Færsluflokkur: Auðlindir og orkumál

Baráttan gegn Þriðja orkupakka ESB þarf að verða enn markvissari

Nokkuð var fimb­ul­famb­að um hann í Kast­ljósi þetta þriðju­dags­kvöld, en bezt stóð sig Frosti Sig­ur­jóns­son, fv. alþm. Þáttar­stjórn­andi reyndi af megni nokkrar ágengar spurningar, en hefði mátt fylgja þeim enn harðar eftir.

Gunnar Bragi Sveins­son brást jafn­vel í svo sjálf­sögðu atriði sem því, að þegar talað var um að Norð­menn vildu þennan pakka, þá bar honum að geta þess, að 70% Norð­manna eru and­víg Þriðja pakk­anum, en hann lét það alveg hjá líða. And­staðan gegn pakkanum er sízt að dofna.

Ennfremur skilaði Gunnar Bragi litlu til hlustenda varðandi laga­lega stöðu málsins gagnvart okkar stjórnar­skrá o.fl. og sagði m.a. orðrétt:

"Í 1. lagi vil ég segja það, að lögfræðingar, sem hafa fjallað um málið, þ.á m. norski lögmaðurinn sem var hér um daginn, Peter Örebech eða hvað hann hét nú, og íslenzk­ir lög­fræð­ingar, eru ekki alveg sammála um það, hvað þetta þýðir nákvæmlega, þegar menn lesa í gegnum EES-samn­inginn, hvað það þýðir að innleiða þessa gerð fyrir Ísland, um það eru menn ekki sammála; mér finnst vanta skýra mynd á það, áður en, í það minnsta, að maður getur tekið næsta skref."

Þarna er Gunnar Bragi að tefla hvorum gegn öðrum: Peter Öre­bech annars vegar og "íslenzkum lögfræðingum" hins vegar og leggja mikið upp úr því, að þessir lögspek­ingar væru ekki sammála um þessi mál, en fráleit er sú nálgun hans og sú uppstilling hans afar röng að tala með þessum hætti um lögfræðingana, því að hann í 1. lagi sleppir þar bezta sérfræðingi okkar, próf. Stefáni Má Stefánssyni, sem einn sér er margefldur á við álitsgjafana Birgi Tjörva og Ólaf Jóhannes, og Stefán Már er einmitt mjög eindreginn í því áliti sínu, að Þriðji orkupakkinn samrýmist naumast ("næppe") stjórnarskrá Íslands, eins og hann tók fram í stuttri ræðu sinni á dönsku á fundi Heimssýnar o.fl. félaga um málið á Háskólatogi 28. okt. sl.

Það verður að segjast, að með grunnristum hætti gekk Gunnar Bragi fram hjá mjög eindregnum niður­stöðum manna eins og próf. Peters Örebech og dr. Stefáns Más Stefáns­sonar, sem er prófessor í Evrópurétti við lagadeild HÍ og margra bóka höfundur um ESB-löggjafarmál, og með því að láta þá nánast eins og önnur lögfræði­álit væru þar þungvæg á móti. Örebech er langreyndur sérfræðingur í Evrópu­rétti. Það á ekki við um Birgi Tjörva Pétursson, sem ráðfrúin Þórdís Kolbrún Gylfadóttir kallaði til, trúlega til að fá hentugt álit sem klippt gæti hvassasta bitið úr gagnrýni hérlendis á Þriðja orkupakkann.

Það er ennfremur hlálegt að tefla tveggja daga rannsókn lögfræðings (Ólafs Jóhannesar Einarssonar) fram á móti lang­tímavinnu þaulreynds Norðmanns, sem þekkir ESB-löggjöf eins og handar­bakið á sér og hefur kannað allar hliðar á þessum orku­pakka­málum eins og þau snúa við Norðmönnum -- og hefur svo skilað ýtarlegu áliti og hrakningu bæði á sjö megin­atriðunum á minnis­blaði Ólafs Jóhannesar og einnig á lengri skýrslunni frá Birgi Tjörva (sjá hér í viðhengi með þessari grein).

Þáttur Guðna Jóhannessonar orku­málastjóra í þessum Kastljós­þætti var veigaminni en hann hefði þurft að vera og vantaði átakan­lega slagkraft sem nýtzt hefði réttinda­baráttu okkar Íslendinga. Þó var hann skýr um ýmsa undirstöðu­hluti, sem hafa ugglaust hjálpað hlustendum um skilning á þeim.

Varaformaður Íslensku þjóðfylkingarinnar var býsna berorður um orkumálastjórann á Facebókarsíðu flokksins í kvöld:

Þessi embættismaður vissi ekkert um hvað hann var að tala. Er þetta virkilega orkumálastjóri!? Hann gat ekki einu sinni svarað því af hverju við erum að innleiða enn eitt ESB-bullið ef við græðum ekkert á því og það skiptir ekki máli hér á landi að innleiða tilskipunina. Nei, hann gat ekki svarað því.

Augun standa á stilkum í viðtalinu, svo tauga­veiklaður er hann, og ég er viss um að það er köttur að spila á harmonikku í hausnum á honum eins og er staðreyndin um flesta ESB-sinna.

Já, það má líka hafa gaman af þessu. En Guðni tók sérstaklega fram, að hann hefur enga eigin stefnu gagnvart Þriðja orku­pakkanum; hann lítur á það sem hlutverk sitt að fylgja stefnu Alþingis í málinu.

En þáttur Samfylk­ingar­konunnar Albertínu Friðbjargar Elías­dóttur var ítrekað að mestu leyti til óþurftar og með svo ein­dregnum hætti, að ásetningur bjó þar augljóslega að baki, þegar hún talaði þar niður alla viðleitni til að hafna þessum Þriðja orkupakka -- en ekki þar með á grunni góðs rökstuðnings, því að þvert á móti voru rök hennar veikluleg í reynd. Kristall­aðist það svo greini­legast þegar hún að lokum síns máls komst svo að orði, að við eigum ekki að beita okkur gegn framsali fullveldis­réttinda með gagnrýni á orku­pakkanum sérstaklega. En þar er nú einmitt um þung­vægasta framsals­málið að ræða nú á seinni árum, og á þá ekki einmitt að fjalla um það af einurð og með harðri viðspyrnu gegn ásælni Evrópus­ambandsins?!

Ennfremur hélt hún því fram, að við værum ekki að framselja valdið til ACER, við værum  að framselja það til ESA (Eftir­lits­stofnunar EFTA), eins og við hefðum gert áður og í alvarlegra máli. Þvílík glám­skyggni! Ekki hefur hún þá kynnt sér vel greinar­skrif Bjarna rafmagns­verk­fræðings Jóns­sonar, né álits­gerðir hins sérfróða Peters Örebech, þar sem skýrt kemur fram, hvílík áhrif ACER mun fá hér í gegnum Lands­reglarann, sem ekki verður undir boðvaldi ríkis­stjórnar Íslands né Alþingis. Svo að vitnað sé í grein Bjarna verkfr. Jónssonar 11. þ.m., :

Í þriðja lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar [lögfr.] frá apríl 2018 kemur fram stórvarasöm glámskyggni ráðuneytisins á eðli og vald­mörk ACER hér á landi. Verður þá fyrst að nefna það, að valda­.mesta embætti hérlendis á orku­mála­sviði eftir innleið­ingu "pakkans", verður embætti Landsreglara, og þetta embætti verður óháð íslenzkum yfir­völdum og fram­lengdur armur ACER á Íslandi, sem er undir stjórn fram­kvæmda­stjórnar ESB. [...] Sjá nánar þá grein Bjarna: Valdmörk ACER.

Að lokum er hér viðhengi með þeirri rýniskýrslu sem próf. Peter Örebech samdi um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar lögmanns:

Og HÉR er Kastljósþátturinn allur 13. nóv. 2018, undir þáttarstjórn Einars Þorsteinssonar fréttamanns:  http://www.ruv.is/spila/ruv/kastljos/20181113

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja hafna þriðja orkupakka ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum þjónar Brynjar Níelsson? Hann ber fyrst & fremst skyldu gagnvart þjóðarhag, stjórnarskrá og fullveldi landsins, ekki form. & varaform. flokks síns, Noregsstjórn eða ESB!

Það er áhyggjuefni að svo sjálf­stæð­ur þingmaður sem Brynj­ar Ní­els­son iðulega er, skuli eiga erf­itt með þor til að hafna kate­gór­ískt Þriðja orku­pakka ESB. "Ég vil reyna að kom­ast hjá því í lengstu lög, ef það er hægt, að inn­leiða þenn­an orkupakka," sagði hann á nýju stöðinni K100 í dag. "Ef það er hægt" -- að hugsa sér!!

Ef hann er óviss, hvað er honum þá að fyrirstöðu að neita að taka þátt í rússn­eskri rúll­ettu um þjóðar­hag og fullveldi landsins?

Ef hann er beittur þrýstingi, vill hann þá gjöra svo vel að upplýsa um, hvaðan hann kemur! -- innan lands frá eða utan frá?

Ef frá eigin forystusveit, Bjarna formanni, Þórdísi varaformanni, hinum hagsmunatengda Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra (tengdaföður Heiðars Guðjónssonar sem er að reyna að fá IceLink í gagnið!), þá má Brynjar til með að upplýsa flokksmenn sína um það! 91,6% aðspurðra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í MMR-skoðana­könnun í vor voru andvíg þessum Þriðja orku­pakka -- höfnuðu honum! Það gerði landsfundur flokksins líka, sem og tveir fjölmennir almennir fundir sjálfstæðismanna í haust, með einróma samþykktum þar! Ef einhverjar valda­spírur í flokknum vilja ganga gegn þessum eindregna vilja flokks­manna, þá á sem fyrst að koma upp um þá, afhúpa þá og véla­brögð þeirra.

Ef þrýstingur í málinu kemur frá Brussel beint, skal Brynjar gjöra svo vel að upplýsa um það!

Ef frá Noregi, þaðan sem ráðherra(r) hafa komið til að þrýsta á um að Stór­þingið fái vilja sínum framgengt -- þeim orku­pakka-vilja sem 70% norsku þjóðar­innar er gersam­lega andstæð! -- þá skal hann líka viður­kenna hitt, að við höfum engar skyldur gagnvart norsku ríkis­stjórn­inni í þessu efni.

Ef hann veit til þess, að norskir vald­hafar beiti þving­unum, mútum eða hótunum um refsi­aðgerðir í þessu máli, skal hann upplýsa um það! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja ekki innleiða orkupakkann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnleg, upplýsandi umræða Jóns Baldvins um ýmis mál

Það er glæsilegt að hlýða á margt í viðtali Jóns Baldvins við Arn­þrúði Karls­dóttur, endur­teknu enn einu sinni í dag, sér í lagi orðræðu hans um Evrópu­sam­band­ið og hvað mis­tekizt hefur og bein­línis mis­farizt þar, einkum með evru­svæðið og ofur­vald Þýzka­lands á því, með hrika­legum afleið­ingum fyrir Grikk­land, Spán og Ítalíu o.fl. lönd, sem hafa ekki átt neitt skjól í Seðlabanka Evrópu, sem ekki hefur, eins og seðlabankar eiga að gera, veitt þeim ríkjum skjól til þrautavara í kreppu. Þjóðverjar hafa á meðan "grætt á tá og fingri" vegna evrunnar, hin ríkin ekki. Ennfremur er skandall, segir hann, að Evrópu­sambandið bjóði upp á Juncker sem forseta framkvæmdastjórnar ESB, mann úr mesta skatta­skjóli Evrópu, Lúxemborg.

En á vefslóð Útvarps Sögu er tengill eða hljóðskrá með öllu viðtalinu við JBH. Framan af ræðir hann mikið um aðdraganda þess að Ísland varð aðili að EES-samningnum, og þrátt fyrir að hann sé honum hlynntur, greiðir hann samt úr hlutum í þessu sambandi sem mörgum hafa verið óljósir, sérstaklega um ORKUMÁLIN, en Ísland eigi alls ekkert erindi inn á orkumarkað ESB, og okkur ber að forðast samband við hann, með sæstreng, eins og heitan eldinn. Íslendingar hefðu engan hag af því, einungis voldugir erlendir fjárfestar. Nánar fjallaði hann um það með mjög markverðum hætti. (Frh. á eftir.)

Því má skjóta að, að EVRAN ER EKKI lausn fyrir Ísland skv. rökstuddu mati JBH, eins og fram kemur hjá honum þegar um 90 mín. eru liðnar af viðtalinu. Hann talar ennfremur jafn-hörðum orðum gegn Þriðja orkupakka ESB eins og gegn lagningu sæstrengs.

Undir lokin, þegar nær 100 mín. eru liðnar af viðtalinu, fer hann að kynna bók sína um "Norræna módelið" sem ákjósanlegustu lausnina í efnahags- og stjórnmálum, í tilefni af útgáfu bókar hans þar um á ensku (og kínversk þýðing á leiðinni). Ennfremur kom hann í fyrri hlutanum m.a. inn mál Saudi-Arabíu og áhrif "systranna sjö" (olíuauðhringanna) á linkulega stefnu vesturveldanna gagnvart því einræðis- og ofbeldisríki, og sömuleiðis kom hann inn á Rússlands- og viðskiptabanns-málin vegna Úkraínu, en um þau eru margir (m.a. undir­ritaður) með önnur viðhorf. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þess virði að halda í EES-samninginn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ef þessi tilskipun ESB verður samþykkt á Alþingi, eru varnir okkar farnar"

Snilld var ræða Vig­dísar Hauks­dóttur lögfr. og fv. alþm. á fund­in­um um 3. orku­mála­pakka ESB á Há­skóla­torgi í gær. Hér eru nokk­ur af helztu atr­iðum ræð­unn­ar, sem fljót­lega verð­ur raun­ar hægt að nálg­ast í heild á mynd­bands­upp­töku af henni á net­inu.

Vigdís er mjög vel heima um þessi mál, síðan hún stóð í stríðu í Alþingi að tala gegn ESB-umsókn Samfylk­ingar­manna, og þekkir á þeim ýmsa fleti, sem öðrum eru ekki endi­lega ljósir, eins og fram kom í ræðu hennar. Hefur hún áfram fylgzt vel með ESB-málum og sér það glögglega, að í þessu tilfelli enn einnar EES-tilskipunar og tillögu um að innfæra hana í lög Íslands er um að ræða enn eitt dæmi um "spægipylsuaðferðina", þ.e. að koma öllu regluverki Evrópu­sambands­ins á okkur í smáum eða stærri skömmtum, hverjum eftir annan.

"En hér er verið að fjalla um náttúru­auðlindir" Íslands.

Ásækni ESB í þessu efni ber að skoða í ljósi þess, að "mikill orku­skortur er í Evrópu, verið er að loka þar ýmsum orku­verum, kola- og kjarn­orku­knúnum, sem eru talin úrelt og mengandi." (Orð V.H. hér jafnan höfð með tilvitn­unar­merkjum.)

"Ef Ís­land væri í ESB, stæði þessi um­ræða um Þriðja orku­mála­pakkann ekki yfir, því að við værum þá undir Lissa­bon-sátt­mál­anum" og lög ESB lög hér og engin von til þess að atkvæði okkar hefði neitt vægi gegn því í ESB-stofn­unum. (Af þessu sést raunar, hve gersamlega valdalaus við hefðum verið eftir "inngöngu" í Evrópusambandið, við myndum engu ráða t.d. um ákvörðun um sæstrenginn, og eins og bent hefur verið á, gæti ESB þá t.d. látið reisa hér ótal vindmyllur um landið og spillt hér útsýni. Aths. JVJ.)

"Það er skylda eins ríkis í ESB að skaffa öðru ríki þar orku, ef hana skortir."

"Það var í raun búið að opna orkupakkann [þ.e. stefnuna á þann þriðja] í ESB, þegar ESB-umsóknin [hans Össurar & félaga] stóð yfir," því að Lissabon-sáttmálinn gaf framkvæmdastjórninni valdheimildir í þessa átt.

"Íslendingum var lofað láni frá ESB til að leggja sæstreng, ef Ísland gengi í ESB"! Þetta var þegar umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið var á döfinni hjá Samfylkingunni 2009, þá var lofað þessu láni, partur af því að lokka okkur inn, en þarna sést, að strax var meðvitað farið að stefna á þennan sæstreng á meginlandinu árið 2009.

"Þingmenn eru undir gríðarlegri pressu ekki aðeins frá ESB, heldur einnig frá norskum stjórnvöldum að samþykkja 3. orkupakkann." En eins og ítrekað kom fram á fundinum (og Vigdís veit vel), myndi norska þjóðin kunna Alþingi heilar þakkir fyrir að hafna þessari ESB-tilskipun, því að 70% Norðmanna eru andvíg innfærslu hennar þar í landi.

"Ef þessi tilskipun ESB verður samþykkt á Alþingi, eru varnir okkar farnar."

"Á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík um málið voru aðallega fylgismenn tilskip­unar­innar í panelnum." [Svo var einn lesandi að kvarta hér á Fullveldis­vaktinni, að ráðstefnan á Háskóla­torgi HÍ í gær hefði verið "aðeins einhliða áróðurs­fundur"; en ekki varð þess vart, að viðkomandi segði það sama um fund HR! Ennfremur reyndi formaður Heimssýnar, próf. Haraldur Ólafsson, hvað hann gat til að fá meðmælendur Þriðja orkupakkans til að verða meðal ræðumanna í gær -- reyndi það í ráðuneytinu og víðar, en fekk engan til að taka að sér slíkt hlutverk; þetta upplýsti hann í fundar­slita­ræðu sinni í gær.] 

Norðmenn vita, að þessi tilskipun, gerð fyrir mun stærri þjóðir, á ekki við um aðstæður í þeirra landi, og ennþá síður á hún við á Íslandi. Ennfremur er enn ekki víst, að það myndi borga sig að flytja rafmagnið þessa löngu leið, svo mikil eru afföllin með núverandi tækni.

Undir lokin vék Vigdís að því, að mikið hefði verið reynt á sínum tíma að gera gys að henni fyrir að tala um "hreina orku" frá orku­auðlind­um Íslands og hins vegar "skítuga orku" frá evrópskum orkuverum (kola-, olíu- og kjarnorku­knúnum), sem við fengjum hingað til baka. En nú eru einmitt orku­fyrir­tæki hér farin að selja eignar­kvóta í sínum vottaða orkuforða og taka við óhreinum, neikvæðum kvótum í staðinn, þannig að nú geta t.d. íslenzk garðyrkju­fyrirtæki ekki lengur auglýst sig með vörur sem fram­leiddar eru með græna, endur­vinnan­lega orku að baki, því að þá yrði sagt við þau: Nei, þið eruð ekki með hreina og vottaða kvóta! (en þetta er eitt af því, sem hlotizt hefur af því, að gengið er út frá vísinda­tilgátunni um manngerða hlýnun jarðar í loftslags­málum).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þriðji orkupakkinn í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú gefst tækifærið til að hlýða á sérfræðinginn um 3. orkupakka ESB sem frú Reykfjörð lætur plata sig til að agitera fyrir utan og innan þings

Prófessor Peter Thom­as Öre­bech við lagadeild há­skól­ans í Trom­sö er mættur hér á Íslandi til að fjalla um þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins, sem hann telur að muni illu heilli "eiga full­kom­lega við um Ísland, hafni Íslend­ing­ar ekki upp­töku hans."

Það myndi þýða að hans mati að ís­lenskt bann við því að stofna til sæ­strengsteng­inga við út­lönd væri and­stætt EES-samn­ingn­um. (mbl.is)

ÖrebechHann hefur tekið saman ýtarlega umfjöllun um þetta mál og molað sundur í frumeindir sínar þá grein­argerð lögfræðings með takmarkaða þekkingu á ESB-regluverkinu, sem Reykfjörð iðnaðar­ráðherra lét taka saman, en hún"ein­kenn­ist af mis­skiln­ingi," eins og próf. Örebech hefur sýnt fram á.

Bæði er fjallað um þetta álita­efni í Morg­un­blaðinu í dag og fundur haldinn á Háskólatogi í HÍ síðdegis þennan mánudag kl. 17.15, í stofu HT-102, þar sem Örebech verður aðalfyrirlesari, en aðrir frummælendur verða Vigdís Hauksdóttir lögfræðingur og Bjarni Jónsson rafmagns­verkfræðingur. Þá verða einnig almennar umræður, en fundarstjóri verður Haraldur Ólafsson prófessor, formaður Heimssýnar. Fundarboðendur eru Ísafold, Herjan og Heimssýn, en þessi eru m.a. fundarefnin:

- Hvaða vald fær orkustofa Evrópusambandsins og landsreglarinn og hvernig munu þessir aðilar beita því?

- Hver er stefna Evrópusambandsins í orkumálum og er skynsam­legt að Íslendingar undirgangist hana?

- Munu íslensk stjórnvöld missa vald til að ákveða hvort sæstrengur verður lagður eða ekki?

- Er best fyrir Íslendinga að afþakka orkulöggjöfina? Hvernig mun Evrópusambandið bregðast við höfnun?


mbl.is Bann við sæstreng yrði andstætt EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinar sem eru einstakar í sinni röð og fjalla um afar þýðingarmikil mál fyrir fullveldi Íslands

Greinar Bjarna Jónssonar verk­fræð­ings eru í sér-gæða­flokki á Mogga­bloggi, þótt ekki séu allar árenni­leg­ar fyrir allan al­menn­ing, séu menn ekk­ert komn­ir inn í málin. Af hræðsluáróðri og Evrópu­gerð um innviði nefnist hans nýjasta grein, og einkennir hana sem fyrrum hárbeitt rökvísi og glöggskyggni á innihald lagagreina og reglugerða og þá stefnu Evrópu­sambands­ins sem þar er mörkuð, að fylgt verði við framkvæmd "pakkans", hvort sem þjóðum líkar það vel eða miður.

Gagnrýni prófessors Peters Örebech er önnur grein eftir Bjarna, meiri háttar og grundvallandi krítík á Þriðja orku­mark­aðs­laga­bálk Evrópu­sambandsins og sérstaklega á þá álitsgerð, sem Birgir Tjörvi Pétursson lögfræð­ingur tók saman að beiðni iðnaðar­ráðherra okkar (vara­formanns Sjálf­stæðis­flokksins), Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, en reynist vera með afbrigðum meðvirk og ómarktæk í raun, eins og rakið er í grein Örebechs, sem Bjarni segir þarna frá.

JVJ.


mbl.is Tryggja þarf fullveldi EFTA-ríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrumugóður fundur sjálfstæðismanna gegn Acer-orkumálapakka ESB

Um 90-100 manns munu hafa sótt fundinn í Valhöll kl.17.30 til um kl. 20 í kvöld. Tillaga til fundar­álykt­un­ar var sam­þykkt sam­hljóða, mót­atkvæða­laust. Miklar umræður voru eftir erindi framsögu­manna, sem voru Styrmir Gunn­arsson, fyrrv. ritstjóri, dr. Stefán Már Stef­áns­son, prófessor í Evrópu­rétti við HÍ, Bjarni Jónsson rafmagns­verk­fræð­ingur og Elías B. Elíasson verkfræðingur, sem starfað hefur áratugum saman hjá Landsvirkjun. Fundarstjóri var Jón Magnússon hrl., fyrrv. varaþingmaður, og fór það vel úr hendi.

Vafi hafði leikið á afstöðu forystu Sjálfstæðis­flokksins til ACER-málsins, en einungis einn ráðherra hans, varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfa­dóttir iðnaðar- og ferða­mála­ráðherra, mun hafa sótt fundinn, auk a.m.k. eins þingmanns, Birgis Ármanns­sonar. Hvorugt þeirra tók til máls á fundinum. Meðal annarra fundarmanna, sem sátu allan fundinn, var Davíð Oddsson, fyrrv. forsætisráðherra, nú ritstjóri Morgunblaðsins.

Þetta er fundar­ályktun þessa sögulega fundar í Valhöll:

Fund­ur­inn skor­ar ein­dregið á for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins að hafna þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins á þeim grunni að hann stang­ast á við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar, opn­ar Evr­ópu­sam­band­inu leið til yf­ir­ráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækk­ar verð á raf­orku og af­leiðing­ar til langs tíma eru óviss­ar.

Allur fundurinn var tekinn upp á mynd­band og verður væntan­lega aðgengi­legur hvað úr hverju.

Jón Valur Jensson.


Svo bregðast krosstré sem önnur tré

Raunalegt er að sjá Björn Bjarnason ljá stefnunni á Acer-orku­mála­pakk­ann, með fram­sali ríkis­valds héðan, stuðning sinn í grein í gær. Væri honum sæmst að kafa djúpt og af allri sinni skarp­skyggni í greina­skrif Bjarna Jóns­sonar raf­magns­verk­fræðings í málið og losa sig við sínar blekk­ingar­hugmyndir, enda þekkir Bjarni allan þennan málaflokk eins og handar­bakið á sér, verkfræði­lærður í Noregi, hefur fylgzt með allri EES-umræðunni þar og hefur langtíma reynslu sem rafmagns­verkfræð­ingur að störfum í okkar eigin virkjana- og raforkudreifingar-geira.

Nafn Rögnu Árnaóttur, fyrrv. utanþings­ráðherra, sem Björn Bjarnason treystir á, er engin trygging fyrir því, að hún sé hér góður vegvísir, eða eru þeir margir sem trúa leiðsögn hennar og Dags B. Eggerts­sonar um Hvassahrauns­flugvöll sem lausn á okkar flug­samgöngum?!

Undirritaður (upptekinn mjög í dag) frétti af þessari grein Björns á snjáldur­skinnu sinni (facebók) eftir miðnættið, þar sem flugmaðurinn eldklári Þorkell Ásgeir Jóhannsson lagði inn þessa athugasemd: 

Björn Bjarnason rekur nú mikinn áróður með 3. orkupakkanum með vísan í greinargerð Rögnu Árnadóttur um efnið. En greinin sú afhjúpar eitt lykil­atriði málsins í kafla 4.4, neðst í fyrstu mgr, þar sem segir að ESA muni taka þátt í starfi ACER án atkvæðisréttar! Aðkoma ESA sem eftirlits­aðila (sem átti að róa EES-ríkin gagnvart valdaafsalinu til ACER) er því einungis til málamynda. (Feitletr. JVJ)

Vonandi er ekki að bresta flótti í þinglið Sjálfstæðisflokksins um málið, þ.e.a.s. frá einarðri varðstöðu um fullveldið, en landsfundur hefur þegar tekið afstöðu GEGN þessu yfirvofandi þingmáli ESB-vinanna.

Falli Sjálfstæðisflokkurinn (e.t.v. undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og leiðsögn Björns Bjarnasonar) fyrir fagurgala ESB-manna um málið, þá er hann að fella gildan part af full­veld­is­réttindum okkar og verð­skuldar ekkert minna en sitt eigið gengisfall í augum eigin óbreyttra flokksmanna.

Jón Valur Jensson.


Sérfróður maður með vaktina á aukinni hneigð Brusselmanna til óeðlilegra valdheimilda gagnvart EES-ríkjum

Hikstalaust má hvetja full­veldis­sinna til að lesa nýti­leg­ar snilld­ar­grein­ar Bjarna Jóns­son­ar raf­magns­verkfr. í Mbl. og á blogg­síðu hans, m.a. um persónu­vernd­ar­lög­gjöf, ACER-mál­ið, EES og stjórn­ar­skrána, of veikt við­nám Norð­manna, offlæði laga- og reglu­gerða frá ESB o.fl. Sjá m.a. þessar nýleg­ustu greinar Bjarna:

Persónuvernd með fullveldisframsali

Hagsmunir Íslands og Noregs gagnvart Orkusambandi ESB

Stjórnarskráin og EES. Einnig (11. maí) EES og þjóðarhagur, þar sem hann tekur m.a. á beinið afar hæpna frásögn Þorsteins Víglundssonar, fyrrv. ráðherra, í Mbl.grein af málum í Noregi, þ.e. um viðhorf almennings þar og stjórn­mála­flokkanna, m.m.

Einnig þetta um ACER-málið:

Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis

og (15. maí): 

Enginn ávinningur af aðild að Orku­sambandinu

Og þetta er afar upplýsandi um viðhorf Íslendinga, þótt fáir hafi tekið til máls um hið stórvarasama ACER-mál:

Skýr vísbending um þjóðarvilja

sem fjallar um niðurstöður úr skoðanakönnun Maskínu 27/4-7/5 þar sem spurt var

"Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því, að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana ?"

og andvígir reyndust 80,4% (þar af mjög andvígir 57,4%), en fylgjandi aðeins 8,3%! En þeim mun fremur þarf almenningur að vera á varðbergi gegn því, að andstæð sjónarmið og ákvarðanir verði ofan á meðal alþingismanna!

Ennfremur þessari nýlegri greinar: 

Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel

Fyrirvarar Stórþingsins verða varla uppfylltir

Það verður enginn illa svikinn af að fræðast af skrifum Bjarna Jónssonar, fyrr og nú. Ritháttur hans er með afbrigðum skýr, oft reyndar í allöngu máli, en jafnan launar það sig að renna yfir vel rökstuddar greinar hans og oft að tileinka sér efni ýmissa þeirra til hlítar.

Jón Valur Jensson.


Húsbóndinn og þrællinn

Inngangur:

Lög frá Alþingi um Evrópska efnahagssvæðið (EES) urðu 25 ára 12. janúar 2018. Þau voru sett í miklum ágrein­ingi, t.d. vegna sann­fær­ingar margra þingmanna um, að þau fælu í sér fram­sal rík­is­valds til yfir­þjóðlegra samtaka og brytu þannig í bága við Stjórnarskrá. Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni vegna stofnana­væðingar Evrópu­sambandsins, ESB, þar sem fram­kvæmda­stjórn ESB setur á laggirnar stofnanir á æ fleiri sviðum og felur þeim víðtæk völd á hverju málefna­sviðinu á fætur öðru, þar sem ráðherra­ráðið hefur ákveðið og ESB-þingið samþykkt að færa skuli valdið frá stjórn­völdum aðildar­ríkjanna og til fram­kvæmdastjórnar ESB. Oftast er þetta gert með vísun til stjórnar­skrár­ígildis ESB, Lissabon­sáttmálans. Ágætt dæmi um þetta er Orku­samband ESB, sem er skilgreint með Þriðja orku­mark­aðs­lagabálki ESB, ÞOL, og Orku­stofnun ESB, ACER (=Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Fram­kvæmda­stjórnin ætlast til þess, að EFTA-ríkin í EES lúti stjórn þessara stofnana sinna, nánast eins og um ESB-ríki væri að ræða, og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Í EES eru 3 EFTA-ríki, Ísland, Noregur og Liechten­stein. Hvert þeirra um sig hefur neitunarvald í Sameiginlegu EES-nefndinni gagnvart tillögum ESB, eða einhvers EFTA-lands, um upptöku gjörða ESB í EES-samninginn. Þótt fulltrúar allra þriggja EFTA-landanna láti ESB-fulltrúana kúga sig í Brüssel til að samþykkja gjörð, sem tvímælis orkar að taka upp í EES-samninginn, hvílir að stjórnlögum sá stjórn­skipulegi fyrirvari á samþykkinu, að Alþingi staðfesti eða hafni gjörninginum. Nákvæmlega hið sama átti við í Noregi. Þar er hins vegar gjá á milli þings og þjóðar í afstöðunni til ESB. Það er rökrétt, að innlimunarsinnar í báðum löndum verji alla gjörninga, sem Sameiginlega EES-nefndin samþykkir, með kjafti og klóm, enda vilja þeir sjálfsagt helzt taka upp allar gjörðir ESB í lagasafn lands síns. Í þessari afstöðu felst efnahagsleg fávísi um hag smáþjóðar og stjórnlagaleg blinda.

 

Óþol ESB:

F.o.m. samþykkt allra aðildarlanda ESB á stjórnarskrár­ígildinu, Lissabon-sáttmál­anum, árið 2009, stefna allar 3 megin­stjórn­einingar ESB, Framkvæmda­stjórn, Ráðherraráð og ESB-þingið, að því að færa hvern málaflokkinn á fætur öðrum undan stjórnkerfi aðildar­landanna og undir miðstýringu ESB, eins og fyrirskrifað er í téðum sáttmála. Til að taka við stjórn málaflokkanna frá aðildar­löndunum beitir Framkvæmdastjórnin þeirri aðferð að setja á laggirnar stofnun fyrir hvern málaflokk og fela henni víðtækar valdheimildir á viðkomandi sviði undir sínu eftirliti. Má nefna Banka­samband ESB, sem EFTA-löndin hafa gengið í, Orku­samband ESB og Orku­stofnun ESB, ACER (=Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem nú stendur styr um á Íslandi og í Noregi. Sameigin­lega EES-nefndin samþykkti að mæla með við þjóðþing EFTA-landanna þriggja 5. maí 2017, að þau innleiddu ÞOL í EES-samninginn, sem m.a. færir endanlegt vald yfir raforkuflutningsmálum landanna til ACER. Nefna má, að í burðarliðnum er 1000 blaðsíðna viðbót frá höfuð­stöðvum ESB, Berlaymont, við ÞOL og á döfinni er sambærileg löggjöf á vinnumálasviði. Norska verkalýðs­hreyfingin girðir sig nú í brók til að veita henni viðnám, en sú íslenzka liggur í hýði sínu.

Í upphafi 10. áratugar 20. aldarinnar var stofnað til EES sem fordyris að ESB fyrir EFTA-þjóðirnar, sem þá voru allar taldar stefna inn í ESB. Þær sömdu síðan allar um aðild að ESB, nema Ísland og Liechtenstein, en norska þjóðin hafnaði norska samninginum árið 1994 í annað sinn. Hið fyrra sinnið var haustið 1972, og var höfundur þessarar greinar þá nýkominn til náms í Þrándheimi og rak í rogastanz yfir hitanum í kosningabaráttunni.

EES-samninginn hefur dagað uppi síðan 1992, sem er óeðlilega langur tími fyrir bráðabirgða fyrirkomulag af þessu tagi. Það getur ekki gengið til lengdar, að fullvalda þjóðir láti bjóða sér að taka upp löggjöf ríkja­sambands til þess að fá að eiga í viðskiptum við fyrirtæki þar. Líklega er enginn viðskiptalegur ávinningur af þessu í ljósi hagstæðs fríverzlunar­samnings Kanada við ESB, sem Íslendingum ætti að standa til boða. Kostnaðurinn, beinn og óbeinn, af þessu fyrirkomulagi er svo mikill, að hann dregur niður lífskjörin hér, eins og drepið verður á. Frjálst flæði fólks hingað hefur vissulega dregið úr þenslu á vinnumarkaði, en skapað jarðveg ólöglegra undirboða á vinnumarkaði og misnotkun á fólki. Fólk af erlendu bergi brotið í landinu nemur nú um 10 % af heildarmannfjölda, sem er mjög hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Fólkið ber auðvitað með sér bæði menningu og ómenningu, nýsköpun og glæpafár. Til að ná áttum og giftusamlegri aðlögun fyrir frumbyggja og aðflutta er nú tímabært að spyrna við fótum og staldra við.

Ójafnræði ríkir með EFTA- og ESB-ríkjunum á undirbúnings­stigum mála. Fámennar þjóðir hafa hreinlega ekki bolmagn til að fylgjast með og taka þátt í allri þeirri gerjun, sem á sér stað í Berlay­mont. Það lítur þokkalega út á blaði að setja fram stefnumið um, að Íslendingar skuli nýta alla möguleika til áhrifa, sem EES-samstarfið býður upp á, en til þess gæti þurft 50 búrókrata. Að verja takmörkuðu íslenzku skattfé til slíks er líklega ein óskil­virk­asta leið, sem hugsazt getur við ráðstöfun fjár úr íslenzka ríkis­sjóðinum og kemur ekki til greina. Með sama hætti er furðu­legt að sjá í Stjórnar­sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobs­dóttur, að nú skuli settur aukinn kraftur í innleið­ingu gjörða ESB í íslenzk lög og regluverk. Þetta kostar fé og veldur síðan marg­földum kostn­aði í atvinnu­lífinu, er sjaldan til gagns og oft til ógagns eins.

Allar ESB-þjóðirnar eiga fulltrúa með atkvæðisrétt í stjórn ACER, en EFTA-ríkin munu þar aðeins fá áheyrnarfulltrúa við inngöngu í Orkusambandið. Það er ærið verkefni fyrir embættismenn ESB að ná sameiginlegri niðurstöðu með ESB-ríkjunum, og þolinmæði þeirra gagnvart sérkröfum EFTA-ríkjanna er á hverfanda hveli. Er nú svo komið, eftir að brezka þjóðin ákvað að ganga úr ESB í júní 2016, að embættismenn ESB eru hættir að nenna að vinna að undanþágum eða sérlausnum með EFTA. Þannig fengu EFTA-þjóðirnar engum kröfum sínum framgengt í 6 ára samningaþófi um ÞOL, sem nú hefur steytt á skeri, og staða þeirra í Orku­sambandinu verður eins og 2. flokks ESB-ríkis, ef af verður. Sviðsmynd húsbónda og þræls krystallast í ACER.  Í Noregi urðu um Þriðja orkubálkinn (ÞOL) hatrammar deilur í Stórþinginu, og um allan Noreg reis mótmælaalda gegn innleiðingu hans. Sveitarstjórnir og fylkisþing samþykktu mótmælayfirlýsingar og verkalýðshreyfingin lagðist alfarið gegn innleiðingu, augljóslega af ótta við slæmar afleiðingar fyrir atvinnustigið í landinu, og mótmælagöngur með kyndla voru gengnar víða í landinu.  Stórþingið er hins vegar hallt undir ESB-aðild Noregs, og til undirbúnings ESB-aðild samþykkti það inngöngu Noregs í orkusambandið.

Á Íslandi er staðan önnur. Málið var kynnt utanríkismálanefnd Alþingis 2015, og þar varð Frosti Sigurjónsson einn þingmanna til að vara við þessu máli, en það hlaut enga almenna umfjöllun, eins og átti sér þá og æ síðan stað í Noregi. Heimssýn tók ekki þá upp baráttu gegn því, eins og norsku systursamtökin, „Nei til EU“. Eftir að höfundur þessarar greinar vakti rækilega athygli á málinu með vefgreinum og Morgunblaðsgrein, og eftir heimsókn for­manns „Nei til EU“ til Íslands 1. marz 2018 í boði Heimssýnar, tóku 2 stjórnmálaflokkar við sér í aðdraganda Flokksþings Fram­sókn­ar­flokksins og Landsfundar Sjálfstæðis­flokksins, þar sem samþykktar voru tímamóta ályktanir gegn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. Er nú svo komið, að líklegt má telja, að Alþingi hafni umbeðinni innleiðingu í EES-samninginn. Það verður söguleg stund.

 

Valkostur við EES:

Með útgöngu Breta úr ESB skapast alveg ný tækifæri til samskipta Evrópuþjóða utan ESB og annarra við ESB. Í ESB-löndunum, einkum á meðal hinna minni, er vaxandi óánægja með samruna­ferli, flóttamanna­stefnu og peninga­mála­stefnu sambandsins. Á Ítalíu standa yfir stjórnar­myndunar­viðræður, þar sem flokkar, gagnrýnir á ESB, munu sennilega mynda ríkisstjórn. Fleiri þjóðir kunna að kvarnast út úr ríkjasambandinu í kjölfar Breta.   Bretar munu vafalaust gera fríverzlunarsamning við ESB, vonandi eigi síðar en 2020, og Íslendingar og Bretar munu gera með sér fríverzlunarsamning. Íslendingum mun vafalítið einnig bjóðast að gera fríverzlunarsamning við ESB, gangi þeir úr EES, og sé tekið mið af fríverzlunarsamningi Kanada við ESB frá 2017, verður hann jafnvel hagstæðari en núverandi viðskiptakjör í EES, t.d. á sviði sjávarútvegsmála, en á því sviði er ekki fullt tollfrelsi gagnvart ESB, af því að Ísland hafnaði hinni sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu sambandsins. EFTA-dómstóllinn, sem jafnan dæmir í samræmi við ESB-dómstólinn, hefur kveðið upp óviðunandi úrskurð fyrir Íslendinga um óheftan innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Þessi innflutningur hefur í för með sér hættu á sýkingu manna og búfjár. Það er hrein valdníðsla EES gagnvart sjálfstæðri þjóð að ætla að gera löggjafar­þing þjóðarinnar afturreka með lágmarks varúðar­ráðstafanir sínar 2009 gagnvart stórfelldum heilsufars­legum og þjóðhags­legum hnekki við smit. Það ber að láta steyta á þessu máli. Ef eftirgjöf vegna skuldbindinga EES-samningsins er óhjákvæmileg, þá ber fremur að segja þeim samningi upp. Skaðleg langtímaáhrif eftirgjafar geta orðið óafturkræf hérlendis.  

Með útgöngu úr EES geta sparazt hérlendis gríðarlegir fjármunir, ef samtímis verður ráðizt í grisjun reglugerða­frumskógarins og minnkun eftirlitsiðnaðarins eftir föngum. Verzlunarráð Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að beinn og óbeinn kostnaður atvinnulífsins vegna íþyngjandi opinberra kvaða nemi um 175 miaISK/ár og vaxi um 1,0 %/ár, mest vegna minni framleiðni­aukningar af völdum tíma og kostnaðar af reglugerðum og eftirlitsstofnunum. Auðvitað verður í nútíma þjóðfélagi ómögulegt að afnema þessar kvaðir, en það er brýnt að skera slíkan kostnað niður við trog í litlu þjóðfélagi, þar sem sárafáir starfsmenn eru að jafnaði í hverju fyrirtæki í samanburði við meginland Evrópu, sem regluverkið er sniðið við. Raunhæft er að spara tæplega 50 % af þessari „yfirbyggingu“eða rúmlega 80 miaISK/ár. Til að setja þetta í launasamhengi gætu allir launamenn landsins fengið 4 % hækkun launa fyrir vikið, en skynsamlegra er þó að nýta svigrúmið til að auka framleiðnina rækilega og endurvinna þannig samkeppnishæfni atvinnulífsins með fjárfestingum í framleiðni­aukandi tækni.

 

Orkusamband ESB:

Orkusamband ESB er skilgreint með Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009 (ÞOL). Til að sinna nauðsynlegum verkefnum til að framfylgja stefnumiðum Orkusambandsins var Orkustofnun ESB, ACER, komið á laggirnar í Ljubljana 2011. Hún hefur á sinni könnu að samtengja öll lönd Orkusambandsins svo rækilega, að bæði rafmagn og eldsneytisgas geti flætt frjálst og hindrunarlaust á milli svæða og á milli landa innan Orkusambandsins. Orkulindir Íslands innihalda enn ekkert jarðgas, en það er þó ekki útilokað, að það finnist innan efnahagslögsögunnar, og rannsóknir hafa staðið yfir á Drekasvæðinu, eins og menn vita, hvað sem úr þeim verður. Hins vegar eru hér tiltölulega miklar endurnýjan­legar orkulindir, og það er einmitt rafmagn úr slíkum orkulindum, sem ACER er á höttunum eftir. Til að auka afhendingar­öryggi raforku og bæta nýtingu orkuveranna, einkum hinna sjálfbæru (aðallega vind- og sólarorkuvera), er stefnumið ACER að bæta tengingar á milli rafvorkukerfanna að svo miklu leyti, að verðmunur á milli þeirra verði minni en 2,0 EUR/MWh eða tæplega 0,25 ISK/kWh á frjálsum markaði. Gangi Ísland í Orkusambandið, verður hvergi meiri verðmunur á milli „nágranna“ en á milli Íslands og Bret­lands. Hann er rúmlega 3,0 ISK/kWh eða tólffalt viðmiðið. Þetta er skýringin á því, að ACER hefur tekið sæstrengs­verkefnið „Ice Link“, sem er um 1200 MW sæstrengur til Bret­lands, inn á forgangsverkefnaskrá sína, enda mun ACER hafa það í hendi sér, ef Alþingi samþykkir ÞOL, að hefja undirbúning verkefnisins af fullum krafti án þess að ræða við kóng eða prest hérlendis um það. Með samþykkt „bálksins“ felur Alþingi ACER sjálfdæmi um tilhögun raforkuflutningsmála innanlands og að og frá landinu. Hvorki Alþingi né ríkisstjórn verða eftir það spurð um þessi mál, nema EES-samninginum verði sagt upp, enda er það megin­hlutverk ACER að ryðja öllum staðbundnum hindrunum úr vegi frjálsra og hindrunar­lausra raforku­flutninga um allt svæðið, svo að 5. frelsið bætist við á Innri markaðinum. Slíkar staðbundnar hindranir eru t.d. stefna stjórnvalda um að nýta hagkvæma innlenda orku til atvinnusköpunar um allt land.

Allir sjá, að Íslendingar eru á allt öðru róli en ESB-ríkin í orku­málum og eiga enga samleið með meginlandinu í þessum efnum, enda voru orkumál ekki eitt hinna umsömdu sviða í upphaf­lega EES-samn­ingnum, sem var settur á laggirnar til að ákvarða leikregl­urnar fyrir frelsin 4 á Innri markaðinum, þ.e. fyrir frjáls vöruviðskipti, frjáls þjónustu­viðskipti, frjálsa fjármagns­flutninga og frjálsa för fólks innan EES. Íslendingar eiga alls ekki að samþykkja útvíkkun á gildis­sviði EES-samningsins, því að þannig nálgast þeir enn meir að verða undirsátar Brüssel-valdsins. Ástæðan er sú, að ESB-ríkin eru í samrunaferli, og Fram­kvæmda­stjórnin meðhöndlar EFTA-ríkin nú sem annars flokks ESB-ríki, þ.e.a.s. ætlar að setja þau undir stjórn stofnana, eins og ACER, sem þau hafa ekkert komið að mótun á og eru ekki fullgildir aðilar að. Þetta stríðir algerlega gegn Stjórnarskrá Íslands, 2. gr., og kemur þess vegna alls ekki til mála í huga annarra en ESB-sinna. Að sjálfsögðu skiptir engu máli í þessu sambandi, hvort aflsæstrengur til útlanda er nú fyrir hendi eða ekki.

Niðurstaða:

EFTA-ríkin í EES eru í hlutverki þrælsins á höfuðbólinu. Þau hafa hingað til tekið því, sem að þeim var rétt. Húsbóndinn færir sig hins vegar stöðugt upp á skaptið, svo að nú er komið að því að toga í neyðarhemilinn og segja: „hingað og ekki lengra“.   Stórþingið féll á prófinu, þótt norska þjóðin stæðist það með glans. Í Noregi hefur nú myndazt gjá á milli þings og þjóðar. Á Íslandi blása samt aðrir og gæfulegri vindar. Það virðist ætla að verða fullur samhljómur á milli þings og þjóðar í hinu svo kallaða ACER-máli, sem er á málaskrá ríkisstjórnarinnar á vorþinginu 2018.

ACER-málið er stórmál fyrir Íslendinga, þótt enginn sé enn aflsæstrengurinn til útlanda.  Það snýst ekki um eignarrétt yfir orkulindunum að þessu sinni, heldur um ráðstöfunarréttinn á raforkunni. Eiga lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Íslandi að eiga möguleika á að stýra notkun hennar í þjóðhagslega hagkvæma farvegi, eða á að láta markaðsöfl niðri í Evrópu um að beina henni til hæstbjóðenda þar? Á milli þessara tveggja kosta eru himinn og haf, og það er ótrúlegt, að Alþingi Íslendinga skuli árið 2018, á einnar aldar afmælisári fullveldis landsins, vera sett í þá veruleikafirrtu stöðu að þurfa að velja á milli þessara tveggja kosta.

 

Garðabæ, 8. apríl 2018,

Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur


mbl.is Finna lausn án þátttöku Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband