Færsluflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands

Hingað og ekki lengra, Evrópusamband!

Stjórnvöld reyna nú að beita sér gegn ofveiði Rússa á karfa. Annar vandi er þó stærri.

  • Fyrir liggur að makríllinn kemur hingað á beit á hverju sumri og étur meira en milljón tonn út úr lífríkinu til að fita sig um fleiri hundruð þúsund tonn. Til þessara staðreynda vilja hvorki Norðmenn né Evrópusambandið taka tillit. Að þeirra mati eigum við ekkert tilkall til þess að veiða þennan fisk. Hlutverk okkar sé einungis að fita hann fyrir þá sjálfa. Þeir kalla veiðar okkar óábyrgar en á undanförnum áratugum hafa þessar þjóðir veitt þennan fisk í sameiningu langt umfram tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Þannig skrifar Hjörtur Gíslason, ritstjóri Útvegsblaðsins, í 5. tölublað þessa 13. árgangs þess (maí 2012), þ.e. í leiðaranum Hingað og ekki lengra. Þetta ritar hann í tilefni þess, að "makríldeilan stendur nú sem hæst, þegar styttist í að veiðar okkar á þessum verðmæta fiski eru að hefjast."

Já, nú stendur í raun sem hæst mjög alvarleg milliríkjadeila okkar við það sama Evrópusamband, sem eys hér á sama tíma af hundraða milljóna sjóðum sínum til "kynningar" og áróðurs til að fá Ísland inn í ríkjasambandið (engin furða, þegar efnahagslögsaga okkar er í raun rúmlega áttfalt stærri en landið eitt). Já, þessi óleysta deila og þessi áþján af hálfu ESB stendur enn yfir, þegar fulltrúar Evrópusambandsins eru farnir að birtast hér á fundum og í fjölmiðlum til að gylla fyrir okkur "kostina" við að "ganga í" stórveldið!

Við skulum ekki gleyma því, að eitt af því, sem ESB-sinnar hamra á sem "reglu" í ríkjasambandinu, er "hlutfallslegur stöðugleiki". En þar undanskilur Evrópusambandið svo sannarlega hvalveiðar, selveiðar og hákarlaveiðar, rétt eins og tófu- og svartfuglaveiðar! Það gefur engin "fyrirheit" um veiðar á neinu af þessu, a.m.k. ekki á sjávarspendýrunum.

Það er alfarið rangt að treysta og reiða sig á "regluna um hlutfallslegan stöðugleika", því að hún er í 1. lagi forgengileg, í 2. lagi forgengileg og í 3. lagi forgengileg -- fýkur út í buskann, þegar henni verður stórlega breytt eða skóflað út, eins og rætt hefur verið í Brussel, enda er hún í 1. lagi ekki partur af sáttmálum ESB, og í 2. lagi er hún í verulegu ósamræmi við grundvallarregluna sem gildir þar um jafnan aðgang allra ESB-þjóðanna að fiskveiðiauðlindum landanna.

En skoðum þó möguleikann á því, að "reglunni" yrði komið hér á við inntöku/innlimun Íslands í ESB, t.d. á næsta ári. Þá gætum við nánast gleymt makrílveiðum okkar, sem skiluðu okkur 24 milljörðum króna í þjóðarbúið árið 2011. "Reglan" sú arna byggir nefnilega veiðirétt á veiðireynslu. Þar fengi ESB einmitt tangarstað á okkur: gæti vísað til eigin veiðireynslu á liðnum árum gegn okkar litlu reynslu. Veiðireynslutímabilið geta þeir stillt af eftir eigin höfði (eða höfðum háværra þrýstilanda fremur en -hópa innan ESB), enda er það hvort sem er misjafnt eftir tegunum og svæðum. Þó að mestallur makríll færðist hingað, gæfi það okkur þá engan yfirburðarétt, hvað þá einkarétt, á að veiða hann, þ.e.a.s. ef við værum í ESB, heldur fengju Skotar, Írar og aðrir að ganga í hann hér í stórum stíl í takt við veiðireynslu sína á liðnum árum. Fiskveiðistjórnunin væri auk heldur ekki hjá Hafró -- nei, vinir, hún yrði í Brussel.

Eftir að hafa leikið okkur grátt í þessum efnum gæti svo ESB afnumið "regluna um hlutfallslegan stöðugleika" um 5 til 10 árum seinna, eins og tillögur voru um í grænbók þess sjálfs fyrir um fjórum árum, og þá gætu skip ESB-ríkja vaðið hér um alla landhelgina að ausa upp öllum fisktegundum milli 12 og 200 mílna (nema í tilfelli svæðalokana ... að fyrirlagi ESB!).

En meira af þessu makrílmáli hér í framhaldsgrein: "Stríðsaðgerð af hálfu ESB" (sagði hver?!).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Athugasemdir við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfestingin komin!

  • Með því að fella tillögu Vigdísar Hauksdóttur um að spyrja þjóðina hvort halda ætti ferlinu áfram staðfesta þingmennirnir að ESB-umsóknin er ekki í umboði íslensku þjóðarinnar.

Frábærlega vel athugað. Margir afburðagóðir pistlar hafa birzt á Vinstrivaktinni gegn ESB, þar sem Ragnar Arnalds hefur einkum verið ötull við sín málefnalegu skrif. Lítið á þennan pistil: Haldreipi ESB-umsóknarinnar farið.

JVJ. 


ESB-flokkarnir á Alþingi eru þrír - og allir andvígir þjóðarvaldi yfir því hvort ráðamenn fái að halda áfram ESB-umsókn eða hún verði dregin til baka - Hræsni Þórs augljós

Tillaga Vigdísar Hauksdóttur um að þjóðin verði spurð í haust, hvort draga eigi til baka Evrópusambands-umsóknina, var felld í dag með 34 atkvæðum gegn 25; fjórir voru fjarverandi.

Ógæfa þessarar þjóðar eftir kosningarnar 2009 er sú að hún ræður engu um sín mestu málefni ... nema með víðtæku, tíma- og orkufreku átaki eins og birtist í undirskriftasöfnun InDefence-hópsins og seinna Samstöðu þjóðar gegn Icesave (kjósum.is) og í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave-málið.

ALLAN TÍMANN FRÁ UMSÓKNINNI HEFUR ÞJÓÐIN VERIÐ ANDVÍG ÞVÍ AÐ GANGA Í EVRÓPUSAMBANDIÐ, samkvæmt hverri einustu skoðanakönnun.*

Nú hefur stjórnarmeirihlutinn (sem nýtur um 31-33% stuðnings í nýjustu skoðanakönnunum), með fullum stuðningi Hreyfingarinnar, þrátt fyrir allt hjal hennar um þjóðaratkvæðagreiðslur, tekið algera afstöðu gegn því að fólkið í landinu fái að úrskurða um það, hvort áfram skuli haldið í umsóknarferlinu eða umsóknin dregin til baka.

Upphrópunin "Hræsni!" heyrðist í þingsalnum, þegar einn þingmaður var að gera grein fyrir atkvæði sínu. Sá var Þór Saari, leiðtogi Hreyfingarinnar. Ástæðan var augljós þeim, sem fylgzt hafa með umræðum á Alþingi. Þór Saari sagði þar í ræðustól, að ekki ætti að "blanda saman óskyldum málum" í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust (þ.e. stjórnarskrár-umturnunarmálinu annars vegar og ESB-umsókn vinstri flokkanna hins vegar). En sjálfur hafði þessi sami Þór barizt fyrir því, að tveimur óskyldum málum yrði slengt saman í júlímánuði: forsetakosningunni og stjórnarskrármálinu! Hræsni hans með ofangreindum orðum sínum er því augljós, en svona rakalausar eru samt hans forsendur fyrir því að hafna valdi almennings í þessu máli!

Það voru orð að sönnu hjá Einar K. Guðfinnssyni alþm., þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sinu, að tala um "ESB-flokkana á Alþingi" og tiltók þrjá flokka: Samfylkingu, Vinstri græna og Hreyfinguna.

Því má spá hér, að þetta verði uppreisnarefni í grasrót Vinstri grænna og upphafið að endalokum Hreyfingarinnar. Við þetta ber þó að bæta, að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrum þingflokksformaður VG, greiddi atkvæði með tillögu Vigdísar, og ennfemur Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra. Heiður sé þeim að standa með sannfæringu sinni og eigin kjósendum.

Eitt enn: Tveir þingmenn: Siv Friðleifsdóttir og Skúli Helgason, héldu því fram, að "forsendurbrestur [hefði] ekki orðið" í þessu máli, frá því að sótt var um ESB-inngöngu árið 2009, og réttlættu með því mótatkvæði sín gegn tillögu Vigdísar. Það var amalegt, að engir þingmenn tóku beinlínis á þessum fáfengilegu rökum þeirra. Hér eru nefnilega dæmi sem sýna jafnvel ýmsum ESB-hlynntum greinilega breyttar og brostnar forsendur fyrir umsókn:

  • Makrílstríð ESB gegn Íslandi, með hótunum um viðskiptabann!
  • Aðgerðir ESB gegn Íslandi í Icesave-málinu (sjá aðra grein hér í dag).
  • "Umræðuferlið" reyndist rangmæli; engar samningaviðræður fóru fram í tvö ár, en aðlögunarferli hófst og stendur enn yfir. Þarna virðist því hafa verið logið að þingi og þjóð strax í upphafi, en ekkert tillit tekið til þeirra, sem gagnrýnt hafa þetta -- þvert á móti var helzta gagnrýnandanum kastað út úr ríkisstjórninni, Jóni Bjarnasyni, og því fagnaði ESB-þingið í sérstakri ályktun!
  • Ekki var talað um það í upphafi, þegar Siv og Skúli kusu með ESB-umsókn, að Evrópusambandið fengi að eyða hér hundruðum milljóna króna í áróður, m.a. í formi rangnefndrar "Evrópustofu".** Þessi óeðilegu áhrif stórveldisins, sem stjórnarþingmenn sætta sig vel við, eru vitaskuld ógnun við lýðræðislegt vald og aðstöðu almennings til að að skoða málið í ljósi upplýsinga án tengsla við fjárhagslegt ofurvald.
  • Fulltrúar Evrópusambandsins hafa ítrekað hlutazt til um íslenzk málefni með ólöglegum hætti, "stækkunarstjórinn" Olli Rehn, sendiherrann Timo Summa og einnig sendiherra voldugasta ríkisins innan ESB: Þýzkalands.
  • Evrópusambandið sjálft hefur tekið miklum breytingum frá 2009, er nú enn síðri valkostur fyrir okkur, er sjálft í stórkostlegum efnahags- og skuldamála-vandræðum, umfram allt á evrusvæðinu, sem hafði verið helzta gulrótin fyrir ýmsa hér á landi: að "fá" evruna.
  • Jafnframt þessu er komin upp mjög sterk hreyfing meðal ráðamanna Evrópusambandsins og stærstu ríkjanna þar að efla miðstjórnarvald þess, gefa því meiri valdheimildir um sjálf fjárlög meðlimaríkjanna o.fl. fjárhagsmál, að taka af ríkjunum veigamikinn hlut af fullveldisrétti þeirra og auka samlögunarferlið.

Er það svo í alvöru, að Siv Friðleifsdóttir hafi verið fyrir fram sátt við alla þessa hluti, sem komið hafa á daginn? Er hún kannski reiðubúin að láta þjóð sína taka við enn meiri smánun, lítillækkun og yfirgangi af hálfu Brusselvaldsins?

* Í öllum 13 (10) skoðanakönnunum eftir umsóknina, frá 4.8. 2009 og áfram, þar sem spurt hefur verið, hvort menn vilji, að Ísland gangi í Esb., hefur svarið verið eindregið NEI! - NEI gegn JÁI hefur verið í þessum hlutföllum (óákveðnir ekki taldir með), í tímaröð frá 4. ágúst 2009 til 27. apríl 2012: 48,5%/34,7% --- 50,2/32,7 --- 61,5/38,5 --- 54/29 (könnun á vegum Hásk. í Bifröst) --- 55,9/33,3 --- 60,0/24,4 --- 69,4/30,5 --- 60/26 --- 50,5/31,4 --- 61,1/38,9 --- 55,7/30 --- 50,1/37,3 --- 64,5/35,5 --- 63/37 --- 67,4/32,6 --- 66/34.

** Evrópusambandið er aðeins 42,5% af Evrópu (43% með Króatíu). 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tillaga Vigdísar felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið er skína í æðsta vald þjóðar um stærstu mál, en þjóðin snuðuð um valdið!

Að þjóðin "fái" að svara 5 handvöldum spurningum Esb-sinna í ríkisstjórn og þingnefnd, en leyfa henni EKKI að hafna þar fullveldisframsalsákvæði í 111. grein stjórnarskrár-draga umboðsvana stjórnlagaráðs, jafngildir því EKKI að gefa þjóðinni æðsta vald um nýja stjórnarskrá, heldur virðist þetta form á málinu skollaleikur einber -- sýnd veiði, en ekki gefin um þjóðarvald í æðstu málum. Þar að auki er atvæðagreiðslan einungis sögð ráðgefandi.

Frumvarp, sem inniheldur ákvæði (í bland með hlálegum áróðurshljómi) frá Evrópusambands-sinnum í stjórnlagaráði um tiltölulega auðvelt og hraðvirkt fullveldisframsal, ætti að draga til baka og vanda betur alla vinnu að endurskoðun stjórnarskrár í framhaldinu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Umræðu um þjóðaratkvæði frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Ágústsson um furðuleiki Samfylkingar

"... Hvar fiskurinn liggur undir steini vita allir landsmenn. Samfylkingin ætlar inn í Evrópusambandið og leikur marga furðuleiki til þess að ná því fram. Nú er framundan nýtt inngrip, sérstök gleðivika ESB á Íslandi (auðvitað óháð allri aðildarumsókn) svona hátíð eins og ungmennafélögin stóðu fyrir hér áður fyrr. Öðruvísi mér áður brá þegar við vinstrimenn girtum Kanana af í Miðnesheiðinni og lokuðum Kanaútvarpinu. En í þá daga vildu menn ekki inngrip í sjálfsákvörðunarrétt Íslands. Nú er öldin önnur og Össur "glaði" spyr Steingrím J. Sigfússon okkar gamla landvörslumann ekki leyfis í einu eða neinu þótt það sé nú blessaður Steingrímur einn sem ber ríkisstjórnina áfram."

Áskorun á forystu ASÍ  Þannig ritar Guðni Ágústsson, fyrrv. alþm. og ráðherra, í grein sinni í miðopnu Morgunblaðsins í gær, miðvikudag 9. maí: Útsmoginn er Össur Skarphéðinsson. Þið takið eftir sneiðinni í lok textans: þar er bent á, að Steingrímur ber í raun ábyrgð á, að þessi ríkisstjórn haldi áfram sinni ótæpilegu meðvirkni með Evrópusambandinu, jafnvel milljóna-áróðurspakka þess; Steingrímur virðist ekki hafa meiri sjálfsaga og stolt en svo, að hann leyfir utanríkisráðherranum komast upp með hvað sem er.

Guðni segir þarna meðal annars: "Nú er aðeins ein fyrirstaða í ríkisstjórninni eftir í ESB-ferlinu það er Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra." -- Hvetja má menn til að lesa skrif Guðna um Evrópusambandsmál í Morgunblaðinu (sbr. yfirlit hér). Ofangreindar tilvitnanir eru birtar hér með góðfúslegu leyfi höfundar. –JVJ.


Stefán Már Stefánsson prófessor telur endurnýjaða áherzlu á "tveggjastoðakerfið" vera úrlausnarleið í stað hinna tveggja úrslitakosta Össurar

  • "Stefán bendir á að þegar samið hafi verið um EES-samninginn á sínum tíma hafi EFTA-ríkin lagt mikla áherslu á að um tveggja stoða kerfi yrði að ræða og að þau yrðu ekki undir lögsögu Evrópudómstólsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sett. Fyrir vikið hafi EFTA-dómstólnum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið komið á fót til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem gerðust aðilar að honum; Íslandi, Noregi og Liechtenstein."

Þannig segir Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður frá viðtali við próf. Stefán Má, sem er okkar færasti sérfræðingur í ESB- og EES-löggjafar og dómsmálum.

Ef hér yrði farin leið Össurar og Samfylkingarinnar, væri ótvírætt verið að framselja hluta ríkisvalds okkar til Evrópusambandsins, setja okkur undir "valdsvið nýrra eftirlitsstofnana þess með fjármálamörkuðum ... Ákvörðunum þessara stofnana yrði hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins og eftir atvikum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins" (skv. sama fréttaviðtali á Mbl.is), en hér kemur þetta babb í bátinn:

  • "Það gengur hins vegar gegn stjórnarskránni og yrði að breyta henni til þess að slíkt væri mögulegt eins og fram kemur í áliti sem Stefán vann fyrir ríkisstjórnina ásamt Björgu Thorarensen lagaprófessor."

Össur og ESB-sinnarnir sjá sér nú færi á því að draga Ísland enn lengra undir áhrifavald evrópska ríkjabandalagsins og undir miðstýringarafl þess, jafnvel þótt ekki væri komið svo langt að setja sjávarútvegsmál o.fl. málaflokka undir það vald, eins og gerast myndi með beinni inntöku Íslands í Evrópusambandið. Þennan tvíþætta ávinning sjá þessir ESB-meðvirku menn ugglaust í því:

  1. Að þeir geti haldið áfram að fullyrða, að stökkið yfir í sjálft ESB sé alltaf að verða minna og minna ... og svo lítið, að litlu máli skipti! (Það yrði þó í reynd risastökk og fæli í sér gagngera eðlisbreytingu á stjórnskipan okkar, með óbætanlegum skaða fyrir sjálfræði lýðveldisins.)
  2. Að þetta yrði látið gerast með upptöku ákvæðis í stjórnarskrá, að heimilt sé að framselja vald "til alþjóðlegra stofnana", en einmitt það ákvæði (sem þarna væri ætlað að hleypa í gegn valdsframsali vegna fjármálastofnana) yrði síðan notað til að reyna að fá því framgengt, að allsherjarvald okkar stjórnskipunar yrði sett undir Evrópusambandið, eins og gerast myndi með formlegum ákvæðum aðildarsamnings, þar sem ævinlega stendur skýrum stöfum, að nýja aðildarríkið taki sjálfkrafa við öllum sáttmálum, lögum og reglugerðum Evrópusambandsins, strax frá þeirri stundu, og allri framtíðarlöggjöf þaðan líka -- og að rekist þau ákvæði á við landslög, skuli lög ESB ráða -- og að ESB hafi stofnanir sem sjái um að úrskurða um vafa- eða deilumál um inntak laganna, sem sagt væri að rækjust á (þannig að jafnvel þau ágreiningsmál kæmu aldrei til kasta Hæstaréttar Íslands). -- Össurarliðið hyggst reyna að renna þessu í gegn, rétt eins og nýrri innistæðitilskipun ESB, sem gera mundi okkur að leiksoppi sambandsins við næstu bankakreppu, enda væru þær innistæður þá tryggðar beinlínis af ríkinu og með fimmfalt hærra tryggingarhámarki en því, sem tryggt var hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta á tíma Icesave-málsins.

Um þessi mál verður mikið fjallað á næstunni, nema menn kjósi værðina áfram.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fæli í sér eðlisbreytingu á samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refjastjórnmál - og fullveldið sjálft í húfi

Hættuleg stefna stjórnvalda hér, a.m.k. Samfylkingar, um fullveldisframsal í hendurnar á Brusselvaldinu, afhjúpaðist í orðum Össurar Skarphéðinssonar í Fréttablaðinu í dag, og ritstjórinn þar er sama ESB-sinnis. Nú sjá þeir tækifæri til að læða fullveldisframsalsákvæði inn í stjórnarskrána til þess, í orði kveðnu, að liðka fyrir viðtöku EES-reglugerðar á fjármálasviði, en til þess virðist leikurinn gerður að afnema stjórnarskrárvarnir okkar gegn snöggri inntöku (innlimun) í Evrópusambandið.

Um þetta mál var fjallað hér í ýtarlegri grein í nótt: Þetta er stóra málið: við viljum ekki fullveldisframsal til Evrópusambandsins.

Já, nú er reynt að fara þessa leiðina til að mæla með hinum fráleitu fullveldisframsals-ákvæðum í s.k. drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, en það ráð var skipað í óleyfi og þvert gegn bæði almennum kosningalögum, lögum um stjórnlagaþing og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun innti enginn þingmaður - og enginn úr stjórnarandstöðunni! - eftir þessu endemismáli, þ.e. þeirri herskáu stefnu utanríkisráðherrans að vilja afnema fullveldisvarnir stjórnarskrárinnar.

Jón Valur Jensson.


Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?

 

Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?  Gústaf Skúlason ritar:

Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði á 72 % og útrýmingarhættu 20 % fiskistofna í vötnum ESB. Á 14 ára tímabili hefur afli ESB minnkað um 30 % og dugir einungis fyrir helming fiskneyslu íbúanna. ESB verður sífellt háðara fisk annarra og innflutningi sjávarafurða. Fiskveiðistefna ESB hefur eyðilagt sjávarútveg í mörgum löndum og kostar skattgreiðendur milljarða evra árlega. T.d. er sjávarútvegur Bretlands ekki svipur hjá sjón með fækkun starfa um 70 - 80 %. Í sumum tilvikum er fimm sinnum magni þess afla kastað, sem komið er með að landi, sem vakið hefur gífurlega reiði almennings (sbr. fishfight.net). Á Norðursjó er helmingi aflans um einni milljón tonna af príma þorsk og ýsu fleygt dauðum í hafið vegna stefnu ESB. Áframhaldandi gegndarlaus ofveiði og útrýming á fiskistofnum heims mun að mati ýmissa vísindamanna leiða til hruns arðbærra fiskveiða fyrir árið 2048.

Ef ESB tæki upp fiskveiðistefnu Íslendinga og stundaði ábyrgar fiskveiðar í stað 72 % ofveiði og útrýmingar fiskistofna, myndi það skapa yfir 100 þúsund ný störf og aukatekjur, sem væru fimm sinnum hærri en núverandi fiskveiðistyrkir ESB. Ekkert bendir þó til þess, að ESB muni fylgja fordæmi Íslendinga í náinni framtíð. Íslenska ríkisstjórnin hefur nú kastað þeirri sprengju á best rekna sjávarútveg í heimi, að greinin aðlagi sig að fordæmalaust illa rekinni og ríkisstyrktri fiskveiðistefnu ESB. Gangi það eftir mun starfsmaður í íslenskum sjávarútvegi ekki lengur skapa tífaldar gjaldeyristekjur miðað við starfsmann annarra greina né sjávarútvegur um helming allra gjaldeyristekna þjóðarinnar.

En ríkisstjórnin heldur áfram að draga þjóðina á asnaeyrum með því að aðlaga Ísland að ESB á meðan þjóðinni er sagt að bíða og sjá, hvað kemur úr pakkanum. Með því að taka stóran hluta kvótans eignaupptöku og færa í hendur stjórnmálamanna til að koma á ”réttlátari” skiptingu gróðans, er ríkisstjórnin að hrifsa til sín farsæla stjórn greinarinnar frá útvegs- og sjómönnum. 70% skattur á hagnað útgerðarinnar kippir endanlega rekstrargrundvelli undan íslenskum sjávarútvegi og þá fær ríkisstjórnin vilja sínum framgengt að aðlaga atvinnugreinina að stjórnar- og styrkjakerfi ESB. Þar með gerir ríkisstjórnin ESB-heimavinnuna sína áður en kaflinn um sjávarútveginn verður opnaður og grundvöllurinn lagður að yfirtöku ESB á aðalauðlind Íslands fiskmiðunum. Innleiðing evrunnar mundi síðan útrýma því, sem eftir væri af sveigjanleika og samkeppnishæfni greinarinnar og dauðadómur yfir fjöreggi þjóðarinnar endanlega staðfestur.

Ég hef áður í greinum í MBL (Ásælni ESB í fisk annarra landa 1. sept. 2010 og Hver gefur ESB undanþágu frá ofveiði og útrýmingu fiskistofna 23. ágúst. 2011) gert grein fyrir rannsóknum og niðurstöðum NEF (New Economic Foundation, neweconomics.org), sem gefið hefur út skýrslur um ofveiðar ESB. Með því að reikna út ofveiðar í heiminum og bera saman við aflaverðmæti í ESB hefur NEF komist að þeirri niðurstöðu, að ESB gæti aukið afla sinn um 3,53 milljónir tonna árlega með því að hætta ofveiðum og taka upp ábyrgar fiskveiðar. Mundi aflinn þá duga fyrir ársþörf íbúanna og ESB verða sjálfu sér nógt í stað þess að verða sífellt háðara öðrum. Með því að rækta upp sjálfbæra fiskstofna með ábyrgum veiðum eins og gert er á Íslandi, gæti viðbótaraflinn aukið fiskveiðitekjur ESB mótsvarandi 3,19 milljörðum evra. Það er fimm sinnum hærri upphæð en árlegir styrkir ESB til greinarinnar. Færi ESB að ráðum íslenskra útvegsmanna gæti ESB því skapað yfir 32 þús. ný störf við veiðarnar og að auki 69 þús. störf við fiskvinnslustöðvar eða samtals yfir 100 þús. ný störf. Mundi ekki veita af því hjá ríkjasambandi með íbúafjölda mótsvarandi 75 Íslöndum opinberlega á atvinnuleysisskrá.

En þannig hugsa ekki óábyrgir stjórnmálamenn, sem ríghalda í stórveldadraum og misheppnaðan gjaldmiðil og láta sig raunveruleikann engu skipta. Þjóðin hefur áður leiðbeint ráðvilltum stjórnmálamönnum en nú þarf annað að koma til, því ríkisstjórnin er hreint ekkert ráðvillt í því markmiði sínu að eyðileggja lýðveldið Ísland og leggja fjöregg þjóðarinnar í líkkistuna í Brussel. Þar sem spádómurinn um Kúbu norðursins vill ekki rætast reynir íslenska ríkisstjórnin allt til að koma þjóðinni á þann stað. Vandamálið er hins vegar, að ástandið í mörgum evruríkjum er orðið það slæmt, að Kúba raunveruleikans verður að gósenlandi í samanburði. Núna þarf þjóðin að snúa bökum saman með þeim þingmönnum, sem sýnt hafa, að þeir standi við gefið drengskaparheit að fylgja stjórnarskránni en krefjast reikningsskila við hina. Þingmenn meirihlutans, sem í tvígang hafa fengið vottorð Hæstaréttar um stjórnarskrárbrot, eru búnir að fyrirgera rétti sínum til þingsetu með broti á þingskapareið sínum. 

ESB þarf á gjöfulum fiskimiðum Íslendinga að halda til að mæta sífellt minni fiskveiðum á eigin miðum. Fiskveiðistefna ESB leiðir að mati ýmissa haffræðinga til hruns arðbærra fiskveiða eftir u.þ.b. 30-40 ár. Hvaða þingmenn á Alþingi vilja leiða þetta brjálæðisskipbrot yfir þjóðina í nafni ESB draumsins? 

Gústaf Skúlason                                                                                                                
Greinin birtist í Morgunblaðinu í apríl

Er Þóra Arnórsdóttir óskakandídat Samfylkingarinnar og ESB-sinna?

Nýjabrum er að Þóru Arnórsdóttur og eins Ara Trausta Guðmundssyni. Bæði koma af vinstri vængnum eins og Ólafur Ragnar Grímsson; mætti ætla, að frá því að Sveinn Björnsson lézt á forsetastóli fyrir 60 árum, hafi hægri menn verið í banni frá forsetakjöri.

Ari Trausti var meðal alróttækustu vinstri manna á 7. og 8. áratugnum og skrifaði lengi á þann veg í DV-greinum, en hefur tekizt að ávinna sér traust fyrir ritstörf sín, að ógleymdri ókeypis kynningu á sjónvarpsskjánum, sem hefur dugað furðumörgum til að ná inn á Alþingi og í borgarstjórn.

Þóra Arnórsdóttir kemur úr Alþýðuflokknum og vann með virkum hætti að stofnun Samfylkingarinnar. Það, sem hins vegar er alvarlegt í augum margra, er að hún var einn stofnenda Evrópusamtakanna 1995 og sat a.m.k. í fyrsta fulltrúaráði þess --- hafði þannig virkan áuga á s.k. inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Alvarlegt er þetta í ljósi þeirrar þekkingar, sem menn hafa nú á Evrópusambandinu. Það hefur þróazt hratt frá því um 1990 til miklu meira en fríverzlunar- og tollasambands --- EFTA, Fríverzlunarsamtök Evrópu, eru allt annars kyns, þótt þar séu reyndar mjög mikilvægir tollasamningar gerðir við æ fleiri ríki utan Evrópu.

Af öllum ríkjum er "innganga" í Evrópusambandið alvarlegust fyrir smáríkin. Svo afgerandi er valdaafsalið og svo lítilfjörlegt áhrifavægið, sem þau fá í staðinn --- yrði t.d. langt innan við 1 pró mill fyrir Ísland! --- að segja má, að þau hafi nánast öllu að tapa og ekkert að vinna, ef um er að ræða smáríki með tiltölulega miklar auðlindir. Þetta á einmitt við um Ísland.

Þóru Arnórsdóttur ber í þessu ljósi vitaskuld að gera hreint fyrir sínum dyrum og upplýsa þjóðina um afstöðu sína til Evrópusambandsins og þeirrar stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem senn missir völdin, að sækja um inngöngu í þetta volduga ríkjasamband. Forseti Íslands leggur eið að stjórnarskránni, en það er andstætt anda og bókstaf þeirrar stjórnarskrár lýðveldisins að innlima það inn í erlent ríkjasamband eða sambandsríki. Allt frá 1997 (ekki seinna en svo) hefur ESB stefnt markvisst að því að verða sambandsríki.*

Þar að auki myndi hvorki Alþingi né forsetinn, sem fara hér með löggjafarvald samkvæmt 2. grein stjórnarskrárinnar, eiga neina aðkomu að þeim lögum, sem hingað bærust frá Brussel, ef land okkar yrði partur af Evrópusambandinu --- og þjóðin ekki heldur í gegnum málskotsrétt eftir synjun forsetans, því að þau lög kæmu aldrei inn á hans borð né á ríkisráðsfund fremur en þingfundi hins háa Alþingis.

Það, sem verra er: Öllum þau lögum, sem komið hefðu frá Alþingi og ættu eftir að koma þaðan, væri sjálfkrafa gefið víkjandi gildi, ef gildi skyldi kalla, þegar eða ef í ljós kæmi, að þau rækjust á eitthvað í ESB-löggjöf. Þetta, ekkert minna, er skýrt og skilmerkilega tekið fram í hverjum aðildarsamningi, og mættu nú ýmsir fara að kynna sér þá samninga! -- t.d. þennan við Svía, Finna og Austurríkismenn, dags. 29. ágúst 1994.

Fari svo ólíklega, að Þóra Arnórsdóttir nái kjöri til embættis forseta Íslands, er viðbúið, að Ólafur Ragnar Grímsson fái á sig margar áskoranir um að gefa kost á sér til að leiða nýjan flokk í framboði til alþingiskosninga á næsta ári, eins og Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritar um HÉR í dag. Er viðbúið, að sá flokkur nyti mikils stuðnings jafnt vinstri sem miðjumanna og jafnvel sumra af hægri vængnum.

* "Í samþykkt [Esb.]þingsins frá desember 1997 segir m.a.: "Löndin sem sækja um aðild verða að sýna, að þau séu trú grundvallarmarkmiðum ríkjasambands sem stefnir í átt að sambandsríki" ("federal state"). Í samþykktinni er hvatt til þess að afnema neitunarvald, minnka áhrif smáríkja og auka miðstjórnarvald." (Ragnar Arnalds: Sjálfstæðið er sívirk auðlind, s. 103.) --- Þessu markmiði hefur sambandið unnið að síðan, einkum með Lissabon-sáttmálanum, og birtist það m.a. í takmörkun neitunarvaldsins og stórauknu vægi stórþjóðanna í Evrópusambandinu, en hinn 1. nóvember á þarnæsta ári gengur í gildi það ákvæði sáttmálans, sem nær tvöfaldar atkvæðavægi Þýzkalands í leiðtogaráði ESB og hinu volduga ráðherraráði (hefur löggjafarvald um sjávarútveg langt umfram ESB-þingið), þ.e. úr 8,41% núverandi vægi Þýzkalands í 16,41%. Samtals eykst þá atkvæðavægi sex stærstu ríkjanna úr 49,3% í 70,44% (sjá nánar hér: Ísland svipt sjálfsforræði).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þóra mælist með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland svipt sjálfsforræði, eftir Harald Hansson

Að svipta einstakling sjálfsforræði er líklega stærsta löglega inngrip sem hægt er að gera í líf einstaklings, sem ekki hefur gerst brotlegur við lög. Að svipta heila þjóð sjálfsforræði gerist ekki nema lönd séu hernumin í stríði eða ef ógnarstjórn af einhverju tagi tekur völdin, oft í kjölfar valdaráns.

Það sem taflan (neðri myndin) sýnir er ekki algjör svipting á sjálfsforræði. En þau lönd sem verst fara út úr skerðingu á atkvæðisrétti í Ráðherraráði ESB fara óþægilega nærri því. Með Lissabon-samningnum er vægi atkvæða sex stærstu ríkjanna aukið verulega á kostnað hinna. Breytingin tekur gildi í lok kjörtímabilsins sem hófst sumarið 2009, nánar tiltekið 1. nóvember 2014.

council voting

Þau ríki sem eru með minna en milljón íbúa fara langverst út úr Lissabon-samningnum. Ef Ísland væri nú þegar í klúbbnum væri skerðingin á atkvæðavægi Íslands 92,6% -- hvorki meira né minna; færi úr nánast engu niður í akkúrat ekkert. Aftasti dálkurinn sýnir breytinguna. Aukið vægi er í bláu en skert vægi í rauðu.

Hin mikla aukning á atkvæðavægi Þýskalands skýrist af því að landið hefur sama atkvæðavægi og Frakkland, Bretland og Ítalía þrátt fyrir mun fleiri íbúa. Það á að leiðréttast með Lissabon.

voting changes  

Eftir breytinguna þarf 55% aðildarríkja og 65% íbúafjölda til að samþykkja ný lög. Vægið verður uppfært árlega samkvæmt íbúaþróun. Ef fjölmennt ríki eins og Tyrkland gengur í ESB minnkar atkvæðavægi smáríkjanna enn frekar.

Á sama tíma og vægi stóru ríkjanna er aukið verulega eru vetó-ákvæði (neitunarvald) felld úr gildi í fjölmörgum málaflokkum. Þetta öryggistæki smáríkjanna er tekið burt.

 

DÆMI - Sjávarútvegur:

Til að varpa ljósi á áhrifaleysi Íslands (0,06%) innan ESB, þá hefðu þau fimm ríki, sem ekki eiga landamæri að sjó og stunda ekki sjávarútveg, 108 sinnum meira vægi en Ísland við afgreiðslu mála um sjávarútveg. HUNDRAÐ-OG-ÁTTA SINNUM MEIRA. Samt eru þetta engin af stóru ríkjunum!

Stórt kerfi býður upp á baktjaldamakk með atkvæði og menn geta velt fyrir sér hvort Ísland eða Spánn hafi meira að bjóða ríkjum eins og Austurríki og Ungverjalandi í slíkum hrossakaupum. Það er hægt að líta til Alþjóða-hvalveiðiráðsins eftir dæmum.

Sjávarútvegur er aukabúgrein í landbúnaði innan ESB. Sjávarútvegur er það sem Íslendingar þurfa að byggja á til framtíðar. Að setja stjórn hans undir yfirþjóðlegt vald, þar sem við höfum ekkert að segja, er algjört brjálæði. Það er aðeins hænufeti frá því að svipta Ísland sjálfsforræði.

Algjör og undantekningalaus undanþága fyrir íslenskan sjávarútveg er frumskilyrði fyrir því að menn geti svo mikið sem gælt við þá hugmynd að leyfa krötum að verða okkur til skammar með bjölluati í Brussel.

 

Þessi sígilda grein Haraldar Hanssonar er endurbirt hér með leyfi höfundar og að gefnu tilefni.


mbl.is Ekki í höndum Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband