjum, segir ESB!

Skv. hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, nýjum töl­um, er hættan á að verða fá­tækt að bráð eða fé­lags­legri út­skúf­un minnst á Íslandi á öllu EES-svæðinu auk Sviss. Við skákum ESB-ríkjunum öllum í þessum efnum!

Hér á landi er hlut­fall þess hóps, sem er í hættu á þessu, 13% af ­í­búa­fjölda (um 40.000 manns), en meðaltalið inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins er meira en tvöfalt hærra, 28,5%, þ.e. rúm­lega 122,6 millj­ón­ir manna!

  • Hæst er hlut­fall þeirra, sem eiga á hættu að verða fá­tækt að bráð eða fé­lags­legri út­skúf­un, í Búlgaríu, 48%. Lægst er það 14,1% í Nor­egi ef Ísland er und­an­skilið. (Mbl.is)

Hvernig væri, að Samfylkingarmenn færu að taka mark á veruleikanum og hætta að góna endalaust á fjarlægar útópíur sem innistæðulausar reynast, þegar betur er að gáð?! Og hvað er þessi viti firrta umsóknar-ævintýramennska búin að kosta landið í mannárum embættismanna, þrálátum flugferðum til Brussel og almennri áþján á stjórnmálalífi landsins? Jafnvel Icesave-málið getum við þakkað Evrópusambandinu pent fyrir, með öllum þess óþægindum, útlátum og alþjóðlegri hneisu í nokkur ár!

  1. Krafan um einkavæðingu bankanna upp úr aldamótunum kom frá ESB (og að þetta skyldi framkvæmt á EES-svæðinu!).
  2. Útrásarmöguleikar og starfsemi einkavæddu bankanna í ESB-ríkjum kom til vegna EES-samningsins!
  3. Evrópusambandið dæmdi haustið 2008 íslenzka ríkið í einhliða "gerðardómi" sínum, með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB, ESB-dómstólsins í Lúxemborg og Seðlabanka Evrópu (sem er ESB-stofnun), sekt og greiðsluskylt í Icesave-málinu! Sá gerðardóms-úrskurður reyndist falskur og dómsmorð fullkomið, eins og í ljós kom í algerri sýknu EFTA-dómstólsins; jafnvel málkostnað okkar þurftum við ekki að borga.
  4. Evrópusambandið þrýsti á vinstri stjórn Jóhönnu, Össurar og Steingríms J. að gera Icesave-samningana!
  5. Evrópusambandið hefur aldrei beðið okkur afsökunar á þessari aðför að íslenzka ríkinu og skattborgurum hér. Sízt verðskuldar þetta stórveldi innlimun Íslands!

PS. Gunnlaugur Ingvarsson átti þetta nýja innlegg á vefsíðu JVJ:

  • Nú í dag er ég að lesa dagblöðin, þá les ég frétt um það að samkvæmt nýrri alþjóðlegri skýrslu Bresku stofnunarinnar Legatum þá er Ísland nú í 11. sæti á heimslista þeirra ríkja sem búa við mesta velsæld. Þarna kemur fram að í fyrsta sæti er Noregur, í öðru sæti Sviss og í þriðja sæti Nýja-Sjáland. Fram kemur í fréttinni að fyrir neðan Ísland eru flest Evrópuríkin, þar á meðal stórríkin Bretland og Frakkland.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Minnst hætta á fátækt á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýzkaland tvöfaldar í dag atkvæðavægi sitt í tveimur mestu valdastofnunum Evrópusambandsins

Að Barroso hættir nú sem forseti framkvæmdastjórnar ESB er smáfrétt á við þetta: Í dag, 1. nóv., tvöfaldast nær því atkvæðavægi Þýzkalands í ráðherraráði og leiðtogaráði Evrópusambandsins langþráða?!! Hafi Þjóðverjar ráðið miklu þar síðustu árin, þá minnkar það ekki nú! Þjóðverjar munu nú fara með sjötta hvert atkvæði í þessum valdastofnunum og geta með Frakklandi eða öðrum stórum ríkjum (Ítalíu, Bretlandi, Spáni eða Póllandi) ásamt öðrum taglhnýttum ráðið flestu því, sem þeir kæra sig um, á vettvangi þessa stórveldis sem stefnir að því að vera sambandsríki, ekki einbert ríkjasamband. Nánar verður fjallað um þetta hér í dag. Á meðan geta menn lesið þessa upplýsandi vefsíðu Haraldar Hanssonar: Ísland svipt sjálfsforræði. --JVJ.

UKIP er kominn til að vera, ný brezk kjölfesta sem þrátt fyrir ranglátt kosningakerfi á marga sigra vísa

Fylgi brezka sjálfstæðisflokksins (UKIP) er gríðarlegt, jafnvel mun meira en þau 19% sem mældust hjá ComRes 24.-26. október. Merkileg könnun Observers 25. okt. sýnir að 31% kjósenda eru reiðubúin til að kjósa UKIP, ef þeir teldu hann eiga möguleika á að vinna í heimakjördæmi þeirra. Þetta sést vel á kortinu hér fyrir neðan, en á vefsíðu Guardians segir:

When asked to respond to the statement “I would vote for Ukip if I thought they could win in the constituency I live in”, 31% of voters said they agreed. This includes 33% of Tory voters, 25% of Liberal Democrats and 18% of Labour supporters. Voters were equally divided on whether a vote for Ukip was a wasted one, with 40% saying it was, and 37% saying it was not.

Sama skoðanakönnun sýndi einnig, að formaður UKIP, hinn galvaski Nigel Farage, er vinsælastur flokksleiðtoga skv. neikvæðismati (negative net rating), með -1%, en David Cameron -6%, Ed Miliband í Verkamannaflokknum með -23% og Nick Clegg í frjálslyndum með -43%.

Nigel Farage og félagar hafa náð til þjóðar sinnar, sem er ekki í hjarta sínu hlynnt samruna lands síns við hið evrópska stórveldi á meginlandinu. Auknar skattakröfur Brussel-veldisins til Bretlands laða ekki að, heldur ekki vanhæfni ESB til að glíma við stöðnun, atvinnuleysi og vandræði í ríkisfjármálum, og það verður heldur engin gleðifrétt til Bretlands þegar heyrist af nær því tvöföldun atkvæðavægis Þýzkalands í ráðherraráði Evrópusambandsins og leiðtogaráði þess, "ekki á morgun, heldur hinn": 1. nóvember 2014! En sú breyting var þegar afráðin með samþykkt Lissabon-sáttmálans, en gildistöku frestað í mörg ár, og nú er komið að því !  --JVJ.

 


mbl.is Sjálfstæðissinnar með 19% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar Bjarni Ben. að láta brjóta stjórnarskrána í þjónkun við evrópskt stórveldi?

Hér er í dag hrikaleg frétt sem of fáir taka eftir : ruv.is/frett/samkomulag-um-samevropskt-fjarmalaeftirlit Þetta felur í sér alls óheimilt fullveldisframsal ! Þar að auki er þetta stórhættulegt, gæti orðið verra en bankakreppan! En í fréttinni segir svo:

  •  
    • Samkomulag hefur náðst um innleiðingu reglna um samevrópskt fjármálaeftirlit í EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein.
    • Með því verður tryggt að evrópulöggjöf, sem byggir á viðbrögðum við alþjóðlegu fjármálakreppunni, tekur gildi í ríkjunum þremur, þar á meðal löggjöf um þrjár evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði. Þar sem stofnanirnar hafa meðal annars vald til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja fela reglurnar í sér framsal framkvæmdavalds sem stjórnarskrá Íslands heimilar ekki.
    • Fjármálaþjónusta er mikilvæg fyrir efnahag Liechtenstein, sem þar af leiðandi hefur þrýst mjög á um að reglurnar verði innleiddar. Samkomulagið felur í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EFTA ríkjunum verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA og hægt verður að bera þær undir EFTA dómstólinn. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra staðfesti samkomulagið fyrir Íslands hönd en reglurnar verða lögfestar hér á landi á næstunni.

Jæja, hvernig ætlar Bjarni Benediktsson að láta "lögfesta" þessar reglur, úr því að þær fela í sér "framsal framkvæmdavalds sem stjórnarskrá Íslands heimilar ekki"? Ætlar hann að brjóta stjórnarskrána, eins og vinstri flokkarnir voru svo þjálfaðir í á síðasta kjörtímabili? Þar að auki eru þessar skuldbindingar stórhættulegar, gætu leitt til verra áfalls en bankakreppan!

Jón Valur Jensson.


Ofdirfska evrókrata

Djarfur er evrókratinn Helgi Hjörv­ar, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, að halda því fram, þvert gegn rannsóknum, að íslenzkir bændur "stæðu betur innan ESB". Allt er nú reynt, en Bændasamtök Íslands hafa betra vit fyrir hag bænda en þessi ESB-trúmaður. Hagfræðingur bændasamtakanna og aðrir hafa unnið ýtarlegar rannsóknir á þessum málum, m.a. með samanburði við Finnland og Svíþjóð, og niðurstaðan ljós: að full ástæða er til þess að beita sér gegn inntöku Íslands í Evrópusambandið, og hefur þetta ítrekað komið fram í því ágæta riti Bændablaðinu.

JVJ. 


mbl.is Bændur stæðu betur innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-málið getur ekki farið "óleyst inn í kosningar"

Góðir eru Staksteinar Mbl. í dag og tilefnið gott. Formaður og varaform. Sjálfstæðisflokksins lýstu því yfir í liðinni viku að rétt væri að draga umsókn um aðild að ESB til baka. Gunnar Bragi utanríkisráðherra fær hins vegar góða athugasemd í pistlinum.

  • Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gerir ráð fyrir að tillagan um að draga umsóknina til baka verði lögð fram í vetur. „Það er á þingmálaskránni. Það hefur ekkert breyst síðan það mál var stutt í ríkisstjórn og þingflokkum síðasta vor,“ segir Bjarni við Ríkisútvarpið og sagðist aðspurður „að sjálfsögðu“ myndi styðja málið.

Og blaðið ályktar réttilega: 

  • Þetta er hvort tveggja nokkuð skýrt og nú vantar fátt upp á annað en að hrinda þessum skýra vilja í framkvæmd.

En þegar kemur að sjálfum flutningsmanni tillögunnar, virðist hann undarlega óákveðinn:

  • Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra talaði að vísu heldur þokukenndar um málið við Ríkisútvarpið og sagði koma „vel til greina“ að slíta viðræðunum, sem er það sem Ríkisútvarpið spurði um, en átti væntanlega við afturköllun umsóknarinnar. (Staksteinar.)

En blaðið minnir hann á hans eigin tillögu ...

  • og hvort sem umsóknin verður afturkölluð með þeim hætti eða öðrum verður utanríkisráðherra jafnt sem aðrir ráðherrar og stjórnarþingmenn að tryggja að málið nái fram að ganga.

Og hver eru rökin fyrir því? Til dæmis þessi augljósu rök, með orðum Staksteinahöfundar:

  • Þeir geta ekki farið með það óleyst inn í kosningar.
Og það verður haldin hátíð á Íslandi, þegar umsóknin verður formlega afturkölluð.
 
JVJ. 

Bjarni Ben.: "Að sjálfsögðu myndi ég gera það" - styðja tillöguna um að draga aðildarumsóknina til baka

Þetta voru góð tíðindi í hádegisútvarpi Rúv, þótt ekki væru höfð með í fréttayfirlitinu og Gunnari Braga gefinn forgangur í þar og á vefnum. Mun skörulegri var Bjarni í máli sínu (í lok fréttarinnar) og fagnaðarefni að heyra hann tala fyrir þessu máli með svo skýrum og öflugum hætti (menn hlusti á fréttina!).

Það spillir ekki fyrir ánægjunni, að auk þessara orða formanns Sjálfstæðisflokksins hefur varaformaðurinn, Hanna Birna Kristjánsdóttir, nú í vikunni lýst yfir sömu eindregnu afstöðunni (sjá HÉR!).

Nú er þess að vænta, að tekið verði föstum tökum á þessu máli með formlegri afgreiðslu þess fyrir áramót.

JVJ. 


Hanna Birna Kristjánsdóttir vill að ESB-umsóknin verði dregin til baka

Hanna Birna, sem hefur áður lýst því yfir, að hún teldi rétt að slíta viðræðum við Evrópusambandið,* hefur nú ítrekað það, að hún telji rétt að draga umsóknina til baka, á fundi hennar með Sambandi eldri sjálfstæðismanna, þar sem hún hélt ræðu.

Þetta eru ánægjuleg tíðindi af innanríkisráðfrúnni og verða vonandi til að hreyfa málum í stjórnarflokkunum og ganga endanlega frá jarðarför Össurarumsóknarinar ólögmætu frá árinu 2009.

Ágætur maður, Karl Jónatansson, átti stutt, en gott bréf í Mbl. í gær: 

  • Efndir óskast
  • Ég er einn þeirra sjálfstæðismanna sem gáfu flokknum atkvæði sitt í síðustu kosningum gegn því að hann stæði við loforð sitt um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að ESB.  Nú eru liðin rúm tvö ár og ennþá bólar ekki á neinu framtaki hjá þessari ríkisstjórn okkar til að gera hreint fyrir okkar dyrum gagnvart ESB. Ég hreinlega trúi ekki að þessir gömlu bandamenn (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn), sem hafa frá stofnun barist fyrir sjálfstæði Íslands, ætli að horfa upp á baráttu forfeðra sinn, frelsi okkar og sjálfstæði kæft í klónum á ESB á vakt Bjarna Ben hins yngri. 
  • Heiðraða ríkisstjórn: Það er kominn tími til að standa við stóru orðin og að hætta að draga lappirnar af ótta við að missa atkvæði í framtíðarkosningum. Tilkynnið ESB ákvörðun Íslendinga um áframhaldandi sjálfstæði með því að draga til baka umsókn Íslands að ESB með formlegum hætti! 
  • Karl Jónatansson.

Undir þetta er okkur í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísand ljúft og skylt að taka.

JVJ. 

* M.a. í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgunni í nóvember 2012, fyrir síðustu alþingiskosningar (eins og Fréttablaðið greinir frá í dag).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband