Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018
23.4.2018 | 15:23
Ágangur Evrópusambandsins hefur ekki minnkað, heldur eykst einmitt nú; viðspyrna nauðsynleg (aukin grein)
Það eru margar góðar áherzlur í máli Bjarna Benediktssonar í viðtali hans við Daily Telegraph um EES- og ESB-mál, hann bendir á ergelsi Brusselmanna yfir sjálfstæði okkar og óviðunandi þrýsting þeirra á okkur að láta undan um fullveldismál okkar í ýmsu. Um leið má og finna veikar hliðar á málflutningi Bjarna.
Hinn aukni þrýstingur af hálfu stórveldisins í garð Íslands snýst nú að undanförnu einna helzt um að taka upp frekari reglur ESB á sviði orkumála og matvæla, og ástandinu er lýst sem svo, að það sé fari að "skapa ergelsi", eins og fram kom í viðtalinu í Telegraph við þennan fjármála- og efnahagsráðherra Íslands.
Hann sagði einnig að Evrópusambandið liti á sjálfstæði Íslendinga sem "vesen". (mbl.is)
Ekki er gott í efni, að svo voldugt ríkjasamband fari að umgangast viðskipta- og samningsland sitt með slíku ólundargeði. Og lausn málsins er ekki að bukta sig og beygja fyrir duttlungum embættismanna þess.
Það ber að meta hreinskilni Bjarna um málið, tjáða (svo að eftir verður tekið) í hálfgerðu hliðarríki Evrópusambandsins, Bretlandi, sem stefnir á útleið þaðan, á sitt Brexit.
Og þetta hjá Bjarna er að halda vel á spöðunum:
"Eitt tiltölulega nýtt dæmi er hrátt kjöt og frjálst flæði varnings. Lína Evrópusambandsins er einn fyrir alla, allir fyrir einn, engar sértækar reglur fyrir neinn. En við erum sérstakt dæmi, til að mynda er ekki salmónella á Íslandi, það er ekki hægt að tala um það sem vandamál eins og gert er í aðildarríkjum [Evrópusambandsins]" sagði Bjarni. "Ef þú bætir við þetta sýklalyfjum, ég meina: þau eru næstum ekki notuð á Íslandi borið saman við alifuglaiðnaðinn á Spáni" bætti hann við. (mbl.is)
Og þessu hér á eftir ber hann einnig vitni; ekki á hverjum degi sem ráðamenn hér leyfa okkur að skyggnast inn í, hvað þeir eru að skrafa sín á milli um raunverulegt ástand:
Samkvæmt Bjarna eru vaxandi áhyggjur á Íslandi vegna þess að Evrópusambandið virðist ekki geta sýnt afstöðu Íslands skilning og segir jafnframt að Evrópusambandið sé að grafa undan tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Og aftur beinir hann sjónum að undarlega breyttu viðhorfi í ESB:
Fjármálaráðherra segist þó skilja, út frá pólitísku sjónarmiði, afstöðu sem fyrirfinnst í Evrópu sem varpar fram spurningunum hvenær ætla þeir að losa sig við þetta? Af hverju geta ekki allir bara orðið aðildarríki [Evrópusambandsins]? Hann segir Íslandi nánast sýnd vanvirðing, þetta er eins og vesen í þeirra augum.
Eins gott að við vitum þetta, en bregðumst rétt við! En það er ekki hvað sízt eftirfarandi ummæli hans, sem afhjúpa hvað skýrast ástandið:
Að sögn Bjarna er þessi aukni þrýstingur frá Evrópusambandinu að valda erfiðleikum í að viðhalda sjálfsákvörðunarrétti.
Það er nefnilega það! Ráðherrar Íslands standa höllum fæti gagnvart ágengu stórveldi með hálfan milljarð íbúa á bak við sig. Þá skiptir þeim mun meira máli, að við veitum þessum ráðherrum okkar skýran stuðning í því máli og þeim sem heild verðugt aðhald, sem endurspeglar og sýnir í verki umhyggju landsmanna fyrir sjálfstæði okkar og fullveldisrétti.
Lokasetning mbl.is-fréttarinnar er svo kapítuli út af fyrir sig:
Hann [BB] staðhæfir að á sama tíma hefur EES-aðild Íslands skapað "gífurlega velsæld" þar sem Ísland hefur haldið réttinum til þess að gera eigin fríverslunarsamninga með því að vera utan Evrópusambandsins.
Ekki gaf EES-samningurinn okkur réttinn til að gera eigin fríverzlunarsamninga, þótt hitt sé rétt, að innan Evrópusambandsins hefðum við ekki lengur haft þann rétt.
Um hvaða "gífurlegu velsæld" Bjarni telur sig vera að tala, verður hann sjálfur að útskýra, en nú eru einmitt uppi raddir um það víða, að meta þurfi árangurinn eða afleiðingarnar af EES-samningnum, hvort hann hafi reynzt okkur hagstæður þrátt fyrir allt býrókratíið, sem af honum hefur leitt, eða heft í raun frelsi atvinnuvega okkar og skilað bæði takmörkuðum hagnaði, en um leið valdið okkur skaða, eins og hann gerði m.a. með þeim áhrifum á bóluárunum að leyfa bönkunum að belgja sig út erlendis með skelfilegum afleiðingum.
Það er of snemmt fyrir fjármálaráðherrann að gefa sér, að niðurstaða rannsóknar á áhrifum EES-samningsins, sem nú er kallað eftir á Alþingi, verði sú, að hann hafi skapað "gífurlega velsæld". Sumum hefur hann hjálpað, s.s. útrásarvíkingum til ævintýramennsku og stúdentum í framhaldsskólanámi (bæði erlendum hér og íslenzkum erlendis), en um annað hefur samningurinn verið til byrði, kostar gríðarmikið pappírsstarf í fjöldaþýðingum heils hers þýðenda og þrengir umfram allt að okkar sjálfsákvörðunarrétti, í raun að fullveldi okkar, og lausnin er ekki að gefast upp, heldur að krefjast þess, að staðið sé við upphafleg fyrirheit um tveggja stoða kerfi EES-samningsins (sem felur í sér meira samráð við Ísland um nýjar lagagerðir, ólíkt því sem sjá hefur mátt á síðustu árum) og fulla virðingu samingsaðila gagnvart okkur.
En bezta lausnin kann einmitt að reynast að segja upp EES-samningnum. Þegar hann er farinn að skila okkur lakari fisksölukjörum en Kanada nýtur með sér-viðskiptasamningi við ESB, án þess að það land þurfi að leggjast undir lagaverk Brusselmanna,* þá blasir við, að þessi samningur skilar okkur ekki því, sem honum var ætlað.
* Sbr. https://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/2214455/ (undir kaflaheitunum: Óþol ESB og Valkostur við EES) og hér (12. febr. sl.): Gæði EES-samningsins harla lítil í reynd.
Jón Valur Jensson.
Álíta sjálfstæðið vera vesen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 24.4.2018 kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2018 | 00:35
Tony Benn, fyrrv. ráðherra, um Evrópusambandið sem ólýðræðislegt
Þetta má hlusta á hér og sjá þann gamla tala máli sínu. Hann leggur áherzlu á, að framkvæmdastjórn ESB er skipuð (appointed), ekki lýðræðislega kjörin:
https://www.facebook.com/DailyExpress/videos/2111445572249024/
https://www.facebook.com/DailyExpress/videos/2111445572249024/
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2018 | 22:57
Frétt af "Viðreisn" : komið í ljós hver stofnandinn var!
Þetta sést í pistli dagsins í Morgunblaði þessa þriðjudags til þrautar: Undir hann ritar nákvæmlega þessi: "Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar." Já, sá er maðurinn og heitir Benedikt Jóhannesson. Þá er alveg á hreinu, að "Viðreisn" með sínu stolna nafni var ekki stofnuð til að stuðla hér að gegnsæi og umbótum, heldur til að drösla Íslendingum inn í erlent stórríki aflóga nýlenduvelda, Evrópusambandið, því að það var áhugamál Benedikts þessa, hans ær og kýr alveg frá því að hann mundi eftir sér. En nú er hann orðinn stór og er þá ekki aðeins samur við sig, heldur svolítið móðgaður yfir því að hafa verið sviptur formennsku í flokki þessum, raunar mest með eigin verkum, en sleppum því, nú var þó að minnsta kosti komið að því, að hann skyldi opinbera það, hver stofnandinn var, og það var vitaskuld enginn annar en ESB-Benedikt sjálfur, vesgú og verði ykkur að góðu!
Jón Valur Jensson.
Jón Ingi leiðir Viðreisn í Hafnarfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.4.2018 | 14:22
Húsbóndinn og þrællinn
Inngangur:
Lög frá Alþingi um Evrópska efnahagssvæðið (EES) urðu 25 ára 12. janúar 2018. Þau voru sett í miklum ágreiningi, t.d. vegna sannfæringar margra þingmanna um, að þau fælu í sér framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegra samtaka og brytu þannig í bága við Stjórnarskrá. Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni vegna stofnanavæðingar Evrópusambandsins, ESB, þar sem framkvæmdastjórn ESB setur á laggirnar stofnanir á æ fleiri sviðum og felur þeim víðtæk völd á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, þar sem ráðherraráðið hefur ákveðið og ESB-þingið samþykkt að færa skuli valdið frá stjórnvöldum aðildarríkjanna og til framkvæmdastjórnar ESB. Oftast er þetta gert með vísun til stjórnarskrárígildis ESB, Lissabonsáttmálans. Ágætt dæmi um þetta er Orkusamband ESB, sem er skilgreint með Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, ÞOL, og Orkustofnun ESB, ACER (=Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Framkvæmdastjórnin ætlast til þess, að EFTA-ríkin í EES lúti stjórn þessara stofnana sinna, nánast eins og um ESB-ríki væri að ræða, og þar stendur hnífurinn í kúnni.
Í EES eru 3 EFTA-ríki, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Hvert þeirra um sig hefur neitunarvald í Sameiginlegu EES-nefndinni gagnvart tillögum ESB, eða einhvers EFTA-lands, um upptöku gjörða ESB í EES-samninginn. Þótt fulltrúar allra þriggja EFTA-landanna láti ESB-fulltrúana kúga sig í Brüssel til að samþykkja gjörð, sem tvímælis orkar að taka upp í EES-samninginn, hvílir að stjórnlögum sá stjórnskipulegi fyrirvari á samþykkinu, að Alþingi staðfesti eða hafni gjörninginum. Nákvæmlega hið sama átti við í Noregi. Þar er hins vegar gjá á milli þings og þjóðar í afstöðunni til ESB. Það er rökrétt, að innlimunarsinnar í báðum löndum verji alla gjörninga, sem Sameiginlega EES-nefndin samþykkir, með kjafti og klóm, enda vilja þeir sjálfsagt helzt taka upp allar gjörðir ESB í lagasafn lands síns. Í þessari afstöðu felst efnahagsleg fávísi um hag smáþjóðar og stjórnlagaleg blinda.
Óþol ESB:
F.o.m. samþykkt allra aðildarlanda ESB á stjórnarskrárígildinu, Lissabon-sáttmálanum, árið 2009, stefna allar 3 meginstjórneiningar ESB, Framkvæmdastjórn, Ráðherraráð og ESB-þingið, að því að færa hvern málaflokkinn á fætur öðrum undan stjórnkerfi aðildarlandanna og undir miðstýringu ESB, eins og fyrirskrifað er í téðum sáttmála. Til að taka við stjórn málaflokkanna frá aðildarlöndunum beitir Framkvæmdastjórnin þeirri aðferð að setja á laggirnar stofnun fyrir hvern málaflokk og fela henni víðtækar valdheimildir á viðkomandi sviði undir sínu eftirliti. Má nefna Bankasamband ESB, sem EFTA-löndin hafa gengið í, Orkusamband ESB og Orkustofnun ESB, ACER (=Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem nú stendur styr um á Íslandi og í Noregi. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að mæla með við þjóðþing EFTA-landanna þriggja 5. maí 2017, að þau innleiddu ÞOL í EES-samninginn, sem m.a. færir endanlegt vald yfir raforkuflutningsmálum landanna til ACER. Nefna má, að í burðarliðnum er 1000 blaðsíðna viðbót frá höfuðstöðvum ESB, Berlaymont, við ÞOL og á döfinni er sambærileg löggjöf á vinnumálasviði. Norska verkalýðshreyfingin girðir sig nú í brók til að veita henni viðnám, en sú íslenzka liggur í hýði sínu.
Í upphafi 10. áratugar 20. aldarinnar var stofnað til EES sem fordyris að ESB fyrir EFTA-þjóðirnar, sem þá voru allar taldar stefna inn í ESB. Þær sömdu síðan allar um aðild að ESB, nema Ísland og Liechtenstein, en norska þjóðin hafnaði norska samninginum árið 1994 í annað sinn. Hið fyrra sinnið var haustið 1972, og var höfundur þessarar greinar þá nýkominn til náms í Þrándheimi og rak í rogastanz yfir hitanum í kosningabaráttunni.
EES-samninginn hefur dagað uppi síðan 1992, sem er óeðlilega langur tími fyrir bráðabirgða fyrirkomulag af þessu tagi. Það getur ekki gengið til lengdar, að fullvalda þjóðir láti bjóða sér að taka upp löggjöf ríkjasambands til þess að fá að eiga í viðskiptum við fyrirtæki þar. Líklega er enginn viðskiptalegur ávinningur af þessu í ljósi hagstæðs fríverzlunarsamnings Kanada við ESB, sem Íslendingum ætti að standa til boða. Kostnaðurinn, beinn og óbeinn, af þessu fyrirkomulagi er svo mikill, að hann dregur niður lífskjörin hér, eins og drepið verður á. Frjálst flæði fólks hingað hefur vissulega dregið úr þenslu á vinnumarkaði, en skapað jarðveg ólöglegra undirboða á vinnumarkaði og misnotkun á fólki. Fólk af erlendu bergi brotið í landinu nemur nú um 10 % af heildarmannfjölda, sem er mjög hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Fólkið ber auðvitað með sér bæði menningu og ómenningu, nýsköpun og glæpafár. Til að ná áttum og giftusamlegri aðlögun fyrir frumbyggja og aðflutta er nú tímabært að spyrna við fótum og staldra við.
Ójafnræði ríkir með EFTA- og ESB-ríkjunum á undirbúningsstigum mála. Fámennar þjóðir hafa hreinlega ekki bolmagn til að fylgjast með og taka þátt í allri þeirri gerjun, sem á sér stað í Berlaymont. Það lítur þokkalega út á blaði að setja fram stefnumið um, að Íslendingar skuli nýta alla möguleika til áhrifa, sem EES-samstarfið býður upp á, en til þess gæti þurft 50 búrókrata. Að verja takmörkuðu íslenzku skattfé til slíks er líklega ein óskilvirkasta leið, sem hugsazt getur við ráðstöfun fjár úr íslenzka ríkissjóðinum og kemur ekki til greina. Með sama hætti er furðulegt að sjá í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að nú skuli settur aukinn kraftur í innleiðingu gjörða ESB í íslenzk lög og regluverk. Þetta kostar fé og veldur síðan margföldum kostnaði í atvinnulífinu, er sjaldan til gagns og oft til ógagns eins.
Allar ESB-þjóðirnar eiga fulltrúa með atkvæðisrétt í stjórn ACER, en EFTA-ríkin munu þar aðeins fá áheyrnarfulltrúa við inngöngu í Orkusambandið. Það er ærið verkefni fyrir embættismenn ESB að ná sameiginlegri niðurstöðu með ESB-ríkjunum, og þolinmæði þeirra gagnvart sérkröfum EFTA-ríkjanna er á hverfanda hveli. Er nú svo komið, eftir að brezka þjóðin ákvað að ganga úr ESB í júní 2016, að embættismenn ESB eru hættir að nenna að vinna að undanþágum eða sérlausnum með EFTA. Þannig fengu EFTA-þjóðirnar engum kröfum sínum framgengt í 6 ára samningaþófi um ÞOL, sem nú hefur steytt á skeri, og staða þeirra í Orkusambandinu verður eins og 2. flokks ESB-ríkis, ef af verður. Sviðsmynd húsbónda og þræls krystallast í ACER. Í Noregi urðu um Þriðja orkubálkinn (ÞOL) hatrammar deilur í Stórþinginu, og um allan Noreg reis mótmælaalda gegn innleiðingu hans. Sveitarstjórnir og fylkisþing samþykktu mótmælayfirlýsingar og verkalýðshreyfingin lagðist alfarið gegn innleiðingu, augljóslega af ótta við slæmar afleiðingar fyrir atvinnustigið í landinu, og mótmælagöngur með kyndla voru gengnar víða í landinu. Stórþingið er hins vegar hallt undir ESB-aðild Noregs, og til undirbúnings ESB-aðild samþykkti það inngöngu Noregs í orkusambandið.
Á Íslandi er staðan önnur. Málið var kynnt utanríkismálanefnd Alþingis 2015, og þar varð Frosti Sigurjónsson einn þingmanna til að vara við þessu máli, en það hlaut enga almenna umfjöllun, eins og átti sér þá og æ síðan stað í Noregi. Heimssýn tók ekki þá upp baráttu gegn því, eins og norsku systursamtökin, Nei til EU. Eftir að höfundur þessarar greinar vakti rækilega athygli á málinu með vefgreinum og Morgunblaðsgrein, og eftir heimsókn formanns Nei til EU til Íslands 1. marz 2018 í boði Heimssýnar, tóku 2 stjórnmálaflokkar við sér í aðdraganda Flokksþings Framsóknarflokksins og Landsfundar Sjálfstæðisflokksins, þar sem samþykktar voru tímamóta ályktanir gegn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. Er nú svo komið, að líklegt má telja, að Alþingi hafni umbeðinni innleiðingu í EES-samninginn. Það verður söguleg stund.
Valkostur við EES:
Með útgöngu Breta úr ESB skapast alveg ný tækifæri til samskipta Evrópuþjóða utan ESB og annarra við ESB. Í ESB-löndunum, einkum á meðal hinna minni, er vaxandi óánægja með samrunaferli, flóttamannastefnu og peningamálastefnu sambandsins. Á Ítalíu standa yfir stjórnarmyndunarviðræður, þar sem flokkar, gagnrýnir á ESB, munu sennilega mynda ríkisstjórn. Fleiri þjóðir kunna að kvarnast út úr ríkjasambandinu í kjölfar Breta. Bretar munu vafalaust gera fríverzlunarsamning við ESB, vonandi eigi síðar en 2020, og Íslendingar og Bretar munu gera með sér fríverzlunarsamning. Íslendingum mun vafalítið einnig bjóðast að gera fríverzlunarsamning við ESB, gangi þeir úr EES, og sé tekið mið af fríverzlunarsamningi Kanada við ESB frá 2017, verður hann jafnvel hagstæðari en núverandi viðskiptakjör í EES, t.d. á sviði sjávarútvegsmála, en á því sviði er ekki fullt tollfrelsi gagnvart ESB, af því að Ísland hafnaði hinni sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu sambandsins. EFTA-dómstóllinn, sem jafnan dæmir í samræmi við ESB-dómstólinn, hefur kveðið upp óviðunandi úrskurð fyrir Íslendinga um óheftan innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Þessi innflutningur hefur í för með sér hættu á sýkingu manna og búfjár. Það er hrein valdníðsla EES gagnvart sjálfstæðri þjóð að ætla að gera löggjafarþing þjóðarinnar afturreka með lágmarks varúðarráðstafanir sínar 2009 gagnvart stórfelldum heilsufarslegum og þjóðhagslegum hnekki við smit. Það ber að láta steyta á þessu máli. Ef eftirgjöf vegna skuldbindinga EES-samningsins er óhjákvæmileg, þá ber fremur að segja þeim samningi upp. Skaðleg langtímaáhrif eftirgjafar geta orðið óafturkræf hérlendis.
Með útgöngu úr EES geta sparazt hérlendis gríðarlegir fjármunir, ef samtímis verður ráðizt í grisjun reglugerðafrumskógarins og minnkun eftirlitsiðnaðarins eftir föngum. Verzlunarráð Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að beinn og óbeinn kostnaður atvinnulífsins vegna íþyngjandi opinberra kvaða nemi um 175 miaISK/ár og vaxi um 1,0 %/ár, mest vegna minni framleiðniaukningar af völdum tíma og kostnaðar af reglugerðum og eftirlitsstofnunum. Auðvitað verður í nútíma þjóðfélagi ómögulegt að afnema þessar kvaðir, en það er brýnt að skera slíkan kostnað niður við trog í litlu þjóðfélagi, þar sem sárafáir starfsmenn eru að jafnaði í hverju fyrirtæki í samanburði við meginland Evrópu, sem regluverkið er sniðið við. Raunhæft er að spara tæplega 50 % af þessari yfirbyggingueða rúmlega 80 miaISK/ár. Til að setja þetta í launasamhengi gætu allir launamenn landsins fengið 4 % hækkun launa fyrir vikið, en skynsamlegra er þó að nýta svigrúmið til að auka framleiðnina rækilega og endurvinna þannig samkeppnishæfni atvinnulífsins með fjárfestingum í framleiðniaukandi tækni.
Orkusamband ESB:
Orkusamband ESB er skilgreint með Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009 (ÞOL). Til að sinna nauðsynlegum verkefnum til að framfylgja stefnumiðum Orkusambandsins var Orkustofnun ESB, ACER, komið á laggirnar í Ljubljana 2011. Hún hefur á sinni könnu að samtengja öll lönd Orkusambandsins svo rækilega, að bæði rafmagn og eldsneytisgas geti flætt frjálst og hindrunarlaust á milli svæða og á milli landa innan Orkusambandsins. Orkulindir Íslands innihalda enn ekkert jarðgas, en það er þó ekki útilokað, að það finnist innan efnahagslögsögunnar, og rannsóknir hafa staðið yfir á Drekasvæðinu, eins og menn vita, hvað sem úr þeim verður. Hins vegar eru hér tiltölulega miklar endurnýjanlegar orkulindir, og það er einmitt rafmagn úr slíkum orkulindum, sem ACER er á höttunum eftir. Til að auka afhendingaröryggi raforku og bæta nýtingu orkuveranna, einkum hinna sjálfbæru (aðallega vind- og sólarorkuvera), er stefnumið ACER að bæta tengingar á milli rafvorkukerfanna að svo miklu leyti, að verðmunur á milli þeirra verði minni en 2,0 EUR/MWh eða tæplega 0,25 ISK/kWh á frjálsum markaði. Gangi Ísland í Orkusambandið, verður hvergi meiri verðmunur á milli nágranna en á milli Íslands og Bretlands. Hann er rúmlega 3,0 ISK/kWh eða tólffalt viðmiðið. Þetta er skýringin á því, að ACER hefur tekið sæstrengsverkefnið Ice Link, sem er um 1200 MW sæstrengur til Bretlands, inn á forgangsverkefnaskrá sína, enda mun ACER hafa það í hendi sér, ef Alþingi samþykkir ÞOL, að hefja undirbúning verkefnisins af fullum krafti án þess að ræða við kóng eða prest hérlendis um það. Með samþykkt bálksins felur Alþingi ACER sjálfdæmi um tilhögun raforkuflutningsmála innanlands og að og frá landinu. Hvorki Alþingi né ríkisstjórn verða eftir það spurð um þessi mál, nema EES-samninginum verði sagt upp, enda er það meginhlutverk ACER að ryðja öllum staðbundnum hindrunum úr vegi frjálsra og hindrunarlausra raforkuflutninga um allt svæðið, svo að 5. frelsið bætist við á Innri markaðinum. Slíkar staðbundnar hindranir eru t.d. stefna stjórnvalda um að nýta hagkvæma innlenda orku til atvinnusköpunar um allt land.
Allir sjá, að Íslendingar eru á allt öðru róli en ESB-ríkin í orkumálum og eiga enga samleið með meginlandinu í þessum efnum, enda voru orkumál ekki eitt hinna umsömdu sviða í upphaflega EES-samningnum, sem var settur á laggirnar til að ákvarða leikreglurnar fyrir frelsin 4 á Innri markaðinum, þ.e. fyrir frjáls vöruviðskipti, frjáls þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa för fólks innan EES. Íslendingar eiga alls ekki að samþykkja útvíkkun á gildissviði EES-samningsins, því að þannig nálgast þeir enn meir að verða undirsátar Brüssel-valdsins. Ástæðan er sú, að ESB-ríkin eru í samrunaferli, og Framkvæmdastjórnin meðhöndlar EFTA-ríkin nú sem annars flokks ESB-ríki, þ.e.a.s. ætlar að setja þau undir stjórn stofnana, eins og ACER, sem þau hafa ekkert komið að mótun á og eru ekki fullgildir aðilar að. Þetta stríðir algerlega gegn Stjórnarskrá Íslands, 2. gr., og kemur þess vegna alls ekki til mála í huga annarra en ESB-sinna. Að sjálfsögðu skiptir engu máli í þessu sambandi, hvort aflsæstrengur til útlanda er nú fyrir hendi eða ekki.
Niðurstaða:
EFTA-ríkin í EES eru í hlutverki þrælsins á höfuðbólinu. Þau hafa hingað til tekið því, sem að þeim var rétt. Húsbóndinn færir sig hins vegar stöðugt upp á skaptið, svo að nú er komið að því að toga í neyðarhemilinn og segja: hingað og ekki lengra. Stórþingið féll á prófinu, þótt norska þjóðin stæðist það með glans. Í Noregi hefur nú myndazt gjá á milli þings og þjóðar. Á Íslandi blása samt aðrir og gæfulegri vindar. Það virðist ætla að verða fullur samhljómur á milli þings og þjóðar í hinu svo kallaða ACER-máli, sem er á málaskrá ríkisstjórnarinnar á vorþinginu 2018.
ACER-málið er stórmál fyrir Íslendinga, þótt enginn sé enn aflsæstrengurinn til útlanda. Það snýst ekki um eignarrétt yfir orkulindunum að þessu sinni, heldur um ráðstöfunarréttinn á raforkunni. Eiga lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Íslandi að eiga möguleika á að stýra notkun hennar í þjóðhagslega hagkvæma farvegi, eða á að láta markaðsöfl niðri í Evrópu um að beina henni til hæstbjóðenda þar? Á milli þessara tveggja kosta eru himinn og haf, og það er ótrúlegt, að Alþingi Íslendinga skuli árið 2018, á einnar aldar afmælisári fullveldis landsins, vera sett í þá veruleikafirrtu stöðu að þurfa að velja á milli þessara tveggja kosta.
Garðabæ, 8. apríl 2018,
Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur
Finna lausn án þátttöku Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðlindir og orkumál | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)