Sendiherra ESB ber að víkja héðan eftir afskipti af innanlandsmálum okkar

Með hlutdrægum afskiptum og einhliða mál­flutn­ingi um 3. orku­pakkann er sendi­herra Evr­ópu­sam­bands­ins að brjóta landslög og alþjóð­legan samn­ing um rétt­indi og skyldur sendi­ráða. (Það hefur áður gerzt með sendi­herra ESB hér á landi, Timo Summa, finnskan mann, sem varð þá fljótt að víkja, eftir snarpa gagnrýni Tómasar Inga Olrich, fv. ráðherra og sendi­herra, á framferði hans.*)

Í lögum um aðild Íslands að alþjóða­samningi um stjórn­mála­samband nr.16/1971 -- https://www.althingi.is/lagas/nuna/1971016.html -- segir í 41. gr., 1.tölulið, og takið sérstaklega eftir seinni setningunni, feit­letraðri hér: "Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttöku­ríkisins, en þó þannig að forrétt­indi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innan­lands­málum þess ríkis."
 
En þetta hefur sendiherra þessi gert, að skipta sér af innan­lands­málum Íslands, þ.e. með hlut­drægri umræðu á Visir.is í þögg­unar­átt um laga­frumvarp, sem boðað er að komi fyrir Alþingi í febrúar -- um málefni sem okkur varðar í raun ekkert um og við, sem smátt ríki, værum í afar veikri aðstöðu til að verjast skuld­bind­ingum slíkrar löggjafar og afsali yfirráða okkar yfir íslenzkum orkuverum, dreifingu raforku, verðlagningu raforku, æðstu stjórn þeirra mála (sem færi til Lands­reglarans á vegum ACER og dómsvaldið úr landi).
 
Þetta mál varðar sjálft fullveldi Íslands og er alls ekki vettvangur fyrir afskipti sendiherra erlendra ríkja. Það er okkar mál að fjalla um lagafrumvörp hér, ekki sendifulltrúa annarra ríkja sem eiga þar annarlegra hagsmuna að gæta!
 
Sendiherrann á að biðjast afsökunar á lagabroti sínu og hverfa við svo búið heim á leið og má þakka fyrir, ef hann þarf ekki að sæta vítum gistilandsins.
 
Sendiherrann skaut sig raunar illilega í fótinn strax með þessum afskiptum, því að almennt mætti hann harkalegum viðbrögðum lesenda á umræðuslóð Vísis.is!
 
VIÐAUKI. Morgunblaðið er komið út, með frakkri áróðursgrein sama sendiherra, Michaels Mann!
Hann gerir það ekki endasleppt með atlögu sína að íslenzku fullveldi og skrautmæli sín um Þriðja orkupakkann! Þarna lýgur hann m.a. um "að enginn í Brussel er að velta þessu fyrir sér" með sæstreng til Íslans, í tengslum við orkupakkann. En sá sæstrengur er þó þegar kominn inn í ESB-skjöl og áætlanir frá fyrra ári! Öll er þessi grein hans viðleitni til að gera sem minnst úr hættulegum áhrifum 3. orkupakkans og þeim skuldbindingum sem í honum felast. Og hér liggur mikið við (og mikið lagt í greinina, ekki af þessum karli einum, heldur hálaunuðum áróðursþjónum stórveldis), annars væri ekki af stað farið með þessa gagnsókn gegn sérfræðingum íslenzkum og norskum sem hafa greint og gagnrýnt þetta flókna lagavirki, en sendiherrann, þvert gegn skyldum sínum, sem nefndar voru hér ofar, lætur sér sæma að gera lítið úr þeim sérfræðingum og talar niður til þeirra sem "hræðsluáróðursmeistara"!
 
En Íslendingar eru hættir að trúa hvaða fagurgala sem er frá Brussel-valdinu, við höfum nú þegar upplifað fjandsamleg viðbrögð og árásir ESB í Icesave-málinu (frá fyrsta degi til hins síðasta í því máli, á 5. ár, 2008-2013) og í makrílmálinu, þegar ESB ætlaði okkur að fá aðeins örfá prósent fiskveiðikvóta í NA-Atlantshafi (sem ESB hafði þó engin yfirráð yfir!) og gagnvart Færeyingum í sama máli (löndunarbann ESB á þá) og með því að svipta sjómenn og sauðfjárbændur verulegum útflutn­ings­tekjum vegna Rússlands­markaðar (á sama tíma og aðal­stjórn­endur ESB í Berlín standa í risa­vöxnum kaupum af Rússum á jarðgasi!). Og af hverju heldur þessi brezkfæddi sendiherra ESB, að ein mesta jarðýtan fyrir ESB-tengslum Íslands, Jón Baldvin Hannibalssn, vari mjög alvarlega við Þriðja orku­pakkanum? Hann ætti að hlusta á þýðingu á því viðtali við JBH (Ísland á ekkert erindi við orku­markað Evrópu er yfirskrift þess), þar sem ennfremur kemur fram, hve hart suðlæg­ari þjóð­irnar þar eru leiknar af Þjóðverjum í Evrópu­samband­inu (þýzkum bönkum og Merkel-stjórninni). Og burt með þennan lögbrjót frá Íslandi!
 
* Sjá hér: Lögleysu-athæfi sendiherra (8. maí 2012). Sbr. ennfremur um ummæli yf­ir­manns sendi­nefnd­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi, Matt­hi­asar Brinkmann: Þessum sendiherra er ekki stætt á að vera hér áfram ... (27.11.2015)
 
Jón Valur Jensson. Höf. er formaður Samtaka um rannsóknir á Evrópu­sambandinu og tengslum þess við Ísland.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

GÓÐIR  ERU  STAKSTEINAR  Í  DAG :

 

"Hroki sendiherra ESB á Íslandi

Föstudagur, 16. nóvember 2018

Fjórir af hverjum fimm landsmönnum eru á móti því að frekara vald yfir orkumálum hér á landi verði fært til stofnana Evrópusambandsins. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að mikil og yfirleitt neikvæð umræða hefur farið fram um þriðja orkupakka ESB. Efasemdir Íslendinga til aukinnar ásælni ESB hér á landi, ekki síst þegar kemur að náttúruauðlindum eins og orku og sjávarfangi, eru einfaldlega miklar.

 

Í þessu sambandi var umhugsunarvert að lesa grein Michaels Manns, sendiherra ESB hér á landi, um þriðja orkupakkann. Sú grein sýnir vel yfirlætið og hrokann sem yfirþjóðlegar stofnanir með ósnertanlega embættismenn geta sýnt almenningi og heilum ríkjum.

 

Sendiherrann skrifaði til að "leiðrétta ýkjurnar og slá á múgæsinginn". Hann talar um "hræðsluáróðu" garðyrkjubænda, sem óttast sinn hag undir hæl ESB.

Sendiherrann segir að í Brussel sé enginn að velta fyrir sér sæstreng til Íslands og þar séu menn ekki meðvitaðir um umræður um hann. Honum finnst bersýnilega hlægilegt að svo léttvægt mál smáríkisins trufli stórmennin í Brussel.

Sendiherrann talar líka um "hræðsluáróðursmeistara" og "skáldskap samsæriskenningarmanna".

Er nokkur furða að Íslendingar vilji halda sig fjarri sambandi hinna hrokafullu embættismanna?"

  

Jón Valur Jensson, 16.11.2018 kl. 07:55

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Í grein sendiherrans má ætla að það sé alger óþarfi af ESB að krefja okkur um upptöku þessa orkupakka, hann muni hvort sem er ekki hafa neitt að segja hér.  Hver er þá tilgangurinn????  Ef hin EFTA ríkin vilja endilega vera með í pakkanum mega þau það okkar vegna, það er þá bara þeirra mál, en af hverju að hengja okkur við pakkann ef hann hefur ekkert að segja fyrir okkur????? Þessi málflutningur sendiherrans er ótrúverðugur.

Tómas Ibsen Halldórsson, 16.11.2018 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband