Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
1.10.2019 | 12:53
Skýrsla 3ja manna nefndar utanríkisráðherra um meinta kosti og galla EES-samningsins birt
Skýrsla starfshóps utanríkisráðherra um EES-samninginn var birt á vef Alþingis í morgun. Hún var gerð að beiðni Alþingis, að tillögu þingmanna Miðflokksins, með það að markmiði að greina kosti og galla EES-samningsins og áhrif hans á íslenskt samfélag síðasta aldarfjórðunginn. Starfshópinn skipuðu þau Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra, og lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir.
Í skýrslunni er því lýst að íslenskt samfélag hafi tekið stakkaskiptum við aðildina að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt hafi nær allir viðmælendur sagt EES-samninginn lifa góðu lífi og vera til gagns og ávinnings. Einu undantekningarnar hafi verið samtökin Frjálst land á Íslandi og Nei til EU í Noregi.
Fimmtán úrbætur
Starfshópurinn tiltekur fimmtán atriði um úrbætur. Hæst ber ágreining um það hvort stjórnarskrá Íslands heimili fulla aðild að EES-samningnum. Binda verði enda á þrætur um slíkt, annað hvort með því að viðurkenna að EES hafi áunnið sér stjórnlagasess eða með því að setja í stjórnarskrá sérstakt ákvæði um aðild Íslands að samningnum. Við núverandi aðstæður sé staða Íslands gagnvart Noregi og Liechtenstein, sem eiga aðild að samningnum við Evrópusambandið, veikari en annars væri.
Þá verði að viðurkenna í verki að samningurinn móti allt þjóðlífið en ekki megi skilgreina hann sem erlenda ásælni. Raunar verði að viðurkenna að stór hluti EES-samstarfsins sé alfarið innanríkismál. Starfshópurinn tekur fram að ekkert sambærilegt tækifæri gefist til jafn viðamikils samstarfs við Evrópusambandið og með EES-samningnum. Enginn tvíhliðasamningur komi í hans stað."
(JVJ kom þessu hér á framfæri með viðaukaorðum í byrjun.)
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.9.2019 | 01:48
Áberandi meirihluti Breta vill að Brexit-ákvörðunin verði virt -- RÚV ekki með á nótunum?
Í skoðanakönnun 6.-8. sept. kom fram að 54% eru hlynnt því að Brexit-niðurstaða þjóðaratkvæðisins sumarið 2016 sé virt, 25% voru því ósammála, en 21% tóku ekki afstöðu. Hér sést (í könnun fyrirtækisins ComRes fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph) að drjúgur helmingur Breta telur með Boris Johnson, "að virða eigi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í Bretlandi, þar sem meirihluti kjósenda samþykkti að landið skyldi ganga úr Evrópusambandinu" (Mbl.is).
Þegar aðeins eru taldir þeir, sem afstöðu tóku, voru 68,3% sammála því að virða Brexit-niðurstöðuna, en 31,7% ósammála.
Af þeim sem kusu með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu 2016 vilja 35% nú að Bretland gangi úr sambandinu. Tæpur helmingur, eða 49%, er andvígur því að útgöngunni verði frestað frekar en 29% eru hlynnt því. Þá vilja 43% að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings ef sambandið gefi ekki eftir en 32% eru því andvíg.
Hátt í helmingur Breta, eða 44%, vill frekar yfirgefa Evrópusambandið án samnings en að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Bretlands, en þriðjungur er á öndverðum meiði. Helmingur aðspurðra sagðist telja það ólýðræðislegt af hálfu þeirra þingmanna sem væru að reyna að koma í veg fyrir að Bretland gengi úr sambandinu í ljósi loforðs þingsins um að framkvæma niðurstöðu þjóðaratkvæðisins. Rúmur fjórðungur, eða 26%, sagðist því ósammála. (Mbl.is)
Þessi býsna eindregnu viðhorf brezks almennings virðast lítt fá að njóta sín í almennum fréttaburði Ríkisútvarpsins af Brexitmálum. Ítrekað er því einnig slegið upp að varpað sé skugga á Johnson og vaktar efasemdir um heilindi hans. Iðulega er neikvæður tónninn í fréttaritara Rúv í Lundúnum, Sigrúnu Davíðsdóttur, sem virðist hallari undir álit Brussel-manna en brezkra stjórnvalda. Væri fróðlegt að fá upplýst, hve margar boðsferðir hún hefur þegið til Brussel.
Jón Valur Jensson.
Vilja að þjóðaratkvæðið verði virt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2019 | 13:16
Logi Már Einarsson kvartar yfir heimsókn Pence, varaforseta Bandaríkjanna, en unir vel við heimsókn Angelu Merkel
Ekki leyfir "Kjarninn" fólki að komast betur að kjarna máls með því að opna á umræður um "frétt" sína af viðhorfum Loga. Hann mun áfram stefna í fáránlegum tilraunum að mæla með innlimum lands okkar í Evrópusambandið og að leggja áþján allra orkupakkanna á þjóðina, þrátt fyrir augljósa stöðnun sem ríkir í ESB, með 0,2% hagvöxt (10,5 sinnum minni en í Bandaríkjunum, en við með 6,9% hagvöxt á hverju einasta ári að meðaltali 2009-2017) og mikið atvinnuleysi í ESB-ríkjum (ungmenna allt upp í 40%).
Logi ætti að huga að því, eins og Angela Merkel, að víkja úr sessi í stað þess að þenja sig í utanríkismálum. En miðað við fordóma hans er ekki undarlegt að hann átti sig engan veginn á mikilvægi heimsóknar Pence varaforseta (þeirri sem undirritaður færði hér í tal; en þar tala ég í eigin nafni, ekki þeirra samtaka sem reka þessa vefsíðu, Fullveldisvaktina).
JVJ.
Pence til Íslands 3. september | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2019 | 05:37
Sendiherra brýtur gegn skyldum sínum með áróðursgrein fyrir innlimun Íslands í stórveldi sitt!
Ófyrirleitið er af sendiherra Evrópusambandsins að endurtaka sinn fyrri leik að brjóta Vínarsamþykkt um skyldur sendiráða, með einhliða gyllingargrein um evrópska stórveldið, í raun með áróðri fyrir því, að Íslendingar láti innlimast í Evrópusambandið.
Þetta samrýmist ekki skyldum hans sem sendiherra, ekki frekar en að Evrópusambandið dæli styrkjum og mútufé í fyrirtæki, samtök og einstaklinga hér á landi.
Vísa ber manninum úr landi, eins og ætla má, að gert hafi verið við fyrirrennara hans Timo Summa 2012, ef hann var þá ekki beinlínis kallaður til baka af yfirmönnum sínum í Brussel, eftir að hitna tók undir honum eftir skelegga gagnrýni Tómasar Inga Olrich (fyrrv. ráðherra og sendiherra í París) á framferði hans, m.a. með áróðursferðum hans um landið. Sjá einnig hér (15.11. 2018): https://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/2225873/
Er ekki eitthvað brogað við fullyrðingar Michaels Mann um "frelsi og velmegun" í borgum eins og Ríga, Aþenu og Lissabon? -- eru það vel valin dæmi, eftir að þýzkir og franskir bankar fengu að leika þjóðarhag Grikkja grátt í boði ESB og Evrópubanka þess? Litlu skárra er ástandið í Portúgal, en fólksflótti hefur verið þaðan frá atvinnuleysi og þó um enn lengri tíð frá Lettlandi, og ekki er fæðingartíðnin þar í landi til að hrópa húrra yfir: 1,52 börn á hver hjón! -- örugg leið til útþurrkunar þjóðar á 6-7 kynslóðum!
Mann þessi geipar af því, að hinn verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hafi "sett fram metnaðarfulla og hvetjandi áætlun til næstu fimm ára," en "gleymir" alveg að nefna, að þessi fráfarandi varnarmálaráðherra Þýzkalands hefur af elju og hörku hvatt til þess (rétt eins og herra Macron Frakklandsforseti), að uppfyllt verði fyrirheiti Lissabonsáttmálans um stofnun öflugs Evrópusambandshers, til að ESB verði síður háð Bandaríkjunum um liðveizlu. Af hverju sleppir hr. Mann að nefna það, en kemur svo með smjörklípuna um að "NATO verði ávallt hornsteinn varna Evrópu"? Mátti sannleikurinn ekki koma skýrar í ljós, eða hentaði það ekki að upplýsa Íslendinga um, að ef þeir láta narrast inn í Evrópusambandið, þá bíður ungmenna landsins hugsanlega herskylda og ríkissjóðs okkar óefað það hlutverk að leggja um það bil 2% af landsframleiðslunni í herapparat og hergögn handa ESB-bossum og generálum að leika sér við, til dæmis til að fara út í áhættusamar ögranir við Rússa.
Jón Valur Jensson.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Arnar Þór svarar: "Sem sérsamningur gengur EES-samningurinn framar almennum þjóðarréttarsamningum. Því er mikilvægt að hafa í huga að Hafréttardómstóllinn eða aðrar alþjóðastofnanir munu ekki leysa úr ágreiningsmálum vegna skuldbindinga Íslands tengdra EES-samningnum, heldur stofnanir ESB." Þetta segir hann í færslu sem hann birtir á Facebook í dag.
Arnar svarar þar grein sem dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögum, ritar í Fréttablaðið í morgun, en í þeirri grein áréttar Bjarni að ekkert sé í þriðja orkupakkanum fjallað beint um skyldu aðildarríkja EES til að koma á eða leyfa samtengingu um flutning orku sín á milli.
Segir Bjarni að öll aðildarríki EES-samningsins, sem og Evrópusambandið sjálft, séu aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982 og bendir á að 311. grein þess samnings kveði á um að ákvæði annarra samninga, sem aðildarríki hafréttarsamningsins eiga aðild að, skuli vera í samræmi við hafréttarsamninginn. Með öðrum orðum, hafréttarsamningurinn trónir á toppnum í alþjóðakerfinu, segir Bjarni og bætir við að samningurinn sé stundum kallaður stjórnarskrá hafsins.
Á móti segir Arnar að löglærðum megi vera ljóst að EFTA-dómstóllinn túlki mál jafnan í samhengi við og í ljósi markmiðs og tilgangs samninga og gerða sem um ræðir á því réttarsviði, þ.e. að EFTA-dómstóllinn láti anda orkupakkans ráða fremur en hafréttarsamninginn.
Arnar Þór er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur á undanförnum misserum verið virkur í umræðum um orkupakkann og meðal annars viðrað það mat sitt, ítrekað, að orkupakkinn grafi undan fullveldi Íslands. (Mbl.is)
Sjá nánar fleiri fréttir mbl.is af skrifum Arnars Þórs, hér:
Og ennfremur, um enn eina innkomu hins sama Arnars Þórs inn í umræðuna um orkupakkann:
EES framar almennum þjóðréttarsamningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 1.8.2019 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2019 | 19:05
Boris Johnson sýnir skýr dæmi um að "taking back control" nýtist þjóðinni ekki sízt utan höfuðborgarinnar, með stefnu nýrrar ríkisstjórnar hans
Í ræðu hans í Manchester í dag hét hann því að auka fjárfestingar á svæðum sem kusu með Brexit og lofaði að setja fullan kraft í viðræður um fríverslunarsamninga við ríki heimsins sem myndu nýtast við útgöngu úr Evrópusambandinu. (Mbl.is)
Ennfremur:
Að taka aftur völdin [taking back control] nær ekki bara til þess að þingið endurheimti fullveldi sitt frá Evrópusambandinu, sagði forsætisráðherrann og lofaði því að auka sjálfsákvörðunarrétt á lægra stjórnsýslustigi. Þá hét hann því einnig að auka fjárfestingu í innviði. (Mbl.is)
Ennfremur kom fram í ræðunni þung áherzla á það sem við gætum kallað "jafnvægi í byggð landsins", með auknu sjálfræði byggða utan Lundúna-svæðisins og fullri virðingu fyrir arfleifð þeirra og réttindum og tækifærum til framfara og aukinnar atvinnu, en Manchester er gott dæmi um að þetta getur gerzt.
Hér er þessi skýra og snarpa ræða hans.
Álitsgjafar hafa velt því fyrir sér hvort Johnson muni kalla til kosninga í þeim tilgangi að endurheimta meirihluta Íhaldsflokksins á breska þinginu. Forsætisráðherrann sagðist algjörlega útiloka kosningar áður en Bretland segir skilið við Evrópusambandið. (mbl.is)
Hlustið á hinn mælska mann og áform hans um tækniframfarir á svæðum sem of lengi voru vanrækt af ráðandi stjórnmálastétt.
Jón Valur Jensson.
Gríðarleg tækifæri felast í Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 28.7.2019 kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2019 | 18:28
Mikill völlur á Evrópusambandinu nánast ofan í Stjórnarráði Íslands
Sendinefnd? Þarf lítil sendinefnd mikið rými? Hvaða erindi á sendiherra ESB hér í landi, sem er ekki í ESB, annað en að hóta (eins og hann gerir nú í blaðaviðtali) og blekkja?
Liggur kannski fiskur undir steini?
Þannig ritar Snjáfríður M. Árnadóttir Egilson á Facebók sinni.
Sendinefnd ESB á Íslandi er greinilega komin til að vera, rétt eins og í meðlimaríkjunum. Sendiherrar ESB, a.m.k. tveir eða þrír þeirra, hafa þegar brotið Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða.
Og nú breiða þeir úr sér rétt við Stjórnarráð Íslands, á Kalkofnsvegi 2.
Jón Valur Jensson.
PS. Paþetískt er að hlusta á verjendur þriðja orkupakkans í yfirstandandi umræðum á Alþingi, sem sjónvarpað er á sjónvarpsrás þingsins.
ESB á Íslandi flytur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2019 | 05:37
Theresa May á síðustu metrunum eftir vinstra feilsporið
Ýmsir hafa dáðst að þrautseigju hennar, að gefast aldrei upp við allar mögulegar útfærslur á því að slíta sig frá ESB að meira eða minna leyti, en nú ofbýður þingmönnum Íhaldsflokksins og hafa lesið henni pistilinn, sem hún kaus að þegja við, endanlega skák og mát.
Hin áhrifamikla 1922-nefnd óbreyttra þingmanna flokksins fundaði með May á skrifstofu hennar í Downingstræti 10 og tjáði henni "að bæði flokksmenn og aðrir stuðningsmenn flokksins hefðu snúist gegn henni. Heimildarmaður Daily Telegraph segir May hafa hlustað á þingmennina lýsa því, hvernig hún væri að stórskaða Íhaldsflokkinn, án þess að segja neitt. Hún hafi síðan neitað að ræða um framtíð sína. Aðstæðurnar eru sagðar minna á síðustu dagana áður en Margaret Thatcher, þáverandi leiðtogi flokksins, sagði af sér fyrir tæpum 30 árum." (Mbl.is).
Út af sakramentinu fór hún ekki aðeins með því að makka með Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, heldur með því að taka í mál hið ómögulega: að Bretland yrði "áfram í tollabandalagi Evrópusambandsins eða í tollabandalagi með sambandinu. Þar með gæti landið ekki samið um sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki, en það er eitthvað sem stuðningsmenn útgöngunnar hafa litið á sem einn stærsta kostinn við að yfirgefa Evrópusambandið." (Mbl.is)
En þarna var Theresa að snúa gersamlega við blaðinu frá fyrri afstöðu sinni, "hafði áður ítrekað þvertekið fyrir að Bretland yrði áfram innan tollabandalags Evrópusambandsins." En forystumenn ESB hafa verið að þrýsta á May og Corbyn að ná saman um að Bretar verði áfram innan tollabandalagsins. Nú hrynur sú spilaborg og frúin á útleið, eftir því sem bezt verður séð.
JVJ.
Telja Theresu May vera vandamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 06:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2019 | 20:00
Hörður Kristjánsson: Hið heilaga ESB
Ekki er annað að sjá en að áhugafólki um feit embætti við borð ofurskriffinna Evrópusambandsins í Brussel sé að takast það ætlunarverk sitt að lauma Íslandi, Noregi og Liechtenstein með lævísum blekkingum undir stjórn Evrópusambandsins. Það virðist vera að gerast án þess að löndin gerist þar formleg aðildarríki. Þar með er verið að fótumtroða sjálfstæði þessara ríkja og lýðræðislegan ákvörðunarrétt borgaranna um eigin málefni.
Tók steininn úr þegar greint var frá því í norskum fjölmiðlum nýverið að verið væri að ræða innan EES fyrirmæli frá ESB um að öll lagafrumvörp norska Stórþingsins og Alþingis Íslendinga og reglur sveitarfélaga skuli senda til ESB þremur mánuðum áður til samþykktar. Þar segir m.a.: Þegar stjórnvöld eða sveitarfélög hyggjast taka nýjar ákvarðanir sem hafa áhrif á þjónustumarkaðinn munu þau skyldug að tilkynna framkvæmdastjórn ESB, og eftirlitsaðila ESA, a.m.k þremur mánuðum áður en ákvörðunin öðlast gildi. Í þeim tilvikum þar sem þeir telja að ákvörðun muni fela í sér mismununarmeðferð mismunandi þjónustuveitenda, þá skal framkvæmdastjórnin eða ESA stöðva slíkar ákvarðanir.
Þetta kemur ofan á látlausan áróður undanfarna mánuði fyrir því að Íslendingar gefi eftir sjálfsákvörðunarrétt um orkumál í eigin landi í hendur ESB í gegnum lög um orkupakka 3. Þetta kemur líka ofan í afar umdeilda tollasamninga um innflutning landbúnaðarafurða við ESB þar sem lýðheilsa þjóðar virðist engu máli skipta þegar rætt er um hagsmuni verslunar yfir landamæri. Peningahyggjan er þar sett í öndvegi en heilsa og líf fólks og dýra er afgangsstærð. Meira að segja dómarar æðstu dómstóla EES og íslenska ríkisins virðast láta sér í léttu rúmi liggja þótt virtir vísindamenn, bæði innlendir og erlendir, með yfirgripsmikla þekkingu í sjúkdómum manna og dýra, hafi varað við afleiðingum af slíku árum saman. Nei, peningalegir hagsmunir skulu sko ráða för, skítt með afleiðingarnar. Líf fólks og dýra á svo sannarlega ekki að fá að njóta hins fræga vafa í þessu tilfelli.
Án efa hlýtur Hitler gamli að skrækja af fögnuði yfir þessari þróun, sitjandi á fjósbitanum hjá höfðingjanum í neðra. Það sem honum tókst ekki með sínum milljónaher gráum fyrir járnum, er jakkaklæddum skriffinnum í Brussel nú að takast með penna eina að vopni. Einhvern tíma hefðu menn örugglega slegið svona nokkru á forsíður blaða undir fyrirsöginni LANDRÁÐ, en uss, uss, svona tala menn ekki í návist Guðs vors ESB.
Hér hefur hver reglugerðin af annarri frá ESB verið stimpluð góð og gild og oftast athugasemdalaust. Virðist þá gilda einu hvort slík reglugerðarinnleiðing eigi yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut við íslenskan veruleika. Svo yppta menn bara öxlum ef einhverjum dettur sá dónaskapur í hug að gagnrýna flumbruganginn.
Til að réttlæta ófögnuðinn er gjarnan settur fram sá frasi að þetta sé allt gert í þágu íslenskra neytenda. Þannig er málatilbúnaðurinn t.d. í kringum innleiðingu á innflutningi ferskra landbúnaðarafurða. Ferskt skal það vera og alveg tryggt að ekki sé þá heldur hróflað við glænýjum og ferskum evrópskum lyfjaónæmum ofurbakteríum. Það eru sem sé sérstakir hagsmunir íslenskra neytenda að þeir fái að sitja við sama borð og þeir evrópsku þegar kemur að úthlutun sýkinga sem læknavísindin hafa ekki lengur nein úrræði til að ráða við. Við skulum fyrir alla muni ekki trufla slíkt ferli. Í nafni hins almáttuga og heilaga ESB AMEN.
Hörður Kristjánsson.
Þessi ritstjórnargrein í Bændablaðinu 28. febr., eftir Hörð ritstjóra þess, er sömu snilldinni merkt og margt sem frá honum kemur.
Björn Bjarnason, gersamlega ótrúr Landsfundi síns eigin flokks, leyfir sér að telja að Hörður hafi hér gert sig "endanlega marklausa[n] í opinberum umræðum". Það eru stór orð, sem Björn sjálfur stendur ekki undir, en hrína ekki á Herði. Björn nálgast af einfeldni orð Harðar hér ofar um Hitler, en það blasir við af texta höfundarins, að ekki var hann að bera nazisma, Gyðingahatur eða útrýmingarbúðir upp á sællegu Brusselkarlana, hvað þá að þeir ætli undir stjórn síns góðglaða forseta Junckers að hrinda helmingi jarðarbúa út í heimsstyrjöld. Björn þarf kannski að læra að lesa upp á nýtt, áður en hann æsir sig yfir næsta leiðara í Bændablaðinu. En að hann sjálfur hefur brugðizt málstað Íslands í orkupakkamálinu, er eins augljóst og um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Sigríði Á. Andersen.
JVJ.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 2.3.2019 kl. 05:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2019 | 04:37
Vel mælt hjá Ólafi Stephensen, af öllum mönnum!
"Þetta mál er ekkert á dagskrá og engin stemming fyrir því, hvorki á meðal pólitíkusa né almennings."
(Á Hringbraut 9. febr. 2019.)
Hvað átti hann við? Jú, upptöku evrunnar sem gjaldmiðils fyrir Ísland!
Já, það er ágætt að ESB-sinnar fari að gerast raunsæir!
JVJ.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 04:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)