Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019
18.4.2019 | 00:14
Brexit-flokkur Nigels Farage skorar hæst í skoðanakönnun um kosningar til þings Evrópusambandsins
Flokk sinn, The Brexit Party, stofnaði hann sl. föstudag, yfirgaf þar með UKIP (Brezka sjálfstæðisflokkinn) sem hann áður veitti forystu.
Flokkurinn mælist með 27% fylgi í skoðanakönnun fyrirtækisins YouGov, næst kemur Verkamannaflokkurinn með 22%, þá Íhaldsflokkurinn með 15%, Græningjar með 10%, Frjálslyndir demókratar með 9% og Breski sjálfstæðisflokkurinn með 7%.
Brexit-flokkurinn mældist með 15% fyrir helgi og Breski sjálfstæðisflokkurinn með 14%.
Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu. (Mbl.is)
Þetta er hratt vaxandi gengi hjá Brexit-flokknum, úr 15 í 27% á nokkrum dögum. Á sama tíma hefur fylgi UKIP helmingazt, sem samsvarar því, að þeir hafi tapað 7% af atkvæðum kosningabærra manna. Farage segir, að öfgamenn hafi svert það vörumerki, sem UKIP hafði, og sá hann sér því þann kost væntan að stofna nýjan flokk.
Áður hafði staðið til, að Bretar tækju ekki þátt í ESB-kosningunum þar sem þeir yrðu formlega gengnir úr Evrópusambandinu áður til þeirra kæmi, en víst má telja, að af þessum ESB-kosningum verði, eftir að Theresa May samþykkti með ESB-mönnum að fresta útgöngu landsins þar til á komandi hausti.
Ekki ber þessi skoðanakönnun því vitni, að Brexit-stefnan sé óvinsæl meðal Breta, flokkur Farage er með 5% undir sameinuðu fylgi "stóru flokkanna" tveggja! Og lítt dulbúin eru þessi skilaboð til Brussel!
Jón Valur Jensson.
Brexit-flokkurinn með mest fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bretland (UK) | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Það er alveg ljóst að spjall hæstv. utanríkisráðherra á dögunum við orkumálastjóra ESB er ekki þjóðréttarlega bindandi skjal. Til að svo verði er áskilið að EFTA eða ESB komist að samkomulagi um sameiginlega yfirlýsingu og hana verður síðan að setja inn sem viðauka við EES-samninginn. Áður en það er hægt verða allir samningsaðilarnir, sem eru öll aðildarríki Evrópusambandsins og EFTA-löndin, að fjalla um málið. Slíkt ferli hefur ekki átt sér stað.
Þetta spjall hæstv. utanríkisráðherra við orkumálastjórann rataði í einhverja yfirlýsingu. Hún er ekkert annað en óskuldbindandi óskhyggja og friðþæging gagnvart grasrót Sjálfstæðisflokksins, yfirlýsing sem mun ekki vega þungt ef þá nokkuð hjá ESA, ESB-dómstólnum og EFTA-dómstólnum.
Peter Ørebech, sérfræðingur í Evrópurétti og lagaprófessor í Noregi, segir að það sé alveg á hreinu að ef fjárfestir, t.d. þýski raforkurisinn E.ON, hefur tæknilegan undirbúning að rafstreng frá Íslandi dugir ekkert fyrir okkur að mótmæla því. Málið verður á valdsviði stofnunar Evrópusambandsins eða ACER. Þetta er stofnun á embætti sem Ísland getur ekki gefið fyrirmæli eða haft áhrif á. ACER getur ekki hafnað slíkum streng því að slíkt myndi stríða gegn EES-samningnum um magntakmarkanir á inn- og útflutningi, samanber 11. og 12. gr. samningsins."
Þetta var kjarninn í þingræðu Birgis Þórarinssonar á Alþingi 9. apríl sl. kl.18.42 o.áfr. (HÉR á myndbandi.)
Tímabært að verja hagsmuni Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðlindir og orkumál | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2019 | 06:29
Af gervikúnstum pakkamanna í Valhallarliðinu. Málflutningur Guðlaugs Þórs er hruninn
"Einfaldasta skýringin" hans Davíðs Þorlákssonar* á þriðja orkupakkanum er því miður ósönn. Orkupakkarnir hafa ekki fært orkumarkaðnum nein "heillaspor fyrir alla landsmenn", heldur fleiri milliliði og í mesta lagi um 300 kr mun á verði "samkeppnis"-aðila raforku á mánaðarlegum rafmagnsreikningi heimila. En þar sem kaupa þurfti raforku til húsahitunar, hækkaði fyrsti orkupakkinn verðið um 100%!
"Neytendavernd", sem einu rökin fyrir þriðja orkupakkanum, er því falsrök og yfirdrep.**
Frjálshyggjumaður sem Davíð ætti að hafa orðið var við ásóknina í að einkavæða orkulindirnar, ásókn sem mun knýja á um sundurhlutun Landsvirkjunar og það fyrir tilstilli ákvæða þessa 3. orkupakka. Ennfremur verður svo einokunarvald eins stýriaðila, "landsreglarans", óháðs stjórnvöldum hér og Alþingi, en undir stýrivaldi ACER, annað en fagnaðarefni fyrir frjálshuga Íslendinga. Og Davíð sonur Þorláks fylgist ekki með ef hann hefur ekki séð nýjustu sannanir fyrir því að frakkur málflutningur Guðlaugs Þórs í málinu er hruninn.
* Í Fréttablaðsgrein Valhallarvinarins Davíðs Þorlákssonar þennan fimmtudagsmorgun, einnig hér á Vísi.is: https://www.visir.is/g/2019190419984/rakhnifur-ockhams, og einnig þar birtist þessi athugasemd undirritaðs.
** Þetta eru ennfremur hlálega aum og léleg rök fyrir jafn-gríðarlega viðamiklu tilskipanaverki sem hér er reynt að innleiða með þriðja orkupakkanum. "Much ado about nothing" -- mikið aðhafzt fyrir ekkert, mætti segja um slík gervirök, en flestir meðvitaðir um, að hér leynist fiskur undir steini: Menn færu aldrei út í að setja Alþingi í uppnám í margar vikur og taka jafnvel áhættu með ríkisstjórnarsamstarf og eyða í það ómældum fjárfúlgum, ef þetta smáræði, gervi-neytendaverndin, væri ástæða þessa viðamikla löggjafarstarfs.
En um aðrar "kúnstir að baki orkupakka" geta menn lesið í forsíðufrétt í Mbl. í dag af ummælum ESB-sinnans Þorsteins Pálssonar, fyrrv. forsætisráðherra, og í leiðara sama Morgunblaðs, sem landsmenn fá almennt frítt í fjöldreifingu í dag.
Í sama Morgunblaði er mjög góð grein eftir einn af samherjunum hér í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, þ.e. Ragnhildi Kolka lífeindafræðing, og nefnist grein hennar (bls. 42): Af hverju ég? Greinin fæst væntanlega birt hér í heild, þótt síðar verði. En það er ekki hægt að sleppa lesandanum við því að sjá þennan öfluga texta í grein Ragnhildar (hér má hafa í huga, að hún hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum):
"... Þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar um undanþágur og fyrirvara við samninginn, frá flokksforustu Sjálfstæðisflokksins, þá einfaldlega trúi ég ekki að fyrirvararnir haldi. Orkupakki 3 er hluti af langtíma áætlun um orkumál Evrópusambandsins. Allur pakkinn tekur mið af orkuþörf ESB ekki Íslands. Og þó svo að forsvarsmenn þessara mála hér á landi skeyti ætíð við varnaglanum að ACER-stofnunin fái ekkert vald hér á meðan enginn sæstrengur tengir okkur við meginlandið þá vitum við að sú tenging er rétt handan við hornið. Leyfisbeiðnirnar bíða í bunum. Án þessarar tengingar er pakkinn okkur óviðkomandi, því eins og staðan er í dag þá falla auðlindir þjóðarinnar utan EES-samningsins. Ef, hins vegar, við samþykkjum pakkann jafngildir það afsali valds yfir orkuauðlindunum, því um leið og sæstrengur er lagður (og hann verður lagður), þá höfum við glatað tækifærinu til að gera okkar eigin samninga á eigin forsendum. Þá hefur valdið yfir auðlindinni, hvort sem er löggjafar-, ríkis eða dómsvald, verið flutt til ESB og við sitjum eftir sem hrávöruframleiðandi, svo geðslegt sem það nú er.
Engin rök, sem haldið geta vatni, liggja fyrir um nauðsyn þess að samþykkja þessi mál sem nú eru til umræðu á Alþingi. Loforð um stórlega bættan hag neytenda byggjast á arðgreiðslum í sjóði sem ráðamenn geta ausið úr að geðþótta og kallast sjóðasukk. Neytandinn, í það minnsta hinn íslenski, borgar bara hærra verð fyrir sitt rafmagn sem jafnvel fæst þá skammtað. Loforð um þriggja fasa rafmagn á hvert byggt ból og orkuöryggi hljómar eins og páskaegg til forstjóra Góu. Ríkt land sem býr yfir gullnámu eins og Landsvirkjun þarf ekki á slíkri ölmusu að halda. Þeir sem vilja virkja hverja sprænu þurfa hins vegar á hinu yfirþjóðlega valdi að halda til að fá framkvæmdaleyfin sem fást með því að skrúbba græna litinn af umhverfissinnum. Allir sem á annað borð hafa fylgst með samskiptum þjóða við ESB gera sér grein fyrir að fyrirvarar halda ekki. Við stöndum núna frammi fyrir glötuðum fyrirvörum varðandi landbúnaðarmálin rétt eins og bresku sjómennirnir sem trúðu á fyrirvara varðandi fiskveiðirétt sinn. Og Brexit-deilan, sem nú tröllríður heimsfréttunum, snýr að stærstum hluta um vantrú á fyrirvörum. (Leturbr.jvj)
Þá er í Morgunblaðinu í dag afar mikilsvert framlag Hjörleifs Guttormssonar, náttúrufræðings og fyrrv. ráðherra, til þessara mála, þar sem hann með sínum rökum sýnir m.a. fram á, að "fyrirvarar" þeir og "undanþágur", sem utanríkisráðherrann þóttist geta flaggað með þingsályktunartillögu sinni, standast engan veginn og munu ekki halda gegn regluverki og æðstu völdum Evrópusambandsins á þessu sviði, sem við værum þarna að setja okkur undir. Megi þeim aldrei haldast á völdum hér, sem þjóna erlendu yfirvaldi yfir okkar auðlindum, yfir starfsaðstöðu fyrirtækja okkar og kjaramálum íslenzkrar alþýðu.
Grein Hjörleifs nefnist Svo bregðast krosstré ... Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Megi sem flestir lesa þessar frábæru greinar í Morgunblaðinu í dag.
Jón Valur Jensson.
Kúnstir að baki orkupakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðlindir og orkumál | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2019 | 18:28
Mikill völlur á Evrópusambandinu nánast ofan í Stjórnarráði Íslands
Sendinefnd? Þarf lítil sendinefnd mikið rými? Hvaða erindi á sendiherra ESB hér í landi, sem er ekki í ESB, annað en að hóta (eins og hann gerir nú í blaðaviðtali) og blekkja?
Liggur kannski fiskur undir steini?
Þannig ritar Snjáfríður M. Árnadóttir Egilson á Facebók sinni.
Sendinefnd ESB á Íslandi er greinilega komin til að vera, rétt eins og í meðlimaríkjunum. Sendiherrar ESB, a.m.k. tveir eða þrír þeirra, hafa þegar brotið Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða.
Og nú breiða þeir úr sér rétt við Stjórnarráð Íslands, á Kalkofnsvegi 2.
Jón Valur Jensson.
PS. Paþetískt er að hlusta á verjendur þriðja orkupakkans í yfirstandandi umræðum á Alþingi, sem sjónvarpað er á sjónvarpsrás þingsins.
ESB á Íslandi flytur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2019 | 05:37
Theresa May á síðustu metrunum eftir vinstra feilsporið
Ýmsir hafa dáðst að þrautseigju hennar, að gefast aldrei upp við allar mögulegar útfærslur á því að slíta sig frá ESB að meira eða minna leyti, en nú ofbýður þingmönnum Íhaldsflokksins og hafa lesið henni pistilinn, sem hún kaus að þegja við, endanlega skák og mát.
Hin áhrifamikla 1922-nefnd óbreyttra þingmanna flokksins fundaði með May á skrifstofu hennar í Downingstræti 10 og tjáði henni "að bæði flokksmenn og aðrir stuðningsmenn flokksins hefðu snúist gegn henni. Heimildarmaður Daily Telegraph segir May hafa hlustað á þingmennina lýsa því, hvernig hún væri að stórskaða Íhaldsflokkinn, án þess að segja neitt. Hún hafi síðan neitað að ræða um framtíð sína. Aðstæðurnar eru sagðar minna á síðustu dagana áður en Margaret Thatcher, þáverandi leiðtogi flokksins, sagði af sér fyrir tæpum 30 árum." (Mbl.is).
Út af sakramentinu fór hún ekki aðeins með því að makka með Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, heldur með því að taka í mál hið ómögulega: að Bretland yrði "áfram í tollabandalagi Evrópusambandsins eða í tollabandalagi með sambandinu. Þar með gæti landið ekki samið um sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki, en það er eitthvað sem stuðningsmenn útgöngunnar hafa litið á sem einn stærsta kostinn við að yfirgefa Evrópusambandið." (Mbl.is)
En þarna var Theresa að snúa gersamlega við blaðinu frá fyrri afstöðu sinni, "hafði áður ítrekað þvertekið fyrir að Bretland yrði áfram innan tollabandalags Evrópusambandsins." En forystumenn ESB hafa verið að þrýsta á May og Corbyn að ná saman um að Bretar verði áfram innan tollabandalagsins. Nú hrynur sú spilaborg og frúin á útleið, eftir því sem bezt verður séð.
JVJ.
Telja Theresu May vera vandamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 06:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hafnar þriðja orkupakkanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2019 | 05:00
Tæplega 60% Íslendinga andvíg innflutningi ESB-hrámetis, aðeins rúml. 25% fylgjandi!
Ætla ESB-þjónarnir að ná þessu?
Þetta varðar hrá egg, hrátt ófrosið kjöt og ógerilsneyddar mjólkurvörur. "Rúmlega helmingur Íslendinga er hlynntur því að málið verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu, verði frumvarp þessa efnis samþykkt á Alþingi" (Mbl.is segir þarna frá Gallup-könnun). 15,2% segjast hvorki hlynnt né andvíg innflutningnum.
Það stóð aldrei til, þegar EES-samningurinn var samþykktur 1993, að landbúnaðar- og sjávarútvegsmál féllu undir hann. En nú er Brussel-valdið komið á fullt í allt annarri stefnu gagnvart okkur og fylgir því eftir með þvílíkri áreitni, að kalla má áþján fyrir Alþingi og þjóðina.
Hinn ágæti Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins, ritaði þar ritstjórnargrein, Að standa í lappirnar, 15. þ.m. og sagði m.a.:
Og fyrir rúmum mánuði ritaði Hörður í Bændablaðið:
Hér hefur hver reglugerðin af annarri frá ESB verið stimpluð góð og gild og oftast athugasemdalaust. Virðist þá gilda einu hvort slík reglugerðarinnleiðing eigi yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut við íslenskan veruleika. Svo yppta menn bara öxlum ef einhverjum dettur sá dónaskapur í hug að gagnrýna flumbruganginn.
Til að réttlæta ófögnuðinn er gjarnan settur fram sá frasi að þetta sé allt gert í þágu íslenskra neytenda. Þannig er málatilbúnaðurinn t.d. í kringum innleiðingu á innflutningi ferskra landbúnaðarafurða. Ferskt skal það vera og alveg tryggt að ekki sé þá heldur hróflað við glænýjum og ferskum evrópskum lyfjaónæmum ofurbakteríum. Það eru sem sé sérstakir hagsmunir íslenskra neytenda að þeir fái að sitja við sama borð og þeir evrópsku þegar kemur að úthlutun sýkinga sem læknavísindin hafa ekki lengur nein úrræði til að ráða við. Við skulum fyrir alla muni ekki trufla slíkt ferli ...
En íslenzkir neytendur hafna því einmitt, að þetta sé gert í þágu þeirra. Svo mikið er ljóst af hinni nýju skoðanakönnun.
Gallup ætti að kanna hug manna til þriðja orkupakkans! En það er enginn áhugi á áframhaldandi ágangi Evrópusambandsins með lymskulegar og uppáþrengjandi lagagerðir sínar og tilætlanir til okkar Íslendinga að lúta þeirra forystu og fyrirskipunum, m.a. um okkar rafmagnsmál, þar sem afleiðingin yrði vís með að leiða til niðurbrots vissra atvinnugreina, m.a. í landbúnaði, sér í lagi hjá garðyrkjubændum.
Jón Valur Jensson.
Andvíg innflutningi á hráum matvælum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)