Er Þóra Arnórsdóttir óskakandídat Samfylkingarinnar og ESB-sinna?

Nýjabrum er að Þóru Arnórsdóttur og eins Ara Trausta Guðmundssyni. Bæði koma af vinstri vængnum eins og Ólafur Ragnar Grímsson; mætti ætla, að frá því að Sveinn Björnsson lézt á forsetastóli fyrir 60 árum, hafi hægri menn verið í banni frá forsetakjöri.

Ari Trausti var meðal alróttækustu vinstri manna á 7. og 8. áratugnum og skrifaði lengi á þann veg í DV-greinum, en hefur tekizt að ávinna sér traust fyrir ritstörf sín, að ógleymdri ókeypis kynningu á sjónvarpsskjánum, sem hefur dugað furðumörgum til að ná inn á Alþingi og í borgarstjórn.

Þóra Arnórsdóttir kemur úr Alþýðuflokknum og vann með virkum hætti að stofnun Samfylkingarinnar. Það, sem hins vegar er alvarlegt í augum margra, er að hún var einn stofnenda Evrópusamtakanna 1995 og sat a.m.k. í fyrsta fulltrúaráði þess --- hafði þannig virkan áuga á s.k. inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Alvarlegt er þetta í ljósi þeirrar þekkingar, sem menn hafa nú á Evrópusambandinu. Það hefur þróazt hratt frá því um 1990 til miklu meira en fríverzlunar- og tollasambands --- EFTA, Fríverzlunarsamtök Evrópu, eru allt annars kyns, þótt þar séu reyndar mjög mikilvægir tollasamningar gerðir við æ fleiri ríki utan Evrópu.

Af öllum ríkjum er "innganga" í Evrópusambandið alvarlegust fyrir smáríkin. Svo afgerandi er valdaafsalið og svo lítilfjörlegt áhrifavægið, sem þau fá í staðinn --- yrði t.d. langt innan við 1 pró mill fyrir Ísland! --- að segja má, að þau hafi nánast öllu að tapa og ekkert að vinna, ef um er að ræða smáríki með tiltölulega miklar auðlindir. Þetta á einmitt við um Ísland.

Þóru Arnórsdóttur ber í þessu ljósi vitaskuld að gera hreint fyrir sínum dyrum og upplýsa þjóðina um afstöðu sína til Evrópusambandsins og þeirrar stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem senn missir völdin, að sækja um inngöngu í þetta volduga ríkjasamband. Forseti Íslands leggur eið að stjórnarskránni, en það er andstætt anda og bókstaf þeirrar stjórnarskrár lýðveldisins að innlima það inn í erlent ríkjasamband eða sambandsríki. Allt frá 1997 (ekki seinna en svo) hefur ESB stefnt markvisst að því að verða sambandsríki.*

Þar að auki myndi hvorki Alþingi né forsetinn, sem fara hér með löggjafarvald samkvæmt 2. grein stjórnarskrárinnar, eiga neina aðkomu að þeim lögum, sem hingað bærust frá Brussel, ef land okkar yrði partur af Evrópusambandinu --- og þjóðin ekki heldur í gegnum málskotsrétt eftir synjun forsetans, því að þau lög kæmu aldrei inn á hans borð né á ríkisráðsfund fremur en þingfundi hins háa Alþingis.

Það, sem verra er: Öllum þau lögum, sem komið hefðu frá Alþingi og ættu eftir að koma þaðan, væri sjálfkrafa gefið víkjandi gildi, ef gildi skyldi kalla, þegar eða ef í ljós kæmi, að þau rækjust á eitthvað í ESB-löggjöf. Þetta, ekkert minna, er skýrt og skilmerkilega tekið fram í hverjum aðildarsamningi, og mættu nú ýmsir fara að kynna sér þá samninga! -- t.d. þennan við Svía, Finna og Austurríkismenn, dags. 29. ágúst 1994.

Fari svo ólíklega, að Þóra Arnórsdóttir nái kjöri til embættis forseta Íslands, er viðbúið, að Ólafur Ragnar Grímsson fái á sig margar áskoranir um að gefa kost á sér til að leiða nýjan flokk í framboði til alþingiskosninga á næsta ári, eins og Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritar um HÉR í dag. Er viðbúið, að sá flokkur nyti mikils stuðnings jafnt vinstri sem miðjumanna og jafnvel sumra af hægri vængnum.

* "Í samþykkt [Esb.]þingsins frá desember 1997 segir m.a.: "Löndin sem sækja um aðild verða að sýna, að þau séu trú grundvallarmarkmiðum ríkjasambands sem stefnir í átt að sambandsríki" ("federal state"). Í samþykktinni er hvatt til þess að afnema neitunarvald, minnka áhrif smáríkja og auka miðstjórnarvald." (Ragnar Arnalds: Sjálfstæðið er sívirk auðlind, s. 103.) --- Þessu markmiði hefur sambandið unnið að síðan, einkum með Lissabon-sáttmálanum, og birtist það m.a. í takmörkun neitunarvaldsins og stórauknu vægi stórþjóðanna í Evrópusambandinu, en hinn 1. nóvember á þarnæsta ári gengur í gildi það ákvæði sáttmálans, sem nær tvöfaldar atkvæðavægi Þýzkalands í leiðtogaráði ESB og hinu volduga ráðherraráði (hefur löggjafarvald um sjávarútveg langt umfram ESB-þingið), þ.e. úr 8,41% núverandi vægi Þýzkalands í 16,41%. Samtals eykst þá atkvæðavægi sex stærstu ríkjanna úr 49,3% í 70,44% (sjá nánar hér: Ísland svipt sjálfsforræði).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þóra mælist með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðan hvenær hefur pólitísk afstaða forseta íslands skipt einhverju máli?

Þetta embætti hafði þar til Ólafur kom þangað inn ekki verið pólitískt, og þegar kom að kjöri forseta voru það mannkostir viðkomandi sem skipti máli, ekki hvaða stefnur þeir kynnu að aðhyllast í pólitík.

Held að margir stuðningsmenn Ólafs verði að gera sér grein fyrir því að stuðningur við Þóru er ekki síst vegna þess að fólk er einfaldlega ekki sátt við þær breytingar sem Ólafur hefur gert á embættinnu og vill losa það við pólitík..

Að ætla síðan að fara í kosningabaráttu sem snýst um að agnúast út í pólitískar skoðanir eða fortíð frambjóðenda er einfaldlega aðferð sem mun ekki virka

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 27.4.2012 kl. 18:28

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er alls ekki rétt hjá þér, Jón Bjarni, embættið er stjórnmála-eðlis og felur í sér veruleg völd og þau mest á úrslitastundum; þetta sést bæði af stjórnarskránni og af stjórnmálasögunni og ekki bara í tíð Ólafs Ragnars. En vitaskuld þurfa frambjóðendur að vera traustsverðir. Er Þóra það?

Þetta er ekki skrauthúfuembætti fyrir puntudúkkur og sízt af öllu fyrir Samfylkingar-marionettur.

Jón Valur Jensson, 27.4.2012 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband