Schengen ógnar öryggi okkar

  • Evrópska lögreglan Europol tel[ur] að allt að 5 þúsund vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, sem þjálfaðir hafa verið í Írak og Sýrlandi, séu þegar í ríkjum Evrópusambandsins, reiðubúnir að fremja hryðjuverk.
  • Sir Richard Dearlove, fyrrverandi yfirmaður brezku leyniþjónustunnar MI6, sem sagði í síðasta mánuði að Bretland yrði öruggara utan Evrópusambandsins.
  • Fyrrverandi forstjóri bandarísku leyni­þjónustunnar CIA, Michael Hayden, tók undir með Dearlove skömmu síðar og sagði Evrópusambandið meðal annars gera ríkjum sambandsins erfiðara fyrir að tryggja öryggi sitt.

Þetta kemur fram í afar góðri grein í Mbl. í fyrradag, Öryggi Íslands ógn­að, eftir Hjört J. Guðmundsson sagn­fræðing. Menn ættu að veita fulla eftirtekt hans glöggu orðum um okkar eigin stöðu í þessu "samstarfi", hvernig við vorum narraðir inn í það á fölskum forsendum, sem tíminn og þróunin hefur sýnt, að standist ekki. Hann segir orðrétt:

Við Íslendingar gerðumst á sínum tíma illu heilli aðilar að Schengen-svæðinu sem fyrrverandi forstjóri Interpol segir bjóða hryðjuverkamenn velkomna enda þúsundir þeirra þegar innan svæðisins að sögn Europol. Forsenda aðildar okkar var að öryggið á svonefndum ytri landamærum svæðisins yrði tryggt. Það hefur í reynd aldrei verið raunin og alveg sérstaklega ekki síðustu misserin. Forsendubresturinn er því alger. Við hefðum aldrei átt að gerast aðilar að Schengen-svæðinu en það er ekki of seint að leiðrétta þau mistök.

Eins og Jón Sigurðsson á sínum tíma* þurfum við að grundvalla stefnu okkar og viðleitni til framfara á sem fyllstri þekkingu ytri aðstæðna okkar, sögu landsins í bráð og lengd og ekki sízt á lagaramma þeim sem lýðveldinu er sniðinn. (Í VINNSLU.) 

* Það er bæði ánægjulestur og upplýsandi að sjá vel rökstutt mat nútíma­fræðimanns, dr. Guðrúnar Nordal, á hinum öfluga og farsæla viðbúnaði Jóns Sigurðssonar strax upp úr tvítugu, meðan hann var í Laugar­nesi ritari Steingríms biskups, og allar götur síðan. Þetta má lesa í mjög ljósri ritgerð hennar, "Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur." Um viðbúnað Jóns Sigurðssonar, í tveggja alda minningar­verkinu Jón Sigurðsson. Hugsjónir og stefnumál (Rvík, Hið ísl. bókmenntafélag 2011, bls. 71 o.áfr.). Ólíkt ýmsum, sem með 20. aldar áherzlum á aðra hluti fóru að leyfa sér að tala niður meinta persónudýrkun Jóns og ævisagna-áherzluna í sagnaritun um 19. alda sögu okkar ("Kristjánssona-sagnfræðin" var þetta gjarnan kallað) og ekki sízt með því að þykjast geta talað með takmarkaðri virðingu um hið mikla ævisöguverk dr. Páls Eggerts Ólasonar: Jón Sigurðsson, I-V, Rvík: Hið ísl. þjóðvinafélag 1929-1933, þá sjáum við bæði endurnýjaða og djarfa nálgun Guðrúnar á málið í þessari ritgerð hennar. Hún kallar dr. Pál að sönnu "hinn ástríðufulla ævisagaritara Jóns", en segir líka: "Verk hans um Jón Sigurðsson er geysilega merkilegt og auðvitað snortið þeirri miklu aðdáun sem höfundur hefur á söguefni sínu. Fyrsta bindið af fimm kallast einfaldlga Viðbúnaður. Páll lýsir því vel hvernig Jón hervæddist í fræðastarfi sínu rétt eins og hermaður býr sig fyrir orustu. Sverð Jóns og skjöldur voru vinnusemi og lestur handrita. Páll Eggert, skrásetjari handrita Landsbókasafns, skildi mjög vel fræðastörf Jóns og var því mjög vel til þess fallinn að skilja hvað í þeim fólst. En í hverju fólst viðbúnaður hans?" (Sama rit, bls. 73-74.) -- Og hér læt ég lesandanum eftir að leita um samhengi alls þessa og um spennandi framhaldið í hina mjög svo gagnlegu ritgerð dr. Guðrúnar, en bókin fæst hjá því rótgróna útgáfufélagi sem Jón Sigurðsson vann á ævi sinni ómetanleg störf fyrir,** en það er Hið íslenska bókmenntafélag. -- En meðal þeirra, sem í Evrópusambands-móði hafa leyft sér að tala niður nálgun dr. Páls Eggerts á sjálfstæðisbaráttu Jóns og samherja hans á 19. öld, eru þeir sem reyna hvað þeir geta til að "relatívisera" hugtakið fullveldi og gera í raun lítið úr fyllsta tilgangi þessarar baráttu. Það er gott að sjá, að sá prófessor í sagnfræði, sem manna helzt hefur talað í þessa átt, er ekki meðal hinna tíu höfunda áðurnefnds aldaminningarrits.

** Sjá einkum ritgerð dr. Björns Magnússonar Olsen, Jón Sigurðsson og Bókmenntafélagið, í nefndu minningarriti (2011), bls. 183-208.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar umræðan um að vígamenn Ríkis islam væru að smygla sé inn í Evrópu, var viðkvæði að það stæði engin ógn af slíku, gera mætti ráð fyrir að einungis eitt prósent innflytjenda væri á mála hjá Ríki islam.

Þetta er að sannast, það sem menn virðast ekki átta sig á að eitt prósent er ansi mikill fjöldi ef það er tekið af stórri tölu.

Þó má áætla að Europol vantelji þennan fjölda, að hann sé nærri helmingi hærri, eða nálægt 10.000 manns. Þá er ótalin sú uppeldisstarfsemi sem fram fer innan Evrópu á þessum skæruliðum.

Gunnar Heiðarsson, 13.4.2016 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband