Af gervikúnstum pakkamanna í Valhallar­liðinu. Málflutningur Guðlaugs Þórs er hruninn

"Einfaldasta skýringin" hans Davíðs Þor­láks­sonar* á þriðja orku­pakk­anum er því miður ósönn. Orku­pakk­arnir hafa ekki fært orku­mark­aðnum nein "heillaspor fyrir alla lands­menn", heldur fleiri milliliði og í mesta lagi um 300 kr mun á verði "sam­keppnis"-aðila raforku á mánaðar­legum rafmagns­reikn­ingi heimila. En þar sem kaupa þurfti raforku til húsahitunar, hækkaði fyrsti orkupakkinn verðið um 100%!

"Neytendavernd", sem einu rökin fyrir þriðja orkupakkanum, er því falsrök og yfirdrep.**

Frjálshyggjumaður sem Davíð ætti að hafa orðið var við ásóknina í að einka­væða orku­lind­irnar, ásókn sem mun knýja á um sundur­hlutun Lands­virkjunar og það fyrir tilstilli ákvæða þessa 3. orku­pakka. Ennfremur verður svo einokunar­vald eins stýri­aðila, "lands­reglarans", óháðs stjórn­völdum hér og Alþingi, en undir stýri­valdi ACER, annað en fagnaðar­efni fyrir frjáls­huga Íslendinga. Og Davíð sonur Þorláks fylgist ekki með ef hann hefur ekki séð nýjustu sannanir fyrir því að frakkur málflutn­ingur Guðlaugs Þórs í málinu er hruninn.

* Í Fréttablaðsgrein Valhallar­vinarins Davíðs Þorlákssonar þennan fimmtudags­morgun, einnig hér á Vísi.is: https://www.visir.is/g/2019190419984/rakhnifur-ockhams, og einnig þar birtist þessi athugasemd undirritaðs.

** Þetta eru ennfremur hlálega aum og léleg rök fyrir jafn-gríðarlega viðamiklu tilskipana­verki sem hér er reynt að innleiða með þriðja orku­pakkanum. "Much ado about nothing" -- mikið aðhafzt fyrir ekkert, mætti segja um slík gervirök, en flestir meðvitaðir um, að hér leynist fiskur undir steini: Menn færu aldrei út í að setja Alþingi í uppnám í margar vikur og taka jafnvel áhættu með ríkisstjórn­ar­samstarf og eyða í það ómældum fjárfúlgum, ef þetta smáræði, gervi-neyt­enda­verndin, væri ástæða þessa viðamikla löggjafarstarfs. 

En um aðrar "kúnstir að baki orkupakka" geta menn lesið í forsíðufrétt í Mbl. í dag af ummælum ESB-sinnans Þorsteins Pálssonar, fyrrv. forsætisráðherra, og í leiðara sama Morgunblaðs, sem landsmenn fá almennt frítt í fjöldreifingu í dag.

Í sama Morgunblaði er mjög góð grein eftir einn af samherjunum hér í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, þ.e. Ragnhildi Kolka lífeindafræðing, og nefnist grein hennar (bls. 42): Af hverju ég? Greinin fæst væntanlega birt hér í heild, þótt síðar verði. En það er ekki hægt að sleppa lesandanum við því að sjá þennan öfluga texta í grein Ragnhildar (hér má hafa í huga, að hún hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum):

"... Þrátt fyr­ir fjálg­leg­ar yf­ir­lýs­ing­ar um und­anþágur og fyr­ir­vara við samn­ing­inn, frá flokks­for­ustu Sjálf­stæðis­flokks­ins, þá ein­fald­lega trúi ég ekki að fyr­ir­var­arn­ir haldi. Orkupakki 3 er hluti af lang­tíma áætl­un um orku­mál Evr­ópu­sam­bands­ins. All­ur pakk­inn tek­ur mið af orkuþörf ESB – ekki Íslands. Og þó svo að for­svars­menn þess­ara mála hér á landi skeyti ætíð við varnagl­an­um „að ACER-stofn­un­in fái ekk­ert vald hér á meðan eng­inn sæ­streng­ur teng­ir okk­ur við meg­in­landið“ þá vit­um við að sú teng­ing er rétt hand­an við hornið. Leyf­is­beiðnirn­ar bíða í bun­um. Án þess­ar­ar teng­ing­ar er pakk­inn okk­ur óviðkom­andi, því eins og staðan er í dag þá falla auð­lind­ir þjóðar­inn­ar utan EES-samn­ings­ins. Ef, hins veg­ar, við sam­þykkj­um pakk­ann jafn­gild­ir það af­sali valds yfir orku­auðlind­un­um, því um leið og sæ­streng­ur er lagður (og hann verður lagður), þá höf­um við glatað tæki­fær­inu til að gera okk­ar eig­in samn­inga á eig­in for­send­um. Þá hef­ur valdið yfir auðlind­inni, hvort sem er lög­gjaf­ar-, rík­is eða dómsvald, verið flutt til ESB og við sitj­um eft­ir sem hrávöru­fram­leiðandi, svo geðslegt sem það nú er.

Eng­in rök, sem haldið geta vatni, liggja fyr­ir um nauðsyn þess að samþykkja þessi mál sem nú eru til umræðu á Alþingi. Lof­orð um stór­lega bætt­an hag neyt­enda byggj­ast á arðgreiðslum í sjóði sem ráðamenn geta ausið úr að geðþótta – og kall­ast sjóðasukk. Neyt­and­inn, í það minnsta hinn ís­lenski, borg­ar bara hærra verð fyr­ir sitt raf­magn sem jafn­vel fæst þá skammtað. Lof­orð um þriggja fasa raf­magn á hvert byggt ból og „orku­ör­yggi“ hljóm­ar eins og páska­egg til for­stjóra Góu. Ríkt land sem býr yfir gull­námu eins og Lands­virkj­un þarf ekki á slíkri ölm­usu að halda. Þeir sem vilja virkja hverja sprænu þurfa hins veg­ar á hinu yfirþjóðlega valdi að halda til að fá fram­kvæmda­leyf­in sem fást með því að skrúbba græna lit­inn af um­hverf­is­sinn­um. All­ir sem á annað borð hafa fylgst með sam­skipt­um þjóða við ESB gera sér grein fyr­ir að fyr­ir­var­ar halda ekki. Við stönd­um núna frammi fyr­ir glötuðum fyr­ir­vör­um varðandi land­búnaðar­mál­in rétt eins og bresku sjó­menn­irn­ir sem trúðu á fyr­ir­vara varðandi fisk­veiðirétt sinn. Og Brex­it-deil­an, sem nú tröllríður heims­frétt­un­um, snýr að stærst­um hluta um van­trú á fyr­ir­vör­um. (Leturbr.jvj)

Þá er í Morgunblaðinu í dag afar mikilsvert framlag Hjörleifs Guttorms­sonar, náttúrufræðings og fyrrv. ráðherra, til þessara mála, þar sem hann með sínum rökum sýnir m.a. fram á, að "fyrirvarar" þeir og "undanþágur", sem utanríkis­ráðherrann þóttist geta flaggað með þings­ályktunar­tillögu sinni, standast engan veginn og munu ekki halda gegn regluverki og æðstu völdum Evrópu­sambandsins á þessu sviði, sem við værum þarna að setja okkur undir. Megi þeim aldrei haldast á völdum hér, sem þjóna erlendu yfirvaldi yfir okkar auðlindum, yfir starfsaðstöðu fyrirtækja okkar og kjaramálum íslenzkrar alþýðu.

Grein Hjörleifs nefnist Svo bregðast krosstré ... Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Megi sem flestir lesa þessar frábæru greinar í Morgunblaðinu í dag.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Kúnstir að baki orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég las grein Ragnhildar kolka,mjög góð að vanda.

Helga Kristjánsdóttir, 12.4.2019 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband