Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Draumur Brussel-bossa rætist um stofnun ESB-hers

Þeir vita sem er, að ekki er tekið mikið mark á herlausu stórveldi. 

ESB-þingið samþykkti í dag að stofna nýj­an landa­mæra­her og á hann að taka á flótta­manna­vand­an­um: standa vakt­ina á landa­mær­um landa á borð við Grikk­land og Ítal­íu frá og með sept­em­ber á þessu ári. Mbl.is segir frá í nýrri frétt.

Stofn­un landa­mæra­hers­ins var samþykkt með 483 at­kv. gegn 181. 48 sátu hjá.

Nokk­ur ríki Evr­ópu­sam­bands­ins hafa á und­an­förnu miss­eri tekið upp landa­mæra­eft­ir­lit að nýju, en það hafði verið aflagt eft­ir að Schengen-sam­starfið tók til starfa. Er það vegna flótta­manna­straums­ins, en rúm­lega ein millj­ón flótta­manna og inn­flytj­enda hef­ur komið til Evr­ópu frá því í árs­byrj­un 2015.

Samþykkt Evr­ópuþings­ins í dag fel­ur í sér heim­ild­ir ríkja til þess að sjá áfram um eft­ir­lit á landa­mær­um sín­um, en þau geta nú kallað eft­ir neyðar­aðstoð úr landa­mæra­hern­um sem mun telja a.m.k. 1.500 landa­mæra­verði. (Mbl.is)

Greinilega hefur það haft mikil áhrif, að leiðtogar ESB-ríkja eins og Þýzkalands og Svíþjóðar buðu flótta­menn velkomna til landa sinna. Svíar sögðu alla sýr­lenzka flóttamenn velkomna að vera til fram­búðar, jafnvel þótt friður kæmist á í Sýrlandi, en svo neyddust sósíaldemókratar til að snúa við blaðinu, þegar þeir réðu ekki lengur við aðstreymið. Og ýmsar ESB-þjóðir kunna Angelu Merkel litla þökk fyrir að hafa átt sinn stóra þátt í að hleypa af stað flóttamanna­straumn­um yfir Eyjahaf og Miðjarðarhaf.

Og nú dugar ESB-ríkjum ekkert minna en 1500 manna ESB-landamæraher auk þeirra eigin löggæzumanna! Hafi þetta ekki verið skipulagt frá upphafi, ber það naumast vitni um mikla fyrirhyggju.

En hér hyggja eflaust ýmsir ESB-valdamenn gott til glóðarinnar að nýta sér í vaxandi mæli valdheimildir Lissabon-sáttmálans um stofnun og rekstur ESB-hers, á landi, lofti og legi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB stofnar landamæragæslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður tyrknesk ESB-aðild leið margra til að breiða út hryðjuverk í Evrópu?

Illt er í efni í Evrópusambandinu, ef Tyrkjastjórn tekst að fá þar "aðild". Nýjasta frétt af Erdogan er sú, að hann segir flóttamenn kunna að fá þar ríkis­borg­ara­rétt, 2,7 milljónir sýrlenzkra! Þeir yrðu því ásamt tæp­lega 80 milljónum Tyrkja full­gildir ESB-borg­arar með ferða-, dvalar- og atvinnu­frelsi um stóran hluta Evrópu, ef Erdogan verður að ósk sinni um aðild að Evrópu­sambandinu, en honum var einmitt gefinn ádráttur um það þegar samningarnir dýrkeyptu og fáránlegu voru gerðir milli Brusselvaldsins og Tyrklands um flótta­manna­vandann.

Án efa hafa margir fylgismenn hryðjuverka­samtaka laumazt með flótta­mönnum til Tyrklands eða eiga eftir að gera það. Ráðamenn í Berlín og Brussel hafa samt flotið sofandi að feigðarósi í þessum málum öllum.

Óvíst er enn um framgang þessarar hugmyndar Erdogans, sjá um það frétt Rúv, en óneitanlega gæti hún reynzt hættuleg öryggi Evrópubúa, þ.m.t. Íslendinga.

Jón Valur Jensson.


Helmut Kohl mælir gegn því að skellt verði hurðum á Breta

Image result for Helmut Kohl  Ólíkt ýmsum Brussel­mönnum, sem brugðizt hafa ókvæða við BREXIT Breta, brýn­ir hinn aldni og vísi Helmut Kohl (Þýzka­lands­kanzl­ari 1982-98) leiðtoga Evr­ópu­sam­bands­ins til að sýna Bret­um ekki óþarfa hörku og þrýsta ekki of fast á þá eft­ir ákvörð­unina um að yf­ir­gefa sam­bandið. Hann hvetur þá til að „vinna ekki í of mikl­um flýti“ í kom­andi samn­ingaviðræðum við brezk stjórn­völd.

Kohl, sem barðist á tí­unda ára­tug síðustu ald­ar fyr­ir nán­ari sam­vinnu Evr­ópu­sam­bands­ríkja á sem flest­um sviðum, seg­ir í viðtal­inu að það yrðu „risa­stór mis­tök“ af hálfu Evr­ópu­sam­bands­ins að skella [hurð]­­um á Breta. Þjóðin þurfi tíma til þess að ákveða hver næstu skref séu.

Hann kall­ar jafn­framt eft­ir því að Evr­ópu­sam­bandið slaki nú á og taki „eitt skref aft­ur á bak áður en það tek­ur tvö skref fram á við“ á hraða sem sé viðráðan­leg­ur fyr­ir öll aðild­ar­rík­in. (Mbl.is)

Hann er hér greinlega málsvari málamiðlunar og skilnings og gott ef ekki hygginda, honum gezt ekki að þeirri hugmynd, að tækifærið verði nú notað til að láta kné fylgja gegn Bretum og fjarlægja Evrópu­sambandið enn meira frá þeim Evrópu­mönnum sem hafa viljað hægja á samruna­ferlinu eða leyfa ríkj­unum að endu­rheimta meira af sínu skerta fullveldi:

Í stað þess að stíga skref í átt til auk­inn­ar miðstýr­ing­ar ættu leiðtog­ar sam­bands­ins að hafa það í huga að aðild­ar­ríki sam­bands­ins séu mis­mun­andi, [segir Kohl] að því er seg­ir í frétt The Guar­di­an.

Hin sér­staka staða Bret­lands inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafi ávallt verið erfitt og krefj­andi viðfangs­efni. Hún ætti hins veg­ar ræt­ur að rekja til sögu lands­ins. Virða þyrfti það. „Hún er líka hluti af fjöl­breyti­leika Evr­ópu,“ bætti hann við.

Virkjun 50. greinar Lissabonsáttmálans um útgöngu ríkis úr sambandinu getur tekið tvö ár og nægur tími til stefnu til að aðlagast hinum nýja veruleika. Engu að síður láta menn stóryrðin falla, eins og heyrzt hefur frá Brussel, Spáni og víðar að og sjá mátti á skrifum ýmissa álitsgjafa í Fréttablaðinu í morgun. Þá er gott að líta fremur til hins reynda manns, Helmuts Kohl, sem róar hér samherja sína og mælir gegn mestu öfgunum sem uppi hafa verið í röðum ESB-sinna. Dómsdagsspár þeirra eru ekki þumlungi nær sannleikanum en verstu spár Icesave-sinna á Íslandi árið 2009 -- spár sem aldrei rættust!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sýni ekki Bretum óþarfa hörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaust reyna ESB-sinnar, á Bretlandi sem Íslandi, að halda áfram róðrinum í gremju sinni yfir Brexit. Rúv í sorgarlit!

Vesalings þingmaðurinn Dav­id Lammy, Verka­manna­flokknum, á ekki annað svar við Brexit-þjóðar­at­kvæðagreiðslunni á fimmtu­dag­inn en að óvirða hana. Átti hún þó að ákvarða um framtíð Bret­lands í eða utan Evr­ópu­sam­bandsins.

Seg­ir hann að mál­flutn­ing­ur þeirra sem hafi viljað úr sam­band­inu væri þegar að liðast í sund­ur og sum­ir óskuðu þess að hafa ekki kosið með því.

Þetta eru engin rök gegn nærri 1,3 milljónar meirihluta, enda hefur fjöldi manns áttað sig á því eftir á, að gróflega voru notuð fjarstæðukennd hræðslurök gegn úrsögninni, og voru þau engu skárri en Norður-Kóreu-einangrunarrök fylgis­manna Icesave á Íslandi.

Þrjátíu og þrjár og hálf milljón Breta tók þátt í atkvæðagreiðslunni, 71,8% atkvæðisbærra, og er það hæsta hlutfall þeirra í kosningum allt frá kosningu til brezka þingsins 1992 (BBC).

Brezki Verkamannaflokkurinn ætti nú fyrst að reyna að komast í sátt við sjálfan sig (samanber þessa frétt), áður en hann fer að taka lýðræðislegt vald frá almenningi.

En fóstbróðir þessarar ESB-eftirlegukindar í Verkamannaflokknum er meðal annarra Árni Páll Árnason í Samfylkingunni sem leggur ekki meira upp úr lýðræðinu, sem þarna býr að baki, en svo, að hann kallar það „furðuflipp“ af Cameron, forsætisráðherra Breta, að leyfa þessu að gerast! 

Menn hafa einnig veitt athygli undarlegum viðbrögðum Fréttastofu Rúv við tíðindunum frá Bretlandi. Þar hafa fréttamenn allt á hornum sér varðandi afstöðu almennings og voru reyndar í sorgarsjokki strax á föstudagsmorgun, eins og glöggt mátti heyra á fréttamönnum og dagskrárgerðarfólki þar!

Rúvarar finna ýmislegt sér til sárabóta eða öllu heldur til að bíta frá sér: slá því til dæmis upp, að Donald Trump sé ánægður með niðurstöðuna (og þá eigi hún náttúrlega ekki að geta verið góð, skv. forskriftum Rúv), ennfremur séu ISIS-samtökin ánægð með útkomuna! Engin uppsláttarfrétt um aðal-niðurstöðuna finnst á vefsíðu Rúv um Evrópusambandsmál, þess í stað reynt að hjakka í öllu því sem Rúvurum þykir við hæfi til að varpa rýrð á þessa ákvörðun almennings. Það er ekki eins og Rúv geti verið hlutlaust í þessu máli, svo heiftarlega hlutdrægir eru starfsmenn þess. Það hafa þeir einmitt verið líka gagnvart viðleitni sjálfstæðissinna á Íslandi til að bægja frá okkur ásókn ESB-þjóna í að gera land okkar að undirlægju Brussel-valdsins, og eiga þessir fjölmiðlamenn þó að heita starfsmenn lýðveldisins, ekki evrópska stórveldisins!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vill hunsa þjóðaratkvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naumur meirihluti, síðast er fréttist, fyrir BREXIT - og íslenzkar hliðstæður ofurmæla-umræðu

Spennan er í hámarki í Bretlandi: allt virðist geta gerzt: úrsögn úr Evr­ópu­sam­bandinu eða naumur sigur ESB-manna, en nýjustu tvær skoð­ana­kann­anir sýna að 45% vilji að Bret­land segi skilið við Evr­ópu­sam­bandið, en 44% vilja landið áfram inn­an sam­bands­ins (könnun fyr­ir­tæk­is­ins Op­ini­um), og skoð­ana­könn­un fyr­ir­tæk­is­ins TNS sýnir 43% hlynnt því að yf­ir­gefa Evr­ópu­sam­bandið, en 41% hlynnt áfram­hald­andi veru inn­an þess. (Mbl.is)

Hálfgerðar dóms­dags­spár hafa verið í fyrir­sögnum brezkra fjölmiðla margar síðustu vikur, en þetta er í raun mjög sambærilegt við endemis-hrakfara­spár manna eins og Gylfa Magnússonar, prófessors og ráðherra, Þórólfs Matthías­son­ar, prófessors og mikils ESB-sinna, og dr. Guðna Th. Jóhannes­son­ar, dósents í sagnfræði, vegna Icesave-málsins --- allir töldu þeir stórháska­legt fyrir Íslendinga að segja NEI við Svavarssamningnum um Icesave (!) og að það hefði kostað okkur einangrun og eymd (sem enginn hefur þó upplifað!). Hefur rétti­lega verið bent á þessa hliðstæðu ofurmælamanna í löndunum tveimur í Stak­steinum Morgunblaðsins.

Í báðum tilvikum virðist ætlunin hafa verið að hræða heilar þjóðir til að taka afstöðu á grundvelli ofurhræðslu. Þegar frá líður og raunverulegar afleiðingar atkvæða­greiðslunnar í Bretlandi liggja fyrir, þá er mjög líklegt, að þeir þing­menn og ráðherrar, hópar, fjöl­miðlar og stofnanir, sem með mestum ýkjum spáðu fyrir um afleið­ingarnar, verði teknir á beinið fyrir ábyrgðar­leysi, að efna til múgæsinga og blekkja kjósendur.

Það má segja, að hliðstæðir fullyrðingasmiðir hér á landi ættu að minnsta kosti að biðjast afsökunar, en sæta ella almennum átölum. En merkilegt nokk hafa þeir bara haldið sínu striki, einn þeirra (sá síðastnefndi, sem sagði að við myndum einangrast eins og Norður-Kórea og Myanmar herforingjanna) hefur jafnvel boðið sig fram til að verða forseti landsins! -- þaggað niður í einum mótframbjóðanda sínum og hnjóðað í hann fyrir að minnast á þessi mál opin­berlega, eins og sá hefði brotið velsæmis- og veizlu­reglur ("Davíð, hefurðu enga sómakennd?!" eru hans fleygu orð, sem nægðu til að stöðva umræðuna), en dr. Guðni á enn eftir að gera fræðilega grein fyrir rökum síns máls. Við bíðum og vonum!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fleiri vilja úr Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Donald Trump er ekki hrifinn af ESB-þátttöku Breta

Hann segist frekar hallast að því að styðja út­öngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu, m.a. til að minnka skriffinnsku, og er í viðtali við Sunday Times í dag. Hann vill jafn­framt halda góðu sam­bandi við alþjóðlega leiðtoga, þar á meðal Dav­id Ca­meron, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, ef hann verður kjör­inn for­seti Banda­ríkj­anna.

En Ca­meron hef­ur reyndar gagn­rýnt Trump harkalega, einkum "hug­mynd­ir hans um að meina múslim­um að koma til Banda­ríkj­anna. Sagði hann hug­mynd­ina „sundr­andi, heimsku­lega og ranga“." (Mbl.is)

Trump kemur til Bret­lands 24. júní, degi eft­ir þjóðar­at­kvæðagreiðsluna um framtíð Breta í Evr­ópu­sam­band­inu, en erindi hans er meðal ann­ars að vitja um tvo golf­velli sem hann á í Skotlandi. 

J. byggði á Mbl.is.


mbl.is Trump vill að Bretar yfirgefi ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit gæti leitt til keðjuverkandi úrsagnar fleiri ríkja úr ESB

Image result for Margot Wallström  Margot Wallström, utan­rík­is­ráð­herra Svía, telur nú hættu á að Evr­ópu­sam­band­ið lið­ist í sund­ur ef Bretar sam­þykkja úr­sögn (Brexit) í þjóðar­atkvæða­greiðsl­unni 23. nk. 

Keðju­verkun spáð.

Wall­ström seg­ir í viðtali við breska útvarpið BBC að verði það niður­staðan geti það leitt til keðju­verkunar, fleiri ríki kunni að feta í fótspor Breta og krefjast hag­stæð­ari samn­inga við Evrópu­sambandið og þjóðar­atkvæða­greiðslu. (Ruv.is)

55% Breta eru nú fylgjandi úrsögn úr Evrópu­sambandinu samkvæmt skoðana­könnun brezka blaðsins Independent, en hún birtist þar í gær.

Wallström sjálf kveðst vona að Bretar samþykki að vera áfram í Evrópu­sambandinu.

Telur hættu á að ESB liðist í sundur

J.


Tyrkland, sem "færzt hefur nær alræðis­stjórn", virðist ætla að fá sínu framgengt um frjálsan aðgang Tyrkja um Schengen-lönd

... og það án vega­bréfs­árit­un­ar! Er þetta hluti af samn­ingi um að Tyrk­ir taki aft­ur við flótta- og far­and­fólki sem hef­ur farið þaðan til Grikk­lands. Skil­yrði fyrir sam­komu­laginu virð­ast af létt­úðar­ástæð­um ætla að hafa lítið vægi, "Realpolitik" látin ráða. Þar með fá 79 og hálf milljón Tyrkja þennan aðgang að Íslandi og Noregi rétt eins og að flestum ESB-löndum (þó ekki Bretlandi og Írlandi). Allstórt hlutfall tyrkneskra borgara er hlynnt hryðjuverka­hreyfingum, og þar að auki er líklegt, að slíkir aðilar meðal Sýrlendinga og Íraka geti aflað sér falskra vegabréfa og komist þannig inn í Tyrkland og síðan um allt Schengen-svæðið.

Óháð afstöðu Ísendinga til Evrópu­sambandsins eru mörg gild rök gegn því, að við höldum áfram að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu. Varnar­hags­munir Íslands og Norðurlanda ættu að vera hér augljóst umhugsunarefni. Meintri vörn í Schengen-kerfinu er nú þegar að stórum hluta kastað fyrir róða með því að fella niður kröfur þess kerfis um vegabréfa­eftirlit, en Þýzkaland og Austurríki voru einmitt fyrir nokkrum dögum að leggja áherzlu á fram­lengingu undan­þágna sinna frá því að fram­fylgja Schengen-skyldum sínum.

Evr­ópu­sam­bandið ótt­ast, að án vega­bréfa­sam­komu­lags­ins muni Tyrk­land ekki koma bönd­um á straum fólks inn í álf­una, segir í frétt BBC um málið. En það, hversu auðveldlega Tyrklandi hefur gengið þetta á allra síðustu vikum (um 80% árangur náðst við að stöðva fólk í för þess til Grikklands), hafa menn einmitt séð sem merki þess, að fram að því hafi stjórn Erdogans í raun verið að beita Evrópusambandið þumalskrúfu (að stoppa ekki flóttamenn af, sem vel var hægt) til þess að fá sínum kröfum framgengt í samningum, en þær kröfur Erdogan-stjórnarinnar ganga einkum út á þrennt: inntöku Tyrklands í Evrópusambandið (þ.e.a.s. að þeirra rykföllnu umsókn verði flýtt), sex milljarða evra greiðslu frá Brussel til Ankara (840 milljarða ísl. króna - og áframhald næstu ár!) og í 3. lagi, að tyrkneskir borgarar fái að leika lausum hala á Schengen-svæðinu!

Sjaldan hafa Evrópuríki gert jafnmikla undanláts- og uppgjafarsamninga sem þá, sem hér um ræðir, og minnir þetta óneitanlega á Münchenar-samkomulag Chamberlans og Daladiers við Hitler 1938!

Í frétt BBC er bent á, að Evr­ópuþingið og aðild­ar­ríki ESB þurfi að samþykkja þessa ráðstöf­un, áður en Tyrk­ir geti byrjað að ferðast vega­bréfs­laust um Schengen-svæðið. Þá geri ESB ýmsar kröf­ur til ríkja: að þau stand­ist kröf­ur um m.a. tján­ing­ar­frelsi, sann­gjörn rétt­ar­höld og end­ur­skoðun hryðju­verka­lög­gjaf­ar til að tryggja rétt­indi minni­hluta­hópa, áður en það aflétt­i kvöðum um vega­bréfs­árit­an­ir. Hætt er þó við, að í þeirri þýzku Realpolitik (hugtakið frá tíma Bismarcks) sem hér er greinilega á döfinni, verði svona "aukaatriði" annað­hvort snið­gengin eða beitt yfirborðs­legum kattarþvotti til að láta líta svo út, sem Tyrkland sé farið að "standa sig betur". En Tyrkjastjórn er þarna í þeim mun sterkari málamiðl­unar­stöðu sem hún hefur á síðustu mánuðum fjölgað mjög hand­tökum blaða­manna og lögsóknum gegn þúsundum manna vegna meintra móðgana við forsetann Erdogan.

Uggvænleg er því hin sennilega niðurstaða þessa máls, sbr. niðurlag fréttar Mbl.is af málinu:

  • Í um­fjöll­un BBC seg­ir að ef fram­kvæmda­stjórn ESB legg­ur til að Tyrk­ir fái að ferðast frjáls­ir inn­an Evr­ópu verði það með mikl­um trega. Erfitt sé að halda því fram að Tyrk­land stand­ist þess­ar kröf­ur, en stjórn­völd hafa fært sig nær alræðis­stjórn síðustu miss­er­in. Nauðsyn vegna flótta­manna­straums­ins til Evr­ópu knýi hins veg­ar á um að þetta verði látið eft­ir tyrk­nesk­um stjórn­völd­um.

En íslenzkum stjórnvöldum er frjálst að segja upp Schengen-samkomu­laginu. Og nú þegar þessar fréttir allar eru í hámæli, m.a. fyrir stundu í hádegisfréttum Rúv, þar sem Þorvaldur Friðriksson fréttamaður var með afar upplýsandi frétt og fréttarskýringu í málinu, þá getur ríkisstjórn okkar naumast skotið sér undan því að svara spurningum fréttamanna um hvort við séum ekki nauð­beygð, þessara breytinga vegna, til að segja upp Schengen-samningnum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tyrkir ferðast frjálsir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundurlyndi meðal brezkra íhaldsmanna í Brexit-málum kemst á nýtt stig

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands.

Th­eresa May, inn­an­rík­is­ráðherrann, segir Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu draga úr ör­yggi Bret­lands og að Bret­ar ættu að segja sig frá hon­um.

Hún bendir á viss skaðleg áhrif sáttmálans:

May sagði að það væri mann­rétt­inda­sátt­mál­inn frek­ar en Evr­ópu­sam­bandið sem hafi tafið brott­vís­un öfga­manns­ins Abu Hamza frá Bretlandi um fleiri ár og kom næst­um því í veg fyr­ir brott­vís­un íslam­ist­ans Abu Qatada.

„Mann­rétt­inda­sátt­mál­inn get­ur bundið hend­ur þings­ins, hann bæt­ir engu við hag­sæld okk­ar, hann ger­ir okk­ur minna ör­ugg með því að koma í veg fyr­ir brott­vís­un hættu­legra er­lendra rík­is­borg­ara og hann ger­ir ekki til að breyta viðhorf­um rík­is­stjórna eins og þeirr­ar í Rússlandi þegar kem­ur að mann­rétt­ind­um,“ sagði May í ræðu sem var ætlað að tala fyr­ir áfram­hald­andi veru Breta í ESB.

May hef­ur verið nefnd sem eft­ir­maður Dav­ids Ca­meron for­sæt­is­ráðherra, sem leiðtogi Íhalds­flokks­ins. Er ræða henn­ar tal­in hafa verið átt að vera mót­vægi við bar­áttu Ca­merons fyr­ir því að Bret­ar haldi sig í ESB. (Mbl.is)

En hún fullyrðir að Bret­ar ættu ekki að ganga úr ESB, held­ur segja sig frá Mannréttindasátt­mál­an­um og lög­sögu hans. En þar með myndi reyndar Bretand hætta að uppfylla kröfu ESB um að meðlimaríkin viðurkenni sáttmálann.

Þótt ummæli hennar hafi mætt harðri gagnrýni, einkum úr Verka­manna­flokknum, er vitað, að fjölda manns ofbýður, hvernig jafnvel þekktir öfga- og æsinga­menn í röðum múslima hafa fengið að þrífast á brezka velferðar­kerfinu í skjóli laga­verndar og þiggja mörg hundruð þúsunda króna í húsnæðis- og barnabætur.

JVJ.


mbl.is Bretar segi sig frá mannréttindasáttmálanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragð er að, þá Juncker finnur: ESB-stofnanir "víða komnar að fótum fram"

Sjálfur Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, "segir íbúa Evrópu hafa misst trúna á Evrópuhugsjónina," m.a. vegna þess hversu mikið ESB hefur skipt sér af daglegu lífi borgaranna, eins og fram kemur í frétt á Eyjunni og Pressunni í gærkvöldi. (Segir Evrópubúa hafa misst trúna á ESB: Skiptum okkur of mikið af lífi borgaranna).

„Evrópuverkefnið hefur glatað hluta aðdráttarafls síns,“ sagði Juncker í ræðu sinni í Strassborg, og takið eftir orðum hans:

„Ein ástæða þess að borgarar ESB-ríkja eru að fjarlægast Evrópuverkefni er sú staðreynd að við höfum í of ríkum mæli skipt okkur af einkamálum þeirra og farið inn á of mörg svið þar sem aðildarríkin eru betur til þess fallin að grípa til aðgerða.

Þá segir hann regluverk Evrópusambandsins "of þungt" og "lýsti vilja til þess að minnka regluverkið í því skyni að bæta ásjónu sambandsins. Í því felst meðal annars að draga til baka 83 frumvörp sem framkvæmdastjórn hans fékk í arf frá framkvæmdastjórn Jose Manuel Barroso." (Eyjan/Pressan, á grunni fréttar frá Euractiv). Það er reyndar spurning, hvort þessari yfirlýsingu hans er ætlað að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um það, hvort þeir eigi að ganga úr Evrópusambandinu. Margir gætu tekið hann alveg á orðinu um þetta.

En hann tók mun dýpra í árinni, eins og hér sést:

"Hann viðurkenndi enn fremur að ESB væri óheppilegur talsmaður Evrópu nú til dags. Sambandið njóti ekki lengur þeirrar virðingar sem þau naut í aðildarríkjunum áður fyrr. Á endanum gæti Evrópuhugsjónin endað sem rústir einar."

Og það mætti halda, að það sé bara allt að bresta hjá þessum æðsta manni ESB með hans riddaralega nafn:

"Við lifum erfiða tíma. Við glímum við alþjóðlegan flóttamannavanda, það er ráðist á frjáls samfélög, allar stofnanir okkar eru undir gríðarlegum þrýstingi og víða eru þær komnar að fótum fram."

Og hvað er í húfi? Hlustum á svar hans: 

"Hættan er sú," sagði Juncker, "að með ofangreindum krísum samhliða lækkandi fæðingartíðni og minnkandi hagvexti muni Evrópa missa virðingu heimsbyggðarinnar."

Það var kominn tími til, að það yrði viðurkennt fullum fetum á æðstu stöðum, að lítil fæðingartíðni í ESB-löndum "spells disaster" fyrir Evrópu andspænis nágrönnum álfunnar. Að Þjóðverjar eigi að meðaltali 1,44 börn á hverja konu,* meðan þau þyrftu að vera 2,10 til að þjóðin haldist við í óbreyttri stærð til lengdar, er sannarlega ástæða til einhverra aðgerða eins og þeirra, að lífsfjandsamlegri fílósófíu verði ekki hossað öllu lengur í menntakerfi og fjölmiðlamenningu þessara landa. Það er ekki nóg, að menn elski sjálfa sig og sín persónu- og félagslegu réttindi, þeir þurfa einnig að gæta skyldunnar gagnvart því að elska land sitt og þjóð, svo að það samfélag, sem þar ríkir með allri sinni arfleifð og andlegum sem öðrum verðmætum líði ekki undir lok, en þetta getur í raun gerzt á innan við tveimur öldum, og niðurtalningin á því var komin í gang á ofanverðri 20. öldinni.

Hagvöxtur í Evrópusambandinu var líka áhyggjuefni Junckers, en á meðan hann eykst hér á Íslandi stórum skrefum, fer hann "hænufetið" í ESB samkvæmt nýlegum leiðara Morgunblaðsins.

Er þetta þá það kröftuga stórveldi, sem við ættum að horfa til í von um bjarghring fyrir íslenzka þjóð á 21. öld? Svari því nú hver fyrir sig.

* Litlu skárra er ástandið í þessum löndum: Danmörku (1,73 börn fæðast á hverja konu, þ.m.t. á nýbúa, sem hækka meðaltalið), Svíþjóð (1,88), Finnlandi (1,75), Bretlandi (1,89), Hollandi og Belgíu (1,78), en er strax mun lakara í Póllandi (1,33) og Rúmeníu (1,33), Grikklandi (1,42), á Ítalíu (1,43), Ung­verja­landi (1,43), í Tékklandi (1,44), Búlgaríu (1,45), Austurríki (1,46), Króatíu (1,46), á Spáni (1,49), Lettlandi (1,50) og í Portúgal (1,52). Í Eistlandi og Litháen fæðast 1,59 börn á hverja konu, en 1,61 í Lúxemborg (heimild HÉR). Einna skást stendur Frakkland sig (2,08, alveg við stöðugleikamarkið); all­nokkur hluti þeirra fæðinga mun eiga sér stað hjá múslimska minnihlutanum, sem er um 5-6 milljónir manna.

Jón Valur Jensson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband