Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Innan við 10% af lögum Evrópusambandsins ná hér í gegn með EES-samningnum

  • "Margir mjög stórir málaflokkar standa utan EES-samningsins, svo sem landbúnaður, sjávarútvegur, tollamál, viðskiptasamningar við önnur ríki og peningamál, og er EES innan við 10% af ESB-aðild, eins og segir á vef Heimssýnar:
  • "Á árunum 2000 til 2009 tóku gildi í Evrópusambandinu samtals 34.733 tilskipanir, reglur og aðrir löggjörningar. Aðeins rúmlega þrjú þúsund (3.119) af þessum löggjörningum fengu gildi í EES-samningnum, eða 8,9 prósent. Þessar upplýsingarnar eru sóttar úr gagnabönkum og gefa raunsanna mynd af hlutfalli ESB-löggjörninga sem teknir eru upp í EES-samningnum. 
  • Ef EES-samningnum yrði sagt upp myndu sjálfkrafa taka gildi fríverslunarsamningar sem voru í gildi áður en EES-samningurinn var gerður, sbr. 120. grein samningsins. Við getum því róleg sagt upp EES-samningnum og kvatt Evrópusambandið áður en það sekkur undan eigin þunga. 
  • Enginn áhugi er í Noregi að ganga í Evrópusambandið. Allar líkur eru á að EES-samningurinn muni halda gildi sínu um sinn þótt vaxandi krafa sé í norskri umræðu að endurskoða samninginn og færa hann í búning tvíhliða samkomulags."
  • Heimild: Heimssýn."

Tekið hér af ESB-málefnasíðu Hægri grænna, en sá flokkur, sem nýtur um 7% fylgis í nýlegri skoðanakönnun, "er alfarið á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið."

jvj.


Snilldarviðtal við Jón Bjarnason í ESB-þætti Útvarps Sögu - líkir IPA-styrkjum til aðlögunar við hermang á Miðnesheiði á kaldastríðsárunum

Þátturinn stendur yfir nú á 6. tímanum og verður endurtekinn öðrum hvorum megin við miðnættið. Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, sem sviptur var embætti til þókknunar Brussel-valdinu að kröfu Samfylkingar, með samþykki Steingríms, fer á kostum í þessu mjög svo upplýsandi viðtali við þáttarstjórnendur, sem yfirleitt eru Frosti Sigurjónsson og Gunnlaugur Snær ...

Hvers vegna svíkur forysta VG það sem flokksmönnum er heilagt? - UPPREISN HAFIN!

Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.

Þannig segir í STEFNUYFIRLÝSINGU VINSTRIHREYFINGARINNAR - GRÆNS FRAMBOÐS. Þetta hefur nú verið svikið með eftirminnilegum hætti, ekki aðeins með þátttöku forystu þess flokks í Evrópusambands-umsókn Samfylkingar, heldur gróflega í ofanálag með því, að flestir þingmenn flokksins greiddu atkvæði með ólögmætum IPA-styrkjum og skattfrelsi Evrópusambandsins hér á landi.

Tillögu fyrrverandi þingmanns flokksins, Ásmundar Einars Daðasonar, um að leyfa ekki skatt- og tollfrelsi ESB vegna þessara rúmlega 5 milljarða IPA-verkefna, greiddu flestir VG-þingmennirnir ennfremur mótatkvæði sitt. Og þetta gerðist daginn eftir 17. júní!

Uppreisn er hafin í flokknum gegn þessari ESB-þægð forystunnar.

Þessi frétt barst að norðan í dag:

  • Stjórn Svæðisfélags VG í Skagafirði harmar framgöngu þingmanna og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem flestir greiddu atkvæði með svokölluðum IPA-styrkjum, þrátt fyrir samþykktir flokksins um að ekki verði tekið við styrkjum til aðlögunar að ESB. Sýnir þetta betur en flest annað á hvaða vegferð forysta flokksins er, sem leynt og ljóst berst fyrir áframhaldandi samningum við Evrópusambandið, þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar um að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB.

Þeir í Skagafirði verða örugglega ekki einir um að snúast harkalega gegn stefnu Steingríms & Co., þótt forysta flokksins hafi með lúmskum hætti lagt kapp á að koma foringjahollum mönnum til áhrifa í sem flestum svæðafélögum og kjördæmaráðum VG víða um land.

Grasrótin var þó a.m.k. einu sinni til, þótt fylgi flokksins hafi nánazt helmingazt frá kosningunum og eflaust vegna þessara ESB-mála umfram flest önnur. Meiri háttar átök og uppstokkun í flokknum gæti því blasað við, en hitt gæti líka gerzt, að nýr vinstri flokkur hirði til sín mestallt fylgi Vinstri grænna og að nokkru frá öðrum vinstri flokkum.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Harma framgöngu eigin þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ari Trausti Guðmundsson virðist lítt hafa kynnt sér Evrópusambandið og ætlar að gera upp hug sinn alveg í lokin!

Hann var í viðtali á Útvarpi Sögu þar sem þetta kom fram. Hann telur sig ekki sjá, að um fullveldisafsal verði að ræða fyrr en hann skoði lokasamning - og hvort Ísland verði ekki lengur sjálfstætt land þar með. Dæmi, sem hann tekur, bendir eindregið til sama þankagangs hjá honum og ESB-sinnum mörgum hverjum, þ.e.a.s. hann bætir við framangreint: hvort Danmörk, til dæmis, eða Eystrasaltslöndin séu sjálfstæð. Þessu kasta margir fram og láta sem fáránleiki hugsunarinnar sé augljós - og það sama virðist vaka fyrir Ara Trausta, þeim gamla heildarhyggjumanni. En valdheimildir Evrópusambandsins eru gríðarlegar og í margfalt meira mæli gagnvart okkar þjóðarbúi (þótt miðað sé við höfðatölu) heldur en meðal Dana og þjóða austast við Eystrasalt. Sjávarútvegurinn er hér svo stór hlutfallslega, að það á sér hvergi neitt sem nálgast hliðstæðu í ESB-löndum. Sjávarauðlindin, fiskistofnarnir, eru svo stór hluti af auðlindum okkar, að það á sér ekkert sambærilegt í ESB-ríkjum. En einmitt á þessu sviði sjávarútvegsmála tekur Evrópusambandið sér FULLAR VALDHEIMILDIR, ólíkt mörgum öðrum atvinnusviðum.

Þar að auki er fullveldisframsalið sjálft augljóst í öllum seinni áratuga "aðildarsamningum" (accession treaties), sem eru með þeim ósköpum gerðir, að nýja aðildarríkinu er ævinlega gert það að skyldu að meðtaka ALLA sáttmála og ALLA löggjöf Evrópusambandsins og að láta sína eigin löggjöf víkja, þegar á milli ber. Það verður jafnvel neytt til þess með úrskurði ESB-dómstólsins og túlkunavalds ESB sjálfs og hefur fyrir fram meðtekið það forræðisvald ESB. Hvernig og hvar? Í sjálfum "aðildarsamningnum"!

Ef Ari Trausti Guðmundsson hefur ekki skerpu til að sjá þetta, á hann þá erindi á forsetastól? Ef hann hafði ekki kynnt sér þessi mál, voru þá ekki síðustu forvöð fyrir hann að gera það um það leyti sem hann tók ákvörðun um sitt framboð?

Jón Valur Jensson.


Brot á Maastricht-samningnum að "bjarga evrunni" segir prófessor Mats Persson við Stokkhólmsháskóla

250px Mats Persson 2008 1

Gústaf Adolf Skúlason ritar:

Prófessor Mats Persson við Stokkhólmsháskóla hefur nýverið skrifað ritið "Evrópska skuldakreppan", þar sem hann telur aðgerðir leiðtoga ESB til björgunar evrunni brjóta í bága við skilmála Maastricht-samningsins frá 1992, sem eru "stjórnarskrá" ESB. Hann segir, að bankarnir séu sigurvegari í stöðunni og ný lán til Grikklands eða annarra landa munu ekki bjarga evrunni. "Í staðinn eykst þróunin að fjármálasambandi í Evrópu á meðan bankar eru hvattir til hættulegarar áhættutöku. Það mælir gegn anda Maastrichts-samningsins," skrifar Mats Persson.

Í grein í Dagens Nyheter í morgun skrifar Mats Persson: "Með bókinni "Evrópska skuldakreppan" vill ég skapa umræður um "björgunarpakkana", sem leiðtogar Evrópu hafa veitt og halda áfram að búa til. Björgunarlánin eru í reynd stuðningur við spekúlerandi eigendur bankanna. Með þeim hafa leiðtogar Evrópu sent bönkunum þau skilaboð, að þeir geta tekið stórkostlegar áhættur: ef vel gengur hagnast eigendur bankanna mjög vel - ef illa gengur taka skattgreiðendur tapið á sig."

"Bankaeigendur evrópskra banka tilheyra sigurvegurum þeirrar stjórnmálastefnu, sem viðgengist hefur árin 2010 og 2011. En sigurvegarirnir eru fleiri. Framkvæmdanefnd ESB hefur verið einn ákafasti talsmaður hjálparlána til skuldugu ríkjanna. Starfsmenn hennar telja nefnilega, að rétt sé að breyta myntbandalaginu í fjármálasamband með miklu meiri miðstýringu en viðgengst í dag, þar sem hluti skatta og útgjalda landanna verður ákveðinn sameiginlega í Evrópu. Slíkt samband mundi að sjálfsögðu búa til miklu fleiri áhugaverða framamöguleika fyrir þá stétt alþjóðlegra búrókrata, sem lifir í Brussel.

Sú afstaða, að myntbandalagið verði að þróast í fjármálasamband er í skærri mótsögn við Maastricht-samninginn. Þar var afstaðan hið gagnstæða: skuldug lönd verða sjálf að leysa vandamál sín. Samningurinn innihélt reyndar tvær greinar, sem skorinort banna öðrum löndum eða Seðlabanka Evrópu að greiða út skuldug ríki. En þegar Grikklandskrísan brast á vorið 2010 fundu lögfræðingar Framkvæmdastjórnar ESB strax göt á þessum greinum."

"Það samband, sem nú er að myndast með miklu uppleggi af alríkisrekstri, stuðningssjóðum og stjórnun á sköttum og útgjöldum einstakra ríkja, er allt annað samband en það "hreina" myntbandalag, sem Svíþjóð greiddi þjóðaratkvæði um 2003. Margir þeirra, sem þá kusu "já" hafa ástæðu til að finnast þeir vera sviknir í dag."

Í lok greinar sinnar í Dagens Nyheter, segir Mats Persson, að sú stjórnmálastefna sem geri eigendur banka og stjórnmálamenn ábyrgðalausa á eigin verkum, sem leiða til taps og skuldavanda ríkja, sé stórhættuleg og síst það, sem ríki Evrópu þurfi á að halda í dag.

19. júní 2012,

Gústaf Adolf Skúlason

 


Fjórflokkurinn brást gervallur - meiri háttar svik Vinstri grænna o.fl. á Alþingi vegna forréttindafrumvarps í þágu ESB

IPA-styrkjum í þágu Evrópusambandsins var rennt með hraði í gegnum Alþingi í kvöld. stjórnarandstöðu-flokkarnir brugðust þjóðinni með þvi að bregða ekki fæti fyrir þetta gerræðisfrumvarp sem gefur útsendurum ESB fordæmalaust skatt- og tollfrelsi á öllum sviðum fyrir sitt hafurtask og starfsemi sína hér á landi!

Jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar er hér þverbrotið ("Allir skulu vera jafnir fyrir lögum ... Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna"). Kalla mætti þetta mismununarfrumvarpið mikla, en jafnframt þókknunar-frumvarpið harmræna til að staðfesta þýlyndi ýmissa þingmanna, allra í Samfylkingu, flestra í VG og tveggja annarra, gagnvart Evrópusambandinu.

Fyrir þessu stendur sjálft Alþingi Íslendinga (31:18 var niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, og vantaði einn upp á, að raunverulegur meirihluti næðist allra þingmanna).

Sjá um þetta dæmalausa mál þessa ýtaregri grein undirritaðs í kvöld: GERVALLUR Fjórflokkurinn svíkur þjóðina í IPA-málinu til þægðar ESB, en VG með eindregnustum hætti auk evrókrata. -- Í greininni má svo að sjálfsögðu finna afgerandi rökstuðning fyrir því, sem fram kemur í fyrirsögninni.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is IPA-styrkir samþykktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur Sigfússon reynir að halda öllum heitum (en ekki öll heit sín) vegna kosninga

Sannarlega hafa orðið "forsendubreytingar" varðandi Evrópusambandið sem Össurarflokkurinn sótti um innlimun í, þó ekki þær, að ESB stefni á að verða sambandsríki, því að það gerði það þegar árið 1997.*

Ummæli Steingríms J. í þætti Sigurjóns M. Egilssonar í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun má ekki oftúlka -- ekki fram yfir það, sem hann sagði fyrir fáeinum dögum: að hann vilji gefa Evrópusambandinu "þrjá mánuði" til að sjá, hvernig fari með erfiðleika evrusvæðisins. Steingrímur er því enn ekki kominn á fremsta hlunn með að brjóta upp stjórnarsamstarfið; það verður trúlega ekki fyrr en í lok þess!

  • "Auðvitað hljótum við að fylgjast grannt með því hvernig Evrópu tekst að leysa úr sínum málum og hvers konar Evrópusamband rís þá upp úr þessum sviptingum," sagði Steingrímur [í þessu viðtali í dag] og bætti við að ef þróun sambandsins leiðir til stóraukins samruna, með aukinni miðstýringu, hljóti Ísland að þurfa að leggja sjálfstætt og nýtt mat á það. (Mbl.is.)

Steingrímur hefur unnið þvert gegn stefnu flokks síns frá upphafi stjórnarsetunnar, bæði í Icesave- og ESB-málinu og AGS-málinu að auki. Hann virðist hafa gert allt til að halda flokki sínum við völd -- ekkert gjald verið of hátt fyrir það markmið. Þess vegna virðist hún tilkomin þessi algera auðsveipni við Samfylkinguna, sem sjálf virðist fjarstýrð frá Brussel, enda stefna þau sjálf að því að draga Evrópusambandsfánann að húni yfir sjálfu Alþingi og á öll sendiráð landsins.

En nú er Steingrímur farinn að láta á sér skilja, að hann setji fyrir sig frekari valdþjöppun í Brussel, hugsanlegan "stóraukinn samruna, með aukinni miðstýringu". Hann á þó að vita það eins og allir upplýstir menn, að sjálfir grunnsáttmálar Evrópusambandsins gera okkur nú þegar ókleift að ganga í það án missis fullveldis okkar og forræðis yfir náttúruauðlindum okkar, þ.m.t. fiskistofnunum (sbr. nýbirta grein hér).

En refjar voru þetta útspil hans: Hann er farinn að reyna að höfða þarna til kjósenda VG á ný og undirbúa að stökkva frá öllum saman ESB-áhuganum alveg undir lok kjörtímabilsins, þegar ekki þarf að kalla fram aukakosningar, og minnir þarna á skipstjóra sem síðastur stekkur frá borði á sökkvandi fley sínu; þannig gangi hann líka óbundinn til nýrra kosninga og ekki taglbundinn Jóhönnu Sigurðardóttur eins og nú. Með þessu getur þá ennfremur náð því markmiði að tryggja eins kjörtímabils þingmönnum sínum (sem og stimamjúkum Hreyfingarmönnum) full biðlaun í 6 mánuði. Þannig getur Steingrímur t.d. launað viðhengi sínu úr NA-kjördæmi, Birni Vali Gíslasyni, margháttaða, óþjóðholla þjónustusemi í þessum ESB-málum að ógleymdu Icesave, sem Björn sá var frá upphafi æstur að sporðrenna með hraði. Endurkosning Björns Vals er nefnilega alls ekki á dagskrá hjá þjóðinni á næsta ári, nema kjördæmaráðið verði svo heillum horfið að setja hann á oddinn, þegar Steingrímur fær hugsanlega vel launað pláss í Brussel eins og gamall vinur þarlendra, 10 milljóna ESB-maðurinn Árni Þór Sigurðsson.

En refjarnar eru líka fólgnar í þessu: að Steingrímur reynir ekki aðeins að halda kjósendum VG heitum, heldur einnig Jóhönnu, með því að gefa sjálfum sér áðurnefndan þriggja mánaða gálgafrest til að hafna Evrópusambandinu, og þá styttist nú í það, að hann geti þreyð þorrann út kjörtímabilið með hjálp sinnar ótrúlega lipru tungu!

Jón Valur Jensson. 

* "Í samþykkt [ESB-]þingsins frá desember 1997 segir m.a.: "Löndin sem sækja um aðild verða að sýna, að þau séu trú grundvallarmarkmiðum ríkjasambands sem stefnir í átt að sambandsríki" ("federal state"). Í samþykktinni er hvatt til þess að afnema neitunarvald, minnka áhrif smáríkja og auka miðstjórnarvald.” (Ragnar Arnalds: Sjálfstæðið er sívirk auðlind, s. 103.) Þessu er m.a. framfylgt í krafti Lissabon-sáttmálans, sem eykur YFIRRÁÐ STÆRSTU RÍKJANNA í ráðherraráðinu í Brussel um 61% -- það ákvæði sáttmálans tekur gildi 1. nóvember 2014.


mbl.is Gætum þurft að endurmeta stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er dagurinn - til hamingju, Íslendingar - stöndum vörð um fullveldið

Sjálfstæði og fullveldi landsins er árangurinn af baráttu sem stóð yfir í ótrúlega skamman tíma, en grunninn lagði þjóðskörungurinn sem fæddur var þennan dag, Jón Sigurðsson. Einstök gæfa fylgdi hinu lánsama, nýja ríki lengst af, en nú stafar okkur ógn af yfirráðahyggju evrópsks stórveldis, sem seilist hér til æðstu valda yfir öllum helztu málaflokkum þjóðlífsins, einkum hinum efnahagslegu, með stjórn peningamála og viðskipta við önnur ríki, og með auðlindastýringu, sér í lagi í sjávarútvegi.

Yfir þessum málaflokkum öllum tekur Evrópusambandið sér FULLAR VALDHEIMILDIR, eins og varaformaður Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, Gústaf Adolf Skúlason, ritaði hér fyrir nokkrum dögum:

"Skýringin á því, hvers vegna aðildarferlið dregst, er meðal annars að finna í sjávarútvegskaflanum en ESB fer með einhliða og alhliða vald yfir þeim málaflokki. Svið valdaheimilda ESB er skýrt skilgreint í Lissabonsáttmálanum í 1. bálki um flokka og svið valdheimilda Sambandsins, 2. gr. (feitletur og undirstrikanir mínar/gas): 

  • "1. Þegar Sambandinu eru veittar fullar valdheimildir á tilteknu sviði í sáttmálunum er því einu heimilt að setja lög og samþykkja lagalega bindandi gerðir en aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera slíkt að Sambandið veiti þeim umboð til þess eða í því skyni að koma gerðum Sambandsins til framkvæmda." 
  • Í 3.gr. eru hin tilteknu svið skilgreind:  
  • "1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins:
  • a) tollabandalag,
  • b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins,
  • c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil,
  • d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar,
  • e) sameiginleg viðskiptastefna.
  • 2. Sambandið skal einnig hafa fullar valdheimildir þegar kemur að gerð milliríkjasamninga ef kveðið er á um gerð þeirra í lagagerð Sambandsins eða hún telst nauðsynleg til að gera Sambandinu kleift að beita valdheimildum sínum á vettvangi sínum eða að því marki sem gerð slíkra samninga er til þess fallin að hafa áhrif á sameiginlegar reglur eða breyta gildissviði þeirra."

Samkvæmt ofangreindum skilmálum er algjörlega ljóst, að Íslendingar afsala sér sjálfsákvörðunarrétti sínum varðandi stjórnun peningamála, 200 mílna lögsögu sjávar og auðlindum hafsins, milliríkjasamningum Íslendinga og sameiginlegri viðskiptastefnu.

Í heimsóknum Stefans Fúle til Íslands hefur hvorki hann né hafa aðrir ráðamenn ESB reynt að upplýsa landsmenn um kröfur Lissabonssáttmálans né þýðingu þeirra krafna fyrir framtíðar stjórnarhætti Íslands, gangi Ísland með í ESB." (Tilvitnun lýkur í grein Gústafs Skúlasonar.)

Jón Valur Jensson. 


mbl.is „Sólbrenna líklega fáir á morgun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar Grímsson er andvígur inngöngu í Evrópusambandið

  • Af þeim þúsundum mála, sem Alþingi hefur afgreitt meðan ég hef verið forseti, eru það aðeins þrjú mál sem ég hef haft afskipti af, og það er Icesave, það er Evrópusambandsmálið, og það er fjölmiðlafrumvarpið.

Svo mælti langvinsælasti forsetaframbjóðandinn (skv. nýjustu skoðanakönnun) í viðtali á Útvarpi Sögu, sem endurtekið var á þessu laugardagskvöldi (nokkurn veginn orðrétt hér og efnislega 100% þannig).

Fyrr í viðtalinu ræddi Ólafur bæði EES-samninginn og ESB-inntökumálið all-ýtarlega og gerði andstöðu sína við samning um "aðild" deginum ljósari. Væri fengur að því að fá upptöku eða afrit af því viðtali hingað á vefsíðuna.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Ólafur Ragnar með 58%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg er ófyrirleitni stjórnarliðsins: IPA-styrkir, þvert gegn íslenzkum lögum, eru markmiðið sem tefur þinglok!

"Þá leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á að tillaga um hina svokölluðu IPA-styrki verði samþykkt en drjúgur hluti styrkjanna fellur niður 18. júní," segir í fréttum Rúv. Enn frekari lækkun veiðigjalds hefur náðst fram í dag, en IPA-málið afhjúpar Esb-þjónkun Samfylkingar og viðhengis hennar, þess sem eftir er af Vinstri grænum. Þau hefðu getað lokið þingi í dag, en Samfylkingin vill fyrir alla muni drösla þessum IPA-styrkjum Evrópusambandsins yfir saklausa þjóðina til að þókknast stórveldinu, þó að það kosti yfirtroðslu skatta- og tollalaga og mismunun fólks og fyrirtækja þvert gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ótrúlegast er, að Vinstri græn ætla að fylgja Samfylkingu í þessu. -JVJ.
mbl.is „Treystum ekki ríkisstjórninni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband