Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
11.1.2017 | 17:29
Brezka ríkisútvarpið veit betur um ESB-stefnuna hjá ríkisstjórn BB heldur en ýmsir hér! - og af fleiri hættumerkjum
Vefsíða BBC greinir frá því að nýja ríkisstjórnin hér á landi ætli að setja spurninguna um aðild að Evrópusambandinu aftur á dagskrá með því að láta þingið kjósa um hvort haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina. (Mbl.is)
Þessi frétt er mjög ólík fullyrðingum í fréttastöðvum hér í gær um að ESB-umræða hafi verið "sett á ís" og að "Björt framtíð" og "Viðreisn" hafi ekki náð neinum árangri með ESB-markmið sín í þessu stjórnarsamstarfi. En þær fullyrðingar standast ekki, og Bjarni Benediktsson hefur í viðræðum flokkanna gefið allt of mikið eftir (sjá hér neðst), því að með því að beita ekki neitunarvaldi (sem felst í ráðandi stöðu stærsta flokksins í ríkisstjórn) til að útiloka þjóðaratkvæði um "framhald ESB-viðræðna", þá er Bjarni að ganga á bak fyrri orða sinna um að ESB-umsóknin hafi verið formlega dregin til baka með bréfi Gunnars Braga utanríkisráðherra fyrir hönd þeirrar ríkisstjórnar þeirra.
Reuters segir einnig frá því í fyrirsögn að Íslendingar ætli að spyrja þingið hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB.
Einkennilega að orði komizt (er Reuters með vanhæfan fréttaritara hér á landi?), en á þó líklega að ganga í sömu átt og ESB-fréttin.
En svona eru ákvæði stjórnarsáttmálans í raun í þessu efni:
Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.
Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum.
Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan. (Auðk. hér, jvj)
Svo er bara að vona, að ríkisstjórnin springi fyrr á limminu en að ná þeim aldri að koma þessu í verk. En jafnframt þarf að hafa auga með uppátækjum þessara þriggja flokka í stjórnarskrármálum (sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar um) og að engin billeg heimild verði samþykkt sem auðveldar innlimun í Evrópusambandið (sbr. 111. gr. tillagna hins ólögmæta "stjórnlagaráðs") um leið og bundið er svo um hnútana, að þjóðin hafi ekkert færi á því að ógilda slíka innlimun (sbr. 67. gr. sömu tillagna hins ólögmæta "ráðs")!
Þar að auki þarf að koma í veg fyrir, að stofnað verði til embættis flokkspólitísks varaforseta (eins staðgengils forseta Íslands, í persónu forseta Alþingis, sjá tillögur sama "ráðs", 82. gr.), og að 5/6 hlutum Alþingis verði gefið færi á því að snuða þjóðina um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar, skv. 113. gr. hinna dæmalausu tillagna hins ólögmæta "ráðs", sem allir eiga að vita (eins og Valgerður Bjarnadóttir, þáv. formaður eftirlits- og stjórnsýslunefndar Alþingis vissi upp á hár) að var ekkert annað en einber "ríkisskipuð nefnd", m.a.s. aðeins skipuð af 30 alþingismönnum (þvert gegn þágildandi lögum um stjórnlagaþing!) og ekki með neitt gilt þjóðarumboð að baki.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Fengu annan úr Panamaskjölum í staðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2017 | 18:24
Mikill léttir að yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar um að EKKI verði farið í ESB-viðræður
Hér er ný, frábær frétt af skyndilega mjög einarðlegri yfirlýsingu Bjarna um að flokkur hans ætli ekki að hvika frá því að fara EKKI í aðildarviðræður við ESB, hagsmunum landsins sé best borgið utan Evrópusambandsins.
Spurður hvort til greina kæmi að Sjálfstæðisflokkurinn setti málið á dagskrá eða tæki þátt í því til að mynda með þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi stefnu sinnar sagði Bjarni: Það er ekki okkar stefna að efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu og við höfum ekki verið til samninga um slíkt.
Spurður áfram hvort málið yrði hugsanlega sett í hendur þingsins sagði hann: Það er auðvitað einhver veruleiki sem allir sjá, að slík mál geta komið fram á þinginu og það er ekki eitthvað sem einstaka þingflokkar geta komið í veg fyrir. Og það væri óskynsamlegt. (Mbl.is, í viðtali hans við mjög marktækan, vandaðan blaðamann, Evrópufræðinginn Hjört J. Guðmundsson)
Hins vegar skipti máli hvernig yrði brugðist við ef slík mál kæmu upp í þinginu, segir hann.
Spurður hvernig Sjálfstæðisflokkurinn myndi bregðast við því ef tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn að Evrópusambandinu kæmi fram í þinginu og yrði samþykkt sagðist Bjarni ekki geta tjáð sig um það. Hann ítrekaði hins vegar aðspurður að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki standa að umsóknarferli að sambandinu. Það vona ég að komi engum á óvart. (Mbl.is)
Það má taka ofan fyrir þessum skorinorðu yfirlýsingum Bjarna.
Fréttir, sem landsmönnum bárust í morgun og gengu í allt aðra átt, komu allar úr ESB-Fréttablaðinu, sem hefur líklega treyst á einhverjar vonir vina sinna í "Viðreisn" (öfugmælasamtökum), vonir sem nú eru að engu gerðar, og húrra fyrir því.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Þjóðaratkvæði ekki stefna flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2016 | 10:59
Víst er friðarhugur í Trump!
Hvers lags "frétt" er þetta á Mbl.is: "Enginn friðarhugur í Trump"?*
Víst er friðarhugur í honum! Hann vill að
- Bandaríkin hætti að hafa frumkvæði að stríðum úti um allan heim með innrásum og íhlutunum í innanríkismál ríkja,
- og hann vill draga úr kaupum á rándýrum vopnabúnaði til bandaríska hersins. Einmitt þess vegna hafa hlutabréf lækkað í bandaríska hergagnaiðnaðinum.
Gleymum svo ekki, að haukarnir í hermálum Bandaríkjanna sl. 8 ár hafa verið Barack Obama og Hillary Clinton, sem studdu loftárásir á Líbýu og ófarsælan stuðning við uppreisnaröfl gegn Assad-stjórninni í Sýrlandi, auk þess að skipta sér af rússneskum innanlandsmálum vegna Krímskagans, þar sem fólkið kaus að endurnýja langtíma rússnesk yfirráð allt frá frelsun hans undan Tyrkjasoldán á 18. öld.
Og í þessum freklega Obama-Clinton-Evrópusambands-yfirgangi taka íslenzk stjórnvöld þátt með viðskiptahöftum á Rússland!
Fréttamenn eiga ekki að snúa við staðreyndum.
* Þannig var frétt Mbl.is upphaflega. 20 mín. seinna hefur hún breytzt í: Enginn friðarhugur í Trump gagnvart Kína. Kannski sumir fréttamenn vilji, að Kína leggi ekki aðeins undir sig Suður-Kínahaf, heldur einnig eyríkið Formósu (Taíwan), en um það land hefur allt frá stríðslokum 1945 helzt verið ágreiningur milli stefnu kommúnista í Peking og Bandaríkjanna. Nú vilja sumir "friðarsinnar", að Bandaríkjastjórn hætti að ábyrgjast öryggi Taíwans!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Enginn friðarhugur í Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2016 | 03:42
Brexit virðist ætla að standast þrátt fyrir hæstaréttarúrskurð
Ólíklegt er að úrskurður Hæstaréttar Englands og Wales "komi í veg fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, þótt málið gæti seinkað því, að grein 50 verði virkjuð," segir ESB-fræðingurinn Hjörtur J. Guðmundsson í fróðlegri grein á Mbl.is: Er Brexit búið að vera?
Úrskurðurinn gekk út á, að Bretastjórn hafi borið að leita samþykkis brezka þingsins, áður en úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu verði formlega hafið, ekki hafi nægt það "konunglega vald" sem ríkisstjórnin taldi sig hafa til þeirrar ákvörðunar. Ríkisstjórn Theresu May mun áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar Bretlands (United Kingdom), og má búast við því, að hann úrskurði um málið í desember. Á meðan er margt orðið betur ljóst um að andstaðan við Brexit hefur fremur hjaðnað en haldizt við í fyrri styrk (sjá grein Hjartar), enda er t.d. pundið aftur á uppleið í kjölfar Brexit-úrskurðarins.
JVJ.
![]() |
Er Brexit búið að vera? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2016 | 08:31
Frakklandsforseti vill jafna flóttamannabúðirnar í Calais við jörðu!
Sósíalistinn François Hollande er eins og fleiri leiðtogar í Evrópusambandinu að gefast upp á linkindinni í málefnum hælisleitenda. Ekki vill hann tapa atkvæðum til Sarkozys og Marine Le Pen í forsetakosningum á næsta ári, en þau svífa hátt í skoðanakönnunum vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum.
Margir álíta Frakkland nú þegar ofsetið af múslimum, með 5-6 milljónir þeirra; þessi sterka blanda geri ofbeldissinnuðum öfgamönnum og meðlimum hryðjuverkasamtaka leikinn auðveldari, eins og sýndi sig í hryðjuverkunum miklu við Stade de France og í Nice. Eftirlitskerfi lögreglu og leyniþjónustu brast, enda verkefnin afar víðtæk víða um land og einkum í Suður-Frakklandi og höfuðborginni.
Leiðtogar Evrópusambandsins höfðu stór uppi orð um göfuga frammistöðu fyrir flóttamenn frá stríðs- og átakasvæðum eins og Sýrlandi og Líbýu, en nú hefur sljákkað í þeim vegna heimatilbúinna vandamála sem mörg ríkjanna eiga erfitt með að ráða fram úr.
Örlög Angelu Merkel eru enn óráðin og flokkur hennar á niðurleið, jafnvel í heimakjördæmi hennar Mecklenburg-Vorpommern, gagnvart hinum unga, þjóðernissinnaða flokki Alternative für Deutschland. Forsetakosningarnar í Frakklandi geta ennfremur orðið vendipunktur í þessum málum öllum.
Hver verða þá viðbrögð íslenzkra ESB-innlimunarsinna sem hingað til hafa fylgt línunni frá Brussel, Berlín og París?
"Evróskepticisminn" fær sína tjáningu í þessari nýju gerð af Brusselfánanum!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Flóttamannabúðir verði jafnaðar við jörðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2016 | 13:01
Hart tekizt á um fullveldi landsins í eigin málum á Alþingi
Jafnvel Össur Skarphéðinsson segir að í umdeildri þingsályktunartillögu* felist meira fullveldisframsal en dæmi séu um. Hans "lausn" er hins vegar ekki skömminni skárri en hans alræmda ESB-auðsveipni fram til þessa: hann vill að við gerum þetta valdaframsal bara auðvelt með því að heimila það með stjórnarskrárbreytingu!!
Allmikið var fjallað um þetta málefni í hádegisfréttum Rúv í dag, enda mikið deilt um það á þingfundi í morgun.
Merkilegt þótti mér hve linur og slappur hinn annars ágæti Birgir Ármannsson reyndist í málinu. Jafnvel Katrín Jakobsdóttir, form. VG, var mun skörulegri í orðum sínum um að það sé mjög alvarlegt mál, ef hér verði gengið hart að fullveldisréttindum landsins.
"Svo bregðast krosstré sem önnur tré" (og á ég þó ekki við krosstré Krists í þessu sambandi, enda er Birgir ekkert af því taginu!).
* Þarna var gefinn tengill beint inn á þingskjal Alþingis með þessari alvarlegu tillögu til þingsályktunar, þ.e. um að Ísland gangist undir yfirþjóðlegt fjármálaeftirlit ESB, en umfjöllun um málið má finna í þessum vefgreinum:
Styrmir Gunnarsson í fyrradag: Athyglisverð niðurstaða hjá Össuri - en skrýtin ályktun
og í gær: Það getur ekki verið að samstaða sé um aukið framsal fullveldis hjá VG (sjá neðar**)
og þessi pistill undirritaðs hér í gær: Fljóta þingmenn sofandi að feigðarósi gagnvart EES-máli sem stefnir í fullveldisframsalsbrot gagnvart stjórnarskrá?
... Hitt kemur meira á óvart, sem fram kemur í fréttum mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins, að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG vill líka breyta stjórnarskránni í þessa veru.
Samkvæmt þeirri frétt hefur Katrín sagt á Alþingi að það sé "löngu tímabært að setja ákvæði í stjórnarskrána um heimild til framsals á ríkisvaldi að því gefnu að framsalið njóti stuðnings aukins meirihluta þingmanna".
Uppgjafarstefnan í algleymingi hér! En það er eðlilegt, að Styrmir REYNI, það gerði hann hér (í gær):
- Getur verið að samstaða sé um þessa afstöðu meðal Vinstri grænna?
- Það er einfaldlega óhugsandi.
- Nú skiptir máli að þeir meðlimir Vinstri grænna, sem eru annarrar skoðunar, láti til sín heyra.
- Þeir geta með engu móti tekið þátt í þessum leik.
Og e.t.v. hafði þetta stundaráhrif á Katrínu í þinginu í morgun, nema orð hennar séu bara til að sýnast svo stuttu fyrir kosningar.
En umfram allt höldum þessu máli vakandi með þrýstingi á Alþingi, m.a. með innleggjum á þessa vefsíðu, sem sést víða, og með netpósti til alþingismanna (hér komast menn í netfangaskrá þeirra og símanúmer!).
Jón Valur Jensson.
![]() |
Meira framsal en nokkur dæmi eru um |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.7.2016 | 09:16
Ríkisstjórn Bretlands einörð í úrsögninni
Theresa May segir það sem hún meinar og meinar það sem hún segir með orðunum Brexit is Brexit. Því ákveður hún nú að Bretar taki ekki við forseta-embættinu í ESB á næsta ári eins og til hafði staðið.
Komið er í ljós að hrakspár um einangrun Breta, m.a. frá Bandaríkjum Obama, voru úr lausu lofti gripnar.* Jafnvel eru það viðskiptin við Bretland sem Bandaríkjunum voru efst í huga um fríverzlunarsamning við ESB. Því er jafnvel líklegt nú að slíkur samningur UK og USA, einfaldari í vinnslu en við ESB, verði meira forgangsmál í Washington en samningur við Evrópusambandið!
*Sbr. hér: fullveldi.blog.is/admin/blog/?entry_id=2176692
JVJ.
![]() |
Taka ekki við forsetaembættinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2016 | 23:57
Nær tveir þriðju aðspurðra Breta vilja ekki nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið
Þrátt fyrir fullyrðingar Evrópusambandssinna reynist við skoðanakönnun mikill meirihluti Breta andvígur því að fram fari önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um veru eða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ýmsir, m.a. ESB-innlimunarsinnar íslenzkir, hafa talað um að brezka þjóðin þurfi að fá nýtt tækifæri til að "leiðrétta" sína ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní sl., en þessi skoðanakönnun, gerð af fyrirtækinu ComRes fyrir brezku blöðin Sunday Mirror og Independent dagana 13. til 15. júlí, náði til rúmlega tvö þúsund manns, og samkvæmt henni eru 57% andvíg því að boðað verði til nýs þjóðaratkvæðis um málið. Tæpur þriðjungur, eða 29%, er því hins vegar hlynntur. Með öðrum orðum: Nánast tveir á móti hverjum einum vilja, að ekki verði raskað því ferli sem ákveðið var 29. f.m.
Fleiri eru enn fremur andvígir því að boðað verði til nýrra þingkosninga eða 46% á móti 38%. Nýr forsætisráðherra Bretlands, Theresa May sem sjálf studdi áframhaldandi veru í ESB, hefur lýst því yfir að hvorki verði boðað til nýs þjóðaratkvæðis né nýrra þingkosninga. (Mbl.is; Frétt Reuters).
JVJ.
![]() |
Vilja ekki annað þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 17.7.2016 kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2016 | 21:43
Það mættu fleiri pakka niður sínum innlimunarhugmyndum
Eftir langþráð brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu er mörgum enn ljósara en áður, að Ísland á þangað ekkert erindi. Utanríkisviðskipti Íslendinga við Breta námu 240 milljörðum króna árið 2014. ESB mun tapa meira á Brexit en Bretar sjálfir, sem geta unnið upp lakari samkeppnisaðstöðu á meginlandinu með nýju frelsi til eigin viðskiptasamninga við önnur lönd, þ. á m. Kanada og mörg önnur gömul samveldislönd, að ógleymdum Bandaríkjunum og löndum Asíu og Suður-Ameríku.
En það er ekki að undra, að Fréttablaðið hefur allt á hornum sér varðandi bæði Brexit og Boris Johnson, hinn nýja utanríkisráðherra Breta! Brexit er meiri háttar áfall fyrir "Evrópuhugsjón" Brussel-manna og harðra innlimunarsinna á Íslandi, og eftir því eru upphrópanirnar og særingarnar sem berast jafnt úr Skaftahlíðinni sem frá ESB-pótintátum ýmsum, m.a. utanríkisráðherra Frakka -- og ekki í minna mæli frá býrókratíumni íParís eftir því sem áhugi franskrar þjóðar hefur aukizt á hennar eigi Frexit!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Pakkaði fjögurra ára ESB-vinnu niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 17.7.2016 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.7.2016 | 01:45
Brexit er spori og hvatning til enn betri frammistöðu Breta
Hin klára Theresa May og félagar hennar í nýrri ríkisstjórn Stóra-Bretlands, þ.m.t. Boris Johnson sem utanríkisráðherra, David Davis, ráðherra sem annast brotthvarf Breta úr ESB, Philip Hammond fjármálaráðherra, Liam Fox, ráðherra alþjóðlegra viðskipta (ESB-aðildar-andstæður), Amber Rudd innanríkisráðherra og Michael Fallon varnarmálaráðherra, fólk með bein í nefinu, á eftir að standa sig vel fyrir brezkt atvinnulíf, fyrirtæki og almenning, og standa vörð um stöðu landsins alþjóðlega.
Eitt dæmi: Nú mun ekkert halda aftur af brezkum yfirvöldum að láta t.d. sveitarstjórnir kaupa brezkar vörur og sleppa útboðum á ESB-markaði. Bretar endurheimta nú frelsið til eigin tolla- og tollfrelsissamninga við fjarlægustu lönd ... rétt eins og við okkur Íslendinga líka.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Hvaða ráðherrar eru komnir um borð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)