"Stríðsaðgerð af hálfu ESB" (sagði hver?!)

  • "Þessa dagana er verið að dæma nokkra skipstjóra frá Hjaltlandseyjum í hæstarétti Skotlands í gífurlegar fjársektir fyrir að landa makríl og síld framhjá vigt. Slíkt framferði er álíka ábyrgt og að fleygja fiski í sjóinn í ótrúlegum mæli eins og hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB hvetur til. Nú boðar ESB viðskiptahindranir gagnvart Færeyingum og Íslandi, sem standast hvorki samþykktir EES-samningsins né Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. ESB og Noregur leggjast auk þess svo lágt að neita að endurnýja gagnkvæma fiskveiðisamninga við Færeyinga vegna þessara deilna. Stórmannlega að verki staðið."

Þannig skrifar Hjörtur Gíslason, ritstjóri Útvegsblaðsins, í 5. tölublað þessa 13. árgangs þess (maí 2012), og heldur áfram:

  • Steingrímur J.Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir þessum aðferðum í viðtali við Útvegsblaðið sem stríðsaðgerð af hálfu ESB og slíkt verði ekki látið viðgangast. Vonandi stendur Steingrímur við stóru orðin. Íslendingar eiga ekkert erindi inn í ríkjasamband, sem hefur áratugum saman klúðrað fiskveiðistjórnun sinni með svo eftirminnilegum hætti að varla finnst fiskistofn innan lögsögu þess, sem ekki er ofveiddur eða í útrýmingarhættu og slíkt framferði að auki ríkisstyrkt. Ríkjasamband sem áratugum saman keypti sér veiðiheimildir innan lögsögu annarra þjóða eins og Marokkó og launaði greiðann með rányrkju. Ríkjasamband sem stundaði rányrkju á Miklabanka við Nýfundnaland, sem meðal annars leiddi til hruns eins stærsta þorskstofns veraldar og veiðibanns 1992. Þorskstofninn þar er enn í rúst.

Já, ekki er það fagurt og sízt nein hvatning til okkar að feta þessa slóð: að leyfa Evrópusambandinu og ríkjunum þar að fá hér úrslitavald yfir sjávarauðlind okkar, og eðlileg er þessi ályktun leiðarhöfundarins Hjartar Gíslasonar:

  • Afstaða ESB í makríldeilunni gegn Íslandi og Færeyjum staðfestir yfirgang og ábyrgðarleysi ESB í fiskveiðum. Vonandi verða það fleiri í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en Steingrímur sem sjá hverju við eigum von á með inngöngu í ESB og gera meira en að spyrna við fótum. Segja hingað og ekki lengra. Að selja sjálfstæði sitt ríkjasambandi sem kann ekki fótum sínum forráð, kann ekki góðri lukku að stýra.

Sjá hér fyrri grein um þetta mál: Hingað og ekki lengra, Evrópusamband! Menn ættu að fylgjast vel með greinum í Útvegsblaðinu, það er vandað blað, 48 bls. að þessu sinni og er "dreift til allra áskrifenda Morgunblaðsins, útgerða, þjónustuaðila í sjávarútvegi og fiskvinnslustöðva - átta sinnum á ári" og er jafnframt hér á netinu! (Bændablaðið er líka á netinu.)

Allt er þetta hið merkilegasta mál, en eins og í tilfelli Ögmundar Jónassonar er undarlegt að bera orð ráðherrans um Evrópusambandið saman við gerðir þeirra beggja, þegar þeir greiddu atkvæði gegn tillögu Vigdísar Hauksdóttur á Alþingi nú í vikunni. Geta menn lengi furðað sig á vitsmunalegri akróbatík þessara ráðamanna okkar og þeim mun fremur sem þeir hafa talað hart gegn ESB.

En er þetta í alvöru rétt -- menn þurfa kannski að klípa sig í lærið, til að vera vissir um að þá sé ekki að dreyma -- talaði Steingrímur með þeim hætti, sem lýst var í leiðaraskrifum Útvegsblaðsins? -- Jú, heldur betur, lesið þau ummæli hans hér:

"Það er algjörlega fráleitt annað en að horfast í augu við það að makríllinn veiðist nú og dvelur hér innan lögsögunnar í marga mánuði á hverju ári og í miklu magni. Hann er hér á fóðrum hjá okkur, étur út úr okkar lífríki gríðarlegt magn. Hann þyngist kannski um 600.000 til 700.000 tonn meðan hann er hér „á beit“. Ég tel því að sú hlutdeild, sem við höfum verið að krefjast, sé fullkomlega réttmæt. Það er ennfremur ósanngjarnt að benda bara á okkur og Færeyinga og segja að við séum vandamálið. Hin ríkin verða líka að horfast í augu við sína ábyrgð í þessum efnum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra.

Það er líka mjög hvimleitt að vera að beita þeim aðgerðum sem ESB hótar. Ég tala nú ekki um ef þær fara út fyrir lög og reglur, út fyrir alþjóðlega samninga Alþjóða-viðskiptastofnunarinnar, EES-samninginn og fleira. Þá er það bara stríðsaðgerð af hálfu EEB í okkar garð að ætla að þvinga okkur til uppgjafar með slíkum aðferðum. Það munum við ekki láta bjóða okkur. Ég kann því líka mjög illa að því er oftast hnýtt með að við séum óábyrg og sýnum engan samningsvilja og verið að reyna að klína þeim stimpli á okkur, sem Íslendingar eiga ekki skilið. Við höfum oft staðið hart á okkar málum og varið okkar hagsmuni á sviði sjávarútvegsmála og landhelgismála og höfum ætíð haft góðan málstað í þessum efnum, enda byggist tilvera okkar á því nýta auðlindir hafsins á ábyrgan og sjálfbæran hátt. við erum ein af ábyrgustu þjóðum heims í þessum efnum.

Að fá slíkar einkunnir frá aðilum sem sjálfir henda fiski í sjóinn í gríðarlegum mæli og banna meira að segja að komið sé með hann að landi, finnst mér dálítið skrítið. Evrópusambandið ætti kannski að huga að sínum brottkastreglum og öðru slíku áður en það fer að skammast út í Íslendinga, segja að þeir séu óábyrgir í sínum fiskveiðimálum." {Feitletrun jvj; viðtalið er raunar forsíðugrein Útvegsblaðsins undir fyrirsögninni "Stríðsaðgerð af hálfu ESB".]

Slík voru orð hans, harla einörð að sjá og vel rökstudd, og menn horfa svo í forundran á þennan sama ráðherra, sem vildi ekki gefa þjóð sinni kost á því að taka undir þetta mat hans né að ráða einu né neinu til að stöðva hina þunghlöðnu "Evrópu[sambands]hraðlest Samfylkingarinnar með því að segja NEI við áframhaldi umsóknarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband