Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
14.6.2012 | 08:00
Hagsmunir Bretlands og Íslands - ólíku saman að jafna
Það gefur að skilja að það eru hagsmunir Bretlands að vera í hinu nýja stórveldi Evrópusambandinu. Ásamt öðrum fyrrverandi nýlenduveldum þar hefur Bretland komið því svo fyrir með Lissabon-sáttmálanum, að atkvæðavægi þess í ráðherraráðinu volduga og leiðtogaráðinu eykst um 46,6% hinn 1. nóv. 2014, þ.e. úr núverandi 8,41% í 12,33%. Þannig myndu Bretar ráða þar áttunda hverju atkvæði, áður en byrjað væri að telja samherja þess í atkvæðagreiðslum. Til samanburðar fengi litla Ísland 0,06% atkvæðavægi í þessum tveimur ráðum (205 sinnum minna en Bretar!).
Jafnvel þótt Bretar hafi liðið fyrir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, þá ætla þeir að bæta sér það upp ... á Íslandsmiðum. Hér fengju þeir jafnan aðgang að fiskveiðilögsögunni milli 12 og 200 mílna, rétt eins og Spánverjar.
Samfylkingarkonan Ingibjörg Sólrún komst strax á snoðir um þessi áform Bretanna síðla hausts 2008, eins og fram kom þá í Fréttablaðinu.
Þá ætla Bretar sér ennfremur að ná hér í raforku með sæstreng; eru strax farnir að undirbúa það, með komu ráðherra hingað, og fengu leiðitama 3ja mánaða ráðfrúna Oddnýju G. Harðardóttur til að undirrita viljayfirlýsingu þess efnis (hvað, fyrir næstu 1-5 ríkisstjórnir hér??! JÁ!!!).
Ef við létum fallerast fyrir ESB, myndi staða okkar í orkusölumálum stórversna, því að í Lissabon-sáttmálanum eru mjög hentugar valdheimildir fyrir ESB og Bretana til að ná hér fullum tökum á olíauðlindum og raforkudreifingu -- ekki með "þjóðnýtingu" þess arna til Brussel, heldur með skorðum við sölu til annarra en ESB-landa, með verðstýringu, ágengni-stýringu í auðlindirnar o.fl.
Þá er þess enn ógetið, að raforkusala Íslands sem hugsanlegs ESB-lands til Bretlands myndi koma niður á almennum neytendum hér, því að ólögmætt yrði að láta þá njóta fríðinda í formi lægra verðs en til Bretanna, það teldist brjóta í bága við jafnræðisreglur Evrópusambandsins. Afleiðingin yrði stórhækkað raforkuverð til heimilanna og a.m.k. allra annarra fyrirtækja en þeirra, sem beinlínis hafa innsiglaða samninga til langs tíma.
Þótt brezkur almenningur sé afar fráhverfur Evrópusambandinu -- aðeins fjórði hver Breti styður áframhaldandi veru í ESB - aðeins 8% vilja evru í stað punds! -- þá eru brezk stjórnvöld á öðru máli og sjá vitaskuld sóknarfæri fyrir sig að komast auðveldlega í að gramsa í okkar auðlindum. Þá yrði tvöfalds ósigurs þeirra hefnt: gagnvart Íslendingum í þorskastríðunum og gagnvart Spánverjum vegna sjávarútvegsstefnu ESB og dómsniðurstöðu ESB-dómstólsins.
Bretar eiga stórveldishagsmuni undir því að vera í Evrópusambandinu; Íslendingar, sem eru meira en 200 sinnum færri, eiga þar nánast öllu að tapa og nánast ekkert að vinna, enda ekki með vægi til að verja sig á vettvangi gömlu tíu nýlenduveldanna, sem frá 1.11. 2014 munu ráða um 73,34% atkvæðavægi í ráðherraráði og leiðtogaráði Evrópusambandsins.
Fagnaðarlæti sumra Esb-sinna yfir því, að tiltekin hugveita hafi sagt hagsmunum Breta betur borgið innan en utan ESB, eru því gersamlega misráðin, ef þeir ímynda sér, að þetta getið orðið okkur til fyrirmyndar um nokkurn skapaðan hlut!
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"ESB gengur bara í eina átt enda eru leiðtogar þess í Brussel og Berlín sannfærðir um að annars riði það til falls." Þannig ritar leiðarahöf. Mbl. í dag. Og í hvaða átt? Samrunaáttina. Það er alveg ljóst, að þetta er sú átt sem æðsti maður ESB stefnir í og margir voldugustu menn Evrópusambandsríkjanna með honum.
- José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir nú að öll 27 ríki sambandsins þurfi að ganga lengra í samruna fjármálakerfa sinna en gert sé ráð fyrir í lagafrumvörpum framkvæmdastjórnarinnar frá því í síðustu viku. Taka þurfi "mjög stórt skref" í samrunaátt ef draga eigi lærdóm af skuldakreppu aðildarríkjanna og þetta þurfi að gerast á næsta ári. (Mbl.)
Já, strax á næsta ári, góðir lesendur! Vituð ér enn eða hvað?
- Barroso segir að nú sé lag vegna ástandsins í álfunni. Þetta tækifæri vill hann grípa til að stíga "mjög stórt skref" í átt að sambandsríki. Og þó að ástandið batni dettur engum í hug að skrefið stóra verði stigið til baka.
Hér er þessi stutti snilldarleiðari Mbl.: Mjög stórt skref. Þeir birtast þar margir hver öðrum betri, leiðararnir um Evrópsambandið og hina ófarsælu umsókn minnihlutaflokks á Alþingi um inntöku Íslands í það sífellt valdsæknara stórveldabandalag.
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2012 | 14:00
Hvers vegna þegja ráðamenn ESB og ríkisstjórnar Íslands um kröfur Lissabonsáttmálans?
Gústaf Adolf Skúlason ritar:
Það er merkilegt að fylgjast með ráðamönnum Íslands krefjast þess, að þjóðin bíði eftir því, sem kemur "úr pakkanum". Enginn getur sagt, hvað það er né hvenær það verði sýnilegt. Sem sagt í stíl við bestu töframenn, sem töfra kanínur upp úr töfrahatti. Skýringin á þessum loddaraleik er sú, að ekkert annað getur komið upp úr pakkanum en samþykki ESB á aðlögunaráætlun Íslands að ESB samkvæmt kröfum Lissabonsáttmálans. Hinn stórkostlega "samning", sem á að slá ráðherra ríkisstjórnarinnar til riddara hvíta hestsins í huga þjóðarinnar, er hvergi að finna nema í höfðum ráðherranna sjálfra. Þeir þegja um hvaða störf þeir eru að vinna á bak við tjöldin, sem öll miða að því að veita aðildarferlinu brautargengi, þótt það þýði klafa á þjóðina á borð við Icesave, ólöglegt stjórnlagaráð, umturnun ráðuneyta og eyðileggingu sjávarútvegsins.
Aðlögunarferlið er fólgið í opnun svokallaðra málakafla og er þeim lokað, þegar áætlun umsóknarlandsins um breytingar till að fullnægja skilyrðum Lissabon-sáttmálans liggja fyrir. Það, sem tefur birtingu hinnar óskilgreindu tálsýnar, sem ríkisstjórnin veifar framan í landsmenn, er að fyrirfram þekktar kröfur Lissabonsáttmálans stangast á við umboð ríkisstjórnarinnar frá Alþingi um "að kíkja í pakkann". Það er ekkert slíkt ferli til hjá ESB, sem hægt er að líkja við "að kíkja í pakkann". Einungis aðlögunarferli umsækjenda að kröfum Lissabonsáttmálans. Öllum, sem eitthvað kynna sér málefni ESB, er þetta frá upphafi ljóst. Ríkisstjórn Íslands hefur farið eins mikið á svig við upprunalegt umboð Alþingis um að "kíkja í pakkann" og hægt er án þess að stjórnin klofni um málið og stjórnin fellur. Gagnvart þjóðinni hefur ríkisstjórnin farið eins langt út fyrir umboð kjósenda og hægt er, eins og í Icesave, án þess að þurfa að hrökklast frá völdum.
Ríkisstjórn Íslands er því með lygum sínum um einhvern stórkostlegan "samning", sem víkur frá Lissabonsáttmálanum, búin að króa sjálfa sig af úti í horni og getur sig hvergi hreyft. Skýringin á því, hvers vegna aðildarferlið dregst, er meðal annars að finna í sjávarútvegskaflanum en ESB fer með einhliða og alhliða vald yfir þeim málaflokki. Svið valdaheimilda ESB er skýrt skilgreint í Lissabonsáttmálanum í 1. Bálki um Flokka og svið valdheimilda Sambandsins 2.gr. (feitletur og undirstrikanir mínar/gas):
"1. Þegar Sambandinu eru veittar fullar valdheimildir á tilteknu sviði í sáttmálunum er því einu heimilt að setja lög og samþykkja lagalega bindandi gerðir en aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera slíkt að Sambandið veiti þeim umboð til þess eða í því skyni að koma gerðum Sambandsins til framkvæmda."
Í 3.gr. eru hin tilteknu svið skilgreind:
"1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins:
a) tollabandalag,
b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins,
c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil,
d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar,
e) sameiginleg viðskiptastefna.
2. Sambandið skal einnig hafa fullar valdheimildir þegar kemur að gerð milliríkjasamninga ef kveðið er á um gerð þeirra í lagagerð Sambandsins eða hún telst nauðsynleg til að gera Sambandinu kleift að beita valdheimildum sínum á vettvangi sínum eða að því marki sem gerð slíkra samninga er til þess fallin að hafa áhrif á sameiginlegar reglur eða breyta gildissviði þeirra."
Samkvæmt ofangreindum skilmálum er algjörlega ljóst, að Íslendingar afsala sér sjálfsákvörðunarrétti sínum varðandi stjórnun peningamála, 200 mílna lögsögu sjávar og auðlindum hafsins, milliríkjasamningum Íslendinga og sameiginlegri viðskiptastefnu.
Í heimsóknum Stefans Fúle til Íslands hefur hvorki hann né hafa aðrir ráðamenn ESB reynt að upplýsa landsmenn um kröfur Lissabonssáttmálans né þýðingu þeirra krafna fyrir framtíðar stjórnarhætti Íslands, gangi Ísland með í ESB. Þar sem hvorki ráðamenn ESB né Íslands upplýsa Íslendinga um hina raunverulegu lagaskilmála Lissabonsáttmálans, sem Ísland sem ríki beygir sig undir með aðild að ESB, er engu líkar en þeir geri sér grein fyrir því, að það séu einmitt þessar kröfur, sem séu stærstu hindranir fyrir inngöngu Íslendinga í ESB. Að Íslendingar afhendi ekki sjálfviljugir yffiráð sín á peningamálum, sjávarútvegsmálum, milliríkjasamningum og viðskiptastefnu til erlends stórveldis í umsjá andlitslausra búrókrata í Brussel. Þetta kemur heim og saman við þau vinnubrögð, sem í gangi hafa verið frá upphafi ESB, að ekki megi upplýsa um raunveruleg markmið ESB, sem er að stofna hið sameiginlega ríki, sem Gordon Brown lýsti svo vel sem hinu nýja ráðandi heimsveldi jarðar á fundi Evrópuþingsins vorið 2009.
Það er auðvelt fyrir forsætisráðherra einstakra ríkja í Evrópu að hittast á fundum og stofna ríkjasamband, sem síðan er staðfest af kjörnum meirihluta þjóðþinga, sem þeir hinir sömu ráðamenn eru í forsvari fyrir. Orsakir sívaxandi stjórnmálakreppu ESB er einmitt fólgin í því, að kjósendur geta aðeins í þingkosningum sagt álit sitt með því að fella sitjandi ríkisstjórnir, sem samþykkt hafa aðild að ESB og upptöku evrunnar oft gegn vilja almennings. Enda er nú svo komið, að skipt hefur verið um ríkisstjórnir í flestum aðildarríkjum ESB undanfarin ár, sem aukið hefur á óstöðugleika allan.
Það besta fyrir hvern og einn er náttúrulega að kynna sér málin sjálf(ur) og lesa um hvað það fjallar. Skilgreiningu á valdsviðum ESB er að finna á síðum 50-53 í Lissabonsáttmálanum, sem hlaða má niður hér:
http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/lissabon-sattmali/Lissabon-heildarskjal.pdf
11. júní 2012,
Gústaf Adolf Skúlason
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þetta kom fram í Spegilsviðtali Kristins R. Ólafssonar í Madríd við hann, Martín Fragueiro, 3. sept. 2009. Hann leit "björtum augum á viðræðurnar. Þær verða að vera báðum í hag, bæði ESB og Íslandi," sagði sjávarmálastjórinn.*
En það er undarlegt með fyrirsagnir -- að minnsta kosti á Rúv-vefnum, sem Kristinn R. Ólafsson ræður kannski engu yfir, þótt verið sé að fjalla um hans eigið framlag til frétta. Fyrirsögnin um þetta mál á á Rúv-vefnum var: Engin innrás Spánverja á Íslandsmið. Sú "ekkifrétt" hefði hins vegar átt að falla í skuggann af ískyggilegu tali Martíns um það sem þeir þeir spænsku ÆTLA sér, eins og fram kemur hér á eftir, í beinni uppskrift af upptöku af þessum Spegilsþætti og pistlinu á Rúv.is.
Kristinn segir í pistlinum:
- En ... þó að sjávarmálastjórinn fari nokkuð undan í flæmingi, má lesa það milli línanna í svörum hans að Spánverjar muni, eðlilega, standa fast á sínu í komandi aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og vísa bæði til viðskiptahagsmuna Íslendinga og veiðireynslu Spánverja við Ísland ef hún er fyrir hendi.
Þarna er strax sleginn sterkur tónn, feigðarboði raunar. Hér notar Fragueiro, þáv. sjávarmálastjóri Spánar, almennari orð:
- "Ísland er ekki óþekkt; Ísland nýtur sérvirks fyrirkomulags gegnum Evrópska efnahagssvæðið þar sem vörur þess hafa frjálsan aðgang að svæði Evrópusambandsins, þ.e.a.s. það fær svipaða meðferð og aðildarlönd þess. Þess vegna lítum við björtum augum á viðræðurnar. Þær verða að vera báðum í hag, bæði Evrópusambandinu og Íslandi sem er það land sem hefur bankað upp á til að ganga í klúbbinn. [Sic!!]
"Við" vísar þó þarna til Spánverja. Og skoðið þetta, sem segir mun meira:
- "Ég hygg að þegar ríki gengur í Evrópusambandið beri að tala um evrópusambandsvæðingu" auðlinda og rökrétt að aðgangur að auðlindum þessum byggist á veiðireynslu. Efnahagslegir þættir verða auðvitað teknir með í reikninginn, verslunarviðskiptin. Sem dæmi má nefna að viðskiptastaða sjávarafurða... - ég hef ekki gögn yfir allt Evrópusambandið - en bara viðskiptastaða Spánar og Íslands, 2007-2008, sýnir að Íslendingar fluttu inn til Spánar um 25 þúsund tonn fyrir 125 milljónir evra... (-) Hinsvegar nemur útflutningur Spánverja til Íslands ekki nema tæpri milljón evra síðustu tíu árin en það er að meðaltali 100.000 evrur á ári. Íslendingar hafa mikilla hagsmuna að gæta á markaði Evrópusambandsins og sérlega á þeim spænska..."
Veiðireynslan er vakandi í huga hans, en það er ekki eins og hann telji hana Spánverjum til trafala þvert á móti.
- "Við vitum vel hvað við þurfum að fara fram á þegar að viðræðum kemur. Ég hygg að við höfum mikilvæga þætti okkur í hag. Sögulega sókn flotans á Íslandsmið. Við erum alls ekki að tala um magnaða sókn. Og ég held að það þurfi að tilfæra eina staðreynd: nú sem stendur er Ísland sextánda mesta framleiðsluland sjávarafurða í heiminum en Spánn er í 23. sæti."
Til hvers er þessi sleipi maður að taka þetta fram? Hann hefur þegar undirstrikað, að útflutningur Spánverja til Íslands sé sáralítill (um 630 sinnum minni en útflutningur okkar til Spánar). Það tók hann ekki fram nema af því að hann lítur á það sem eins konar ójafnvægi eða skekkju sem þurfi að lagfæra, a.m.k. ef bæði löndin verða í sama ríkjasambandi. Svo vekur hann athygli á því, að Ísland (með um 130 sinnum færri íbúa en Spánn) er með mun meiri sjávarafla en hans eigið land sem Evrópumálaráðherra Spánar, Lopez Garrído, hafði þó í öðru Spegilsviðtali kallað "heimsveldi í fiskveiðum". Auðséð er þó óánægjan með þessi ójöfnu skipti, og fara menn nærri um, hvað hann gefur hér í skyn: Ísland þarf að láta eitthvað af fiskveiðiréttindum sínum í hendur annarra, enda kallast það á við tal hans um "evrópusambandsvæðingu" auðlinda. Og í 3. lagi er svo vakandi hugsun hans um "veiðireynsluna".
En hver ætti að vera ástæða Spánverjans til að hafa veiðireynsluna svo mjög á orði og tengja hana "evrópusambandsvæðingunni"? Getur það verið, að það tengist allt 3.000 tonnum af karfa?! Ég vísa hér til orða hans, en dreg síðan mikilvægari ályktanir rétt á eftir; en Kristinn spyr hans þar fyrst:
- En útilokar ekki reglan um hlutfallslegt jafnvægi önnur ríki frá veiðum á Íslandsmiðum enda hafa þau enga veiðireynslu þar hin síðari ár?
- Martín Fragueiro svarar því til að samningar um fiskveiðar milli Íslands og ESB byggist á Oportó-samkomulaginu frá 1992 það var gert í tengslum við EES-samninginn. Þar eftirlét sambandið Íslendingum um 30 þúsund tonn af loðnu í skiptum fyrir 3000 tonn af karfa. Martín Fragueiro segir að þessum aflaheimildum hafi verið útdeilt til sambandsþjóða sem höfðu reynslu af karfaveiðum, til Þjóðverja og Breta og smákvótum til Frakka og Belga. En raunin hafi sýnt að þessi samningur hafi ekki virkað þar sem Evrópusambandið hafi ekki haft næga loðnu til að bjóða Íslendingum og staðreyndin sé sú að ekkert Evrópusambandsskip sé nú við veiðar á Íslandsmiðum.
- "Ég hygg að aðgangur að tilteknum auðlindum sé hluti af því sem kallast regluverk Evrópusambandsins. Það felur eðlilega í sér réttindi en því fylgja líka skyldur. Ég hygg að þessi mál eigi að taka fyrir við samningaborðið og reyna að finna lausnir sem báðir aðilar geti sætt sig við,"
segir hann ennfremur. Við það samningaborð yrði við Spánverja, Breta, Þjóðverja, Frakka, Belgi og Hollendinga að etja, sem allir hafa stundað veiðar á Íslandsmiðum, og e.t.v. Dani og Portúgali að auki, en einnig Brussel-valdabáknið sjálft. Aðstaða okkar yrði svipuð og músarinnar í mjúkum loppunum á kettinum, sem fljótar eru að breytast í klórandi krumlur.
Þið sáuð, lesendur góðir, hvernig Icesave-samninganefnd okkar var strax árið 2009 ofurliði borin á mettíma af lögfræðingaveldi Breta, sem tilreiddu allan lagatextann (auðvitað á tyrfnu, ensku lagamáli, ofar skilningi aðalsamninganefndarmanns okkar) og settu okkur þar stólinn fyrir dyrnar. Í ennþá viðameira máli væri auðvelt að kaffæra okkur með pappírum og kjaftagangi, sem allt kapp yrði lagt á að láta líta sem bezt út. Litla Ísland, sem sparaði milljónahundruð í Icesave-málinu til að fleygja milljarða-hundruðum, yrði auðveldur biti fyrir þessa marghöfða sókn að réttindum okkar þeim réttindum sem Evrópumálaráðherra Spánar kallaði réttilega, í fyrrnefndu viðtali, forréttindastöðu" íslenzkrar þjóðar.
En Kristinn R. Ólafsson reyndi þó að ýta ráðherranum upp að vegg, þar kominn í málinu, sem fyrr er frá sagt, og knýja á um svör, en takið líka eftir, hve flóttalegur sá síðarnefndi verður, einkum í lokaorðunum:
- Kristinn R.: Væri mögulegt fyrir ESB, eða að áliti Spánverja, að það viðurkenndi sjávarútveg sem lífsnauðsynlega auðlind fyrir Ísland og að Íslendingar viðhéldu formlegri stjórnun þeirra mála?
- Martín Fragueiro: "Það er mjög erfitt að ákvarða um þetta. Sjávarútvegur er mjög mikilvægur íslensku efnahagslífi...(-) ...og ekki aðeins til að fullnægja innanlandseftirspurn heldur er útflutningsmarkaðurinn helsti markaður Íslands. Ég hygg að í Evrópusambandinu séu fjölþætt tengsl, við erum á sameiginlegum markaði og hagsmunirnir margir. Þetta snýst um að finna jafnvægi milli hagsmuna eins ríkis, hvort sem það er sendingar- eða móttökuríkið, í þessu tilfelli framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og hvers lands. Ég hygg að þetta verði að brjóta til mergjar í viðræðunum og það sé ótímabært að gera grein fyrir hver afstaða Spánar verður."
Þarna falla almenn orð, þ. á m. nokkur sem hljóma eins og sanngirni og skilningur, en þau hafa ráðherrar gjarnan uppi, þótt þeir hyggi á ásælni og kannski ekki sízt þá. (Látum Grím Thomsen þekkja valdamennina, en menn telja kvæði hans um Goðmund á Glæsivöllum óm af hans diplómatísku reynslu í París og víðar.) En "jafnvægið" sem ráðherrann talar hér ítrekað um merkir ekkert minna en málamiðlanir og hrossakaup. Og ætlum við að hafa jafn-ótrúan mann og Össur Skarphéðinsson sem kaupahéðin á okkar vegum til að gera út um þau hrossakaup fyrir íslenzka þjóð að henni óspurðri?
* Viðauki 9.6. 2012: Einnig Stefan Füle viðurkenndi ósjálfrátt (þótt það væri ekki megináherzla hans) í viðtalinu við Boga Ágústsson í Sjónvarpinu nýlega, að í þessu aðildarmáli Íslands væri líka um hagsmuni Evrópusambandsins að ræða, og er sú játning hans þvert gegn því, sem ýmsir ESB-sinnar hér á landi hafa leyft sér að fullyrða og jafnvel sumir hverjir látið sem inntaka Íslands yrði ný byrði á Evrópusambandinu!!!
** Sjá þessa grein: Íslendingar gætu þurft að greiða skaðabætur vegna þorskastríðanna, sem byggir á frétt í Ríkisútvarpinu 9. febrúar 2007. Fréttin er öll afar athyglisverð og langt frá því að vera úrelt, heldur kannski einmitt tímabærari lesning nú en nokkru sinni fyrr. Menn lesi hana alla, sér til upplýsingar (raunar er hún stutt), en ég tek hér upp lokaorð hennar:
- "Reglan um hlutfallslegan stöðugleika fjallar um fiskveiðiréttindi miðað við veiðireynslu þjóða en einnig um skaðabætur vegna tapaðra veiða. Stefán segir hugsanlegt að gangi Íslendingar í Evrópusambandið krefjist aðrar fiskveiðiþjóðir skaðabóta vegna tapaðra veiða þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína."
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2012 | 19:59
Ætli henni detti í hug að leggja sinn fjársjóð inn á evru-reikning?
Argentínuforseti ætlar að loka dollarareikningi sínum, en flytja 3M$ hvert? Nei, ekki á evrureikning, enda ekki illa upplýst, og það eru Pólverjar ekki heldur - "aðeins 12% þeirra vilja að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill Póllands" og þeir "fyllast ógleði við tilhugsunina" að vera "skuldbund[nir] til að taka upp evru að uppfylltum ákveðnum skilyrðum samkvæmt aðildarsamningi við ESB."
- "Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að samkvæmt þessari könnun séu 58% Pólverja andsnúnir upptöku evrunnar og þar af er þriðjungur sem telur að Pólland ætti aldrei að taka hana upp." - Nánar um þetta mál hér á Vinstrivaktinni.
Á Íslandi hefur evruáhugi sannarlega dalað; jafnvel í Samtökum iðnaðarins vildu einungis 36,5% að Ísland taki upp evru, sbr. hér. En þetta var í ofanverðum marzmánuði. Sennilega hefur enn reytzt mikið fyrgi af evrunni síðan þá. Og myglaða rúsínan í pylsuendanum er sú, að við yrðum skyldug til að taka upp evruna, ef stjórnmálaelítunni hér tækist að afvegaleiðina þjóðina inn í þetta stórveldaapparat, Evrópusambandið.
Cristina Kirchner, forseti Argentínu, ætlar að leggja sínar þrjár milljónir dollara inn á peso-reikning.
Jón Valur Jensson.
Lokar dollarareikningi sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2012 | 02:51
Ekki flóafriður fyrir neyðarfundum um evrusvæðið; en á Íslandi bíður söfnuður heittrúaðra þess að fá inngöngu!
Vandi ríkjanna á evrusvæðinu er gríðarlegur og sífelldir neyðarfundir haldnir vegna hans í ýmsum löndum, jafnvel í St Pétursborg. Cameron, forsætisráðherra Breta, "segir að ekki sé hægt að ætlast til þess að Þýskaland geti eitt leyst þann vanda sem ríkin á evrusvæðinu eigi við að eiga. Hann segir að þörf sé á margvíslegum alvarlegum aðgerðum" (Mbl.is).
Jafnvel þótt Bretar hafi sagt sig frá þátttöku í neyðaraðgerðum, var hann nú að funda um þennan risavaxna vanda með Angelu Merkel, kanzlara Þýzkalands, og ræddi einnig við Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Stendur til, að fá eigi lán hjá norska olíuveldinu til að bjarga málum á evrusvæðinu? Ekkert veit undirritaður um það, en hitt kom fram í fréttinni hér, að "hann sagði eftir fundinn að þörf væri á skjótum viðbrögðum."
Er það ekki undarlegt, að jafnvel nú, undir það síðasta, í eldhúsdagsumræðum til dæmis, eru Samfylkingarmenn ennþá að tala um að koma okkur Íslendingum inn á þetta illa haldna evrusvæði?! Jafnvel samherjar þeirra í Samtökum iðnaðarins hafa nú snúið við blaðinu: meirihluti félagsmanna þar vill EKKI evruna!
Jón Valur Jensson.
Þýskaland getur ekki eitt leyst vandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2012 | 21:02
ESB krefst meiri peninga, þrátt fyrir efnahagskreppu aðildaríkjanna
Gústaf Adolf Skúlason ritar:
Hugveitan Open Europe hefur birt nýja skýrslu
(http://www.openeurope.org.uk/Content/Documents/Pdfs/2012EUbudget.pdf ) sem sýnir, að hægt er að skera fjárlög ESB niður um mótsvarandi 41 milljarða evra árlega á sama tíma og hægt væri að einbeita sér að atvinnumálum og hagvexti.
Í skýrslunni leggur hugveitan til ný fjárlög ESB, sem eru 41 milljarði evra lægri en áætluð fjárlög ESB, sem nú fer fram á tæp 7% hækkun frá fyrra fjárlagatímablili. Samtímis er bent á leiðir í skýrslunni, hvernig ESB ætti að beina athygli sinni að aðgerðum, sem beinast gegn atvinnuleysi og eflir hagvöxt í stað þess að krefjast sífellt stærri hluta af meðlimum sínum.
Helstu atriðin í skýrslunni eru:
· Illa hönnuð fjárlög og oft mjög svo óljósir útgjaldaliðir ganga gegn því markmiði að samhæfa fjárlögin að atvinnusköpun og þeim hagvexti, sem ESB þarfnast. Tími aðildarríkjanna til að hafa áhrif á fjárlögin fyrir tímabilið 2014-2020 rennur brátt út.
· Þrátt fyrir efnahagsástand aðildarríkjanna leggur framkvæmdastjórn ESB til að fjárlögin verði aukin um 6,8% á árinu 2013. Samtímis leggur framkvæmdastjórnin til að einungis 6 störf af u.þ.b. 41 þúsund störfum ESB verði skorin niður. Þá vill framkvæmdastjórnin einnig, að fjárlög næsta tímabils frá ársbyrjun 2014 verði aukin enn frekar um 5% en lítill sem enginn niðurskurður boðaður.
· Hugveitan Open Europe hefur skilgreint fjárhagsáætlun 2012 og komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að skera eigin útgjöld niður sem nemur allt að 30%, sem spara mundi skattgreiðendum aðildarríkjanna um 41 milljarð evra árlega. Bara fyrir Bretland myndi þetta spara 4,6 milljarða punda árlega.
· Sparnaðurinn yrði gerður m.a. með því, að minnka eða stöðva peningahringrás svæðasjóða, þar sem ríkari lönd styðja hvert annað. Þar væri hægt að spara 20 milljarða evra.
· Með því að endurskoða skilgreiningu á bændum og krefjast að landbúnaðarstyrkir yrðu einungis greiddir út til starfandi bænda væri hægt að spara allt að 24 miljarði evra (ekki eins og núverandi skipulag, þegar margir jarðareigendur eru skilgreindir sem bændur, án þess að um nokkurn starfandi landbúnað sé að ræða, sem leiðir m.a. til fáránlegra styrkja eins og til Görans Perssonar fyrrv. forsætisráðherra Svíþjóðar, sem á stóra jörð en er ekki bóndi).
· Kostnaður við gerð ýmiss konar staðla hefur aukist um 33% á tveimur árum. Bara með því að skera burtu störf sem eru endurtekning á störfum, sem þegar hafa verið unnin, gæti 431 miljón evra sparast.
· Ef hætt yrði með þingaðstöðu Evrópuþingsins í Strassburg sparaði það um 180 milljóna evra árlega. S.l. ár var þingið með útboð að upphæð 62,4 milljóna evra í sambandi við veru þingsins í Strassburg, þrátt fyrir að byggingarnar standi auðar 317 daga á ári.
· Kostnaður Evrópuþingsins hefur aukist um 36% síðan árið 2005, um samtals 1,7 milljarða evra, á meðan kostnaður við laun og ýmis fríðindi þingmanna hafa aukist um 77,5% eða sem nemur 190 milljónum evra árið 2012 að frátöldum ellilífeyri og ferðagreiðslum. Árið 2009 var kostnaður þingmanna staðlaður og settur á fjárlög ESB. Síðan 2005 hafa ellilífeyrisgreiðslur Framkvæmdastjórnarinnar aukist um 48,6% um 1,3 milljarða evra í dag á meðan launakostnaður starfsfólks framkvæmdanefndarinnar hefur aukist um tæp 18% og er í dag 2,1 milljarður evra, sem er aðeins lægra en árið 2010.
· Síðan 2005 hefur kostnaður ESB vegna mentunar og menningar aukist um 61% og er núna um 1,5 milljarður evra. Þessi málaflokkur hefur 487 starfsmenn, sem er meiri fjöldi en vinnur við innri markaðinn.
· Þrátt fyrir mikilvægi sitt er aðeins 2,6% af fjárlögunum ætlað fyrir viðskipti og sameiginlega markaðinn.
Línurit um þróun eyðslu og vöxt skriffinnskubákns ESB
Skýringar: Graf 1: þróun launakostnaðar 2005-2012. Graf 2: framlag aðildarríkja til ESB árið 2012. Graf 3: nettó-greiðslumunur á framlögum aðildaríkja til ESB og endurgreiðslu ESB til aðildaríkja. Graf 5: Þróun landbúnaðarstyrkveitinga ESB. Graf 6: kostnaður svæðasjóða. Graf 7: kostnaður Evrópuþingsins. Graf 8: fjölgun ESB-deilda.
M= milljón bn = milljarður
Obama fundaði með Evrópuleiðtogum um evrusvæðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 8.6.2012 kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2012 | 19:47
Ólaf Ragnar eða Þóru?
JVJ.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2012 | 11:48
Afstaða forsetaframbjóðenda til ESB sýnir afstöðu þeirra til lýðveldisins og fullveldisákvæða stjórnarskrár
Því er sannarlega rétt að forsetaframbjóðendur geri grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar og inntöku Íslands í Evrópusambandið. Feluleikur á ekki við. Sem betur fer er a.m.k. einn frambjóðandi með skýra afstöðu í málinu. "[B]æði grundvallarhagsmunir Íslendinga, í sjávarútvegsmálum, auðlindamálum og varðandi legu landsins og gjaldmiðilinn einnig, eru þess eðlis að það þjónar ekki hagsmunum okkar að ganga í Evrópusambandið," sagði Ólafur Ragnar Grímsson í kappræðunni í Hörpu, sem Stöð 2 annaðist.
Þá sér hann enga nauðsyn á upptöku evru hér: "Það hefur verið sagt að evran sé það sem við erum að sækjast eftir. En þá bendi ég á að ef við tökum Norður-Evrópu og byrjum á Grænlandi og förum yfir Ísland, Færeyjar og Bretlandseyjar, til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, þá er það ekki fyrr en við komum til Finnlands sem við finnum land í Norður-Evrópu sem er evruland."
Og tökum eftir þessu:
- "Hann bætti því við að ekkert eitt mál kæmi til með að hafa jafn afdrifarík áhrif á íslenska stjórnskipun, fullveldi og þjóðarhag í framtíðinni og hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu. Því væri það eðlileg krafa að þjóðin viti hvaða skoðun frambjóðendur til embættis forseta Íslands hafi í málinu." (Þetta sagði Ólafur Ragnar skv. frétt Mbl.is.)
Stjórnarskráin kveður á um, að löggjafarvald í landinu sé í höndum þings og forseta (og þjóðarinnar, skv. 26. grein, og það er rétt hjá Ólafi Ragnari að minna á, að það er ekkert sem kveður á um, að málskotsvaldið sé skilgreint sem "neyðarréttur"; það er einfaldlega meðal stjórnarskrárvarinna réttinda).
Þetta gengur þvert á tilætlun Evrópusambandsins, sem krefst þess strax í aðildarsáttmála (og um það atriði er ekkert val um "öðruvísi skilmála") að nýja aðildarlandið samþykki frá og með fullgiltri og löggiltri undirskrift hans, að lög Evrópusambandsins séu öll meðtekin ásamt mestöllu regluverki og tilskipunum og að NÝ LÖG ESB þaðan í frá verði samstundis að lögum í aðildarlandinu -- þau fara sem sé EKKI í gegnum hendur Alþingis, forsetans né þjóðarinnar eins og öll lög gera hins vegar (þ.m.t. EES-löggjöf) skv. núgildandi stjórnarskrá.
Þess vegna er ESB-sinnum mjög í mun að leggja niður núverandi stjórnarskrá og skella á okkur nýrri, þar sem hinum viðamiklu ákvæðum (á 2. tug greina í stjórnarskrá Íslands) um, að löggjafarvaldið skuli vera innlent og fara í gegnum lögákveðið ferli í stjórnskipun okkar, verði FÓRNAÐ á altari Brusselvaldsins og í staðinn tekin upp einföld og klókindaleg grein sem kveði á um að afsala megi fullveldi (og það jafnvel gert með því að pakka því ákvæði í drögum stjórnlagaráðs inn í silkiumbúðir til að líta sem bezt og sakleysislegast út!).
Þóra Arnórsdóttir er óskýrari um ESB:
- "Annars vegar erum við ósammála um það hvort forsetinn eigi að taka þátt í umræðum og skipa sér í raðir, þ.e.a.s. að berjast gegn aðild eða berjast fyrir henni, eftir því hver skoðun hans er. Það er vegna þess að ég held að forsetinn eigi að vera forseti allra Íslendinga, og í hvaða stöðu er hann eftir atkvæðagreiðslu þar sem hluti þjóðarinnar er hjartanlega ósammála honum?"
- "Þóra sagðist þó vera sammála forsetanum um að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum samningum við Evrópusambandið. Hún kvaðst þó ekki ætla að upplýsa um sína afstöðu til málsins. (Mbl.is í frásögn af kappræðunni, leturbr. jvj.)
Skv. frásögn Mbl.is sagðist Herdís Þorgeirsdóttir vera dálítið hugsi þegar kæmi að þessu máli en taldi það ekki úr vegi að forseti greini frá afstöðu sinni með yfirveguðum hætti. "Því skyldi hann ekki mega leggja eitthvað til málanna ef hann telur að um mikla og brýna hagsmuni þjóðarinnar sé að ræða?"
Og vitaskuld er hér um slíka hagsmuni þjóðarinnar að ræða, sbr. ofangreint! Ljóst er, að núverandi forseti tekur skýra afstöðu til þessa máls, en Þóra vill a.m.k. enn sem komið er leyna okkur sinni afstöðu. Hvers vegna? Er afstaða hennar þá einfaldlega óbreytt frá 1995, þegar hún tók sæti í fulltrúaráði Evrópusamtakanna og sagði sig þar með í hóp þeirra, sem vilja inntöku Íslands í það stórveldabandalag?
Jón Valur Jensson.
Eðlilegt að gefa upp afstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.6.2012 | 09:26
Býr efnahags- og viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fílabeinsturni?
Steingrímur er svo óupplýstur, frakkur eða huglaus að fullyrða, að ráðuneyti sínu sé "ekki kunnugt um tilvik þess að Evrópusambandið hafi með fjármunum og þátttöku sendiherra og sendiráðs blandað sér með beinum hætti í umræður um áhrif ESB-aðildar á þá málaflokka sem heyra undir það."
Heyr á endemi! Sömu dagana er í fréttum, að sendiherra Evrópusambandsins, Timo Summa, hafi enn lagt land undir fót í nýrri predikunarferð um ágæti "aðildar" Íslands að stórveldinu!
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði lagt fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra "um áhrif Evrópusambandsins á umræður um ESB-aðild", og ofangreind tilvitnun í ráðherrann kemur fram í skriflegu svari hans.
- Meðal þess sem Ásmundur spurði um var hvernig Steingrímur hyggist tryggja að starfsemi Evrópustofu og þeir fjármunir sem ESB ver til hennar, ásamt beinni þátttöku sendiherra og sendiráðs ESB, skekki ekki lýðræðislega umræðu um þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið.
- Steingrímur svarar því til, að hluti af því að efla umræðu og upplýsingamiðlun um Evrópusambandið meðan á aðildarferlinu stendur sé að fjármunir hafa verið veittir af Alþingi til þeirra hreyfinga og samtaka sem halda uppi mismunandi sjónarmiðum í umræðunni.
Hann á að vita það eins og allir, sem með fylgjast, að þeir tugir milljóna, sem þar eru treindir út -- og helmingurinn í þágu þeirra hreyfinga, sem vilja fullvalda stjórnarform lýðveldis okkar okkar feigt -- vega lítið hjá þeim á þriðja hundrað milljónum króna, sem Evrópusambandið dælir beint í "Evrópustofu" sína (þ.e. Evrópusambands-áróðursskrifstofu*).
Í svari sínu dirfist Steingrímur að líta framhjá öllu þessu fjárflæði frá Brussel, sem fylgir eftir áratugs langri viðleitni ESB til að koma sér í mjúkinn hjá völdum áhrifahópum hér á landi, með boðsferðum til Brussel í fríu uppihaldi og sérvöldum "kynningar"-prógrömmum fyrir hina mismunandi hópa, svo sem fulltrúa verkalýðsfélaga, embættismenn, háskólafólk, blaðamenn, fólk úr lista- og menningargeiranum, stjórnmálamenn o.s.frv. Og svo eru það IPA-styrkirnir, yfir 5 milljarðar króna, sem hanga yfir okkur eins og frekari ógn við getu margra til að standast freistingartilboð Evrópusambandsins um þátttöku í starfsemi þess hér á landi, en allt er þetta líklegt til að hafa áhrif á fjölskyldur og samstarfsmenn þeirra sem þiggja styrkina.
En Steingrímur virðist kjósa að ganga með bundið fyrir augun um þessi mál, jafnvel þegar augljós er orðinn hinn beini og ólögmæti fjáraustur Evrópusambandsins í áróðursstofuna og ráðagerðir þess um áframhald þeirrar og annarrar áróðurstarfsemi á vegum sendiráðsins.
Halda mætti að þetta svar ráðherrans, sem eitt sinn þóttist og jafnvel ennþá þóttist vera andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sé til orðið í þýðingarmiðstöð "Evrópustofu" eða á borðinu hjá Össuri eða Hrannari Arnarssyni:
- "Með öflugri og upplýstri umræðu þar sem öllum er gefinn kostur á þátttöku verður endanleg niðurstaða um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu byggð á upplýstri ákvörðun," segir Steingrímur J. Sigfússon.
Þvílík ósvífni í raun! Hann vogar sér ekki svo mikið sem að anda á ólögmætt framferði Evrópusambandsins! enda liggur kannski ráðherrastóll hans að veði. Með þessum orðum sínum er hann að tala um, að öllum sé "gefinn kostur á þátttöku" í umræðunni í krafti takmarkaðra umræðustyrkja frá Alþingi og kallar það "öfluga og trausta umræðu", vitandi hitt, að hann er með máttvana aðgerðaleysi sínu beinlínis að gefa Evrópusambandinu "kost á því" að dæla margfalt meiri fjármunum í sína áróðursherferð hér á landi og þar með að skekkja öll skilyrði til traustrar ákvörðunartöku þjóðar sinnar.
Í einhverjum löndum væru uppi háværar kröfur um, að slíkur ráðherra segði af sér. Fyrrv. sendiherra Íslands í París hefur með fullnægjandi rökum sýnt fram á, að framferði ESB í þessu máli stríðir gegn Vínarsáttmálanum um skyldur sendiherra, auk brota á íslenzkum lögum. Steingrímur J. Sigfússon er hins vegar 100% meðvirkur með Evrópusambandinu í þessum efnum og lætur sér vel líka eða setur á sig sakleysislegan hlutleysissvipinn þegar hann leggur fram alls ótæk svör sín við réttmætri fyrirspurn þingmannsins.
Þetta kann að virka sem svo, að Steingrímur sitji einangraður í fílabeinsturni fáfræði sinnar, en hann er meiri refur í stjórnmálum en svo að vita ekki, hvað á seyði er hér -- og það er engu minni ásælni eftir yfirráðum yfir Íslandi en Hákon konungur gamli sýndi okkur á 13. öld með útsendurum sínum, þar á meðal með morði Snorra Sturlusonar og fleiri góðra manna.
Hið kolranga og hugdeiga svar Steingríms hér ofar boðar ekki gott um afstöðu hans til afgreiðslu Alþingis á fyrirliggjandi frumvarpi um IPA-styrkina upp á rúma 5 milljarða, en með þeim er ekki aðeins verið að dæla inn peningaflóði í þágu aðlögunar Íslands að ESB, heldur einnig brotið þvert gegn ákvæðum tolla- og skattalaga og sjálfri jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar! Mun Steingrímur einnig greiða atkvæði með þeirri forsmán? Væri það ekki til þess að bíta höfuðið af skömminni?
* ESB er ekki nema 42,5% af Evrópu, 43% með Króatíu.
Jón Valur Jensson.
Ráðuneyti ekki kunnugt um áhrif ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)