Bragð er að, þá Juncker finnur: ESB-stofnanir "víða komnar að fótum fram"

Sjálfur Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, "segir íbúa Evrópu hafa misst trúna á Evrópuhugsjónina," m.a. vegna þess hversu mikið ESB hefur skipt sér af daglegu lífi borgaranna, eins og fram kemur í frétt á Eyjunni og Pressunni í gærkvöldi. (Segir Evrópubúa hafa misst trúna á ESB: Skiptum okkur of mikið af lífi borgaranna).

„Evrópuverkefnið hefur glatað hluta aðdráttarafls síns,“ sagði Juncker í ræðu sinni í Strassborg, og takið eftir orðum hans:

„Ein ástæða þess að borgarar ESB-ríkja eru að fjarlægast Evrópuverkefni er sú staðreynd að við höfum í of ríkum mæli skipt okkur af einkamálum þeirra og farið inn á of mörg svið þar sem aðildarríkin eru betur til þess fallin að grípa til aðgerða.

Þá segir hann regluverk Evrópusambandsins "of þungt" og "lýsti vilja til þess að minnka regluverkið í því skyni að bæta ásjónu sambandsins. Í því felst meðal annars að draga til baka 83 frumvörp sem framkvæmdastjórn hans fékk í arf frá framkvæmdastjórn Jose Manuel Barroso." (Eyjan/Pressan, á grunni fréttar frá Euractiv). Það er reyndar spurning, hvort þessari yfirlýsingu hans er ætlað að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um það, hvort þeir eigi að ganga úr Evrópusambandinu. Margir gætu tekið hann alveg á orðinu um þetta.

En hann tók mun dýpra í árinni, eins og hér sést:

"Hann viðurkenndi enn fremur að ESB væri óheppilegur talsmaður Evrópu nú til dags. Sambandið njóti ekki lengur þeirrar virðingar sem þau naut í aðildarríkjunum áður fyrr. Á endanum gæti Evrópuhugsjónin endað sem rústir einar."

Og það mætti halda, að það sé bara allt að bresta hjá þessum æðsta manni ESB með hans riddaralega nafn:

"Við lifum erfiða tíma. Við glímum við alþjóðlegan flóttamannavanda, það er ráðist á frjáls samfélög, allar stofnanir okkar eru undir gríðarlegum þrýstingi og víða eru þær komnar að fótum fram."

Og hvað er í húfi? Hlustum á svar hans: 

"Hættan er sú," sagði Juncker, "að með ofangreindum krísum samhliða lækkandi fæðingartíðni og minnkandi hagvexti muni Evrópa missa virðingu heimsbyggðarinnar."

Það var kominn tími til, að það yrði viðurkennt fullum fetum á æðstu stöðum, að lítil fæðingartíðni í ESB-löndum "spells disaster" fyrir Evrópu andspænis nágrönnum álfunnar. Að Þjóðverjar eigi að meðaltali 1,44 börn á hverja konu,* meðan þau þyrftu að vera 2,10 til að þjóðin haldist við í óbreyttri stærð til lengdar, er sannarlega ástæða til einhverra aðgerða eins og þeirra, að lífsfjandsamlegri fílósófíu verði ekki hossað öllu lengur í menntakerfi og fjölmiðlamenningu þessara landa. Það er ekki nóg, að menn elski sjálfa sig og sín persónu- og félagslegu réttindi, þeir þurfa einnig að gæta skyldunnar gagnvart því að elska land sitt og þjóð, svo að það samfélag, sem þar ríkir með allri sinni arfleifð og andlegum sem öðrum verðmætum líði ekki undir lok, en þetta getur í raun gerzt á innan við tveimur öldum, og niðurtalningin á því var komin í gang á ofanverðri 20. öldinni.

Hagvöxtur í Evrópusambandinu var líka áhyggjuefni Junckers, en á meðan hann eykst hér á Íslandi stórum skrefum, fer hann "hænufetið" í ESB samkvæmt nýlegum leiðara Morgunblaðsins.

Er þetta þá það kröftuga stórveldi, sem við ættum að horfa til í von um bjarghring fyrir íslenzka þjóð á 21. öld? Svari því nú hver fyrir sig.

* Litlu skárra er ástandið í þessum löndum: Danmörku (1,73 börn fæðast á hverja konu, þ.m.t. á nýbúa, sem hækka meðaltalið), Svíþjóð (1,88), Finnlandi (1,75), Bretlandi (1,89), Hollandi og Belgíu (1,78), en er strax mun lakara í Póllandi (1,33) og Rúmeníu (1,33), Grikklandi (1,42), á Ítalíu (1,43), Ung­verja­landi (1,43), í Tékklandi (1,44), Búlgaríu (1,45), Austurríki (1,46), Króatíu (1,46), á Spáni (1,49), Lettlandi (1,50) og í Portúgal (1,52). Í Eistlandi og Litháen fæðast 1,59 börn á hverja konu, en 1,61 í Lúxemborg (heimild HÉR). Einna skást stendur Frakkland sig (2,08, alveg við stöðugleikamarkið); all­nokkur hluti þeirra fæðinga mun eiga sér stað hjá múslimska minnihlutanum, sem er um 5-6 milljónir manna.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Jón Valur. Það er alveg á hreinu og lengi að EU samsteypan er dæmd sem mistök. Eins og Junkers segir þá eru þeir alveg búnir að eyðileggja mörg lönd með lögum sem eiga ekkert heima hjá venjulegu fólki. Þetta er sorgleg staðreynd og betra að viðurkenna það strax og byrja upp á nýtt. Við eigum heldur ekkert heima í þessum heimshluta lengur en við fórum þaðan vestur og lengra vestur þar sem við skildum eftir fangamörk okkar (Dighton rock) og vörður allt niður frá Grænlandi til Nýfundnalands og áfram niður Nýja England. Töluvert að rúnasteinum merktum nöfnum landsfeðra okkar og staðarnöfn s.s. nafn á á í dölunum (Skrauma) Best að hætta áður en ég missi mig.:-) en Kanada menn fóru í mál við USA vegna prívat landamerkja sem urðu fyrir innan línu Kanada og USA. Það væri fínt að hafa einn Jón Dúason núna...:-)  

Valdimar Samúelsson, 20.4.2016 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband